Færsluflokkur: Vísindi og fræði
23.2.2009 | 21:27
Hið undarlega mál varðandi Dogon-fólkið
Suður af Sahara eyðimörkinni búa fjórir Afrískir ættbálkar. Á árunum 1945-50 dvöldust frönsku mannfræðingarnir Marcel Griaule og Germaine Dieterlen á meðal þeirra, aðallega samt hjá ættbálki sem kallaður er Dogon fólkið.
Á þessum skamma tíma áunnu mannfræðingarnir sér trúnað Dogon fólksins og trúarleiðtogar þeirra trúðu þeim fyrir launhelgum sínum. Með því að teikna í moldina, drógu prestarnir upp heimsmynd sem þeir höfðu erft og varðveitt um aldir. Þekking þeirra á stjörnufræði var svo mikil og nákvæm að undrum sætir.
Megin hluti þekkingar þeirra beindist að tvístirninu Síríus A og Síríus B. Síríus A er bjartasta stjarna á himnahvelfingunni en um hana snýst Síríus B sem er hvítur dvergur með gríðarlegan efnisþéttleika og eðlisþyngd en ógerlegt er að sjá berum augum frá jörðu.
Síríus B var fyrst uppgötvuð árið 1862 af Bandaríkjamanninum Alvan Clark þegar hann beindi sterkasta sjónauka sem þá var til að Síríusi A og tók eftir litlum hvítum depli sem var 100.000 sinnum dimmari en Síríus A.
Þrátt fyrir þetta vissu Dogonar um tilvist þessarar stjörnu og talvert um eiginleika hennar. Þeir vissu að hún var hvít og þótt hún væri með minnstu stjörnum sem finnast var hún jafnframt þyngsta stjarnan og gerð úr efni sem var þyngra en allt járn jarðarinnar. Þetta er ágæt lýsing á þéttleika Síríusar B þar sem einn rúmmetri af efni hennar vegur 20.000 tonn. Dogonar vissu að Síríus B var á sporbraut um Síríus A sem tók 50 ár að fara og að hann var ekki fullkomalega hringlaga heldur ílangur líkt og sporbraut flestra himintungla er, staðreynd sem ekki var vel kunn utan vísindasamfélagsins.
Þekking Dogona á almennri stjörnufræði var líka undraverð. Þeir teiknuðu bauginn í kring um Satúrnus sem ekki er hægt að sjá frá jörðu, þeir vissu að að Júpíter hefur fjögur stór tungl, að pláneturnar snúast um sólina, að jörðin er hnöttur og að hún snýst um möttul sinn. Þeir vissu að Vetrarbrautin er spíral-laga, eitthvað sem ekki var uppgötvað fyrr en seint á síðustu öld.
En það sem hljómar ótrúlegast af öllu er að Dogonar segja að þessi þekking hafi verið færð þeim af verum sem komu fljúgandi ofan frá himnum í einskonar örk. Þessar verur urðu a lifa í vatni og kölluðu sjálfa sig Nommos.
Þetta heiti veranna og sú þekking sem þær eru sagðar hafa skilið eftir sig á meðal Dogo ættflokksins, vakti athygli sagnfræðingsins Robert Temple. Hann setti heitið í samhengi við vatnaguð Babýloníumanna Oannes, sem sagður er hafa kennt Súmerum stærðfræði, stjörnufræði, landbúnað og skipulagningu samfélags þeirra.
Gríski fornaldar presturinn Berossus lýsir Oannes í bók sinni "Saga Babýlonar"; Allur líkami dýrsins var líkur fiski og undir fiskhausnum var annað höfuð líkt mannshöfði . Rödd þess og tungumál var mennskt og myndir af því eru enn til....Þegar að sól settist var það siður dýrsins að stinga sér í sjóinn og dveljast alla nóttina í djúpunum því dýrið var bæði land og sjávarskeppna.
Vísindi og fræði | Breytt 25.2.2009 kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.2.2009 | 20:09
Vélar sem búa til líf
Þegar að uppruna lífsins ber á góma, halda margir, að með uppgötvun litninga og þróun litningafræðinnar hafi flestum ef ekki öllum spurningum um uppruna lífsins verið svarað. Því fer samt fjarri. Áður en fyrstu eggjahvítufrumeindirnar urðu til, áður en DNA og RNA urðu til, áttu hundruð ákveðinna efnaferla sér stað sem að lokum varð til þess að ákveðnar frumeindir komu saman í vélar sem gátu framleitt stutta strengi af DNA. Með öðrum orðum, ólífræn efnasambönd röðuðu sér sérstaklega niður til að búa til vélar, sem búa til DNA sem getur búið til líf.
Hin fræga þróunarkenning kemur hér ekki við sögu því þetta gerist áður enn nokkuð líf verður til. Spurningin; hvers vegna ólífræn efnasambönd taka upp á því að raða sér saman á þann hátt sem sýnt er á myndbandinu hér , gefur ágætt tilefni til að leiða hugann að því hvort dautt efni lúti lögmálum sem fær það til að leitast við að framleiða líf. Og þá í framhaldi af því hvort vitrænn lífelskandi hönnuður sem felur sig bak við stórahvell, kunni að standa að baki tilurð alheimsins.
Einnig má smella á myndina til að sjá umrætt myndband.
18.2.2009 | 13:50
Himnafiskar
Það veit enginn hvað nákvæmlega þetta fyrirbæri er. Það hefur verið ljósmyndað og kvikmyndað og margir hafa á því skoðun. Sumir kalla það Himnafiska, aðrir fljúgandi hólka og einhverjir nefna það Sólverur.
Nýlega birtist stutt en óvenju skýr kvikmynd af þessu fyrirbæri í fréttatíma BBC og ábirgðist fréttastofa þeirra að myndin væri ekki fölsuð.
Um er að ræða fljúgandi fyrirbæri sem margir trúa í dag að séu verur sem búi í einhverju af ytri hvolfum jarðarinnar. Þær ferðast svo hratt að þær eru varla sjánlegar berum augum, en hafa komið fram á ljósmyndum, kvikmyndum og videupptökum, einkum í seinni tíð. Nokkar gamlar ljósmyndir eru til teknar útan úr geimnum sem sýna fjölda slíkra himnafiska rétt fyrir utan gufuhvolvið.
Fyrstur til að vekja athygli á fyrirbærinu var kvikmyndagerðarmaðurinn José Escamilla, sem uppgötvaði "verurnar" fyrir tilviljun. Árið 1994 var Escamilla að kvikmynda venjuleg UFO fyrirbæri nálægt Midway, New Mexico. Á flimunni birtust myndir af einhverju sem voru ekki faratæki. Escamilla héllt að um væri að ræða fugla eða skordýr. En þegar hann skoðaði kvikmyndina ramma eftir ramma , sá hann a þarna var eitthvað annað á ferðinni.
Síðan að upptökuvélar og símar búnir mynd og videotökugetu urðu algengir, hefur náðst fjöldi mynda af þessum hólkum sem stundum líta út eins og kjósrákir og stundum eins og einhverskonar verur. En sjón er sögu ríkari;
17.2.2009 | 15:50
Trilljón álfar út úr hól
Hvað er trilljón há tala? Hvernig lítur trilljón af einhverju út, t.d. af álfum út úr hól? ( Sjá mynd)
Íslendingar hafa löngum getað státað sig af því að hér á landi skuli hlutfall þeirra sem geta lesið og skrifað verið með því alhæsta sem gerist í heiminum. En það er eitt að geta kveðið að og dregið til stafs og annað að henda reiður á tölum, sérstaklega nú í seinni tíð þegar að flestar tölur tengdar fréttum, virðast óskiljanlega háar.
Hagfræðingar og stjórnmálamenn leika sér að því að tala í milljónum, milljörðum, biljónum og jafnvel trilljónum eins og að þær tölur eigi að hafa einhverja þýðingu fyrir meðaljóninn og/eða skírskotun til hans reynsluheims. Svo er ekki í flestum tilfellum.
Til að auka enn á ruglinginn er ekki notast við sömu orð um sömu tölur beggja megin Atlantsála því að í Bandaríkjunum er milljarður t.d. nefndur billjón.
Milljón (skammstafað sem mljó) er tölunafnorð sem er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000, sem 106, eða sem þúsund þúsund.
Milljarður (skammstafað sem mlja) er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000, sem 109, eða sem þúsund milljónir.
Í bandarískri ensku er milljarður oftast nefndur billion, sem er einn þúsundasti af billjón.
Billjón er heiti yfir stóra tölu, milljón milljónir, sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000, sem 1012, eða sem þúsund milljarðar.
Í bandarískri ensku þýðir billion milljarður, sem er einn þúsundasti út billjón.
Billjarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000, sem 1015, eða sem þúsund billjónir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2009 | 20:42
"Ekki koma inn í áruna mína"
Það vakti verðskuldaða athygli á dögunum þegar að Ragnheiður Ólafsdóttir vara-þingkona sté í pontu á Alþingi og skammaði samkunduna fyrir að eyða of miklum tíma í bull og kjaftæði.
Í viðtali sem ég sá við hana, kom í ljós að hún segist sjá árur, einskonar útgeislun frá fólki sem myndar allt að sex metra víðan hjúp yfir og í kring um viðkomandi. Það sem meira var, er að Ragnheiður segist geta lesið út úr þessum geislum, lunderni og skap árueigandans og af öllum þingmönnum hafi Forsætisráðsfrúin Jóhanna Sigurðardóttir, fögrustu áruna.
Orð Ragnheiðar um stærð árunnar, minntu mig á atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum árum þegar ég kynntist lítillega manni sem var haldin geðhvarfasýki á háu stigi. Viðkvæði hans var ætíð þegar þú nálgaðist hann; "Ekki koma inn í áruna mína".
Þeir sem dregið hafa árutilvist í efa benda einmitt á að hún geti verið afleiðing brenglaðrar heilastarfsemi.
Nú er það nokkuð víst að fólk hefur sammælst um að sumir hafi meiri og betri "útgeislun" en aðrir en þá er ekki endilega verið að meina það sem kallað er ára. Góð útgeislun er í þessu sambandi sett í samhengi við "góða viðveru" viðkomandi og/eða bjarta og hrífandi persónutöfra sem virðast jafnvel skila sér á ljósmyndum.
Ára er samkvæmt almennri skilgreiningu notað yfir paranormal fyrirbæri sem reyndar er vel þekkt úr trúarbrögðunum. Geislabaugar og skínandi ásjónur eru einmitt sögð eitt af einkennum helgra persóna og sögur af slíku að finna viðast hvar á jarðarkringlunni.
Frægur er misskilningurinn eða misþýðingin á hebreska orðin "karnu panav" קרנו פניו sem notuð eru til að lýsa skínandi ásjónu Móse í GT og þýðir "lýsandi ásjóna". Í miðaldar þýðingum Biblíunnar er orðið þýtt "cornuta" sem þýðir "hyrndur" og það varð til þess að t.d. Michelangelo sýnir Moses með horn í stað geislandi ásjónu.
Þegar að nýaldar fræðin flóðu yfir heimsbyggðina upp úr 1970 varð árusýn og árutúlkun afar vinsæl tómstundaiðja og jafnvel atvinnugrein, enda margir sem töldu sig geta séð ljósagang í kringum fólk. Oft var í því sambandi vísað til svokallaðrar Kirlian ljósmyndatækni sem sögð var sanna að árur væru raunverulegar.
Semyon Davidovich Kirlian var rússneskur vísindamaður sem tókst árið 1939 að taka myndir (samt án myndavélar) af örfínni útgeislun frá lífrænum hlutum eins og laufblöðum, með aðstoð hátíðni hraðals. Þegar að Kirlian lét þau orð falla að þessi útgeislun væri sambærileg við áru manna urðu niðurstöður hans fljótlega afar umdeildar meðal raunvísinda-manna sem á annað borð gerðu sér far um að fjalla um þær.
Þeir sem fjallað hafa um áruna (og þeir eru ófáir) skipta henni oft í mismunandi tegundir. Talað er um ljósvaka áru (etheric), megin áru og andlega áru. Hver litur í árunni er sagður hafa sína heilsufræðilega merkingu og jafnframt gefa til kynna andlegt ástand viðkomandi. Áran er ekki raunverulegt ljós heldur skynhrif sem augað getur framkallað umfram venjulega sjón.
Árufræðin hafa í dag blandast ýmsum öðrum gervivísindum og paranormal fyrirbrigðum eins og orkustöðvafræðum, nálarstungum, kristalfræðum og heilunarkenningum.
Allar tilraunir til að sanna árusýnir undir vísindalegum aðstæðum, hafa hingað til ekki þótt sannfærandi.
14.2.2009 | 15:14
Líf án lima
Hann heitir Nick Vujicic og var fæddur í Melbourne í Ástralíu 1982. Hann er fót og handleggjalaus og þjáist af svo kölluðum Tetra-amelia sjúkdómi.
Líf hans hefur verið ein þrautaganga. til að byrja með fékk ekki að ganga í venjulega skóla þar sem lögin í Ástralíu gera ráð fyrir að þú sért ófatlaður, jafnvel þótt þú hafir óskerta vitsmuni.
Þessum lögum var svo breytt og Nick fékk að ganga í skóla þar sem hann lærði að skrifa með því að nota tvær tær á litlum fæti sem grær út úr vinstri hlið líkama hans. Hann lærði einnig að nota tölvu sem hann stórnar með hæl og tám.
Hann þurfti að þola einelti í skóla og varð af því mjög þunglyndur og um átta ára aldurinn byrjaði hann að íhuga sjálfsvíg.
Fjölskylda Nick er mjög kristin og Nick bað Guð heitt og innilega að láta sér vaxa limi. Þegar það gerðist ekki varð hinum ljóst að honum var ætlað annað hlutskipti.
Þegar hann varð sautján ára byrjaði hann að halda smá ræður í bænahópnum sem hann stundaði og brátt barst hróður hans sem ræðumanns og predikara víðar. Í dag stjórnar hann sjálfstyrkingarnámskeiðum og flytur fyrirlestra víða um heim.
Hann stofnaði samtök sem heita Líf án lima sem hefur að markmiði að veita limalausu fólki innblástur og uppörvun.
En sjón er sögu ríkari.
Á netinu er að finna nokkur myndskeið með Nick og þar á meðal þetta sem ég mæli með að fólk horfi á enda tekur það ekki nema eina og hálfa mínútu.
Þá sýnir myndbandið hér að neðan, hvernig Nick ber sig að við að hjálpa sér sjálfur.
5.2.2009 | 16:22
Tæknlilegar lausnir á andlegum vandamálum
Sumir trúa því að tæknin og vísindin get leyst flest ef ekki öll vandamál mannkynsins, svo fremi sem þeim sé bara rétt beitt. Þessi trúa er jafnan byggð á þeirri staðreynd að mörg af þeim meinum sem fylgt hafa mannkyninu í gegn um tíðina hafa verið farsællega leyst með tilkomu vísindalegar þekkingar og beitingu hennar gegn vandamálinu. Sú staðreynd sýnir sig e.t.v. best í læknisfræðinni þar sem fjöldi sjúkdóma sem áður voru jafnvel banvænir, eru nú meðhöndlanlegir.
Siðferðilegum spurningum um hvað sé tilhlýðilegt og hvað ekki, þegar kemur að því að bjarga mannslífum, auka líkurnar á langlífi og velsæld og koma til móts við misjafnar og persónulegar kröfur fólks, fækkar stöðugt eða er slegið á frest að svara þangað til þær verða einhvern veginn óþarfar.
Engin spyr lengur hvort það sé siðferðilega rétt að koma í veg fyrir arfgenga sjúkdóma með því að breyta genauppbyggingu einstaklinga. Það gerist einnig æ líklegra, að fólk geti haft áhrif á útlit og atgervi barna sinna með því að breyta genauppbyggingu þeirra.
Þá eru í dag framleiddir róbottar sem hafa þann tilgang einan að vera félagar fólks sem þarfnast félagsskapar en fær hann ekki í nægjanlegum mæli frá samferðafólki sínu. Þessir róbottar sýna viðbrögð við strokum, bregðast við augnaráði og gefa frá sér hljóð eftir því hvernig þeir eru snertir. Allar siðferðislegar spurningar um hvort slíkt sé í lagi eða ekki eru löngu hættar að heyrast. Hver er munurinn á Róbott og hundi ef að hvorutveggja kemur á móts við þarfir einstaklingsins?
Æðstu siðferðilegu rökin við öllum nýungum eru; að ef þau skaða engan, eru þau í lagi og hver og einn verður að meta hvað er skaðlegt fyrir hann sjálfan.
En er þetta rétt? Er ekki hægt að ganga fram af siðferðiskennd fólks svo fremi sem þessi rök halda?
Tökum sem dæmi Þetta;
Í dag geta petafílar keypt sér litlar dúkkur við sitt hæfi sem kynlífsleikföng. Þá er unnið að því að þróa róbott sem sýnir þau viðbrögð sem petafílar sækjast eftir í fórnarlömbum sínum.
Tæknilega er verið að koma á móts við ákveðið vandamál sem mikill fjöldi karlmanna á við að stríða.
Með hvaða rökum er hægt að mótmæla þessu, svo fremi sem þeir gera sér "vélmennisbarn" að góðu? Og hvar á að stöðva þróun vélmenna í þessu tilliti. Má t.d. blanda saman lífrænum vefjum við vélina til að gera hana líkari mennsku barni? -
Hverjar eru ykkar skoðanir á þessu ?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2009 | 00:06
Ég og ófullnægði homminn
Í raun þekkti ég Martin ákaflega lítið. Ég hafði hitt hann nokkrum sinnum á þessu kaffihúsi og telft við hann skák. Nú sátum við þarna, búnir að tefla nægju okkar í bili. Hann gaut á mig stórum grásprengdum augunum yfir brúnina á bollanum um leið og hann dreypti á kaffinu. Umræðuefnið fram að þessu hafði verið vandræðalegt, um eitthvað sem hvorugur okkar hafði áhuga á að halda gangandi.
Hann dæsti, setti fæturna upp á einn stólinn sem stóð við borðið og hóf að tala eins og hann væri að hugsa upphátt.
"Jamm, það er svo skrýtið. Maður þarf víst að vera svo pólitískt rétthugsandi að maður þorir varla að orða svona pælingar. Ég meina, þú veist að ég er hommi, er það ekki? Ekki eins og það leyni sér eitthvað, við höfum jú oft séð hvorn annan áður. En að maður geti talað um hugsanir sínar, opinskátt. Maður heyrir bara; God, þetta er þitt mál og hvað, er kynhneigð ekki bara einkamál hvers og eins, og allt í einu er maður komin út í eitthvað sem ekki er pólitískt rétt. Kynlífsbyltingin er búin, allt orðið gott og ekkert meira um það að segja. Allt er svo sjálfsagt og eðlilegt, sem svo þarf ekkert að vera svo sjálfsagt, alla vega ekki fyrir mig."
"Ok ég er hommi og ég veit ekki betur en að ég hafi alltaf verið hommi, öll fjörutíu árin eða þannig. Fæddur svona. Úbs, er maður nokkuð að tala af sér. Lít ég ekki út fyrir að vera soldið yngri? - En öll þessi umræða samt, hvað er eðlilegt og hvað ekki, á bak við mann þegar maður er ekki á staðnum. En ég spyr; hvernig getur eitthvað ekki verið sjálfsagt eða verið óeðlilegt ef það er hluti af mannlegum kenndum, hluti af náttúrunni og allt það. - Svo var ég að lesa grein fyrir stuttu sem fjallaði um hvernig við sem lifum í dag erum sönnun þess að gen forfeðra okkar voru þau sterkustu sem völ var á og að í okkur birtist það besta sem þessi gen hafa getað búið til fram að þessu. Og að öll genin í gegn um tíðina hafi haft það eitt að markmiði að skapa hæfari einstaklinga sem verða stöðugt hæfari til að lifa. En svo þegar kemur að mér og þá, hm, þá fremja þau erfðafræðilegt sjálfsmorð. Ef ég fylgi mínum eðlilegu hvötum, einsog ég hef gert fram að þessu, munu gen mín enda með mér, ekki satt. Sjálfsmorð, ekkert annað. Og hvað þýðir það? Að ég sé í raun líffræðilega úrkynjaður í fyllstu merkingu þess ljóta orðs? Með mér er allt í einu öllu lífslögmálinu kippt úr sambandi. Vegna þess að ég get ekki, ef ég er eðlilegum tilfinningum mínum trúr, getið af mér afkvæmi nema með einhverjum tæknibrellum. Ég get ekki skilað genunum áfram, ég er, moi, will be no more. Rétt eins og óbyrja eða ófrjór maður. En hjá þeim ráða auðvitað einhverjir náttúrulegir gallar, eða sjúkdómar. Hjá mér, ekkert, ekkert óeðlilegt. Ég er eðlilegur að öllu leiti og... ég er hommi. Samt eru gen mín dæmd til að ljúka milljóna ára þróun sinni með mér."
"Og svo er það annað. Auðvitað veltir maður fyrir sér hlutunum á marga vegu. Hvað er ást og til hvers er ástin? Mig langar að finna einhvern til að elska, einhvern, fallegan og góðan mann sem sem er ímynd karlmennskunnar líka. Alveg eins og þú vilt vera með konu sem er ímynd alls þess sem er kvennlegt. Og þarna lendi ég líka í hvað sem þú vilt kalla það, sjálfskoðunarlegri eða heimspekilegri sjálfsheldu. Sannur karlmaður er auðvitað gagnkynhneigður og vill vera með konu en ekki öðrum karlmanni. Í því felst karlmennska hans í kynferðislegu tilliti ekki satt? Ég verð því að gera mér að góðu að finna einhvern annan homma sem einnig er staddur á sama stað og ég. Manni sem finnst hann vera eitthvað annað en sannur karlmaður í þessari merkingu. Sérðu ekki að þetta virkar ekki fræðilega. Ég er karlmaður sem finnst ég vera kona og ég vil ekki vera með öðrum manni sem finnst hann líka vera kona. Auðvitað gerir maður málmiðlun, en af hverju þarf ég að gera málamiðlun en þú ekki? Af hverju get ég ekki verið fullnægður með það sem til boða stendur?"
"Þetta verður öllu flóknara að sjálfsögðu þegar við ætluðum að flokka homma og lesbíur á sömu forsendum og við flokkum gagnkynhneigða karla og konur. Til dæmis þegar ég fer í sund, fer ég auðvitað í klefa með körlum eins og lesbíurnar fara með konunum. En hvers vegna? Hver er munurinn á mér og konu, ég meina með tilliti til minnar kynhneigðar? Ætti ég ekki að fá sér klefa? Það mundi ekki einu sinni duga, ég meina þá á sömu forsendum og körlum og konum er skipt niður í klefa, að vera með öðrum hommum í klefa."
Martin þagnaði allt í einu og byrjaði að flauta eitthvað lag sem ég kannaðist ekki við og horfði á mig af og til eins og hann byggist við einhverjum andsvörum. Ég reyndi að hvað ég gat að finna einhverja veika hlekki í rökleiðingum hans, en kom ekki í augnablikinu auga á neina þótt ég vissi að þeir hlytu að vera þarna.
Vísindi og fræði | Breytt 3.2.2009 kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.1.2009 | 01:12
Ótrúlega Ísland - The home of the shitballs
Undur Íslands, fólkið og náttúran, eru sannarlega mörg og ég þreytist ekki á því að tíunda það fyrir þeim sem á vilja hlusta. Ég sé það oft á augnagotum fólks sín á milli að það á erfitt með að trúa ýmsu, sem ég hef að segja, en samt er síður enn svo að ég ýki. Þess er hreinlega ekki þörf. Sannleikurinn hreinn og beinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur, eða það finnst þeim.
Það er svo sem ekkert nýtt að útlendingar furði sig á þeim fjölmörgu náttúrundrum sem er að finna á Íslandi. Þegar ég kom inn í hið heimsfræga furðusafn Ripleys (Ripley´s belIeve it or not museum) í Flórída fyri mörgum árum, blasti við mér í anddyrinu risastór teikning af Hérðaskólanum á Laugarvatni.
Í texta undir myndinni var fullyrt að þetta væri fyrsta hús í heimi sem byggt hefði verið og ráð fyrir því gert að hita það upp með jarðvarma einum saman. Ripley sem kom til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og teiknaði húsið, fannst mikið koma til fyrirbæris sem er okkur heimafólki ósköp venjulegt og margir útlendingar vita núorðið um.
Í hinum upplýsta internets-heimi sem við lifum í, þar sem öll þekking er við fingurgómana og googlið er véfréttin mikla, eru samt fáir sem vita af fyrirbærinu sem við köllum hér á Íslandi Kúluskít.
Í stórum hópi kunningja í kvöld minntist ég á þetta náttúruundur sem aðeins finnst í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og japanska vatninu Akan á Hokkao eyju. Allir viðstaddir drógu í efa að þetta væri satt. Kúlulaga skítur sem vex í breiðum???
Kannski var það íslenska nafnið sem gerði þetta svona tortryggilegt, (á ensku ball-shit eða shitball) enda líkt öðru sem þýðir bull (bullshit).
Nú vill svo til að það er til frábær netsíða á íslensku um kúluskít og með að sýna hana náði ég loks að sannfæra liðið. Svo var japanska nafnið auðvitað Googlað. Þeir sem ekki hafa séð kúluskít eða vilja fræðast um fyrirbærið geta nálgast þessa netsíðu hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2009 | 19:29
Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning
Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.
Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.
Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.
Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.
Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.
Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.
Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.
Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.
Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.
Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.
Hrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar Nevermore í lok hvers erindis.
Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:
- Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.
Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.
Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson. Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.
Margir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.
Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)