21.11.2008 | 22:08
ZANA; frumkvendið ógurlega frá Georgíu
Um miðja nítjándu öld fönguðu veiðimenn í Ochamchir héraði í Georgíu "villta konu". Eftir að hafa gengið kaupum og sölum í nokkurn tíma, endaði hún upp sem eign aðalsmanns sem hét Edgi Genaba en hann bjó í þorpi nokkru sem heitir Tkhina. Þessi villta kona hafði mörg einkenni frummanna.
Hún var afar þrekin yfir herðar, brjóst og lendar og með miklu sverari handleggi og fingur en venjulegir menn. Hörund hennar var dökkt og hún var alþakin dökkrauðu hári. Höfuðhár hennar var þykkur ókembanlegur rauður makki sem náði langt niður á breitt bakið. Andlitið var breiðleitt, ennið lágt og kinnbeinin afar há, nef hennar flatt og nasaholur útvíðar. Hún var stórmynnt og með hvítar stórar tennur. Kjálkarnir voru svo öflugir að hún lék sér að því að brjóta með þeim hörðustu gerð af hnetum.
Konan sem nefnd var Zana af þeim sem fönguðu hana, var svo hættuleg og ofbeldisfull að henni var komið fyrir í búri þar sem hún var látin hafast við í þrjú ár uns hún vandist umgengni við venjulegt fólk. Hún gróf sér holu í búrinu og hafðist við í henni og hagaði sér að öllu leiti til að byrja með eins og villidýr.
Matnum var kastað inn í búrið til hennar en henni þóttu þrúgur afar góðar og svo er að skilja að henni hafi einnig þótt vín gott því hún drakk af því ótæpilega þegar henni var gefið það og lá svo sofandi eftir í marga tíma. Eins og Colin Wilson bendir á í bók sinni The Encyclopedia of Unsolved Mysteries er Þetta er líklega ástæðan fyrir því hversu Zana eignaðist mörg ósamfeðra börn. Zana var að endingu "tamin" og gert að vina einföld störf eins og að mala bygg. Hún lærði aldrei stakt orð af mannamáli en tjáði sig með umli og öskrum þegar eitthvað virtist pirra hana. Hún virtist þola kuldann ótrúlega vel en gat aftur á móti ekki hafst við í upphituðum vistarverum.
Zana lifði meðal þorpsbúa í mörg ár án þess að á henni sæjust nokkur ellimörk. Hún hélt tönnum sínum og hár hennar gránaði ekki. Afl hennar virtist ofurmannlegt. Hún lék sér að því að lyfta með annarri hendi 80 kílóa þungum sekkjum og ganga með þá í sitt hvorri hendi upp allbratta hæð þar sem milla þorpsins stóð. Á hlaupum gat hún haldið í við hvaða hest sem var og hún synti oft í ískaldri ánni.
Á nóttum eigraði hún um nærliggjandi hæðir og bar þá lurk í hendi sem hún notaði til að berja frá sér hunda og önnur dýr sem urðu á vegi hennar. Hún át allt sem að kjafti kom og átti það til að sveigja niður á jörð greinar sem báru ávexti, á meðan hún úðaði þeim í sig. Hún virtist hugfangin af steinum og lék sér stundum að því að berja þeim saman svo þeir sprungu í tvennt. Henni var illa við allan klæðnað og fór yfirleitt um nakin. Flestir voru hræddir við Zönu en húsbónda sínum hlýddi hún ætíð.
Börn Zönu dóu flest þegar hún reyndi að baða þau upp úr helkaldri ánni sem rann fram hjá , þorpinu þar sem hún dvaldist. Eftir að fullreynt þótti að Zana væri óhæf til að ala önn fyrir börnum sínum, hófu þorpsbúar að taka frá henni börnin strax eftir fæðingu og ala þau upp sem sín eigin. Fjögur börn hennar, tveir drengir og tvær stúlkur, þroskuðust eðlilega og gátu ólíkt móður sinni tjáð sig eins vel og hvert annað fólk. Elsti sonur hennar hét Dzhanda og elsta stúlkan Kodzhanar. Yngri drengurinn var nefndur Khwit og yngri stúlkan Gamasa. Öll eiga þau afkomendur sem búa víðsvegar um Abkhazia hérað enn í dag.
Snemma kom upp sá kvittur að eigandi Zönu, óðalsbóndinn Edgi Genaba væri sjálfur faðir Gamasa og Khwit þrátt fyrir að vera gefið eftirnafnið Sabekia í manntölum frá þessum tíma.
Zana lést árið 1890 og var þá grafin í fjölskyldugrafreit bóndans þar sem yngstu börn hennar hvíla líka. Yngsti sonur hennar Khwit, dó ekki fyrr en árið 1954.
Saga Zönu var skrásett af Professor Porchnev sem tók viðtöl við fólk sem enn mundi eftir Zönu en það elsta sagðist vera meira en hundrað ára gamalt. Professor Porchnev tók einnig viðtöl við barnabörn Zönu sem áttu það sameiginlegt að vera öll mjög dökk á húð og hár. Eitt þeirra, karlmaður Shalikula að nafni, hafði svo sterklega kjálka að hann lyft með munninum fullorðnum manni sitjandi á stól.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að finna líkakleyfar Zönu en þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Dmitri Bayanov gerði þrjár tilraunir á árunum 1971-1978 og tókst aðeins að finna höfuðkúpu Khwit, yngsta sonar Zönu. Rannsóknir M.A. Kolodievea við Moscow State University Institute of Anthropology leiddu í ljós að höfuðkúpan er í mörgum atriðum afar frábrugðin öðrum Abkhazis kúpum sem í safninu eru að finna. Í vestur Kákassus fjöllum er talið að lifað hafi ætt frummanna sem nefnd er Abnauayu. Það er álit sumra að Zana hafi verið síðasti eftirlifandi einstaklingur þeirrar mannsættar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Þetta finnst mér mjög merkilegt. eftir lýsingunni á dömunni að ræða þá var hún skyld mér :).. eða myndinni sem ég hef í staðinn fyrir mitt ljóta trýni.
Óskar Þorkelsson, 21.11.2008 kl. 22:32
Mér datt það reyndar í hug að Óskar væri dulnefni og þú hétir raunverulega Shalikula yngri :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.11.2008 kl. 22:47
Virkilega áhugavert. Ætli það séu enn til svona frummenn sem á eftir að finna einhverstaðar? Það eru enn til frumstæðir ættbálkar sem á eftir að rannsaka þannig að það gætu enn verið til frummenn einhverstaðar fjarri mannabyggðum.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 21.11.2008 kl. 22:56
Frábær grein Svanur, ég fór að hlæja strax og ég las Fyrirsögnina: "Zana; frumkvendið ógurlega frá Georgíu". Það kveikti strax á einhverri peru, sem logaði á í gegnum greinina. Virkilega vel skrifuð grein og hitti beint í mark !
Máni Ragnar Svansson, 22.11.2008 kl. 01:01
Veit nokkur af hvaða kynþætti Davíð Oddsson er ?
kristján (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 13:04
Það er bara til eitt mannkyn (líka á 19. öld), engir frummenn, ekkert annars konar mannkyn sem síðasti einstaklingurinn gæti hafa verið af. Þar fyrir getur þetta hafa verið óvenjuleg manneskja og kannski þroskaheft eða eitthvað. Ekki var nú farið vel með hana, geymd í búri eins og dýr.
Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2008 kl. 17:11
Frábær pistill
Kíki herna inn nokru sinnum í viku og finn oftast eitthvað fróðlegt
Haltu áfram að skrifa
Loki (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 17:20
Héðan fer maður alltaf vitrari....
Gulli litli, 22.11.2008 kl. 19:33
Vá, merkilegt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.11.2008 kl. 23:57
Jahá.
Rut Sumarliðadóttir, 26.11.2008 kl. 13:16
Það er næsta víst að engir forfeður okkar á borð við Zönu lifa í dag. Mér finnst að það sem máli skiptir í þessu er hvernig við mundum koma fram við þá ef þeir gerðu það.
Ég þakka ykkur athugasemdirnar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.11.2008 kl. 01:34
áhugavert
Hólmdís Hjartardóttir, 27.11.2008 kl. 09:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.