Færsluflokkur: Ljóð
7.10.2011 | 13:51
Kunna ekki textana í brekkusöngnum
Árni Johnsen og Róbert Marshall eru báðir söngelskir og ljóðadýrkendur. Þeir vita hvað klukkan slær þegar kemur að kunnáttu íslensks ungdóms hvað varðar ljóð og sönglög.
Báðir hafa t.d. stýrt fjöldasöng á fjölmennustu útihátíð landsins til margra ára, Þ.e. Þjóðhátíð í Eyjum. (Það var einmitt Róbert sem leysti Árna af í brekkusöngnum sumarið sem Árni sat inni.)
Árni hefur verið þekktur fyrir að halda uppi mikilli stemmningu með því að syngja og leika gamla íslenska slagara.
E.tv. hefur Árna blöskrað síðustu árin hversu illa krakkarnir kunna textana við íslensku sönglögin í brekkusöngnum og vill bæta úr því með þessari þingsályktunartillögu.
Þriðji þingmaðurinn sem stendur fyrir ályktuninni er Ólína Þorvarðardóttir, sjálfskipuð útvörður íslenskrar menningar á þingi og af landsbyggðinni í þokkabót eins og hin tvö.
Vonandi verður þetta samþykkt svo rútu og brekku söngur verði vinsæll að nýju meðal ungmenna. Fátt er eins vel til þess fallið að vekja og viðhalda heilbrigðri þjóðerniskennd.
Auka skuli hlut ljóðakennslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2010 | 21:15
Hver er að hlusta
Fyrirgef oss vorar skuldir,
í samfélagi hinna kristnu gilda.
Þær eru hvort eð er
aðeins til í sýndarveruleikanum
og eiga sér enga raunveru,
tákna ekki neitt,
nema óhamingju mína og áþján.
Þær eru aðeins flökkt rafboða á milli örgjafa,
eplavampírublóð
sem drýpur úr æðum rafheilanna
yfir rautt yfirlitið
sem ég fékk í póstinum
nóttina sem þrumveðrið skall á.
Gerviblóðsugurnar skjálfa
í svartri moldinni,
þrá áfram nóttina,
og mig milli tannanna.
En þær hafa heldur enga tilveru,
ekki neina raunveru,
og allt sem þeim tilheyrir
er ekki af þessum heimi
en gerir mig samt að undirmálsmanni
og börnin mín að kreppudýrum,
sérhönnuðum þrælum,
til að þjóna þeim.
En hver er að hlusta?
á Austurvelli
langt fram eftir nóttu.
Hás og rám að lokum
skreiðast þau í burtu,
upp í fletin þar sem þeirra bíða draumar
um raunverulegar blóðsugur, alvöru blóð
áþreifanlegt líf og ekta dauða,
þar sem einhver hlustar.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 18:56
Óður Akhenatons
Akhenaton var fyrstu fimm ár sutján ára valdaferils síns sem Faró í Egyptalandi þekktur undir nafninu Amenhotep IV. Hann lést 1334 f.k. en er kunnastur fyrir að hafa reynt að koma á eingyðistrú í Egyptalandi þrátt fyrir að slíkt væri landsmönnum hans afar framandi. - Tilraun hans mistókst, því eftir andlát hans tóku landsmenn upp fyrri trúarsiði. Eina ritið sem varðveist hefur um trúarvakningu Amenhoteps IV er þessi óður til sólguðsins Atons, hér í lauslegri þýðingu úr ensku.
Hve fögur er dögun þín á sjóndeildarhring himins, Ó lifandi Aton, uppruni lífsins! Þegar þú ríst á sjóndeildarhringnum í austri, fyllir þú hvert land af fegurð þinni. Þú ert fagur, mikill og skínandi hátt yfir hverju landi, geislar þínir umlykja löndin og alla sem þú hefur skapað. Þú ert Ra og þú alla með þér, fangna og bundna af ást þinni. Þótt þú sért fjarlægur falla geislar þínir á jörðina; þótt þú sért í hæstum hæðum, er dagurinn fótspor þitt.
