Færsluflokkur: Dægurmál
30.4.2009 | 11:54
Tæknilegt einelti
Það vekur alltaf athygli þegar ofbeldi og hrottaskapur stúlkna gegn stallsystrum sínum kemst í fréttirnar. Það er næsta víst að ofbeldi á borð við það sem átti sér stað upp í Heiðmörk fyrir stuttu, tengist einelti. Reyndar er daglegt einelti meðal unglinga orðið svo hátæknilegt að það er stundum erfitt að átta sig á hvort um raunverulegt einelti er að ræða eða "eðlileg" samskipti unglinga.
Þannig gerðist það fyrir stuttu að Jessie Logan, átján ára skólastúlka í Cincinati í Bandaríkjunum sendi stráknum sem hún var að deita, mynd af sér í dálítið sexý pósu. Slíkt er afar algengt og stundum kallað "sexting". Eftir að þau hættu saman, hóf stráksi að dreifa myndinni meðal félaga sinna og þannig flaug myndin milli nokkur hundruð farsíma á örskammri stundu. Í kjölfarið varð Jessie að þola einelti og stríðni frá skólafélögum sínum og kunningjum sem voru að senda á hana illgjarna texta í tíma og ótíma. Skólayfirvöld reyndu að slá á eineltið með því að láta Jessie koma fram í sjónvarpi og biðjast vægðar. En allt kom fyrir ekki og að lokum hengdi Jessie sig.
Í Bretlandi hefur nýlega verið tekin í gagnið hjálpar-miðstöð sem kallast "Cyber-mentors" fyrir börn og unglinga sem verða fyrir einelti og áreiti í gegnum farsíma og tölvur. Þeir sem á annað borð taka þátt í eineltis-aðgerðum gegn félögum sínum vita að í skólum er reynt að fylgjast með atferli þeirra. Í stað "hefðbundins" eineltis er því meir og meir notast við farsíma, skilaboð og tölvur þar sem hægt er að semda myndefni og rætna texta eftirlitslaust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2009 | 06:16
Kynlíf í kvöld
Hætt er við að spennan sem hefur verið að hlaðast upp í fólki smá saman undanfarnar vikur og jafnvel mánuði, nái hámarki í kvöld, þegar kjörstöðum verður lokað og byrjað verður að telja upp úr kössunum. Víst er að Það verður spennufall hjá mörgum seinni hluta kvöldsins þegar úrslit verða staðfest og því mikilvægt að vita hvernig hægt er að bregðast við því. -
Framvindan um myndun stjórnar eftir kosningar er nokkuð skýr og fyrirsjáanleg, þannig að ekki verður nein veruleg spenna tengd henni. XV og XS munu mynda stjórn og í stjórnarandstöðu verða XO, XB og XD. En hvort sem þú telur að þú hafir unnið eða tapað kosningunum, aukið völd þín eða tapað þeim, er viðbúið að í þér búi langvaraandi streita sem leita muni útrásar í kvöld.
Það er samdóma álit lækna og sérfræðinga að besta leiðin til að bregðast við spennufalli sé að beina hinni innlokuðu orku inn í kynlífið.
Kynlíf og spenna eru mjög tengd. Spenna hefur oft verið sögð orsök minni kynþarfar en jafnframt er kynlíf oft besta leiðin til að losa um spennu. Þeir sem eru í vafa um undursamleg áhrif kynlífs á heilsu og líf okkar, geta lesið hér og hér stuttar greina um efnið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2009 | 01:08
Fagrar og sexý eða konur í neyð
Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú sérð svona myndir? Í gegnum huga minn flaug spurningin,
Hvað er eiginlega að í þessum heimi?
Ef það eru til vitsmunaverur á öðrum hnöttum, skilur maður vel af hverju þær halda sig fjarri okkur, þegar við skoðum myndirnar sem hér fylgja og berum þær saman.
Sumar eru teknar í landi þar sem fólk lifir við alsnægtir og friður ríkir. Aðrar eru teknar þar sem styrjaldir, hungurneyðar og kerfisbundin utrýming fólks hafa átt sér stað.
Sjúkdómarnir sem valda þessu ástandi eru mismunandi.
Þeir heita mismunandi nöfnum en eiga það sameiginlegt að eiga heima í huga og hjörtum fólks.
Annars vegar heita þeir; hatur og vanþekking, fordómar og græðgi. Einkenni þessarar sjúkdóma á heimsmælikvarða eru styrjaldir og hungurneyðir.
Hins vegar heita þeir; sjálfshatur, ímyndarveiki, depurð og einmannleiki sem eru andleg einkenni anorexíu og búlimíu.
Eins og flestum er orðið ljóst eru myndirnar vinstra megin af tísku-sýningarstúlkum. Þær eru fyrirmyndir þúsunda ungra stúlkna í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu. Stúlkurnar hægra megin eru fórnalömb úr útrýmingarbúðum og hungursneyða af völdum styrjalda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2009 | 18:36
Grænu börnin
Þorpið Woolpit er nefnt eftir fornum pyttum sem finna má í grenndinni og kallaðir eru "Úlfapyttir" vegna þess að þeir voru í fyrndinni notaðir til að veiða í úlfa.
Dag einn síðla sumars fyrir meira en átta hundruð árum gengu þorpsbúar Woolpit til verka sinna á akrinum fyrir utan þorpið. Þegar þeir nálguðust akurinn heyrðu þeir hræðileg óp kom úr einum úlfapyttinum skammt utan akursins. Við nánari eftirgrennslan fundu þeir tvö felmtri slegin börn á botni hans.
Börnin virtust eðlileg í alla staði fyrir utan tvennt; þau töluðu tungumál sem enginn skildi, en það sem meira var, hörund þeirra var grænt á litinn. Drengurinn og auðsýnilega eldri systir hans voru líka klædd í föt sem gerð voru úr torkennilegum efnum.
Eftir að þorpsbúar höfðu undrast og býsnast nægju sína yfir börnunum, ákváðu þeir að far með þau til landeigandans Sir Richard de Calne, á óðal hans í Wikes. Sagan um fund barnanna fór eins og eldur í sinu um héraðið og margir lögðu leið sína til Wikes til að berja eigin augum undrin.
Börnin voru greinilega örmagna og hungruð en fengust ekki til að borða neitt af því sem þeim var boðið. Það var ekki fyrr en einhver veitti því athygli að þau gutu augunum í áttina að matreiðslukonu sem fór fyrir gluggann með fulla körfu af grænum baunum í fanginu, að þeim var boðið hrátt grænmeti eingöngu. Það þáðu þau og næstu mánuði lifðu þau eingöngu á grænum baunum og káli þar til loks þau fengust til að bragða á brauði og öðrum almennum mat.Smátt og smátt breyttist litarháttur þeirra og færðist nær því sem gekk og gerðist meðal enskrar alþýðu á þeim tíma.
Fólki fannst viðeigandi að láta skýra börnin og var það gert en þau dvöldust í góðu yfirlæti á heimili
Sir Richard þar sem allir komu vel fram við þau.
Þegar leið að jólum, var orðið ljóst að drengurinn átti greinlega mun erfiðara með að aðlaðast nýjum háttum. Hann varð þunglyndur og lést skömmu fyrir aðfangadag eftir skammvinn veikindi. Systir hans braggaðist hins vegar vel og eftir nokkra mánuði var ekki hægt að sjá muninn á henni og öðrum börnum.
Hún dvaldist á heimili Sir Richards í mörg ár og lærði þar að tala reiprennandi ensku. En það sem hún hafði af fortíð sinni að segja jók frekar á leyndardóminn frekar en að skýra hann. Hún sagðist hafa átt heima í landi sem kallað væri St. Martin. Landið væri kristið og þar væri að finna margar kirkjur. Þar risi sólin ekki upp á himininn og íbúar þess byggju þess vegna í stöðugu rökkri.
Stúlkan gat ekki skýrt hvernig hún og bróðir hennar hefðu lent í úlfapyttinum. Hún sagðist eingöngu muna eftir því ð hafa verið að gæta kinda föður síns þegar að hún heyrði mikinn klukknahljóm. Við hljóminn missti hún meðvitund og þegar að hún rankaði við sér voru þau stödd í stórum helli. Þau reyndu hvað þau gátu til að komast út úr hellinum og gengu á birtu sem barst inn í hann. Þannig komust þau í botn pyttsins þar sem þorpsbúarnir loks fundu þau.
Saga stúlkunnar var skráð af sagnritaranum William of Newburge. (1136-1198 í Historia rerum Anglicarum) Samkvæmt heimildum hans tók stúlkan sér nafnið Agnes Barre og giftist manni frá King's Lynn.
Annar sagnritri Ralph of Coggeshall (d.1228), segir einnig frá grænu börnunum í Chronicon Anglicanum sem hann skrifaði í frá 1187 til 1224.
Báðir skrifuðu samt um atburðinn löngu eftir að hann átti að átt sér stað.
Sagan um grænu börnin er einnig varðveitt í skjaldarmerki þorpsins Woolpit sem enn er í byggð og einnig á útsaumuðum refli í kirkju staðarins. Ekki er vitað hvort "Agnes" eignaðist afkomendur en svo mikið er víst að ekki hafa nein græn börn fæðst á Englandi svo vitað sé um.
PS. Hér er að finna athyglisverða grein um svo kölluðu "Grænu veikina" eða chlorosis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2009 | 13:53
Hvar eru allir japönsku skóladrengirnir?
Sumardagurinn fyrsti heilsaði mér með sólskini og bros á vör. Ég kreisti fram hálfkarað glott til baka. Þegar ég rölti niður í miðbæ til að drekka morgunkaffið mitt voru rónarnir þegar vaknaðir og sötruðu morgunbjórinn sinn, reyktu og glugguðu í frýju dagblöðin. Sum höfðu greinilega verið ábreiður þeirra um nóttina.
Þegar sólin skín brosir fólk meira. Kaffið bragðast líka betur. Stúlkurnar eru léttstígari og strákarnir flexa vöðvunum meira í stuttermabolunum. Ég sé að blikið í augum götusalanna er skærara og einhvern veginn lítur vara þeirra betur út líka. Japönsku skólastelpurnar fara um bæinn tvær og tvær og rýna í kortin sín. Hversvegna sjást japanskir skóladrengir aldrei á ferð?
Fréttirnar í blöðunum eru samt jafn leiðinlegar og áður, kannski enn leiðinlegri. Söngleikur um Jade Goody í startholunum...vá eitthvað sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Darling sjóðstjóri segir að best sé að bregðast við kreppunni með því að gera ekki neitt og láta sem allt sé eðlilegt...Condoleezza Rice með í ráðum þegar Zubaydah var pyntaður með "vatnsborðsaðferðinni" 83 sinnum Khalid Sheikh Mohammad 183 sinnum...og mér sem fannst hún alltaf svo brosmild og viðkunnanleg...Kannski var það bara af því hún var kona, svört kona. 28 manns dánir í enn einni sprengjunni í stríðinu sem er löngu lokið í Írak...Næstum því heimsendir 2012 þegar sólvindar slá út öllu rafmagni, eyðileggja gervihnettina og Internetið.....and so on and so on.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2009 | 15:46
Endanleg kosningaspá Dr. Phil
Kosningaspá Dr. Phil fyrir alþingiskosningarnar á Íslandi 2009 hefur setið óþýdd í tölvupóstinum mínum í tvo daga. Ég hef verið að leiða það hjá mér að þýða og birta hana, en nú er mér ekki stætt á því lengur, því ítrekað hefur verið spurt hverju henni líði. Hér kemur því spáin.
Mjög hefur dregið úr þreki ránfuglsins og er hann nú orðin svo máttfarinn að honum mun aðeins auðnast að klekja út fimmtán eggjum.
Mikil verður vegur hins rauða röðuls en hans vagn munu draga um himinhvolfið, áður en yfir lýkur, ekki færri en tveir tugir geithafra.
Ljósbláa týran sem áður vakti athylgi líkt og hrævareldar á mastri þjóðarskútunnar, mun slokkna.
Örvhenta græna fylkingin mun breikka og tala skjaldbera hennar bera upp á tölu þjóðhátíðardagsins.
Þeir sem guðirnir elska deyja ungir og sumir ná því aldrei að fæðast og komast í tölu lifenda.
Græna frúin situr hokin í herðum og handfjatlar hattinn sinn. Úr honum hafa fokið allar skrautfjaðrirnar nema sex.
Hamar Þórs mun lenda á íslenska þjóðarsteðjanum með miklu meiri þunga en búist var við. Af höggi hans munu fimm appelsínugulir neistar spretta fram og kveikja í morgunhimninum.
19.4.2009 | 16:44
Kettir eru drullusokkar
Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og sofa síðan hjá konunni þinni. -
Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.
Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)
Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf", þá hefur hann rangt fyrir sér.
Kettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -
En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!
Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;
að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -
eða; að í anddyrinu þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -
eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?
Dægurmál | Breytt 21.4.2009 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
19.4.2009 | 12:01
Lunda-hundar
Lunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.
Hann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts, minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.
Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.
Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.
Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.
Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2009 | 01:22
Rautt kvikasilfur
Amma átti eina slíka enda voru þær afar algengar. Það hljóta enn að vera þúsundir til á íslenskum heimilum. Ef þú átt gamla SINGER saumavél, getur þú selt hana fyrir allt að 50.000 pund á ebay. Þetta háa verð er nýlega tilkomið og um þessar mundir eiginlega eingöngu bundið við Sádi-Arabíu.
Þar um slóðir eru menn sannfærðir um að í SINGER saumavélum sé að finna leyndardómsfullt efni sem gengur undir nafninu Rautt kvikasilfur. Rautt Kvikasilfur er svo verðmætt að margar milljónir fást fyrir nokkur grömm af því.
Rautt kvikasilfur kom fyrst fram á sjónarsviðið seint á síðustu öld og á að hafa ýmsa eiginleika, allt frá því að vera svo geislavirkt efni að það megi nota í atómsprengjur eða til að finna fjársjóði sem faldir hafa verið í jörðu.
Ef þú vilt ganga úr skugga um hvort SINGER saumavélin þín hefur Rautt Kvikasilfur að geyma, skaltu bera farsímann þinn upp að henni. Ef þú missir sóninn og línuna, ertu ríkari en þú gerðir þér grein fyrir.
Þrátt fyrir útbreidda trú á tilvist efnisins hefur aldrei tekist að fá skýr svör við hvað Rautt kvikasilfur raunverulega er. Um það eru margar tilgátur, en líklegast er að hér sé á ferðinni enn ein nútíma-flökkusagan. Hér er að finna upplýsandi grein um "efnið".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2009 | 16:00
Ronnie Wood vinnur áfangasigur í Kazakhstan
Ég get ómögulega stillt mig um að koma hér á framfæri smá "update" á fyrsta og eina "skúbbinu" mínu, fram að þessu, þ.e. þegar ég hitti Ronnie Wood á förnum vegi í fyrra og átti við hann orðastað.
Það er ljóst að ævintýrið á Írlandi þar sem hann dvaldist með hinni rússnesku ástmey sinni Ekaterínu hefur dregið dilk á eftir sér. Um það sagði Ronnie á sínum tíma að hann hefði verið "bad boy". Ég taldi víst að hann meinti að þetta væru eins og hver önnur rokk-strákpör hjá honum. En nú er Ronnie skilinn og reynir hvað hann getur til að vingast við fjölskyldu kærustunnar og sérstaklega hina 75 ára gömlu Lyudmillu Ivanovu, sem er höfuð ættarinnar.
Hún býr í Kazakhstan og er enn ómyrk í máli þegar hún tjáir sig um Ronnie hinn 61. árs gamla gítarleikara sem hún kallar Ronik.
Hún sagði eitt sinn að Rollingarnir væru "bæði ljótir og ógeðslegir". Nýlega var hún spurð hvað henni fyndist um tilhugalíf þeirra Ronnie og Ekaterínu. "Ef hann vill giftast Ekaterínu, þá mun ég gleðjast fyrir þeirra hönd." svaraði sú gamla."Ef þetta er raunveruleg ást leyfum þeim þá að vera hamingjusöm."
Lyudmilla segist samt halda að " hjónbandið endist ekki lengi. "Hún er miklu yngri en hann þannig að hún mun fá tækifæri til að giftast aftur ef eitthvað kemur fyrir Ronik." "En svona er heimurinn í dag. Gamlir menn yfirgefa fjölskyldur sínar og finna sér ungar kærustur".
Ronnie yfirgaf Jo Wood eftir 23 ára hjónaband til að vera með Ekatreínu.
Gamla konan heldur því jafnframt fram að ástæðan fyrir því að enginn úr fjölskyldu Ronnie, ekki einu sinni börn hans, taka í mál að hitta Ekaterínu, sé að Jo hafi beðið þau um það. "Þetta ástand er ekki gott" bætir hún við.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)