Færsluflokkur: Vísindi og fræði
18.5.2009 | 23:41
Elur sitt fyrsta barn 66 ára gömul
Þessi kona heitir Elizabeth Adeney. Hún er sextíu og sex ára, einstæð og eins og sést á þessari nýlegu mynd, kasólétt. Elizabeth sem er ógift og vinnur sem millistjórnandi í stóru fyrirtæki í Lidgate í Suffolk, mun ala barn sitt (son segja heimildir) í næstu viku ef allt fer eftir áætlun, aðeins fáeinum vikum fyrir 67. afmælisdag sinn. Elizabeth verður þá elsta kona sem alið hefur barn í Bretlandi.
" Það skiptir mig engu máli hvort ég verði elsta mamman í landinu. Það er ekki líkamlegur aldur sem skiptir máli, heldur hvernig mér líður inn í mér. Stundum finnst mér é sé 39 ára og stundum eins og ég sé 56." er haft eftir hinni fráskildu og fram að þessu barnlausu Elizabeth.
" Ég er fullkomlega fær um að sjá um mig sjálf þótt ég ég sé einstæð og eigi enga nákomna að. Það hef ég gert í mörg ár. Þetta verður bara ég og barnið mitt. Ég veit að það er fullt af fólki sem ekki mun skilja þetta, en mér er sama"
Elizabeth varð ófrísk eftir að hún hafði gengist undir gervifrjóvgun í Úkraínu. Í Bretlandi er konum yfirleitt neitað um slíka meðferð er þær eru eldri en fimmtugar.
2.5.2009 | 11:48
Sagan í hausnum
Hausmyndin mín er máluð af tveimur kínverskum listamönnum og gerð í stíl ítalskra endurreisnarmálara. Á henni er a finna 100 frægar persónur úr mannkynssögunni auk listamannanna sjálfra. Til skamms tíma var hausmyndin á blogginu mínu mín tekin innan úr þessari mynd en sett inn í fullri stærð fyrir viku.
Með því að smella á myndina hér fyrir neðan og síðan aftur á myndina sem þá birtist, færðu upp stækkaða mynd þar sem öll smáatriði koma greinilega fram. Þú getur athugað hversu margar persónur þú telur þig þekkja á myndinni.
Ef þær eru færri en 20 er komin tími til að þú rifjir lítillega upp mannkynssöguna. Ef Þú kannast við 20-60 ertu gjaldgengur í hvaða spurningakeppni sem er og ef þú þekkir 61-100 ertu snillingur. Ef þú þekkir nöfn allra þeirra 102 andlita sem á verkinu sjást ertu annar þeirra sem málaðir verkið.
Þegar þú ert búin að spreyta þig á kunnáttu þinni getur þú fengið allar upplýsingar um hverjar þessar persónur eru, með því að færa bendilinn yfir andlit þeirra á myndinni sem er að finna HÉR
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.4.2009 | 06:16
Kynlíf í kvöld
Hætt er við að spennan sem hefur verið að hlaðast upp í fólki smá saman undanfarnar vikur og jafnvel mánuði, nái hámarki í kvöld, þegar kjörstöðum verður lokað og byrjað verður að telja upp úr kössunum. Víst er að Það verður spennufall hjá mörgum seinni hluta kvöldsins þegar úrslit verða staðfest og því mikilvægt að vita hvernig hægt er að bregðast við því. -
Framvindan um myndun stjórnar eftir kosningar er nokkuð skýr og fyrirsjáanleg, þannig að ekki verður nein veruleg spenna tengd henni. XV og XS munu mynda stjórn og í stjórnarandstöðu verða XO, XB og XD. En hvort sem þú telur að þú hafir unnið eða tapað kosningunum, aukið völd þín eða tapað þeim, er viðbúið að í þér búi langvaraandi streita sem leita muni útrásar í kvöld.
Það er samdóma álit lækna og sérfræðinga að besta leiðin til að bregðast við spennufalli sé að beina hinni innlokuðu orku inn í kynlífið.
Kynlíf og spenna eru mjög tengd. Spenna hefur oft verið sögð orsök minni kynþarfar en jafnframt er kynlíf oft besta leiðin til að losa um spennu. Þeir sem eru í vafa um undursamleg áhrif kynlífs á heilsu og líf okkar, geta lesið hér og hér stuttar greina um efnið.
19.4.2009 | 16:44
Kettir eru drullusokkar
Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og sofa síðan hjá konunni þinni. -
Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.
Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)
Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf", þá hefur hann rangt fyrir sér.
Kettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -
En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!
Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;
að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -
eða; að í anddyrinu þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -
eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?
Vísindi og fræði | Breytt 21.4.2009 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
19.4.2009 | 12:01
Lunda-hundar
Lunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.
Hann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts, minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.
Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.
Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.
Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.
Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2009 | 01:22
Rautt kvikasilfur
Amma átti eina slíka enda voru þær afar algengar. Það hljóta enn að vera þúsundir til á íslenskum heimilum. Ef þú átt gamla SINGER saumavél, getur þú selt hana fyrir allt að 50.000 pund á ebay. Þetta háa verð er nýlega tilkomið og um þessar mundir eiginlega eingöngu bundið við Sádi-Arabíu.
Þar um slóðir eru menn sannfærðir um að í SINGER saumavélum sé að finna leyndardómsfullt efni sem gengur undir nafninu Rautt kvikasilfur. Rautt Kvikasilfur er svo verðmætt að margar milljónir fást fyrir nokkur grömm af því.
Rautt kvikasilfur kom fyrst fram á sjónarsviðið seint á síðustu öld og á að hafa ýmsa eiginleika, allt frá því að vera svo geislavirkt efni að það megi nota í atómsprengjur eða til að finna fjársjóði sem faldir hafa verið í jörðu.
Ef þú vilt ganga úr skugga um hvort SINGER saumavélin þín hefur Rautt Kvikasilfur að geyma, skaltu bera farsímann þinn upp að henni. Ef þú missir sóninn og línuna, ertu ríkari en þú gerðir þér grein fyrir.
Þrátt fyrir útbreidda trú á tilvist efnisins hefur aldrei tekist að fá skýr svör við hvað Rautt kvikasilfur raunverulega er. Um það eru margar tilgátur, en líklegast er að hér sé á ferðinni enn ein nútíma-flökkusagan. Hér er að finna upplýsandi grein um "efnið".
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.4.2009 | 23:51
Vatn
"Vatn er olía framtíðarinnar" "Vatn verður meira virði en gull" "Vatn er gjaldmiðill framtíðarinnar"
Allt eru þetta fyrirsagnir úr fjölmiðlum heimsins fyrir fimm árum. Þessi umtalaða framtíð er komin. Vatn er alveg við að verða verðmætasta vara heimsins. Og íslendingar ráða sem stendur yfir dágóðum forða ferskvatns. Hvenær stórfeldir vatnsflutningar frá landinu verða að veruleika, er aðeins tímaspursmál. Eitt er víst að vandamál heimsins verða ekki leyst án þess að til þess komi.
Þegar í dag líta margir alþjóða-hagfræðingar svo á að vatn sé verðmætara en olía. Þrátt fyrir að 70% yfirborðs jarðarinnar sé þakið vatni er aðeins 3% hæft til drykkjar. Af þeim 3% er tveir þriðju hlutar bundnir í snjó og jöklum. Því er aðeins 1% af öllu vatni heimsins aðgengilegt til neyslu. 97% er saltvatn eða sjór sem ekki er hægt að nota til neyslu eða jarðræktar.
Það er ekkert meira af ferskvatni á jörðinni nú en til var fyrir milljón árum. En í dag deila 6.000.000.000. manns vatninu, auk landdýranna. Síðan árið 1950 hefur mannfjöldi jarðarinnar tvöfaldast og vatnsnotkun þrefaldast.
Vatnsskortur er víða orðið alvarlegt vandmál í heiminum og upp á síðkastið á svæðum þar sem hans hefur ekki gætt fyrr.
Samkvæmt skýrslum Sameinuðu þjóðanna liggja í 50% af sjúkrarúmum heimsins, sjúklingar sem veikst hafa af slæmu eða menguðu vatni. Í þróunarlöndunum má rekja 80% allra sjúkdóma til mengaðs vatns eða vatnsleysis. 5 milljónir deyja árlega af þeim sjúkdómum. Talið er að 1,1 milljarður manna líði daglega alvarlega fyrir vatnskort og að sú tala muni fara í 2.3 milljarðar fyrir árið 2025.
Iðnvæðing heimsins á einnig þátt í að gera heilnæmt drykkjar vatn að munaðarvöru. Á þéttbýlum svæðum eins og í Kína, á Indlandi, í Afríku, Mexíkó, Pakistan, Egyptalandi, og í Ísrael hefur fersku vatni verið fórnað fyrir mengandi iðnað.
Jarðrækt og áburður valda mestu vatnsmenguninni í heiminum en Skordýraeitur á þar einnig stóran þátt.
Þótt jarðvegshreinsun og eiming vatns sé í dag mikill iðnaður er talið að allt að 95% skólps frá almenningi og 75% af iðnaðarskólpi sé hleypt út í yfirborðsvatn án allrar meðhöndlunar.
Vísindi og fræði | Breytt 15.4.2009 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2009 | 13:17
Fuglar sem byggja og búa í þorpum
Á Norður-Höfða Suður-Afríku er að finna kyndugan smáfugl sem ég veit ekki hvort á eitthvað íslenskt heiti. Á ensku er hann kallaður Sociable Weaver og á latínu Philetairus socius. Nafnið er gefið fuglinum vegna þess háttar hans að vefa sér hreiður og bústaði í félagi við aðra fugla af sömu tegund. Íslenska nafnið mætti því alveg vera "Félagsvefari".
"Félagsvefarinn" er svo sem ekki mjög merkilegur á að líta. Það sem gerir hann verulega frábrugðin öðrum fuglum er að hann býr sér svo stóran bólstað að allt að 300 fuglar geta hafst þar við. Í raun vefa fuglarnir sér einskonar fuglaþorp í greinum trjáa, sem hvert hefur í kringum 50 íbúðir og jafn margar dyr.
Þorpið getur verið allt að eitt tonn á þyngd, 40 fermetrar í rúmmál og dæmi eru til um að tréð hafi sligast undan þunga þorpsins og brotnað. Að neðan verðu liggja inn í þorpið göng sem gerð eru úr stífum stráum sem liggja öll inn á við til að gera snákum og öðrum óvinum erfitt fyrir að komast inn í þorpið.
Hver íbúðarhola er hnefastór og fóðruð með mjúkum stráum og hárum. Yfir þorpið reisa fuglarnir vatnshelt þak þannig að í þorpsholunum er ætíð þurrt.
Allt árið í kring erfiða "Félagsvefararnir" við að byggja, bæta og breyta bústöðum sínum. Þessi óvenjulegu en þægilegu hýbýli laða gjarnan að aðra fugla þannig að vefararnir eru sjaldnast einir í þorpunum. Þar má sjá bæði smá-fálka jafnt sem rauðhöfðaðar finkur á ferli.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.3.2009 | 16:24
Að drekka heitt te getur valdið krabbameini.
Það er vandlifað í þessum heimi og margt mannanna bölið. Maður var ekki fyrr búinn að venja sig af kaffiþambinu, þegar þetta kemur í bakið á manni.
Að drekka of heitt te er nú talið geta valdið krabbameini í vélinda, rétt eins og reykingar og brennivínsdrykkja.
Það eru alla vega niðurstöður íranskra lækna sem undruðust háa tíðni krabbameins í vélinda meðal fólks sem hvorki reykir eða drekkur áfengi. Um það fjallar frétt BBC sem er að finna hér í fullri lengd.
Ólíkt því sem gengur og gerst í mið-austurlöndum nota vesturlandbúar mjólk út í tevatnið sem kælir það nægjanlega til að það verði ekki skaðlegt, eða niður fyrir 70 gráður.
Einkum eru Bretar þekktir fyrir þennan sið, sem er talin algjör helgispjöll á drykknum þegar austar dregur. Annars fjallaði ég ekki fyrir löngu um hvernig á að gera fullkominn tebolla. Áhugasamir sem ekki sáu þann "gagnmerka pistil" geta fundið hann hér.
23.3.2009 | 21:12
10 áhrifamestu persónur Íslandssögunnar
Margir sem velta fyrir sér hlutunum í sögulegu samhengi hljóta fyrr eða síðar að spyrja sig spurningarinnar; hver er áhrifamesta persóna allra tíma. Á netinu er að finna fjölmarga lista sem gerðir hafa yfir kandídata í þann hóp og margir þeirra eru sammála mati Michaels H. Hart sem skrifaði bókina The 100: A Ranking of the Most Influential Persons in History sem kom fyrst út árið 1978.
Ég ætla ekki að að tjá um þann lista að sinni en þess í stað að þrengja aðeins hringinn. Það væri verulega áhugavert að sjá hverjir íslendingar í dag telja 10 mikilvægustu og áhrifamestu Íslendinga sem hafa lifað hafa frá upphafi Íslandsbyggðar. Nú hvet ég ykkur, lesendur góðir til að leggja höfuðið aðeins í bleyti og láta síðan í ykkur heyra og skrifa niður í röð frá 1-10 nöfn þeirra tíu einstaklinga sem þið teljið að ættu að tilheyra þessum hópi. Það væri gaman ef eins og ein skýringarlína fylgdi hverri tilnefningu. Til að sýna gott fordæmi ríð ég á vaðið og birti minn lista hér að neðan.
(Þeir sem ekki nenna að telja upp tíu telja bara eins marga og þeir vilja)
1. Snorri Sturluson (Fyrir ritverk sín og að varðveita helstu stoðir íslenskrar menningar)
2. Jón Sigurðsson (Fyrir að berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar)
3. Jónas Hallgrímsson (Fyrir að hafa meira að segja en flestir og segja það betur en allir)
4. Ari Fróði (Fyrir fræði sín og heimilda varðveislu)
5. Guðbrandur Þorláksson Biskup (Fyrir lærdóm sinn og þátt í útgáfu Biblíunnar á Íslandi)
6. Árni Magnússon (Fyrir að bjarga þjóðarverðmætum Íslands frá glötun)
7. Davíð Oddsson (Fyrir að móta mesta velferðartíma landsins fyrr og síðar)
8. Vigdís Finnbogadóttir (Fyrir framlag sitt til aljóðamála og kvenréttindamála)
9. Egget Ólafsson (Fyrir framlag sitt til upplýsingarinnar á Íslandi)
10. Björk Guðmundsdóttir (Fyrir að vera mesta og besta landkynning sem landið hefur átt.)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)