Færsluflokkur: Vísindi og fræði
16.12.2008 | 16:15
Gervi-framtíð
Árið 2005 var haldin mikil sögusýning í Ameríska náttúrugripasafninu þar sem afrek Charles Darwins voru tíunduð og gerð góð skil. Dagbækur og áhöld Darwins voru þarna til sýnis en merkilegastur sýningargripa þótti skjaldbaka ein, sem höfð var í búri við útganginn á sýningunni.
Skjaldbakan hafði verið flutt frá Galapagos eyjum sérstaklega fyrir sýninguna og það sem merkilegt þótti við hana var að hún var svo gömul að hún var nýfædd þegar að Darwin var á eyjunum við rannsóknir sínar.
Fjölmörg skólabörn sóttu sýninguna og af öllum sýningargripunum þótti þeim mest koma til skjaldbökunnar.
Í ljós kom að flest þeirra ályktuðu að skjaldbakan væri ekki ekta skjaldbaka heldur róbót. Skjaldbakan hreyfði sig lítið og þegar þeim var sagt að skjaldbakan væri raunverulega ekta eldgömul skjaldbaka, lýstu þau yfir furðu sinni. Hvers vegna að flytja gamla skjaldböku alla þessa leið til að loka hana inn í búri þar sem hún hreyfði sig lítið sem ekkert, þegar að líkan eða róbót hefði dugað jafn vel eða betur?
Aðalatriðið í sambandi við skjaldbökuna virtist gjörsamlega fara fram hjá þeim, eða að skjaldbakan hafði verið á lífi á sömu slóðum og Darwin gerði frumrannsóknir sínar sem leiddu til þess að ein mikilvægasta vísindalega kenning allra tíma, var sett fram.
Það sem hreifir við mér í þessu sambandi er að það eru greinilega að alast upp kynslóðir víða í heiminum þar sem ekki skiptir máli hvort hlutirnir eru ekta eða gervi, svo fremi sem þeir komi að sama gagni. Hvers virði er að eitthvað sé lifandi ef eitthvað dautt getur þjónað sama tilgangi?
Þetta leiðir hugann að því hvernig í auknum mæli farið er að nota róbóta til að vera gæludýr fyrir gamalmenni og börn. Frægastur þessara róbóta er eflaust Paro, einskonar stóreygður selur sem bregst við augnahreyfingum eiganda síns og hvernig hann strýkur á vélselnum feldinn. Augnaráð vélselsins getur verið angurvært, samúðarfullt eða fullt óvissu. Um hann getur farið hrollur eða velsældar hrísl. Náið samband við róbótana myndast auðveldlega og bæði börn og gamalmenni nota orðið ást yfir tilfinningar sínar gagnvart róbótunum.
Spurningin er hvað sú ást er sem byggist á einhliða tilfinningalífi og endurspeglun þess í vélrænum hlut.
Í kvikmyndinni Simone þar sem Al Pacino leikur kvikmyndastjóra sem er gefið forrit sem býr til svo eðlilega sýndarveruleika-persónur að ekki er hægt að sjá muninn á þeim og alvöru leikurum, er spunnið út frá sýndarveruleika-þemanu á all-sannfærandi hátt. Í myndinni tekst Al jafnvel að plata þúsundir sem koma til að sjá leikkonuna sem hann skapaði halda tónleika, þannig að allir halda að hún sé raunveruleg manneskja af holdi og blóði. Til þess beitir Al þrívíddatækni líkt og notuð er í Star Wars og fleiri kvikmyndummyndum við fjarskipti, sem reyndar er komin á það stig að það sem var vísindaskáldskapur í kvikmyndinni er orðið raunverulegt í dag.
Með þessari tækni munu ýmsir draumar rætast sem áður voru óhugsanlegir. Það væri t.d. hægt að efna til hljómleika með Bítlunum þar sem þeir spiluðu sem þrívíddarpersónur. Mundi það breyta nokkru fyrir alla þá sem áttu þann draum heitastan að sjá þá spila saman einu sinni enn, og svo aftur og aftur og ....?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2008 | 09:09
Hvar eru allar geimverurunar?
Mér þykir gaman að tala og hugsa um hugmyndir. Auðvitað er til fjöldi fólks sem getur sagt það sama, en samt verð ég alltaf uppveðraður þegar ég hitti persónur sem leggja sig meira eftir því að ræða eða jafnvel skrifa um hugmyndir frekar en atburði og fólk eins og þorri fólks gerir.
Ég er að sjálfsögðu meðvitaður um að ekki eru allar hugmyndir þess virði að hugarorku sé eytt á þær, einnig að margar hverjar eru ekki tímabærar þótt áhugaverðar séu. En það sem gerir hugmyndapælingarnar þess virði að leggjast í þær er að af og til rekstu á hugmyndir hvers tími er kominn. Og í orðum hins merka manns Stephen Bantu Biko frá Suðurafríku, sem lést í fangelsi á dögum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er "Ekkert eins máttugt og hugmynd hvers tími er kominn."
Nú er ég ekki að halda því fram að neðanritað falli sérstaklega undir þann flokk hugmynda, en eitt er víst að margir ræða þetta sín á milli.
Sú hugmynd sem mig langar að tjá mig um að þessu sinni er stundum kölluð Fermi mótsögnin. Hún er kennd við Ítalann Enrico Fermi sem hlaut Nóbelverðlaunin fyrir 1938 fyrri störf sín í þágu eðlisfræðinnar og lagði m.a. mikið af mörkum til þróunar skammtafræðinnar.
Fermi sat ásamt vinum sínum, sumarið 1940 og ræddi við þá líkurnar á lífi á öðrum hnöttum í alheiminum. Út frá þeim staðreyndum að í Vetrarbrautinni einni eru 100 milljónir fastastjarna og að líf þróaðist tiltölulega snemma og stöðuglega hér á jörðinni, þótti þeim líklegt að viti bornar verur ættu að hafa þróast fyrir löngu á öðrum hnöttum og gætu hæglega hafa lagt undir sig nærliggjandi sólkerfi á nokkrum milljónum ára. Þeir ályktuðu sem svo að viti bornar lífverur ættu að vera frekar algengar í stjörnuþokunni. Fermi hlustaði þolinmóður á þessar pælingar og spurði svo; hvar eru þá allir?
Í fimmtíu ár hafa mennirnir skimað himnanna með öflugum sjónaukum og hlustunargræjum og ekki fundið nein staðfest ummerki um ójarðneskt vitsmunalíf. Hvers vegna?
Í fljótu bragði mætti ætla að svörin við þessari spurningu geti verið mörg, en mér virðast aðeins þrír möguleikar koma til greina
Fyrsta tilgátan er; alheimurinn er svo gríðarlega stór að líkurnar á að við finnum merki um líf eru hverfandi jafnvel þótt við hlustum og skimum í mörg hundruð ár.
Þetta getur vissulega verið rétt, en þá er vitmunalíf ekki eins algengt og félagar Fermi vildu vera láta.
Önnur tilgáta er að vitmunaverurnar feli sig fyrir jarðarbúum, annað hvort af því að þeir vilja ekki hafa áhrif á "eðlilega framþróun" siðmenningar okkar eða að þeir álíta okkur svo vanþróaða og hættulega að það sé ekki þess virði að skipta sér af okkur.
Þesssi tilgáta gerir ráð fyrir slíkri ofurtækni að hún er næstum óhugsandi. Að fela útvarpsbylgjur og aðra geislun, ummerki sem gefa til kynna þróaða siðmenningu, er nánast útilokað.
Þriðja tilgátan og jafnframt sú kaldhæðnislegasta er sótt í ákveðna túlkun á okkar eigin siðmenningu og er reyndar sú hugmynd sem varð kveikjan af þessum pistli.
Skömmu fyrir aldamótin 1900 og allt fram eftir tuttugustu öldinni einkenndust uppfinningar mannkynsins af viðfangsefnum raunheima. Bílar, flugvélar, rafmagnsljós, ryksugur, ísskápar, brjóstahöld og rennilásar. En árið 2008 einkennast flestar uppfinningar af sýndarveruleika. Topp tíu eigendur nýrra einkaleyfa eru IBM, Matsuhita, Canon, Hewlett-Packard, Micron Tecnology, Samsung, Intel, Hitachi, Toshiba og Sony. - Ekki Boeing, Toyota eða Wonderbra.
Hér á jörðinni eiga viðskipti sér ekki lengur stað í raunveruleikanum heldur í sýndarveruleika eins og íslendingar hafa orðið illþyrmilega varir við á síðustu mánuðum.
Þótt vísindin bjóði fólki upp á fleiri möguleika en áður til að viðhalda líkamlegu þreki og fegurð er eftirsóknin í sýndarheima útlits, förðun, lýtaaðgerðir og fitusog, meiri en í þrekhjólin.
Og svo er miklu auðveldara að tína sér í "Friends" í sjónvarpinu en að afla sér raunverulegra vina.
Getur verið að flestar framandi siðmenningar hafi farið sömu leið? Getur verið að þær taki sýndarheima fram yfir raunveruleikann og séu uppteknir við að spila úber-tölvuleiki þar sem þeir leggja undir sig alheiminn eins og við gerum með Star Wars.
Endanleg útkoma slíkrar siðmenningar er auðvitað að það er setið á sama stað og samt verið að ferðast.
Þessi tilgáta felur í sér þá niðurstöðu að allir vitsmunir leiði þróunarfræðilega á endanum til þess að fullnægja sér á sem auðveldastan hátt og að hermiheimar og sýndarveruleiki séu mun auðveldari viðfangs en raunveruleikinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
5.12.2008 | 00:48
Smá aðventu-jólablogg
Eins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.
Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.
Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.
Ekki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.
Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.
Margir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.
Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.
Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.
Íslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.
Jólasveinninn
Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt. Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.
Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.
(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)
En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð.
Sem ungabarn er sagt að hann hafi neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.
Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.
Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a. viðstaddur í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.
Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.
Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.
Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa. Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja.
Nikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.
Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.
Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.
Englendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.
Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus, Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".
Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju, rauðar buxur og svört stígvéli, hefur þróast smá saman.
(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)
Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.
Jólatré
Um uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.
Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um miðjuna. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.
Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.
Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling oft svo langan tíma , að örðugt hefði reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.
Var þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli
Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.
Árið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.
Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.11.2008 | 22:08
ZANA; frumkvendið ógurlega frá Georgíu
Um miðja nítjándu öld fönguðu veiðimenn í Ochamchir héraði í Georgíu "villta konu". Eftir að hafa gengið kaupum og sölum í nokkurn tíma, endaði hún upp sem eign aðalsmanns sem hét Edgi Genaba en hann bjó í þorpi nokkru sem heitir Tkhina. Þessi villta kona hafði mörg einkenni frummanna.
Hún var afar þrekin yfir herðar, brjóst og lendar og með miklu sverari handleggi og fingur en venjulegir menn. Hörund hennar var dökkt og hún var alþakin dökkrauðu hári. Höfuðhár hennar var þykkur ókembanlegur rauður makki sem náði langt niður á breitt bakið. Andlitið var breiðleitt, ennið lágt og kinnbeinin afar há, nef hennar flatt og nasaholur útvíðar. Hún var stórmynnt og með hvítar stórar tennur. Kjálkarnir voru svo öflugir að hún lék sér að því að brjóta með þeim hörðustu gerð af hnetum.
