Færsluflokkur: Lífstíll
9.8.2008 | 00:41
Það sem ég held um hamingjuna; heimatilbúin heimspeki.
Hver sem við erum, hvað sem við gerum , eigum við eitt sameiginlegt; við erum öll að eltast við hamingjuna. Ég geng að því sem gefnu að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið "hamingja" en ég geng líka að því sem gefnu að við þráum öll hugaró, velværð og góða heilsu. Það er vissulega hluti af hamingjunni.
Ég held að hamingja allra standi á þremur stöplum. Þeir eru þessir; sköpun, þjónusta og þekking. Með þessu er ég ekki að meina bara eitthvað, heldur nákvæmlega það sem orðin þýða.
Ég held að enginn geti verið hamingjusamur án þess að skapa eitthvað. Flestir eru sí skapandi, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Auðvitað er listræn sköpun hluti af jöfnunni en ég á fyrst og fremst við hversdagslega hluti eins og matseld, sem er afar skapandi og getur verið afar listræn. Að þvo og strauja þvotta er líka list og mikil sköpun æi því ferli fólgið. Jafnvel að þrífa sjálfan sig og umhverfi sitt heyrir undir sköpun.
Ég held lík að enginn geti orðið hamingjusamur án þess að þjóna einhverju eða einhverjum. (Ég gæti alveg eins notað orðið að elska í staðinn fyrir að þjóna) Margir finna hamingju í að þjóna ástvinum sínum, fjölskyldu sinni eða jafn vel samfélaginu. Sumir setja markið enn hærra og þjóna heiminum. Ef þeim tekst það verða þeir hamingjusamastir allra. Svo eru aðrir sem þjóna bara sjálfum sér og eignum sínum. Þeir eru óhamingjusamastir allar.
Ég held að engin geti verið hamingjusamur án þess að þekkja, sig, umhverfi sitt, fjölskyldu sína og umheiminn. Þekkingarþörfin gerir okkar að mönnum og virkar eins og óseðjandi fíkn. Við þurfum stöðugt að vita, jafnvel það sem ekki er hægt að vita. En þekkingaröflunin gerir okkur samt hæfari, betri og hamingjusamari persónur. Þetta er það sem ég held um hamingjuna.
7.8.2008 | 00:20
Leikkonan eilífa...
Hún hefur þegar leikið í um 130 kvikmyndum um ævina. Undanfarin 10 ár hefur hún leikið í a.m.k. einni kvikmynd árlega og nú er verið að leggja síðustu hönd á næstu kvikmynd hennar Wide blue Yonder.
Hún var fædd 16. Sept. árið 1924 í New York og gefið nafnið Betty Joan Perske. Hún var aðeins 19 ára þegar hún fékk fyrsta hlutverkið sitt og það var aðalhlutverk á móti mesta karlkyns kvikmyndastjörnu þess tíma; Humfrey Bogart. Myndin hét; To have and to have not og árið var 1944 og hún hafði tekið sér nýtt nafn, Lauren Bacall.
Hún er þektust fyrir film noir myndirnar; The Big Sleep (1946) og Dark Passage (1947) og sem grín-myndina How to Marry a Millionaire.(1953)
Árið 1981 var hún valin Kona ársins í USA en kunnust er hún samt fyrir að vera eiginkona Humfrey Bogarts sem hún giftist 1945 og lék síðan á móti honum í fjölda kvikmynda.
Eftir að hafa hjúkrað Bogie sem barðist við krabba, á banalegunni, lét hún hafa þetta eftir sér; "Ég setti feril minn á bakhelluna þegar ég giftist Bogie. Þegar hann lést kaus ég að yfirgefa Kaliforníu, því þá var lífi mínu lokið". - Þetta var árið 1957.
Lista yfir kvikmyndir hennar er að finna hér.
Og helstu atriði ævi hennar er að finna hér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2008 | 11:46
Yngsti faðir í heimi hér....
Eins og skilja má er Kína í sviðsljósinu um þessar mundir, enda heimsviðburður þar á næsta leiti. Þegar gluggað er í sögu Kína koma oft furðulegar staðreyndir fram í dagsljósið. Gallinn við sumt af því sem haldið er fram sem bláköldum sannleika, er að engin leið er til að sannreyna söguna. Því er t.d. haldið fram að yngsti faðir veraldar hafi verið kínverskur drengur sem feðraði barn aðeins níu ára gamall.
Ég fjallaði fyrir skömmu um yngstu móðurina Linu, sem ól sveinbarn á sjálfan mæðradaginn 14. Maí árið 1939, þá aðeins fimm ára gömul.
Yngsti faðir sem áreiðilegar heimildir eru til um er sagður vera Sean Stewart frá Sharnbrook í England. Hann var tólf ára þegar hann varð faðir og fékk frí í skólanum til að vera viðstaddur fæðingu barnsins. Hann hafði sagt kærustu sinni þá 16 ára gamalli Emmu Webster og foreldrum hennar að hann væri fjórtán ára. Hann viðurkenndi aldur sinn eftir að ljóst var að stúlkan var með barni. Þá var parið 11 og 15 ára en þau voru nágrannar í Sharnbrook í Bedfordshire.
Úr því við erum að tala um feður, er ekki úr vegi að skjóta því hér að, að elsti faðir veraldar svo vitað sé með vissu, (Biblíu-bókstafstrúar-fólk á eftir að mótmæla þessu) er bóndi frá Indlandi sem heitir Nanu Ram Jogi. Hann var níræður ( 90 ára) þegar hann feðraði sitt síðasta barn 2007. Það var tuttugasta og fyrsta barnið hans og hann átti það með fjórðu eiginkonu sinni. Hann sagðist ákveðinn í að halda áfram að eignast börn þar til hann yrði 100 ára
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.8.2008 | 17:35
Íslenska heims-Íkonið
Ef þú flettir upp í lexíkonum um tísku eða tónlist, popp-kúltúr og nútímamenningu er næsta víst að þú rekst á þessa mynd. Fáar eða engar myndir af íslendingi hafa öðlast slíkan sess í menningu heimsins eins og myndin af Björk Guðmundsdóttur utan á hljómdisk hennar Homogenic. Myndin er listaverk þar sem margir mismunandi menningarstraumar eru bræddir saman í eina heild og virka eins og hefðbundin útfærsla á fornu útliti asískra kvenna. Björk sækir þessa strauma til fimm landa; Kóreu, Kína, Japan,Thailands og Burma.
Ef við förum frá toppi til táar og byrjum á hárinu, þá er útfærslan á því fengin frá Kóreu og á rætur sínar að rekja til þess kunnuglega siðar hefðarfólks að ganga með hárkollu.
Á meðan alþýðan (bæði karlar og konur) lét sér nægja að flétta hár sitt og setja í hnút í hnakkanum eða við banakringluna, báru efnaðar hefðarmeyjar íburðarmiklar hárkollur (gache). Ein og tíðkaðist líka á Vesturlöndum, þóttu hárkollurnar flottari eftir því sem þær voru stærri og íburðarmeiri. Margar litu út eins og hárskúlptúrar sem festir voru á höfuð konum til að hafa þar til sýnis. Hárkolluæðið náði hámarki á ofanverðri átjándu öld í Kóreu en nokkuð slóg á það með tilskipun Jeongjo Konungs 1788 þegar hann bannaði notkun hárkolla þar sem þær gengu gegn gildum Konfúsíusar um hógværð og auðmýkt.
Til Burmma og Thailands sækir Björk hálshringina. Þótt slíkar fegrunaraðgerðir séu ekki óþekktar í suður-Afríku, eru það konur Kayan (Karen-Padung) ættbálksins í Thailandi og Burma sem frægastar eru fyrir hálshringina sem byrjað er að setja um háls stúlkna í æsku eða þegar þær eru 5-6 ára. Hringirnir aflaga axlar og viðbein svo að hálsinn sýnist lengri. Fullvaxin kona gengur með um 20 hringi.
Að auki ber þær hringi um um handleggi og fótleggi sem ekki eru taldir síður mikilvægir sem fegurðartákn. Gifta konur bera líka fílabein í eyrnasneplunum. Þungi fílbeinsins verður til þess að eyrnasneplarnir síga og verða stundum svo langir að þeir sveiflast til. Þessi siður er afar forn, eða allt frá þeim tíma er eyrun voru talin helgasti hluti líkamans og hann bæri því að skreyta. Ílöng eyru voru talin merki um fegurð hjá konum og styrk hjá körlum. - Flest Padung fólksins iðkar andatrú, en um 10% eru Buddha-trúar og einhverjir eru kristnir.
Á myndinni klæðist Björk Kimonosem er þjóðabúningur Japana og honum klæðast bæði karlar og konur. Orðið Kimono er samsett úr orðunum ki (að klæðast) og mono (hlutur). Kimono er T-laga kufl beinsniðinn og nær alla leið niður að öklum. Hann er vafinn um líkaman frá vinstri til hægri, nema sem líkklæði, þá er hann vafinn frá hægri til vinstri. Honum er haldið saman með breiðu belti (obi) sem er venjulega bundið saman að aftanverðu. Í dag er Kimono yfirleitt viðhafnarbúningur en var áður fyrir afar algengur sem hversdagsklæði kvenna. Ógefnar konur klæðast Kimono sem hefur dragsíðar ermar.
Annað nafn fyrir Kimono er Gofuku sem þýðir "klæði Wu." Fyrstu kimonoarnir urðu fyrir miklum áhrifum af kínverskum hefðum og rekja má kínversk áhrif í japanskri fatagerð allt aftur til fimmtu aldar.
Farði Bjarkar minnir um margt á hinar japönsku Geishur eða Geiko eins og þær eru líka kallaðar. Geishur eru japanskir skemmtikraftar sem stunda hinar mismunandi japönsku listgreinar af mikilli snilld, þ.á.m. sígilda tónlist og dans. Þrátt fyrir þrálátan orðróm eru Geishur ekki vændiskonur.
Uppruni farðahefðarinnar er umdeildur og segja sumir að hvíta litinn og smáan rauðan munninn megi rekja til aðdáunar Japana á vesturlenskri fegurð, fyrst eftir að þeir kynntust Evrópubúum.
Hvíti farðinn á að þekja andlitið, hálsinn og brjóstið en skilja eftir tvö W eða V laga svæði aftan á hálsinum sem undirstrikuðu þetta svæði sem samkvæmt hefð Japana er afar kynæsandi. Þá er skilinn eftir þunn lína á milli andlitsfarðans og hárlínunnar sem gefa til kynna að um grímu sé að ræða frekar en farða.
Augnasteinar Bjarkar eru eins holur, tækni sem notuð var til að gefa augum líkneskja dýpt og neglur hennar eru langar og minna á drekaklær, en drekinn er þekkt landvætt í öllum Asíulöndum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.7.2008 | 20:23
Móðir og dóttir sem ólíkt hafast að
Margir muna eflaust margir eftir því þegar að Patriciu Hearst; barnabarni bandaríska blaðakóngsins og auðjöfursins William Randolph Hearst, var rænt árið 1974. Patricia var þá háskólanemi við Berkeley í Kaliforníu og var rænt af hópi ný-biltingarsinna sem kallaði sig The Symbionese Liberation Army (SLA). Í tvo mánuði, að hennar eigin sögn, var henni haldið fanginni í skáp og hún "heilaþvegin" af þessum litla hóp sem beindi spjótum sínum aðallega að auðjöfrum í Bandaríkjunum sem þeir álitu megin óvini sína.
Hearst fjölskyldan varð við vissum kröfum hópsins og greiddi sem lausnargjald eina milljón dollara í formi vista sem dreift var meðal fátækra. Þrátt fyrir það náðist ekki að frelsa Patty og nokkru seinna sendi hópurinn fjölmiðlum mynd af henni vopnaðri vélbyssu ásamt yfirlýsingu þess efnis að hún hefði sjálfviljug gengist byltingarhópnum á hönd.
Hún tók sér nafnið "Tania" (til heiðurs eiginkonu Che Guevara) og átti síðan þátt í að ræna banka í San Francisco þar sem teknar voru frægar myndir af henni við verknaðinn. Í stað þess að vera fórnarlamb, var hún sett á lista Alríkislögreglunnar (F.B.I.) yfir 10 mestu glæpamenn Bandaríkjanna.
Seinna á árinu 1974 kom til átaka milli lögreglu og S.L.A. hópsins þar sem flestir meðlimir hans féllu fyrir byssukúlum lögreglunnar. Einhvern veginn tókst Patty að flýja ásamt forsprökkunum Bill og Emily Harris. Í rúmt ár fór hún huldu höfði og aðstoðaði aðra meðlimi hópsins sem einnig voru á flótta.
Hearst var að lokum handtekin árið 1975 og fundin sek um bankarán. Henni var sleppt fyrir tilstilli Jimmy Carters forseta 1979. Eftir það hélt hún sig að mestu til hlés. Hún gifti sig og eignaðist börn, skrifaði endurminningar sínar og kom stöku sinnum fram í kvikmyndum undir dulnefni. Árið 2001 var hún að fullu náðuð af Bill Clinton forseta.
Í réttarhöldunum sem haldin voru yfir henni var verjandi hennar F. Lee Bailey sem seinna náði aðeins betri árangri þegar hann varði O.J. Simpson og fékk hann sýknaðan af morðákæru.
Nú hefur dóttur Patty Hearst; Lydiu Hearst, skotið all-snögglega upp á alþjóðlega stjörnuhimininn. Hún er fyrirsæta og gat sér fyrst gott orð þegar hún vann með Stephen Meisel ljósmyndara fyrir Apríl 2004 heftið af ítalska Vogue blaðinu. Síðan þá hefur hún unnið með sumum af fremstu ljósmyndurum heims eins og Mario Testino, Mark Abrams og Terry Richardson.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.7.2008 | 17:09
Fleiri Minningar - En ekki fyrir klýjugjarna!!
Ég minnist á það í færslu hér um daginn að ég hefði ungur að árum farið á "vertíð" til Norðfjarðar og kynnst þar ýmsu fólki. m.a. Ólafsvíkur-Kalla. Áður en Kalli sá aumur á mér og bauð mér sambýli við sig, hírðist ég í herbergiskytru sem átti að heita íbúðarhæf en var að alls ekki. Þetta var líka áður en ég hóf að vinna með "aðgerðargenginu" og ég hafði tíma til að borða hádegismat og kvöldmat. Ég komst að samkomulagi við fjölskylduna sem bjó á hæðinni fyrir ofan herbergiskytruna um að fá að borða með þeim og kynntist þeim þannig lítilsháttar.
Þetta var stór fjölskylda a.m.k. fimm börn, fjögur á bilinu 2-6 ára og eitt þeirra aðeins brjóstmylkingur enn. Í fyrsta sinn sem ég kom í mat fékk ég hálfgert áfall. Borðhald var allt hið einkennilegasta, jafnvel fyrir mig sem alist hafði upp á barnmörgu heimili og kallaði ekki allt ömmu mína í þeim efnum.
Í boði var soðin fiskur og kartöflur, sem húsfreyjan hafði til og setti á diska fyrir mig, húsbóndann og börnin fjögur. Engin hnífapör voru sett fyrir börnin og tóku þau til matar síns, með guðsgöflunum einum saman. Ekki leið á löngu fyrr en maturinn var kominn út um allt borð. Krakkarnir létu illa við borðið og köstuðu matnum í hvert annað án þess að fá svo mikið sem tiltal frá foreldrunum. -
Loks þegar lokið var við að borða, bauð húsfreyjan mér upp á kaffi. Ég þáði það. Hún færði mér svart kaffi í krús. "Áttu nokkuð mjólk", spurði ég. Notarðu mjólk, spurði hún á móti. Já, gjarnan ef þú átt hana. Húsfreyjan horfði á mig um stund, tók síðan krúsina og bar hana upp að öðru brjóstinu sem einhvern veginn var komið út úr kjólgopanum sem hún var í. Eftir örstutta stund rétti hún mér krúsina aftur. Ég sá að það var mjólk í kaffinu, ásamt smá fituskán sem flaut á yfirborði þess. Ég satt að segja, sautján ára gamall, áttaði mig ekki alveg strax á því sem hafði gerst. Ég bragðaði á kaffinu og fann að það var ekki eins á bragðið og ég átti að venjast. Húsbondinn horfði á mig skælbrosandi. Hva, líkar þér ekki kaffið, spurði hann. Jú, jú, það er bara... Þú þarft ekkert að drekka það frekar en þér sýnist, hélt hann áfram, þreif krúsina úr hönd minni og teygaði kaffið með áfergju.
Af nísku föðurins.
Seinna sama dag, sátum við saman ég og húsbóndinn sem líka var að vinna í SÚN við útskipunina sem var í gangi. Við röbbuðum saman á meðan beðið var eftir bíl. Hann sagði mér frá æskuárum sínum þar sem hann var alinn upp á kotbýli á fyrri hluta síðustu aldar einhverstaðar á Austfjörðum.
Faðir hans var víst annálaður nirfill og skammtaði heimilisfólkinu matinn úr búri áfast eldhúsinu sem hann einn hafði lykil að. Stundum þegar allir voru farnir að hátta mátti heyra í karlinum paufast í myrkrinu inn í búrinu þar sem hann var að gæða sér á því sem hann vildi þegar hann hélt að aðrir sæju ekki til.
Kvöld eitt urðu allir þess var að karlinn var í búrinu. Eftir skamma stund heyrast þaðan óhljóð mikil, spýtingar og uppsölur. Á milli óhljóðanna hrópar karlinn og biður um að kveikt verði á lampa. Húsfólkið dreif að með ekki færri en þrjá lampa á lofti. Sjónin sem við blasti var ekki geðsleg. Karlinn hafði augljóslega verið að kafa með annarri hendinni í súrtunnu með slátri í, líkast til að leita að keppi sem orðin var meir á súrnum. Eftir að hafa fundið kepp á botni tunnunnar sem hann taldi að væri orðinn of meir til að geymast mikið lengur, tekur hann á það ráð að stýfa hann úr hnefa. Óhljóðin, spýtingarnar og kokhljóðin hófust ekki fyrr en hann var kominn inn í miðjan kepp.
Í ljósinu frá lömpunum sást greinilega það sem eftir var af keppnum þar sem hann lá við fætur karlsins. Nema að keppurinn var ekki sláturskeppur, heldur löngu dauð rotta sem greinilega hafði dottið í súrinn einhvern tíman um veturinn, drukknað og fallið til botns á tunnunni.
Eftir þetta, tók karlinn víst ætíð með sér ljós þegar hann fór í búrið eftir háttatíma.
Ég borðaði hjá þeim hjónum í fáeina daga eftir þetta en varð mikið feginn þegar boðið kom frá Kalla, jafnvel þótt það þýddi sveskjugraut og plokkfisk í alla mata.
Af skiljanlegum orsökum nafngreini ég ekki sögupersónur. Ljósmyndin er af Karli Guðmundssyni (Ólafsvíkur-Kalla) og kann ég þeim sem sendi mér hana (barnabarni Karls) bestu þakkir fyrir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.7.2008 | 12:27
Hið undarlega mál varðandi morðin á albínóum í Tansaníu
Í Tansaníu var tilkynnt í gærkveldi um eitt morðið enn á einum af albínóum landsins. Að þessu sinni réðist hópur manna inn á heimili mannsins og hjó af honum fætur og kynfæri með sveðju. Á þessu ári hafa 26 albínóar horfið eða verið drepnir í Afríkulandinu Tansananíu. Albínóar saka nú stjórnvöld um að gera ekkert í málinu þótt augljóst sé að þeir séu í bráðri hættu en í landinu eru meira en 8000 albínóar skráðir.
Eftir því sem næst verður komist tengjast þessi hvörf og morð hjátrú alþýðufólks sem trúir því að albínóar séu einskonar andaverur. Seiðmenn ala sumir hverjir á þessum hindurvitnum og eru grunaðir um að eiga þátt í hvarfi þeirra.
Þeir telja fólki trú um að með líkmashlutum úr albínóa sé hægt að gera fólk ríkt og auka velgengi þess á allan hátt. - Kennari einn í borginni Arusha var handtekinn fyrir skömmu fyrir að drepa eigið barn sem var albínói. Nýlega hafa fundist fjögur lík af albínóum og eitt þeirra hafði verið sundurlimað. -
Gamlar rauðeygðar konur hafa verið drepnar í þessum hluta Tansaníu grunaðar um galdra en þetta er í fyrsta sinn sem albínóar hafa verið notaðir til fórna, að sögn talsmanns albínóa.
Albínóar í Tansaníu eiga við mikil heilbrigðisvandmál að stríða og húðkrabbamein er afar algengt meðal þeirra.
Við höfum gert ýmislegt til að vernda albínóana segir inniríkisráðherra landsins Lawrence Marsha.
"Við höfum gengið svo langt að skrá alla sem stunda lækningar í landinu og vinsa úr þeim skottulæknana og greina þá frá þeim sem stunda raunverulegar lækningar. " sagði hann.
"Við höfum gert okkar besta til að mennta alþýðuna um hætturnar sem leynast hvarvetna og við höfum reynt að kenna albínóunum að verja sig. "
27.7.2008 | 21:52
Ebony Venus
Löngu áður en Sydney Poitier og kvikmyndin Liljuakurinn (1963) sem skaut honum upp á stjörnuhimininn náði hilli heimsins eða Bill Cosby og Ég Njósnari (1965),varð að fyrirmynd blökkumana í USA, kom fram þeldökk ofur-stjarna sem gerði meira fyrir réttindabaráttu blökkumanna í vesturheimi en þeir báðir til samans að mínu mati, þótt hún hafi síðan fallið í skugga þeirra. Sá fjöldi sem nú er til af þeldökkum kvikmyndastjörnum, tónlistarfólki og ofur-fyrirsætum á þessari konu mikið að þakka, því hún var sannur brautryðjandi og lagði réttindabarrátu þeldökkra óspart lið á sínum tíma.
Faðerni hennar er umdeilt, en hún fæddist 3. Júní árið 1906 í borginni St. Louis í Alabama fylki í Bandaríkjunum. Henni var gefið nafnið Freda Josephine McDonald. Eftirnanfnið fékk hún frá móður sinni Carrie McDonald. Carrie hafði verið ættleidd af Richard og Elvira McDonald sem bæði voru fyrrverandi þrælar.
Seinna á ferli sínum varð Josephine þekkt undir nöfnunum "Svarta perlan", Kreóla-Gyðjan" "Ebony Venus" eða einfaldlega "La Baker" þar sem hún starfaði mest í frönskumælandi löndum. Hún varð fyrsta konan af afrísk-amerískum ættum til að fá aðalhlutverk í kvikmynd. En frægust varð hún fyrir söng og danssýningar sínar og fólk kepptist um að sjá og heyra í París og hvar sem hún fór um heiminn.
Josephine hætti í skóla þegar hún var 12 ára og fór þess í stað að vinna fyrir sér með dansi á götum úti. Leið hennar lá með sýningarhópi til New York og þar komst hún að sem aukamanneskja í helstu svörtu söngleikjum þeirra tíma.
Árið 1925 hélt hún til Parísar og varð þar strax fræg fyrir að koma fram í Théatre des Champs-Élysées þar sem hún dansaði erótískan dans að mestu nakin. Þetta var á sama tíma og Exposition des Arts Décoratifs sýningin var haldin í París sú er gaf okkur sérheitið Art Deco og í kjölfar hennar vaknaði mikill áhugi fyrir frumbyggjalist hverskonar, þ.á.m. afrískri. Að þessum áhuga féllu sýningar Josephine fullkomlega.
Á sýningum sínum hafði Josephine oft með sér demantaskreytt Blettatígur sem hún kallaði Chiquita. Fyrir kom að dýrið slapp frá henni og olli miklum usla meðal hljómsveitarmeðlimanna fyrir neðan sviðið.
Það leið ekki á löngu þangað til hún var langvinsælasti erlendi skemmtikrafturinn í París þótt heima fyrir hefði hún ætíð þurft að líða fyrir hörundslit sinn og ætterni.
Skáldið og kvennamaðurinn Ernest Hemingway kallaði hana " ...frábærasta kvenmann sem nokkru sinni verður augum litinn" .Hún lék í þremur kvikmyndum hinni þöglu Siren of the Tropics (1927), Zouzou (1934) og Princesse Tamtam (1935).
Lag hennar "J'ai deux amours" (1931) varð feykivinsælt og hún varð eftirsótt fyriræta af listamönnum á borð við Langston Hughes, Ernest Hemingway, F. Scott Fitzgerald, Pablo Picasso, og Christian Dior.
Hún var svo vinsæl að jafnvelþegar a Nasistar tóku Frakkland hikuðu þeir við að vinna henni mein. Hún notaði tækifærið og aðstoðaði neðanjarðarhreyfinguna við að smygla skjölum yfir til Portúgals. Hún var seinna heiðruð með Croix de Guerre og Légion d'Honneur orðunum af Charles de Gaulle, yfirhershöfðingja.
Þrátt fyrir vinsældir hennar í Frakklandi náði hún aldrei sömu hæðum í Bandaríkjunum. Þegar hún heimsótti föðurland sitt 1936 til að leika Ziegfeld Follies kolféll sýningin. Eitt sinn var hún stödd í matarboði og talaði þar jöfnum höndum frönsku og ensku með frönskum hreim. Þeldökk þjónustustúlka snéri sér að henni og sagði. "Honey, you is full of shit. Speak the way yo' mouth was born." Josephine lét reka hana.
Hún fékk slæma dóma fyrir sýningar sínar í Bandaríkjunum og New York Times gekk svo langt að kalla hana "negrakellingu". 1937 fór Baker til baka til Parísar, gifti sig þar Frakka að nafni Jean Lion, og sótti um franskan ríkisborgararétt sem hún fékk.
Hún neitaði að sýna hvar þar sem svartir og hvítir áhorfendur voru aðskildir eða svartir voru bannaðir eins og tíðkaðist víða í "fínni" klúbbum. Mótmæli hennar urðu til m.a. að reglum um aðskilnað í Las Vegas í Nevada var breytt.
Árið 1951, sakað Baker, Sherman Billingsley í Stork Clúbbinum í New York um kynþáttafordóma eftir að henni var neitað þar um þjónustu. Hin virta leikkona Grace Kelly sem var þar viðstödd hraðaði sér til hennar, tók í hendi hennar og sagðist aldrei mundu koma þar aftur, sem hún og efndi. Upp frá þessu atviki urðu þær góðar vinkonur og seinna þegar Baker var nær því gjaldþrota, kom Grace sem þá hafði gift sig Rainer Prins af Mónakó.
Baker starfaði talvert með og fyrir samtök blökkumanna í Bandaríkjunum. Hún hélt m.a. ræðu á frægri útisamkomu í Washington árið 1963 þar sem hún, íklædd "Frjálst Frakkland" einkennisbúningi sínum með orðurnar sínar á brjóstinu, var eini kvenkyns ræðumaður mótmælafundarins. Eftir morðið á Martin Luther King bað ekkja hans Coretta Scott, Baker um að taka að sér formennsku í hreyfingunni. Hún hafnað því boði eftir nokkra umhugsun á þeirri forsendu að börnin hennar væru of ung til að missa móður sína.
Árið 1966 var henni boðið af Fidel Castro að halda sýningu á Teatro Musical de La Habana í Havana á Kúbu. Sýning hennar þar setti aðsóknarmet sem enn hefur ekki verið slegið.
Árið 1973, fékk Josephine Baker loks verðugar móttökur í Bandaríkjunum þegar hún opnaði sýningu sína í Carnegie Hall.
Allar götur eftir að jafnréttisbaráttan hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum, studdi Josephine málstað svartra. Hún mótmælti á sinn hátt með því að ættleiða tólf börn af mismunandi kynþáttum og kallaði fjölskyldu sína Regnboga ættbálkinn.
Börn hennar voru Akio (sonur frá Kóreu), Janot (sonur frá Japan), Luis (sonur frá Kólumbíu), Jarry (sonur frá Finnlandi), Jean-Claude (sonur frá Kanada), Moïse (sonur af ættum franskra gyðinga), Brahim (sonur frá Alsýr), Marianne (dóttir frá Frakklandi ), Koffi (sonur frá Fílabeinsströndinni), Mara (sonur frá Venesúela), Noël (sonur frá Frakklandi ) og Stellina (dóttir frá Morkakó)
Um tíma bjó öll fjölskyldan saman í stórum kastala, Chateau de Milandes í Dordogne í Frakklandi. Baker fæddi sjálf aðeins eitt barn, sem þó fæddist andvana árið 1941.
Eiginmenn hennar voru fjórir en vafi leikur hvort hún giftist þeim öllu á löglegan hátt.
- Willie Wells (1919)
- William Howard Baker (1920-23)
- Jean Lion (1937-38)
- Jo Bouillon (hljómsveitarstjóri, 1947-57)
Þann 9. Apríl árið 1975 var haldin í París mikil hátíð þar sem Josephine Baker hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt. Meðal gesta á opnunarsýningin sem var kostuð af Rainier Prins, Grace Kelly og Jacqueline Kennedy Onassis, í yfirfullum sal í Bobino í París, voru fyrir utan kostendurnar, Sophia Loren, Mick Jagger, Shirley Bassey, Diana Ross og LIza Minnelli.
Tveimur dögum seinna fannst Josephine meðvitundarlaus liggjandi á sófa sínum í dagstofu heimilis síns í París með Dagblað í kjöltunni sem var fullt af lofsamlegum greinum um sýningu hennar. Hún hafði fallið í dá eftir heilablóðfall og lést á sjúkrahúsi 12. Apríl 1975, sextíu og átta ára að aldri
Í þessari grein er stiklað á stóru um feril og ævi Josaphine Baker. Heimildir eru m.a. fengnar af ýmsum vefsíðum sem finna má um hana ekki hvað síst héðan og héðan
Lífstíll | Breytt 28.7.2008 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.7.2008 | 22:42
Vinsælasti bloggari í heimi
Ég hef látið það vera fram að þessu að blogga um blogg eða aðra bloggara. Ég blogga heldur aldrei um fréttir enda fullt af kláru fólki í þeim bransa. En til að setja okkur íslenska bloggara í samhengi við það sem best gerist "út í heimi" langar mig að segja frá vinsælasta bloggaranum í veröldinni samkvæmt Heimsmetabók Guinness.
Hann heitir Yusike Kamiji og bloggar á Japönsku en þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvers eðlis aðdráttaraflið er, en Þið getið dæmt um það fyrir ykkur sjálf hér.
Tölurnar sem tengdar eru blogginu hans eru hreint ótrúlegar og komu honum í heimsmetabókina.
Flestar heimsóknir á dag; 230.755
Flettingar á dag; 5-6 millj. að meðaltali, komst hæst í 13.171.039 þann 12 Apríl s.l.
Þann 17. Apríl fékk hann 56.061 athugasemdir við eina færsluna.
Víst er að Japan sker sig úr mörgum löndum hvað varðar notkun bloggsins. Sjónvarpsstjörnur nota bloggið til að auglýsa þættina sína og framkomur í spjallþáttum o.s.f.r. Svo nota þeir tækifærin þegar þau gefast í sjónvarpinu til að minnast á bloggin sín.
25.7.2008 | 20:04
Hvers vegna er ég hommi?
Hvers vegna er ég hommi? Er ástæðan líffræðileg, félagsleg eða uppeldisleg. Þetta eru spurninginarnar sem John Barrowman leggur upp með að svara í klukkustundar löngum sjónvarpsþætti sem sýndur var í gær á BBC One.
Barrowman nokkuð þekktur sjónvarpsleikari meðal Breta og annarsstaðar þar sem þátturinn Torchwood er sýndur. Hann segist hafa vitað það frá níu ára aldri að hann væri hommi og langaði að fá að vita hvers vegna. Í sjónvarpsþættinum gengur John undir mörg mismunandi próf og kemst að því að heili hans starfar eins og kvenmanns og kynhvöt hans líka.
Eftir að hafa komist að því að ekki er uppeldislegum ástæðum til að dreifa og ekki genískum heldur, kemst hann að þeirri niðurstöðu að orsakir samkynhneigðar hans megi rekja til þess að hann á eldri bróður og að móður hans hafði misst fóstur (dreng) áður en hún átti John. Þetta kann að hafa valdið því að John fékk ekki nægt testosterone á meðgöngutímanum.
Rannsóknir sýna að samkynhneigð er 30% algengari hjá körlum sem eiga eldri bróðir eða bræður.
Ástæðan er sem sagt líffræðileg og hefur með hormónaflæði móðurinnar á meðgöngutímanum að gera. Líkur eru sagðar á að testosterone framleiðsla móðurinnar minnki á meðgöngu seinni sveinbarna og það geti haft þau áhrif að heili þeirra og kynhneigð þroskist eins og hjá kvenmönnum.
Ég veit ekki hversu marktækar niðurstöður Johns eru fyrir aðra homma en þær hljóta að gefa ákveðnar vísbendingar. Þessar niðurstöður vekja líka spurningar um hvort foreldrar (mæður) sem vilja eignast gagnkynhneigð börn, geti tryggt það með hormónagjöfum eftir að kyn barnsins hefur verið greint.