Færsluflokkur: Spaugilegt

Valdalaus kolkrabbi

Palli Kolkrabbi fær greinilega engu að ráða orðið. Það er búið að bjóða honum í skemmtiferð í lífvarðafylgt til Spánar og hann er ekki einu sinni spurður hvort hann hafi áhuga á að fara. Þetta er nú einum of mikil forræðishyggja finnst mér. - En kannski eru Oberhausen sædýrasafnsstjórar bara hræddir um að upp komist um allt svindlið. Alla vega hefur ekki fengist skýring á því að hvers vegna hann var sagður af "þjálfara" sínum nokkra mánaða gamall og veiddur í ítölskum sjó, en átti samt að hafa spáð fyrir um úrslitin í síðasta Evrópumóti í knattspyrnu.


mbl.is Kolkrabbinn Páll ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarlegur alkóhólisti

Hér í borg (Bath), eins og í svo mörgum borgum Bretlands er talvert um útigangsfólk. Oft víkur það sér að vegfarendum og biður þá um peninga.

Algengasta betllínan er einhvern veginn á þennan veg; "Ég er heimilislaus og á ekki fyrir gistingu í athvarfinu í nótt. Geturðu séð af einhverri smámynnt handa mér."

Svarið er venjulega "því miður er ég ekki með neina smámynt á mér"

Í gærkveldi brá dálítið öðru við. Að mér vék sér maður og spurði kurteislega; "Má ég eiga við þig orð?"

Þegar ég jánkaði því kom þessi rulla sem ég hafði aldrei heyrt áður;

 "Ég er heimilislaus og ég er alkóhólisti. Mig vantar 30 pens svo ég eigi fyrir næstu flösku. Viltu gefa mér þau?"

Ég gaf honum 50 pens, 30 svo hann gæti keypt sér flöskuna og 20 fyrir hreinskilnina ;=)

 


Þú þarft ekki að vera hestur þótt þú fæðist í hesthúsi

Þegar ljóst var að íslenskum auðjöfrum hafði tekist að skuldsetja landið og þjóðina þannig að bankakerfið hrundi, var leitað að bjargvætt sem gæti leitt okkur út úr vandanum. Hún fannst í harðduglegum og strangheiðarlegum verkstjóra Samfylkingar; Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var hún sem sem leiða skyldi okkur inn í fyrirheitna landið, hið Nýja Ísland.

Eftir nokkra mánaða setu í ráðherrastóli þótti mörgum, sem treyst höfðu Jóhönnu til verka, ljóst að henni mundi ekki takast flórmoksturinn sem skyldi. Traustið sem hún naut í upphafi kjörtímabils þvarr og með því trú margra á að hefðbundin pólitík gæti yfirleitt hjálpað.

Sú trú endurspeglaðist einkum í úrslitum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga í tveimur stærstu bæjarfélögum landsins. Á Akureyri hafnaði almenningur hinni hefðbundnu flokkspólitík og kaus þess í stað framboð sem stóð fyrir utan fjórflokkinn svokallaða.

Grínframboð Besta flokksins var kærkomið tækifæri fyrri Reykjavíkurbúa og vonsvikin börn búsáhaldabyltingarinnar til að lýsa frati á pólitíska kerfið. Ný bjargvætt var fundin í gervi Jóns Gnarr.

Jón Gnarr tekur nú við einu valdamesta embætti þjóðarinnar. Hans fyrsta verk var að mynda meirihlutastjórn með hefðbundnum stjórnmálflokk á mjög hefðbundinn hátt. Hann heldur áfram að grínast í orðum, en verk hans bera vott um að hann kunni ekkert annað. "Of erfitt" og "of flókið'" segir hann um að leita eftir þverpólitískri samstöðu í borgarstjórn.

Þeir sem töldu að Jón hefði gefið þeim ástæðu til að halda að vinnubrögð hans yrðu ekki hefðbundin, hafa þegar lýst yfir vonbrigðum sínum. - Að mér læðist sú spurning hvort Jón Gnarr sé ekki bara hefðbundinn pólitíkus í gervi grínista. - Jafnvel þótt hann sé kunnur fyrir skop sitt og grín og það hafi verið ástæðan fyrir að margir kusu hann, getur hann alveg sagt sem svo: þarf maður endilega að vera hestur þótt maður fæðist í hesthúsi?

Það er því óhætt að taka undir orð Ágústar þar sem hann tekir undir orð Njarðar P. Njarðvík um að stofna ætti nýtt lýðveldi enda væri flokkakerfi 20. aldarinnar gjaldþrota.


mbl.is Gagnrýndi stjórnvöld harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta eru ljótu hundarnir

Miðað við myndirnar hér að neðan er Miss Ellie fögur skepna. En hún vann víst einhverja keppni í Kaliforníu þar sem hverjum fannst sinn hundur ljótastur.  Annars er netið fullt af ótrúlega ljótum gæludýrum bæði hundum og köttum. Ég skellti0_61_062207_ugly_dog líka með mynd af ljótasta kettinum sem ég fann.

   _uglycat     funny_ugly_dogs_04  uglydog


mbl.is Ljótasti hundur heims dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

No Comment, ha ha....frábært og frumlegt

Mikið finnst mér allt hafa breyst við að Gnarr og co unnu kosningarnar. Það er eitthvað miklu léttara yfir öllu og öllum. Ég veit að hann gerði atlögu að þessu hefðbundna með frumlegum og semi-fáránlegum hugmyndum. En að hann gæti nálgast meirihluta myndun á þennan ofur frumlega hátt grunaði, að ég held, engan.

Þessi leynilegu leynifundir er einkar sérstakir. Þeir fara þannig fram að engin fær að vita neitt fyrr en allt er ákveðið hvernig það skuli vera. Þetta hefði sko engum nema Jóni getað dottið í hug.

Svo er Þetta fyrirkomulg svo hreinsandi fyrir andrúmsloftið enda.....eh andrúmsloftið afar gott á fundunum....enginn prumpar eða neitt....bara....hm, frábært.

Og svo þegar einhverjir bullukollar spyrja hvernig gangi, þá kemur þessi ótrúlega útpælda setning "No comment". Þvílík snilli.

Svo er Gnarr ekki að bíða neitt með að efna kosningaloforðin. Dagur er komin með diskinn um hvernig smákrimmar haga sér í La la landi. Algjörlega Awesome....

 


mbl.is „Víraðar“ viðræður í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í plati, he he.

Af ummælum Dags og þeirra félaga Jóns og Óttars má ráða að stefna Besta flokksins og Samfylkingar eigi mikla samleið. Stefna samfylkingarinnar hefur verið birt og gefur því góðar vísbendingar um stefnu Besta flokksins þótt ekki hafi þeir viljað birta hann kjósendum fyrir kosningar. 

Jón vill t.d  feta gömlu leiðina og mynda meirhluta og meinti greinilega ekkert með þessu tali um að ekki væri endilega nauðsynlegt að mynda meirihluta til að fara með mál borgarinnar.   

Allt í plati, he he.

Það læðist að manni sá grunur að hér kunni að vera á ferðinni best útfærða og útsmognasta pólitíska gabb-flétta allra tíma á Íslandi. 

Fólk verður að vera ansi múlbundið við flokksvagnana til að sjá ekki að það eru bein tengsl á milli Búsáhaldabyltingar og kosningasigurs Besta flokksins í Reykjavík.

Búsáhaldabyltingin var ákall um grundvallarbreytingar á stjórnarháttum í íslensku samfélagi.  Stjórnmálamönnum var gefið tækifæri til að verða við því ákalli fyrir og eftir síðustu alþingiskosningar.

Þrátt fyrir raunhæfar ábendingar um ýmsar úrbætur eins og að koma á persónukjöri og efna til stjórnlagaþings, ákváðu valdhafar að hafa ákallið að engu.

Allt í plati, he he.

Fáránleg viðbrögð stjórnmálmanna við kröfum almennings urðu til þess að hann ákvað að svara í sömu minnt. Svar Búsáhaldabyltingarinnar var að mæta fáránleikanum með fáránleika og fann hann í  andófsframboði Besta flokksins.

Nú virðist sem Jón Gnarr hafi raunverulega alltaf verið að segja sannleikann þegar hann sagðist hafa stofnað Besta flokkinn til að fá völd og góð laun.

Allt í plati, he he.


mbl.is Opinberir leynifundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbærilegur léttleiki tilverunnar í Reykjavík

Hvað tekur nú við, hugsa eflaust margir eftir að söguleg úrslit í borgarstjórnarkosningunum urðu ljós á sunnudagsnótt.

Eflaust fljúga brandararnir vinstri hægri í samningarviðræðunum við Samfylkinguna og Besta flokks fólk gerir sitt ýtrasta til að halda gríninu áfram, eins og því ber skylda til. Til þess voru þau kosin. 

Eitt er víst að Jón Gnarr fær borgarstjórastólinn og  mun sitja á honum með fulltingi Dags og Samfylkingar. Saman mynda Besti flokkurinn og Samfylking meirihluta. Hlutverk þeirra verður að bræða saman ábyrga gamaldags stjórnarhætti og óbærilegan léttleika tilverunnar.

Utangarðs verður Sjálfstæðisflokkur og VG. Saminingaviðræður standa yfir um hvernig málflokkum borgarinnar verður skipt á milli flokkanna. Enn sem komið er bendir ekkert til að miklar breytingar á stjórnarháttum séu í aðsigi. Fram að þessu hefur allt farið fram með hefðbundnum hætti. Yfir samningaviðræðunum hvílir sama leyndin og venjulega. Það væri nú of langt gengið að þær færu fram fyrir opnum tjöldum.

Auðvitað veit enginn hvað Jón Gnarr er að hugsa. Hann hagar sér eins og venjulegur pólitíkus, nema að honum er mikil alvara í að halda gríninu til streitu. Á það eitt getum við stólað.

Er ekki lífið yndislegt?


mbl.is Besti og Samfylking ræða saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Monster raving looney party systurflokkur Besta flokksins

Alan&DavidBrandarakallar hér í Bretlandi kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að blanda gríni og þjóðfélags gagnrýni. Monty Python gengið og Sacha Baron Cohen eru nærtækustu dæmin um skemmtikrafta sem hafa náð að hreyfa við samfélaginu með skopi. -

En engin hinna frægu spéfugla Breta hefur nokkru sinni þorað að setja saman pólitískt framboð. En ef hægt er að tala um að Besti flokkurinn eigi sér systurflokk í Bretlandi væri það helst The Monster raving looney party.

Flokkurinn er alvöru grínflokkur, vettvangur fyrir grínara og spaugara sem bjóða fram bæði til alþingiskosninga og sveitarstjórna, þar sem  einhver (hver sem er) vill fara fram. Engin þeirra hefur fram að þessu nokkru sinni hlotið kosningu.

Það er eins og margir haldi að allt í einu hætti grínframboðið að vera grín og einhver alvara taki við. Það mundu vera mikil svik við kjósendur ef það gerðist.

Það er alveg klárt að Besti flokkunin er grín og ætlar að stjórna með gríni. Þannig á það að vera. Grínið er best og það á heima í besta flokknum.

Alvaran er hundleiðinleg og óheiðarleg þar að auki.

Og hver segir að ekki sé hægt að stjórna litlu sveitarfélagi á borð við Reykjavík með gríni? Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það sem hefur verið að gerast og átti að vera alvara, var bara skoplegt.


mbl.is Sigur Besta flokksins vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Jón Gnarr næsti forseti Íslands

Það þykkir sýnt að Jón Gnarr mun vinna glæsilegan kosningasigur í kvöld. Borgarstjórastóllinn verður hans. Til hamingju með það Reykjavík. En hví skyldi Jón Gnarr láta þá forfrömun nægja.

Jón er ástsælasti maður landsins um þessar mundir, rétt eins og Jóhanna Sigurðardóttir var það þegar hún tók við forsætisráðherra embættinu forðum.

Jón getur ef hann vill, boðið sig fram til hvers sem er og fengið kosningu. Honum mundi ekki verða skotaskuld úr að koma nokkrum þingmönnum á þing og gerir það eflaust í næstu kosningum.

 Honum mundi takast það sem Hreyfingunum báðum mistókst.

Nú styttist einnig í forsetakosningar. Enginn líklegur kandídat í það embætti er sjáanlegur, nema auðvitað Jón Gnarr. - Mikið yrðu veislurnar á Bessastöðum skemmtilegri með Jón sem veislustjóra og áhugi fólks fyrir embættinu mundi stórlega aukast, að ekki sé talað um virðinguna.

Það er gömul regla í skemmtanabransanum á Íslandi að vegna fæðar landsmanna, verða þeir sem ná vinsældum að hamra járnið á meðan það er heitt og reyna að kreista allt sem hægt er út úr atriðinu, áður en fólk fær leið á því. 

Nú hefur Gnarr tækifæri til að tryggja sér sess meðal þjóðarinnar allrar til langframa. Hann gæti byrjað að undirbúa forsetaframboð sitt, en  hver veit hvað það kynni að leiða til ef hann hlyti kosningu.

The sky is the limit.


mbl.is Oddviti Besta flokksins kaus í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr er Silvía Nótt

sylvia1Jón Gnarr er fyndinn maður. Um það efast fáir. Hann er spéspegill þjóðarsálarinnar. Eða lítur hún kannski raunverulega svona út?

Þúsundir íslendinga trúðu því á sínum tíma að Silvía Nótt væri raunveruleg stjarna og að hún mundi uppfylla áratuga gamla þrá Íslendinga og vinna júróvisjón.

Jón Gnarr fylgdist líka með því í áratugi hvernig þjóðin lét sér vel líka að stjórnmálmenn sögðust vinna fyrir land og þjóð þótt þeir væru í raun alltaf að gæta sinna eigin hagsmuna...eða vina sinna...eða flokksins. 

Jón Gnarr hugsaði sem svo; Fyrst þjóðin var svo vitlaus að láta þetta yfir sig ganga, gæti ég alveg eins farið í framboð. Ég gæti talað eins og stjórnmálamenn gera, af algjöru ábyrgðarleysi, sagt að þetta og hitt verði skoðað, sett í nefnd og snúið út úr því sem ég ekki skil.  

Allir vita að ég er grínisti og hvernig sem fer, get ég ekki tapað. Úr verður stórkostlegt grín, eitthvað sem upp úr er hafandi. Og ef ég kemst í borgarstjórn eða á þing og fæ loks föst laun. Að auki gæti sú uppákoma líka orðið mikið grín.

Og viti menn, Jón hafði rétt fyrir sér. Ekki bara rétt fyrir sér, heldur virðist sem Jón Gnarr og flokkur hans hafi verið nákvæmlega það sem þjóðin þarfnaðist í dag, sérstaklega Reykjavíkurbúar. 

Hann er plat stjórnmálamaður, í grín-flokki, í landi sem ekki hefur lengur neina tiltrú á "alvöru" stjórnmálmönnum upp til hópa.

"Alvöru" stjórnmálmenn hafa fyrirgert öllu trausti með fíflsku sinni og nú vill almenningur að þessum sömu stjórnmálmönnum verði kennd ærleg lexía. Með stuðningi sínum við Jón Gnarr og flokk hans er almenningur að segja; Kjósum besta flokkinn, stjórnmál eru fíflagangur hvort eð er. Kjósum Jón Gnarr, hann er Silvía Nótt stjórnmálanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband