Færsluflokkur: Lífstíll

Að setja rassinn í klór

RassgatsklórFyrirsögnin er reyndar miklu prúðmannlegri en efni þessa pistils gæti hæglega gefið tilefni til. (En aðgát skal höfð í nærveru sálar.) Það sem um ræðir er ný fegrunartækni og fegrunarlyf sem ætlað er fyrir þann hluta líkamans sem virðist algjörlega hafa orðið útundan fram að þessu í líkamsfegrunar-æði nútímans.

Það er sem sagt byrjað að selja fegrunarlyf fyrir endaþarminn og svæðið í kringum op hans.(Venjulega kallað rassgat) 

Hugmyndin er að gera aftur hvítan eða bleikan þennann mikilvæga líkamhluta sem mörg okkar sjáum svo sjaldan að við höfum ekki einu sinni hugað að litnum á honnum.

Þetta svæði hefur, er mér sagt, tilhneygingu til að dökkna og verða brúnleitt á fullorðinsárum sem mörgum æskudýrkandanum þykir bagalegt. Þess vegna hefur skapast eftispurn eftir bleikingarefni sem hægt er að nota á endaþarma og nú er það komið á markaðinn.

Ég get því miður ekkert fullyrtt um virkni efnissins persónulega og kem ekki til með að gera það að sinni. (Aldrei að að segja aldrei)  

Satt að segja finnst mér þessi tegund fegrunaraðgerða minna dálítið á síðustu tvö bloggefni mín, þ.e. tilraunir frambjóðenda í prófkjörum til að sannfæra okkur um að það hafi orðið eðlisbreyting á viðhorfum þeirra. Ég er nokkuð viss um að það sé alveg sama hversu lengi þú leggur rassinn á þér í klór, á endanum kemur það sama út úr honum og fyrr.


Skautar, skíðasleðar og paradís

Þegar nýbyggingar fóru að rísa ört í Keflavík upp úr 1960 varð bærinn frægur fyrir alla drullupollana sem mynduðust við jarðrask og framkvæmdir í bænum. Þegar ég var átta ára, árið 1962, gekk í garð kaldasti vetur sem ég hef upplifað og allir pollar í bænum botnfrusu og héldust frosnir í margar vikur. Þetta var veturinn sem ég fór í fyrsta sinn á skauta.

natoTil að byrja með stalst ég á skauta eldri systur minnar, en sá fljótlega að það mundi ekki ganga til lengdar, hún alveg brjáluð yfir því að ég "skældi" skautana og svo voru þeir líka hvítir.

Eftir talvert þref í mömmu, fékk ég loks svarta skauta, (notaða að sjálfsögðu) og þá hófust æfingarnar fyrir alvöru. Upp úr flestum stærri pollunum stóðu steinsnibbur sem gerðu alvöru skautamennsku á þeim erfiða.

Þá var líklega ekki byrjað að úða vatni á fótboltavöllinn eins og gert var í seinni tíð svo ekki var annað til ráða enn að paufast upp "í heiði";  fram hjá vatnstönkunum báðum sem stóðu fyrir ofan bæinn, framhjá brennustæðunum okkar þar sem við hlóðum veglega kesti fyrir hvert á gamlárskvöld og áfram í vesturátt alla leið upp að "Vötnum." Það sem við kölluðum "Vötn" voru reyndar tvær litlar tjarnir skammt ofan við Keflavíkurkaupstað og var önnur þeirra, sú stærri,  innan flugvallargirðingarinnar og því á yfirráðasvæði Kanans.

Í daglegu tali var greint á milli tjarnanna og  þá talað um Litlu og Stóru Vötn. Rétt nafn þessara tjarna ku vera Róselsvötn og eru þau kennd við sel sem í fyrndinni stóð þarna í grenndinni.

Það var auðvitað mest spennandi að skauta á "Stóru Vötnum", því þá var maður líka að brjóta lögin með því að fara inn fyrir girðinguna. Á góðum degi eftir skóla var saman komin þarna tjörnunum þorri krakka bæjarins á skautum og skíðasleðum. (Þotur þekktust ekki) Sumir áttu hvorugt en drösluðu upp eftir með sér pappakössum sem þeir rifu niður í ræmur og skelltu undir magann um leið og þeir skutluðu sér á svellið eftir langt tilhlaup.


Skíðasleðarnir virkuðu illa í mjúkum snjó, en á svelli eða hjarni voru þeir frábærir. Það var líka kostur við þá að það mátti setja á þá yngri bróður eða systur, (sem maður var oftast neyddur til að hafa með) og koma þeim fyrir í sætinu framan á sleðanum. 

SkíðasleðiSkíðasleðar voru afar vinsælir þennan vetur, sérstaklega í skrúðgarðinum í Keflavík, sem var einn af fáum stöðum þar sem brekku var að finna í kaupstaðnum.  Skíðasleðana mátti líka tengja saman í lestar þegar brunað var niður á móti, en þá þurfti oft lítið út af bera til að allir lentu ekki í "klessu" eins og það var kallað.

Upp úr "Stóru Vötnum" stóðu tveir nokkuð stórir steinar. Þeir sem voru komnir upp á lag með að standa almennilega á skautunum, spreyttu sig á því að stökkva yfir steinanna einn af öðrum, en bilið á milli þeirra var of langt til að það væri hægt að stökkva yfir þá báða. Þrátt fyrir að það væri augljóst, gerðu margir tilraunir til þess, þar á meðal ég. 

Á svelliÉg uppskar aðeins auman skrokk, marða fótleggi og tvö göt á hausinn. Í seina skiptið fékk ég gat á hnakkann sem blæddi talsvert úr, án þess að ég yrði þess var. Því varð móðir mín þegar heim var komið löngu seinna, að þýða lambhúshettuna varlega af hausnum á mér með volgu vatni.

Eins og fyrr segir, þurfti að skríða undir flugvallargirðinguna til að komast upp að Stóru Vötnum. Þegar þangað var komið var aðeins stuttur spölur til paradísar fyrir gutta eins og mig og félaga mína. Paradís þessi var samsett úr gömlum aflóga herflugvélum og í daglegu tali nefnt "flugvélahaugarnir."

FlugvélahaugarStundum enduðu skautaferðirnar á því að það var laumast yfir á hauganna og gramsað þar í "kanaflugvéladóti" fram í myrkur. Af og til óku fram hjá flugvélunum gráir pallbílar með gulum sírennuljósum sem voru okkur algjör nýlunda. Þá var nauðsynlegt fyrir þann sem settur hafði verið "á vaktina" að gefa merki svo allir gætu falið sig á meðan bílinn ók framhjá, (líklega á leið til Rockville.)


Líf án lima

nick_vujicic_babyHann heitir Nick Vujicic og var fæddur í Melbourne í  Ástralíu 1982. Hann er fót og handleggjalaus og þjáist af svo kölluðum Tetra-amelia sjúkdómi.

Líf hans hefur verið ein þrautaganga. til að byrja með fékk ekki að ganga í venjulega skóla þar sem lögin í Ástralíu gera ráð fyrir að þú sért ófatlaður, jafnvel þótt þú hafir óskerta vitsmuni.

Þessum lögum var svo breytt og Nick fékk að ganga í skóla þar sem hann lærði að skrifa með því að nota tvær tær á litlum fæti sem grær út úr vinstri hlið líkama hans. Hann lærði einnig að nota tölvu sem hann stórnar með hæl og tám.

Hann þurfti að þola einelti í skóla og varð af því mjög þunglyndur og um átta ára aldurinn byrjaði hann að íhuga sjálfsvíg.

Fjölskylda Nick er mjög kristin og Nick bað Guð heitt og innilega að láta sér vaxa limi. Þegar það gerðist ekki varð hinum ljóst að honum var ætlað annað hlutskipti.

NIckÞegar hann varð sautján ára byrjaði hann að halda smá ræður í bænahópnum sem hann stundaði og brátt barst hróður hans sem ræðumanns og predikara víðar. Í dag stjórnar hann sjálfstyrkingarnámskeiðum og flytur fyrirlestra víða um heim.

Hann stofnaði samtök sem heita Líf án lima sem hefur að markmiði að veita limalausu fólki innblástur og uppörvun.

En sjón er sögu ríkari.

