Færsluflokkur: Tónlist
24.10.2009 | 13:54
Baka fólkið og tónlistin þeirra
Á regnskógasvæðinu í suðaustur Kamerún býr ættbálkur sem heitir Baka. Baka fólkið sem ekki telur fleiri en 28.000 manns, er enn á safnara og veiðimannastiginu, talar sitt eigið tungumál (Baka) , hefur sérstakan átrúnað og með honum hefur þróast frá fráær tónlist sem ég var svo heppinn að fá að hlusta á í gærkvöldi þegar ég fór á tónleika með hljómsveitinni Baka Beyond.
Meðal Baka fólksins gegnir tónlistin þýðingarmiklu hlutverki. Allt frá bernsku þróar hver einstaklingur með sér hrynjandi og þegar komið er saman til að syngja má sjá ungabörn klappa saman höndum í takt við tónlistina. Tónlist er notuð í trúarlegum athöfnum, einnig til að skila þekkingu ættbálksins, frásögnum hans og sögu til næstu kynslóðar og síðast en ekki síst til skemmtunar. Á meðal þeirra er ekki hægt að skynja að einhver einn flytji tónlistina frekar en annar, allir taka þátt. Þegar sögur eru sungnar leiðir einn sönginn en allir taka undir í viðkvæðunum sem eru ávalt rödduð og spila að auki á ásláttarhljóðfærin.
Til að komast af í regnskóginum er nauðsynlegt að kunna að hlusta. Þar er sjaldgæft að hægt sé að sjá lengra en 50 metra fram fyrir sig og þess vegna reiðir Baka fólkið sig frekar á heyrn en sjón þegar það ferðast umskóginn. Hver á hefur sín sérstöku hljóð, hvert svæði í skóginum sína sérstöku ábúendur sem gefa frá sérstök hljóð , jafnvel einstaka tré er þekkt meðal fólksins og er lýst í samræmi við hljóðin sem koma frá því.
Baka fólkið hefur því afskaplega næma heyrn. Við sem búum í borgum og bæjum reynum að sigta út og heyra ekki hljóð sem eru okkur til þæginda, Baka fólkið reynir að heyra og taka eftir öllum umhverfishljóðum enda eru þau öll mikilvæg afkomu þess. Þegar kemur að tónlist er það undarvert hversu auðveldlega og fljótt það lærir nýjar laglínur.
Baka-menn trúa því að þeir séu börn regnskógarins og að skógurinn láti sér annt um þá og sjái þeim fyrir öllu. Ef eitthvað slæmt gerist á meðal þeirra, segja þeir að frumskógurinn hafi sofnað. Til þess að vekja hann aftur nota þeir tónlist og jafnframt tak þeir gleði sína á ný. Þegar að vel gengur nota þeir einnig tónlist til að deila gleði sinni með skóginum.
Baka fólk reiðir sig á það sem finna má til átu í skóginum og það sem veiða í honum og ám hans. Þeir notað eitraðar örvar og spjót með góðum árangri á ýmsa bráð en fisk veiðir það með að blanda efni í vatnið sem eyðir úr því súrefninu þannig að fiskarnir fljóta dauðir upp á yfirborðið. Ávextir, hnetur og hunang eru einnig hluti af fæðu þeirra.
Baka fólkið flytur sig reglulega um set og forðast að misbjóða náttúrunni með ofveiði eða á annan hátt. Ákvörðunin um að flytja og aðrar mikilvægar ákvarðanir sem varða allan hópinn, tekur fólkið sameiginlega.
Hljómsveitinni Baka Beyond sem ég fór að hlusta á í gærkveldi er skipuð átta meðlimum, þremur söngvurum, gítarleikara, trymbli, fiðluleikara og ásláttarhljóðfæraleikara.