Konan sem nefnd var Zana af þeim sem fönguðu hana, var svo hættuleg og ofbeldisfull að henni var komið fyrir í búri þar sem hún var látin hafast við í þrjú ár uns hún vandist umgengni við venjulegt fólk. Hún gróf sér holu í búrinu og hafðist við í henni og hagaði sér að öllu leiti til að byrja með eins og villidýr.
Matnum var kastað inn í búrið til hennar en henni þóttu þrúgur afar góðar og svo er að skilja að henni hafi einnig þótt vín gott því hún drakk af því ótæpilega þegar henni var gefið það og lá svo sofandi eftir í marga tíma. Eins og Colin Wilson bendir á í bók sinni The Encyclopedia of Unsolved Mysteries er Þetta er líklega ástæðan fyrir því hversu Zana eignaðist mörg ósamfeðra börn. Zana var að endingu "tamin" og gert að vina einföld störf eins og að mala bygg. Hún lærði aldrei stakt orð af mannamáli en tjáði sig með umli og öskrum þegar eitthvað virtist pirra hana. Hún virtist þola kuldann ótrúlega vel en gat aftur á móti ekki hafst við í upphituðum vistarverum.
Zana lifði meðal þorpsbúa í mörg ár án þess að á henni sæjust nokkur ellimörk. Hún hélt tönnum sínum og hár hennar gránaði ekki. Afl hennar virtist ofurmannlegt. Hún lék sér að því að lyfta með annarri hendi 80 kílóa þungum sekkjum og ganga með þá í sitt hvorri hendi upp allbratta hæð þar sem milla þorpsins stóð. Á hlaupum gat hún haldið í við hvaða hest sem var og hún synti oft í ískaldri ánni.
Á nóttum eigraði hún um nærliggjandi hæðir og bar þá lurk í hendi sem hún notaði til að berja frá sér hunda og önnur dýr sem urðu á vegi hennar. Hún át allt sem að kjafti kom og átti það til að sveigja niður á jörð greinar sem báru ávexti, á meðan hún úðaði þeim í sig. Hún virtist hugfangin af steinum og lék sér stundum að því að berja þeim saman svo þeir sprungu í tvennt. Henni var illa við allan klæðnað og fór yfirleitt um nakin. Flestir voru hræddir við Zönu en húsbónda sínum hlýddi hún ætíð.
Börn Zönu dóu flest þegar hún reyndi að baða þau upp úr helkaldri ánni sem rann fram hjá , þorpinu þar sem hún dvaldist. Eftir að fullreynt þótti að Zana væri óhæf til að ala önn fyrir börnum sínum, hófu þorpsbúar að taka frá henni börnin strax eftir fæðingu og ala þau upp sem sín eigin. Fjögur börn hennar, tveir drengir og tvær stúlkur, þroskuðust eðlilega og gátu ólíkt móður sinni tjáð sig eins vel og hvert annað fólk. Elsti sonur hennar hét Dzhanda og elsta stúlkan Kodzhanar. Yngri drengurinn var nefndur Khwit og yngri stúlkan Gamasa. Öll eiga þau afkomendur sem búa víðsvegar um Abkhazia hérað enn í dag.
Snemma kom upp sá kvittur að eigandi Zönu, óðalsbóndinn Edgi Genaba væri sjálfur faðir Gamasa og Khwit þrátt fyrir að vera gefið eftirnafnið Sabekia í manntölum frá þessum tíma.
Zana lést árið 1890 og var þá grafin í fjölskyldugrafreit bóndans þar sem yngstu börn hennar hvíla líka. Yngsti sonur hennar Khwit, dó ekki fyrr en árið 1954.
Saga Zönu var skrásett af Professor Porchnev sem tók viðtöl við fólk sem enn mundi eftir Zönu en það elsta sagðist vera meira en hundrað ára gamalt. Professor Porchnev tók einnig viðtöl við barnabörn Zönu sem áttu það sameiginlegt að vera öll mjög dökk á húð og hár. Eitt þeirra, karlmaður Shalikula að nafni, hafði svo sterklega kjálka að hann lyft með munninum fullorðnum manni sitjandi á stól.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að finna líkakleyfar Zönu en þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Dmitri Bayanov gerði þrjár tilraunir á árunum 1971-1978 og tókst aðeins að finna höfuðkúpu Khwit, yngsta sonar Zönu. Rannsóknir M.A. Kolodievea við Moscow State University Institute of Anthropology leiddu í ljós að höfuðkúpan er í mörgum atriðum afar frábrugðin öðrum Abkhazis kúpum sem í safninu eru að finna. Í vestur Kákassus fjöllum er talið að lifað hafi ætt frummanna sem nefnd er Abnauayu. Það er álit sumra að Zana hafi verið síðasti eftirlifandi einstaklingur þeirrar mannsættar.
12.11.2008 | 13:13
Nálaraugað
Engin veit nákvæmlega hvenær mannkynið byrjaði að nota fatnað. Það þykir samt nokkuð ljóst að fatnaður var notaður til að skýla líkamanum fyrir náttúruöflunum, hita og kulda, vatni og vindi, og til að verjast skordýrum. Án vafa var fyrsti fatnaðurinn gerður úr skinnum.
Rannsóknir á litningum lúsa sýna að þær hafi tekið sér bólfestu meðal manna og á mannslíkamanum fyrir meira en 130.000 árum.
Vegna hárleysis mannsins geta lýs ekki hafst við á líkamanum nema hann sé klæddur. Aðrar rannsóknir á erfðamengi lúsa benda til að lýs og men hafi átt samleið miklu fyrr eða fyrir allt að 530.000 árum.
Til að gera sér fatnað þurfti maðurinn að ráða yfir tækni sem gerði honum kleift að skera til efnið sem hann notaði og halda því saman utan á líkamanum, jafnvel þótt hann væri á hreyfingu. Þvengir og ólar hafa eflaust þjónað þessu hlutverki til að byrja með, en elstu saumnálar sem fundist hafa eru rétt um 40.000 ára en þær fundust í Kostenki í Rússlandi árið 1988. Þær voru gerðar úr beinum og tré.
