Færsluflokkur: Vísindi og fræði

OLED - Framtíðin er ljós

Fiber_Optics_FabricÍ náinni framtíð er góður möguleiki á því að fólk geti horft á uppáhalds kvikmyndirnar sínar á jakkaerminni eða horft á sjónvarpið á handtöskunni sinni. Mjólkurfernan lætur þig vita ef mjólkin er súr og veggfóðrið í stofunni einn risastór tölvuskjár.

Hin nýja OLED tækni sem gefur möguleika á því að framleiða örþunna "skjái" sem hægt er jafnvel að sníða í fatnað eða festa utaná klæðnað fólks verður fljótlega nógu ódýr til að gera allt þetta að veruleika.  OLED skjáir eru þegar komnir í framleiðslu þótt dýrir séu en tæknin er byggð á notkun lífrænna ljósa díóða.

Notagildi þessarar nýju tækni er afar fjölþætt. Nota má OLED filmuskjái til að pakka inn varningi þannig í staðinn fyrir áprentaða vörumerkimiða mundi koma "lifandi" mynd.

transform_clothes_1 OLED myndarammar eru þegar fáanlegir og gerðar hafa verið OLED bindisnælur og aðrir skartgripir. Þá þarf ekki lampanna við lengur, því púðar eða borð koma í þeirra stað.

Það kann því ekki að vera langt í að fólk geti bókstaflega gengið um eins ljósaskilti og myndirnar á veggjunum verði á stöðugri hreyfingu eins og í Harry Potter.

yoghourt_warning_2


"Hér skal borg mín standa"

2-1Strandlengjan við ósa árinnar Neva sem Pétur l keisari í Rússlandi, tók herskildi af óvinum sínum Svíum árið 1703, leit ekki út fyrir að vera mikilvægur landvinningur. Hún var í raun lítið annað en þokuklædd mýri, gaddfrosin hálft árið og samfeldur fenjapyttur hina sex mánuðina. Í augum Péturs hafði hún samt einstæðan og ómótstæðilegan eiginleika. Árósinn opnaðist út í Finnlandsflóa og bauð upp á þann aðgang að hafi til vesturs sem Rússland hafði lengi sóst eftir. Á eyju í árminninu ákvað keisarinn að byggja virki sem búið skyldi öllum helstu nýungum þeirra tíma, sinnt gæti viðskiptum við þróaðri lönd Evrópu og í tímanna rás mundi það einnig þjóna sem flotastöð fyrir rússneska flotann. Sagan hermir að Pétur hafi gripið byssusting af hermanni einum og strikað með honum ferhyrning í blauta mýrina og sagt "Hér skal borg mín standa."

peterJarðvinna við virkið hófst 16. maí sama ár. Það skyldi  heita í höfuðið á heilögum Pétri og heilögum Páli. Fyrsta stigið var að byggja upp eyjuna þannig að hún væri öll fyrir ofan sjólínu. Síðan þurfti að sökkva þúsundum staura í jarðveginn til að hann gæti borið byggingar. Þeir sem unnu við jarðvegsflutninganna höfðu sumir hverjir hvorki skóflur eða hjólbörur og urðu því að skrapa saman moldinni og bera hana í skyrtulafinu.

Hernaðarlega séð var bygging virkisins réttlætt skömmu seinna þegar að sænski herinn mætti á vettvang á norðurbakka árinnar í júlí mánuði 1703. Pétur réðist á þá og fór sjálfur fyrir sex herdeildum sem hröktu Svíana til baka. Næstu 18 árin gekk hvorki né rak í herbrölti þjóðanna gegn hvor annarri. En jafnvel þegar verst gekk gegn Svíum, féllst Pétur aldrei á að láta þeim eftir virkið sem átti eftir að verða að borginni Pétursborg.

Þá þegar, stóð hugur Péturs til meira en að byggja þarna virki. Staðurinn skyldi verða dvalarstaður hans og þar mundi rísa hin nýja höfuðborg hans, nálægt hafi og Evrópu en fjarri Mosku sem honum líkað aldrei við. Pétur hafði áður ferðast víða um Evrópu og þegar hann snéri aftur til Rússlands var hann uppfullur af hugmyndum um hvernig mætti fleyta Rússlandi í átt til iðnvæðingar og nútímalegri hátta.  