Sveitin var stofnuð 1992 eftir að frum-meðlimir hennar höfðu heimsótt Baka fólkið og hrifist mjög a tónlist þeirra og menningu. Hljómsveitin flytur sambræðing af Baka tónlist og keltneskri þjóðlagatónlist sem einhvern veginn krefst þess að líkaminn hreyfi sig eftir henni á meðan hún hljómar.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2009 | 14:57
Hvar er Umbarumbamba?
1966 kom út hljómplatan Umbarumbamba með Hljómum frá Keflavík. Platan kom einnig út í Bretlandi og nefndi hljómsveitin sig þar Thor´s Hammer. Sú plata mun nú vera verðmætasta safnplata sem íslenskir hljómlistarmenn hafa staðið að. Jafnframt létu Hljómar gera kvikmynd sem einnig bar nafnið Umbarumbamba með undirtitlinum; Sveitaball. Myndin fjallaði um sveitaball, slagsmál og fyllerí, og verður að teljast afskaplega frumstæð í alla staði.
Hún var gerð af Reyni Oddsyni, þeim sama og seinna (1977) gerði kvikmyndina Morðsaga. Reynir stýrði verkinu og bar hitann og þungann af vinnslunni. Hljómar greiddu stærsta hluta kostnaðarins, rúmlega hálfa milljón og fóru upptökurnar fram um sumarið og haustið ´65. Upphaflega átti myndin að vera hálftíma löng en hún endaði sem 13 mínútna stuttmynd.
Umbarumbamba var aðeins sýnd í tvo daga sem aukamynd í Austurbæjarbíói. Eftir það var hún send út á land og var sýnd í kvikmynda- og samkomuhúsum sem aðalmynd á eftir klukkutíma langri aukamynd sem ég man ekki lengur hver var. Samt þótti enginn maður með mönnum sem ekki hafði séð hana. Kvikmyndir bresku Bítlanna A Hard Day's Night (1964) og Help (1965) sátu fastar í unglingum landsins, enda sáu þær margir ótal sinnum, og nú var komið íslensku Bítlunum.
Ég sá myndina þegar hún var fyrst sýnd í Félagsbíói í Keflavík og verð að viðurkenna að mér þótti lítið til hennar koma. Fyrir það fyrsta var hún allt of stutt. Hljómgæðin voru döpur og samtölin stirðbusaleg. Þá saknaði maður Engilberts á trommunum en í hans stað var kominn Pétur Östlund sem lék með Hljómum í stuttan tíma um það leiti sem myndin var tekin upp. En auðvitað lét ég á engu bera. Það hefði verið algjör goðgá í Keflavík á þeim tíma að gagnrýna eitthvað sem kom frá Hljómum.
Í dag er myndin eflaust ómetaneg heimild sem marga mun fýsa að sjá aftur. Þar sem knöpp peningaráð réðu því að aðeins var gerð eitt sýningareintak af myndinni, fór þetta eina eintak mjög illa, rispaðist og skemmdist þegar það var sýnt vítt og breitt um landið.
Eftir að sýningum lauk á myndinni hvarf hún sporlaust og sú flökkusaga gekk um að hún hefði hreinlega týnst eða eyðilagst. Löngu síðar kom í ljós að leikstjórinn Reynir Oddson hafði tekið hana til varðveislu.
Eflaust vakir enn fyrir Reyni að koma kvikmyndinni í sýningarhæft ástand og vona ég að svo verði sem fyrst.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2009 | 23:01
Að verða gamall er ekki svo slæmt miðað við hinn möguleikann
Árið 1893 gáfu systurnar Patty og Mildred J. Hill saman út bók sem hafði að geyma barna-sönglög og barnagælur. Báðar störfuðu þær á barnaheimili í Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum, en meðal lagnanna sem í bókinni birtust var lag sem í dag er, samkvæmt heimsmetabók Guinness, þekktasta lagið í heiminum í dag. Textinn við lagið í umræddri bók er svona;
- Good morning to you,
- Good morning to you,
- Good morning, dear children,
- Good morning to all.
Víst er að lagið var ekki eftir systurnar, því á 19 öld voru margir textar sungnir við þessa sömu laglínu. Á meðal þeirra voru; "Happy Greetings to All", "Good Night to You All" og "A Happy New Year to All".
Fljótlega eftir að bókin kom út, byrjuðu krakkar samankomnir í afmælisboðum að syngja annan texta við auðlært lagið og með þeim texta varð lagið heimsþekkt; "Happy Birthday to you." Síðan þá hafa ýmsir textar verið samdir við lagið og eru flestir þeirra "ortir" á staðnum. Ein grínútgáfa hefur orðið vinsæl, sérstaklega í USA. Hún er svona;
Happy Birthday to You
You live in a zoo
You look like a monkey
And you smell like one too.
Íslensku útgáfuna þekkja allir ;"Hann/hún á afmæli í dag," enda ómar hún í svo til öllum afmælisboðum jafnt aldinna sem ungra á landinu. (Að vísu halda múslímar og vottar Jehóva ekki upp á persónulega afmælisdaga af trúarlegum ástæðum.)
Stundum riðlast þó samhljómurinn þegar kemur að því að nefna nafn afmælsisbarnsins, sérstakelga ef nafnið er lengra en fjögur atkvæði.
Þrátt fyrir hina miklu úrbreiðslu lagsins, heyrist það sjaldan sungið í kvikmyndum eða á hljómplötum. En margir kannast við eina frægastu útgáfu lagsins sem var sungin af Marilyn Monroe, persónulega fyrir forseta Bandaríkjanna; John F. Kennedy í Maí mánuði árið 1962.
Ætla mætti að lagið væri löngu orðið almenningseign og öllum frjálst að nota að vild, svo er ekki, þ.e. ekki með "Happy Birthday" textanum. Fyrir utan að fyrstu nótunni í laginu er skipt til að koma að tveimur sérhljóðum í orðinu "happy" eru lögin "Happy birthday" og "Good morning to you" nákvæmlega eins.
Höfundarréttur á laginu "Good Morning to All" er löngu útrunninn og þess vegna almenningseign, en réttinn á "Happy birthday" á milljónamæringurinn Edgar Miles Bronfman, Jr.sem keypti hann af bandaríska útgáfufyrirtækinu The Time-Warner Corporation árið 2004. Time-Warner hafði keypti árið 1998 af Birch Tree Group Limited sem átt hafði réttinn frá 1935.
Eitt sinn kom upp sú kjaftasaga að Paul Mcartney hefði keypt höfundarréttinn að laginu en það mun vera rangt.
Samkvæmt höfundarréttarlögum á því að greiða stefgjöld af laginu í hvert sinn sem það er sungið á opinberum vettvangi og sú er ástæðan að kvikmyndagerðarmenn t.d. skipta því oft út fyrir lög eins og "For He's a Jolly Good Fellow". Talið er að Edgar hafi meira en tvær milljónir bandaríkjadala í stefgjöld af laginu árlega.
Skiljanlega reynir Edgar hvað hann getur til að fylgja eftir höfundaréttar-eign sinni og hefur höfðað nokkur mál fyrir rétti þar að lútandi. Mörgum hefur þótt það langsótt að gamalt þjóðlag sem texta sem saminn var af fimm og sex ára börnum fyrir margt löngu, skuli þéna peninga fyrir moldríkan mann.
Lagið mun verða almenningseign árið 2030 þegar höfundarréttur á því rennur út.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2009 | 03:43
Heimsfræga konan á Heiðarveginum
Fljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið. Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.
Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.
Einhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan.
Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.
Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;
Það var árið 1957. Ég var 14 ára, bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan.
Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum, fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;
Þegar rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.
Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.
Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.
María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.
En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í Brúðkaupi Figarós eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.
Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.
Síðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.
Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni Töfraflautunni eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.
María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: Mesta söngkona Íslands fram að þessu.
María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.10.2009 | 11:24
Amy Winehouse á réttri leið
Það hefur farið frekar lítið fyrir söngkonunni ólánsömu Amy Winehouse í fjölmiðlum upp á síðkastið. ÞAÐ veit þó á gott því hún var svo til daglega í pressunni á síðasta ári fyrir að dópa sig og drekka svo mikið að margir hugðu henni ekki langlífi.
Undanfarna mánuði hefur Amy mest dvalið á St Lucia þar sem hún hefur reynt að halda sig fjarri vímunni og unnið jafnframt að plötu til að fylgja eftir hinni frábæru Back to Black.
Aðeins einu sinni á þessu ári hefur dívan komið opinberlega fram til að syngja og það gerði hún þegar hún kom í heimsókn til Bretlands í ágúst mánuði og tróð óvænt upp með ska bandinu The Specials á V tónlistarhátíðinni í Essex.
Amy stofnaði nýlega útgáfufyrirtæki sem heitir Liones og fyrsta platan sem það kemur til með að gefa út verður einnig fyrsta plata hinnar 13 ára gömlu Dionne Bromfield en Amy er guðmóðir hennar.
Nú hefru verið tilkynnt að Amy og Dionne munu koma fram um næstu helgi í hinum vinsæla þætti Strightly Come Dancing sem sýndur er á BBC 1.
Amy ætlar að syngja bakrödd hjá Dionne sem mun flytja lagið Mama Said sem upphaflega var sungið og gert vinsælt af The Shirelles árið 1961. . Meðal laga á plötunni sem Amy hefur skipt sér mikið af, eru; Ain't No Mountain High Enough, Tell Him og My Boy Lollipop.
Amy segist sannfærð um að Dionne sé hæfileikaríkari en hún sjálf og eigi glæstan feril framundan.
" Í fyrsta sinn sem ég heyrði Dionne syngja, trúði ég var eigin eyrum - Því lík rödd sem þessi unga stúlka er með"- "Hún er miklu betri en ég var á hennar aldri."
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2009 | 01:16
Míkael erkiengill og Michael Jackson
Rétt eins og Elvis var á sínum tíma tekin í dýrlinga tölu af áköfum og einlægum aðdáendum hans, stefnir allt í að helgifárið í kring um Michael Jackson verði svipað eða jafnvel gangi miklu lengra. Nýjar sögur um Jackson halda áfram að flæða um netið og aðra fjölmiðla á hverjum degi. Hann var popp-goð í lifanda lífi og er nú á leiðinni að verða popp-Guð.
David LaChapelle er orðinn vel kunnur fyrir ljósmyndir sínar af frægu fólki. Hann stillir þeim gjarnan upp þannig að útkoman minnir á helgimyndir af Kristi eða einhverjum dýrlingum. Myndir Davids hafa birst í Vanity Fair, Ítalska Vouge og Rolling Stone. Hann hafði lengi vonast eftir að fá tækifæri til að ljósmynda Michael Jackson en af því varð ekki.
Eftir lát Jacksons ákvað David að ljósmynda "tvífara" Jacsons sem hann fann á Havaii. Tvífarinn í gervi Jacksons á myndunum, minnir á erkiengilinn Míkael, sem samkvæmt kristnum hefðum er herforingi Guðs. Hann fór fyrir herjum Guðs þegar að Lúsífer var kastað úr himnaríki og er gjarnan sýndur á helgimyndum þar sem hann er í þann mund að veita Satan náðarhöggið með sverði sínu eða hefur þegar drepið hann.
Á ljósmynd Davids (sjá hér að ofan) hefur Jackson kastað fá sér sverðinu en stendur með annan fótinn ofaná brjósti Satans og setur saman hendur sínar í bæn. Þannig er gefið til kynna að Michael Jackson sé svo góðhjartaður að hann geti ekki einu sinni unnið skrattanum mein en biður fyrir honum þess í stað.
David LaChapelle segist vera sannfærður um að Michael hafi verið saklaus af þeim ásökunum að vera haldin barnagirnd.
"Ég held að hann hafi ekki geta meitt neinn. Mér finnast örlög hans Biblíuleg. Textar hans eru svo fallegir og ljúfir. Saga hans er sú stórbrotnasta sem um getur á okkar tímum. Hann fer frá hæstu hæðum niður í djúpin. Hann er nútíma píslarvottur."
Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.8.2009 | 02:13
Michael Jackson bloggar hér!
Ég veit ekki af hverju Michael Jackson kaus að senda mér þetta skeyti og biðja mig um að þýða það og birta það hér á blogginu.
Kannski er það vegna þess að hann veit að ég er svo frjálslyndur. Það er næstum sama hvaða vitleysa er í gangi, ég lep það upp og birti eitthvað um það hér á blogginu, svo fremi sem mér finnst fyrirsögnin geta verið flott.
Eða kannski er það vegna þess að ég var aldrei yfir mig hrifinn af Jackó þótt mér fyndist hann góður sjómaður og nú er hann að gera lokatilraunina til að vinna mig á sitt band.
Alla vega ætla ég að verða við bón hans í þetta sinn og birta skeytið frá honum sem er það fyrsta sem hann hefur sent frá sér, eftir því sem ég best veit, eftir að hann lést.
Kæru vinir.
Allar fréttir um að ég sé enn í tölu lifenda eru stórlega ýktar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í fréttum að ég sofnaði og hef ekki vaknað aftur.
Ástæðan fyrir að ég sendi þetta skeyti er að mig langar að koma sérstökum skilaboðum til ykkar.
En fyrst langar til að koma því á framfæri við alla íslenska aðdáendur mína og bara alla Íslendinga að gefast ekki upp þótt móti blási. Ég vil að þeir viti að þeir eiga alla mína samúð á þessum síðustu og erfiðustu tímum. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hvað það er þegar manni finnst útlitið vera heldur dökkt. Ég hef fundið fyrir því á eigin skinni get ég sagt ykkur. Og hvernig það er að vera smáður af fólki sem ekkert þekkir mann. Ég var líka, eins og þið, neyddur til að borga háar upphæðir fyrir hluti sem ég átti enga sök á. Og ég veit svo sannarlega hvað það er að vera blankur en þykjast eiga peninga, eftir að hafa verið rændur af einhverjum fjármálaspekingum. Ég tala því af reynslu.
Þá eru það skilaboðin sem mér fannst að ég yrði að senda ykkur eftir að ég heyrði hversu hræðilegt útlitið hjá ykkur er eftir bankahrunið og allt það.
Þannig er að ég fann snemma fyrir því að mér líkaði ekki við andlitið á mér. Ég gekkst því undir all-margar lýtaaðgerðir. En það var alveg sama hversu mikið mér var breytt, ég var aldrei alveg ánægður með útlitið. Á endanum endaði ég uppi með ónýtt nef framan í mér og mér var sagt af lýtalækninum mínum að ef hann hreyfði meira við því mundi það detta alveg af.
Nú veit ég að útlitið hjá mörgum ykkar á Íslandi er svart, eins og það var hjá mér og meira að segja svo slæmt hjá sumum ykkar að þið eruð að hugsa um að flýja land.
Það finnst mér óheillaráð. Útlitið er nefnilega ekki allt. Ég reyndi að flýja mitt útlit og endaði uppi næstum neflaus.
Þið verðið að sætta ykkur við það sem þið eruð og vera ánægð með það sem Guð hefur gefið ykkur.
Vona svo að þið séuð dugleg við að hlusta á lögin mín og núna er mér alveg sama þótt þið halið þeim niður ólöglega.
Bestu kveðjur
Michael Jackson
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.8.2009 | 00:49
3000 ára gömul mynd af Michael Jackson
Fyrir rúmum 3000 árum gerði einhver listrænn Egypti þessa andlitsmynd af landa sínum sem líkleg var kvenkyns. Þegar að munir frá Egyptalandi streymdu út úr landinu á erlend söfn fyrir rúmum hundrað árum, lenti þessi andlitsmyndmynd á Field safninu í Chicago og hefur víst verið þar til sýnis síðustu áratugina.
Þetta mundi varla teljast í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá undarlegu tilviljun að myndin er ákaflega lík Micahel heitnum Jackson þegar hann var ungur og hafði ekki látið rústa á sér andlitinu með fjölda lýtaaðgerða. Það er að segja, fyrir utan nefið sem er mjög svipað og það varð á Jackson eftir aðgerðirnar allar, ef það var þá ekki gervinef eins og sumir halda fram.
Nú hafa stjórnendur safnsins runnið að peningaþefinn af post mortum Jackson æðinu og komið á kreik getgátum um að Jackson kunni að hafa haft þessa brjóstmynd að fyrirmynd þegar hann lét breyta andliti sínu.
Ég hef forðast eins og heitan eldinn að blogga um Michael eftir að hann lést en stenst ekki lengur mátið. Þessi saga er einum og góð.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.8.2009 | 00:17
Hafdís Huld og Bubbi
Hún er eins og ferskur blær og hann eins og kletturinn í hafinu. Ég var að koma af tónleikum með Hafdísi Huld og Bubba. Þau sungu og spiluðu fyrir troðfullum sal á Rósenberg. Bubbi hitaði upp fyrir Hafdísi og tók m.a. nokkur lög sem ég hef ekki heyrt áður. Eitt um 14 ára stúlku sem var nauðgað af fjórum piltum og annað um homma sem verður fyrir ofsóknum á vestfjörðum.
Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er við Hafdísi Huld sem fær mann til að hlusta á hana af svo mikilli einbeitingu að mann verkjar í kjálkanna. Hún er stórskemmtileg á sviði og textarnir hennar (á ensku) eru bráðsmellnir og frumlegir. Alistair, kærastinn hennar, spilar undir öll lögin og það er ljóst að á milli þeirra ríkir sérstakur andi sem skilar sér á sviðinu.
Bubbi og Hafdís tóku saman lagið í lokin. Munurinn á þessum tveimur frábæru tónlistarmönnum getur ekki hafa farið fram hjá neinum. - Bubbi svo gamall í hettunni og svo góður að jafnvel mistökin sem hann gerir eru flott. Hafdís, upprennandi stjarna, óðum að hasla sér völl á erlendri grundu (eitthvað sem Bubba tókst aldrei að fullu) og ein af björtustu vonum Íslands. Textar hennar og lög eru létt og full af græskulausu gamni en lög og textar Bubba eins og hann sé sjálfskipuð samviska þjóðarinnar.
Fárbær skemmtun í alla staði. Takk fyrir það Hafdís Huld, Bubbi og Alistair.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2009 | 19:20
Hafdís Huld fór á kostum
Segja má með sanni að Hafdís Huld hafi farið á kostum á tónleikunum hennar hér á The Porter í Bath s.l fimmtudagskvöld. Húsakynnin voru þétt setin í þessum litla en fræga kjallara sem sem er búin að festa sig í sessi sem viðkomustaður tónlistarfólks á ferð um Bretland að kynna nýjar plötur.
Hafdís söng þarna lög af 'Dirty Paper Cup' sem kom út 2006 og einnig af nýrri plötu sem hún er með í smíðum. Undir söng hennar lék gítarleikari úr hljómsveitinni sem hún öllu jafna hefur á bak við sig, en það var fyrst og fremst söngur Hafdísar sem þarna var á boðstólum.
Krystal tær röddin og íslenski framburðurinn heillaði alla þá sem ekki voru þegar aðdáendur hennar.
Sviðsframkoma hennar er líka aðdáunarverð. Hafdís er svo eðlileg og óþvinguð að strax eftir fyrstu kynningu virtust sem tónleikagestir ættu í henni hvert bein og hún í þeim.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)