Færsluflokkur: Dægurmál

Ástarbréf

loveletter-main_Full

"Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér. Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vldi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu."

Sú var tíðin að ástarbréf þóttu meðal mestu gersema sem fólk átti í fórum sínum. Ástarbréf voru oftast geymd í lokuðum hirslum sem enginn nema eignandinn hafði aðgang að og venjulega komust slík bréf ekki fyrir almenningssjónir fyrr en bæði ritari þeirra og vitakandi voru fallnir frá.

Sum þeirra urðu að ómetanlegum heimildum um viðkomandi og vörpuðu  nýju ljósi á þankagang og hjartalag þeirra. - Ritun ástarbréfa var talsverð list, enda þurftu elskendurnir að setjast niður í ró og næði, og vanda sig við að setja sínar innstu hugrenningar niður á pappírinn með sinni bestu rithönd.

Spurningin er hvort sú list sé að týnast á öld farsíma, sms skilaboða, emaila, twitter, og bloggs. Það er orðið ansi langt síðan að ég skrifaði einhverjum sendibréf sem póstlagt var upp á gamla mátann. Flest skrifleg samskipti mín við annað fólk er í gegnum emaila. Þegar ég sest niður við tölvuna hamra ég niður í flýti það sem ég held að komi meiningu minni eða erindi sem fljótast til skila. - Og jafnvel þótt ég færi eins að tölvunni og  bréfritarar í gamla daga nálguðust pappírsörkina með sinn blekpenna, finnst mér sendibréfið enn miklu rómantískari miðill. -

1245009572af7FIvHvað geyma margir emailana sína til lengri tíma, að ekki sé talað um SMS skilaboð eða Twitt. Þó að ég sé alveg viss um að að fólk er ekkert síður rómantískt en áður, er þessi þessi hárómantíska tegund tjáningar klárlega á undahaldi.

Eða á kannski ungt fólk framtíðarinnar eftir að koma opinminnt fram í eldhús með eldgamla fartölvu í höndunum segjandi;" Vá, mér tókst loks að kveikja á gömlu tölvunni hennar ömmu og opna þetta fornaldar póstforrit. Gettu hvað ég fann? Viltu heyra;

Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér.

Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vildi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu. Ég hlusta stöðugt á uppáhalds lagið þitt án þess að gera mér grein fyrir því, af því að þá finnst mér ég vera nær þér. Í hvert sinn sem ég sé þig þrái ég þig meira, ef það er mögulegt.

Hugur minn segir mér að hitta þig ekki aftur nema að ég þurfi aldrei að yfirgefa þig aftur, vegna þess hve sársaukafullt það er að kveðja þig. En hjarta mitt segir að ekkert fái stöðvað mig frá að njóta með þér hverrar mínútu sem ég mögulega get. Og í hvert sinn sem ég er nálægt þér, bíð ég eftir að samveran nái einhverjum hápunkti, en hún gerir það aldrei. Þráin til að vera hjá þér er viðvarandi, stöðug og fær mig til að vilja þrýsta þér að brjósti mínu svo þú getir hlustað á hjarta mitt hrópa nafn þitt og segja þér frá þeim hræðilegu dögum og skelfilegu nóttum sem ég er fjarri þér.

Augu mín vökna í hvert sinn sem ég horfi á þig og ég verð að neyða þau til þess að horfa á þig eins og vinur á að gera. Ég vona enn, árangurslaust, að sársaukin muni dofna eða hverfa með tímanum. En tíminn hefur svikið mig, því eftir því sem hann líður, þrái ég þig meira.

Hvert smáatriði í sambandi við þig er sem grafið á hjarta mitt, heillar mig, snarar mig. Þegar ég segi að þú sért undraverð, er það aum lýsing á áliti mínu á þér, því þú ert mér ráðgáta. Hvað á ég að kalla þig? Hvað kallar maður þann sem er manni allt og ekkert? Allt,  vegna þess ég elska þig, ekkert,  vegna þess að ég get aldrei látið í ljósi við þig það sem býr í brjósti mínu. Orðið "vinur" nægir mér ekki. Ég er ekki ánægður með þann titil. En hvað er ég þá?  Ég er löngu hættur að vera bara "vinur" þinn.

Ég hef oft pælt í hvað mundi gerast ef ég segði þér hvernig mér raunverulega líður. En við eru föst einhversstaðar á milli þess að vera vinir og einhvers meira,  vegna þess að ég er hræddur við að þú hafnir mér ef ég segi þér sannleikann. Aðeins ótti minn stendur í vegi fyrir mér. Því þótt ég fái ekki að elska þig á þann hátt sem ég hef lýst, vil ég samt ekki fórna vinskapnum. Ótti minn er að þú klippir á sambandið fyrir fullt og allt af því þér líður ekki eins. 

Í dag mun ég sitja hér og þú þarna og ég mun gæta þess að augu mín endurspegli ekki ástinni og sársaukanum sem beinist að þér. Og í kvöld mun ég fara í rúmið og dreyma sama drauminn og ætíð, þar sem við erum stödd út við hafið.  Þú ert í sjónum og ég stend á bryggjusporðinum. Ég er að hugsa um að stökkva út í til þín en er hræddur. Og þegar ég loks stekk er ég ósjálfbjarga í vatninu og það er undir þér komið hvort þú bjargar mér eða ekki. Og þegar ég byrja að sökkva finn ég arma þína lykjast um mig og toga mig upp og ég get andað á ný.

Og ég horfi í augu þín og sé hvað þau hafa falið frá mér allan þennan tíma. Síðan syndum við saman inn í sólsetrið.

Á morgun mun ég aftur sjá þig og þykjast elska þig eins og vinur, hræddur við að stökkva. Ef ég ákveð að stökkva, viltu þá grípa mig... ef ég ýti á... senda?

"Og frá hverjum er þetta?" spyr mamman.

"Hvurjum heldurru.... afa audda."

 


Lýsingin á andlátinu hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs

Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var eins árs. Móðir hans dó þegar hann var tveggja ára. Seinna afneitaði fósturfaðir hans honum og hann var lengi heimilislaus. Ástarsambönd hans fóru öll út um þúfur og þegar hann loks gekk í hjónaband var það með þrettán ára gamalli frænku sinni sem dó úr berklum áður en hún varð tvítug.

Edgar Allan PoeHann þjáðist af þunglyndi, alkóhólisma og ópíum fíkn og lést aðeins fertugur að aldri á dularfullan hátt, snauður, forsmáður og vinalaus. Til jarðarfararinnar, sem aldrei var auglýst, komu aðeins tíu manns sem urðu vitni að því þegar að Edgar Allan Poe,  einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma, var til jarðar borinn í borginni Baltimore árið 1849.

Síðast liðinn sunnudag, 160 árum eftir þessa fámennu athöfn, ákváðu bæjabúar í Baltimore að heiðra minningu Edgars með því að efna til gervi útfarar þar sem eftirlíking af líki hans var borið að gröf hans með viðhöfn.

Frægir leikarar fóru með minningarorð og brugðu sér í gervi frægra aðdáenda skáldsins, m.a. Sir Arthur Conan Doyle og Sir Alfred Hitchcock.

Athöfnin var svo vel sótt að ákveðið var að endurtaka hana strax sama kvöld þannig að úr varð líkvaka við grafreitinn.

Allt þetta umstang rúmlega 200 árum eftir fæðingu Edgars er ansi ólíkt kringumstæðunum þegar dauða hans bar að þann 7. október 1849.

Nokkrum dögum áður fannst hann með óráði fyrir utan bar einn í Baltimore. Hann var klæddur fatnaði sem greinilega var ekki hans eigin og gat ekki gert neina grein fyrir ferðum sínum eða hvað að honum amaði. Hann lést á Washington College Hospital, (sjúkrahúsinu) sem hann hafði verið fluttur til, hrópandi  nafnið "Reynolds" aftur og aftur.

Grafreitur E.A:P:Edgar Allan Poe er einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma. Hann er talinn upphafsmaður spæjarasögunnar og frumkvöðull í gerð hryllingssagna. Nokkrar hafa verið kvikmyndaðar þ.á.m. The Pit and the Pendulum og The Fall of the House of Usher. Af ljóðum hans er Hrafninn án efa þekktast og eftir því hefur einnig verið gerð kvikmynd.

Meðal samtíðafólks hans var Edgar best þekktur sem óvæginn bókmenntagagnrýnandi. Orðstír hann sem slíks fór víða og fyrir bragðið eignaðist hann marga óvildarmenn sem sumir gerðu sér far um að ófrægja hann eftir lát hans.

Sem dæmi þá birtist minningargrein um Edgar í New York Tribune sem hófst svona; "Edgar Alan Poe er dáinn. Hann dó í Baltomore í fyrra dag. Þessi tilkynning mun koma mörgum á óvart en hryggja fáa." Fyrir greininni var skrifaður einhver "Ludwig".