0-st-petersburg_masterAð breyta virkinu í borg tók mörg ár. Pétur reiddi sig mjög á ráðleggingar ítalska arkitektsins Domenico Trezzini sem hrifinn var af Barokk stílnum, og á feiknafjölda af leiguliðum og vinnuföngum. Um langan tíma var borgarsvæðið eitt risastórt byggingarsvæði. Múrsteina og steinlímsverksmiðjur voru settar upp, heilu skógarnir höggnir niður og sögunarmillur knúnar vatni og vindi voru fjölmargar. Grjót í byggingarnar var svo torfengið að Pétur setti það í lög að hvert skip sem lagði upp við höfnina yrði að koma með a.m.k. 30 steinblokkir og að hver hestvagn sem til borgarinnar kæmi skyldi flytja með sér a.m.k. þrjár steinhellur. En jafnvel þetta dugði ekki til. Um tíma gerði hann það ólöglegt að byggja hús úr steini annars staðar en í Pétursborg að viðlagðri eignaupptöku og útlegð.

Stöplar voru settir niður, skógar felldir, hæðir flattar út, skurðir og díki grafin af sveltum verkamönnum sem lifði við hræðilegar aðstæður, hrjáðir af malaríu og niðurgangi. Hnútasvipa með járnhöglum var óspart notuð við minnsta brot og þeir sem reyndu að flýja var hegnt með því að skera af þeim nefið við beinið. Að minnsta kosti 30.000 manns létu lífið við byggingu borgarinnar. Ef virki heilags Péturs og heilags Páls var byggt á mýri þá var Pétursborg byggð á mannabeinum.

Flestar evrópskar bogir hafa vaxið smá saman með auknum viðskiptum, iðnaði og fólki sem fluttist  til þeirra úr sveitunum. Vöxtur Pétursborgar var knúinn áfram af einum manni. Þeir sem tilheyrðu hirð hans og fjölskyldu voru þvingaðir til að byggja sér hús í Pétursborg. Byggingarlagið var ákvarðað í lögum og það varð að vera samkvæmt "enska stílnum". Seinna var hinum efnameiri gert að bæta við hæð á húsin sín og þeir fengu engu um það ráðið. Bæði aðallinn og búaliðið kveinaði undan járnvilja Péturs.

l_4b2892631697ea26160724f6f87a62f6Þótt Pétur gerðist stundum skáldlegur um borgina sína sem hann gerði að höfuðborg Rússlands árið 1712 var hún enn óhrjálegur staður. Kuldalega regluleg fraus hún á vetrum en varð að heitu pestarbæli á sumrum. Hún var girt skógum og fenjum á alla vegu og sem dæmi þá drukknuðu átta hestar franska ambassadorsins á leiðinni við að komast að borginni. Jafnvel árið 1714 þegar Tezzini hóf byggingu Péturs og Páls barrokk kirkjunnar, voru tveir hermenn drepnir af úlfum þar sem þeir gættu  byggingarstaðarins.  Á hverju hausti flóði Neva yfir bakka sína og hreyf með sér nokkur timburhús borgarinnar.

En ekkert fékk stöðvað Pétur. Árið 1709 sigraði hann Svíana endanlega í orrustunni við Poltava og eftir það var borgin hans og gáttin í vestur örugg. Árið 1710 lauk byggingu Alexander Nevsky kirkjunnar og vetur og sumarhallir fylgdu á eftir. Brátt voru byggð bókasöfn, listsýninga-salir, söfn, dýragarður og vísindaakademía.

Það var Menshikov, ráðherra Péturs, sem sagði réttilega fyrir um framtíð Pétursborgar, að hún mundu verða Feneyjar norðursins sem gestir mundu heimsækja til að dást að fegurð hennar. Eftir dauða Péturs árið 1725 kepptust keisarar og keisaraynjur Rússlands við að skreyta borgina með höllum og kirkjum, breiðstrætum, höfnum og opinberum byggingum. Borgin jafnast fyllilega á við Feneyjar og Versali hvað byggingarlist varðar og framlag sitt til menningar og lista. Hún er tákn fyrir einarðan ásetning Rússlands til að verða hluti af Evrópu.


Hinn dularfulli William Shakespeare

Besti rithöfundur allra tíma er yfirleitt sagður William Shakespeare. þótt flestir séu sammála um að afrek hans á sviði bókmenntanna óviðjafnanleg er enn umdeilt hver sá maður var í lifanda lífi. William skrifaði þrjátíu og sex leikrit þ.á.m. Hamlet, Macbeth, Lér Konung, Júlíus Sesar og Óþelló.

william_shakespeareAð auki reit hann 154 frábærar sonnettur og nokkur lengri ljóð. Þrátt fyrir að Shakespeare hafi verið enskur, er hann fyrir löngu orðin heimspersóna og sá sem hvað oftast er vitnað í af rithöfundum þessa heims sem og leikmönnum. Orðatiltæki og málshættir úr ritum hans eru svo algengir að sumum hverjum er alls ókunnugt um þegar þeir vitna í orð hans.

Hið almenna viðhorf (stundum kallað orthadox) er að höfundurinn William Shakespeare (einnig skrifað Shaxpere, Shakspeyr, Shagspere eða Shaxbere) hafi verið maðurinn sem hét William Shakespere og var fæddur árið 1564 í Stratford á Avon og dó þar árið 1616.

Æviferill hans í stuttu máli var svona; Faðir Shakesperes var um tíma farsæll ullarkaupmaður en lánið lék ekki við hann. William sonur hans ólst því upp við fátækt. Hann gekk í barnaskólann í Stratford og lærði þar latínu og sígildar bókmenntir.  Þegar að William varð átján ára gerði hann unga konu, Anne Hathaway, ófríska. Hann gekk að eiga hana og nokkrum mánuðum seinna ól hún fyrsta barn þeirra.

Tveimur og hálfu ári seinna ól Anne tvíbura. Áður en William náði tuttugu og eins árs aldri hafði hann fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá. Um næstu sex ár í ævi Williams eru ekki til neinar heimildir. En snemma á árinu 1590 er hann sagður starfa með í leikhópi í London. Honum gekk vel sem leikara og hóf fljótlega að skrifa leikrit og ljóð.

Árið 1559 var hann þegar talinn vera fremstur rithöfunda á Englandi fyrr og síðar. Shakespere dvaldist í London í rúm tuttugu ár og komst fljótlega í álnir þannig að árið 1597 gat hann keypt sér nýtt hús (New Place) í Stratford. Fjölskylda hans dvaldist í Stratford allan þennan tíma og William sá fyrir þeim.

Það þykir einkennilegt að Shakespere gaf ekki sjálfur úr neitt af leikritum sínum en óforskammaðir prentarar sáu að þarna var á ferðinni góð söluvara og stálust til að gefa út verk hans sem oft voru þá ónákvæm og ranglega með farin. Shakespere gerði engar tilraunir til að koma í veg fyrir þennan höfundarstuld.

Legsteinn ShakaspereÁrið 1612, fjörutíu og tveggja ára að aldri, hætti Shakespere skyndilega að skrifa, hélt til baka til Stratford þar sem hann bjó í faðmi fjölskyldu sinnar til dauðadags í apríl 1616 og var þá grafinn í kirkjugarði staðarins. Legsteinninn á leiði hans ber ekki nafn hans en nokkrum árum síðar var minnismerki um hann komið fyrir á kirkjuveggnum.

Nokkrum vikum fyrir dauða hans gerði hann erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Susönnu dóttur sína að flestum eignum sínum. Hún og afkomendur hennar eftir hennar dag, bjuggu í New Place þar til 1670.

Þess skal gæta að stór hluti af þessum æviágripum sem minnst er á hér að ofan eru byggðar á getgátum þeirra sem aðhyllast "orthadox" útgáfuna um æviferil Shakasperes. Til dæmis eru engar heimildir til um að William hafi nokkru sinni gengið í barnaskólann í Stratford. Engin minnist nokkurn staðar á að hafa verið skólabróðir eða kennari stórskáldsins. Þá ríkir einnig óvissa um leikaraferil hans.

Minnismerkið um ShakespereVandamálið við ævi "þessa" Shakespears, sem margir af "orthadox" ævisöguriturum hans viðurkenna, er að undarlega litlar upplýsingar er að finna um jafn merkan mann. Á tímum Elísabetar drottningar voru til fjölmargir sagnritarar, blaða og bæklingaútgefendur. Segja má að gnótt heimilda sé til yfir tímabilið og milljónir frumrita af ýmsu tagi frá þeim tíma hafi varðveist. Samt hafa aðeins fundist fáeinar heimildir um Sheikspere og engin þeirra lýsir honum sem leik eða ljóðskáldi. Í þau tuttugu ár sem sagt er að hann hafi dvalist í London virðist hann hafa verið næsta ósýnilegur.

Í heimabæ hans Stratford virðist engin hafa vitað neitt um að mesti rithöfundur þeirra tíma bjó á meðal þeirra. Hvorki fjölskylda hans eða aðrir bæjarbúar nefna það að hann skuli hafa verið rithöfundur, hvað þá landþekkt leikritaskáld. Erfðaskrá hans minnist hvergi á ritverk hans eða hefur að geyma nokkur fyrirmæli um meðhöndlun þeirra. Þegar hann lést voru ekki færri en tuttugu leikrita hans enn óbirt.

Það er því ekki nema von að margir hafi komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar séu ekki að finna vegna þess að þeim var viljandi leynt og höfundinum valið nafn sem hjálpaði við að hylja slóð hins raunverulega "Shakespears".

Marga hefur lengi grunað að rithöfundurinn mikili hafi verið einhver allt annar maður sem eingöngu fékk nafn Williams frá Stratford lánað og þeirri blekkingu hafi síðan verið viðhaldið af ættingjum skáldsins þegar að verk þau sem kennd eru við Shakespeare voru fyrst gefin út árið 1623.

Á meðal efasemdamannanna eru afar þekkt nöfn eins og t.d. Mark Twain, Orson Welles, Charlie Chaplin, Sigmund Fraud, Harry A. Blackmun, Charles Dickens, Rlph Waldo Emerson og Walt Whitman.

Margir menn hafa verið kynntir til sögunnar sem mögulegir kandidatar og á meðal þeirra merkismenn eins og heimspekingurinn Francis Bacon.

Edward de Vere 2En líklegastur allra er talin vera Edward de Vere, sjöundi jarlin af Oxford og er í því sambandi talað um  Oxford kenninguna. Um ævi þess manns er talvert vitað. Hann var fæddur árið 1550 og var af kunnum og auðugum aðalsættum. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á og þjálfun í siðum aðalsins. Hann stundaði útreiðar, veiðar, herlist, hljóðfæraleik og dans. Hann hafði einkakennara sem kenndi honum frönsku og latínu. Hann fékk að lokum gráður bæði frá háskólanum í Cambridge og Oxford.

Engum sem lesið hefur Shakespeare getur dulist að höfundurinn er víðlesinn, vel menntaður og kunnugur vel hirð og hallarsiðum og háttum aðalsins yfirleitt. Edward uppfyllir þær kröfur á mjög sannfærandi hátt.

Edward ferðaðist einnig víða um Evrópu um tíma og dvaldist m.a. í öllum þeim ítölsku borgum sem Shakespeare finnur leikritum sínum stað. Hann var í góðum tengslum við leikhúsin í London og var forsvarsmaður a.m.k. eins þeirra. Hann hafði nægan tíma til að sinna skriftum og góðar tekjur (1000 pund á  ári) frá Englandsdrottningu sem reyndar aldrei skýrði fyrir hvað hún greiddi de Vere þau laun. 

Shakespeare helgaði nokkur af leikritum sínum þekktum aðalsmönnum sem allir áttu það sameiginlegt að tengjast Edward fjölskylduböndum. Hann lést í plágufaraldrinum sem gekk yfir England árið 1604 og er grafinn í Hackney nálægt þorpinu Stratford sem á þeim tíma var mun stærra en Stratford við Avon.

Einkalíf Edward var með þeim hætti að mörg atvik í lífi hans gætu hæglega veið fyrirmynd af sennum og atburðum sem Shakspeare fléttar inn í leikrit sín.

Svona mætti lengi telja og er það reyndar gert á listilegan hátt í bókinni The Mysterious William Shakspear eftir Charlton Ogburn.

Edwavr de Vere 1En hvers vegna vildi Edward þá halda því leyndu að hann væri maðurinn á bak við skáldsnafnið? Það kunna að hafa verið margar ástæður fyrir því. Á þessum tíma var það forboðin iðja fyrir aðalsmenn að skrifa ljóð og leikrit ætluð leikhúsunum.

 De Vere var þekktur hirðmaður drottningar og fólk hefði vafalaust verið fljótt að draga sínar ályktanir af ýmsu í verkum Shakespeare ef það hefði vitað um tengsl höfundarins við hirðina. þá eru margar af sonnettum skáldsins ortar til ástmeyjar þess. Það mundi hafa orðið eiginkonu jarlsins til mikillar smánar ef nafn höfundar þeirra hefi verið heyrum kunnugt. Að auki voru nokkrar þeirra ortar til elskhuga af karlkyni sem mundi hafa valdið regin hneyksli fyrir jarlinn á þeim tímum.

Hér er ekki kostur á að rekja öll þau rök sem leiða líkur að því að Edward de Vere sé hinn sanni Shakespeare og þessi pistill er líklega þegar orðinn of langur fyrir þennan vettvang. Ég hef sett krækjur við nöfn sumra sem hér koma við sögu og ég hvet áhugasama lesendur til að nýta sér þá  til að kynna sér frekar málið um hinn dularfulla William Shakespeare.


Að setja rassinn í klór

RassgatsklórFyrirsögnin er reyndar miklu prúðmannlegri en efni þessa pistils gæti hæglega gefið tilefni til. (En aðgát skal höfð í nærveru sálar.) Það sem um ræðir er ný fegrunartækni og fegrunarlyf sem ætlað er fyrir þann hluta líkamans sem virðist algjörlega hafa orðið útundan fram að þessu í líkamsfegrunar-æði nútímans.

Það er sem sagt byrjað að selja fegrunarlyf fyrir endaþarminn og svæðið í kringum op hans.(Venjulega kallað rassgat) 

Hugmyndin er að gera aftur hvítan eða bleikan þennann mikilvæga líkamhluta sem mörg okkar sjáum svo sjaldan að við höfum ekki einu sinni hugað að litnum á honnum.

Þetta svæði hefur, er mér sagt, tilhneygingu til að dökkna og verða brúnleitt á fullorðinsárum sem mörgum æskudýrkandanum þykir bagalegt. Þess vegna hefur skapast eftispurn eftir bleikingarefni sem hægt er að nota á endaþarma og nú er það komið á markaðinn.

Ég get því miður ekkert fullyrtt um virkni efnissins persónulega og kem ekki til með að gera það að sinni. (Aldrei að að segja aldrei)  

Satt að segja finnst mér þessi tegund fegrunaraðgerða minna dálítið á síðustu tvö bloggefni mín, þ.e. tilraunir frambjóðenda í prófkjörum til að sannfæra okkur um að það hafi orðið eðlisbreyting á viðhorfum þeirra. Ég er nokkuð viss um að það sé alveg sama hversu lengi þú leggur rassinn á þér í klór, á endanum kemur það sama út úr honum og fyrr.


Eldri feður eignast heimskari börn

Gamall faðirEftir því sem vísindin færa okkur meiri þekkingu breytist samfélag okkar, næstum því án þess að við tökum eftir því.

Fólk talar um að ýmis viðmiðunarmörk á æviferlinum hafi raskast og breyst þannig að fólk geti í dag t.d. átt fyrri og seinni starfsferil og stofnað fyrri og seinni fjölskyldu o.s.f.r.

Eftir því sem langlífi verður algengara, gerir fólk kröfur til þess að lifa lífi sínu sínu eftir eigin vali og skipulagi, frekar en náttúrulegu vali eins og áður virtist ráða. 

En eitthvað hefur náttúran sjálf  verið sein að átta sig á þessum nýungum í lífshlaupi hins vestræna nútíma-manns því í ljós hefur komið að það er ekki bara aldur mæðra sem getur ógnað heilsu afkvæma þeirra, heldur er hætta á að börn eldri feðra verði ekki eins gáfuð og börn yngri manna.

Að auki eru börn eldri karlmanna (eldri en 40 ára) líklegri til að fá allskonar sjúkdóma, bæði andlega og líkamlega. Helsta ástæðan er sögð að stökkbreytingar í litningum sæðis karla, hlaðast upp með aldrinum og  valdið þessum einkennum í börnunum þeirra.

Slíkar eru alla vega niðurstöður rannsókna sem nú eru kynntar okkur. hér, hér og hér


Ég og ánamaðkurinn

MaðkurVið flatmöguðum þarna í grasinu og nutum sólarinnar. Áin rann lygn við fætur mínar og liðaðist áfram eftir landslaginu uns hún hvarf á bak við næstu hæð.

Við ræddum um heima og geima og hann var afar viðkunnanlegur, virtist kunna á ýmsu skil sem ég hafði ekki reiknað með að venjulegir ánamaðkar væru að ómaka sig út af.

Af og til skreið hann ofaní moldina til að halda sér rökum og ég bar á mig sólolíu. Þegar hann kom upp í eitt skiptið sagði hann;

Ég sé að það er nú ekki mikill munur á okkur.

Nú, hvað meinarðu, svaraði ég.

Þú mátt ekkert við því að þorna frekar en ég.Og ef eitthvað, þá ertu mun þurftafrekari á umhverfið en ég. Þú þarft eflaust að kreista safann úr ótöldum tegundum jurta og blanda hann einhverri dýrafitu, bara til að geta smurt þessu á þig.

Nú ja, já, en það er nú mikill munur á okkur samt.

Það finnst mér ekki. Í raun ertu ánamaðkur sem ert búinn að safna utan á þig allskyns aukalíffærum sem þú hafðir upphaflega enga þörf fyrir.

Hu, ormur, ég er ekki ormur, ég er maður.

Jú, mannormur og ég get sannað það. Nokkrum dögum eftir að þú varst getinn, hvað varstu þá? Ég skal segja þér það. Eins sentímetra löng túpa með gat í sitt hvorum enda. Annað varð að munninum á þér og hitt að rassgatinu. Hvað er það annað en ormur?

Ja, þú ert nú bara að lýsa upphafinu á níu mámuða þroskaferli.

Upphafinu já já ,en upphafinu á hverju. Það sem gerist næst á þessu níu mánuða þróunarferli er að  fyrirtaks hönnun sem hefur staðið af sér breytingar í milljónir ára, er eyðilögð. Þú ormurinn, byrjar að hlaða utan á þig vefjum og líffærum sem gera ekkert fyrir þig?

Ja, þau gera mig hæfari til að komast af í lífinu.

Það get ég ekki séð. Þú ert enn maðkur í mörgu tilliti. Eiginlega maðkur sem hefur hneppt sjálfan sig í ánauð. Þetta sem þú kallar að vera "maður" er bara millistig.  Þegar því líkur, eftir allt bramboltið, muntu nefnilega enda aftur eins og þú byrjaðir, þú verður sem sagt að ormafæðu og þar með aftur að ormi. Nokkuð löng leið, fyrir ekki neitt, finnst þér ekki?

Við bakkannÉg var búin að fá nóg af þessu snakki maðksins í bili. Ég stóð upp og teygði mig í veiðistöngina, tróð ánamaðkinum á öngulinn og hélt áfram að renna fyrir boltann sem ég vissi að lá í felum einhversstaðar undir bakkanaum.


Túlipanar

Rauður túlipaniHvaða land kemur upp í hugann þegar minnst er á túlípana. Holland ekki satt. Það mætti ætla að blómið væri Þjóðarblóm þeirra. Svo er ekki, alla vega ekki formlega.

Hollendingar hafa gert þetta blóm sem er eitt af 150 tegundum lilju ættarinnar og er upphaflega ættað frá Mið-Asíu, að einni af helstu útflutningsvöru sinni.

Þegar að blómið barst til Hollands á seinni hluta sextándu aldar frá Tyrklandi, greip um sig einskonar túlípana-æði í landinu sem enn hefur ekki linnt.

Túlipana túrbanNafn blómsins  (einnig það latneska, Tulipa gesneriana) er dregið af Ottóman-Tyrkneska orðinu tülbend. Það orð er hinsvegar dregið af persneska heiti þess, slâleh. 

Af tülbend er einnig dregið orðið túrbani (turban) sem er vefjarhöttur. Orðsifjarnar á milli hattarins og blómsins eru auðvitað tilkomnar af svipuðu útliti fornra vefjarhatta og krónu túlípanans.

En það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart. Á íslandi hafa blóm hatta, hettur, húfur og skúfa.

Ég veit ekki af hverju það stafar, en túlípanar hafa alltaf farið í taugarnar á mér.

Túrbani 1Vefjarhöttur (turban) er á Vesturlöndum samheiti yfir margar gerðir af höfuðfötum sem eiga það sameiginlegt að vera gert úr einum löngum klút sem vafið er á mismunandi vegu um höfuðið.

Meðal íslamskra klerka og kennimanna var hæð vefjarhattar hans talin gefa til kynna lærdóm hans og tignarstöðu. Sumir þeirra voru svo háir að þeir voru hærri en sá sem höttinn bar.


Sjaldgæfasti sjúkdómur í heimi - Ekki gefast upp

0 Sjaldgæfasti sjúkdómurinnHann heitir Ruben og er átta ára og á heima í Gomersal, West Yorkshire á Englandi. Sjúkdómurinn sem hann er haldinn er svo sjaldgæfur að það er ekki einu sinni búið að gefa honum nafn. Hann hefur þjáðst af sjúkdóminum frá fæðingu og læknar fundu enga lækningu. Það næsta sem þeir komust í greiningu sjúkdómsins var að segja hann líkjast Diamond Blackfan Anaemia (DBA)

Hann þjáðist af stöðugum svima og ónæmiskerfið var svo veikt að hann var með astma og exem á háu stigi. Hann þurfti stöðugar blóðgjafir vegna þess hve rauðu blóðkornin fjölguðu sér lítið. Hjartsláttur hans var stundum þrefalt hraðari en eðlilegt getur talist og hann var mikið á eftir jafnöldrum sínum í þroska.

Foreldrum hans Peter Mead og Michelle Grainger-Mead var sagt að líklega þyrfti hann að undirgangast beinmergskiptingu sem gæti verið honum lífshættuleg vegna þess hve veikbyggður hann var.

En þau gáfust ekki upp við að leita að lækningu fyrir son sinn. Þau rannsökuðu allar heimildir sem var að finna í þrjú ár og reyndu fjölda óhefðbundna læknisaðferða. Þau þræddu netið við að lesa læknisfræðigreinar og prófuðu jafnframt allt frá nálarstungu til sérstakra vatnsbaða.

Loks duttu þau niður á lausn sem virðist virka. Læknarnir sem önnuðust Ruben hafa lýst undrun sinni yfir því að drengur sem þurfti á blóðgjöf að halda einu sinni í mánuði hefur nú verið án þeirra  í þrjú ár. Einkenni sjúkdómsins hafa að mestu horfið og þroski Rubens tekið stór stökk fram á við.

Það var næringarfræðingurinn  Diana Wright sem kom þeim á sporið. Hún uppgötvaði að Ruben skorti ákveðnar kjarnasýrur (leucine og isoluceine) og eggjahvítuefni í líkama sinn. Hann var því settur á eisnkonar fæðubótarefni sem var blandað í drykk hans og fæðu. Áhrifin létu ekki á sér standa og nú hafa læknar ákveðið að rannsaka þessi tengsl ýtarlegan í von um að finna megi lækningu fyrir þau hundruð barna sem þjást af DBA.

Fæðubótarefnin sem Ruben tekur eru ekki ódýr. Þau kosta foreldra hans 10.000 pund á ári.


Hér séu Drekar

Svartur DrekiFrá því að farið var að skrá verk og hugmyndir mannkynsins hafa drekar komið við sögu. Í elstu heimildum um menningu Assýríumanna, Babýloníu, í Gamla testamentinu og sögu Gyðinga, fornum ritum Kínverja og Japana, í arfsögnum Grikkja, Rómverja og helgisögnum norður Ameríkubúa, Afríku og Indlands, er að finna dreka.

Á Íslandi er drekagammurinn talinn ein af landvættunum og rataði þess vegna inn í skjaldarmerkið. Reyndar var trúin á landvættina slík að það var bannað með lögum að styggja þá t.d. með því að sigla með gínandi trónu fyrir landi. Það er í raun erfitt að finna þjóð sem ekki hefur í menningu sinni að geyma frásögn af eða tengingu við dreka.


Fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann er hvort drekinn eigi sé einhverja stoð í raunveruleikanum. Flestar bækur svara því neitandi og benda á að veran komi ekki fyrir í list og ritverkum fyrr en menning mannsins var komin vel á veg.

Forsöguleg flugeðlaBent hefur verið á að drekinn sé samsettur úr árásargjörnum og hættulegum dýrum eins og slöngu, krókódíl,  ljóni og jafnvel forsögulegum kvikindum. Drekinn er sem sagt tákn dýrsins „par exellence“ og hann birtist okkur fyrst sem slíkur í súmerskum hugmyndum um dýrið sem „óvini“ mannsins sem seinna voru settar í bein tengsl við djöfulinn.


Þetta á samt ekki við um nærri alla dreka, sérstaklega ekki þá kínversku sem eru frægir fyrir góðverk sín. Þessi ímynd dreka sem hræðilegra villidýra er líka dálítið ósanngjörn. Ef við t.d. berum hann saman við aðra ímyndaða sambræðinga eins og Kentára eða Griffina, og tökum í burtu augljósar ýkjur eins og eldspúandi gin,  er drekinn tiltölulega líffræðilega sannfærandi skeppna.

Moloch HorridusÞeir eiga margt sameiginlegt með forsögulegum drekum og eðlum sem svifu á milli fjallstoppana í fyrndinni.  Aristóteles og Pliny ásamt öðrum fornaldarskrifurum héldu  því fram að drekar væru hluti af náttúrunni frekar en ímyndunaraflinu og ef það er rétt eru bestu kandídatarnir eðlur.


Talverður fjöldi smáeðla, sérstaklega í Indó-Malasíu, geta látið sig svífa á fitjuðum vængjum og eru svo svipaðar drekum að þeim hefur verið gefið tegundarsamheitið Draco.

Hin bryn-skeljaða Moloch Horridus eðla er afar svipuð í sjón að sjá og gaddaður dreki. Indónesíska eðlutegundin Varanus komodoensis, kölluð Komododreki af innfæddum, getur orðið allt að þrír metrar á lengd. Náskyldur útdauður ættingi hennar í Ástralíu varð allt að sex metrar á lengd.

Varanus komodoensisÞað er ólíklegt að ein tegund skriðdýra hafi getað orðið fyrirmynd að drekanum þótt eflaust hafi þau hjálpað til við mótun hugmyndanna vítt og breytt um heiminn.

Þá eru tengsl dreka við himinhvolfin vel kunn. Það er vart hægt fyrir nútíma manninn að ímynda sér hversu heillaðir frummennirnir forfeður okkar voru af himninum. Plánetur og stjörnur voru í þeirra augum guðir og þegar að eitthvað óvenjulegt gerðist, eins og sól eða tunglmyrkvi,  eða þá að halastjarna með glóandi hala geystist um sjónarsviðið, þóttu það merkisviðburðir. Það er ekki erfitt að sjá hvernig barátta guðanna við eldspúandi dreka urðu að goðsögnum sem enn lifa góðu lífi eins og meðal frumstæðra ættálka og bókstafstrúaðra Biblíuskýrenda.
DrekaeyðirÍ vestrænum samfélögum höfum við vanist því horfa á drekann sem tákn hins illa, liggjandi dauðan fyrir fótum eins af hinum heilögu drekadrápurum eins og Heilags Georgs frá Kappadokíu eða Margrétar af Antiokíu eða þá erkiengilsins Mikaels. En sú táknmynd er afar mikil einföldun á hlutverki drekans í öðrum hlutum heimsins og reyndar heiminum öllum, áður en kristindómurinn kom til sögunnar.

Þegar að miðaldamenn reyndu að setja niður legu landa og sæva á kort, tíku drekar við þar sem þekkiningin endaði, eins og sjá má á mörgum kortum frá þeim tíma.

Í grískum og rómverskum sögnum er drekanum falið það hlutverk að gæta hofa og heilagara staða. Vegna skarprar sjónar og styrkleika síns, visku og forspárkunnáttu er hann einkar vel til slíkra verka fallinn og gætti því visku og fjársjóða. Í germönskum söguljóðum heygja hetjurnar hildi við dreka, líkt og Sigurður við Fáfni og Bjólfur við drekann sem varð honum að bana. 

Rauður DrekiÍ austurlöndum er drekinn miklu flóknari vera. Í bókmenntum og list fyrri tíma sést vel að hann getur breytt um útlit og tekið á sig mynd hvaða veru sem er. Hann getur ráðið veðri og vindum og því ábyrgur fyrir uppskerunni eða bresti hennar. Hann er Yang/Yin veran sem Feng –Shui meistararnir reyndu að setja í jafnvægi. Drekinn var svo mikilvægur að hann varð að tákni Keisaraveldisins. Keisarinn sat í drekahásætinu, svaf í drekarúminu, klæddist drekafatnaði og enginn annar mátti eiga fimmklóa dreka eftirmyndir.

Samkvæmt kínverskri heimspeki er drekaormurinn mikilvægasta og altækasta táknið fyrir þau öfl sem ráða alheiminum. Ólíkt því sem gerist á vesturlöndum, er drekinn aldrei sigraður eða drepinn í Kína, vegna þess að þeir eru nauðsynlegir milligönguaðilar milli jarðar og himins.


Maðurinn sem breytti heiminum en fáir þekkja

Tsai-Lun-Til eru alfræðibækur sem ekki minnast einu orði á TS´AI LUN og nafn hans kemur sjaldan fyrir í venjulegum sögubókum sem kenndar eru í skólum heimsins.  Samt verður hann að teljast, með tilliti til uppfinningar hans, einn af áhrifamestu einstaklingum heimssögunnar.


TS´AI LUN  var hirðmaður kínverska keisarans Ho Ti fyrir tæpum 2000 árum.  Hann var geldingur og fyrir hina mikilvægu uppgötvun sína sem hann kynnti fyrir keisaranum árið 105 e.k. var honum svo vel launað að hann varð vellauðugur. Seinna  blandaði hann sér í hallardeilur sem að lokum urðu til þess að hann féll í ónáð. Hann lauk lífi sínu með því að baða sig, klæðast sínum besta kirtli og taka síðan inn banvænt eitur.


Án uppfinningar hans væri heimurinn ekki eins og við þekkjum hann í dag. Lengi vel var formúlu hans haldið leyndri og það var ekki fyrr en árið 751 að  öðrum en Kínverjum var kunnugt um samsetningu hennar. Það ár handtóku Arabar nokkra sérfræðinga í notkun hennar og þaðan breiddist  þessi þekking út um heiminn.


Það sem TS´AI LUN fann upp var; Pappír.Pappírsgerð


Fram að uppfinningu TS´AI LUN höfðu Kínverjar aðallega notast við bambus og tré til að skrifa á. Á Vesturlöndum voru notuð skinn og síðar pergament, í Miðausturlöndum, leirtöflur og síðan papírus sem kom frá Egyptalandi. Pappír tekur öllum þessum tegundum áritunarefna fram og varð fljótlega allráðandi, ekki hvað síst eftir að Jóhann Gutenberg (1400-1468)  fann upp prentvélina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband