Færsluflokkur: Dægurmál

Litningar úr Neanderdals-manninum finnast í nútíma-manninum

Þá þarf ekki að velkjast lengur í vafa um hver urðu örlög Neanderdals fólksins (Homo neanderthalensis). Það blöndaðist nútíma manninum (Homo sapiens sapiens). Vísindamenn skýrðu frá því í dag að þeir hefðu fundið að 1%- 4% af litningum nútíma mannsins, einkum þeirra sem búa í Evrópu og Asíu, eru fengin frá Neanderdals manninum.

Sjá nánar um þessa merkilegu frétt hér.


Söguþankar

history333Megin efni margra íslenskra blogga eru persónulegar frétta og söguskýringar. Það í sjálfu sér mjög merkilegt hvað margir vita hvað er að gerast á bak við tjöldin og þekkja "hina raunverulegu" sögu vel.  Þetta hljóta að verða ómetanlegar heimildir fyrir framtíðina og eru enn mikilvægari fyrir fortíðina sem er stöðugt þarf að umrita hvort eð er. 

Þótt ég hafi gaman að Því að lesa slíkar sagnfræðitúlkanir, nálgast ég þær með varúð. Ég veit sem er að fátt, ef nokkuð, á meira skilið að vera endurskrifað en einmitt slíkar söguskýringar.

Þannig hugsa margir sér þá dul að geta sagt fyrir um framtíðina af því Þeir þekkja fortíðina.

Að það sé mikilvægt að þekkja söguna til að endurtaka hana ekki, eins og einhver sagði, er í besta falli óskhyggja. Sögulegar ákvarðanir sem reynast happadrjúgar fyrir almenning eru yfirleitt teknar eftir að allt annað hefur verið reynt. 

Sagan, jafnvel þótt hún sé sögð óumdeild, lýtur jafnan í gras fyrir einbeittum vilja þeirra sem vilja komast á spjöld hennar eða skrifa hana upp á nýtt.  Eini vísdómurinn sem má draga af sögunni með vissu, er að það er oftast viturlegt að gera alls ekki neitt og altaf best að segja ekki neitt.


Mótsagnir hamingjunnar

success_and_happinessSumir hafa mjög þróað með sér mjög öfluga óhamingjuhvöt. Þeir líkjast mjög "gáfufólkinu" sem heldur að það eitt að vera neikvætt og gagnrýnið sé það sama og að vera rosalega klárt.

Því  finnst jafnframt að jákvætt fólk hljóti að vera heimskt. Það eina sem veitir slíku fólki hamingju eru sorg og vandræði.

Ég á auðvitað ekki við að lífið eigi að vera uppfullt af óendanlegri hamingu. Slíkt mundi gera hverja manneskju brjálaða.

Í raun er aðeins tvennt sem gerir fólk óhamingjusamt. Að fá allt það sem hjarta þeirra girnist og að fá það ekki.

En hvað er raunveruleg hamingja? Sumir segja langlífi og góð heilsa.

Allt sem mér þykir virkilega skemmtilegt er annað hvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi. Og ég spyr mig, er það þess virði að gefa allar nautnir upp á bátinn í staðinn fyrir tvö ár í viðbót á einhverju elliheimili?


Fjórar brúðargjafir

Óhamingjusöm hjónabönd hafa aldrei verið vinsælli en nú. Mörg þeirra taka loksins enda (sem betur fer) og fólk hefur leitina að nýjum mökum. Á endanum tekst það og efnt er til nýs brúðakaups. En hvað hvað gefur maður marggiftu fólki sem flest á, í brúðargjöf. Hér koma fjórar hugmyndir.

1. Andafælu. Þetta er ódýrt frumbyggjaprjál sem heldur í burtu illum öndum frá heimilinu. Andafæla er búin til úr náttúrlegum efnum, oft dýrabeinum og leyfum af einhverju fiðurfé. Fælan tryggir að engir fúlir andar komist inn á heimilið og safnar auk þess á sig ryki og ari sem annars gæti valdið heimilisfólki hnerra.

2. Draumafangara. Fátt er mikilvægara en að geta látið drauma sína rætast. (Þá er gengið út frá að draumfarir fólks séu góðar) Draumafangari sem einnig er búinn til úr einföldu frumbyggjaskrani, hjálpar þér að muna drauma þína þegar þú vaknar svo þú getir látið þá rætast.

3. Stafrænan stjörnuteljara. Hvað er rómantískara en að liggja úti undir berum himni á stjörnubjartri nóttu með ástina þína í fanginu og telja stjörnur. Stjörnuteljarinn gerir þér kleift að segja nákvæmlega til um hversu margar stjörnur eru sjáanlegar og það sem meira er, hvað þær heita. Teljarinn er því um leið rafrænt stjörnukort sem stillir sig sjálft, hvar sem þú ert staddur í á jarðarkringlunni. 

4. Wikipídía leikurinn. Hvað hafa margir leikið sér í Wikipídía leiknum? Hann felst í því að komast frá einni WP síðu til annarrar í sem fæstum smellum. Þannig komst ég t.d. frá smjöri (butter)  til Íslands í 3 smellum. WP leikboxið inniheldur 3 milljón tillögur um byrjunarsíðu og endasíðu og segir þér jafnframt hver besti mögulegi árangurinn er. Frábær leikur sem allir sem eiga tölvu og eru nettengdir geta stytt sér stundir við.


Gamla brjósta nornin

sheelanagig_07-08_toby_farrowÞjóðlagatónlist er afar vinsæl um þessar mundir hér í Bretlandi. Margar þjóðlagahljómsveitir spreyta sig á að bræða saman tónlist frá öðrum löndum við hefðbundinna keltneska tónlist svo oft verður úr stórskemmtileg blanda.

Eitt vinsælasta þjóðlaga-bandið um þessar mundir í mið-Englandi stígur á stokk í kvöld hér í Bath. (Chapel Arts Centre) Bandið kallar sig Sheelanagig og leikur bræðing af Sígauna djassi og írskri tónlist. Nafnið er nokkuð sérkennilegt enda samrunni þriggja forn-írskra orða, þ.e. Sheela, na og gig. Mér lék forvitni á að vita hvað nafnið þýddi og fann strax upplýsingar um það á netinu.

Satt að segja brá mér dálítið í brún við lesturinn.

Gargoyle,_Dornoch_CathedralMargir furða sig á því, þegar þeir skoða gamlar dómkirkjur, að byggingarnar eru oft "skreyttar" með ófrýnilegum og afmynduðum andlitum eða skrímslum sem ganga undir samheitinu "Gargoyles" (ófreskjur). Gargoyle er dregið af franska orðinu gargouill sem þýðir háls eða kok, enda ófreskjuskolturinn oftast notaður sem affall fyrir vatn af þökum bygginganna. Hugmyndin bak við þessar ófreskjumyndir er að best sé að bægja frá hinu illa með illu, þ.e. "að með illu skuli illt út reka".

Fornar hugmyndir fólks um heiðnar vættir hverskonar fundu sér þannig leið og var viðhaldið af smíðameisturum miðalda sem reistu margar af helstu og frægustu kirkjubyggingum Evrópu.

SheelaWikiÁ keltneskum áhrifasvæðum, einkum á Írlandi, tíðkaðist gerð sérstæðrar kvenkyns-ófreskju sem bar nafnið Sheela na gig. Deildar meiningar eru um nákvæmlega merkingu orðanna en líklegast er hún dregin af gelísku setningunni Sighle na gCíoch, sem merkir "Gamla brjósta nornin".

Samt eru Sheela na gig fígúrur ekki brjóstastórar konur. Þvert á móti eru þær allar brjóstalausar. Þær sýna þess í stað óferskju sem teygir út sköp sín líkt og sést hér á meðfylgjandi mynd.

 

 

 


Eyjamolar

300px-Heimaey1309Vestmannaeyjar og sér í lagi Heimaey, er að mínu áliti merkasti staðurinn á Íslandi. Bæði í jarðfræðilegu og sögulegu tilliti eiga Vestmannaeyjar ekki sinn líka á Íslandi og eru að margra mati einstæðar í heiminum. Fyrir þessu mati liggja margar orsakir sem allar leggjast á eitt. Ætlunin er að tilfæra hér nokkrar.

Til að byrja með er Heimaey afar ung og verður svo að segja til um það leiti sem fyrstu merki um siðmenningu mannsins koma fram.

Í lok síðustu ísaldar fyrir rúmum 11.000 árum, þegar að mennirnir voru rétt að byrja að stunda akuryrkju suður í Mesópótamíu og mynda með sér samfélög, urðu nokkur eldgos suður af  Íslandi undir jöklinum sem enn lá yfir landinu. Í þessum gosum urðu til elstu hlutar Heimaeyjar; Dalfjallið, Klif, Háin, Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur. 5000 árum síðar, þegar borgríki höfðu verið stofnuð víða um lönd og siðmenningin sitt hvoru megin við miðbaug var komin vel á veg,  urðu aftur gos á svipuðum slóðum sem mynduðu Stórhöfða, Stakkabótina og nokkru síðar Helgafell. Hraun úr Helgafelli tengdi Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Þá bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973 og þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km².

Elstu hlutar Heimaeyjar eru að mestu gerðir úr Móbergi,  enda bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu. Lengi var talið að það tæki Móberg langan tíma að harðna og verða til og þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar í rannsóknum á Surtseyjargosinu 1963 kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gjóska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.

Fuglalíf við eyjar er afar fjölbreytt og þar m.a að finna stærstu lundabyggðir í veröldinni.

200px-Keiko-airplaneTelja má víst að Ísland hafi komist oftast í heimspressuna vegna atburða sem tengjast Vestmannaeyjum. 

Fyrst var það árið 1963 þegar að Surtsey reis úr hafi ásamt nokkrum smáeyjum sem síðan sukku aftur.

Þá vakti gosið á Heimaey 1973 einnig heimsathygli. Í því gosi reyndu menn í fyrsta sinn í sögu heimsins að stöðva og breyta hraunrennsli frá virkum eldgígum með raunhæfum aðgerðum.

Síðast var það koma háhyrningsins Keikó til Heimaeyjar 1998 sem greip athygli umheimsins. Hvalnum var flogið til eyjarinnar með Hercules hergagna-flutningavél sem svo braut á sér annan hjóla-útbúnaðinn í lendingu og festist á miðjum flugvellinum í tvo daga

Lengi hefur skráð saga Vestmannaeyja verið tengd fyrstu landnámsmönnunum, þeim fóstbræðrum Ingólfi og Hjörleifi. Eyjarnar eru sagðar nefndar eftir írskum þrælum Hjörleifs sem Ingólfur drap alla á Þrælaeyði, nema foringja þeirra Dufþak. Hann er sagður hafa hlaupið á flótta undan Ingólfi fram af Heimakletti þar sem nú heitir Dufþekja.

mynd4Lítið hefur verið sett út á þessa sögu þótt bent hafi verið á að Írar hafi alls ekki verið kallaðir Vestmenn af Normönnum, heldur aðeins þeir norrænu menn sem sest höfðu að vestan Danmerkur, þ.e. í Setlandseyjum, Orkneyjum, á Mön eða á  Írlandi. – Ef að eyjarnar hefðu verið byggðar norrænum mönnum þegar Ingólfur nefndi þær, á nafnið alveg við. Reyndar bendir margt til að svo hafi verið.

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft í Herjólfsdal. Niðurstöður hennar og aldursgreiningar á fornleyfum af staðnum enda til þess að byggða hafi verið í Eyjum allt að 200 árum fyrr en haldið er fram í sögubókum.

Páll Theódórsson, eðlisfræðingur, hefur rýnt í þessa vinnu og fleiri aldursgreiningar og sagt niðurstöðu þeirra og nýrra aldursgreininga breskra og bandarískra vísindamanna, sýna nærri óvefengjanlega,  að landnám hófst á Íslandi tveimur öldum fyrr en almennt er talið, eða um árið 670.

Vestmannaeyjum tengjast ýmsir atburðir í sögu landsins og jafnvel heimsins sem ekki er oft getið um.  Verið getur að mörgum þyki heimildirnar eða ályktanir dregnar af þeim séu of veikar til að halda mikið á lofti.

viki13Landnáma segir að Herjólfur Bárðarson hafi numið Vestmannaeyjar fyrstur manna. Í Grænlendingasögu segir frá alnafna hans sem bjó skammt frá Eyrarakka og sem sagður er hafa siglt með Eiríki Rauða til Grænlands. Bjarni Herjólfsson sonur hans hafði þá verið í siglingum og ætlaði á eftir föður sínum til Grænlands. Hann villtist af leið og fann land í vestri. Seinna segir hann Leifi syni Eiríks frá þessu en Leifur er sagður hafa fyrstur vestrænna manna tekið land í Norður Ameríku.

Í febrúarmánuði árið 1477, fimmtán árum fyrir sögufræga siglingu sína yfir Atlantsálaárið 1492, kom ítalskur sæfari að nafni Kristófer Kólumbus til Íslands. Frá þessu segir í ævisögu hans, sem á frummáli heitir Historia del Almirante Don Cristóbal Colón og var skrifuð af syni hans Ferdinand Kólumbus nokkru eftir dauða "Cristobals".

Ævisöguna skrifaði sonurinn m.a. sem andsvar við tilraunum spænsku krúnunnar til að gera lítið úr hlut Kólumbusar í landafundunum miklu. Sú rimma snerist, eins og svo margar aðrar, um tilkall til valda og auðæfa. Leiðangur Kólumbusar var farinn með fulltingi Ísabellu drottningar af Spáni með samkomulagi um verulega upphefð Kólumbusi til handa ef leiðangurinn bæri árangur.

Colombus_portraitAfkomendur hans höfðu hins vegar verið þvingaðir til að afsala sér þeim forréttindum að miklu leiti. Það er athyglisvert að ein af rökum spænsku krúnunnar í því máli voru að Kólumbus hefði fengið hugmyndina að leiðangri sínum hjá öðrum, sem vekur spurningar um hvort slíkur orðrómur hafi verið á kreiki á þeim tíma?

Í stuttri frásögninni lýsir Kólumbus Íslandi sem eyju jafn stórri og Englandi og gefur upp sínar mælingar á staðarhnitum. Hann segir að Englendingar sigli þangað með vörur sínar, einkum frá Bristól. Hann segir að sjórinn við landið hafi ekki verið frosinn þegar hann var þar en öldur hafi verið ógnarháar. Kólumbus skrifaði þennan stutta texta, ásamt fleiri svipuðum, til að sýna að hann hefði víða farið og hafi verið fullfær um að leiða leiðangurinn yfir Atlantshafið til að leita Indíum.

Eins og margt annað sem haft er eftir Kólumbusi er frásögn hans af heimsókn hans til Íslands frá Írlandi algjörlega út úr kú að mestu leyti. Staðsetning hans á landinu skeikar litlum 400 mílum og stærðin er stórlega ýkt. En að einu leiti hefur hann rétt fyrir sér, enskir kaupmenn frá Bristól sigldu til og frá landinu með varning. Ýmsir telja í dag að Kólumbus hafi komið að Rifi á Snæfellsnesi með Englendingum, en þeir sigldu gjarnan þangað, hæfilega langt frá dönsku valdi sem kærði sig lítið um að þeir væru að stunda hér verslun. Hinn möguleikinn er að hann hafi komið til Vestmannaeyja þar sem enskir kaupmenn versluðu með saltfisk, lýsi og vaðmál. Þaðan getur Kólumbus hafa siglt í kring um landið á minni fiskiát og síðan til baka með kaupfari til Írlands.