Þegar þú hefur sest við sjóndeildarhring himinsins í vestri, er jörðin í myrkri eins hinir dauðu; Þeir sofa í sínum hýsum, höfuð þeirra eru vafin, nasir þeirra eru troðnar og engin þeirra sér hvorn annan, á meðan öllum eigum þeirra undir höfðalagi þeirra þeirra er stolið og þeir vita ekki af því. Hvert ljón kemur úr híði sínu, allir spordrekarnir stinga, myrkur...Veröldin er í þögn, því hann endar hvern dag, aftur og aftur út við sjóndeildarhringnum.
Björt er jörðin þegar þú ríst aftur út við sjóndeildarhringinn. Þegar þú lýsir sem Aton að degi, rekur þú myrkrið á brott. Þegar þú sendir frá þér geisla þína, er daglega haldin hátíð í löndunum tveimur, vakandi og komnir á fætur því þú reisir þá upp, limir þeirra baðaðir og þeir klæðast, hendur þeirra reistar upp í aðdáun á dögun þinni. Þá munu allir í heiminum vinna sína vinnu.
Allur nautpeningurinn hvílir sig í högum sínum, tré og plöntur blómstra, fuglar svífa yfir mýrum, vængir þeirra bifast í aðdáun á þér. Allt sauðféð dansar fimum fótum og allt sem hefur vængi flýgur. Það lifir þá þú hefur baðað það í geislum þínum. Reyrbátarnir sigla upp og niður fljótið. Hver þjóðvegur er opinn þegar þú hefur risið. Fiskar árinnar stökkva upp til að mæta þér. Geislar þínir glampa á hinum mikla græna hafi.
Skapari frjós konunnar, sá sem bjóst til sæði mannsins, gefur syninum líf í líkama móðurinnar, huggar hann svo hann gráti ekki, elur hann í móðurlífinu, sá sem gefur andardráttinn sem lífgar allt sem þú hefur skapað! Þegar hann stígur fram í líkamanum á fæðingadegi sínum, opnar þú munn hans svo mann megi mæla og sérð honum fyrir öllum nauðsynjum.
Þegar að unginn tístir í eggjaskurnunum, gefur þú honum andardrátt svo hann megi lifa. Þegar þú hefur framfleytt honum, þar til hann brýst út úr eggi sínu, stígur hann fram úr eggi sínu og tístir af öllum mætti. Hann gengur um á tveimur fótum, þegar hann hefur stigið fram úr því.
Hversu mörg eru verk þín! Þau eru hulin fyrir okkur, Ó þú eini Guð, hvers krafta enginn annar hefur. Þegar þú varst einn, skapaðir þú jörðina eftir hjarta þínu, manninn, alla nautgripina smáa og stóra, allt sem er á jörðinni og gengur um á fótum sínum. Allt sem er á hæðum, allt sem flýgur um á vængjum, útlöndin Sýrland, Kush, og Egyptaland. Þú ákvarðar hverjum manni stað, hverjum sínar eignir og telur ævidaga allra. Menn tala ýmsum tungum, útlit þeirra og hörundslitur er mismunandi, því þú gerir hina ókunnugu öðruvísi.
Þú skapaðir Níl í neðri heimum og ræður henni sem þér sýnist, til að vernda líf fólksins. Því það hefur þú búið til handa sjálfum þér, drottinn þess alls, hvílandi á meðal þeirra; Þú drottin allra landa, sem ríst fyrir öllum mönnum, þú sól dagsins í mikilli tign. Öllum fjarlægu löndum gefur þú einnig líf, þú hefur sett Níl á himininn svo hún falli yfir þau, skapi öldur upp á fjöllum, líkt og mikið haf, sem veitt er á akrana í bæjum manna.
Hversu ágæt er hönnun þín, Ó drottin eilífðarinnar! Á himnum er Níl fyrir hina ókunnugu og fyrir nautpeninginn í hverju landi sem gengur um á fótum sínum. En Níl kemur úr neðri heimi Egyptalands.
Geislar þínir næra hvern garð; Þegar þú ríst lifir hann og vex vegna þín. Þú gerðir árstíðirnar til að öll verk þín verði unnin, Veturinn færir þeim svala og hitinn er til að þeir fái bragðað á þér. Þú lést hinn fjarlæga himinn rísa yfir svo þú gætir séða allt sem þú hefur skapað, Þú einn, skínandi í líki hins lifandi Atons, í dögun, glitrandi ferðu í burtu og kemur svo aftur. Þú skapar milljónir af formum, einn af sjálfum þér, borgir, bæi og ættflokka, þjóðvegi og ár. Öll augu sjá þig fyrri sér, því þú ert Aton dagsins yfir nótunni.
Þú býrð í hjarta mínu og enginn þekkir þig utan sonur þinn Akhnaton. Þú hefur gert hann vitran með áformum þínum og mætti. Veröldin er í hendi þinni, jafnvel þótt þú hafir skapað hana og þegar þú ríst lifir hún og þegar þú sest, deyr hún. Því þú ert lífsferillin sjálfur, menn lifa vegna þín, á meðan augu þeirra beinast að fegurð þinni, þar til þú sest. Öll vinna er sett til hliðar þegar þú sest í vestri.
Þú skapaðir heiminn með hendi þinni og reisir hann upp fyrir son þinn, sem er staðfesting þín, Konungur efri og neðri Egyptalands, sá er lifir í sannleika, drottinn hinna tveggja landa, Nefer-khrpuru-Ra, Van-Ra, sonur Ra, sem lifir í sannleika, drottinn kórónanna, Akhnaton sem er langlífur og hans heittelskaða, sú er ræður löndunum tveimur; Nefer-nefru-Aton, Nofretete sem lifir og blómstrar að eilífu.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2009 | 23:01
Að verða gamall er ekki svo slæmt miðað við hinn möguleikann
Árið 1893 gáfu systurnar Patty og Mildred J. Hill saman út bók sem hafði að geyma barna-sönglög og barnagælur. Báðar störfuðu þær á barnaheimili í Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum, en meðal lagnanna sem í bókinni birtust var lag sem í dag er, samkvæmt heimsmetabók Guinness, þekktasta lagið í heiminum í dag. Textinn við lagið í umræddri bók er svona;
- Good morning to you,
- Good morning to you,
- Good morning, dear children,
- Good morning to all.
Víst er að lagið var ekki eftir systurnar, því á 19 öld voru margir textar sungnir við þessa sömu laglínu. Á meðal þeirra voru; "Happy Greetings to All", "Good Night to You All" og "A Happy New Year to All".
Fljótlega eftir að bókin kom út, byrjuðu krakkar samankomnir í afmælisboðum að syngja annan texta við auðlært lagið og með þeim texta varð lagið heimsþekkt; "Happy Birthday to you." Síðan þá hafa ýmsir textar verið samdir við lagið og eru flestir þeirra "ortir" á staðnum. Ein grínútgáfa hefur orðið vinsæl, sérstaklega í USA. Hún er svona;
Happy Birthday to You
You live in a zoo
You look like a monkey
And you smell like one too.
Íslensku útgáfuna þekkja allir ;"Hann/hún á afmæli í dag," enda ómar hún í svo til öllum afmælisboðum jafnt aldinna sem ungra á landinu. (Að vísu halda múslímar og vottar Jehóva ekki upp á persónulega afmælisdaga af trúarlegum ástæðum.)
Stundum riðlast þó samhljómurinn þegar kemur að því að nefna nafn afmælsisbarnsins, sérstakelga ef nafnið er lengra en fjögur atkvæði.
Þrátt fyrir hina miklu úrbreiðslu lagsins, heyrist það sjaldan sungið í kvikmyndum eða á hljómplötum. En margir kannast við eina frægastu útgáfu lagsins sem var sungin af Marilyn Monroe, persónulega fyrir forseta Bandaríkjanna; John F. Kennedy í Maí mánuði árið 1962.
Ætla mætti að lagið væri löngu orðið almenningseign og öllum frjálst að nota að vild, svo er ekki, þ.e. ekki með "Happy Birthday" textanum. Fyrir utan að fyrstu nótunni í laginu er skipt til að koma að tveimur sérhljóðum í orðinu "happy" eru lögin "Happy birthday" og "Good morning to you" nákvæmlega eins.
Höfundarréttur á laginu "Good Morning to All" er löngu útrunninn og þess vegna almenningseign, en réttinn á "Happy birthday" á milljónamæringurinn Edgar Miles Bronfman, Jr.sem keypti hann af bandaríska útgáfufyrirtækinu The Time-Warner Corporation árið 2004. Time-Warner hafði keypti árið 1998 af Birch Tree Group Limited sem átt hafði réttinn frá 1935.
Eitt sinn kom upp sú kjaftasaga að Paul Mcartney hefði keypt höfundarréttinn að laginu en það mun vera rangt.
Samkvæmt höfundarréttarlögum á því að greiða stefgjöld af laginu í hvert sinn sem það er sungið á opinberum vettvangi og sú er ástæðan að kvikmyndagerðarmenn t.d. skipta því oft út fyrir lög eins og "For He's a Jolly Good Fellow". Talið er að Edgar hafi meira en tvær milljónir bandaríkjadala í stefgjöld af laginu árlega.
Skiljanlega reynir Edgar hvað hann getur til að fylgja eftir höfundaréttar-eign sinni og hefur höfðað nokkur mál fyrir rétti þar að lútandi. Mörgum hefur þótt það langsótt að gamalt þjóðlag sem texta sem saminn var af fimm og sex ára börnum fyrir margt löngu, skuli þéna peninga fyrir moldríkan mann.
Lagið mun verða almenningseign árið 2030 þegar höfundarréttur á því rennur út.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2009 | 03:43
Lýsingin á andlátinu hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs
Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var eins árs. Móðir hans dó þegar hann var tveggja ára. Seinna afneitaði fósturfaðir hans honum og hann var lengi heimilislaus. Ástarsambönd hans fóru öll út um þúfur og þegar hann loks gekk í hjónaband var það með þrettán ára gamalli frænku sinni sem dó úr berklum áður en hún varð tvítug.
Hann þjáðist af þunglyndi, alkóhólisma og ópíum fíkn og lést aðeins fertugur að aldri á dularfullan hátt, snauður, forsmáður og vinalaus. Til jarðarfararinnar, sem aldrei var auglýst, komu aðeins tíu manns sem urðu vitni að því þegar að Edgar Allan Poe, einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma, var til jarðar borinn í borginni Baltimore árið 1849.
Síðast liðinn sunnudag, 160 árum eftir þessa fámennu athöfn, ákváðu bæjabúar í Baltimore að heiðra minningu Edgars með því að efna til gervi útfarar þar sem eftirlíking af líki hans var borið að gröf hans með viðhöfn.
Frægir leikarar fóru með minningarorð og brugðu sér í gervi frægra aðdáenda skáldsins, m.a. Sir Arthur Conan Doyle og Sir Alfred Hitchcock.
Athöfnin var svo vel sótt að ákveðið var að endurtaka hana strax sama kvöld þannig að úr varð líkvaka við grafreitinn.
Allt þetta umstang rúmlega 200 árum eftir fæðingu Edgars er ansi ólíkt kringumstæðunum þegar dauða hans bar að þann 7. október 1849.
Nokkrum dögum áður fannst hann með óráði fyrir utan bar einn í Baltimore. Hann var klæddur fatnaði sem greinilega var ekki hans eigin og gat ekki gert neina grein fyrir ferðum sínum eða hvað að honum amaði. Hann lést á Washington College Hospital, (sjúkrahúsinu) sem hann hafði verið fluttur til, hrópandi nafnið "Reynolds" aftur og aftur.
Edgar Allan Poe er einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma. Hann er talinn upphafsmaður spæjarasögunnar og frumkvöðull í gerð hryllingssagna. Nokkrar hafa verið kvikmyndaðar þ.á.m. The Pit and the Pendulum og The Fall of the House of Usher. Af ljóðum hans er Hrafninn án efa þekktast og eftir því hefur einnig verið gerð kvikmynd.
Meðal samtíðafólks hans var Edgar best þekktur sem óvæginn bókmenntagagnrýnandi. Orðstír hann sem slíks fór víða og fyrir bragðið eignaðist hann marga óvildarmenn sem sumir gerðu sér far um að ófrægja hann eftir lát hans.
Sem dæmi þá birtist minningargrein um Edgar í New York Tribune sem hófst svona; "Edgar Alan Poe er dáinn. Hann dó í Baltomore í fyrra dag. Þessi tilkynning mun koma mörgum á óvart en hryggja fáa." Fyrir greininni var skrifaður einhver "Ludwig".
Seinna kom í ljós að þar var á ferð Rufus Wilmot Griswold, ritstjóri og ritrýnir en þeir Edgar höfðu eldað saman grátt silfur allt frá árinu 1842. Rufus tók að sér að stjórna útgáfu á verkum Edgars og gerði hvað hann gat til að sverta orðspor skáldsins.
Rufus skrifaði m.a. grein sem hann sagði að væri byggð á bréfum frá Edgari og sem lýstu honum sem sídrukknu ómenni. Flest af því sem Rufus skrifaði voru hreinar lygar og einnig sannaðist að bréfin voru fölsuð.
Edgar var fæddur 19. janúar 1809 í Boston. Foreldrar hans voru farandleikararnir David og Elizabeth Poe sem fyrir áttu soninn Henry og seinna eignuðust dótturina Rosalie. David Poe yfirgaf fjölskylduna ári síðar (1810) og 1811 lést Elizabeth úr tæringu. Edgar sem þá var tveggja ára var tekinn í fóstur af John Allan, ríkum kaupmanni af skoskum ættum frá Richmond í Virginíu sem verslaði með ýmsan varning, þ.á.m. þræla. Þótt Poe hafi bætt nafni hans við sitt, ættleiddi Allen aldrei drenginn.
Þegar Edgar var 17 ára varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Sarah Elmira Royster. Hann kann að hafa trúlofast henni áður en hann hóf nám við háskólann í Virginíu 1826. Þar safnaði hann spilaskuldum og John Allan rak hann úr fjölskyldu sinni.
Hungraður og heimilislaus yfirgaf Edgar háskólanámið og þegar hann frétti að Sarah hefði gifst öðrum manni, innritaði hann sig í herinn. Honum tókst að fá sína fyrstu bók; Tamerlane, útgefna og síðan ljóðabók, sem hvorug vöktu nokkra athygli.
Dauði Fanny, fósturmóður Edgars, hafði þau áhrif að um stund urðu sættir milli hans og Johns Allen sem útvegaði fóstursyninum inngöngu í herskólann í West Point í júlí 1830. En innan fárra mánaða fór allt í sama horfið og Edgar var aftur vísað úr fjölskyldunni.
Poe lét reka sig frá West Point með því að sýna af sér vítavert kæruleysi þannig að hann var færður fyrir herrétt. Frá herskólanum lá leið hans til New York þar sem hann hóf að skrifa gagnrýni fyrir tímarit og dagblöð. Hvernig sem á því stóð, slógu félagar hans í West Point saman fyrir útgáfu á ljóðahefti fyrir hann sem einfaldlega bar nafnið "Ljóð."
Þegar að Poe snéri aftur til Baltimore, fékk hann inni hjá frænku sinni Maríu Clemm, dóttur hennar Virginíu. Eldri bróðir hans Henry bjó einnig undir sama þaki en lést fljótlega úr alkóhólisma eftir að Edgar settist þar að. Þrátt fyrir að geta sér gott orð fyrir að vera skeleggur gagnrýnandi, var hann ætíð í vandræðum. Hann missti ætíð störfin vegna drykkjuskaparins og reyndi að stjórna þunglyndi sínu með laudanum (ópíumblöndu) og víni.
Árið 1835 gekk Edgar að eiga frænku sína á laun. Virginía var 13 ára dóttir Maríu Clemm sem Edgar kallaði ávalt eftir það " elskulegu litlu eiginkonuna." María sá um þau bæði og fylgdi oft Edgari eftir til að reyna að koma í veg fyrir drykkju hans. -
Húsakynni þeirra voru hreysi og kofar og oft nærðust þau aðeins á brauði og sýrópi. Poe reyndi hvað eftir annað að gera sér mat úr skrifum sínum en drakk sig meðvitundarlausan þegar illa gekk.
Virginía var aðeins 19 ára þegar hún smitaðist af berklum en Edgar neitaði að viðurkenna að hún væri að deyja og sagði blóðið sem kom upp úr henni, koma úr brostinni æð. Eftir dauða hennar varð Edgar enn óstöðugri og skrif hans myrkari.
Sögur hans og ljóð lýstu hvernig líkamar voru sundur limaðir, étnir af mönnum, brenndir, grafnir lifandi, troðið upp í reykháfa af órangútum og étnir af ormum á sama tíma og meginpersónurnar monta sig af því hvernig þeir hafa komist upp með glæpina.
Tveimur árum eftir dauða Virginíu fannst hann ráfandi um göturnar, klæddur í garma og dauðvona.
Þrátt fyrir allt þetta var poe um þessar mundir sá gagnrýnandi sem höfundar óttuðust mest í Bandaríkjunum. Hið magnaða ljóð hans "Hrafninn" hafði getið af sér fjölda eftirlíkinga og útlegginga og hafði meira að segja verið notað í sápuauglýsingar.
Smásagan Morðin í Rue Morgue ruddi veginn fyrir nýrri tegund leynilögreglusagna, þar á meðal Sherlock Holmes. Hryllingssögur hans höfðu sumar verið þýddar á frönsku og rússnesku og gefið skáldum eins og Charles Baudelaire sem safnað öllu sem Poe skrifaði, mikinn innblástur.
Edgar hefði átt að vera orðinn ríkur en hann var stöðugt undir þumlinum á óprúttnum ritstjórum sem aldrei borguðu honum vel og það sem hann fékk eyddi hann í fýsnir sínar.
Áhugi Poes í lifanda lífi beindist mest að dauðanum. Ímyndanir, skjálfti og meðvitundarleysi á milli var lýsingin á ástandi hans rétt fram að andlátinu. Hún hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 04:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.10.2009 | 17:19
Tveir froskar
Heyrðist frétt um heiminn óma
hvernig froskar tveir,
féllu í skál full´af rjóma,
þar fangaðir voru þeir.
Annar reyndist raunagóð
og rausnarleg sál,
hinn einn þeirra huglausu,
hvað allt er voða mál.
Við drukknum hér dugleysan æpti,
dæmalaust óhress,
niðrá botninn síðan sökk
og sífrandi kvaddi bless.
Sá er áfram svamlaði
sagði við sjálfan sig;
dug skal sýna dómi,
þótt dauðinn taki mig.
Ótrauður mun ég áfram synda
uns mig þrýtur þol,
örlögin ég læt mér lynda,
lýtt mér hugnast vol.
Hugrökk sundið hetjan þreytti,
með hamagangi rjómann þeytti.
Hann barðist um og buslaði
bullandi af fjöri,
og skjótt varð rjóminn allur að
indælis þykku smjöri.
Loks á smjörinu lafmóður stoppaði,
léttur svo upp úr skálinni hoppaði.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2009 | 23:29
Ljóðakeppni hér og nú
Jóna Á Gísladóttir birtir á bloggsíðu sinni skemmtilegar vísur sem sendar voru til Washington Post þegar blaðið efndi til ljóðasamkeppni á dögunum, sem fólst í því að semja rímu með tveimur braglínum. Skilyrði var að fyrri línan væri sérstaklega rómantísk en sú seinni andstæðan.
Nú dettur mér í hug hvort ekki sé lag að efna til slíkrar keppni á íslensku hér á blogginu og hafa reglurnar nákvæmlega þær sömu og hjá Washington Post. Sem sagt tvær hendingar eða bragalínur, sú fyrri mjög rómantísk og sú síðari ekki.
Íslendingar eru margir orðlagðir hagyrðingar og ljóðelskir með eindæmum svo það er um að gera fyrir sem flesta að spreyta sig, hér og nú.
Ég legg til að þeir sem hyggjast taka þátt, skoði fyrst ensku vísurnar á síðu Jónu.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2009 | 01:02
Bob Dylan "The words are a stolen"
Þegar að Bob Dylan var 16 ára (1957) sendi hann ljóð sem hann sagði vera eftir sjálfan sig til birtingar í blaði sem gefið var út af sumarbúðum fyrir drengi. ( Herzl Camp in Webster,Wis)
Ljóðið heitir "Little Buddy og hefur oft verið tekið sem dæmi um snilli Dylans sem skálds, jafnvel á unga aldri. Frumritið af ljóðinu á að selja í næstu viku á uppboði og er vonast til að fyrir það fáist allt að 10.000 dollarar en það eru Herzl sumarbúðirnar sem eiga frumritið.
Nú hefur komið í ljós að "ljóðið" er að mestu leiti sönglagatexti eftir kanadíska sveitalagasöngvarann Hank Snow sem hann gaf út á plötu 11 árum áður en Dylan sendi inn "ljóðið sitt" til Lisu Heilicher sem þá var 16 ára og ritstjóri búðablaðsins. (Lisa varðveitti frumritið í 50 ár og lét það búðunum eftir nýlega til að afla því fé.)
Hér getur að líta "ljóð Dylans" og svo texta Hanks (d.1999) til samanburðar .
"Little Buddy
eftir Dylan
Broken hearted and so sad
Big blue eyes all covered with tears
Was a picture of sorrow to see
Kneeling close to the side
Of his pal and only pride
A little lad, these words he told me
He was such a lovely doggy
And to me he was such fun
But today as we played by the way
A drunken man got mad at him
Because he barked in joy
He beat him and hes dying here today
Will you call the doctor please
And tell him if he comes right now
Hell save my precious doggy here he lay
Then he left the fluffy head
But his little dog was dead
Just a shiver and he slowly passed away
He didnt know his dog had died
So I told him as he cried
Come with me son well get that doctor right away
But when I returned
He had his little pal upon his knee
And the teardrops, they were blinding his big blue eyes
Your too late sir my doggys dead
And no one can save him now
But Ill meet my precious buddy up in the sky
By a tiny narrow grave
Where the willows sadly wave
Are the words so clear youre sure to find
Little Buddy Rest In Peace
God Will Watch You Thru The Years
Cause I Told You In My Dreams That You
Were Mine
Little Buddy
eftir Hank Snow
Broken hearted and so sad, golden curls all wet with tears,
'twas a picture of sorrow to see.
Kneeling close to the side of his pal and only pride,
A little lad these words he told me.
He was such a lovely doggie and to me he was such fun,
but today as we played by the way
A drunken man got mad at him because he barked in joy,
He beat him and he's dying here today.
Will you call the doctor please and tell him if he comes right now,
he'll save my precious doggie 'cause I'll pray.
Then he stroked the fluffy head but his little pal was dead,
Just a shiver and he slowly passed away.
He didn't know his dog had died, so I told him as he cried
"Come with me son we'll get that doctor right away"
"But I can't leave him here alone, I must get my doggie home
So while you're gone I'll kneel beside him, sir and I'll pray."
But when I returned he had his little pal upon his knee
And the teardrops they were blinding his big blue eyes,
"You're too late, sir my doggie's dead and no help can save him now
But I'll meet my precious Buddy up in the sky."
By a tiny narrow grave, where the willows sadly wave,
are these words on a shingle of pine:
"Little Buddy rest in peace, God will watch you thru' the years,
'Cause I told Him in my prayers that you were mine."
Ljóð | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2009 | 11:56
Aðvörun
Þegar ég verð gömul kona mun ég klæðast fjólubláu
við rauðan hatt sem ekki passar og fer mér ekki.
Og ég mun eyða lífeyrinum í koníak og sumarhanska.
Og satín sandala og segja að engir peningar séu til fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast niður á gangstéttina þegar ég er þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja viðvörunarbjöllum
og renna prikinu mínu eftir grindverkinu
og bæta mér upp hversu stillt ég var í æsku.
Ég ætla út í rigninguna á inniskónum
og tína blóm úr görðum annars fólks
og læra að hrækja.
Þú getur klætt þig í hræðileg pils og fitnað meira
og þú getur borðað þrjú pund af pylsum í einu
eða bara brauð og súra gúrku í viku
og safnað pennum og blýöntum, glasamottum og hlutum í boxum.
En núna verðum við að klæðast fatnaði sem heldur okkur þurrum
og borga leiguna og ekki bölva úti á götu
og setja börnunum gott fordæmi.
Við verðum að bjóða vinafólki í mat og lesa blöð.
En kannski ætti ég að æva mig dálítið núna?
Svo fólk sem þekkir mig sjokkerist ekki og undrist
Þegar ég allt í einu verð gömul og byrja að klæðast fjólubláu.
Jenny Joseph
Jenny Joseph (f. 1932) er ensk skáldkona. Ljóðið hennar "Aðvörun" sem ég tók mér það bessaleyfi að snúa á íslensku og birta hér að ofan, (ekki af tilefnislausu) var árið 1996 kosið vinsælasta ljóðið sem samið hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina í Bretlandi. Fyrir kosningunni stóð BBC.
Ljóðið hefur haft mikil áhrif á konur um allan heim og í Bandaríkjunum var t.d. stofnaður Rauðhatta-klúbbur kvenna sem koma saman til að drekka te í fjólubláum kjólum og með rauða hatta.
Hugmyndin að Rauðhattaklúbbnum kviknaði þegar Sue Ellen las ljóðið Warning" eftir Jenny Joseph sem segir frá eldri konu sem klæðist fjólubláum fötum og ber rauðan hatt. Ljóðið hreif Sue Ellen svo að hún ákvað að gefa vinkonu sinni ljóðið ásamt rauðum hatti í afmælisgjöf. Vinkonan varð einnig svo hrifin að hún gaf fleirum sömu gjöf og svona hélt þetta áfram. Einn daginn ákveður þessi hópur að hittast í fullum skrúða, það er að segja í fjólubláum fötum sem passa alls ekki við rauða hattinn og það varð ekki aftur snúið. Rauðhattaklúbburinn varð til.
Sue Ellen Cooper stofnaði Rauðhattaklúbbinn árið 1998 og í dag eru Rauðhettir í Bandaríkjunum og Kanada að nálgast hálfa milljón og klúbburinn er byrjaður að skjóta rótum í Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.1.2009 | 19:29
Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning
Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.
Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.
Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.
Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.
Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.
Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.
Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.
Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.
Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.
Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.
Hrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar Nevermore í lok hvers erindis.
Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:
- Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.
Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.
Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson. Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.
Margir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.
Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)