Á netinu er að finna nokkur myndskeið með Nick og þar á meðal þetta sem ég mæli með að fólk horfi á enda tekur það ekki nema eina og hálfa mínútu.

Þá sýnir myndbandið hér að neðan, hvernig Nick ber sig að við að hjálpa sér sjálfur.

 


Kynlíf í kreppu

RómantíkÁ Valentínusardeginum 14. febrúar , þar sem á annað borð er haldið upp á hann, býðst tækifæri til að yfirlýsa í orði og á borði, ást sína og girnd.

Spurningin er hvort eitthvað dragi úr rómantíkinni á krepputímum eins og nú ríkja víðast hvar eða hvort, þvert á móti, kreppan verði til þess að elskendur flýi frekar stressið og áhyggjurnar í faðm hvors annars. 

Prófessor Helen Fisher, frá Rutgers Hásóla, er þeirrar skoðunar að stressið í tengslum við peningaáhyggjur og atvinnuleysi örvi framleiðslu dópamíns í heilanum, en dópamín er einmitt mikilvægt efni þegar kemur að rómantík og ástleitni.

Hún bendir á að í Nóvember síðast liðnum þegar að heimskreppan skall á hafi samkvæmt breskum könnunum, kynlíf verið vinsælasta afþreyingin og stefnumóta vefsíður hafi sýnt allt að 20% aukningu á notkun síðanna.

Þessu mótmælir kynfræðingurinn Denise Knowles, sem fullyrðir að "á efnahagslegum óvissutímum verði fólk mun örvæntingarfyllra - fólk sé á  höttunum eftir nýju starfi eða leggi mun harðar að sér í vinnunni til að koma á móts við atvinnuleysi maka síns. Í lok dags eru bæði líklegri til að huga minna að kynlífi en ella. Aukin kvíði og verri sjálfsmynd eyðileggur ánægjuna af kynlífinu."

Valetínusardagurinn

215px-St_ValentineÍ kaþólskum sið er fjöldi dýrlinga sem nefndir eru Valentínus. Tveggja er minnst þann 14. febrúar.

Annar var biskup frá borginni Terni, og eitt af táknum hans er kráka, sem vísaði fylgjendum hans til þess reits sem hann vildi láta grafa sig í eftir að hann hafði verið afhöfðaður í Róm árið 270.

Hinn var prestur eða læknir sem ákallaður var gegn flogaveiki, vegna þess að hann læknaði ungling sem þjáðist af slíkum köstum, en leið sjálfur píslarvættisdauða árið 269 þá Kládíus keisari var við völd í Róm.

Tákn hans eru sverð vegna þess að hann var deyddur og  sól, vegna þess að sagt er að hann hafi gefið blindri stúlku sýn og sú stúlka hafi verið dóttir fangavarðarins sem gætti hans þá hann beið dauða síns í varðhaldi.

FebruataHvorugur þessara dýrlinga er ábyrgur á neinn hátt fyrir tilhugalífsþönkum og rómantík þeirri sem nú fylgir Valentínusardeginum.

Verið getur að hér sé um að ræða arf frá heiðinni rómanskri vetrar-hátíð sem fram fór um miðjan febrúar og kölluð var Lúberkalía.

Hún var haldin til heiðurs gyðjunni Febrúötu Júnó. Meðan að á henni stóð drógu piltar úr skjóðu nöfn ógiftra stúlkna.

Sagt var einnig að fuglar veldu sér maka á þessum degi. Þá var unglingspiltum seinna gefin miði með nafni stúlkna sem þeim var ætlað að gera hosur sínar grænar fyrir og skildu kallast þeirra Valentínur.

Sankti Francis de Sales reyndi að árangurslaust að bæta þennan sið með því að leggja til að á miðana yrði sett nafn dýrlinga sem drengirnir skildi síðan tigna í stað stúlkna.


Ólíkt hafast þjóðirnar að

Ég er eflaust að bera í bakkafullan lækinn með að skrifa eitthvað um veðurfarið hér í Bretlandi um þessar mundir. Sjaldan eða aldrei kemur betur í ljós munurinn á samfélaginu heima og hér en þegar borin eru saman viðbrögð fólks við snjókomu. Mestur snjór á suðvestur og suður Englandi í 12 ár segja fjölmiðlar. (Á íslandi mundi þetta vera kölluð föl.)

Snjór í BathHér í Bath eru tveir þrír sentímetrar af jafnföllnum snjó og þess vegna hefur skólum verið lokað, bílar sitja fastir, fólk kemst ekki til vinnu, og allt mannlíf gengur úr skorðum.

Fjölmiðlar keppast um að segja fólki að halda sig heima við og ef það hugsi sér til hreyfings að láta vita um ferðir sínar, taka með sér skjólfatnað og heita drykki á brúsum. Hitastigið er í kringum tvö stig!

Bæjar og borgaryfirvöld hafa keppst við að bera á götur og vegi salt og sand og nú er svo komið að allar byrgðir af þeirri ágátu blöndu eru uppurnar.

Stjórnmálamenn kvarta yfir að veðrið komi til með að kosta þjóðarbúið miljarði og aðrir benda á að það sé bara gott að bankamennirnir komist ekki til vinnu til að eyða meira af þeim aurum sem stjórnvöld hafa ausið í bankanna upp á síðkastið. Enn aðrir benda á að fólk eigi bara að slappa af og njóta veðursins og hins sjaldséða snjós.


Góðar húsreglur

PortloeÉg var nýlega á ferð um Cornwall og borðaði hádegismat á krá sem hefur verið starfrækt óslitið frá því snemma á átjándu öld.

 Kráin stendur í þorpinu Portloe og er nú úr alfaraleið en var áður samkomustaður smyglara, vegamanna og sjó og námumanna þar um slóðir í 300 ár eða meir.

Á skilti í anddyrinu voru letraðar húsreglur krárinnar sem voru dagsettar árið 1786 og hljóðuðu svona;

Enga þjófa, fakíra, rudda eða farandsala.

Enga skuggalega skálka og iðjuleysingja eða flóbitna flækinga.

Bannað er að skella á rass kvenna eða kitla þær. Bannað er að slá krepptum hnefa á borðin eða skella niður á þau könnum.

Engir hundar eru leyfðir í eldhúsinu né hanaat hvar sem er í húsakynnunum.

Byssuhólka, framhlaðninga, kylfur, rýtinga og sverð skal afhenda gestgjafa til varðveislu á meðan að dvöl eigenda þeirra á kránni stendur.

Rúm yfir nótt 1. Skildingur

Hirðing og hýsing hests 4. Pence.


Skalli

yul-brynner1Það hefur löngum þótt bagalegt fyrir unga menn að missa hárið snemma. Eiginlega finnst mér gæta nokkurs tvískinnungs í því máli, því margir sem eru sköllóttir segja það ekki skipta sig nokkru máli og vera jafnvel betra en ella.  Þrátt fyrir að þess séu dæmi að skallinn hafi orðið mönnum til framdráttar, ( hvar væri ferill Yul Brynners eða Telly Savalas án skallans) telly-savalas 
þá seljast fá eða engin "fegrunarlyf" fyrir karlmenn betur en þau sem lofa endurkomu hárs og endurvirkni hársekkjanna sem það framleiða. Greinilegt er að hárleysið er í hugum margra ekki eftirsóknarvert.
Fremstu hugsuðir fornaldar gerðu hvað þeir gátu til að leggja sitt af mörkum til að sigrast á höfuðhárleysi.
Hippocrates_LightGríski læknirinn Hippókrates reyndi að lækna skalla með dúfnaskít. Aristóteles var hallur undir geitarhland hvað sig sjálfan varðaði.
Júlíus Sesar var sköllóttur sem þótti kaldhæðnislegt því nafn hans er dregið af latneska orðinu "caesaries" sem þýðir "vel hærður". Sagt er að Kleópatra hafi gert handa honum smyrsli úr möluðum hrosstönnum og dádýrsbeinamerg og síðan borið herlegheitin á gljáandi kúpu ástmögur sinnar, án árangurs.
jcaesar_coinRómverska aðferðin að nota tjöru, kísil og mismunandi gerðir af dýrahlandi gagnaði ekki heldur. Að lokum greip Sesar til þess ráðs að hjúpa höfuð sitt sveig úr lárviðarlaufi. Þessi saga af Kleó er undarleg í ljósi þess að Egyptar rökuðu hár sitt alltaf og leyfðu því aðeins að vaxa dálítið sem merki um sorg þeirra.
Einhvern veginn varð til sú fyrra að það væri skammarlegt að vera sköllóttur. Þeir sem voru það tóku það óstinnt upp ef þeim var strítt ef marka má frásögn sjálfrar Biblíunnar. Eftirmaður Elía spámanns hét Elísa. Um hann er þessa frásögn að finna í annarri Konungsbók gamla testamentisins;

19Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."

elijah20Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo. 21Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði." 22Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.

23Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" 24Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 25Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.

Þetta ætti að kenna fólki að vera ekki að abbast upp á sköllótta menn og uppnefna þá, sérstaklega ef þeir eru í náðinni hjá alvaldinu. Persónulega finnast mér viðbrögð spámannsins dálítið yfirdrifin. Sérstaklega í ljósi þess að honum var sjálfsagt í lófa lagt að fá hár sitt til að vaxa með því að nota sömu aðferð og hann notaði til að gera vatnsuppsprettuna heilnæma.

skallagrimur_i_smidjuEinn af forfeðrum mínum, ef marka má móðurafa minn Gísla Guðmundsson sem missti hárið á tvítugsaldri og kenndi þar um ætterni sínu, var Grímur Kveldúlfsson landnámsmaður í Borgarfirði. Hann var sagður  ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill en skáld gott.  Hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt Skallagrímur, en undir því nafni þekkjum við hann flest.

Íslendingum þótti greinilega lítið til hárleysis koma á söguöld, hvort sem um höfuð eða andlitshár var að ræða. Frægt er háðið sem Njál á Berþórshvoli og synir hans urðu að þola fyrir skeggleysi sitt og þeir uppnefndir taðskegglingar.

Myanmar_yangon_monksAustur Asíu þjóðir virðast hafa öðruvísi viðhorf til höfuðshárs en vesturlandabúar. Þar er afar algengt að raka allt hár af höfðinu. Mongólar til forna skildu eftir langa fléttu aftast á hnakkanum svo almættið gæti náð taki á einhverju til að kippa þeim inn í himnaríki þegar þeir dóu í miðjum bardaganum. Helgum mönnum og munkum þótti það sjálfsögð afneitun á hégóma þessa heims að raka höfuð sitt og það viðhorf barst meira að segja til hins kristna menningarheims og skýrir að nokkru afar sérkennilegan hárstíl munka í Evrópu á miðöldum.monkdrinking

 

 


Sex spurningar

Það er sama hvar ég ber niður, spurningarnar sem ég mundi vilja fá svör við verða ætíð fleiri. Mér finnast þessar spurningar ekki stórar og unni því illa að finna ekki svörin. Spurningar sem ég vildi gjarnan fá svar við um þessar mundir eru þessar;

1. Hvað varð um innlánsféð á Icesave reikningi Landsbankans?
2. Fara nýjar lántökur Íslands nú í að greiða fólki sem átti inni hjá Icesave? (Þeir eru byrjaðir að borga út)
3. Er fólk að mótmæla aðeins til að fá útrás fyrir reiði sína eða hafa mótmælin annað markmið?
4. Eru mótmælin vatn á millu þeirra sem vilja efla til muna öryggisgæslusveitir á Íslandi?
5. Hvers vegna er Geir Haarde svona vinsæll eins og fram kemur í nýlegri skoðannakönnun?
6. Hvers vegna versla Íslendingar enn mest við Bónus?
7. Til hvers þarf erlend lán til að fá ´hjól hagkerfissins´ til að snúast á ný?

Ég vil taka það fram að ÖLL svör eru þegin með þökkum.


Aðfangadagskvöld allra heilagra messu.

halloween-eveSenn líður að messu allra heilagra sem haldin er samkvæmt hefðum þann 1. Nóvember og í kjölfar hennar; "Allra sálna hátíðin" sem er haldinn 2. Nóvember.

Aðfangadagskvöld allra heilagra hátíðarinnar sem haldin er 31. Október er að sjálfsögðu betur þekkt undir ameríska nafninu Halloween.

Bæði messa Allra heilagra og Dagur allra sálna eru kaþólskir helgidagar, en aðfangadaginn ber upp á hátíð sem á rætur sínar að rekja alla leið aftur til forn Kelta og nefndist þá Samhain hátíðin. Samhain (trúlega samstofna íslenska orðinu "sumar")  var lokadagur sumars þar sem tvær megin árstíðirnar vetur og sumar mætast. 

Það var Gregory IV páfi (827-844) sem flutti dag Allra heilagra, sem var sameiginlegur dagur allra dýrlinga sem ekki áttu sér þegar sérstakan dag, frá 13 Maí til 1. Nóvember og hafði þá líklega í huga að velja dag sem ekki var helgidagur fyrir eins 13. Maí sem var forn Rómverskur helgidagur kenndur við Lúmeríuhátíðina.

lakshmi_litAðfangadagskvöld allra heilagra messu (Halloween) sem hefur til skamms tíma verið kallað á íslensku "Hrekkjavaka" svipar mikið til Jónsmessunætur og þrettánda dags jóla. Sem kunnugt er er það sá tími þegar álfar og huldfólk og aðrar vættir eru á sveimi öðrum tímum fremur og menn eru líklegri til að sjá þær og hafa við þær samskipti. 

Á "hrekkjavökunni" eru draugar og yfirnáttúrulegar verur sagðar á ferð og mörk þess sem er raunverulegt og óraunverulegt færast úr stað. Haldið er upp á kvöldið í Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Puerto Rico, Japan, Nýja Sjálandi, Bretlandi og sumstaðar í Ástralíu. Í Svíþjóð er Allraheilagra messa haldin hátíðleg fyrsta laugardag í Nóvember.

73620-004-729B98ABÍ Bandaríkjunum ber Hrekkjavökuna upp á svipaðan tíma og grasker verða fullþroska. Úr þeim er gjarnan gert ljósker og skrumskælt andlit skorið út úr kerinu. Þá er einnig siður barna að klæðast grímubúningum og fara hús úr húsi til að snýkja sér sælgæti.

 


- Ég vil vera lifandi listaverk -

351px-Marchesa_Casati_Grave_MarkerHún lést í London 1. Júní árið 1957 þá 76 ára og var jarðsett í Bromton grafreitnum í London. Grafskriftin á legsteini hennar er tekin úr leikritinu Antoni og Kleópatra eftir William Shakespeare ; Hún fölnar ei þó aldir líði, né fá hefðir heft óendanlega fjölbreytni hennar".

Hún var til moldar borin klædd svörtum hlébarðafeldi og með löng fölsk augnahár á augnalokunum. Með henni í kistuna var lagður einn af uppstoppuðu Pekinghundunum hennar.  Á bautasteininum er nafn hennar misritað, eða Louisa í stað Luisa. Í lifanda lífi var hún þekkt um alla Evrópu og Bandaríki Norður Ameríku sem hin ómótstæðilega, forkostulega og ótrúlega; Luisa Casati Stampa di Soncino, Marchesa di Roma.

Fædd í Mílanó 23. 1881 af auðugum Ítölskum og Austurrískum ættum ólst Luisa upp við allsnægtir. Móðir hennar lést þegar hún var 13 ára og faðir hennar tveimur árum seinna. Luisa og eldri systur hennar Franseska voru þá sagðar auðugustu stúlkur á Ítalíu. 

Árið 1900, 19 ára gömul gekk Luisa að eiga Camillo Casati Stampa di Soncino, Marchese di Roma. (1877-1946). Ári síðar fæddist þeim dóttirin Kristína, sem varð þeirra eina barn.

Marchesa_Luisa_Casati.jpg2Eftir fáein ár í hjónabandi skildu leiðir þeirra og þau bjuggu í sitthvoru lagi upp frá því. Þau fengu formlegan skilnað að borði og sæng 1914 en hjónabandinu lauk ekki fyrr en við dauða Camillo 1946. 

Marchesa Luisa Casati varð fljótlega eftir viðskilnaðinn frá bónda sínum kunn um alla Evrópu fyrir klæðaburð sinn, framkomu og frumlegar uppátektir. Í þrjá fyrstu áratugi síðustu aldar var hún stöðugt á milli tanna fólks og orðstír hennar sem heimskonu og viðundurs, tískudrósar og sérvitrings flaug  víða og hratt með aðstoð slúðurblaða og útvarpsþátta.  Sagt var að naktir þjónar skreyttir gullnum laufum þjónuðu henni til borðs og furðulega klæddar vaxgínur sætu til borðs með henni.  Hún átti til að birtast með lifandi snáka um hálsinn í stað hálsfesta, ganga um nakin innanundir þykkum pelsum, eiga stóra villiketti fyrir gæludýr sem hún hafði í demantalögðum ólum.  Hún var vön að halda sig í villum sínum í Feneyjum, Róm, á Kaprí eða París, þar sem hún geymdi dýrin sem hún átti og undarlega hluti sem hún sankaði að sér. Catherine Barjansky lýsir henni svona;

"Gulrótarlitað hár hennar féll í löngum krullum niður háls hennar. Afar stór og kolsvört augun virtust vera að éta upp magurt andlit hennar. Hún var svo sannarlega sjón að sjá, geðveik sjón, umkringd eins og venjulega hvítu og svörtu gráhundunum hennar og ótölulegum fjölda fagurra en gagnslausra muna. En það var einkennilegt að hún leit ekki óeðlilega út. Ótrúlegur klæðnaður hennar virtist hæfa henni. Hún var svo ólík öðrum konum að venjuleg föt voru ómöguleg fyrir hana."

Marchesa_Luisa_Casati

Luisa var hávaxin, grönn og með fölt, nánast náfölt andlit. Stór græn augun voru venjulega í skugga langra falskra augnahára sem hún hélt vörtum með kolum og hún notaði sérstaka augndropa til að stækka augnsteina sína. Varir hennar voru ætíð þaktar eldrauðum varalit.

Hún skipulagði "svartar messur" sér til gamans, grímudansleiki og sérkennileg matarboð. Hún átti fjölda elskhuga af báðum kynjum og var til í að prófa allt að minnsta kosti einu sinni. Eitt sinn á leið í boð lét hún bílstjóra sinn drepa kjúkling og lét svo blóðið úr honum renna yfir handleggi sína þannig að þegar það þornaði myndaðist munstur. "Ég vil vera lifandi listaverk" var eitt sinn haft eftir henni.

Eitt af heimilum hennar var eingöngu lýst upp með kínverskum ljóskerum og hvítar albínóa krákur flögruðu um í trjánum í garðinum hennar. Annað heimili í  Palais Rose rétt fyrir utan Paris, var villa úr rauðum marmara, sem hýsti einkalistasafn hennar með yfir 130 málverkum af henni sjálfri.  Hún var gjörsamlega hugfangin af eigin ímynd og fékk bókstaflega þúsundir ljósmyndara og listamenn til að mála sig eða móta í leir.

Marchesa_Luisa_Casati.jpg1 Þegar að Luise varð 49 ára kom í ljós að þrátt fyrir mikinn auð, hafði hún lifað lengi langt um efni fram. Hún var sögð skulda yfir 25 milljónir dollara. Allar eigur hennar voru í kjölfarið settar á uppboð og hún flýði til London þar sem hún lést. Sagt er að Coco Chanel hafi verið ein þeirra sem keyptu hluta af munum Luise. Síðust ár æfi sinnar átti Luise til að róta í ruslatunnum sem urðu á leið hennar til að leita fjöðrum til að setja í hár sitt.

En oft segja myndir meira en nokkur orð og þess vegna læt ég hér fylgja með nokkrar myndir af markfrúnni sem nú hefur verið tekin í tölu þeirra sem mótuðu hugmyndir tískuhönnuða síðustu aldar. Til dæmis viðurkenndi Dita Von Teese að Luise hefði verið ein af megin fyrirmyndum hennar.  The New York Times skrifaði um haust/vetur klæðnað  Armani  2004/05 ; “Hjá  Armani, voru djörf fjólublá augun innblásin af 20. aldar hefðafrúnni  Marchesa Luisa Casati, ömmu nýju sérvitringastefnunnar." 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband