Færsluflokkur: Lífstíll

Aðvörun

Þegar ég verð gömul kona mun ég klæðast fjólubláu
við rauðan hatt sem ekki passar og fer mér ekki.
Og ég mun eyða lífeyrinum í koníak og sumarhanska.
Og satín sandala og segja að engir peningar séu til fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast niður á gangstéttina þegar ég er þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja viðvörunarbjöllum
og renna prikinu mínu eftir grindverkinu
og bæta mér upp hversu stillt ég var í æsku.
Ég ætla út í rigninguna á inniskónum
og tína blóm úr görðum annars fólks
og læra að hrækja.

Þú getur klætt þig í hræðileg pils og fitnað meira
og þú getur borðað þrjú pund af pylsum í einu
eða bara brauð og súra gúrku í viku
og safnað pennum og blýöntum, glasamottum og hlutum í boxum. 

En núna verðum við að klæðast fatnaði sem heldur okkur þurrum
og borga leiguna og ekki bölva úti á götu
og setja börnunum gott fordæmi.
Við verðum að bjóða vinafólki í mat og lesa blöð.

En kannski ætti ég að æva mig dálítið núna?
Svo fólk sem þekkir mig sjokkerist ekki og undrist
Þegar ég allt í einu verð gömul og byrja að klæðast fjólubláu.


Jenny Joseph

jenny_josephJenny Joseph (f. 1932) er ensk skáldkona. Ljóðið hennar "Aðvörun" sem ég tók mér það bessaleyfi að snúa á íslensku og birta hér að ofan, (ekki af tilefnislausu) var árið 1996 kosið vinsælasta ljóðið sem samið hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina í Bretlandi. Fyrir kosningunni stóð BBC.

Ljóðið hefur haft mikil áhrif á konur um allan heim og í Bandaríkjunum var t.d. stofnaður Rauðhatta-klúbbur kvenna sem koma saman til að drekka te í fjólubláum kjólum og með rauða hatta.  

Hugmyndin að Rauðhattaklúbbnum kviknaði þegar Sue Ellen las ljóðið „Warning" eftir Jenny Joseph sem segir frá eldri konu sem klæðist fjólubláum fötum og ber rauðan hatt. Ljóðið hreif Sue Ellen svo að hún ákvað að gefa vinkonu sinni ljóðið ásamt rauðum hatti í afmælisgjöf. Vinkonan varð einnig svo hrifin að hún gaf fleirum sömu gjöf og svona hélt þetta áfram. Einn daginn ákveður þessi hópur að hittast í fullum skrúða, það er að segja í fjólubláum fötum sem passa alls ekki við rauða hattinn og það varð ekki aftur snúið. Rauðhattaklúbburinn varð til. 

Sue Ellen Cooper stofnaði Rauðhattaklúbbinn árið 1998 og í dag eru Rauðhettir í Bandaríkjunum og Kanada að nálgast hálfa milljón og klúbburinn er byrjaður að skjóta rótum í Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.


Hefur ekki baðað sig í 35 ár

Kailash_Kalau_SinghHann heitir  Kailash ‘Kalau’ Singh og er frá litlu þorpi skammt frá hinni "helgu borg" Varanasi á Indlandi. Hann er 63. ára og faðir sjö dætra. Hann hefur ekki þvegið sér eða baðað sig í 35 ár vegna þess að honum langar til að eignast son. (Af þessari nýlegu mynd að dæma er hér kannski komin góð aðferð til að halda sér ungum. Singh lítur ekki út eins og 63 ára gamall maður)

Madhusudan, einn af nágrönnum Singh, segir að sjáandi nokkur hafi mælt svo fyrir um að ef Singh baðaði sig ekki, mundi honum auðnast að geta sveinbarn með konu sinni.

younggirlsMargir Indverjar óttast um afkomu sína ef þeir eignast ekki syni til að sjá fyrir þeim í ellinni. Greiða verður heimamund með stúlkum þegar þær giftast og allt sem þær vinna sér inn, rennur til fjölskyldu bónda þeirra. Stúlkubörn eru því álitin byrði frekar en blessun.

Í 35 ár hefur herra Singh ekki baðað sig, en þrátt fyrir þessa einlægu viðleitni hefur hún ekki borið árangur. Herra Singh á enn engan son.

Óhreinlætið hefur verið honum dýrkeypt. Fyrrum átti hann matvöruverslun en fór á hausinn með hana þegar kúnnarnir hættu að koma vegna þess hversu illa hann lyktaði. Í dag vinnur hann sem daglaunamaður á ökrunum í kringum þorpið þar sem hann býr. Fjölskylda hans hefur líka útskúfað honum fyrir að vilja ekki undirgangast hefðbundin böð í ánni Ganges, jafnvel ekki eftir dauða bróður hans fyrir fimm árum.

Þótt nágranni Singh segi að svona sé sagan, segist hann sjálfur ekki muna hvernig óhreinlætiseiðurinn er til kominn. Stundum segist hann gera þetta í þágu þjóðarinnar. "Ég mun enda eið minn þegar öll vandmál þjóðarinnar hafa verið leyst" er haft eftir herra Singh.

2749296559_f386b365c3Þótt Singh neiti að baða sig upp úr vatni eða þvo sér, iðkar hann eldböð. Eldbað fer þannig fram að hann stendur á einum fæti nálægt litlum eldkesti, reykir maríjúana og fer með bænir til drottins Shiva. Hann segir að eldsböð séu alveg jafn góð og vatnsböð því eldurinn drepi allar bakteríur og veirur.

Herra Singh þrífur að sjálfsögðu heldur ekki tennur sínar.

Miðað við ástandið á honum er í sjálfu sér ekki undravert að hann hafi ekki eignast sveinbarn. Það sem er undravert er að hann hafi yfirleitt getið af sér börn.


Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?

1316901660_9e65407e9bHversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.

Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.

article-1183868-04FAF579000005DC-958_196x661article-1183868-04FAF8F2000005DC-95_196x661article-1183868-04FAF8FA000005DC-891_196x661Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu  sem er ungt.

Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim."  - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.

Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir  til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.

article-1183868-04FAF929000005DC-425_196x653article-1183868-04FAF91E000005DC-107_196x653article-1183868-04FAF943000005DC-996_196x653Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.

Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn.  Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"

Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.

Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar. 


Lögmál Lavers

HafmeyJames Laver (1899-1975) hét maður sem lagði fyrir sig ritstörf og sagnfræði, aðallega í Bretlandi. Sérsvið hans var tíska og fatnaður. Hann átti mikinn þátt í að gera rannsóknir á búningum og klæðnaði í aldanna rás að virtri fræðigrein.

Í merkustu bók hans; In Taste and Fashion setti hann  fram kenningu um hvernig almenningur bregst við tískufatnaði. Kenning hans er stundum kölluð lögmál Lavers og er einhvern veginn svona;

 

Tískufatnaður er álitinn;

Ósæmilegur, tíu árum áður en tími hans er kominn

Skammarlegur,  fimm árum áður,

Vogaður, einu ári áður

Flottur ----------------------------

Vafasamur, einu ári síðar

Hræðilegur,  10 árum síðar

Fáránlegur, 20 árum síðar

Skemmtilegur, 30 árum síðar

Sérstakur, 50 árum síðar

Heillandi, 70 árum síðar

Rómantískur, 100 árum síðar

Fallegur, 150 árum síðar


Wall Street nornin

greenÁrið 1998 safnaði bandaríska tímaritið American Heritage Magazine saman nöfnum 40 auðugustu Bandaríkjamanna fyrr og síðar miðað við gengi dollarans það sama ár. 39 karlmenn voru á þeim lista og aðeins ein kona. Enn í dag er hún talin auðugasta konan sem Bandaríkin  hafa alið. Hún hét Hetty Green og þegar hún lést árið 1916 voru auðævi hennar metin á rúmar 100 milljónir dala. (17 billjónir á núvirði bandaríkjadollara)

 Hetty Green var mjög fræg á sínum tíma, ekki fyrir auðævi sín, heldur fádæma nísku.

Hetty varð auðug á afar hefðbundin hátt, þ.e. hún erfiði mikið fé. Faðir hennar sem bjó í New Bedford í Massachusetts varð ríkur á hvalveiðum og þegar Hetty Howland Robinson fæddist árið 1834 var hann þegar orðin þekktur kaupsýslummaður. Hetty fékk snemma áhuga á fjrámálum  og lærði að stauta á læri föður síns sex ára að aldri, þegar hann las kaupsýslutíðindin. 13 ára hóf hún að færa bókhald föður síns og fjárfesti laun sín á verbréfamarkaðinum. Í öllum fjárfestingum sínum fór hún afar varlega og kom sér í því efni upp vinnureglum sem hún fylgdi allt til dauðadags.

Í "villta vestrinu" varð til málsháttur sem sagði; "Þegar að staðreyndir verða að goðsögn, prentaðu þá goðsögnina". Sögurnar af nísku Hetty voru frægar um öll Bandaríkin á sínum tíma. Sagt var að þegar hún varð 21. árs hafi hún neitað að tendra kertin á afmæliskökunni sinni. Daginn eftir afmælisdaginn tók hún kertin og skilaði þeim aftur í verslunina þar sem þau höfðu verið keypt og fékk þau endurgreidd.

Þegar að faðir hennar dó, erfði Hetty eina milljón dollar eftir hann og aðrar fjórar sem bundnar voru í sérstökum sjóði. Tveimur vikum eftir dauða föður hennar, lést auðug frænka hennar sem lofað hafði Hetty að hún mundi arfleiða hana að tveimur milljónum dollara. Þegar á daginn kom að frænkan hafði aðeins ánafnað Hetty 65.000 dollurum í erfðarskrá sinni, reiddi Hetty fram aðra erfðaskrá sem var handrituð af henni sjálfri. Hetty uppástóð að gamla konan hefði fengið hana til að rita nýja erfðaskrá skömmu áður en hún lést og þá ánafnað Hetty allan auð sinn. Það tók Hetty fimm ára baráttu fyrir dómstólum landsins að fá þessa nýju erfðarskrá viðurkennda en það gekk að lokum.

hetty%20greenHetty grunaði alla þá sem sóttust eftir að giftast henni að ágirnast auð hennar meira en hana sjálfa og því festi hún ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 33 ára. Hún giftist Edward Henry Green sem einnig var kaupsýslumaður. Hetty var öllu glúrnari í viðskiptum en Edward og þegar að hún neyddist til að borga fyrir hann skuld, losaði hún sig við skuldina og eiginmanninn í leiðinni.

Þegar að Ned sonur hennar var 14 ára, lenti hann í slysi á snjósleða. Annar fótleggur hans hrökk úr liðnum en móðir hans neitaði að leggja drenginn inn á sjúkrahús. Í staðinn reyndi hún að lækna hann sjálf og leita til læknisstofa sem veittu frýja þjónustu. Að lokum fór svo að drep hljóp í fótinn og taka varð hann af við hné.

225px-HettyGreen001aDóttir hennar Sylvía, bjó með móður sinni fram að þrítugu. Öllum vonbiðlum var hafnað þar sem Hetty þótti engin nógu góður fyrir dóttur sína.

Þegar hún loks leyfði ráðhag dóttur sinnar og Matthew Astor Wilks sem giftu sig 1909, lét Hetty Matthew skrifa undir kaupmála þar sem hann afsalaði sér öllu tilkalli til auðæva Sylvíu, þótt hann væri sjálfur ekki beint bláfátækur þar sem eignir hans voru metna á meira en 2. milljónir dala.

Hetty var skuldseig með eindæmum og greiddi aldrei reikninga án þess að röfla yfir þeim. Oftast enduðu ógreiddir reikningar á hendur henni í lögfræðiinnheimtu.

Sagt er að eitt sinn hafi hún eytt hálfri nóttu í að leita að tveggja senta frímerki.

Eftir að fyrrum eiginmaður hennar lést árið 1902, flutti hún frá heimabæ hans í Belloes Falls í Vermont til Hoboken í New Jersey, til að ver nær kauphöllinni í New York borg. Hún klæddist alltaf svörtu og fór á fund við kaupsýslumenn og bankastjóra á hverjum degi. Klæðnaður hennar og sérviska urðu til ess að hún var uppnefnd Wall Street nornin.

hettygreenAllt sem Hetty tók sér fyrir hendur virtist enn auka á munmælasögurnar sem af henni fóru. Hún bjó í herbergiskytru sem hún leigði og eyddi aðeins um 5 dollurum á viku til lífsviðurværis.

Hún gerði oft langan hlykk á leið sína til að kaupa brotið kex í heildsölu. Hún klæddist sama kjólnum dag eftir dag uns hann lak í sundur á saumunum. Þegar hún komst ekki lengur hjá að þvo flíkina, skipaði hún svo fyrir að hún skyldi aðeins þvegin að neðan þar sem hún skítugust.

Hádegisverður hennar var hafragrautur sem hitaður var á ofninum í skrifstofu hennar í Seaboard National Bank þar sem hún vildi ekki greiða leigu fyrir sér húsnæði.  Eini munaðurinn sem hún leyfði sér tengdist hundinum hennar, sem borðaði miklu betri mat en Hetty sjálf.

Oft leituðu borgaryfirvöld í New York til Hetty til að fá lán svo borgin gæti staðið í skilum. Í þrengingunum 1907 lánaði hún borginni 1.1 milljón dollara og fékk greitt í skammtímavíxlum.

Í elli þjáðist Hetty af slæmu kviðsliti en neitaði sér um læknisaðgerð sem kostaði hefði hana 150 dollara. Hún fékk slag oftar en einu sinni og var bundin við hjólastól síðustu ár ævi sinnar.

Hún óttaðist að henni yrði rænt og lét rúlla sér krókaleiðir til að forðast þá sem hún hélt að væru á eftir sér. Hún hélt því fram á gamalsaldri að eitrað hefði verið fyrir föður hennar og frænku.

Þegar að Hetty dó árið 1916, þá 81 árs, rann allur hennar auður til tveggja barna hennar, Ned og Sylvíu sem ekki tileinkuðu sér sama lífsmáta og móðir þeirra og eyddu fé sínu frjálslega og af gjafmildi.


Wabi-sabi

370525901_e003441123Wabi-sabi er Japanskt hugtak og tjáir tærustu fagurfræðilegu skynjun Japana. Hugtakið á rætur sínar að rekja til Búddískra kenninga um þrjú einkenni lífsins; forgengileika, ófullnægju og sjálfsleysi.

Það er notað um  allar tegundir myndlistar, nytjalist, arkitektúr og landslagshönnun. Wabi-sabi er fegurð hins ófullkomna og forgengilega, þess gallaða og ókláraða. Það er fegurð hins auðmjúka og auvirðilega og um leið hins óhefðbundna og einfalda. 

wabisabi_bathroom_alEf þú spyrð Japani hvað Wabi-Sabi sé, verður þeim oft fátt um svör. Allir Japanir vita hvað það er, en finna ekki orðin til að lýsa því. Orðin tvö hafa mismunandi merkingu þegar þau eru notuð í sitt hvoru lagi.

Sumir vesturlandabúar hafa sett wabi-sabi á bekk með hinni kunnu kínversku Feng shui speki, en þótt hugtökin skarist að nokkru þar sem bæði hafa víðtæka skírskotanir, er hugmyndafræðin að baki þeim ólík.

Orðin wabi og sabi eru bæði notuð sér í daglegu tali. Þau eru aðeins notuð saman þegar fagurfræði ber á góma. Sabi er oftar notað um efnislega listræna hluti, ekki um hugmyndir eða ritverk.

 

Black_Raku_Tea_BowlWabi tjáir fullkomna fegurð sem hefur rétta tegund ágalla, rétt eins eðlilegt munstrið sem sjá má á handgerðri leirskál en ekki í verksmiðju framleiddri skál með fullkomlega skínandi sléttri áferð og er sálarlaus framleiðsla vélar. Gott dæmi um það sem kallað er wabískur hlutur eru stífpóleraðir svartir herklossar sem á hefur fallið ryk þegar þeir voru notaðir við skrúðgöngu. Margir japanskir dýrir vasar eru gljáandi og kolsvartir með grárri rykslikju. 

Sabi er sú tegund fegurðar sem aldurinn ber með sér, eins og patína á gamalli bronsstyttu. Sabishii er í daglegu tali notað yfir eitthvað sorglegt, eins og t.d. sorglegan endi í kvikmyndum. En orðið yfir ryð er líka borið fram sabi.


Allt að 30% munu annað hvort ekki kjósa eða skila auðum og ógildum atkvæðaseðlum

no%20vote%20symbolÞað líður senn að ögurstundu og brátt verða niðurstöður "stóru" skoðunarkönnunarinnar sem við köllum kosningar, ljósar.

Flokkarnir og framboðin hamast dag og nótt við að koma höggi á hvort annað, gömlu góðu klisjurnar bergmála í fjölmiðlunum og hýreygir lygarar brosa til okkar sem best þeir kunna og þess á milli núa þeir hvor öðrum um nasir misgjörðunum og óheiðarleikanum sem þeir allir eru ofurseldir.

Og hvernig mun fólk bregðast við? Þeir sem enn trúa á mátt og megin stjórnmálaflokkana munu eflaust skipta sér niður á þá sem þeir hafa ákveðið að halda með í þetta sinn.

En margir hafa ákveðið að taka ekki lengur þátt í þessari svikamillu sem kölluð er flokkapólitík.

"Minni" skoðanakannanir hafa upp á siðkastið gefið sterklega til kynna að stærsti hópurinn og þess vegna einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga verði þeir sem skila auðu, kjósa ekki eða ógilda atkvæðisseðla sína á annan hátt. - Ef fer sem horfir getur það orðið allt að 30% þeirra sem eru á kjörskrá og er hærra hlutfall en fylgi nokkurs framboðs eða stjórnmálflokks sem býður fram miðað við skoðanakannanir síðust daga. 

Talið er að allt að 12% muni skila auðu, 3% ógildu og 16% muni ekki mæta á kjörstað. Þessar tölur eru fengnar með því að taka mið af kjörsókn 2007 sem var 83,6% og hlutfalli ógildra og auðra seðla sama ár og nýlegum skoðanakönnunum. (Sjá hér)

Þetta háa hlutfall auðra og ógildra atkvæðaseðla sem búist er við að komi í kassana á kjördegi, má örugglega rekja til óánægju þeirra Íslendinga sem gera sér grein fyrir að ekkert bendir til þess að stjórnmálamenn ætli að taka öðruvísi á málum en hingað til hefur verið gert. Að skila auðu, ógilda atkvæðaseðilinn eða mæta hreinlega ekki á kjörstað, er beint framhald af andófinu sem fyrir nokkru var kallað "búsáhaldabyltingin".

Öllum stjórnmálflokkunum hefur tekist að drepa á dreif áherslumálum hennar og gert inngöngu í Evrópubandalagið að megin kosningamálinu. Það var svo sem fyrirséð, enda kunna þeir ekkert annað en einhverjar tæknibrellur til að hylja yfir andlega fátækt sína.

Kröfurnar um að flokksræði víki fyrir alvöru lýðræði, um persónukjör og stjórnlagaþing,  hafa allar endað í skrumi alþingismanna og kvenna, sem samt sækjast flest eftir umboði kjósenda til að halda ruglinu áfram eftir kosningar.

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

Steinn Steinar

Og hverjir ætla svo að halda áfram að spila?

X-Autt


Kettir eru drullusokkar

fat20cat_2Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og  sofa síðan hjá konunni þinni. -

Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.

Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)

Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf",  þá hefur hann rangt fyrir sér. 

cats+with+sunglassesKettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað  dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -

En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!

myspace-cats-images-0005Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;

að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -

eða; að í anddyrinu  þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -

eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?

 


Íslendingar taka gleði sína á ný

article-1081683-02EE7F5100000578-812_468x286Það er alltaf gott að fá góðar fréttir að heiman. Vissulega, svona rétt fyrir og eftir að landið fór á hausinn (eins og útendingar tala um það) voru tíðindin fá sem virkilega glöddu litla stolta íslenska hjartað. Drungi virtist leggjast yfir þjóðina, af fréttum að dæma og sumum var svo misboðið að þeir fóru út að berja búsáhöldin sín í mótmælaskyni.

Nú hafa Íslendingar greinilega heldur rétt betur úr kútunum. 88% þjóðarinnar segist samkvæmt nýjustu könnunum vera mjög ánægt með líf sitt. Margt bendir til að þetta sé satt og landið, þjóðin og þingið sé aftur búin að finna fjölina sína eins og þeir segja í handboltanum. Kunnuglegt karp í þingsölum, dægurhjalið á blogginu og Silfur Egils aftur orðið leiðinlegt.

Spurning hvort nokkuð hafi bjátað á hjá fólki yfirleitt, ég meina svona innast inni þar sem þeir eru mest hamingjusamir, þegar þeir sögðu allt vera að fara fjandans til. Satt að segja efast ég um að hamingjusveiflurnar geti verið svona djúpar og háar á stuttum tíma. Nem að Íslendingar séu svo æðrulausir að þeir halda hamingju sinni sama hvað á gengur. Það er örugglega langlíklegasta skýringin. Já Einmitt.

Lengi lifi Ísland, hamingjusamasta þjóð í heimi


Hver þekkir hvern, hver elskar hvern

Ég veit alveg að þessi fyrirsögn er eins og titill á slúðursíðu og ég verð að viðurkenna það, að slúður hefur stundum slæðst inn í bloggin mín. Svo er þó ekkiif-logo-cb um þennan pistil og þeir sem eru í leit að góðri kjaftasögu þurfa því ekki að lesa lengra. Fyrirsögnin er þó alveg í samræmi við efni greinarinnar eins og þeir munu komast að sem hafa nennu til að stauta sig í gegnum eftirfarandi;

Ég hef stundum lagt mig eftir því að taka þátt í umræðu um trúmál hér á bloggslóðum. Auðvitað er fólk mismunandi statt í þeim efnum, sumir trúlausir, aðrir mjög trúaðir en flestir láta sér fátt um finnast, kannski vegna þess að þeir álíta trú sína vera einkamál. Aðrir vegna þess að þeir hafa yfirleitt lítinn áhuga á málefninu og því ekki gert sér far um að kynna sér það.

Ég hef samt tekið eftir því í þessum viðræðum að flestir tala út frá tiltölulega þröngri sýn á trúarbrögðin yfirleitt. Þeir sem eru trúlausir lýsa gjarnan yfir vanþóknun sinni á öllu sem trú viðkemur en þeir sem segjast trúaðir  er vel kunnugt um boðskap sinnar eigin trúar en vita lítið um önnur trúarbrögð. Það bendir til að þeir hafi eins og reyndar er um okkur flest, látið fæðingarstað og menningu hans, ráða trú sinni. - Það þýðir að ef viðkomandi hefði t.d. verið fæddur og uppalinn í Burma, mundi hann eflaust vera dyggur Búddisti.

Ég nálgast trúmál öðruvísi. Vegna þess hafa margir átt erfitt með að skilja sjónarmið mín og hvað liggur þeim til grundvallar. Sem tilraun til að bæta úr því, langar mig að koma eftirfarandi á framfæri:

Frá alda öli hefur trú manna og trúarbrögð þeirra skipt mestu máli í lifi þeirra. Ég á ekki bara við þá sem sérstakan áhuga höfðu á trúmálum, heldur gjörvallt mannkynið. Allt frá æsku og fram á dauðadægur, gerðu menn og konur, um aldir og um allan heim, það sem þau gerðu, vegna þess að trúarbrögð þeirra kváðu á um að svona skyldi gert. Og ef þau gerðu eitthvað stórkostlegt eða sérstakt, var það helgað þeim guði sem þau trúðu á. Þannig gekk lífið fyrir sig í stórum dráttum í öllum heimsálfum jarðarinnar. Guðirnir voru nefndir mismunandi nöfnum, en þegar grannt er skoðað var afstaða fólks til þeirra og trú afar áþekk.

Spurningarnar sem vakna fljótlega eftir að fólk byrjar að kynna sér trúmál eru margar og meðal annarra þessar; 

hvernig stendur á því að trúin var og er enn svona öflugur áhrifavaldur í lífi fólks?

Í öðru lagi, af hverju aðhyllist fólk kenningar einna trúarbragða en hafnar öðrum?

Og í þriðja lagi, hvers vegna hafa kenningar trúarbragðahöfundanna svona mikil áhrif á meðal fólks að það reynir að lifa eftir þeim, jafnvel í þúsundir ára, á meðan kenningar annarra kennimanna, jafnvel þótt þeir séu voldugir konungar eða þjóðarleiðtogar, falla fljótt í dá og gleymsku og lifa jafnvel ekki þá sjálfa?

Heimspekikenningar Sókratesar og Platós, Konfúsíusar og Lao-Tse, Aristótelesar og Kants, blönduðust inn í menningarheimana, en kenningar þeirra virkuðu eins og stuðningur við ríkjandi kenningar sem komu frá trúarbragðahöfundunum.

Hvers vegna túum við? 

Svarið við fyrstu spurningunni má rekja til þarfa sem allir menn eiga sameiginlegar. Látum liggja á milli hluta hvernig þær þarfir eru tilkomnar. Þarfirnar eru tvær og sú fyrri lýsir sér best í þorsta mannskepnunnar eftir því sem við getum kallað samheitinu þekkingu. Strax eftir fæðingu byrjar þekkingaröflun okkar og hún helst út ævina eða svo lengi sem við höfum heilbrigði til.

Hinn þörfin kemur best fram í  þrá okkar eftir að eiga samneyti við hvert annað í öryggi og elsku. Yfir þessa þrá eftir að elska og vera elskuð getum við notað samheitið ást eða kærleika. Þessi þörf blandast kynþörf okkar og tengist vissulega hvötum okkar til að vernda og viðhalda "tegundinni" en teygir sig líka að mörgu leyti langt út fyrir þann ramma.

Þessar tvær eðlislægu hvatir fléttast oft saman. Við elskum þekkinguna og við viljum þekkja það sem við elskum. Þeir vitsmunir sem mannskepnan ræður yfir greir henni kleift að skilja samhengi hluta. Sá skilningur krefst hugtaks sem við köllum "tilgang". Við skilgreinum tilgang allra hluta sem við þekkjum. Í ljósi tilgangs síns fær hluturinn merkingu.  

Um leið og spurningin um "tilgang" okkar sjálfra er spurð veltur svarið á hvernig eðlislægu hvatirnar, að elska og þekkja, bregðast við hjá hverju og einu okkar. Hvenær það gerðist fyrst í þróun mannsins er ekki vitað, en það gerist enn hjá okkur öllum, einhvern tímann á lífsleiðinni. Það sem við í daglegu tali köllum trú, er þegar við yfirfærum þessar hvatir yfir á guðdóm. Guðstrú er með öðrum orðum þörfin til að þekkja og elska "Guð" í því tilfelli, með það fyrir augum að setja sjálfan sig í samhengi (finna tilgang) við alheiminn.

Hvers vegna bara "mín" trú?

Flest okkar hafa alist upp við ákveðna gerð trúarbragða. Í heiminum öllum eru fjöldi trúarbragða og óteljandi undirflokkar eða kvíslir út frá þeim sem stundum eru kallaðir sértrúarflokkar. Stærstu trúarbrögðin eru; Kristni, Íslam, Búddismi, Gyðingatrú og Hindúatrú. Að auki eru til aragrúi af ýmsum átrúnaði sem ekki tengjast þessum stóru trúarbrögðum á neinn augljósan hátt. Mörg trúarbrögð áttu áður stóra hópa fylgjenda en eru í dag aflögð með öllu.  

Á Íslandi er það hin Kristna Evangelíska Lúterska Kirkja sem er ríkistrú. Frá blautu barnsbeini hefur okkur verið innrætt túlkun Marteins Lúters á Kristindóminum og að hún sé sú eina rétta. Jafnframt er okkur innrættur ákveðnir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum, því túlkun Lúters var sú að Kristur væri sonur Guðs, upphaf og endir allra leiðbeininga frá Guði.

Það sama er upp á teningum hjá flestum fylgjendum annarra trúarbragða. Múslímum er kennt að Múhameð sé "innsigli spámannanna" og að hann sé sá síðasti í röð boðbera Guðs. Gyðingar trúa því að Móses einn hafi haft umboð til að setja lög fyrir Guðs hönd og Búddistar telja að engir fái uppljómun eða komist í Nirvana nema með því að fara eftir kenningum Búdda. Fáir skeyta um að boðskapur þessara trúarbragða er sem fyrr segir afar áþekkur á marga lund og það er miklu meira sem flytjendur þeirra eiga sameiginlegt en það sem á milli skilur. Fólk er yfirleitt miklu uppteknara af lömpunum sjálfum en ljósinu sem frá þeim skín.

Hvers vegna hafa kenningar trúarbragðahöfundanna svona mikil áhrif?

þrennt eiga allir þessir trúarbragðahöfundar óumdeilanlega sameiginlegt. Þeir segjast allir hafa umboð til þess að leggja öðrum mönnum lífsreglurnar og boða í því sambandi ákveðna siðfræði. Annað, að kenningar þeirra hafa náð að breiðast út, þrátt fyrir harða andstöðu ríkjandi stjórnvalda og trúarleiðtoga, og verða að lokum undirstaða menningar sem gjarnan er við þá kennd. Eftir mikla mótstöðu og nokkuð langan tíma voru það stundum  konungar sem tóku trúna og gerðu hana að ríkistrú sem síðan varð til þess að hún breiddist út um álfur. Þannig var t.d. með Kristna trú og Búddisma. Íslam voru það kalífarnir sem lögðust í landvinninga og þeim fylgdi trú Múhameðs.

Að valdhafar gerðu einn eða annan átrúnað að ríkistrú var alls ekki svo óalgengt, en að átrúnaðurinn lifði þá, yrði áhrifaríkari og útbreiddari en ríki þeirra var nokkru sinni, gerðist ekki oft. En þannig er með stærstu trúarbrögð mannkynsins sem gjarnan eru því nefnd "heimstrúarbrögð".  Í raun má segja að ein af bestu sönnunum fyrir því að stofnendur trúarbragðanna hafi raunverulega haft "guðlegt" umboð, sé hversu mikil og varanleg áhrif kenningar þeirra höfðu á mannkynið og sögu þess. Kenningum þeirra fylgdi kraftur sem ekki fylgdi kenningum venjulegra manna.

Þriðja atriðið sem sameiginlegt er með trúarbragðahöfundunum er að þeir segjast allir vera tengdir hver öðrum á andlegan hátt. Þeir viðurkenna umboð forvera síns, líkt og Kristur viðurkenndi Móses og Múhameð Krist, og þeir segjast allir munu snúa aftur "í fyllingu tímans." Í öllum trúarbrögðum er að finna fyrirheitið um "guðsríkið" á jörðu. Þetta er ástæðan fyrir því að margir gyðingar sá Messías í Kristi og margir hindúar sáu Budda sem endurkomu Krishna. Sjálfir halda trúarbragðahöfundarnir því  fram að hlutverk kenninga þeirra sé að leysa af hólmi kenningar forvera þeirra sem hafi spillst í meðförum manna og því sé nauðsyn á endurnýjun.

Þennan skilning á trú og trúarbrögðum sæki ég til minnar eigin trúar sem hægt er fyrir áhugasama að fræðast um á krækjum (Bahai)  hér til vinstri á bloggsíðunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband