Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Kolbítar

Tolkien_youngMargt hefur verið rætt og ritað um "Inklings" (Bleklingana) lesklúbb þeirra félaga J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis. En löngu áður en þeir mynduðu með sér það laushnýtta samfélag samtímaskálda voru þeir saman í leshring sem þeir kölluðu Kolbíta.  

Eða eins og Ármann Jakobsson orðar það á Vísindavefnum;

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin.

Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.

 

Áhrif íslenskra bókmennta á vinsælustu lesningu síðustu aldar; Hringadróttinssögu,  eru ótvíræð og sögusviðið sjálft "Miðgarður" ættleitt beint úr heimsmynd norrænnar goðafræðar. Kolbíta leshringurinn var starfræktur frá 1926 til 1933 átti stóran þátt í að móta frásagnarstíl og efnistök Tolkiens.

coal_fire_lgMargir Tolkiens aðdáendur hafa orðið til að velta fyrir sér nafninu "Kolbítar" og um það er að finna ýmislegt almennt á enskri tungu.

Ég var nýlega að leita að góðri lýsingu á hugtakinu til að segja frá því í boði  sem haldið var til að minnast  Tolkiens á fæðingardegi hans 3. janúar, þegar ég rakst á stórskemmtilega grein sem Már Viðar Másson skrifaði og heitir "Að rísa úr öskustónni" . Þar segir m.a;

Að leggjast í öskustóna var að taka sér hvíld frá amstri dagsins og taka út þroska sinn í friði. Öskustóin var við langeldinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða í eldahúsi. Sá sem lagðist þar fékk að vera í friði. Hann þurfti ekki að vinna hefðbundna vinnu þótt kannski hafi hann aðstoðað eldabuskurnar að einhverju marki, enda eins gott að koma sér vel við þær. Hann þurfti ekki að þrífa sig og mátti klæðast druslum. Vegna öskunnar kallaðist hann kolbítur. Aska er cinder, ella er kona og Öskubuska var kolbítur. A Kolbíturinn gat legið í öskunni mánuðum saman.

Einn góðan veðurdag reis hann upp, baðaði sig, rakaði (ef hann var karl), klippti hárið, klæddist og tók til við dagleg störf á nýjan leik. Hann hafði nú náð sáttum við sjálfan sig og aðra og var því tilbúinn til nýrra átaka. Í sumum tilvikum gekk faðir kolbítsins til hans, kannski á öðru ári, og fékk honum frækilegt verkefni að starfa að. Best var ef faðir gekk til sonar síns, sem þá var kannski sextán ára, og sagði: “Þykir mér góð sonareign í þér. Nú skalt þú koma þér í skip með kaupmönnum, sigla með þeim til Noregs, heimsækja frændur þína þar, skila kveðju til konungs og koma aftur að hausti, færandi heimvarning og nokkurn frama. Hafðu þetta forláta sverð með í för og þennan farareyri.” Líklega var algengast að menn legðust í öskustóna 12-15 ára gamlir. Ég veit það þó ekki fyrir víst.

Sumir telja að ekki hafi verið ástæða til að sinna þessum sið nema snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum föður og sonar. Var þá stundumsagt að sonurinn hefði óhlýðnast lögmáli föðurins. Ég ætla einmitt að taka dæmi af þannig vandræðaástandi hér. Þegar um stúlku var að ræða hefur líklega verið umerfitt samband að ræða milli hennar og móður, nema móðurina hafi hreinlega vantað. Öskubuska og Mjallhvít eru þekkt dæmi þar um. Oft fylgir sögunni að samband unglingsins við hitt foreldri sitt, það er af hinu kyninu, hafi veri náið, enda hefur kolbíturinn getað skákað í því skjólinu. Öskustóin var líklega tilraun unglingsins til að ná sáttum, til að bíða eftir því að nægilegur þroski yrði, svo hann mætti skilja betur hvert næsta skref hans yrði í lífinu. Sama gilti væntanlega um föðurinn, tíminn nýttist honum einnig til þroska. Efvel tókst til varð af því mikil gæfa. Og taugaveiklun og aðrir sálrænir kvillar voru þar með læknaðir. Kolbítar voru t.d. hinn norski Askaladden, hetjan Starkaður, Grettir, Egill og jafnvel Skalla-Grímur á gamals aldri. Og svo mætti lengi telja.

Oft er frá því sagt að kolbíturinn búi yfir undraverðum eiginleikum; sé óvenju stór og sterkur, búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, sé óvenju vel ættaður, eða sérlega fallegur. Og iðulega er eins og askan nái ekki að skyggja á gullið sem undir skín og bíður þess aðeins að af því sé dustað rykið. Hver man ekki eftir Bláskjá sem var af fínum ættum, en lenti um tíma hjá ribböldum. Í dimmum helli skógarmanna mátti sjá gylla í hárið undir skítnum og blámi augnanna var algerlega ósvikinn. Þegar Blárskjár komst aftur til manna spratt fram fullskapaður hefðarmaður. Dvölin í myrkrinu hafði ekki beygt hann, heldur þvert á móti dregið fram það besta í drengnum. Sama átti við um Oliver Twist.

Már Viðar Másson Að rísa úr öskustónni.


Ljóshnettir á ljósmyndum

svanurmswordÍ heimsókn hjá vini mínum fyrir skömmu, tók hann mynd af mér þar sem ég var "að vega mann og annan". Hann sendi mér myndina nokkru seinna og sagði að þetta hefði verið versta myndin sem hann tók allt kvöldið og hann skildi ekkert í öllum þessum deplum á henni.

Hann tók sama kvöld fjölda mynda af fólkinu sem þarna var statt og engin þeirra var eins meingölluð og af mér. Gallinn er eins og auðsætt er að það er fullt af einhverskonar deplum á myndinni sem ég hefði haldið að kæmu frá skítugri linsu eða einhverju álíka. En af því að á hinum myndunum var enga depla að sjá, getur það varla verið.

Ég hef lesið um þetta fyrirbæri og trúi ekki einu orði af því sem fólk segir um svona hnetti eða "orbs" eins og fyrirbærið er kallað upp á enskuna, en fann samt frásögn ljósmyndara sem reyndi að afsanna að þetta væri yfirnáttúrulegt fyrirbæri eins og margir halda fram. Frásögn hans er að finna hérna.

Ég er enn á því að þetta séu algjörlega náttúruleg fyrirbæri en kann ekki að skýra málið frekar en Dave Juliano.


Bölbænir í Bath

Heitavatnslindin í BathÉg átti erindi fyrir stuttu inn á stofnun þá er sinnir upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn hér í borg (BATH)  en hún er staðsett við hliðina á þeim stað sem mest aðdráttaraflið hefur, rómversku baðlindinni. Erindið var að fá að hengja upp auglýsingu um dagskrá listamiðstöðvar sem ég tengist lítilsháttar. Það var í sjálfu sér auðsótt mál því stór og mikil auglýsingatafla blasti þarna við öllum en það þurfti samt að borga fyrir að fá að hengja auglýsinguna upp á hana. Og eftir því sem sem þú vildir að hún væri lengur uppi, því meira kostaði það.

Rómverska musterið í BathÍ gærkveldi minntist ég á þetta við vinkonu mína sem er fornleyfafræðingur og hefur átt þátt í mörgum merkum fundum á svæðinu síðast liðin 20 ár. Hún sagði mér að upplýsingaþjónustan stæði á nákvæmlega sama stað og rómverskt musteri hafði staðið á fyrir rúmum 2000 árum. Í musterinu hafði verið starfrækt einskonar ferðamannaþjónusta þeirra tíma. Í nótt gluggaði ég svo í bækur um rómversku byggðina í Bath og rak þá augun í mynd af blýtöflu sem á var letruð bölbæn. Bölbænin hófst svona; Ég bölva  Tretiu Mariu, lífi hennar, huga og minni" og endaði á; "Þannig mun hún ekki geta talað um þá hluti sem nú eru leyndir".   

BölbænirSkýringin á bölbænatöflunni var sú að mikil helgi var höfð á heitu vatnsuppsprettunni í Bath meðal fornmanna og hafði fólk komið víðs vegar að frá Bretlandi og Frakklandi til að baða sig í henni og taka vatnið inn við ýmsum kvillum. Jafnframt var vatnið talið svo kynngimagnað og í umræddu musteri var hægt að fá útbúnar áletraðar bölbænir á blýtöflur sem síðan voru hengdar upp í musterinu fyrir gjald.  Eftir því sem taflan hékk lengur uppi, því meira var gjaldið.


Himnafestingin

MjólkurvegurinnÍ gærkvöldi var stjörnubjart hér um slóðir og ég eyddi dágóðum tíma í að góna upp á himnafestinguna og reyndi að rifja upp og átta mig á hvaða nöfn hafa verið gefin staka ljósdepli í gegnum tíðina.

Vetrarbrautin sem vel var sýnileg eins og slæða eftir há-himninum fékk mig til að hugleiða þetta íslenska nafn stjörnuþokunnar sem sólkerfið okkar tilheyrir; VETRARBRAUT. 

Það heiti ku vera komið úr sænsku (Vintergatan) en gæti hæglega hafa verið samnorrænt hér áður fyrr. Skýringin á nafninu er sögð sú að Skandinavíubúar hafi reiknað út komu vetrar frá stöðu stjarnanna sem kann vel að vera satt.

Mér finnst samt líklegra að nafnið komi af því að stjörnuþokan er einfaldlega miklu sýnilegri á vetrarnóttum en um bjartar sumarnætur norðurslóða.

Hera og HerakleasÁ ensku heitir stjörnuþokan "The milky Way" (bókstaflega þýtt Mjólkurvegurinn) sem er þýðing á gríska hugtakinu Galaxias eða Galaxy (Mjólkurhringurinn) en það tengist grískri goðsögn. Seifur átti Herakles með Alkmene, mennskri konu. Seifur lætur Herakles sjúga brjóst Heru konu sinnar á nóttum þá hún svaf til að sveininn fengi guðlega eiginleika. Hera vaknar og ýtir Heraklesi af brjóstinu. Við það flæddi brjóstamjólk hennar út í alheiminn og úr varð Mjólkurvegurinn. 

Það var rithöfundurinn og fjölfræðingurinn  Geoffrey Chaucerninn (1343-1400) sem fyrstur notar enska heitið á prenti.

800px-Mostra_Olearie_-_sistro_1010384Það voru reyndar fleiri þjóðir en Grikkir sem settu himnafestinguna í samband við mjólk því Egyptar trúðu því að hún væri mjólkurpollur úr kýrgyðjunni Bat sem seinna rann saman við gyðjuna Hathor sem sögð var dóttir Ra og Nut.

Bat átti hljóðfæri sem nefnt var "sistrum" og þegar að hún rann saman Haf-þóru (Hwt-Hor) fékk Haf-Þóra hlutverk tónlistargyðju einnig. Sistrum  (sjá mynd) varð í tímanna rás að hálsmeni og verndargrip sem ég hef oft séð um hálsinn á íslenskum ungmennum heima á Fróni. Líkt og þegar Loki stal Brísingameni Freyju  var sistrum rænt af gyðjunni Haf-Þóru sem hún og endurheimti að lokum.

254px-Hathor_svgÞá segir í norrænni goðafræði frá kúnni Auðhumlu sem ís og eldar, auðn og gnótt Niflheims og Múspelsheims skópu.  Auðhumla var móðir fyrsta guðsins Búra og frá henni runnu 4 mjólkurár. Hún nærði einnig þursinn Ými en úr höfði hans var himnahvelfingin gerð.

Á öllum tungumálum þar sem nafn stjörnuþokunnar er ekki þýtt beint úr latínu (Via Lactea=Mjólkurvegurinn) á heiti hennar rætur sínar að rekja til fornra goðsagna. Sumar þeirra eru afar skemmtilegar og ég læt hér fylgja með nokkur sýnishorn.

Ungverjar kalla himnafestinguna "Veg stríðsmannsins" eða Hadak Útja. Eftir honum átti Ksaba, hinn goðsagnakenndi sonur Atla Húnakonungs að kom ríðandi væri Ungverjum ógnað.

Finnar voru svo glöggir, að löngu áður en vísindamönnum tókst að sanna það, vissu þeir að farfuglar nota himintunglin til að rata milli hvela jarðarinnar. Þeir kalla stjörnuþokuna Linnunrata sem þýðir "Stígur fuglanna".

Cherokee Indíánar í Norður Ameríku kalla Vetrarbrautina Gili Ulisvsdanvyi. Sagan segir að hundur einn hafi stolið maís korni og verið hrakinn með það á braut. Hann hljóp í norður og missti niður allt kornið smá saman á leiðinni. Úr varð hið tilkomumikla nafn fyrir himnafestinguna "Leiðin sem hundurinn hljóp í burtu".

Satt að segja minnir nafngift Cherokee indíánanna á goðsögnina frá  Armeníu. Í henni er það guðinn Vahag sem stelur, einn kaldan vetur, stráum frá Barsham konungi Assýríu og flytur það til Armeníu. Hann flýði með stráin um himnaveginn og tapaði nokkru af stráunum á leiðinni. Nafnið á stjörnuþokunni okkar er því "Stráþjófsleiðin".


Fædd tveimur dögum eftir dauða móður sinnar

barn og faðirFyrrum skautastjarna  í Bretlandi fæddi barn tveimur dögum eftir að hún hafði verið úrskurðuð látin af völdum heilablóðfalls.

Jayne Soliman var úrskurðuð heiladauð en hjarta hennar var haldið gangandi þar til að hægt var að bjarga dóttur hennar Ayu (þýðir kraftaverk á kórísku) með keisaraskurði.

Jayne sem var 41. árs þegar hún lést, var komin 25 vikur á leið þegar hún fékk heilablóðfall á heimili sínu á Englandi.

Henni var flogið til  John Radcliffe sjúkrahússins í Oxford þann 7. janúar. Dóttir hennar kom í heiminn tveimur dögum seinna og vó þá um eitt kíló.

Fyrstu 48 tímana var dælt  í lungu hennar miklu magni af sterum til að hjálpa þeim að þroskast.

Faðirinn  Mahmoud Soliman, var viðstaddur fæðinguna.

Útför móðurinnar Jayne Soliman fór fram á laugardaginn s.l. að viðstöddu fjölmenni.

Soliman, áður Jayne Campbell, var Bretlandsmeistari í frjálsum skautadansi árið 1989 og var þá talin sú sjöunda besta í heiminum. 

 


Mjólk

chaplinÞegar að ungabörn með exem og ofnæmi sjúga í sig móðurmjólkina eftir að móðirin hefur hlegið hressilega, sýna þau miklu minni ofnæmis-viðbrögð við rykmaurum og latexi.

Þetta eru niðurstöður rannsókna lækna við  Moriguchi-Keijinai sjúkrahúsið í  Osaka, Japan.

Til að framkalla hlátur hjá mæðrunum notuðu læknarnir kvikmyndina "Nútíminn" (Modern Times,) með Charlie Chaplin. Mæður í samanburðahópnum horfðu á veðurfréttirnar.

Brjóstamjólk þeirra sem horfðu á Chaplin hafði talsvert meira af melatonin, sem virðist draga úr ofnæmiseinkennum ungbarna.

Í hverjum hópi voru 24 mæður og 24 ungbörn. Sumum spurningum er þó enn ósvarað og sú mikilvægasta er hvort japönskum mæðrum þykji  Charlie Chaplin virkilega fyndinn?

Kannski var það alls ekki skop Chaplíns sem olli þessum áhrifum heldur hvernig myndin lýsir á áhrifaríkan hátt streði almennings gegn afmennsku áhrifum og stofnunum fyrstu tíma vélvæðingar....bla bla bla

einst_chapÁrið 1931 var Albert Einstein ásamt eiginkonu sinni í heimsókn í Hollywood.  Þá bauð Charlie Chaplin honum til einkasýningar á nýrri kvikmynd sinni Borgarljós (City Lights.)Þegar þeir óku um götur borgarinnar stoppaði fólk og veifaði til þeirra og hrópaði húrra fyrir þeim.  Chaplin snéri sér að gesti sínum og sagði; "Fólkið fagnar þér vegna þess að ekkert þeirra skilur þig og það fagnar mér vegna þess að allir, sama hversu heimskir þeir eru, skilja mig".    

Eitt sinn var Albert Einstein staddur í fínu boði. Gestgjafinn bað hann að skýra í stuttu máli afstæðiskenningu sína. Einstein svaraði;

einsteinFrú, eitt sinn var ég í gönguferð út í guðsgrænni náttúrunni á heitum degi og fylgd með vini mínum sem er blindur.

Ég sagði við hann að mig langaði í mjólk að drekka.

Mjólk, svarði vinur minn, ég veit hvað það er að drekka en hvað er mjólk.

Hvítur vökvi svaraði ég.

Vökva þekki ég en hvað er hvítt?

"Liturinn á fjöðrum álftarinnar"

"Fjaðrir þekki ég, en hvað er álft?"

"Fugl með boginn háls"

"Háls þekki ég en hvað er bogið"

Við þessa spurningu missti ég þolinmæðina. Ég tók í handlegg vinar míns og rétti úr honum. "Þetta er beint" sagði ég og beygði síðan á honum höndina "og Þetta er bogið."

"Ah," sagði hann þá, "nú veit ég hvað þú meinar með mjólk."

Árið 1930 héllt  Einstein ræðu í Sorbonne háskólanum í París.  Einstein sagði meðal annars við það tækifæri; Ef afstæðiskenning mín verður sönnuð mun Þýskaland tilkynna að ég sé þýskur og Frakkland mun segja að ég sé borgari þessa heims. Ef hún reynist ósönn mun Frakkland leggja áherslu á að ég sé þjóðverji og Þýskaland að ég sé Gyðingur."

Louis_PasteurÝmsir hafa orðið til þess að gagnrýna gerilsneyðingu á mjólk og segja að hún rýri gæði mjólkurinnar. Auðvitað má færa rök fyrir því að neysla ógerilsneyddrar mjólkur geti stuðlað að fjölbreyttari gerlaflóru í þörmum með tilheyrandi heilsusamlegum áhrifum, en á móti kemur að sýkingarhætta eykst til mikilla muna, auk þess sem geymsluþol er mun styttra í ógerilsneyddri en gerilsneyddri mjólk. Þar sem ógerilsneydd mjólk er mjög viðkvæm vara og mundi þurfa mjög vandaða meðhöndlun í vinnslu og geymslu má búast við að hún yrði mun dýrari en sú mjólk sem fyrir er.

Á ensku er gerilsneyðing nefnd Pasteurization og er kennd við hin fræga franska efnafræðing Louis Pasteur. Hann starfaði lengi við Sorbonne háskólann, eða frá 1867 til 1889. Hann var  Pasteur stofnunarinnar sem sett var á laggirnar honum til heiðurs.

Að lokum, við höfum drukkið mjólk kýrinnar í 11.000 ár og mér til mikillar furðu er mjólkurneysla mest miðað við íbúafjölda, í Finnlandi, eða 183,9 lítrar á hvert mannsbarn á ári.

 


Mini-me

mini_meÞað er byrjað að sýna eina umferðina enn af "Big Brother" þáttunum hér í Bretlandi. Mér hefur lengi þótt þessir "raunveruleikaþættir" einskonar andleg viðundrasýning.  Í þetta sinn er fyrrverandi frægu fólki eða næstum því frægu, boðið til vistarinnar í húsinu sem er vaktað af upptökuvélum allann sólarhringinn.

Meðal þeirra eru Latoya Jackson, Mutya Buena fyrrverandi Sugababes stúlka og svo er þarna líka afar smávaxinn náungi sem heitir Verne Troyer. Hann er þekktastur fyrir að leika Mini-me í tveimur af þremur grínþvælukvikmyndunum um Austin Powers.

Í enskumælandi löndum kýs smávaxið fólk að láta kalla sig "Litle people" (sem ég þýði litla fólkið) í stað dverga en einkenni sjúkdómanna sem valda smæð þess er samt enn kennt við dverga eða "Dwarfism".

Að sjá Verne þarna án gerfis vakti mig til umhugsunar um atvik sem átti sér stað heima á Íslandi fyrir nokkrum árum. Þegar ég vaknaði morgun einn árið 2002 að mig minnir, laust því niður í huga minn að það væri ár og öld síðan ég hafði séð dvergvaxna persónu á götu úti í Reykjavík. Þegar ég var að alast upp var það alvanalegt að rekast á smávaxið fólk í flestum byggðarlögum landsins. Hvað hafði orðið af öllu litla fólkinu?

Ég tók upp símann og hringdi niður á fæðingadeild Landspítalans og fékk þar samband við yfir-fæðingalækninn. Hann tjáði mér að ekki hefði fæðst nema einn dvergvaxinn einstaklingur á Íslandi síðustu tuttugu árin eða eftir að skimun fóstra varð að reglu frekar en undantekningu. Hann sagði mér að ef þess sæust merki að fóstur gætu verið haldin einhverjum af þeim 200 sjúkdómum sem  valdið geta dvergseinkennum (þar sem yfirleitt er miðað við að fullvaxinn yrði einstaklingurinn minni en 147 sentímetrar), kysu mæðurnar að eyða þeim.

General-Tom-ThumbEinhvern tíman á unglingsárunum var mér gefin bók sem ég hélt mikið upp á. Hún hét "Very Special people" og fjallaði um lífsbaráttu fólks sem á sínum tíma voru álitin viðundur. Mörg þeirra sem komu við sögu í bókinni neyddust til að sjá fyrir sér með því að sýna sig fyrir gjald og réðu sig til Ringling Bros. and Barnum & Bailey sirkussins sem starfrækur var í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar. Á meðal þeira var fjallað um litla fólkið sem varð heimsfrægt eins og Tom-Thumb og eiginkonu hans Laviniu-Warren sem þrátt fyrir smæð sína lifðu hamingjusömu og innihaldsríku lífi.

Í Bandaríkjunum hefur litla fólkið myndað með sér samtök sem telja yfir 6000 meðlimi. Þeim samtökum hefur orðið mikið ágengt við að kynna málstað lítils fólks og vekja almenning til umhugsunar um stöðu þeirra í samfélaginu. Þau beita sér m.a. fyrir því að litla fólkið sé ekki opinberlega niðurlægt eins og t.d. gert var þegar svokallað "dvergakast" varð á tímabili að sýningaríþrótt.

Á vesturlöndum finnast hinar svokölluðu "viðundrasýningar" ekki lengur en víða annarsstaðar, einkum þar sem samfélagsaðstoð og læknisþjónusta er af skornum skammti, neyðast oft þeir sem hafa alvarleg líkamlýti að vinna fyrir sér með því að sýna sig fyrir greiðslu.

Slíkt er algengt á Indlandi og víða í Asíu.  Í Indonesíu starfar  hópur fólks sem kallar sig  The Clan eða "Gengið". Ég ætla ekki að hafa mörg orð um lýti eða neyð þessa fólks því sjón er sögu ríkari. Myndbandið sem ég kræki á hér að neðan sýnir einhver verstu líkamslýti sem ég hef séð og því er vert að vara viðkvæma við því. THE CLAN


Víngarður Guðs í Ísrael

Karmel-1894Í norður Ísrael teygir sig eftir ströndinni fjallgarður sem nefndur er Karmelfjall. Í norðurhlíðum þess rís borgin Haífa sem er þriðja stærsta borg Ísraelríkis. Borgin er oft sögð sú dýrasta í Ísrael þar sem margir af auðugustu borgurum landsins búa í henni. Eða eins og leigubílstjórinn sem ók mér eitt sinn frá Tel Aviv til Haifa orðaði það; "Borgin er ein af Pé-borgunum. Í Jerúsalem biður þú (Pray), í Tel Aviv leikur þú þér (Play) en í Haifa borgar þú (pay)."

Í Haífa búa bæði Arabar og Gyðingar eða um 270.000 manns og henni hafa ráðið yfir tíðina fyrir utan Gyðinga og forfeður þeirra, Byzantíumveldið, Arabar,Krossfarar, Ottómansveldið, Egyptar og Bretar.

Fjallgarðurinn sem er um 40 km langur er ekki ýkja hár eða rúmlega fimm hundruð metrar þar sem hann er hæstur. Víða við rætur fjallsins hafa fundist minjar um forn þorp og í þeim leifar af frumstæðum þrúgupressum. Heiti fjallsins Karmel þýðir reyndar á hebresku "Víngarður Guðs".

Í fjallinu eru  margir hellar sem einnig bera þess merki að hafa verið notaðir í langan tíma sem íverustaðir manna og húsdýra.

NEANDERReyndar fullyrða fornleyfafræðingar að á fjallinu sé að finna mannvistarleifar sem beri vitni um að þar hafi verið elsta og lengsta samfellda byggð manna í heiminum.

Árið 1931 fann Prófessor Dorothy Annie Elizabeth Garrod bein Neanderdals-konu sem nefnd var Tabun I og er talin meðal merkustu fornleyfafunda á síðustu öld. Bein hennar þóttu sanna að Neanderdals-menn og nútímamaðurinn hafi búið samtímis á sama stað um nokkur þúsund ára bil. Elstu minjarnar í fjallinu eru taldar allt að 600.000 ára gamlar.

Fjallinu tengjast fjölmargir sögulegir atburðir og trúarlegt mikilvægi þess er slíkt að haft er eftir sjálfum Pýþagórusi að "fjallið sé helgast allra fjalla og mörgum sé að því meinaður aðgangur."

YeshuaMountSamkvæmt annarri Konungabók Gamla Testamentisins átti  Elísa (hinn sköllótti) að hafa hraðað sér til Karmelfjalls eftir að hann hafði valdið dauða 42 ungra drengja sem gert höfðu grín að hárleysi hans.

Margar heimildir geta þess að fjallið hafi í aldanna rás verið vinsæll felustaður fyrir flóttamenn, einsetumenn og trúarhópa sem sóttust eftir einangrun. Eru í því sambandi nefndir bæði Essenar og Nazarear (ekki samt hinir frumkristnu).

Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er spámaðurinn Elía sagður hafa haft aðsetur í helli á fjallinu. Þótt ekkert sé að finna í helgiritunum sjálfum um hvar sá hellir er nákvæmlega staðsettur, hefur honum verð fundin staður sem er kyrfilega merktur í dag og kallaður hellir Elía. (Sjá mynd)  

Hellir ElíaElía á að hafa reist Guði altari og árið 1958 fannst á þessum slóðum einskonar altari sem núna er kallað altari Elía þar sem Guð brenndi upp til agna fórn Elía og sannaði þannig fyrir 450 Baal dýrkendum að Guð  hans væri máttugri en þeirra. Íslamískar hefðir staðsetja þennan stað þar sem heitir El-Maharrakah sem þýðir brennan.

Á tólftu öld var stofnuð á fjallinu kaþólsk trúarregla sem nefndi sig Karmelíta. Sofnandi hennar sem nefndur er Berthold var annað hvort pílagrímur eða krossfari og lést árið 1185. Reglan var stofnuð á þeim stað þar sem hellir Elía var sagður vera og er staðsettur (kannski ekki fyrir tilviljun) þar sem hæst ber og best er útsýnið yfir fjallið og nærliggjandi héruð.

Í arfsögnum Karmelíta er getið um einsetumenn sem voru Gyðingar og hafi búið á fjallinu frá tímum Elísa og Elía. Í stofnskrá reglunnar sem er dagsett 1281 er talað um "presta og spámenn, Gyðinga og Kristna sem lifðu lofsamlegu lífi í heilagri afneitun við lind Elísa."

400px-Pietro_Novelli_Our_Lady_of_Carmel_and_SaintsSkömmu eftir stofnun reglunnar var sett á fót klaustur á fjallinu og það helgað Maríu Kristsmóður í ímynd stella maris eða "hafstjörnunnar". Klaustrið var byggt á þeim stað sem áður er getið og kallað El-Maharrakah af múslímum.

Á meðan krossferðunum stóð skipti byggingin oft um hæstráðendur og varð að mosku þegar múslímar réðu, en klaustri eða kirkju þegar kristnir menn réðu henni. Árið 1799 var henni breytt í sjúkrahús fyrir laskaða hermenn úr röðum hers Napóleons sem reyndi að leggja undir sig svæðið. Hún var að lokum jöfnuð við jörðu 1821 af landstjóra Ottómans-veldissins í Damaskus.

Karmelítareglan safnaði fyrir nýrri byggingu og reisti hana við hellinn sem nú er þekktur sem Hellir Elía.

Árið 1861 voru stofnuð í Þýskalandi samtök sem tóku sér nafnið Tempelgesellschaft. Meðlimir þeirra voru kallaðir Templarar og samkvæmt kenningum forkólfanna Christoph Hoffman og Georg David Hardegg var æðsta þrá þeirra að þjóna konungsríki Guðs á Jörðu. Þeir álitu Krist ekki vera eiginlegan son Guðs en miklu frekar fyrirmynd. Þeir voru sannfærðir að endurkoma Krists væri í nánd og drógu þær ályktanir eftir vísbendingum og spádómum Biblíunnar að hann mundi birtast á eða í námunda við Karmelfjall.HaifaColony

1886 kom til Haifa allstór hópur þýskra Templara og settist þar í einskonar nýlendu. Enn má sjá hús þeirra og við Ben Gurion breiðstræti í Haífa þar sem þau standa með sín rauðu þök og byggð úr steini samkvæmt Evrópskri byggingarhefð. Yfir gluggum og dyrum margra þeirra eru yfirskriftir á þýsku; Þ.á.m. "Herrann er nálægur".

Haifa_GermanTemplararnir reyndu að breiða úr sér í Landinu Helga og stofnuðu nýlendur við Jaffa og í Jerúsalem. Eftir að heimstyrjöldin síðari skall á voru Templararnir  allir reknir úr landi eða fluttir til Ástralíu af Bretum sem þá réðu Palestínu. Árið 1962 greiddu Ísraelstjórn þeim 54 miljónir þýskra marka í skaðabætur fyrir þær eignir og landsvæði sem höfðu áður tilheyrt þeim og nú voru þjóðnýttar.

Í fyrri heimstyrjöldinni var háð orrusta í hlíðum Karmelfjalls sem átti eftir að skipta sköpum í stríðinu. Hún er nefnd  "Orrustan við Megiddo" en þar áttust við Bretar undir stjórn Allenby Hershöfðingja og hermenn Ottómans veldisins sem ráðið höfðu landsvæðinu í nokkrar aldir. 320px-Light_horse_walers

Jezreel dalurinnsem gengur inn í fjallið þar sem orrustan var háð, hafði oft áður verið vettvangur átaka og frægust þeirra var upprunalega Megiddo orrustan sem var háð milli herja Egypta og Kananíta á 15. öld fyrir Krist. Þá hafði einnig herjum Júdeu og Egyptum lostið þarna saman árið 609 FK.

armage1Dalurinn er einnig sagður  í Opinberunarbókinni vera sá staður þar sem herir "dýrsins" safnast saman fyrir orrustuna sem nefnd er Armageddon.

 

 

Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er einnig staðsett á Karmelfjalli. Kemur það til af sögulegum ástæðum. Heimsmiðstöðin bæði stjórnfarsleg og andleg miðstöð bahá'í heimsins og einnig eru tveir helgustu staðir bahá'í trúarinnar, grafhýsi Bábsins og Bahá'u'lláh, staðsettir í grenndinni. Í heimsmiðstöð bahá'ía starfa að jafnaði um 700 sjálfboðaliðar á hverjum tíma sem allir koma víðsvegar að úr heiminum.

Í stuttu máli eru sögulegu forsendurnar fyrir veru heimsmiðstöðvarinnar á Karmelfjalli þessar;

y140aÞann 23. maí árið 1844 í borginni Shíráz í Persíu tilkynnti ungur maður, þekktur sem Bábinn, að boðberi Guðs, sem allar þjóðir jarðarinnar höfðu vænst, kæmi innan skamms. Titillinn Bábinn merkir „Hliðið“. Þó að hann væri sjálfur flytjandi sjálfstæðrar opinberunar frá Guði, lýsti Bábinn því yfir að tilgangur hans væri að undirbúa mannkynið fyrir þennan mikla atburð.

Skjótar og villimannlegar ofsóknir, sem voru runnar undan rifjum hinnar valdamiklu múslimsku klerkastéttar, fylgdu í kjölfar þessarar yfirlýsingar. Bábinn var handtekinn, húðstrýktur, fangelsaður og loks tekinn af lífi 9. júlí árið 1850 á almenningstorgi í Tabrízborg. Um það bil 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í hverju blóðbaðinu á fætur öðru um alla Persíu.

Líkamsleifar Bábsins voru jarðsettar í hlíðum Karmelfjalls samkvæmt fyrirskipunum Bahá’u’lláh, Helgidómurinn er umlukinn fallegum görðum og þaðan sér út á Haífaflóann.

y220Bahá’u’lláh var fæddur árið 1817 inn í aðalsfjölskyldu í Persíu. Fjölskylda hans gat rakið ættir sínar aftur til konunga frá stórveldistímum Persíu. Hún var mjög auðug og átti miklar eignir. Bahá’u’lláh var þess vegna boðin staða við hirðina, en hann hafnaði henni. Hann varð kunnur fyrir örlæti sitt og manngæsku, sem ávann honum mikillar hylli meðal landsmanna sinna.

Bahá’u’lláh glataði fljótlega þessari forréttindastöðu, eftir að hann lýsti yfir stuðningi sínum við boðskap Bábsins. Bahá’u’lláh lenti inn í holskeflu ofbeldis, sem hvolfdist yfir Bábíana eftir aftöku Bábsins. Hann missti ekki einungis öll sín veraldlegu auðæfi, heldur var hann fangelsaður, pyntaður og rekinn í útlegð hvað eftir annað. Hann var fyrst gerður útlægur til Bagdad, þar sem hann lýsti því yfir, árið 1863, að hann væri hinn fyrirheitni sem Bábinn hafði gefið fyrirheit um. Frá Bagdað var Bahá’u’lláh sendur til Konstantínópel, til Adríanópel og að lokum til ‘Akká í Landinu helga, en þangað kom hann sem fangi árið 1868.

shrine-bahaullah-entranceFrá Adríanópel, og síðar frá ‘Akká, skrifaði Bahá’u’lláh fjöld bréfa til þjóðhöfðingja heimsins á þeim tíma. Þessi bréf eru meðal merkustu heimilda í trúarbragðasögunni. Í þeim er kunngert að eining mannkyns muni komast á innan tíðar og alheimssiðmenning líta dagsins ljós.

Konungar, keisarar og forsetar nítjándu aldar voru kvaddir saman til að jafna ágreiningsmál sín, minnka vopnabúnað sinn og helga krafta sína málefnum alheimsfriðar.

Bahá’u’lláh andaðist í Bahjí, rétt fyrir norðan ‘Akká og við rætur Karmelfjalls og er grafinn þar. Kenningar hans höfðu þá þegar breiðst út fyrir Mið-Austurlönd og helgidómur hans er núna miðdepill þess heimssamfélags sem þessar kenningar hafa fætt af sér.

 


FBI, SWAT og Lögreglan í Tallahassee

Það er alkunna að fólki almennt þykir gott að hafa í kring um sig hluti sem þeim eru hugleiknir eða það hefur bundist einhverjum tilfinningalegum böndum. Til dæmis hafa margir fjölskyldumyndir sínar með sér á vinnustaðinn til að minna sig á til hvers allt stritið er eða aðra persónulega muni sem leiða hugann að jákvæðu og uppbyggjandi hliðum lífs okkar.

Oft mynda þessir hlutir einskonar andrúmsloft sem aðrir finna líka fyrir þegar þeir koma inn í rímið þar sem þessir munir standa. Þegar litast er um heima hjá fólki er eins og fyrir manni opnist hluti af heimi sem gefur til kynna hvernig persónunum líður sem á staðnum búa. Þetta á ekki bara við um heimili heldur einnig vinnustaði.

innsigli fbiÞað eru einnig alþekkt vinnubrögð yfirvalda hvar sem er í heiminum að gefa ákveðin skilaboð til kynna með óbeinum hætti, t.d.  umhverfinu þar sem sjónvarpsviðtöl eru veitt við valdhafa eða fulltrúa þeirra. Venjulega er verið að leggja áherslu á ákveðna hugmyndafræði á táknrænan hátt.

Þá skiptir klæðnaður máli , liturinn á bindinu, munirnir á borðum, bækurnar sem sjást í hillunni o.s.f.r. Þetta er alþekkt tækni sem ætlað er að hafa ákveðin ósjálfráð og óbein áhrif á þá sem á viðtalið horfa, umfram það sem sagt er berum orðum.

Ég velti því fyrr mér hvaða skilaboð séu fólgin í því, þegar að Árni Þór  vettvangsstjóri Lögreglunnar í Reykjavík gaf MBL.IS  myndbands-viðtal  á skrifstofu sinni um viðbrögð lögreglunnar á Hótel Borg á gamlársdag þar sem hann sagði að lögreglan hefði verið alls óundirbúin fyrir átökin.

Í fyrstu áttaði ég mig ekki hvers vegna það fór um mig ónotahrollur þar sem maðurinn sjálfur var hinn almennilegasti. Svo kom ég auga á það.

Fyrir aftan hann á hillu voru mest áberandi einkennishúfur sem merktar voru bandarískum lögregluyfirvöldum og sérsveitum þeirra. 

SWAT_teamEin þeirra var frá Bandarísku alríkislögreglunni (FBI) sem er  alþekkt fyrir að láta nota sig óspart í pólitískum tilgangi.

Nægir í því efni að minna á kommúnistaveiðarnar sem gengu yfir Bandaríkin í kring um 1950 og kenndar eru við Joseph McCarthy nokkurn en þá var J. Edgar Hoover yfirmaður FBI.

Önnur var merkt sérveitum bandarískra lögregluliða eða SWAT (Special Weapons and Tactics) sem eru þær sveitir sem fást við vopnaða glæpamenn, umsátur og skotbardaga.

tallahasseeSú þriðja var merkt lögreglu Taallahassee í Florida í Bandaríkjunum þar sem skotbardagar og dauðsföll af völdum þeirra eru daglegt brauð.

 


Piparúði

cayenneÝmislegt bendir til þess að chilies pipar-tegundir hafi verið ræktaðar frá örófi alda. Indíánar í Mexikó þekktu og ræktuðu ýmsar tegundir þess fyrir 5500 árum, þ.á.m. chiltecpin, jalapeño, ancho, papriku, serrano og  cayenne pipar. Ekki hafa fundist nein gögn sem benda til þess að þeir hafi notað þessar sterku kryddjurtir til líkamsmeiðinga líkt og gert er í dag í mörgum löndum.

Þó að ekki sé ýkja langt síðan að byrjað var að nota piparúða er notkun rauðs Chili-pipars vel þekkt úr mannkynssögunni sem vopn bæði frá Indlandi og Kína. Kínverjar og ekki síst stríðsmenn þeirra fundu upp ýmsar leiðir til að nota kryddjurtina til sjálfsvarnar og í hernaði. Meðal þeirra var að mala þurrkaðan pipar og vefja hann hrísgrjónapappír sem síðan var kastað í andlit óvinarins.

Meðal hinna frægu japönsku Ninja herliða var þessi aðferð vel þekkt til að gera óvininn óvirkan um stund. Á Tukagawa-veldis-tímabilinu í Japan notuðu lögregluliðar svokallaða Metsubishi kassa en í þeim var komið fyrir fínmöluðum Chili-pipar sem blásið var í augu þeirra sem gerðust sekir um glæpi.

Á 14. og 15. öld þegar að þrælasala var algeng á vesturlöndum, komust þrælasalar upp á lag með að nota kryddið til að fanga þræla í Afríku. En það var einnig notað á sama tíma sem vopn og var vinsælt við pyndingar þræla og glæpamanna.

Hvernig beita á úðanumÞað var ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar að farið var að nota piparinn í formi úða.

Bannað er að nota piparúða í stríði samkvæmt I.5 grein alþjóðlega sáttmálans um efnavopn sem undirritaður var árið 1993 og varð að alþjóðlegum lögum 29. Apríl 1997.  Sáttmálin er viðauki við hinn svo kallaða Genfar sáttmála sem hefur verið í gildi frá því 1925.

Þrátt fyrir þessi ákvæði er piparúði löglegt sjálfsvarnarvopn fyrir almenning í mörgum löndum heims og hluti að búnaði lögreglumanna.

Á Íslandi er piparúði notaður af  lögreglu en ólöglegt er fyrir almenning að bera eða beita slíku vopni.

Auðveldasta leiðin til að forðast áhrif piparúða er að setja upp vel þétt skíðagleraugu og vefja klút fyrir aðra hluta andlits síns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband