Færsluflokkur: Lífstíll
28.8.2008 | 07:23
Fimmtugur á morgunn - Til hamingu með daginn Michael Joseph Jackson
Hann er frægasti einstaklingur á jörðinni samkvæmt fjölda skoðanakannanna sem gerðar hafa verið á síðastliðnum árum.
Líklega finnst öllum niðurstöðurnar svo ótrúlegar, hvernig er öðruvísi hægt að skýra fjölda þessara kannanna.
Já frægastur allra lifandi í heiminum og frægastur allra sem lifað hafa, frægari en Kristur og Buddha, frægari en Drottningin eða Diana prinsessa.
Hann heitir Michael Joseph Jackson (f. 29. ágúst 1958)og verður fimmtugur á morgunn.
En samt vita afar fáir hvernig hann lítur út í dag. Andlit hans hefur tekið miklum breytingum í fjölda lýtaaðgerða og hann hefur þann sið að fela það með grímu, treflum eða bak við risastór sólgleraugu.
Fyrir nokkrum mánuðum gekk sá orðrómur að hann hefði hug á að flytjast til Englands frá Dubai, þar sem hann hefur átt heimili eftir að hann hrökklaðist frá búgarðinum og dýragarðinum sínum Neverland í kjölfarið þess að hafa verið sýknaður af ásökunum um barnaníð fyrir þremur árum.
Sagt var þá að hann hefði áhuga á að taka aftur upp samstarf við bræður sína þá Jermaine, Tito, Marlon og Jackie og endurreisa þar með Jackson five.
Sá orðrómur er nú að fullu niðurkveðinn, enda hefur komið í ljós að Michael hefur ekki talað við bræður sína síðan hann var sýknaður. -
Jafnframt fylgir sögunni að bræðurnir hafi gert sitt besta til að ná í Michael til að rukka hann um 840.000 dollara sem þeir segja hann skulda þeim í stefgjöld fyrir Jackson 5 tónlistina.
Búist er við að bræðurnir stigi allir á svið þegar þeir taka við viðurkenningu fyrir feril sinn á BMI Urban Awards samkomunni 4. sept. n.k. fyrir utan Michael að sjálfsögðu sem sagður er vera afar veikur og bundinn hjólastól um þessar mundir.
.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.8.2008 | 13:03
Flest Ólympíugull í 100 ár
Bretar eru alveg að springa úr monti þessa dagana. Í gær kom Ólympíuliðið þeirra til baka frá Bejiing með uppskeruna 19 gullpeninga, 13 silfur og 15 brons. Samtals 47 verðlaunapeningar, sem er besti árangur Breta á Ólympíuleikum frá því að þeir héldu sjálfir leikanna 1908. Liðið kom í þotu og hafði nef hennar verið gyllt í tilefni árangursins og í dag standa yfir hátíðahöld vítt og breytt um landið þar sem heimabæir Ólimpíustjarnanna hylla sínar hetjur.
Þegar litið er yfir gullverðlaunalista Breta kemur samt eitt í ljós sem ég er ekki viss um hvernig eigi að túlka. Gullverðlaunin eru langflest fyrir greinar þar sem setið er á rassinum eða legið á maganum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.8.2008 | 23:12
Skjaldbaka í hjólastól, Frú Dorrit og ný Ólympíugrein
Ótrúlegt en satt, hér getur að líta skjaldböku sem er útbúin hjólabúnaði sem hjálpar henni að komast um. Lömun í afturfótum olli því að hún komst hvorki lönd né strönd þangað til að aðstandendur dýragarðsins þar sem hún dvelst, smíðuðu handa henni "hjólastól". Hér er stutt myndband um skjaldbökuna sem ég fann á síðu National Geographics.
Myndin við hliðina er hinsvegar af lítilli borgarstjórnarskjaldböku sem er virkilega hægfara, af skiljanlegum ástæðum.
Þetta er auðvitað ekkert líkt græjunni sem skjaldbakan fékk en engu að síður flott. Svona ætla ég að fá mér þegar þar að kemur. Eiginlega er ég að vona að þeir taki það upp að keppa á svona tækjum og þá mundi ég byrja að æfa fyrir næstu Ólympíuleika
Og svo eitt í viðbót, eiginlega svona PS við alla Ólympíuleikaumfjöllunina. - Ég skil ekki fólk sem er að fetta fingur út í framkomu Dorritar forsetafrúar þegar hún var að fagna sigrunum yfir Pól eða/og Spánverjum.
Mikið hvað fólk getur verið forpokað að finnast hún ekki "virðuleg" og ásaka hana jafnvel um að "snobba niður fyrir sig".
Hefði verið betra að sjá hana hrista skartgripina upp í stúku eins og allt þetta konungborna lið gerir sem er svo virðulegt að það kúkar marmara.
Hún var ekki kosinn af okkur til neins, Ólafur kaus hana, fyrir konu og áður en hún giftist Ólafi var hún þegar kunn og mikilsmetin heimskona sem kunni sig við hvaða aðstæður sem var. Hvers vegna ætti hún að þykjast vera eitthvað annað en hún er bara af því að einhverjir Íslendingar eru vanir því af fyrirfólki sínu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2008 | 10:03
Dr. Phill skýrir ástæðurnar fyrir tapi Íslendinga
Dr. Phill sem staddur er í Frakklandi og fylgdist með leik Íslendinga og Frakka í sjónvarpinu þar, hringdi núna skömmu eftir að leiknum lauk og sagðist ætla að beita sér fyrir því að Bretar eignist alvöru handboltalið sem geti tekið þátt á næstu Ólympíuleikum sem verða haldnir í London 2012. Handbolti væri svo skemmtileg íþrótt þótt hann skildi ekkert í því hvers vegna völlurinn væri svona illa nýttur. Helmingur hans væri venjulega auður fyrir utan markmanninn í hverri sókn.
Hann sagðist senda Íslendingum hamingju óskir með silfurverðlaunin og um leið samúðarkveðjur vegna þess að þeir misstu af gullinu. Ástæðurnar fyrir tapinu sagði hann augljósar eftir að hafa kynnt sér málvöxtu; Af því bara.
24.8.2008 | 07:09
Dr. Phill segir augljóst hverjir vinni leikinn á eftir.

Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.8.2008 | 13:33
Verður þjóðin ánægð með silfrið, ef...?
Ef ég þekki landann rétt, er erfið nótt framundan hjá allri þjóðinni. Jafnvel þótt menningarnótt í Reykjavík fái sumt fólk til að gleyma um stund eftirvæntingunni og þeirri hugsun að Kaleikurinn helgi er innan seilingar. Við dagrenningu á Íslandi munu sextán ungir íslenskir piltar hefja lokaorrustuna út í Bejiing um gullverðlaunin fyrir handknattleik á Ólimpíuleikum.
Mótherjar þeirra koma frá þjóð sem telur um 65 milljónir íbúa og þar sem fleiri iðka handbolta en öll íslenska þjóðin telur. Þeir koma frá voldugri menningarþjóð sem á langa og stolta sögu af landvinningum og afrekum á sviðum bókmennta og lista, jafnt sem íþrótta.
Nú þarf íslenska þjóðin sem sé að taka ákvörðun um ýmislegt. Fyrst, hvort eigi að vaka alla nóttina þar til leikurinn hefst, eða fara snemma að sofa til að vakna eldhress klukkan fimm til að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu.
Síðan þarf að ákveða hvernig bregðast skal við úrslitum leiksins.
Ef kaleikurinn helgi fellur ÍSLANDS megin, verður mikið um dýrðir hjá öllum, hvort sem þeir hafa áhuga á handbolta eða ekki. Að vinna Ólympíugull er nefnilega ekkert smá mál fyrir dvergþjóð eins og íslendinga. Ef slíkt gerist, verður það sigur hins auðmjúka Davíðs (strákanna) yfir Golíat (les Experts). Þá munu tárin renna af stolti af ungum jafnt sem öldnum hvörmum og eftir ærandi fagnaðarlæti og dans á götum úti (framlengd menningarnótt í Rvík) mun andi værðar og friðar færast smá saman yfir þjóðina. Við munum bíða heimkomu hetjanna með stóískri ró og hugleiða stöðu okkar fyrir framtíðina.
En ef það verður ekki krossfáninn sem blaktir í miðju við verðlaunaafhendinguna og Guðs vors lands verður ekki á vörum strákanna, mun andrúmsloftið vrða ögn vandræðalegra. Jú þeir stóðu sig frábærlega, en þeim árangri höfum við þegar fagnað (í huganum) því annað sætið var öruggt fyrr fram, tryggt með sigri liðsins yfir Spánverjum. Að auki hafa íslendingar unnið áður til silfurs á Ólympíuleikum. Auðvitað munum við taka vel á móti "strákunum" en á bak við dempaða gleðina mun líklega glitta í eftirsjána eftir því sem hefði getað gerst, ef, ef, ef og ef.
20.8.2008 | 16:08
Smáhestarnir á Dartheiði
Íslendingum finnst heldur óviðeigandi þegar þeir heyra enskumælandi fólk kalla íslenska hestinn "pony." Hér í suðvesturhluta Englands er að finna smáhesta-kyn á stærð við það íslenska og er það kennt við Dartmoor. Ekki dettur nokkrum manni í hug að kalla þá "hesta" og eru flestir hreyknir af því að geta enn kallað þá "Ponies".
Í grennd við Dartmoor (heiðlendi) voru fyrrum miklar tinnámur og voru Dartmoor smáhestarnir sérstaklega ræktaðir á miðöldum til að bera þungar klyfjar úr námunum. Námurnar voru pyttir og það þurfti smá og um leið harðger burðadýr til að komast upp úr pyttunum með þungar byrðar. Á árunum 1789 - 1832 reyndu menn að gera kynið enn smávaxnara með því að blanda kynið smáhestum frá Shettlandi með það fyrir augum að búa til hinn fullkomna pytthest.
Eftir að námurnar lögðust af voru hestarnir nokkuð notaðir við bústörf en flestum var sleppt lausum á heiðina. Á síðustu öld blönduðust Dartmoor smáhestarnir allmikið öðru kyni, þar á meðal Fell-smáhestum sem eru frá Norður Englandi og jafnvel arabísku og welsku blóði.
Eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk jókst áhuginn á þessu sérstaka smáhestakyni en þá var svo komið að afar fáir hestar fundust sem talist gætu óblandaðir. Upp úr 1950 fór þeim samt aftur að fjölga og eru nú taldir vera um 5000 talsins.
Dartmoor smáhestarnir eru svipaðir á hæð og þeir íslensku (11.1-12.2 hh) og eru bleikir, brúnir, svartir eða gráir á lit.
Taminn er hann einkum notaður sem æfingahestur fyrir börn en einnig af fullorðnum til veiða og útreiða.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2008 | 07:16
Æskan í einum hnút
Inkar tileinkuðu sér þá tækni að geyma sögu sína í hnútum. Þetta hnútaletur er afar torráðið og enginn skilur það í dag. Til eru mörg hnútaknippi sem geyma sögu Inkanna og bíða þess tíma að einhver snillingur höggvi á gátuna eða finni Rósettastein hnútanna.
Æska mín er eins og hnútur. Um leið og ég losa um hann rennur sá tími upp fyrir mér eins og þræðir sem liggja í allar áttir og lokast jafn hraðan um leið og ég herði aftur að.
Æskan var alheimur sem stjórnað var af órjúfanlegum lögmálum og konstöntum. Lífið var hrikalega spennandi þrátt fyrir konstantanna því það var verið að þýða rit sem fundust við dauðahafið sem mundu varpa nýju ljósi á allt og þegar höfðu fundist 2000 ára leirker í Bagdad sem voru reyndar rafhlöður sem notaðar voru til að gull og silfurhúða aðra minna verðmætari málma. Að auki var svo til 1500 ára gömul risastór járnsúla í Indlandi sem ekki ryðgaði.
Í alheimi æskunnar hafði allt sinn tíma og allir sinn stað. Afi vann í efnalauginni, Amma í Apótekinu (aldrei skorti apótekara eða saltpillur), Mamma van heima og Pabbi í frystihúsinu. Höfnin iðaði af fiski og fólki sem var á leiðinni í Litlu eða Stóru milljón, Jökul, Atlandor, eða HF. Eyfi var í íþróttahúsinu og heimtaði alltaf að allir tækju kalda, Búkki í musterinu sem kallað var bókasafn, Hermann var skólastjóri sem þú sást bara tvisvar á ári, við setningu og þegar hann kom í stofuna á litlu jólunum til að líta á töfluskreytinguna. Kristján skalli var kennari og Jósafat rak Kyndil þar sem leikarabúntin voru seld og grímurnar fyrir gammárskvöld.
Bubbi rak Nonna og Bubba, Hafsteinn sá um UMFK, Siggi Steindórs um KFK og Helgi S. um skátana. (Því var hvíslað að hann hefði verið Nasisti og við lágum oft í leyni að reyna sjá hann gegnum gluggana heima hjá honum marsera um gólf í Nasista-búninginum en tókst það aldrei)
Svínó og Mánavöllur voru alltaf uppteknir, á vetrum var skautað upp á vötnum, Kiddi seldi fisk, Sölvi og Kæja í Sölvabúð, Þórður á Dorró og Bjössa og Félagsbíó voru bæði opin á hverjum degi.Heima hjá kanastrákum mátti horfa á sjónvarpið og þar var Vic Morrow úr Combat með beygluðu sígarettuna svalastur. Næstur á eftir honum var Popeye.
Alþýðubrauðgerðin seldi maltbrauð, Amma Jóns bakaði flatkökur og Diddi bíló var almesti töffarinn. Eitt sinn kom hann inn á Dorra, klæddur rauðum gallajakka og í þröngum hvítum gallabuxum, tók upp litla skammbyssu og miðaði henni á afgreiðslustúlkuna. Einn Palmal, sagði hann skipandi. Stelpan var að míga á sig af hræðslu. Hún setti pakkann á borðið. Diddi , tók hann með annarri hendi, reif hann upp með tönnunum án þess að sleppa miðinu af stelpunni, slóg eina sígarettu upp úr pakkanum og greip hanna með öðru munvikinu. Svo hleypti hann af skammbyssunni og fram úr hlaupinu stóð loginn, sem hann notaði til að kveikja sér í sígarettunni. Hvað er það mikið spurði hann svo.
Pollarnir í bænum voru djúpir og cupachino brúnir, allstaðar risu stillansar upp við við nýbyggingar og allir voru með einhverskonar dellu. Það var leikaradellan, þar sem Bonansa serían var lengst og verðmætust og Logi Þormóðs átti hana alla , hasarblaða della, þar sem Combat blöðin ofan af velli voru vínsælust og Andrés Önd var fyrirlitin, Parísardella þar sem flugbeittum skátadálkum var kastað í stóra-parís, yfir, (stjórnað af stelpum) servéttudella sem bara stelpur höfðu, Cowboy della ala Roy, og skylmingardella ala Prins Valíant og sunddella ala Guðmundur Harðar. Hjóladella, kassabíladella, kastaladella, trukkadella og brennudella, (saltpétur og sykur). Síðan mátti á milli áhugamálanna stelast upp á flugvélahauga eða völl til að kaupa sugardaddy sleikjóa í sjálfsölunum sem voru náttúrulega toppurinn. Grjótharður karamelluhlunkur sem sem var á við 20 haltu kjafti karamelur.
Fótbolti var ekki della, heldur lífsmáti, þess vegna telst hann ekki með. Á sumrum var spilað frá 10 til 10. Á vetrum var teikað og farið upp á vötn að skauta. Gísli Torfa teikaði víst einu sinni Sandgerðishringinn.
En almesta dellan var hljómsveitardellan. Hún greip um sig eftir að Hljómar urðu frægir. Ég spilað lengi (a.m.k. í tvær vikur) í hljómsveit með Sigga svarta, Jóni bæjó og Bjössa á Sunnubrautinni. Við fengu að æfa, a.m.k. einu sinni á græjurnar hjá Óðmönnum niðrí Ungó og við spiluðum tvisvar opinberlega. Í fyrra sinnið í pásu hjá Bendix á balli upp í Æskulýðsheimili, og seinna hjá Ómönnum sem spiluðu á árshátíð skólans. Í hvorugt skipti tókst okkur að halda lagi en það var í góðu lagi því við vorum í hljómsveit.
Veröldin var í föstum skorðum og allt sem gat, endaði á ó.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.8.2008 | 18:33
Kjólar
Í gær fór ég að skoða kjólasýningu. Ég hitti líka náungan sem stóð fyrir sýningunni á kjólunum en hann heitir Andrew Hansford. Hann var fjallhress og hýr og hafði frá mörgu að segja. Flestar af sögum hans gefðu sómt sér vel í slúðurblöðunum fyrir 50 árum.
Þessir kjólar áttu það sameiginlegt að vera hannaðir af einum frægasta kjólameistaranum í Hollywood William Travilla,en Andrew hafði kynnst honum og fengið hann til að lána sér kjólana til að sýna vítt og breytt um heiminn til styrktar Alzheimer sjúklingum. Kjólarnir höfðu á sínum tíma klætt nokkrar helstu kvikmyndastjörnur síðustu aldar. Þeirra frægust var á efa Marilyn Monroe. En þarna var líka að sjá kjóla sem hannaðir voru fyrir Judy Garland, sem Susan Hayward síðar klæddist í frægri kvikmynd Valley of the Dolls og en aðrir voru gerðir fyrir Betty Grable.
Hvíti kjóllinn úr kvikmyndinni "Sjö ára kláðinn" 7 Year Itch 1955) er sjálfsagt frægastur allra kvikmynda-kjóla gerður fyrir Marilyn Monroe. Þar var reyndar um eina þrá kjóla, mismunandi stutta, að ræða, en á sýningunni var að sjá "eftirlíkingu" af honum þar sem Debbie Reynolds eigandi kjólsins leyfði ekki sýningu á honum utan Bandaríkjanna.
Allir aðrir kjólar voru "ekta" og sumir hverjir svo gamlir að þeir héngu varla saman. Þarna voru kjólarnir úr kvikmyndinni Gentlemen Prefer Blondes (1953) þar á meðal Gullkjóllinn sem er gerður úr einum efnisbút, handgiltur og einn af uppáhalds kjólum Marilynar. Bleiki satín kjóllinn úr frægri danssennu kvikmyndarinnar Diamonds are a girls best friend var þarna svo og rauði sequin kjóllinn sem hún klæddist í opnunaratriðinu með Jane Russell.
Fjólublái kjóllinn úr How to Marry a Millionaire (1953),er úr satini og með sequin undirkjól, sem kemur fyrir í fantasíusenunni frægu úr sömu kvikmynd. Þá voru þarna kjólar sem Marilyn hafði klæðst utan kvikmyndaveranna, sumir með vínslettunum enn í sér.
Það var varla til stjarna á sjötta áratugnum sem Travilla sá ekki einhvern tíman um að klæða. Jane Russell, Joan Crawford og Marlene Dietrice voru meðal þeirra. Hann vann Óskarsverðlaun fyrir fatnað Errols Flynn í Don Juan. Þegar að "gullöldinni" í Hollywood lauk vann hann mikið fyrir sjónvarp, þ.á.m. sá hann um klæðnað stór-stjarnanna í sjónvarpsþættinum Dallas.
Á sýningunni mátti einnig sjá snið og teikningar frá Travilla. Sniðin voru úr gulnuðum pappír og minntu mig á saumaherbergi móður-ömmu minnar Sigurborgar sem var afar góð saumakona og saumaði m.a. á mig öll fyrstu fötin sem ég gekk í.
10.8.2008 | 10:15
Ólympíuleikarnir í Aþenu 1896
Fyrstu endurreistu Ólympíuleikararnir voru eins og kunnugt er haldnir í Panaþeníu leikvanginum í Aþenu árið 1896. Þá voru liðin 1503 ár frá því að síðustu Ólympíuleikar voru haldnir. 80.000 áhorfendur sóttu leikana sem voru settir á mánudagsmorgun eftir páska þann 6. Apríl. Á nýju leikunum var aðeins keppt í níu greinaflokkum en fjöldi keppenda var 311 frá 13 löndum. Grikkir voru lang-fjölmennastir eða 230.
Allir keppendur voru karlar því konum var ekki leyft að taka þátt í Ólympíuleikum fyrr en á öðrum leikunum í París árið 1900. Á fyrstu leikunum var enginn ólympíukindill og það var ekki fyrr en í Amsterdam 1928 að hann notaður og ekki tíðkaðist að hlaupa með hann um götur fyrr en 1936 í Berlín.
Fyrsti Ólympíumeistarinn sem var krýndur á leikunum í Aþenu var grikkinn Leonidas Pyrgos og hlaut hann gullverðlaun fyrir skylmingar. Hann var borinn um götur Aþenu á háhesti og hylltur af fjöldanum.
Í Aþenu var í fyrsta sinn keppt í maraþonhlaupi. Sigurstranglegastur var talinn frakkinn Albin Lermusiaux sem digurbarkalega hafði lýst því yfir að enginn af hinum 12 þátttakendunum mundi hafa roð í sig. Einn þátttakendana var grískur bóndi sem hét Louis Spyridon.Viðurnefni hans var "vatnsberinn" þar sem hann hafði vatnsburð að aukastarfi og af því að hann þjálfaði sig með því að hlaupa um með fötur fullar af vatni. Hlaupið lá m.a um þorpið Pikermi og þar staldraði Lois við og fékk sæer vínsopa. Hann kvaðst engar áhyggjur hafa af hinum hlaupurunum því hann mundi fara fram ú þeim öllum áður en yfir lyki. Eftir 32 km. gafst Albin hinn franski upp, örmagna af þreytu. Um tíma leiddi Ástralinn Teddy Flack hlaupið, en svo fór á endanum að hann gafst upp líka og Louis tók forystuna.
Þegar að það fréttist að Louis hafði tekið forystu í hlaupinu, byrjaði áhorefndaskarinn að hrópa Hellene, Hellene. Hann kom lang-fyrstur í mark (tími hans var 2:58:50) og grísku prinsarnir; Konstantín og Georg þustu inn á leikvanginn og hlupu með honum síðasta hringinn.
Louis hafði á meðan hlaupinu stóð innbyrt, vín, mjólk, bjór, egg og appelsínusafa. Við sigur hans brutust út mikil fagnaðarlæti og hann var hylltur á marga lund. Sagt er að konungur hafði boðið Louis að þiggja af sér hvað sem hann ósakaði sér og að Louis hafi beðið hann asna og kerru til að auðvelda sér vatnsburðinn.
Fagnaðarlætin urðu ekki minni þegar að tveir næstu hluparar til að koma í mark, voru líka grikkir. Reyndar var sá þriðji dæmdur úr leik þegar í ljós kom að hann hafði tekið sér far með hestvagni hluta leiðarinnar og þriðja sætið var dæmt ungverjanum Gyula Kellner.
Louis var verðlaunaður í bak og fyrir af löndum sínum. Hann fékk að gjöf skartgripi og frýja klippingu ævilangt hjá rakara einum. Hvort hann nýtti sér það er ekki vitað en hann snéri aftur í þorpið sitt með nýja kerru og keppti aldrei aftur í hlaupi af nokkurri tegund. Hann hélt áfram að vinna fyrir sér sem bóndi og vatnsberi og seinna sem lögreglumaður þorpsins.
Árið 1926 var hann samt handtekinn og sakaður um að hafa falsað gögn um herþjónustu sína. Hann sat í fangelsi eitt ár en var síðan sýknaður af öllum sakargiftum. Sú uppákoma olli miklu fjaðrafoki í Grikklandi á sínum tíma, eins og von var.
Louis kom síðast fram opinberlega á sumarleikjunum í Berlin 1936. Honum var boðið þangað sem fánabera fyrir gríska liðið og tók við ólívugrein frá Ólympíufjalli úr hendi Adólfs Hitlers sem friðartákni.
Louis lést nokkrum mánuðum áður en Ítalir réðust inn í Grikkland. Fjölmargir leikvangar í Grikklandi og öðrum löndum eru nefndir eftir honum, þ.á. m. Ólympíuleikvangurinn í Aþenu þar sem leikarnir voru haldnir 2004.
Lífstíll | Breytt 11.8.2008 kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)