Í norður Ameríku notuðu frumbyggjar aðrar aðferðir. Þeir lögðu í bleyti lauf Agave plöntunnar uns trefjar þess skildu sig frá kjötinu. Trefjarnar enduðu í oddhvössum þyrni og eftir að hvorutveggja hafði verið þurrkað var þar með komin bæði nál og tvinni.
Þeir eru ekki margir munirnir sem notaðir voru af forfeðrum okkar á þeim tímum er þeir reikuðu út úr Afríku, sem enn eru notaðir svo til á hverju heimili. Svo er þó um saumnálina.
Í dag eru saumnálar einkum gerðar úr stáli og húðaðar nikkel eða gulli til að vernda þær fyrir tæringu. Bestu nálarnar eru samt gerðar úr platínu.
Nálar koma oft fyrir í sögum og ævintýrum heimsins og nálaraugað orðið mörgum hugleikið og oft notað á táknrænan hátt í dæmisögum og trúarbrögðum.
Í Babýlónísku Talmútunum notar rabbíninn nálaraugað til að skýra eðli drauma og hvernig þeir eru sprottnir úr huga mannsins;" Þeir sýna manni ekki pálmatré úr gulli eða fíl ganga í gegn um nálarauga."
Í Midrash (Gyðinglegu afbrigði) af ljóðaljóðunum er að finna skírskotun til nálaraugans í tengslum við vilja og getu Guðs til að frelsa syndarann. "Hinn heilagi sagði, opna fyrir mér dyr á stærð við nálarauga og ég mun opna fyrir þér dyr sem tjöld og Kameldýr komast um."
Í Kristindómi er nálaraugakenning Krists afar merkileg. Ungur og auðugur maður kemur til hans og spyr hvað hann þurfi að gera til að komast í himnaríki. Kristur segir að hann eigi að halda boðorðin, selja eigur sínar og gefa fátækum og síðan fylgja sér.
Ungi maðurinn vildi þetta ekki og þá mælti Kristur við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." Matt. 19:23:24
Þeir sem þróuðu auðhyggjuna (Kapítalismann) út frá Kalvínískum hugmyndum um að auður og ríkidæmi væri merki um velþóknun Guðs, hafa greinilega ekki haft til hliðsjónar þessa litlu dæmisögu Krists.
Í tengslum við þessa sögu hefur verið bent á að grísku orðin fyrir kameldýr og kaðal eru afar áþekk og þarna gæti verið um mistök í afritun að ræða.
Aðrir hafa bent á að hlið eitt á útveggjum Jerúsalemborgar kallað "Nálaraugað" var svo þröngt að Kameldýr komst aðeins í gegn um það á hnjánum og án byrða. Engar sögulegar heimildir eru fyrir því að þetta hlið hafi nokkru sinni verið til en e.t.v. hefur sagan gefið auðmönnum smá von um að komast í himnaríki.
Í Kóraninum er nálaraugað notað til að sýna fram á ólíkindi þess að eitthvað geti gerst.
"Fyrir þá sem hafna táknum vorrum og nálgast þau með yfirlæti, mun engin glufa opnast á himnum, né munu þeir komast inn í garðinn fyrr en kameldýrið getur komist í gegn um nálaraugað. Slík eru laun syndaranna. Al-Araf (The Heights) 7:40.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.11.2008 | 19:37
Hristan, ekki hrærðan
Frægasti drykkur kvikmyndasögunnar er að öllum líkum Martini kokteill sá er James Bond er vanur að panta sér í ófáum kvikmyndum um leyniþjónustumanninn 007 sem hefur leyfi til að drepa annað fólk, úr leiðindum ef marka má gagnrýni á síðustu kvikmyndina um kappann; Quantum of Solace.
James vill drykkinn hristan frekar en hrærðan og það hefur valdið ófáum vínspekúlöntum talsverðum vangaveltum því drykkurinn er sagður miklu rammari hristur en hrærður. Að auki segja "sérfræðingarnir" að "drykkurinn breytist úr kristaltærum drykk í hrímað sull" við að hrista hann frekar en hræra. Hinsvegar hefur komið í ljós að hann er öllu "heilsusamlegri" hristur en hrærður, ef marka má niðurstöður Háskólans í Vestur Ontario.
Blandan kemur fyrst við sögu hjá Ian Flemings í bókinni Casino Rayale (1953) en þá pantar Bond sér drykk sem hann kallar Vesper eftir Vesper Lynd sem er fyrsta "Bondstúlkan" og sú sem hann gerir sitt besta til að hefna í nýútkominni framhaldsmynd af Casino Royale, Quantum of Solace.
Vesper er gerður úr fjórum tegundum af áfengum drykkjum, einu skoti af þurru Martini, þremur skotum af Gordons Gini, einu af Vodka gert úr korni frekar en kartöflum og hálfu af Kina Lillet. Drykkurinn er hristur uns hann er orðinn ískaldur og borinn fram í djúpu kampavínsglasi með stórri en þunnri seið af sítrónuberki.
" Ég fæ mér aldrei meira en einn drykk fyrir kvöldverð" skýrir Bond fyrir Felix Leiter strax eftir að hann hefur pantað sér drykkinn. " En ég vil að hafa hann stóran, sterkan, mjög kaldan og vel blandaðan. Ég hata smá skammta af hverju sem er, sérstaklega þegar þeir bragðast illa. Þessi drykkur er mín eigin uppfinning. Ég ætla að fá einkarétt á honum eftir að mér dettur í hug gott nafn á hann."
Þótt drykkurinn komi fyrir bæði í Diamonds are forever (1956) og Dr. No (1958) bókum Flemings, er hann ekki notaður af Bond sjalfum í kvikmynd fyrr en í Goldfinger (1964). (Reyndar bíður Dr. Júlíus No Bond slíkan drykk í kvikmyndinni Dr. No. 1962)
Eftir það er drykkurinn notaður í flestum Bond-myndunum, á mismunandi hátt.
Í "You Only Live Twice" er hann boðinn hrærður ekki hristur og í Casino Royale (2006) svarar Bond hryssingslega þegar hann er beðin um að velja; "Lít ég ekki út fyrir að vera andskotans sama."
Roger Moore er eini Bondinn sem aldrei pantaði sér drykkinn en var boðið upp á hann í The Spy Who Loved Me.
Vísindi og fræði | Breytt 4.11.2008 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.10.2008 | 02:07
Illar og alræmdar konur
Þegar upp skal telja helstu varmenni sögunnar vefst fáum tunga um tönn. Flestir sem komnir eru til vits og ára geta þulið upp í einni hendingu talverðan fjölda illmenna alveg aftan úr grárri forneskju. Einhvern veginn hefur nöfnum þeirra verið haldið til haga, þótt þau eflaust ætti betur skilið að vera tínd og tröllum gefin að eilífu. Öðru máli gegnir um kvennmenn. Þrátt fyrir að konan hafi lengst af í kristnum menningarsamfélögum verið sökuð um að hafa komið syndinni í heiminn, eru syndir karlmannsins svo yfirþyrmandi að þær skyggja greinilega á illsku konunnar.
Ég er ekki viss um að meðaljóninn geti nefnt án umhugsunar nema eina eða tvær illar konur sem eitthvað hvað að í mannkynssögunni. Á þessu vil ég ráða bót, ef ekki nema til þess að sanna að illar kvensur hafa verið og eru til og að oft leynist flagð undir fögru skinni.
Ég ætla ekki að eltast við þekkta raðmorðingja og sinnissjúkar konur á borð við Myru Hindley, Beverley Gail Allit, Belle Gunness, Mary Ann Cotton og Katherine Knight. Ég ætla líka að sleppa að þessu sinni Irmu Grese og Ilse Koch sem báðar voru afurð helstefnu Nasista.
Hér kemur hins vegar stuttur listi yfir konur sem á síðustu öld beittu illsku sinni á almenning í skjóli persónulegra valda eða pólitískra áhrifa maka sinna.
Frú Mao
Fjórða kona Maos formanns var kvikmyndaleikkonan Jiang Qing sem varð kunn undir nafninu Lan Ping. Það er ekki ofsögum sagt að hún hafi orðið hataðasta konan í Kína á árum kínversku menningarbyltingarinnar. Almannarómur sagði að hún hefði rutt pólitískum andstæðingum miskunnarlaust úr vegi og að auki látið aflífa leikkonur sem hún taldi að ógnaði leikferli sínum. Í réttarhöldunum sem haldin voru yfir henni og fjórmenningaklíkunni árið 1981, sem reyndi að ná völdum í Kína eftir dauða Maos 1976 sagði hún; "Ég var hinn óði hundur Maos. Hvern þann sem hann bað mig um að bíta, beit ég." Jiang Qing var fangelsuð og lést í fangelsi 1991.
Frú Marcos
Imelda Marcos er frægust fyrir að hafa sankað að sér yfir 3000 pörum af skóm á valdatíma bónda hennar sem forseta á Filippseyjum. Hún átti líka 6 milljónir punda virði af skartgripum og fjölmargar húseignir. Að auki voru hjónin sökuð um að hafa rænt 2,6 milljörðum punda úr fjárhirslum ríkisins. Marcos var rekin frá völdum 1986 og lést þremur árum síðar. Imelda býr nú í villu í Manilla og skreytir sig með skartgripum úr endurunnu plasti. Hún var dæmd til að greiða milljónir dollara í bætur fyrir mannréttindabrot sín á þegnum landsins á meðan maður hennar var við völd.
Frú Mugabe
Grace, heitir eiginkona Mugabe forseta Zimbabwe sem er eitt fátækasta land Afríku. Hún er þekkt fyrir að vera allt annað en sparneytin og eyddi nýlega £200 milljónum punda í eldsneyti fyrir einkaþotuna sína þegar hún skrapp í verslunarleiðangur til helstu borga Evrópu. Þegar hún var spurð að því hvernig hún réttlætti þessa eyðslu þegar að land hennar stæði á barmi hungursneyðar og óðaverðbólga geisaði í landinu, svaraði hún; "Ég er með mjög granna fætur og ég klæðist aðeins Ferragamo." Þegar hún hitti Mugabe fyrst var hún gift öðrum manni og Mugabe sjálfur, sem er 40 árum eldri en hún, var einnig kvæntur fyrstu konu sinni Sally. Enginn veit hvað varð af eiginmanni Grace eða barninu sem þau áttu saman.
Frú Ceauçescu
Elena, Lafði Macbeth af Rúmeníu, gegndi ýmsum tignarstöðum í komúnistaflokki Nicolai Ceauçescu. Hún stóð meðal annars fyrir banni á getnaðarvörnum sem varð til þess að fjöldi munaðarlausra barna í heiminum varð hvað mestur í Rúmeníu á þeim tíma. Hún neitaði einnig tilvist alnæmis sem leiddi til þess að sjúkdómurinn breiddist út í landinu óheftur og fórnalömb hans fengu enga hjúkrun. Þrátt fyrir að hafa enga menntun, var hún margheiðruð af menntstofnunum landsins og þáði af þeim ýmsar heiðursnafnbætur. Hún var tekin af lífi ásamt bónda sínum 25. Desember, 1989.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.10.2008 | 19:37
Músin sem öskraði
Atburðir síðustu vikna gefa ærna ástæðu til að líta til baka yfir samskipti Íslendinga og Breta í gegnum tíðina. Hvernig hefur Íslandi farnast í þeim samskiptum? Bretar telja núna yfir 60.000.000 og ráða yfir fimmta stærsta efnahagskerfi heimsins. Bretaveldi var voldugasta heimsveldi veraldar þegar að Ísland var eitt fámennasta og fátækasta ríki heimsins.
Tilraunir Gordons Browns til að gera úr Íslandi það sem Falklandseyjar gerðu fyrir Margréti Thatcher á sínum tíma þegar pólitískum ferli hennar virtist vera lokið, eru núna að koma aftan að honum og eftir að hafa beitt fyrirtæki landsins ákvæðum hryðjuverkalaga, hefur hann þurft að lýsa yfir stuðningi við Ísland sem einn af leiðtogum Esb.
Nokkri punktar úr sögunni.
Allt frá landnámi Íslands hafa samskipti þjóðanna verið hálfgerður leikur kattarins að músinni þar sem Bretar hafa gert sitt besta til að fanga þjóðina með gylliboðum um hagnað og verslun í bland við valdsbeitingu þegar annað hefur ekki dugað. Stundum hafa þeir komið færandi hendi en ætíð gætt þess að taka til baka í það minnsta ekki minna en þeir komu með.
Samskipti þjóðanna á 15. öld sem við köllum stundum Ensku öldina,bera þessu glöggt vitni. Bretar blönduðu sér þá óspart í innanríkismál Íslands og reyndu eftir föngum að ná hér varanlegum yfirráðum, enda girntust þeir auðug fiskimiðin, fálkann og brennisteininn. Þeir sáu samtímis ekkert athugavert við að ræna íslenskum börnum og hneppa þau í ánauð á Englandi eins og gerðist árið 1429 þegar fimm íslenskir drengir og fjórar stúlkur voru seldar í þrældóm til Bristol og áttu aldrei afturkvæmt til landsins. Sama ár voru 11 íslensk börn flutt nauðug til Lynn á Englandi sem þá var nokkuð stór markaðsbær. Svo vildi til að Jón Gerreksson, þá biskup í Skálholti, var staddur í Lynn og þegar hann komst á snoðir um þjóðerni barnanna lét hann senda þau aftur heim.
Ásókn Englendinga á íslandsmið á þessum tíma lauk í raun ekki fyrr en Ítalinn Giovanni Caboto, betur þekktur sem John Cabot, tókst, með viðkomu á Íslandi, að finna hin auðugu fiskimið Nýfundnalands árið 1497 og varð síðan fyrsti Evrópubúinn til að stíga fæti á meginland Ameríku eftir að Íslendingarnir höfðu hætt við að nema landið nokkrum öldum áður.
Davíð Oddson segir um framhaldið í ræðu einni er hann flutti við opnun nýs fiskimarkaðar í Hull 2001;
"Enska öldin var okkur Íslendingum um margt hagstæð því verslun með fisk og vistir við Englendinga þótti ábatasöm. Englendingar sátu reyndar ekki einir að fiskveiðunum við Ísland, þeir kepptu við hina þýsku Hansakaupmenn og Dani og fullyrða má að þessi samkeppni hafi komið Íslendingum mjög til góða. Þá jafnt sem nú gilti að heiðarleg samkeppni bætir allan hag. En með tilkomu einokunarverslunar Dana á Íslandi við upphaf sautjándu aldar voru Íslendingar sviptir ávinningnum af þessum viðskiptum, þótt vitað sé að margur maðurinn hafi stolist til að eiga viðskipti við Englendingana í trássi við einokunina og þannig létt sér lífsbaráttuna.
En þrátt fyrir verslunarbann héldu veiðar Englendinga við Íslandsstrendur áfram og fiskur veiddur þar var áfram á boðstólunum hér í Englandi. Það var því eðlilegt þegar við Íslendingar hófum sjálfir fiskveiðar í stórum stíl að Bretland yrði okkar helsta markaðssvæði, bæði fyrir frystan fisk og ferskan. Á stríðsárunum nam útflutningur á ferskum fiski til Bretlands allt að 140 þúsund tonnum á ári og höfðu báðar þjóðirnar mikinn hag af þeim viðskipum. Úr þessum viðskiptum dró þegar þjóðirnar áttu í deilum um fiskveiðiréttindi við Ísland og tók nærri fyrir þau bæði á sjötta og áttunda áratugnum."
Íslendingar og Bretar áttu umtalsverð samskipti á öldunum fram undir fyrra stríð. Íslendingar stunduðu verslun við breska sjómenn í blóra við einokunarlögin og seinna var á tímabili t.d. talvert selt af fé á fæti til Bretlands. Þegar að farið er yfir söguna kemur í ljós að Íslendingar eiga ýmislegt smálegt Bretum að þakka.
Íslenska hundinum bjargað.
Þegar að íslenski hundurinn var að verða útdauður á landinu var kyninu bjargað frá aldauða af breskum náunga sem hét Mark Watson. Hann ferðaðist mikið um landið um 1930 og sá þá allnokkuð af íslenskum hundum út um sveitir. Í kringum 1950 voru íslenskir hundar svo að segja horfnir nema á afskekktum stöðum, s.s. í Breiðdal á Austurlandi þar sem 90% hundanna sýndu enn öll einkenni kynsins. Ljóst er að á þessum tíma var kynið í mikilli útrýmingarhættu. Watson ákvað að flytja nokkra hunda og tíkur til Kaliforníu og rækta kynið svo það yrði ekki aldauða. Yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, aðstoðaði hann við útflutninginn. Fljótlega eftir að hundarnir komu til Kaliforníu kom upp hundapest og drápust sumir hundanna. Þeir sem lifðu eignuðust afkvæmi og virtust ekki hafa blandast öðrum kynjum. Watson fluttist seinna til Englands og tók hundana með sér og lét halda ræktuninni áfram.
Ísland hersetið af Bretum
Föstudaginn 10. maí 1940 vöknuðu Íslendingar við vondan draum, það var verið að hertaka Ísland. Herskip sigldu að höfninni, flugvélar sveimuðu yfir landinu og 2000 breskir landgönguliðar stigu á land.
Árið 1940 voru Íslendingar um 120 þúsund talsins, þar af bjuggu um 40 þúsund manns í Reykjavík. Talið er að um 25 þúsund breskir hermenn hafi verið í landinu þegar mest var árið 1941 og hafði stærsti hluti liðsins bækistöðvar í Reykjavík og nágrenni. Með komu hersins tók bæjarlífið stakkaskiptum. Bretar stóðu fyrir ýmsum framkvæmdum; þeir lögðu meðal annars flugvöll í Vatnsmýrinni og braggahverfi risu af grunni. Veitti Bretavinnan" fjölmörgum Íslendingum atvinnu, en mikið atvinnuleysi hafði ríkt í landinu. Yfirleitt var sambúð hermanna og landsmanna friðsamleg, þótt af og til kæmi til árekstra. Einna helst þótti mönnum skemmtanalíf bæjarins breytast til verri vegar og átti lögreglan í Reykjavík stundum fullt í fangi með að halda uppi lögum og reglu.
Tjallinn fer
Hinn 7. júlí 1941 tóku Bandaríkin að sér hervernd Íslands samkvæmt samningi Bandaríkjamanna og Breta við ríkistjórn landsins. Í kjölfar komu bandarískra herdeilda tóku Bretar að flytja landher á brott, þar sem hermanna var þörf í baráttunni við Öxulveldin annars staðar. Bandaríkin voru hins vegar enn ekki orðin aðilar að styrjöldinni, en tóku upp frá þessu vaxandi þátt í átökunum á Atlantshafi við hlið Breta.
Þorskastríðin
Íslendingar háðu þrjú "þorskastríð" við Breta á síðustu öld og unnu þau öll. Þegar að mest greindi á milli þjóðanna varð deilan svo alvarleg að íslensk stjórnvöld ákváðu að slíta stjórnmálasambandi við Breta og kölluðu sendiherra sinn í London heim og vísuðu breska sendiherranum í Reykjavík úr landi. Eins og áður hótuðu Íslendingar einnig því að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sögðu menn það til lítils að vera í varnarbandalagi sem kæmi ekki til aðstoðar þegar landið væri undir erlendri árás.
Um þorskastríðin og útfærslu landhelginnar er frábæra samantekt að finna á síðu Landhelgisgæslunnar.
Ég læt þessa stuttu samantekt nægja að sinni þótt stiklað sé á stóru en vona að hún færi okkur heim sanninn um að það dugar ekki alltaf að vera stóri og sterki aðilinn þegar að samskiptum þjóða kemur, til að fá vilja sínum framgengt. Ég var því hissa á viðbrögðum forsætisráðherra Breta á dögunum, því hann hlýtur að hafa verið ljóst eins og öðrum sem eru komnir til vits og ára, að Bretland hefur jafnan farið halloka þegar kemur að ágreiningi við Ísland.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.10.2008 | 00:36
Síðasti eftirlifandi farþeginn.
Miss Elizabeth Gladys Dean, sem er betur þekkt undir nafninu Millvina, var fædd 2. Febrúar árið 1912 í Lundúnaborg. Níu vikum síðar hélt Georgette Eva Light móðir hennar, með Millvinu í fanginu um borð í glæsilegasta farþegaskip heimsins, ásamt eiginmanni sínum Bertram Frank Dean og rúmalega tveggja ára syni þeirra sem einnig hét Bertram. Ætlun þeirra var að sigla til Bandaríkjanna og gerst innflytjendur til borgarinnar Wichita í Knasas þar sem faðir Millvinu ætlaði að setja um tóbaksverslun.
Dean hjónin áttu reyndar að sigla með allt öðru skipi en verkfall kolanámumanna varð til þess að þau voru flutt yfir á þetta undraverða fley sem sagt var að ekki gæti sokkið og var að fara í sína fyrstu ferð yfir Atlantshafið.
Þau komu um borð í RMS Titanic í Southhampton og var vísað til þriðja rýmisins eins og farmiðar þeirra sögðu til um. Aðfaranótt 14. Apríl fann faðir hennar að skipið kipptist við. Hann fór út úr klefanum til að athuga hvað hefði gerst og snéri fljótlega til baka. Hann sagði konu sinni að klæðast og koma með börnin upp á þilfar. Þar var Georgette ásamt Millvinu sett í björgunarbát nr. 13. Einhvern veginn hafði Georgette orðið viðskila við son sinn Bertram og hrópaði til eiginmanns síns um að finna hann og setja hann líka í bátinn. Enginn veit nákvæmlega hvernig Bertram komst í bátinn en hann ásamt móður sinni og Millvinu var bjargað um borð í Adriatic sem flutti þau til baka til Englands. Til föðurins spurðist aldrei neitt framar eftir þessa afdrifaríku nótt.
Millvina komst þegar í uppáhald hjá öðrum farþegum Adriatic enda undruðust margir að þessi litla stúlka hefði lifað af vosbúðina í björgunarbátnum. Dagblaðið Daily Morror segir svo frá að; hún hafi strax orðið allra uppáhald og að myndast hefði rígur á milli kvenna um hver fengi að halda á henni svo að skipherrann varð að setja þá reglu að að farþegar á fyrsta og öðru rými gætu haldið á henni til skiptis og ekki lengur en 10 mínútur hver. Fjölmargar ljósmyndir voru teknar af henni og bróður hennar og sumar birtust í dagblöðum eftir komuna til Englands.
Millvina og bróðir hennar voru alin upp og menntuð á kostnað lífeyrissjóða sem stofnaðir voru fyrir eftirlifendur þessa frægasta sjóslyss sögunnar. Millvinu var alls ókunnugt um að hún hefði verið farþegi um borð í Titanic þangað til hún var átta ára og móðir hennar ákvað að gifta sig aftur.
Sjálf gifti Millvina sig aldrei. Hún vann fyrir ríkið í heimsstyrjöldinni síðari við kortauppdrátt og síðar hjá verkfræðistofu í Southhampton. Það var ekki fyrr en hún var komin á elliárin að hún varð þekkt fyrir að hafa siglt með Titanic. Hún kom fram í sjónvarps og útvarpsþáttum og var árið 1997 boðið að sigla yfir Atlantshafið á ný með QE2 og ljúka för sinni til Wichita, Kansas.
Elizabeth Gladys Dean er síðasti eftirlifandi farþeginn með Titanic. Hún býr enn í Southampton og er nú 96 ára. Um þessar mundir setti hún síðustu gripina, ferðatösku og aðra smámuni sem foreldrar hennar höfðu meðferðis í hinni sögulegu ferð á upp boð til að afla peninga fyrir góðgerðarstarsemi.
Þegar hún heyrði nýlega að verið væri að selja muni sem náðst hafa úr skipsflakinu, sendi hún frá sér stuttorða yfirlýsingu: "Faðir minn er þarna enn. Það er ekki rétt að taka hluti úr skipi sem svo margir fórust með. Ég reikna ekki með að þetta fólk hafi hugsað út í það - Það hugsar bara um peningana."
Smá viðauki
Elen Mary Walker heitir kona sem fædd var 13. Janúar 1913. Móðir hennar var ein þeirra sem bjargaðist ásamt móður Millvinu og það má geta sér þess til að hún hafi verið ein þeirra sem hélt á Millvinu úti á köldu Atlantshafinu. Elen Mary Walker var þá í móðurkviði og segist því vera yngsti eftirlifandinn. Reyndar segir tímasetningin okkur að hún hafi líklega verið getinn um borð í Titanic. Ef við tökum tillit til kröfu Elen, eru eftirlifendur slyssins enn tveir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.10.2008 | 15:32
Blogg heilkennið
Ég veit ekki hvað margir blogga reglulega á Íslandi en það kæmi mér ekki á óvart að Íslendingar ættu þar heimsmet miðað við fólksfjölda að sjálfsögðu eins og í mörgu öðru. Sjálfur hef ég bloggað í ellefu mánuði og ég verð að viðurkenna að sumt af því sem sagt er hér að neðan og á að lýsa einkennum þeirra sem haldnir eru krónískri bloggáráttu, passar við mig.
Hvað af þessu mundi eiga við þig og hvaða önnur einkenni sem þér dettur í hug, ættu alveg heima í þessari upptalningu?
Þú ert illa haldin/n bloggáráttu ef þú;
1. Ef þankagangur þinn er stöðugt í "skrifgírnum" og þú veltir vandlega fyrir þér niðurröðun orðanna sem hæfa hverri færslu.
2. Þú sérð eitthvað áhugavert eða upplifir eitthvað mannlegt og þú byrjar strax að setja það niður fyrir þér í huganum hvernig þú ætlar að koma því frá þér og getur varla beðið með að komast að tölvunni til að blogga um það.
3. Þú eyðir heilmiklum tíma í að stara á bloggsíðuna þína og dást að hversu frábær hún er.
4. Þú ert stöðugt að hugsa um hvað þú getur bloggað um næst.
5. Frítíma þínum eyðir þú í að lesa bloggfærslur annarra.
6. Þegar þú ert tengd/ur athugar þú tölfræðina á blogginu þínu af og til rétt eins og þú búist við stórkostlegum breytingum á henni á fimm mínútna fresti.
7. Þú átt erfitt með að ákveða hvaða bloggform þú velur á síðuna þína til að nota að staðaldri.
8. Þú ert stöðugt að breyta því sem kemur fram á spássíu bloggsins og breyta stillingum þess.
9. Þú sérð mikið eftir því að hafa ekki myndavél við höndina, þegar þú sérð eitthvað myndrænt í umhverfi þínu og þú hugsar; Þetta hefði verið gaman að skrifa um.
10. Það fyrsta sem þú gerir þegar þú kemst í námunda við tölvu er að athuga bloggsíðuna þína.
11. Að athuga bloggsíðuna þína er hluti af dagsverkum þínum.
12. Þú vilt heldur sitja við tölvuna en að vaska upp.
13. Þér finnst mjög gaman að googla, kópera og linka efni sem þú finnur á netinu fyrir bloggið þitt.
14. Þú gerir þitt besta til að skilja þótt ekki sé nema smávegis í html og koma þér inn í lingóið sem notað er á netinu.
15. Þú uppástendur að bloggið sé aðeins áhugamál.
16. Þegar að þú hefur ekki verið við tölvuna í smá tíma, vaða orð og hugtök um í höfðinu á þér og þú getur ekki raðað þeim saman í heilsteyptar setningar fyrir en þú kemst aftur að tölvunni.
17. Uppáhaldsstaðurinn þinn í heiminum er fyrir framan tölvuna þína. Það er nánast öruggt að það er hægt að finna þig þar.
18. Þú ert farin/n að hata spamaranna sem skilja eftir sig athugasemdir sem eyðileggja útlitið á blogginu þínu og þú íhugar að senda þeim persónulega harðort bréf á orðsendingakerfinu.
19. Þú missir stundum svefn vegna bloggsins.
20. Fólkið sem þú býrð með talar venjulega við hnakkann á þér eða ennið af því það er það eina sem sést af höfðinu á þér.
21. Það er heppið ef að því tekst að draga upp úr þér eitthvað annað en uml þegar þú ert að skrifa
Gleymdi ég einhverju?