Seinna kom í ljós að þar var á ferð Rufus Wilmot Griswold, ritstjóri og ritrýnir en þeir Edgar höfðu eldað saman grátt silfur allt frá árinu 1842. Rufus tók að sér að stjórna útgáfu á verkum Edgars og gerði hvað hann gat til að sverta orðspor skáldsins.

Rufus skrifaði m.a. grein sem hann sagði að væri byggð á bréfum frá Edgari og sem lýstu honum sem sídrukknu ómenni. Flest af því sem Rufus skrifaði voru hreinar lygar og einnig sannaðist að bréfin voru fölsuð.  

Edgar var fæddur 19. janúar 1809 í Boston. Foreldrar hans voru farandleikararnir David og Elizabeth Poe sem fyrir áttu soninn Henry og seinna eignuðust dótturina Rosalie. David Poe yfirgaf fjölskylduna ári síðar (1810) og 1811 lést Elizabeth úr tæringu. Edgar sem þá var tveggja ára var tekinn í fóstur af John Allan, ríkum kaupmanni af skoskum ættum frá Richmond í Virginíu sem verslaði með ýmsan varning, þ.á.m. þræla. Þótt Poe hafi bætt nafni hans við sitt, ættleiddi Allen aldrei drenginn.

HrafninnÞegar Edgar var 17 ára varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Sarah Elmira Royster. Hann kann að hafa trúlofast henni áður en hann hóf nám við háskólann í Virginíu 1826. Þar safnaði hann spilaskuldum og John Allan rak hann úr fjölskyldu sinni.

Hungraður og heimilislaus yfirgaf Edgar háskólanámið og þegar hann frétti að Sarah hefði gifst öðrum manni, innritaði hann sig í herinn. Honum tókst að fá sína fyrstu bók; Tamerlane, útgefna og síðan ljóðabók, sem hvorug vöktu nokkra athygli.

Dauði Fanny, fósturmóður Edgars, hafði þau áhrif að um stund urðu sættir milli hans og Johns Allen sem útvegaði fóstursyninum inngöngu í herskólann í West Point í júlí 1830. En innan fárra mánaða fór allt í sama horfið og Edgar var aftur vísað úr fjölskyldunni.

Poe  lét reka sig frá West Point með því að sýna af sér vítavert kæruleysi þannig að hann var færður fyrir herrétt. Frá herskólanum lá leið hans til New York þar sem hann hóf að skrifa gagnrýni fyrir tímarit og dagblöð. Hvernig sem á því stóð, slógu félagar hans í West Point saman fyrir útgáfu á ljóðahefti fyrir hann sem einfaldlega bar nafnið "Ljóð."

Þegar að Poe snéri aftur til Baltimore, fékk hann inni hjá frænku sinni Maríu Clemm, dóttur hennar Virginíu. Eldri bróðir hans Henry bjó einnig undir sama þaki en lést fljótlega úr alkóhólisma eftir að Edgar settist þar að. Þrátt fyrir að geta sér gott orð fyrir að vera skeleggur gagnrýnandi, var hann ætíð í vandræðum. Hann missti ætíð störfin vegna drykkjuskaparins og reyndi að stjórna þunglyndi sínu með laudanum (ópíumblöndu) og víni.

Virginia PoeÁrið 1835 gekk Edgar að eiga frænku sína á laun. Virginía var 13 ára dóttir Maríu Clemm sem Edgar kallaði ávalt eftir það " elskulegu litlu eiginkonuna." María sá um þau bæði og fylgdi oft Edgari eftir til að reyna að koma í veg fyrir drykkju hans.  -

Húsakynni þeirra voru hreysi og kofar og oft nærðust þau aðeins á brauði og sýrópi. Poe reyndi hvað eftir annað að gera sér mat úr skrifum sínum en drakk sig meðvitundarlausan þegar illa gekk.

Virginía var aðeins 19 ára þegar hún smitaðist af berklum en Edgar neitaði að viðurkenna að hún væri að deyja og sagði blóðið sem kom upp úr henni, koma úr brostinni æð. Eftir dauða hennar varð Edgar enn óstöðugri og skrif hans myrkari. 

Sögur hans og ljóð lýstu hvernig líkamar voru sundur limaðir, étnir af mönnum, brenndir, grafnir lifandi,  troðið upp í reykháfa af órangútum og étnir af ormum á sama tíma og meginpersónurnar monta sig af því hvernig þeir hafa komist upp með glæpina.

Tveimur árum eftir dauða Virginíu fannst hann ráfandi um göturnar, klæddur í garma og dauðvona.

Þrátt fyrir allt þetta var poe um þessar mundir sá gagnrýnandi sem höfundar óttuðust mest í Lík EdgarsBandaríkjunum. Hið magnaða ljóð hans "Hrafninn" hafði getið af sér fjölda eftirlíkinga og útlegginga og hafði meira að segja verið notað í sápuauglýsingar.

Smásagan Morðin í Rue Morgue ruddi veginn fyrir nýrri tegund leynilögreglusagna, þar á meðal Sherlock Holmes. Hryllingssögur hans höfðu sumar verið þýddar á frönsku og rússnesku og gefið skáldum eins og Charles Baudelaire sem safnað öllu sem Poe skrifaði, mikinn innblástur.

Edgar hefði átt að vera orðinn ríkur en hann var stöðugt undir þumlinum á óprúttnum ritstjórum sem aldrei borguðu honum vel og það sem hann fékk eyddi hann í fýsnir sínar.

Áhugi Poes í lifanda lífi beindist mest að dauðanum.  Ímyndanir, skjálfti og meðvitundarleysi á milli var lýsingin á ástandi hans rétt fram að andlátinu. Hún hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs.


Heimsfræga konan á Heiðarveginum

BlaðadrengurFljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið.  Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.

Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.

ThumbnailMariaMarkanEinhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan. 

Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.

Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;

353485Það var árið 1957. Ég var 14 ára,  bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan. 

Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti  í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum,  fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;

imageÞegar  rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.

Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá  Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.

Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.

María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.

champselyseesfigaro1En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í „Brúðkaupi Figarós“ eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.

Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.

opera_romaSíðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.

Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.

María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: „Mesta söngkona Íslands fram að þessu.“

María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.


Teygjustökk og N´gol

TeygjustökkEin af vinsælustu jaðaríþróttum seinni tíma er teygjustökk. (Bungee jumping) Teygjustökk á rætur sínar að rekja til athafnar sem  þekkt er undir nafninu "Landdýfingar" (N´gol) og er ein af sérkennilegustu leiðum sem hægt er að hugsa sér til að hætta lífi og limum. N´gol er stundað á hinum lítt þekktu Hvítasunnueyjum í Vanuatu Archipelago í Kyrrahafi, um það bil 2000 km. austur af austurströnd Ástralíu. Í dag er athöfnin aðeins stunduð á suður hluta eyjarinnar. Sjá myndband.

Arfsögn á Hvítasunnueyjum rekur upphaf hennar til sögunnar af Tamale. Tamele var maður sem átti konu sem hljóp oft í burtu frá honum. Eitt sinn eftir að hann hafði lúskrað henni fyrir að flýja, hljóp hún í burtu og faldi sig hátt upp í tré. Tamale klifraði á eftir henni en þegar hann ætlaði að grípa í hana, stökk hún niður úr trénu. Tamele stökk á eftir henni en þar sem konan hafði bundið vafningsvið um ökkla sinn, lifði hún af fallið en hann lét lífið.

Eftir þessa atburði tóku menn og drengir, sumir ekki eldri en sjö ára, að stunda það að stökkva af þar til gerðum stökkpöllum, til að sína styrk sinn og hugrekki og til að sýna konum sínum að þær mundu ekki framar komast upp með nein brögð. Þá stökkva þeir einnig til að tryggja að Yam uppskeran verði góð, en Yam er þeirra helsta lífsviðurværi. Um leið og strekkist á vafningsviðnum, fetta þeir höfuðið fram á við og herðarnar snerta jörðina, sem gerir hana frjóa.  Ár hvert í apríl byggja eyjaskeggjar a.m.k. einn 25 metra háan turn með stökkpalli og hefja athöfnina sem getur tekið tvo daga.

Aðeins umskornir karlmenn fá að taka þátt í þessari athöfn þar sem vafningsviður er bundin utan um hvorn ökkla til að taka af fallið. Hár mannsins verður að snerta jörðina til að hún teljist hafa heppnast og gert er ráð fyrir að allir sem mögulega geta , taki þátt.


Eiga sprangið og íslenska glíman heima á heimsminjaskrá?

3188686950_58d6b0eaffÞegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, fór ég með ófáa hópa af skólakrökkum víðs vegar af landinu í útsýnisferðir um Heimaey. Einn af viðkomustöðum okkar var undantekningarlaust Sprangan undir Skiphellum þar sem ungt eyjafólk lærir að klifra í klettum og sveifla sér í kaðli.

Á tungumáli "innfæddra" kallast þetta "sprang“.  Misháar syllur eru í bjarginu, allt frá „almenningi“ og upp í „gras" eða "tó".  

Margir úr hópunum spreyttu sig á að klifra upp í lægstu sylluna og spranga út frá henni sem tókst misjafnlega, enda sprang ekki auðveld íþrótt.

Einn hópur sem ég man eftir bar þó af öllum öðrum hvað leikni í kaðlinum varðaði. Þegar ég spurði hvers vegna þau virtust kunna svona vel til verka, svöruðu þau að flest þeirra væru frá Rifi og Sandi á Snæfellsnesi og skammt þar frá væru Gufuskálar.

Að Gufuskálum væri mikið og hátt mastur og utan í því hefðu þau oft sveiflað sér á reipi. Ég kannaðist vitskuld við Loren C mastrið á Gufuskálum sem lengi var sagt hæsta mannvirki á Íslandi og er það kannski enn. 

esja-_glimaMér datt þetta í hug þegar ég las fréttina sem ég tengi hér við, því trúlega hafa krakkarnir frá Snæfellsnesi snúið sér á alla kanta á reipinu eins og indíánarnir gerðu forðum suður í Mexíkó og sýnt er á meðfylgjandi myndskeiði.

Annað sem einnig kom upp í hugann er hvort ekki sé ástæða til að koma Sprangi inn á þessa ágætu heimsminjaskrá fyrir þjóðhætti sem eru í hættu að leggjast af og gleymast.

Ég veit ekki hvað það eru margir sem kunna þá list svo vel sé, en flestir eiga þeir eflaust heima í Vestmannaeyjum.

Auðvitað má segja að viss tegund af sprangi lifi góðu lífi meðal þeirra milljóna í heiminum sem stunda fjallaklifur. En búnaður til klifurs hefur mikið breyst frá því sem var og miðað við það eitt er varla hægt að segja að um sömu íþrótt sé að ræða.

Þá mætti einnig huga að í þessu sambandi hinni íslensku glímu. Ég veit að enn eru íþróttafélög sem leggja stund á glímuna, en tilfinning mín segir mér að þeim fari fækkandi.


mbl.is Guðadans á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrasalir - (Fyrir Hildi Helgu)

ZotovZotov var áttatíu og fjögra ára gamall þegar hann gekk að eiga ekkju, sem var jafn gömul og hann. Til brúðkaupsins var boðið af köllurum, eins og þá tíðkaðist, í þetta sinn af fjórum eldri mönnum sem allir stömuðu. Háaldraðir voru einnig mennirnir óku brúðarvagninum og á undan honum hlupu, móðir og másandi, fjórir af feitustu mönnum Rússlands.

Vagninn sjálfur var dreginn af tveimur skógarbjörnum sem reknir voru áfram með gaddasvipu og öskur þeirra í bland við básúnublástur kom í staðinn fyrir brúðarmarsa. Upp við altari dómkirkjunnar gaf blindur og mállaus prestur hjónin saman sem síðan var fylgt af öllum brúðkaupsgestum að hjónasænginni þar sem þau voru afklædd í augsýn allra.

Á þessa leið lýsir Voltaire þessu afkáralega brúðkaupi sem haldið var í Pétursborg árið 1710 fyrir tilstilli Péturs mikla Rússakeisara, en brúðguminn Zotov hafði verið æskukennari Péturs og einskonar hirðfífl hans í seinni tíð.

Brúðkaup ÖnnuSkömmu áður hafði Pétur skipulagt brúðkaup frænku sinnar, síðar keisaraynju, Önnu Ivanovna og hertogans af Courland. Strax eftir að hafa veitt þeim blessun sína í upp við altarið í dómkirkjunni í Mosku, hófst annað brúðkaup. Brúðhjón þess voru tveir dvergar, uppáhalds dvergur Péturs Valakoff, og "prinsessa dverganna" Prescovie Theodorovna.

Dverghestar frá Settlandseyjum drógu brúðarvagninn og Pétur veitti þeim blessun sína á sama hátt og hann hafði gert fyrr um daginn fyrir Önnu. - Í brúðkaupsveislu Önnu og hertogans, var veglegri borðskreytingu komið fyrir á miðju veisluborðinu og út úr henni stukku tveir dvergar sem síðan dönsuðu menúett á milli veisluréttanna og borðbúnaðarins.

Pétur Mikli 1838Pétur mikli Rússakeisari hafði mikinn áhuga á öllum afbrigðlegum náttúrufyrirbrigðum, svo mikinn að hann lét reisa mikla byggingu í Pétursborg þar sem hann kom sér upp safni af allskyns viðundrum og afbrigðilegum lífverum, þ.á.m. mennskum. 

Safnið var kallað Kunstkamera (Undrasalir) og stendur bygging þess enn. Margir af 2.000.000 munum þess eru enn varðveittir á Museum of Anthropology and Ethnography(MAE) í Pétursborg.

En Pétur safnaði ekki aðeins því sem koma mátti fyrir í krukkum og skápum, því hann stefndi til Pétursborgar fjölda af dvergum, þeim sem þóttu óvenju hávaxnir, óvenju feitlangir, krypplingum og þeim sem vanskapaðir voru á einhvern óvenjulegan hátt.

Talið er að dvergahirð Péturs hafi talið 80 dverga þegar mest lét. Anna Ivanovna er sögð hafa haft áhuga á dvergarækt. Eftir að nokkrir kvendvergar Péturs létust af barnsförunum, bannaði  Pétur frekari tilraunir með æxlun dverga.

Anna Ioannovna og dvergar hennarPétur virðist hafa haft sérstakan áhuga og dálæti á dvergum. Þeir máttu samt vara sig eins og aðrir á skapofsa keisarans, sem átti það til að leggja til nærstaddra með sverði sínu ef þannig lá á honum. Og áhugi hans smitaði út frá sér því vart var hægt að finna heldri manna fjölskyldu í Rússlandi á valdatíma hans, sem ekki átti einn eða tvo dverga.

Pétur mikli notaði oft afkáraleikann til að undirstrika andstöðu sína við gamlar kreddur og helgisiði kirkjunnar. Áður en hann skipulagði brúðkaup hirðfíflsins Zotov, hafði hann látið krýna hann sem páfa. Þá samdi hann einnig samkvæmisleiki sem gengu út á að gera grín að kristnum helgisögum og siðum þar sem vinir hans og þau viðundur sem hann valdi, var gert að leika hlutverk tengdum viðkomandi sögum.

Anna Ioannovna Nú er víst að Pétur var þeirrar skoðunar að Rússland væri langt á eftir öðrum Evrópulöndum hvað varðaði menningu og siðfágun. Hann t.d. bannaði með lögum að karlmenn bæru alskegg og lét leggja sérstakan skatt á aðrar tegundir skeggja.

E.t.v. hefur Pétur mikli sett dvergaeign í samband við siðfágun því sá siður var all-útbreiddur og hafði verið það um langa hríð, meðal konungshirða Evrópu. Allir rómversku keisararnir áttu dverga. T.d. er þess sérstaklega getið að Júlía, frænka Ágústusar hafi átt tvo dverga, þau Knopas og Andromedíu sem aðeins voru 2 fet og þrír þumlungar á hæð.

Sagt er að einn konungur Danaveldis hafi gert dverg að ráðherra. Karl lX átti níu dverga og fengið fjóra þeirra gefins frá  Sigmundi Ágústusi Póllandskonungs og þrjá frá hinum þýska Maximillan ll. Á þeim tíma voru dvergar taldir mjög snjallir og vitrir. Segja má að þeir hafi komið í stað hirðfífla því þeir máttu mæla þegar aðrir urðu að vera hljóðir. Catherine de Medicis átti þrjú pör á sama tíma og árið  1579  er hún sög hafa átt fimm smámenni sem hétu; Merlín,  Mandricart, Pelavine, Rodomont, og Majoski. Líklegt er að síðasti dvergurinn við frönsku hirðina hafi verið  Balthazar Simon, sem lést árið 1662.

Dvergur dansar við hundStundum var karlmannsdvergum boðið að vera viðstaddir þegar að mikilmenni komu saman.   Árið 1566 bauð t.d. Vitelli Kardínáli í Róm  til mikillar veislu þar sem 34 dvergar þjónuðu til borðs.

Á Englandi og á Spáni áttu aðalsmennirnir það til að láta bestu málara samtíðar sinnar mála myndir af dvergum sínum. Velasquez málaði t.d.  Don Antonio el Ingles, fínbúinn dverg ásamt stórum hundi til að leggja áherslu á smæð hans. Sá listamaður málaði fjölda annarra dverga við knungshirðina á Spáni  og á einu málverkinu, Infanta Marguerite, sýnir hann hana ásamt dvergapari.  Þá má sjá dverga á myndum listamanna eins og Raphael, Paul Veronese, Dominiquin og einnig í  "Sigur Sesars" eftir  Mantegna.


Að borða gull með hreistruðum vörum

GullísÞrátt fyrir allar efnahagslegu þrengingarnar sem heiminn plaga er ekkert lát á því að fólk stundi flottræfilsháttinn að borða gull. - Matreiðslumenn á "The Emirates Palace hótelinu í Abu Dhabi matreiddu fimm og hálft kíló af gulli á síðasta ári og búast við að í ár muni það magn auðveldlega tvöfaldast.

Meðal verð á 11 kílóum af 24 karata gulli er í kringum ein milljón dollara um þessar mundir  en Gull er á hraðri siglingu upp á við í verði og þess vegna má búast við að hótelið þurfi að breyta verðum á matseðlinum svo til daglega.

Vinsælast er gullið meðal rússneskra auðjöfra sem finnst fínt að gleypa málminn með kavíar eða ostrum.

Í Bandaríkjunum er einnig að finna nokkra veitingastaði sem elda gull fyrir viðskiptavini sína og setja það í osta "truffle" eða sprauta því inn í  úlfaber. Þá má einnig fá þar gullhúðaðan í rjómaís á litla 25.000 dollara og súkkulaðistykki með gullmolum fyrir meðal bílverð.

eating-goldGull er vita bragðlaust en hefur verið gefið E númerið 175. Á miðöldum þótti það tákn um mikið ríkidæmi að skreyta mat og/eða drykk með gulli. Það þótti einnig líklegt að slíkt verðmæti væri á einhvern hátt heilsusamlegt að innbyrða, sem það reyndar er í vissum tilfellum.

Gull duft hefur í gegnum tíðina verið notað í ýmis fegrunarsmyrsli og jafnvel varalit.

Síld á vörumÍ mörgum tegundum varalita, einkum hinna dýrari, er efni sem kallað er perlukjarni. Efnið er silfurlitað og finnst einnig í naglalakki og postulínshúð en það hlápar til að láta þessi efni sindra. Perlukjarni er að stærstum hluta unnin úr síldarhreistri.


Kvikmyndir sem tala inn í íslenskan veruleika

Blade Runner, Terminator og Matrix, allar dæmi um góðar kvikmyndir. Bestu kvikmyndirnar sameina marga þætti. Þær eru fræðandi, listrænar og góð afþreying. Þær bestu tala til okkar á sama hátt og dæmisögur og ævintýri bókmenntanna gera líka. Ég hef löngum haft dálæti á vísindaskáldsögum og kvikmyndum sem fjalla um svipuð efni. Í miklu uppáhaldi eru einmitt myndirnar Blade Runner, Matrix og Terminator serían.

Fyrsta Matrix myndin er algjör snilld, vegna þess að hún sýnir svo vel hvernig fólk getur gert sér að góðu að lifa með hauspoka alla ævi, svo fremi sem það heldur að það sé að japla á á nautakjöti af og til. 

Terminator karakterinn er líka frábær af því að hann sýnir hvað erfitt er að losa sig við forritunina sem við öll erum ofurseld og einnig hvað erfitt er að koma fyrir kattarnef skálkum með einbeittan vilja.

Blade Runner spyr m.a. spurningarinnar hvað það sé sem gerir manninn mennskan.

Efnisinntök þessara kvikmynda má auðveldlega heimfæra upp á þjóðmálin á Íslandi (og víðar) á fleiri en einn hátt. Sem dæmi;

matrixÍ hvert sinn sem ég les útskýringar stjórnmálamanna á því hvers vegna þeir gera það sem þeir gera, dettur mér Matrixið í hug, rafræna blekkingarvefinn sem ætlað er að umlykja alla huga til þess að þeir séu til friðs á meðan lífsorkan er sogin úr þeim. -

 

TerminatorÞegar ég les um útbrunna pólitíkusa sem neita að gefast upp og troða sér aftur til áhrifa einhverri mynd, kemur upp í hugann gereyðandinn sem druslast áfram með rafmagnsgarnirnar á eftir sér eftir að hann hefur verið sprengdur í loft upp eða klesstur í stálþjöppu. -

RoyÍ hvert sinn sem ég les um fólk sem hefur komið sér fyrir efst í valdapíramídanum og hvernig það  áskilur sér rétt til að ákvarða innrætingu undir-linga sinna, lífdaga þeirra og lífgæði, af því að það hefur einhvern stjórnmálflokk eða fyrirtæki á bak við sig,  minnist ég Blade Runner og hvernig slíkt fólk er í hættu að verða á endanum tortímt af endurgerð sjálfs sín.


Íslendingar "ótrúlega ruddalegir"

ÞorskhausarSkýrsla Sameinuðu Þjóðanna um í hvaða löndum sé best að búa í heiminum, hefur laðað að sér ótrúlegan fjölda athugasemda á vef BBC (have your say) þar sem fólk hvaðanæva úr heiminum lætur í ljós skoðanir sínar á málinu.

Fróðlegt er að lesa hvað fólk hefur að segja um Ísland sem var í fjórða sæti á listanum, en þess ber að gæta að stuðst var við hvernig ástandið var í löndunum 2007.

Í athugasemdum sínum byrjar fólk oft á að útnefna það land sem það vildi helst búa í og af þeim löndum sem eru í efstu sætunum hefur Kanada án efa vinninginn.

Hér koma nokkrar athugasemdir sem lúta að Íslandi úr hinum heljarlanga athugasemdahala á BBC .

Ísland.....Vegna þess að mér finnst það einangrað og að því er virðist ríkja sterk samfélagskennd.  Owen, London

Noregur eða Ísland? Vitið þið hvað bjórinn kostar þarna?  Will Story

Ég bjó á Íslandi í níu ár og ég skil ekki hvers vegna Ísland þykir góður staður til að búa á. Landslagið er auðn, veðrið er stormasamt, grátt  og regnið fellur lárétt, (hljómar ótrúlega en það er satt.) Fólkið er ótrúlega ruddalegt og kann ekki lágmarks kurteisi. Heilbrigðiskerfið þar fær þig til að skilja hversvegna Ameríkanar eru svona hræddir við það sem Obama er að reyna að koma á í Bandaríkjunum. Eiginmaður minn og barn eru í heimsókn á Íslandi þessa dagana en ég vildi ekki fara. Jennie, Hampstead, QC, CANADA

Noregur? Ástralía? Ísland?  Á þetta að vera brandari. Noregur er leiðinlegur, Ástralía of heit og af langt í burtu frá öllu öðru og Ísland er blankt. - Ég mundi ekki vilja búa utan Evrópu. Mér líkar ágætlega við Bretland en hefði ekki á móti því að búa dálítið sunnar. Katherine, Cheshire

Ísland? Land hvers efnahagur hefur algerlega hrunið á síðastliðnu ári finnst mér ekki vera eftirsóknaverður staður að búa á. Walter, Buckinghamshire

Ég hélt að Ísland væri gjaldþrota. Paul M, Staffs, UK


Aðeins efnahagslega, ólíkt Bretlandi sem er siðferðislega, pólitískt séð, samfélagslega og efnahagslega gjaldþrota.  Steve HadenoughSouth Shields, United Kingdom


Atgervisflótti af blog.is

Fjöldi fólks hefur tilkynnt lokun á bloggsíðum sínum á blog.is eftir að það fékkst staðfest að Davíð Oddsson væri orðin einn af tveimur yfirmönnum bloggsvæðisins.

Sýnt þykir að atgerfisflóttinn standi í beinu samhengi við þá staðreynd að margir hafa óhræddir sagt sína meiningu um Davíð Oddsson  sem umdeildan stjórnmálamann og  afar mistækan embættismann, grandalausir fyrir því að hann mundi nokkru sinni getað komist í stöðu til að geta beitt sér gegn blogghöfundum með beinum hætti.

David+Oddsson+sn%C3%BDr+aftur+fr%C3%A1+ElbuEn nú er það orðin staðreynd. Davíð er kominn í stöðu til að stýra umræðunni með því að stýra fréttaflutninginum sem flestir blogga við. Sumir stuðningsmenn Davíðs hafa verið að hrópa húrra fyrir því á blogginu að hann sé komin í  aðstöðu til að hreinsa hér til sem er orðin mikil nauðsyn á að þeirra mati. Ef fer sem horfir er ekki langt í að blog.is verði að litlu jarmsvæði hægri öfgamanna á Íslandi. -

Auðvitað var stjórnendum og eigendum Moggans ljóst að þetta mundi gerast. Því verður að reikna með að þeim hafi einfaldlega verið sama.

Hér er verið að veita Davíð greiða leið til þess að hafa aftur mikil áhrif á þjóðmálin og gera honum auðvelt að snúa aftur í pólitíkina af fullum krafti eins og hann sagðist mundi gera ef hann yrði rekinn úr seðlabankanum.

Nú er hann mættur til leiks, með öflugan miðil sem hann stýrir að baki sér. Það slær óhug á kjaftaskana á blogginu og bara það að hann snéri aftur, sendi marga þeirra sem stundum voru þeir einu sem gagnrýndu Davíð að einhverju ráði, fussandi eitthvað út í buskann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband