Færsluflokkur: Spaugilegt

Trúðar, oss er ekki skemmt!

Hvar á að byrja?

HryllingstrúðurFyrir það fyrsta þá hef ég aldrei séð hvað er fyndið við trúða. Að vera ekki fyndinn hlýtur að vera til vansa fyrir þann sem hefur þann eina tilgang að vera fyndinn. -

Trúðar og trúðslæti eru alls ekki hlægileg. Hver hlær t.d. að þessu fúla trixi þegar vatni er sprautað úr gerviblóminu? Kannski Hitler.

Húmor sem byggir á því að detta á rassinn í hvert sinn sem bassatromman drynur, er svo afkáralegur að hann jaðrar við hrylling.

Reyndar eru trúðar hryllilegir. Ef einhverjir rithöfundar settust niður og reyndu að skapa persónu sem væri holdtekja alls þess sem við álítum hryllilegt, væri útkoman trúður. 

Eldrautt rafmagnað hár, dauðahvítt andlit með skelfilegu glotti og voodoo augnfarða, útbelgdur skrokkur í viðundarlegum búningi, bigfoot fætur og hlátur hinna fordæmdu.  Allt þetta hefur trúðurinn. - Þess vegna  finnst mér það ætíð hljóma eins og hótun þegar ég heyri lagið Send in the Clowns.

Jerry Lewis gerði eitt sinn kvikmynd um Trúð. Hún hét The day the Clown Cried og fjallaði um trúð sem lenti í útrýmingarbúðum Nasista. Myndin var svo hryllileg að hún var aldrei að fullu kláruð, hvað þá tekin til sýninga.  Það segir heilmikið um trúða.

Stundum er fólki sem hefur aðra atvinnu,  líkt við trúða. Þú ert bara trúður, segja pólitíkusar oft um andstæðinga sína með fyrirlitningu og neikvæðu formerkin loða við röddina í mönnum. Samt borga þessir sömu menn stundum heilmikla peninga til að fá trúð í heimksókn til að taka þátt í merkisdögum í lífi barna sinna. - Þannig er pólitíkin, full af mótsögnum og þannig er að vera trúður, þeir eru ein mótsögn.


Ætti að malbika yfir Ísland

Ricky GervaisRicky Gervais, grínistinn sem er hvað kunnastur fyrir að semja og leika í gamanþáttunum The Office, er að leggja af stað í enn eina "uppistand" ferðina um Bretland. Samkomurnar eru auglýstar í sjónvarpi og sýnir auglýsingin Ricky gera stólpagrín að Íslandi. Svona fer kappinn orðum um landið bláa;

"Hvað er þetta með Ísland, hver er tilgangurinn með þessu krummaskuði? Ég meina, landið er gjaldþrota. Það ætti að malbika yfir allt klabbið og búa til úr því almennileg bílastæði fyrir restina af Evrópu. Ég meina, svona er landið aðeins sóun á rými".

 


Grínframboð Repúblikana

Donald-Trump--41056Repúblikanar í Bandaríkjunum eira sér ekki á meðan Barack Hussein Obama býr í Hvíta húsinu þeirra í Washington. Samt hafa þeir engann líklegan kandídat sem gæti sigrað forsetann í kosningunum 1012. Það mun ekki koma í veg fyrir að þeir reyni.

Þrír kunnir trúðar úr flokknum segjast ætla að fara fram.

Donald Trump, milljónamæringurinn sem er þekktastur fyrir að greiða hnakkahárið yfir enni sér og leika í leiknum raunveruleikaþætti, langar að bjóða sig fram. Hann verður að sigra tvo kventrúða til að verð aðal.  

Önnur er tepokakellingin Sarah Palin.

Sarah-Palin-Pitbull-With-Lipstick-46860Sarah segist halda að hún geti unnið Obama. Hún sagðist líka á sínum tíma hafa mikla reynslu í utanríkismálum því hún sæi Rússland út um eldhúsgluggann hjá sér þar sem hún býr í Anchorage í Alaska.

Hitt grínkvendið er Michele Marie Bachmann er reyndar líka tepokakella eins og Palin. Ekki er samt hægt að segja að þær séu samherjar eða vinkonur.   Michele vill endilega reyna við Obama 1012 en veit að hún þarf á tegenginu að halda til að ná einhverjum árangri. 

Hún sagði nýlega að Obama eyddi 200.000.000.dollurum daglega í ferð sinni til Indlands á dögunum. Það sýnir hversu vel hún er raunveruleika tengd. Seinna sagðist hún bara hafa verið að vitna í indverskt dagblað.

demon bachmannEf að það verður ofan á að einn af þessum grínistum Repúblikana reyni að sigra Obama í komandi kosningum, er von á góðri skemmtun á næstunni í bandarískum fréttatímum


mbl.is Trump íhugar forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ópera

Feita konan syngurFólk sem segir að óperan sé ekki eins og hún áður var, hefur rangt fyrir sér. Og það er einmitt vandamálið við óperuna.

Ef það er satt að óperan sé efsta stig á tónlistar þroskaferli hvers einstaklings, er ég nokkuð viss um að þangað muni ég aldrei komast. Ekki vegna þess að ég hafi ekki reynt.

Ég hef hlustað á óperusöng af hljómdiskum og meira að segja keypt mig inn dýrum dómum á Parsifal og Niflungahringinn. Parsifal byrjaði klukkan átta og eftir þrjá tíma leit ég klukkuna og sá að hún var bara hálf níu. Og í sögunni af Sigfríði, virtist Guðrún vera eina konan í stykkinu sem ekki var frænka hans. Reyndar hafði ég lúmskt gaman af leiknum, þrátt fyrir sönginn. 

Margt gerist  á annan hátt í óperunni en á nokkrum öðrum stað. Til dæmis þegar maður er stunginn í bakið, syngur hann í stað þess að blæða.

Og það er alveg sama á hvaða tungumáli óperan er sungin á, ég skil aldrei orð. Kannski er það bara fyrir bestu. 

Og eitt eiga  allar óperur sameiginlegt, þeim lýkur ekki fyrr en feita konan hefur sungið.


Þróaði fyrstu pentium fartölvuna

Herra Vickram Bedi, sá sami og ásakaður er ásamt íslenskri konu fyrir að hafa svikið fé út úr bandarískum auðjöfri, er eigandi fyrirtækissins Datalink Computer. Datalink Computer Products Inc. og  the D.N. Bedi Property group eru bæði félög í eigu herra Vickram Bedi.

Vickram þessi ku heita fullu nafni Baba Vickram A. Bedi og er fæddur árið 1974. Hann er sagður sonur Baba Shib Dayal Bedi og komin af hinni fornfrægu Bedi ætt, (Veda) auðugra stórkaupmanna og heldrimanna frá Indlandi.

Þá er því haldið fram í Wikipedia grein um Bedi fjölskylduna (sem reyndar notast við vafasamar og órekjanlegar heimildir) að Vickram hafi þróað fyrstu pentium fartölvuna árið 1994 þrátt fyrir að fyrstu pentium örgjafarnir fyrir fartölvur hafi ekki komið á markaðinn fyrr en 1997.

Til að fá nánari upplýsingar um það sló ég á þráðinn til Datalink í New York en fékk þær upplýsingar að Herra Bedi væri vant við látinn og ekki við fyrr en einhvern tíman í næstu viku.

Þá má geta þess að í þessari frétt mbl.is er sagt frá fjárgjöfum Bedi til Demókrata, en hann er einnig á lista yfir þá sem gáfu fé til Repúblikana.


mbl.is Segir að auðmaðurinn hafi gefið sér peningana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

C-3PO ♫♫♪♫

C3POAugljóst er að stór hluti bloggara skilur ekki Jón Gnarr. Líka er augljóst að meirihluti þeirra sem ekki skilja Jón Gnarr eru í "gamla Sjálfstæðisflokknum" og halda að allt sé eins og áður var.

Þeir skilja ekki að þegar þeir kalla Jón Gnarr "trúð" er það mikið hól fyrir Jón Gnarr og allir fylgjendur Jóns klappa saman hreifunum fyrir því.

Þegar Jón hagar sér eins og hann viti ekki neitt um pólitík, finnst gamla flokks meðlimunum það vera hneisa. Jón telur sér það hins vegar til tekna og þeir sem kusu hann segja sjúkk, sem betur fer.

Með öðrum orðum, "gamli Sjálfstæðisflokkurinn" skilur ekki geimverumálið hans Jóns.

Ég ráðlegg þeim öllum að festa sem fyrst kaup á einum C-3PO vélmenni sem skilur öll mál alheimsins, stilla hann á "íslensk pólitík í dag", og láta hann þýða það sem haft er eftir Jóni Gnarr.

Megi mátturinn vera með yður.


mbl.is Geimvera í íslenskum stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cliffhanger

Þeir félagar Hilmir Snær og Jörundur komust greinilega í hann krappan og þetta hefði vel getað farið illa. Algjör Cliffhanger ll  má segja, Jörundur í hlutverki Stallones. Annars finnst mér merkilegast við þessa frétt, nafnið á gígnum Lúdent og þetta með fítonskraftinn. Þarna er komið enn eitt gígsnafnið sem vafi leikur á hvaðan og hvernig er tilkomið. Ég fjallaði fyrir nokkru um Tintron, en það nafn er einnig umdeilt. Vísindavefurinn segir þetta um um nafnið Lúdent.

Lúdent er gígur austan við Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu. Þórhallur Vilmundarson telur nafnið vera dregið af tilbúna orðinu Lútandi sem orðið hafi að Lútendi og svo Lúdent. Síðan hafi orðið stúdent haft áhrif á nafnmyndina (Grímnir 2:109-110). 

Ekki er gefið að þessi skýring sé einhlít. Ólíklegt er að -t- á harðmælissvæði verði -d- í þessari stöðu. Hugsanlegt er að nafnið sé samsett, af lút og dent, þannig að tilbúna orðið Lút-dent hafi orðið Lúdent. Orðið dentur merkir ‘kvenhöfuðfat’ og merkingin væri þá ‘slútandi höfuðfat’.

Beyging nafnsins er Lúdentar- í samsetningum, til dæmis Lúdentarhæðirí sóknarlýsingu sr. Jóns Þorsteinssonar frá um 1840 (Þingeyjarsýslur, 118). Björn Gunnlaugsson setti myndina Lúðentarhæðirá Íslandskort sitt 1844. Lúdentarhæðir eru einnig í örnefnaskrá Voga. Þorvaldur Thoroddsen skrifar hinsvegar Lúdents-borgir 1913 (FerðabókI:283) og sömuleiðis Steindór Steindórsson í Árbók FÍ 1934 (bls. 29).

Fyrirsögnin talar um "fítonskraft" sem þó er hvergi komið meira inn á í fréttinni, sem er undarlegt, kannski jafn undarlegt og að þeir tveir, Hilmir og Jörundur, hafi "skipt liði". Alla vega segir Vísindavefurinn þetta um kraftinn;

Í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683 er gefið orðið fitungs ande og skýringin við er 'pithon'. Í orðabók Björns Halldórssonar er Fítúns-andi skýrt á latínu sem ‘phyton, python’ en á dönsku sem 'Raseri', það er 'æðisgangur'. Af þessu sést að um tökuorð er að ræða úr latínu sem aftur hefur fengið orðið úr grísku. Pŷthōnvar stór slanga við Delfí sem guðinn Appolló vann sigur á en orðið var einnig í klassískum málum notað um spásagnaranda og þann sem hafði slíkan anda.


mbl.is Fékk einhvern fítonskraft og bjargaði sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítlegt eðli

Það er stórfurðulegt og um leið upplýsandi að lesa sum bloggin við þessa frétt. Þingkona lætur eitthvað gróft flakka í gríni. Hún kemst að því að það var hljóðritað og heldur að það geti komið sér í koll. Hún biðst innilega afsökunar opinberlega og allir pólitísku bloggararnir setja upp flokksgleraugun til að ámæla henni eða hrósa, eftir því hvaða lit gleraugun þeirra bera.

Er það staðreyndi að fólk sé orðið það ringlað að það getur ekki hugsað sér að horfa á neitt nema í gegnum þessi gleraugu?

Hreppapólitíkin hér áður fyrr þótti oft rætinn og skensið flaug á milli pólitíkusana, oft í bundnu máli, og oft á nokkuð gróft. Það heyrir sem betur fer fortíðinni til að mestu.

Enda kunna fæstir stjórnmálamenn nú til dags að setja saman stöku, hvað þá annað.-

Í seinni tíð hafa menn að mestu varað sig á að segja ekki neitt ljótt opinberlega. Það er orðið svo sjaldgæft að fólk man enn eftir því þegar að einhver þingmaður sagði um annan að hann hefði skítlegt eðli.....sem er næstum því að segja honum að hoppa upp í rassgatið á sér...eða þannig.


mbl.is „Ég biðst innilega afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað svo óíslenskt

Það er ekki langt síðan að þorri íslendinga gat verið með nefið ofaní hvers manns koppi með því að hlusta á óviðkomandi símtöl í sveitasímunum. Það er samt eitthvað í íslenskri þjóðarsálinni sem fær mig til að finna fyrir aulahrolli í hvert sinn sem ég heyri að innlend yfirvöld beiti hlerunum til að rannsaka mál.

Einhvern veginn sé ég ekki íslenska krúnurakaða sérsveitarmenn sitja mánuðum saman yfir upptökutækinu, bíðandi eftir að eitthvað spennandi verði sagt.

Og ekki er betri myndin af einhverjum skrifstofublókum á borð við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, japlandi á kleinu með heyrnartól á eyrunum að hlusta á þá Jóni Þorstein Jónsson, Ragnar Z. Guðjónsson og Styrmi Þór Bragason fá leiðsögn hjá konum sínum í gegnum síma hvar kornflexið sé að finna í Krónunni.


mbl.is Hleranir í Exetermáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki Snorri Þorgrímsson búinn að afgreiða þetta?

Alltaf er það jafn fróðlegt að fylgjast með kjánalegum birtingarmyndum hjátrúar og fáfræði í samfélögum sem eiga að teljast siðmenntuð og uppfrædd.- Fyrir rúmum þúsund árum þegar að "kristnitökuhraunið" vall sögðu heiðnir menn að goðin væru reið vegna þess að Íslendingar hugðust taka kristni. Snorri goði Þorgrímsson afgreiddi málið með einni setningu sem flestir Íslendingar kunna í dag; "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?"

Árið eitt þúsund tókust menn á um trúarbrögð á Alþingi á Þingvöllum. Stefndi allt í voða því hvorki kristnir menn né heiðnir vildi gefa eftir. Þegar deilurnar stóðu sem hæst kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri kominn upp í Ölfusi og stefndi í að hraun rynni yfir bæ Þórodds goða. Heiðnir menn drógu þá ályktun að jarðeldurinn væri vitnisburður um reiði goðanna, þannig væru þau að koma fram hefnd fyrir yfirgang hinna kristnu. En þá mælti Snorri goði Þorgrímsson hin fleygu orð: "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?" Snorri virðist því ekki aðeins telja jarðelda af öðrum toga en reiði guðs eða guða, heldur einnig að jörð sú sem hann standi á hafi ekki sprottið fram fullsköpuð við sköpun heimsins. Þetta viðhorf Snorra telst mjög óvenjulegt á miðöldum og Sigurður Þórarinsson hefur kallað orð hans við þetta tækifæri "fyrstu jarðfræðiathugunina".

Snorri goði var líklega á undan samtíð sinni hvað þetta varðar, og það leið langur tími þar til fræðilegar skýringar á náttúruhamförum voru almennt á dagskrá. Kristnin sigraði á Íslandi og heimsmynd kaþólsku kirkjunnar skaut föstum rótum í þjóðlífinu.


mbl.is Gosið endurspeglaði reiði Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband