Færsluflokkur: Dægurmál
23.5.2009 | 22:08
Margraddaður söngur Svansa
Hæstu mannabyggðir í Evrópu er að finna í norð-vestur Georgíu, nánar til tekið á hálendissvæði sem kallað er Svanatía. Fjóra af hæstu tindum Kákasusfjalla er að finna í héraðinu sem byggt er af fornum ættbálki sem kennir sig við hálendið og nefnist Svansar.
Tungumál þeirra kallast svaníska og er hluti Kartvelískri málísku þeirri er Mingreliar og Lazar (einnig minnihlutahópar í Georgíu) mæla á. Þrátt fyrir að talið sé að Svansar séu rúmlega 30.000, hefur tunga þeirra farið halloka fyrir georgísku og nú er áætlað að almennt tali svanísku aðeins 2500 manns.
Svansar eiga sér glæsta sögu og fyrst er a þá minnst af gríska sagnfræðingnum Strabo. Gullöld þeirra var þegar hin sögufræga drottning Tamar réði Geogíu (1184 - 1213) en þá studdu Svansar hana dyggilega og fylltu raðir riddara hennar. Þeir færðu henni marga frækna sigra enda orðlagðir fyrir að vera öflugir stríðsmenn. Þegar að Mongólar lögðu að mestu undir sig Georgíu nokkrum árum eftir dauða Tamar, náðu þeir aldrei að sigra Svanatíu. Héraðið varð að griðastað fyrir alla þá sem ekki vildu lúta yfirráðum þeirra.
Þrátt fyrir harða andspyrnu náðu Rússar að innlima Svanatíu í ríki sitt árið 1876.
Seinna þegar rússneska byltingin var gerð reyndu Svansar enn að brjótast undan yfirráðum þeirra með blóðugri andbyltingu árið 1921, en hún var kveðin niður.
Eftir að Sovétríkin liðuðust sundur hafa Svansar tilheyrt Georgíu en tilvisst þeirra er ógnað sökum tíðra snjóflóða og aurskriða. Á allra síðustu árum hefur fjöldi Svansa flutt af hálendinu og niður í borgir Georgíu.
Svansar tilheyra Georgísku réttarúnarkirkjunni og tókst að viðhalda menningu sinni óbreyttri í gegnum aldirnar.
Þeir voru og eru enn hallir undir blóðhefnd, jafn vel þótt lög landsins banni hana. Þeir halda sig við smáar fjölskyldur þar sem faðirinn ræður lögum og lofum, en hafa jafnframt í heiðri eldri konur hennar. Sagt er að sú hefð eigi rætur sínar að rekja til Tamöru drottningar sem Svansar tóku nánast í guðatölu.
Framar öllu öðru hefur tungumál og menning Svansa verið varðveitt í söng þeirra og kveðskap. Hinn fjölraddaði Georgíski karlasöngur, gerist ekki flóknari en sá sem úr börkum Svansa kemur. Hér að neðan er hægt að hlusta á sýnishorn af svansneskum söng og í leiðinni hægt að skyggnast um í Svanatíu.
Dægurmál | Breytt 24.5.2009 kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.5.2009 | 16:45
Svanir á Avon á
Í gegnum miðja borgina Bath á Englandi rennur áin Avon. Avon þýðir reyndar "á" á keltnesku en líklega voru það Rómverjar sem festu þetta heiti við ána í sessi og það er í sjálfu sér auðvelt að ímynda sér hvernig það gerðist. Bókstaflega þýðir fyrirsögnin því; Svanir á á á.
Þar sem ég bý svo til á árbakkanum eru gönguferðir mínar oftast meðfram ánni. Áin er lygn og í henni er að finna fjölda skipastiga sem gera skurðabátum mögulegt að sigla um hana. Skurðabátar þessir sem áður fyrr voru helstu vöruflutningatæki þessa svæðis, eru nokkuð vinsælir sem fastabústaðir og liggja því summir hverjir bundnir við bakkann allt árið.
Fyrir nokkrum vikum veitti ég athygli svanapari sem var í óða önn að byggja sér hreiður við árbakkann, spölkorn frá íbúðinni minni.
Í heiðrið verpti frúin fimm eggjum. Nokkrum dögum seinna missti hún eitt þeirra út fyrir hreiðrið og það festist milli greinanna sem þau höfðu hrúgað saman til að vera undirstöður hreiðursins.
Þrátt fyrir mikið bras og óteljandi tilraunir tókst þeim hjónum ekki að bjarga egginu upp í hreiðrið aftur. En fjögur egg eru eftir og nú bíð ég, eins og þau væntanlega líka, spenntur eftir að þau klekist út en það getur tekið allt að einn og hálfan mánuð er mér sagt.
Eins og svana er siður, svamlar karlfuglinn í kringum hreiðrið og sest sjálfur á eggin þegar frúin þarf að bregða sér frá. Ég smellti þessum myndum af frúnni í dag. Hún var allt of upptekin við að snyrta sig og veitti mér litla athygli. Aldrei þessu vant var karlinn hvergi nærri. Vona að ekkert alvarlegt hafi komið upp á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2009 | 01:02
Bob Dylan "The words are a stolen"
Þegar að Bob Dylan var 16 ára (1957) sendi hann ljóð sem hann sagði vera eftir sjálfan sig til birtingar í blaði sem gefið var út af sumarbúðum fyrir drengi. ( Herzl Camp in Webster,Wis)
Ljóðið heitir "Little Buddy og hefur oft verið tekið sem dæmi um snilli Dylans sem skálds, jafnvel á unga aldri. Frumritið af ljóðinu á að selja í næstu viku á uppboði og er vonast til að fyrir það fáist allt að 10.000 dollarar en það eru Herzl sumarbúðirnar sem eiga frumritið.
Nú hefur komið í ljós að "ljóðið" er að mestu leiti sönglagatexti eftir kanadíska sveitalagasöngvarann Hank Snow sem hann gaf út á plötu 11 árum áður en Dylan sendi inn "ljóðið sitt" til Lisu Heilicher sem þá var 16 ára og ritstjóri búðablaðsins. (Lisa varðveitti frumritið í 50 ár og lét það búðunum eftir nýlega til að afla því fé.)
Hér getur að líta "ljóð Dylans" og svo texta Hanks (d.1999) til samanburðar .
"Little Buddy
eftir Dylan
Broken hearted and so sad
Big blue eyes all covered with tears
Was a picture of sorrow to see
Kneeling close to the side
Of his pal and only pride
A little lad, these words he told me
He was such a lovely doggy
And to me he was such fun
But today as we played by the way
A drunken man got mad at him
Because he barked in joy
He beat him and hes dying here today
Will you call the doctor please
And tell him if he comes right now
Hell save my precious doggy here he lay
Then he left the fluffy head
But his little dog was dead
Just a shiver and he slowly passed away
He didnt know his dog had died
So I told him as he cried
Come with me son well get that doctor right away
But when I returned
He had his little pal upon his knee
And the teardrops, they were blinding his big blue eyes
Your too late sir my doggys dead
And no one can save him now
But Ill meet my precious buddy up in the sky
By a tiny narrow grave
Where the willows sadly wave
Are the words so clear youre sure to find
Little Buddy Rest In Peace
God Will Watch You Thru The Years
Cause I Told You In My Dreams That You
Were Mine
Little Buddy
eftir Hank Snow
Broken hearted and so sad, golden curls all wet with tears,
'twas a picture of sorrow to see.
Kneeling close to the side of his pal and only pride,
A little lad these words he told me.
He was such a lovely doggie and to me he was such fun,
but today as we played by the way
A drunken man got mad at him because he barked in joy,
He beat him and he's dying here today.
Will you call the doctor please and tell him if he comes right now,
he'll save my precious doggie 'cause I'll pray.
Then he stroked the fluffy head but his little pal was dead,
Just a shiver and he slowly passed away.
He didn't know his dog had died, so I told him as he cried
"Come with me son we'll get that doctor right away"
"But I can't leave him here alone, I must get my doggie home
So while you're gone I'll kneel beside him, sir and I'll pray."
But when I returned he had his little pal upon his knee
And the teardrops they were blinding his big blue eyes,
"You're too late, sir my doggie's dead and no help can save him now
But I'll meet my precious Buddy up in the sky."
By a tiny narrow grave, where the willows sadly wave,
are these words on a shingle of pine:
"Little Buddy rest in peace, God will watch you thru' the years,
'Cause I told Him in my prayers that you were mine."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2009 | 11:56
Aðvörun
Þegar ég verð gömul kona mun ég klæðast fjólubláu
við rauðan hatt sem ekki passar og fer mér ekki.
Og ég mun eyða lífeyrinum í koníak og sumarhanska.
Og satín sandala og segja að engir peningar séu til fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast niður á gangstéttina þegar ég er þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja viðvörunarbjöllum
og renna prikinu mínu eftir grindverkinu
og bæta mér upp hversu stillt ég var í æsku.
Ég ætla út í rigninguna á inniskónum
og tína blóm úr görðum annars fólks
og læra að hrækja.
Þú getur klætt þig í hræðileg pils og fitnað meira
og þú getur borðað þrjú pund af pylsum í einu
eða bara brauð og súra gúrku í viku
og safnað pennum og blýöntum, glasamottum og hlutum í boxum.
En núna verðum við að klæðast fatnaði sem heldur okkur þurrum
og borga leiguna og ekki bölva úti á götu
og setja börnunum gott fordæmi.
Við verðum að bjóða vinafólki í mat og lesa blöð.
En kannski ætti ég að æva mig dálítið núna?
Svo fólk sem þekkir mig sjokkerist ekki og undrist
Þegar ég allt í einu verð gömul og byrja að klæðast fjólubláu.
Jenny Joseph
Jenny Joseph (f. 1932) er ensk skáldkona. Ljóðið hennar "Aðvörun" sem ég tók mér það bessaleyfi að snúa á íslensku og birta hér að ofan, (ekki af tilefnislausu) var árið 1996 kosið vinsælasta ljóðið sem samið hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina í Bretlandi. Fyrir kosningunni stóð BBC.
Ljóðið hefur haft mikil áhrif á konur um allan heim og í Bandaríkjunum var t.d. stofnaður Rauðhatta-klúbbur kvenna sem koma saman til að drekka te í fjólubláum kjólum og með rauða hatta.
Hugmyndin að Rauðhattaklúbbnum kviknaði þegar Sue Ellen las ljóðið Warning" eftir Jenny Joseph sem segir frá eldri konu sem klæðist fjólubláum fötum og ber rauðan hatt. Ljóðið hreif Sue Ellen svo að hún ákvað að gefa vinkonu sinni ljóðið ásamt rauðum hatti í afmælisgjöf. Vinkonan varð einnig svo hrifin að hún gaf fleirum sömu gjöf og svona hélt þetta áfram. Einn daginn ákveður þessi hópur að hittast í fullum skrúða, það er að segja í fjólubláum fötum sem passa alls ekki við rauða hattinn og það varð ekki aftur snúið. Rauðhattaklúbburinn varð til.
Sue Ellen Cooper stofnaði Rauðhattaklúbbinn árið 1998 og í dag eru Rauðhettir í Bandaríkjunum og Kanada að nálgast hálfa milljón og klúbburinn er byrjaður að skjóta rótum í Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.5.2009 | 03:37
Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?
Hversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.
Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.
Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu sem er ungt.
Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim." - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.
Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.
Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.
Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn. Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"
Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.
Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar.
18.5.2009 | 23:41
Elur sitt fyrsta barn 66 ára gömul
Þessi kona heitir Elizabeth Adeney. Hún er sextíu og sex ára, einstæð og eins og sést á þessari nýlegu mynd, kasólétt. Elizabeth sem er ógift og vinnur sem millistjórnandi í stóru fyrirtæki í Lidgate í Suffolk, mun ala barn sitt (son segja heimildir) í næstu viku ef allt fer eftir áætlun, aðeins fáeinum vikum fyrir 67. afmælisdag sinn. Elizabeth verður þá elsta kona sem alið hefur barn í Bretlandi.
" Það skiptir mig engu máli hvort ég verði elsta mamman í landinu. Það er ekki líkamlegur aldur sem skiptir máli, heldur hvernig mér líður inn í mér. Stundum finnst mér é sé 39 ára og stundum eins og ég sé 56." er haft eftir hinni fráskildu og fram að þessu barnlausu Elizabeth.
" Ég er fullkomlega fær um að sjá um mig sjálf þótt ég ég sé einstæð og eigi enga nákomna að. Það hef ég gert í mörg ár. Þetta verður bara ég og barnið mitt. Ég veit að það er fullt af fólki sem ekki mun skilja þetta, en mér er sama"
Elizabeth varð ófrísk eftir að hún hafði gengist undir gervifrjóvgun í Úkraínu. Í Bretlandi er konum yfirleitt neitað um slíka meðferð er þær eru eldri en fimmtugar.
8.5.2009 | 19:18
Lögmál Lavers
James Laver (1899-1975) hét maður sem lagði fyrir sig ritstörf og sagnfræði, aðallega í Bretlandi. Sérsvið hans var tíska og fatnaður. Hann átti mikinn þátt í að gera rannsóknir á búningum og klæðnaði í aldanna rás að virtri fræðigrein.
Í merkustu bók hans; In Taste and Fashion setti hann fram kenningu um hvernig almenningur bregst við tískufatnaði. Kenning hans er stundum kölluð lögmál Lavers og er einhvern veginn svona;
Tískufatnaður er álitinn;
Ósæmilegur, tíu árum áður en tími hans er kominn
Skammarlegur, fimm árum áður,
Vogaður, einu ári áður
Flottur ----------------------------
Vafasamur, einu ári síðar
Hræðilegur, 10 árum síðar
Fáránlegur, 20 árum síðar
Skemmtilegur, 30 árum síðar
Sérstakur, 50 árum síðar
Heillandi, 70 árum síðar
Rómantískur, 100 árum síðar
Fallegur, 150 árum síðar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 14:49
Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?
Auðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)
Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.
Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.
Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.
Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.
Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.
Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi.
Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.
![]() |
Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.
"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2009 | 11:48
Sagan í hausnum
Hausmyndin mín er máluð af tveimur kínverskum listamönnum og gerð í stíl ítalskra endurreisnarmálara. Á henni er a finna 100 frægar persónur úr mannkynssögunni auk listamannanna sjálfra. Til skamms tíma var hausmyndin á blogginu mínu mín tekin innan úr þessari mynd en sett inn í fullri stærð fyrir viku.
Með því að smella á myndina hér fyrir neðan og síðan aftur á myndina sem þá birtist, færðu upp stækkaða mynd þar sem öll smáatriði koma greinilega fram. Þú getur athugað hversu margar persónur þú telur þig þekkja á myndinni.
Ef þær eru færri en 20 er komin tími til að þú rifjir lítillega upp mannkynssöguna. Ef Þú kannast við 20-60 ertu gjaldgengur í hvaða spurningakeppni sem er og ef þú þekkir 61-100 ertu snillingur. Ef þú þekkir nöfn allra þeirra 102 andlita sem á verkinu sjást ertu annar þeirra sem málaðir verkið.
Þegar þú ert búin að spreyta þig á kunnáttu þinni getur þú fengið allar upplýsingar um hverjar þessar persónur eru, með því að færa bendilinn yfir andlit þeirra á myndinni sem er að finna HÉR
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.4.2009 | 18:07
Dansar þú 1.maí?
Árþúsundum áður en þing evrópskra verkalýðsfélaga sem haldið var í París árið 1889 samþykkti tillögu Frakka um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks, var dagurinn almennur frídagur og hátíðisdagur víðast hvar í Evrópu.
Gamla keltneska tímatalið gerði ráð fyrir fjórum jafnlöngum árstíðum og samkvæmt því hófst sumar 1. maí. Með auknum umsvifum og landvinningum Rómverja í mið og norður hluta álfunnar, blandaðist 1. maí hátíðarhöldin rómversku hátíðinni Floralíu sem tileinkuð var gyðju blómanna Flóru. Sú hátíð var haldin frá 28 apríl til 2. maí.
Á Bretlandseyjum þar sem 1. maí hátíðin gekk undir gelíska heitinu Beltene-hátíðin. Var hún allsherjar hreingerningarhátíð, andlega jafnt sem efnislega og stjórnað af Drúída-prestum. Jafnvel búféð var hreinsað af öllu illu með að reka það í gegnum eld.
Seinna runnu ýmsir siðir þessara tveggja hátíða saman. Til þeirra má rekja siði sem enn eru í heiðri hafðir víða um Evrópu eins og að reisa og dansa í kringum maí-stöng og krýna maí-drottningu og kveikja í bálköstum. Þess má geta að fyrirmyndin að "frelsistrénu" sem var tákn frönsku byltingarinnar var fengin frá maí-stönginni.
Um leið og kristni breiddist út um álfuna var mikið til reynt til að gera 1. maí að kristinni hátíð. Kaþólska kirkjan helgaði daginn Maríu Guðsmóður og seinna var hann kenndur við dýrlinginn Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Í Þýskalandi hét hátíðin "Valborgarnætur". Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.
Lengi vel var siður að gefa 1. maí-körfur sem fylltar voru einhverju góðgæti og blómum sem skilja átti eftir við dyr nágranna án þess að gefa til kynna hver gefandinn væri.
Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum heimsins sem alþjóðlegur frídagur verkafólks, en þó ekki í Bandaríkjunum eða Kanada. Það kann að sýnast dálítið kaldhæðnislegt, því þegar ákveðið var að dagurinn skyldi tileinkaður verkfólki var haft í huga að minnast fjöldamorðanna sem áttu sér stað á Heymarkaðinum í Chicago þann 4. maí 1886, þegar á annan tug stuðningsmanna verkammanna í verkfalli, var feldur af lögregluliðum borgarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)