Færsluflokkur: Mannréttindi
14.11.2011 | 15:21
Hermaðurinn Breivik
Hvað á að gera við menn eins Breivik? Gerir einhver heilbrigður maður svona lagað? Helst væri best að afgreiða hann og alla aðra sem gera eitthvað álíka sem kolbrjálaða morðingja.
En um leið og við gerum það eru þeir ekki sakhæfir. Er hægt áfella fólk fyrir að vera sjúkt? Enda komust yfirvöld í Noregi að því að maðurinn er ekki sjúkur á geði og því sakhæfur.
Það þarf sem sagt ekki endilega að vera sjúkur til að fremja ódæði á borð við það sem Breivik framdi.
Fyrir því má færa margvísleg rök og taka óteljandi dæmi. T.d. horfir heimurinn daglega upp á skiplögð fjöldamorð á saklausum borgurum víða um heiminn, án þess að nokkuð sé fundið athugavert við þau, hvað þá eitthvað aðhafst til að stöðva þau. - Ef að Breivik væri fundinn geðveikur á grundvelli verka sinna, væri óhætt að yfirfæra það á stóran hluta ráðamanna heimsins sem ekki hika við að láta drepa saklaust fólk í leit sinni að betri heimi.
Tvískinnungurinn sem viðgengst í heiminum gagnvart því hvað eru lögleg morð á saklausum borgurum og hvað ekki, er augljós. - Hermenn mega drepa, ekki aðrir. En hverjir eru hermenn og hverjir ekki.
Hluti af hátterni Breivik í réttinum skýrist af hversu gegnsýrður hann er að þessum tvískinnungi. "Ég er riddari og yfirmaður í hinni norsku andspyrnuhreyfingu" segir hann og reynir um leið að varpa yfir sig og gjörðir sínar skikkju lögmætis, þ.e. sömu skikkju og liðsmenn svo kallaðra "frelsishreyfinga" brúka til að réttlæta voðaverk sín.
Miðað við hversu ógeðfeld þessi rök eru ná þau alveg tilætluðum árangri. Þegar nánar er athugað er skikkja þessi ofin úr sama þræði og öll önnur rök fyrir hernaði og mandrápum. - Það verður að drepa fólk til að fleira fólk verði ekki drepið eða hneppt í ánauð og við það að drepa annað fólk deyja einhverjir saklausir.
Breivik brosti í réttarsalnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.11.2011 | 22:47
10 ára móðir
10 ára stúlka frá borginni Buebla í Mexíkó hefur eignaðist barn eftir 31 vikna meðgöngu.
Ljóst var að lífi litlu stúlkunnar var ógnað og því var drengbarnið tekið með keisaraskurði á kvennasjúkrahúsi í Buebla, tæpa 100 km. frá Mexíkóborg,
þar hefur stúlkan verið undir eftirliti frá því 20. október. -
Ófullburða barnið er í gjörgæslu eftir að hafa fengið snert af lungnabólgu en læknar segja að móðurinn hafi það á brjósti og það sé við góða heilsu að öðru leiti.
Yfirvöld rannsaka nú hvort stúlkunni hafi verið nauðgað en lög í Mexíkó banna fóstureyðingar nema hægt sé að sanna að þungunin sé af völdum nauðgunar.
Löglegur aldur til samræðis í Mexíkó er 12 ár en stúlkur sem fá fóstureyðingu standa andspænis sektum eða fangelsisdómi sannist ekki að um nauðgun hafi verið að ræða.
Hvað varðar barnungar mæður í Mexíkó er þetta ekki fyrsta tilfellið. Í ágúst mánuði 2010 eignaðist 11 ára stúlka sem aðeins er þekkt undir nafninu Amelía, barn sem kom undir þegar hún var aðeins 10 ára. Henni hafði verið nauðgað.
Mannréttindi | Breytt 12.11.2011 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2011 | 21:04
Draumsóleyjarnar og enska landsliðið
Bretar gera mikið þessa dagana úr minningardeginum um fallna hermenn sem haldin er 11. nóvember hvert ár. Sagan segir að "á elleftu stundu, ellefta dags, ellefta mánaðar, ársins 1918", hafi verið samið um vopnahlé milli stríðandi fylkinga í heimsstyrjöldinni fyrri.
Dagurinn sjálfur er haldinn hátíðlegur með öllu því brölti sem herveldi á borð við Breta getur boðið upp á en mest ber á hinum eldrauðu pappírs-draumsóleyjum sem allir bera í barminum. Ekki sést kjaftur í sjónvarpinu vikur fyrir og vikum eftir daginn, sem þorir að láta sjá sig án þessa barmmerkis sem selt er af uppgjafa hermönnum landsins á hverju götuhorni.
Á laugardaginn leikur enska landsliðið í knattspyrnu gegn Spánverjum. Þeir fóru fram á við FIFA að fá að leika með draumsóleyjar bróderaðar á brjóst búninga sinna. FIFA neitaði og bar fyrir sig að slíkt væri ekki gott fordæmi og tefldi óhlutdrægni keppninnar í hættu. Englendingar gáfu sig ekki og báðu enn um undanþágu. FIFA neitaði aftur á sömu forsendum. -
Þess ber einnig að gæta að enskir landsleikir hafa oft áður verið leiknir beggja megin við minningardaginn en aldrei áður hefur verið gerð krafa um að leikmenn beri draumsóleyna á búningi sínum.
Þá var kominn tími fyrir England að draga fram stóru kanónurnar. Forsætisráðherrann froðufeldi af vanþóknun í þinginu og ritaði Sepp Blatter forseta FIFA harðort bréf og krafðist þess að liðið fengi að bera blómið sem hluta af búningi sínum. - William prins sem er heiðursforseti enska knattspyrnusambandsins lagðist líka á árina og ritaði Blatter einnig bréf sama efnis. -
Þessi pressa hafði áhrif og enska landsliðinu var leyft að bera draumsóleyjar bróderaðar á svart sorgarband sem þeir hugðust einnig bera á upphandlegg. - Þetta á einnig við um lið þeirra undir 21.árs, sem keppir við lið Íslands í kvöld.
Heimsstyrjöldin síðari átti að vera "stríðið sem endaði öll stríð". Þrátt fyrir vopnahléið sem Bretar og samveldisþjóðir þeirra halda hátíðlegt, hélt stríðið áfram og leiddi síðan af sér enn fleiri stríð í Evrópu. Þegar stríðinu lauk, voru gerðir við Þjóðverja miklir nauðungarsamningar sem fólu í sér eftirgjöf á stórum landsvæðum, þrátt fyrir að þeir höfðu ekki tapað feti af eigin landi í sjálfu stríðinu. - Uppgjöfin og hinir svo kallaðir Versalasamningar sem fylgdu í kjölfarið voru af mörgum Þjóðverjum álitnir mikil svik við þýsku þjóðina. Þeirra á meðal var tví-heiðraður sendiboði fyrir fótgönguliðið, sem þá lá á sjúkrahúsi með tímabundna blindu þegar samningarnir voru gerðir og hét Adolf Hitler.
Pappa-draumeyjasólirnar sem styrinn stóð um og tengsl þeirra við minningardaginn, má rekja til ljóðsins"In Flanders Fields" eftir kanadíska herlækninn John McCrae sem samdi það árið 1915.
Um þessar mundir eru Bretar flæktir í afar óvinsælar og umdeildar hernaðaraðgerðir. Hermenn þeirra koma vikulega heim í líkpokum og stöðugt er haldið að almenningi í gegnum fjölmiðla að þeir hafi dáið fyrir frelsi og öryggi breskra þegna. Að sama skapi og óvinsældir stríðsbröltsins aukast, hafa stjórnvöld lagt áherslu á að almenningur sýni stuðning við hermennina sem berjast í stríðunum, jafnvel þótt hann styðji ekki stefnu stjórnvalda. Þannig eru forsendur kröfu þeirra ensku ljósar.
Þótt FIFA hafi gefið eftir að þessu sinni standast rök þeirra að fullu fyrir að hafna slíkum merkingarhlöðnum og pólitískum táknum á búninga í landskeppnum. Fordæmið er hættulegt en vonandi dregur það ekki dilk á eftir sér.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2011 | 14:56
Á að banna einelti með lögum
Allir þekkja það. Margir hafa tekið þátt í einhverju formi þess, stundum af óvitaskap og stundum af illkvittni. Afleiðingar þess eru hræðilegar og hafa áhrif á þolandann alla ævi.
Ég þekki einstaklinga sem lagðir voru í einelti í skóla á uppvaxtarárunum og sem aldrei hafa borið sitt barr. Þeir eru brennimerktir á sálinni.
Sumir vilja ekki einu sinni tala um það. Þeir skammast sín fyrir það, rétt eins og að glæpurinn hafi verið þeirra. - Þeir vilja ekki heyra til sama hópi og "undirmálsfólkið", "fitubollurnar", "bæjarvillingarnir" og "hreppskassa liðið" tilheyrði.
Þeir sem urðu verst úti þegar ég var að alast upp, gáfust upp fljótlega eftir að þeir komust á unglingsárin, földu sig, fluttu í burtu eða jafnvel, styttu sér aldur. - Það voru þeir sem ekki gátu auðveldlega breytt eða falið vaxtarlag sitt, uppruna, háralit, kæki, lykt, smæð og/eða stærð.
Einelti meðal fullorðinna er í flestum tilfellum framlenging á vandmálinu. Þeir sem stunda einelti hafa oftast orðið fyrir því sjálfir. Stór þáttur í að uppræta einelti almennt er því að uppræta það í skólum og á heimilum landsmanna.
Einelti í sinni verstu mynd er vissulega glæpur og ætti að banna með lögum, rétt eins og t.d. er gert í Skotlandi. Spurningin er bara um að skilgreina það nógu skynsamlega til að venjuleg stríðni, sem oft er hluti af gamansemi, verði ekki gerð ólögleg um leið.
Á að vera stanslaust í umræðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2011 | 20:07
Sjónhverfingameistarinn
Guðrún Ebba er ekki að segja satt um að hún hafi verið gróflega misnotuð af föður sínum Ólafi Skúlasyni biskup, segja móðir hennar og systkini. - Guðrún Ebba hefur ekki fram að þessu sótt neinn stuðning til fjölskyldu sinnar og reyndar sagt sig ekki tilheyra henni lengur. Þarna kemur ástæðan. Fjölskyldan trúir henni ekki ekki frekar en kirkjunnar þjónar trúðu í raun þeim ávirðingum sem komu fram á hendur Ólafi áður en Guðrún Ebba leysti frá skjóðunni. -
Fjölskylda Guðrúnar álítur að "duldar minningar" hennar séu brenglaðar og ekki sannleikanum samkvæmar. Hún vill láta rannsaka Guðrúnu og minningar hennar faglega. Það þýðir að hún vill að Guðrún Ebba leiti sér aðstoðar geðlækna og eða sálfræðinga.
Þessi skjaldborg sem slegin er um Ólaf biskup er óskiljanleg. Það er eins og margt af hans samferðafólki sé í stöðugri afneitun á hvað hann gerði og hvað hann var. - ´Mikill sjónhverfingameistari hefur Ólafur annars verið. Honum tókst það sem fáum hefur tekist, að plata allt fólkið alltaf.
Segja lýsingar rangar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2011 | 23:47
Má skapa jafnræði kynjanna?
"Mest jafnrétti á Íslandi"! - Það fer oftast um mann aulahrollur þegar efsta stig orða er notað í samhengi við Ísland, ekki hvað síst í fyrirsögnum fjölmiðla. Að eitthvað sé mest, best eða stærst á Íslandi er eitthvað svo 2007. Engu líkara er en að fyrirsaganasmiðirnir á Mbl.is séu dálítið fastir í hugarfarinu sem þá ríkti. Að auki er augljóst að á meðan misrétti ríkir er jafnrétti ekki til. Fyrirsögn þessarar fréttar er því villandi. En þá að megin efninu.
Alþjóðaefnahagsráðið heldur því fram að á vissum sviðum sé misréttið sem konur eru beittar í heiminum, minnst hér á landi. Í efnahagslegu tilliti, gagnvart konum, standi Íslendingar sig ágætlega því "fæðingarorlof, rausnarlegar fæðingarorlofsgreiðslur sem almannatryggingar og atvinnurekendur standi undir og skattaívilnanir" stuðli að minna misrétti en annarsstaðar viðgengst í heiminum. Þá er til þess tekið að hvað varðar menntun og heilbrigði standi konu hér á landi "nærri jafnfætis" körlum.
Það er ánægjulegt að jafn réttur kynjanna á grundvelli laga sé tryggður á Íslandi, en það merkir ekki að á meðal þeirra ríki jafnræði, hvað þá alger jöfnuður.
Jafnræði er ástand sem lagaumhverfi hjálpar til að móta, en grundvallast fyrst og fremst á afstöðu einstaklinga til lífsins og þeirra gilda sem þeir hafa tileinkað sér. - Nauðsynlegt er að þau gildi feli sér þann skilning að líffræðilegur munur kynjanna hafi ekkert með stöðu þeirra, rétt og skyldur að gera. Hin svokölluðu kynlægu sjónarmið eru áhersluatriði, ekki algild grundvallarsannindi.
Þá ber þess að gæta að samráð nauðsynleg forsenda jafnræðis á öllum stigum samfélagsins. Án þess verður jafnræði aldrei að veruleika og jafnréttinu sjálfu er stöðugt ógnað. -
Fæstir átta sig á hversu áhrifamikið þetta tiltölulega einfalda hjálpartæki er í mannlegum samskiptum. - Margir misskilja orðið einnig og halda að samráð sé eingöngu fólgið í að upplýsa aðra um ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar. - Svo er ekki.
Samráð er ferill sem bæði fjölskyldur, fyrirtæki, stofnanir og félög geta nýtt sér við ákvarðanatöku og felur í sér eftirtalin atriði:
Upplýsingum um viðfangsefnið skal safna eins víða og framast er unnt og leita eftir ólíkum sjónarmiðum. Þetta getur falið í sér að leita álits sérfræðinga - svo sem lögfræðinga, lækna eða vísindamanna. En líka getur þetta þýtt að leitað sé upplýsinga utan hefðbundinna sérgreina, eða að reynt sé að gaumgæfa skoðanir einstaklinga í samfélaginu sem eiga sér ólíkan bakgrunn. Mikilvægt er að málsaðilar samþykki að allar fáanlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið.
Meðan á umræðum stendur, verða þátttakendur að leitast við að vera eins opinskáir og hreinskilnir og mögulegt er, en sýna samtímis fullan áhuga á skoðunum annarra. Persónulegar árásir, úrslitakostir eða fordómafullar staðhæfingar skal forðast.
Þegar hugmynd er fram komin,verður hún með það sama eign hópsins. Þó að þessi staðhæfing virðist einföld, þá er þetta þó ef til vill djúptækasta regla samráðs, því að með þessari reglu hætta allar hugmyndir að vera eign einstaklings, hóps eða stuðningsflokks. Þegar þessari reglu er fylgt, eru þær hugmyndir, sem fram koma, af einlægri löngun til að þjóna í mótsögn við hugmyndir sem fram eru bornar af persónulegri metorðagirnd eða flokkadráttum.
Hópurinn leitar eftir samhljóða samþykki, en hægt er að taka meiri hluta ákvörðun til þess að fá fram niðurstöðu og taka ákvörðun. Mikilvægt viðhorf til þessarar grunnreglu er sá skilningur að þegar ákvörðun hefur verið tekin, þá er öllum í hópnum skylt að standa í einingu um þá ákvörðun - án tillits til hverjir studdu hana.
Mest jafnrétti á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2011 | 00:06
Sturlaðir herramenn
Hermenn eru þjálfaðir til að drepa annað fólk. Það er atvinna þeirra og tilgangur. Bestu hermennirnir eru þeir sem geta drepið að boði yfirmanna sinna, án hiks eða vamms. Góðir hermenn þurfa að vera góðir manndráparar, hlýðnir og tryggir yfirboðurum sínum.
En svo eiga þeir líka að vera siðprúðir, vammlausir og heilsteyptir einstaklingar, kurteisir og hjálpsamir, áreiðanlegir og snyrtilegir og hafa tileinkað sér allt það sem best má prýða skapgerð ungra manna, auk þess að vera dráparar.
Þegar að hermenn gera árás á óvini sína vita þeir að almennir borgarar deyja. Í flestum styrjöldum deyja fleiri óbreyttir borgarar en hermenn. - Að drepa óbreytta borgara er því hluti af hernaði og dagsverkum hermanna.
Fall óbreyttra borgara í stríði er kallað "hliðarverkandi skaði" á hermannamáli. Það er gert ráð fyrir því í öllum hernaðaráætlunum. Þegar árásirnar á Hírosíma og Nagasaki voru gerðar, voru t.d. skotmörkin óbreyttir borgarar.
Af og til taka bandarísk stórnvöld sig samt til og rétta yfir hermönnum sínum fyrir að drepa óbreytta borgara. Þeir læsa þá inni í herfangelsum sínum eftir að hafa þjálfað þá til að drepa og sigað þeim fram á vígvellina sem oftar en ekki eru hýbýli hinna almennu borgara. Fyrir sitt leiti finnst hermönnunum þeir aðeins vera að vinna vinnuna sína. -
Yfirmenn hermála halda að með þessu sanni þeir, að þeir sjálfir og "sakborningarnir"séu enn mennskir
Í sturluðum hugarheimi sínum ímynda þeir sér að reglur mannlegs samfélags nái til hegðunar þeirra og verk þeirra dæmist eftir einhverjum sammannlegum mælikvörðum.
Hvílík blekking! Hvílík sturlun!
Safnaði fingrum af líkum sem sigurtákni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2011 | 01:45
Mótmæli og hugarfarsbreyting
Víða um heim hafast mótmælendur við í tjaldbúðum fyrir utan þinghús og ráðuneyti. Reykjavík bætist nú á lista annarra borga eins og London og New York þar sem mótmælin hafa staðið í vikur og mánuði. Mótmælin beinast einkum gegn stjórnmálamönnum og auðmönnum og þeirri misskiptingu veraldlegra gæða sem landið...og reyndar heimurinn allur býr við. -
Þessi misskipting hefur lengi verið við líði en hefur aukist verulega síðustu misseri í kjölfar hins svokallað "efnahagslega hruns" þar sem mikil raunveruleg verðmæti í eigu almennings voru færð af stjórnmálmönnum í hendur auðmanna, sem kröfðust bóta fyrir að hafa tapað bókfærðum auði þegar loftbóla þeirrq sprakk, auði sem raunverulega var aldrei til. -
Og þrátt fyrir fögur fyrirheit þeirra sem tóku við ráðsmennsku þjóðarbúsins eftir "hrun" um að láta auðhyggjusjónarmiðin víkja fyrir mannlegum gildum, halda þeir áfram að leyfa vogunarsjóðum og auðmönnum að mergsjúga skuldsettan almenning. Auðmenn og brasksjóðir keyptu kröfur gömlu bankanna á 5% af andvirði þeirra rétt eins og okurlánarar gera, en innheimta höfuðstólinn með vöxtum af fullri hörku.
En það er eitt að mótmæla og benda á það sem miður hefur farið og annað að setja fram raunhæfar og haldgóðar lausnir. Mótmælendur eru nokkuð slyngir við hið fyrra, en arfa slakir við hið síðara, enda erfitt að sjá hvernig sá sem staðsettur er í miðjum umferðarhnút getur beitt sér til að leysa hann, öðruvísi en að bíða þolinmóður og vonast eftir að eitthvað þoki fremst í lestinni. - En einmitt þannig líður almenningi, eins og að vera staddur í umferðarhnút, vitandi að hann eru hluti af vandamálinu, en getur ekkert aðhafst til að leysa hann annað enn að liggja á flautunni.
Sýn mótmælenda á hver vandinn er, er nokkuð samræmd frá landi til lands, en lausnirnar ekki, enda litið á þær minnst. Flestum veitist einnig erfitt að orða hugmyndir sínar um lausnir því þær taka ekki til hefðbundinna aðferða stjórnmálamanna sem eru að beygja vilja þeirra sem ekki eru þeim sammála, undir sinn vilja, í krafti embætta og fjármagns. Valdníðsla er daglegt brauð í pólitík og óumflyjanlegur hluti hennar eins og hún er stunduð á Íslandi og víðast hvar í heiminum.
Mótmælendur vita að þær aðferðir duga ekki lengur, enda útkoman úr þeim ætíð sú sama. Þeir ríkari verða ríkari og þeir fátækari fátækari.
Í þeim mótmælum sem eitthvað hefur kveðið að hér á landi, hefur krafan yfirleitt verið að ríkjandi stjórnvöld láti af stjórn. - Í dag er staðan þannig að flestir álíta að það dugi ekki lengur að skipta um ríkisstjórn enda sé ekkert betra til sem tekið getur við stjórnvölnum, víki sú sem nú ríkir.
Krafa mótmælenda í þetta sinn er talsvert róttækri og felur í sér hugarfarsbreytingu, miklu frekar en uppstokkun á þingsætum eða ráðherrastólum. - Hluti af hugarfarsbreytingunni er upptaka gilda sem eru æðri auðhyggjunni og þeirra á meðal er réttur hvers mannsbarns til að hafa tækifæri til að lifa hamingusömu lifi. Hugarfarsbreytingunni verður að fylgja viðurkenning á þeirri staðreynd að peningar einir geta ekki fært þeim eða öðru fólki hamingju...aldrei, heldur aðeins óhamingju. Allir verða einnig m.a. að viðurkenna þá góðu grundvallarreglu að nútíma þrælahald stundað af bönkum og auðhringjum verði að afnema og Þeir verði að gefa almenningi frelsi með því að afskrifa skuldir þeirra, hætta sömuleiðis töku okurvaxta.
Tjaldbúar á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2011 | 16:05
Er blóð-koltan í þínum farsíma?
Mannskæðasta styrjöldin síðan að heimstyrjöldinni síðari lauk er seinni borgarastyrjöldin í Alþýðulýðveldinu Kongó eða Austur-Kongó. (Ruglist ekki saman við nágrannaríkið Lýðveldið Kongó)
Í þessu stríðshrjáðasta landi veraldar þar sem íbúafjöldi er yfir 70 milljónir, er talið að yfir fimm milljónir manna og kvenna hafi látið lífið í stríðinu sem hófst 1998 og stundum er kallað Koltan stríðið.
Þá er einnig álitið að meira en 300.000 konum hafi verið nauðgað af stríðandi fylkingum landsins í þessum átökum. - Engar nákvæmar tölur eru til yfir alla þá sem látist hafa af völdum hungurs og sjúkdóma sem stríðið olli í landinu.
Þrátt fyrir að styrjöldinni hafi verið formlega lokið 2003 halda erjurnar áfram fram á okkar dag. Bitbeinið er eins og áður, yfirráð yfir auðugum kassiterít, wolframít og koltan námum, en þetta eru efni sem mikið eru notuð við framleiðslu farsíma, fartölva og MP3 spilara.
Í dag eru flestar námurnar undir löglega kjörinni stjórn landsins.
En hvernig fjármagna stríðsherrarnir sem enn eru að, stríðsrekstur sinn? - Meðal annars með sölu á koltani sem unnið er úr jörðu í myrkviðum frumskógarins í Kongó. - Í "koltan-námum" þessum vinna einkum ungir drengir við skelfilegar aðstæður. Hitinn nær tíðum yfir 45 gráður niðrí holunum. Oft falla holunar saman og námudrengirnir farast. Þeir hætta lífi og limum daglega fyrir smáræði.
Koltan er iðnaðarheiti en efnið er notað til framleiðslu tantalum sem aftur gerir framleiðslu á afar hitaþolnum örrásum og örgjörfum mögulega. Stríðsherrarnir sem reka námurnar senda það oftast flugleiðis til Góma og þaðan er það sent landleiðina til Úganda og síðan til Mombasa í Kenía. Þar er efnið brætt saman við koltan sem kemur víðs vegar að úr heiminum, Þannig er ekki hægt að greina á milli blóð-koltans og þess sem er löglega unnið.
Til þess er tekið í umræðunni um blóð-koltan að rétt um 1-10% af tantalum sem notað er til iðnaðar í heiminum komi frá Afríku.
Samt treysta stærstu farsíma-framleiðendur heimsins eins og NOKIA, sér ekki til að fullyrða að framleiðsla þeirra sé laus við blóð-koltan. -
Kosnaðurinn við að hringja úr farsíma er því enn ekki talinn í krónum einum.
8.10.2011 | 19:47
Upplýsingaskömmtun í anda Kína
Þetta er Bretum líkt. Að banna auglýsingu sem kemur illa við kaunið á breskum og bandarískum stjórnvöldum og bendir á skammarlega frammistöðu þeirra í Afríkulöndum þar sem milljónir svelta heilu hungri þessa dagana. Að bera því fyrir sig að auglýsing Bono og félaga sé of pólitísk er fáránlegt. Það er aðeins verið að tryggja að sjónarmið stjórnvalda ein heyrist.
Fáu efni er helgaður jafn mikill tími og pólitík í ríkissjóvarpinu þeirra BBC. Þeir sjónvarpa að sjálfsögðu frá þingfundum, báðum deildum. Að auki senda þeir út frá þingunum í Skotlandi og Welsh. Sjónvarpað er daglangt frá landsfundum stóru flokkanna þriggja, pólitískir umræðuþættir eru fjölmargir, auk þess sem fréttatímar gera auðvitað stjórnmálum góð skil. - Megnið af þessu er flokkspólitískt þus um innanríkismál.
Þegar sagt er frá hernaðarbrölti þeirra í Afganistan eru það yfirleitt lof yfirmanna hersins um látna drengi sem þeir eru að senda heim í líkkistum eða myndir af hermönnum á hlaupum milli húsarústa í Helmut héraði. - Umræður um styrjaldir Breta, í Afganistan, Í Líbýu eða Írak eru fáar nú orðið.
Sveltandi börn í Afríku, fá heldur ekki mikla umræðu á sjónvarpsstöðvum BBC. - Þegar að fjárlagatölur um aðstoð Breta við þróunarríkin voru gerða kunnar fyrir fáeinum vikum fór mesta púðrið í að ræða hvort Bretar ætluðu virkilega að senda peninga til lands sem hefði sína eigin geimferðaáætlun. -
Hungurauglýsing Bonos bönnuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)