Víst er að landi hans John Cobott kom við í Vestmannaeyjum á ferðum sínum um norðurhöf áður en  hann fékk leyfi Bretakonungs til að kanna ókunn fiskimið strendur Nýfundnaland 1495-6. John og Kólumbus áttu reyndar sameiginlegan vin í Englandi og til eru nokkur sendibréf frá honum stíluð á Kólumbus.  Sumir segja að Kólumbus og Cabott hafi verið afar góðir vinir en að Cabott hafi afrekað það fram yfir Kólumbus að stíga fæti á Ameríska meginlandið.

Eins og allir vita gerði  hollenski sjóræninginn Jan Janszoon, einnig þekktur sem Murat Reis, strandhögg í Vestmannaeyjum árið 1627. Strandhöggið er oftast nefnt Tyrkjaránið. Um ránið og afdrif sumra þeirra sem rænt var hafa varðveist nokkrar upplýsingar.

Minna fer fyrir upplýsingum um atburði sem áttu sér stað í Vestmannaeyjum 1614 þegar flokkur sjóræningja dvaldi á Heimaey í 20 daga samfleytt við rán og gripdeildir. Ef til vill  vegna þess að þessir kumpánar drápu enga, þóttu ránin varla heyra til tíðinda, alla vega bliknuðu þau alveg fyrir Tyrkjaráninu 13 árum seinna.

Kláus lögréttumaður Eyjólfsson (1584-1674)  skráði frásagnir af Tyrkjaráninu. Hann var um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum  Þar segir nánar af ýmsum fyrirburðum á himni og á jörð. “Þau teikn sem sáust áður en þessir morðlegu Tyrkir ræntu í Vestmannaeyjum og Austfjörðum voru:
Ein hræðileg ókind með síðum hornum, er gekk úr sjónum lifandi þar upp á eyjarnar, aktandi ei fallstykki, spjót og lensur. Hún sást þar og áður það fyrra Vestmannaeyjarán skeði af Jóhann Gentelmann, hver þar rænti, en enginn var þó drepinn, svo eg viti, en rændir voru þeir eignum sínum
.”

bonnethangingÁ þessum tíma gengu sjóræningjar undir mörgum nöfnum. Eyjamenn muna þennan Jóhann undir nafninu John Gentelman eða “Jón Herramann.”  Réttu nafni ku maðurinn hafa heitið James Gentleman og félagi hans, einnig kunnur stigamaður frá Englandi, Williams Clark.

Í júní 1614 komu þessir ensku sjóræningjar til Heimaeyjar. Áður höfðu þeir rænt tveimur dönskum skipum út fyrir eyjum. Þeir fóru síðan ránshendi um Vestmannaeyjar í tvær vikur . – Seinna sama ár voru þessir ræningja-herramenn handsamaðir, dæmdir og hengdir í Englandi, m.a. fyrir rán sín í Vestmannaeyjum.


Eldfjallið sem stöðvaði Bretland

lightningSegja má að "úrfellið" af völdum gosins í Eyjafjallajökli sé rétt að hefjast hér í Bretlandi. 

Næstkomandi Sunnudag mun Channel 4 frumsýna heimildarmyndina 'The Volcano That Stopped Britain'.

Myndin er sú fyrsta af nokkrum heimildarmyndum um gosið í Eyjafjallajökli sem breskar sjónavarpsstöðvar keppast nú við að ljúka og koma í sýningu, á meðan efnið er enn "heitt".

Sem aldrei fyrr hefur Ísland verið milli tannanna á Bretum og þótt ummælin séu oft látin falla í hálfkæringi, leynir neikvæðnin í garð landsins sér ekki.

Gremja þúsunda strandaðra farþega víðsvegar um Evrópu blandaðist fljótlega saman við það sem þeir höfðu heyrt um landið í fréttum á síðastliðnu ári í tengslum við efnahagshrunið. Ein sjónvarpsstöðin sýndi til dæmis graman farþega hrópa beint inn í myndavélina: "I hate you Iceland". 

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson núði salti í sárið í útvarpsviðtali við BBC þar sem hann talaði um að Evrópubúar væru alls andvaralausir og óviðbúnir slíkum hamförum en mættu jafnvel búast við  miklu verri afleiðingum ef t.d. Katla tæki að gjósa. 

Grínarar og brandarakallar hafa ekki hikað við að gera sér mat úr  náttúrhamförunum og einn brandarinn þeirra er svona; Íslendingar kunna ekki að lesa, við báðum um peningana (cash) okkar aftur, ekki ösku (ash).  

 Myndasyrpa sem sýnir sjónvarpsþuli víðsvegar um heiminn reyna af miklum vanmætti að bera fram "Eyjafjallajökull" er vinsæl á utube. Tilraunum eins þeirra hefur meira að segja verið blandað inn í rapplag um gosið eins og heyra má hér.

Í heimildarmyndinni 'The Volcano That Stopped Britain' mun einn kunnasti eldfjallafræðingur Breta; Prófessor Nick Petford stikla um fjöll á Suðurlandi og reyna að útskýra fyrir fólki hvað öfl ráða ferð þegar kemur að eldsumbrotum og gosstöðvum.

Reyndar er það annar Nick (Clegg) sem Bretar eru uppteknir af um þessar mundir. Sá er formaður Frjálslyndra Demókrata og þykir hafa staðið sig með ágætum í sjónvarpskappræðum formanna þriggja stærstu flokkanna sem bjóða fram til þings í kosningunum 6. Maí.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bretar efna til slíkra kappræðna í sjónvarpi og bæði Davíð Cameron og Gordon Brown urðu á þau regin mistök að samþykkja að Nick Clegg fengi að taka þátt í þeim. 

Allir fréttatímar eru þó að mestu undirlagðir af sögunni af óförum Gordons Browns verkalýðsflokks-forseta og forsætisráðherra, sem í fyrradag varð það á að sýna sitt rétta andlit í beinni útsendingu (óvart),  þar sem hann kallið konu sem hann hafði átt orðastað við, "fordómafulla" .

Samkvæmt skoðanakönnunum virðast dagar hans í þessum embættum taldir, nema hann nái samkomulagi við Frjálslynda Demókrata sem í fyrsta sinn í langan tíma eygja von um að geta blandað sér í stjórnarmyndunarviðræður í Bretlandi.


Dauðir menn blogga ekki

Eftir því sem örvæntingin eykst í samfélaginu og ráða og dugleysi pólitíkusa verður augljósara, grípa skríbentar bloggsins til æ grófari orða til að lýsa því sem þeir skynja sem atferli og innræti þeirra. Það þykir ekki lengur tiltökumál að kalla fólk landráðamenn og föðurlandssvikara.

Búið er að gengisfella merkingu þeirra orða svo að þau eru gjörsamlega búin að missa merkingu sína sem alvarleg ásökun.

Gömlu fúkyrðin; fáviti, vitleysingur og asni, nægja greinilega ekki lengur til að lýsa tilfinningunum sem sumir hafa í garð annars fólks.

NáhirðMeðal skammaryrðanna og uppnefnanna eru þó ákveðin orð sem komist hafa í tísku og eru notuð óspart vinstri, hægri, sem mér finnast ógeðfeldari en önnur.

Eitt þeirra er orðið "náhirð." sem er svo ofnotað að það kemur fyrir á 7.360 síðum á goggle.

Náhirð er væntanlega hirð þeirra sem dýrka dauðann eða fylkja sér um dauðan konung eða leiðtoga.

Náhirð getur einnig verið hirð dauðra, rétt eins og blóðsuguhirð lifandi dauðra sem Drakúla greifi hafði um sig.

Þá hafa einnig sést orðin násker og nábítur og náriðill. 

Násker getur auðvitað átt við sker hinna dauðu, þ.e. okkur Íslendinga sem búum "á skerinu" en ég sá það einnig notað fyrir skömmu sem uppnefni á nafninu Ásgeir.

Nábítur er líkæta eða gæti líka verið ein blóðsugan úr náhirð Drakúlu.

Náriðill er sjaldgæfara en bregður þó fyrir. Orðið er afar óviðfelldið þegar það er notað sem uppnefni og það er vafasamt hvort til eru öllu strekari orð til að lýsa andúð eða viðjóði.

Annað sem komið virðist í tísku er að hefja greinar með eins miklum fúkyrðum og hægt er að koma fyrir í einni setningu.


Sjónhverfingar

Dansarinn

Þetta er mynd af dansmey. Í hvaða átt snýr hún sér, réttsælis eða rangsælis.  Stundum sérð þú hana dansa réttsælis og stundum rangsælis.

Gamla konan og kallinn hennar

Myndir eins og þessar voru algengar í blöðum og tímaritum hér áður fyrr, en eru nú orðnar frekar fáséðar.

Svart hvít blekking

Þessi er alveg sígild.

Allt á iði

 


Hvar er Umbarumbamba?

Hljómar.Umbarumbamba1966 kom út hljómplatan Umbarumbamba með Hljómum frá Keflavík. Platan kom einnig út í Bretlandi og nefndi hljómsveitin sig  þar Thor´s Hammer. Sú plata mun nú vera verðmætasta safnplata sem íslenskir hljómlistarmenn hafa staðið að. Jafnframt létu Hljómar gera kvikmynd sem einnig bar nafnið Umbarumbamba með undirtitlinum; Sveitaball. Myndin fjallaði um sveitaball, slagsmál og fyllerí, og verður að teljast afskaplega frumstæð í alla staði.

Hún var gerð af Reyni Oddsyni, þeim sama og seinna (1977) gerði kvikmyndina Morðsaga. Reynir stýrði verkinu og bar hitann og þungann af vinnslunni. Hljómar greiddu stærsta hluta kostnaðarins, rúmlega hálfa milljón og fóru upptökurnar fram um sumarið og haustið ´65.  Upphaflega átti myndin að vera hálftíma löng en hún endaði sem 13 mínútna stuttmynd.

Torshammer. umbarumbambaUmbarumbamba var aðeins sýnd í tvo daga sem aukamynd í Austurbæjarbíói. Eftir það var hún send út á land og var sýnd í kvikmynda- og samkomuhúsum sem aðalmynd á eftir klukkutíma langri aukamynd sem ég man ekki lengur hver var. Samt þótti enginn maður með mönnum sem ekki hafði séð hana. Kvikmyndir bresku Bítlanna A Hard Day's Night (1964) og Help (1965) sátu fastar í unglingum landsins, enda sáu þær margir ótal sinnum, og nú var komið íslensku Bítlunum.

Ég sá myndina þegar hún var fyrst sýnd í Félagsbíói í Keflavík og verð að viðurkenna að mér þótti lítið til hennar koma. Fyrir það fyrsta var hún allt of stutt. Hljómgæðin voru döpur og samtölin stirðbusaleg. Þá saknaði maður Engilberts á trommunum en í hans stað var kominn Pétur Östlund sem lék með Hljómum í stuttan tíma um það leiti sem myndin var tekin upp. En auðvitað lét ég á engu bera. Það hefði verið algjör goðgá í Keflavík á þeim tíma að gagnrýna eitthvað sem kom frá Hljómum.

Hljómar.m.Pétri ÖstlundÍ dag er myndin eflaust ómetaneg heimild sem marga mun fýsa að sjá aftur.  Þar sem knöpp peningaráð réðu því að aðeins var gerð eitt sýningareintak af myndinni, fór þetta eina eintak mjög illa, rispaðist og skemmdist þegar það var sýnt vítt og breitt um landið.

Eftir að sýningum lauk á myndinni hvarf hún sporlaust og sú flökkusaga gekk um að hún hefði hreinlega týnst eða eyðilagst. Löngu síðar kom í ljós að leikstjórinn Reynir Oddson hafði tekið hana til varðveislu.

Eflaust vakir enn fyrir Reyni að  koma kvikmyndinni í sýningarhæft ástand og vona ég að svo verði sem fyrst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband