Færsluflokkur: Tónlist
29.1.2011 | 20:29
Fyrsti rafmagnsgítarinn og drottningin af Hawaii
Í hálfa öld og gott betur hafa Íslendingar sungið "Sestu hérna hjá mér ástin mín" um leið og þeir hjúfra sig upp að einhverjum kærum við varðeldinn. Ljóðið er eftir Jón Jónsson (1914-1945) frá Ljárskógum en lagið er eftir síðasta einvald Hawaii eyja, Lili'uokalani drottningu sem samdi einnig upphaflega texta þess. Lagið heitir á frummálinu Aloha 'Oe.
Lydia Kamakaʻeha Kaola Maliʻi Liliʻuokalani eins og hún hét fullu nafni, (1838 1917) naut í æsku leiðsagnar Henry nokkurs Berger, sem var sendur til Hawaii af Vilhjálmi I Prússakonungi og keisara af Þýskalandi að beiðni Kamehameha V konungs Hawaii eyja. (Bróðir Liliʻuokalani)
Berger sem hafði verið konunglegur hljómsveitarstjóri í Þýskalandi, heillaðist fljótt eftir komuna til Hawaii af þjóðlögum eyjaskeggja. Hann hóf að skrásetja þau og færa í búning sem gerði þau aðgengileg vestrænum tónlistarmönnum.
Lili'uokalani drottning samdi fjölda laga en þeirra þekktust eru Aloha 'Oe og Drottningarbænin svokallaða, sem hún samdi í stofufangelsi eftir að henni hafði verið steypt af stóli af bandarískum og evrópskum kaupsýslumönnum í lok 19. aldar. Lög hennar voru samt ekki gefin út í heild sinni fyrr en árið 1999.
Snemma á síðustu öld barst Hawaii tónlistin til Bandaríkjanna sem þá höfðu gert eyjarnar átta að hjálendum sínum. Tónlistin varð strax vinsæl, þótti bæði seyðandi og fögur, rétt eins og húla-dans innfæddu kvennanna sem dilluðu mjöðmunum undir strápilsunum við taktþýða tónana.
Vinsældir tónlistarinnar tengdust einnig þeirri miklu umfjöllun sem Lili'uokalani drottning fékk um þetta leiti í Bandaríkjunum en a.m.k. tvær skýrslur sem unnar voru af sérstökum nefndum fyrir þingið og forseta landsins komust að því að hún hafði verið rænd krúnunni og ólöglega hefði verið staðið að stjórnarmyndun landsins eftir að hún fór frá.
Hljóðfærin sem Hawaii tónlistin var leikin á voru í fyrsta lagi ukulele, smágítarinn sem Hawaiibúar höfðu þróað út frá fjögra strengja hljóðfærinu braguinha,sem borist hafði til eyjanna með sjómönnum frá Portúgal. Annað aðalhljóðfærið var gítarinn sem sagan segir að fyrst hafi komið til Hawaii með mexíkönskum kúasmölum. Með því að setja harða strengi í gítarinn og nota síðan málmstykki til að þrýsta á strengina fékkst hinn sérstaki Hawaii ómur sem hljómaði líkt og mansröddin. - Seinna voru gerðir þar sérstakir stálgítarar til að hljómurinn yrði sterkari.
Upp úr 1925 var Hawaii tónlistin orðin svo vinsæl í Bandaríkjunum að margar hljómsveitir sem spiluðu ameríska sveitasöngva, tóku tónlistarstefnuna upp á sína arma og spiluðu Hawaii tónlist á milli sveitalaganna. Auk þess blönduðu þær Hawaii hljóminum inn í sveitatónlistina. Þetta gekk alveg upp því hljóðfæraskipanin var eins í hljómsveitum sem spiluðu Hawaii tónlist og sveitatónlist. Brátt fóru einnig stærri hljómsveitir að flytja Hawaii tónlist, þótt sá hængur væri á að erfitt var að heyra í stálgítarnum innan um marga lúðra, trommur og píanó.
Lausnin á lélegum hljómburði stálgítarsins fannst árið 1931 þegar að tónlistar og uppfinningamaðurinn George Beauchamp, smíðaði fyrsta rafmagnsgítarinn. Eftir nokkra tilraunastarfsemi fékk hann Rickenbacker Electro til að framleiða þessa uppfinningu sína sem nefnd var Steikarpannan, vegna þess að gítarnum svipaði nokkuð til þess eldhúsaáhalds. Gítarinn var gerður úr áli og er einnig þekktur undir framleiðslunúmerinu A-22.
Margir eru þeirrar skoðunar að rokktónlistin hefði aldrei orðið til ef rafmagnsgítarinn hefði ekki komið til sögunnar.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2011 | 08:41
Sprekakelling ertu!
Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem lagið Money for Nothing veldur fjaðrafoki. Texti lagsins hefur verið umdeildur frá því að lagið kom út og hefur reyndar verið breytt í sumum útgáfum þess til að koma á móts við hörðustu gagnrýnendur hans. Að þessu sinni er það orðið faggott sem fólk kveinkar sér undan í Halifax en orðið er vissulega notað, í Norður Ameríku sérstaklega, sem klúrt uppnefni á hommum.
Það er oft fróðlegt og upplýsandi að skilja hvernig ákveðin orð virka meira særandi fyrir fólk en önnur. Við fyrstu sýn virðist það t.d. langsótt að kalla homma sprek eða kindling, en það er einmitt merking enska orðsins faggott.
Talið er að orðið hafi fengið niðrandi merkingu, þegar það er notað um homma, vegna þess að verið sé í raun að kalla þá gamlar konur sem selji eldivið.
Uppruni orðsins gerir niðrandi merkingu þess fyrir homma ósköp skiljanlega.
Í eina tíð unnu gamlar konur og ekkjur í Englandi fyrir sér með því að safna sprekum og selja þau sem kindlinga. Þessar konur voru kallaðar sprekasafnarar (faggot-gatherer) eða líka sprekakonur, (faggott women) Fagott eða styttingin fag, sem oftast er oftar er notuð, merkir því eiginlega "sprekakelling" eða "kindlingakelling".
25 ára gamalt lag bannað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2011 | 01:10
Trúðar, oss er ekki skemmt!
Hvar á að byrja?
Fyrir það fyrsta þá hef ég aldrei séð hvað er fyndið við trúða. Að vera ekki fyndinn hlýtur að vera til vansa fyrir þann sem hefur þann eina tilgang að vera fyndinn. -
Trúðar og trúðslæti eru alls ekki hlægileg. Hver hlær t.d. að þessu fúla trixi þegar vatni er sprautað úr gerviblóminu? Kannski Hitler.
Húmor sem byggir á því að detta á rassinn í hvert sinn sem bassatromman drynur, er svo afkáralegur að hann jaðrar við hrylling.
Reyndar eru trúðar hryllilegir. Ef einhverjir rithöfundar settust niður og reyndu að skapa persónu sem væri holdtekja alls þess sem við álítum hryllilegt, væri útkoman trúður.
Eldrautt rafmagnað hár, dauðahvítt andlit með skelfilegu glotti og voodoo augnfarða, útbelgdur skrokkur í viðundarlegum búningi, bigfoot fætur og hlátur hinna fordæmdu. Allt þetta hefur trúðurinn. - Þess vegna finnst mér það ætíð hljóma eins og hótun þegar ég heyri lagið Send in the Clowns.
Jerry Lewis gerði eitt sinn kvikmynd um Trúð. Hún hét The day the Clown Cried og fjallaði um trúð sem lenti í útrýmingarbúðum Nasista. Myndin var svo hryllileg að hún var aldrei að fullu kláruð, hvað þá tekin til sýninga. Það segir heilmikið um trúða.
Stundum er fólki sem hefur aðra atvinnu, líkt við trúða. Þú ert bara trúður, segja pólitíkusar oft um andstæðinga sína með fyrirlitningu og neikvæðu formerkin loða við röddina í mönnum. Samt borga þessir sömu menn stundum heilmikla peninga til að fá trúð í heimksókn til að taka þátt í merkisdögum í lífi barna sinna. - Þannig er pólitíkin, full af mótsögnum og þannig er að vera trúður, þeir eru ein mótsögn.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2011 | 04:05
Á rúmstokknum hjá John Lennon og Yoko Ono
Árið 1969, þá 16 ára, bjó Gail Renard ásamt foreldrum sínum í borginni Montreal í Kanada. Sem unglingur sem hafði mikinn áhuga á tónlist, fylgdist hún grannt með fréttum af því þegar John Lennon og Yoko Ono voru gefin saman í hjónaband og hvernig þau notuðu áhuga fjölmiðla á þeim atburði til að vekja athygli á baráttu sinni fyrir friði í heiminum.
Gail horfði á poppstjörnuhjúin í sjónvarpinu gefa viðtöl úr hjónasæng sinni í forsetsvítunni á Amsterdam Hilton Hótelinu í Hollandi þar sem þau eyddu hveitibrauðsdögunum frá 25. til 31. mars þetta sama ár. Það var þá sem einn blaðamaðurinn spurði John hver væri tilgangurinn með þessu "rúm-boði" og John svaraði að bragði; "Give peace a chance".
Hugmyndir þeirra Lennon og Ono um að endurtaka álíka "rúm-boð" í New York urðu að engu þegar John var neitað um landvistarleyfi í Bandaríkjunum vegna þess að hann hafði verið handtekinn fyrir kannabis reykingar í landinu ári áður.
Lennon og Yoko héldu því til Bahama eyja þann 24. Maí og tóku sér herbergi á Sheraton Oceanus Hótelinu þar sem þau hugðust dvelja í rúminu í eina viku og bjóða fjölmiðlum og vinum að heimsækja sig.
Þegar að Gail heyrði að vegna hitabylgjunar sem gekk yfir eyjarnar, hefðu þau skötuhjú yfirgefið Bahama eftir aðeins einnar nætur dvöl og væru á leið til heimaborgar hennar Monteral til að halda rúm-boðinu þar áfram, ákvað hún og vinkona hennar að freista þess að berja goðin augum. Ásamt vinkonu sinni héllt Gail til Queen Elizabeth Hótelsins og beið þar færis. Hótelið var þegar umkringt fólki sem þarna var í sömu erindum og þær en engum var hleypt inn. Þær fréttu að John og Yoko væru þegar búin að koma sér fyrir í herbergi númer 1472.
Gail var í þann mund að gefa upp vonina um að sjá nokkuð af hjónakornunum þegar vinkona hennar stakk upp á því að þær skyldu reyna að klifra upp brunastigann að baki hótelsins og laumast þannig inn á Hótelið í gegnum glugga. þetta gerðu þær og komust inn á hæðina fyrir ofan herbergi 1472. Þar biðu þær eftir að öryggisverðirnir í stigaganginum fyrir neðan skiptu um vakt og notuðu þá tækifærið til að komast inn á hæðina þar sem John og Yoko héldu til.
Þær börðu að dyrum og heyrðu Yoko svara; "kom inn." Þær gengu inn í herbergið og fundu þar fyrir Yoko, dóttur hennar Kyoko, þá fimm ára og John Lennon. Þau virtust öll þreytt og John kvartaði yfir að vera svangur og geta ekki fengið neina herbergisþjónustu. Gail fann súkkulaðistykki í handtösku sinni sem hún bauð John. John virtist undarandi en ísinn var brotinn og þau byrjuðu að spjalla saman.
Í stað þess að vísa þeim á braut, bað John Gail um að taka þátt í útvarpsviðtali sem taka átti við hann þetta sama kvöld. Gail sagðist verða að hringja í móður sína sem hún og gerði. Samtalið endaði með því að John varð að taka símann og lofa móðir Gail að hann skyldi passa hana. Hún fékk að lokum leyfið og tók þátt í viðtalinu. Eftir það varð hún fastagestur þeirra hjóna þá átta daga sem "rúm-boðið" stóð og fór aðeins heim á kvöldin til að sofa.
Á daginn var svítan pökkuð af fjölmiðlafólki sem tók linnulaus viðtöl við Lennon og Gail sat og horfði á. Þegar að Dereck Taylor, blaðafulltrúi Bítlanna tókst loks undir kvöld hvern dag, að losna við blaðamennina, komu vinirnir í heimsókn. Meðal þeirra voru Timothy Leary, Petula Clark og Allen Ginsberg, allt heimsfrægt listafólk.
Þegar líða tók á kvöldið var John vanur að segja; Jæja Gail, þú litur út fyrir að vera orðin þreytt. Við verðum að vakna snemma í fyrramálið og þú ættir að drífa þig í rúmið". Móðir hennar hafði varað John við að halda eiturlyfjum frá Gail og við það stóð hann. Einu sinni reyndi einhver blaðasnápur að gera hosur sínar grænar fyrir henni en John stöðvaði það þegar í stað.
Stundum tók Gail Kyoko út í garðinn fyrir framan hótelið til að leika við hana. Gail minnist þess hversu henni fannst það hreint ævintýralegt að sjá þetta fólk drekka vín með hádegismatnum. Og ekki minkaði hrifning hennar þegar að Tommy Smothers, þá afar vinsæl sjónvarpsstjarna í Bandaríkjunum, birtist til að taka þátt í geiminu. Hún hóf að taka með sér Brownie box myndavélina sína og tók meira 150 myndir af því sem fram fór.
Einn daginn tilkynnti Lennon að vildi taka upp lag þarna í svefnherberginu. Hann sagðist vilja einhverja til að spila undir á tambórínur. Gail hafði samband við Hjálpræðisherinn en þeir virtust ekki hafa áhuga. Þá hafði hún samband við Hare Krishna hreyfinguna og eftir stutta stund voru nokkrir gulklæddir munkar með tambórínur mættir á staðinn. Þetta var síðdegis 31. maí. John tók sér penna í hönd , settist á gólfið og skrifaði niður texta lagsins. Titill þess var; Give Peace a Chance. Hann lauk textanum á örskammri stundu og lét Gail síðan skrifa hann upp á stærra spjald svo allir gætu sungið hann. Að því loknu gaf John Gail blaðið sem hann hafði skrifað á upprunalega textann með þeim orðum að kannski mundi hún einhvern tímann fá eitthvað fyrir hann.
Sjálf upptaka lagsins fór fram 1. júní. og textinn hljómaði svona;
Ev'rybody's talkin' 'bout
Bagism, Shagism, Dragism, Madism, Ragism, Tagism
This-ism, that-ism, ism ism ism
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(C'mon)
Ev'rybody's talkin' 'bout
Minister, Sinister, Banisters and Canisters,
Bishops, Fishops, Rabbis, and Pop Eyes, Bye bye, Bye byes
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(Let me tell you now)
Ev'rybody's talkin' 'bout
Revolution, Evolution, Masturbation, Flagellation, Regulation,
Integrations, mediations, United Nations, congratulations
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
Ev'rybody's talkin' 'bout
John and Yoko, Timmy Leary, Rosemary,
Tommy Smothers, Bobby Dylan, Tommy Cooper,
Derek Taylor, Norman Mailer, Alan Ginsberg, Hare Krishna
Hare Hare Krishna
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(Repeat 'til the tape runs out)
Löngu seinna i viðtali við tímaritið Rolling Stonesagðist John hafa viljað semja söng sem gæti komið í staðinn fyrir "We Shall Overcome". sem var eini söngurinn sem mótmælendur stríðsins í Viet Nam sungu á mótmælafundum. Eftir að Give Peace a Cance var gefið út, leið ekki á löngu þar til það var orðið aðal baráttu söngur friðarsinna vítt og breytt um heiminn.
Munkarnir mættu aftur með tambórínurnar, John og Tommy Smothers átu á rúmstokknum og léku á kassagítara og restin af hópnum sat með krosslagðar fætur á gólfinu, söng og barði taktinn á það sem hendi var næst. John þótti fyrsta takan hljóma of veikt og lét munkana gefa meira í sláttinn í seinni upptökunni en endaði samt með að endurmixa lagið hljóðveri því hann kom sjálfur dálítið seint inn í sönginn í þriðja versinu.
Útkoman var fyrst a lagið sem Lennon lét frá sér fara undir nafninu The Plastic Ono Band. Paul McCarney er reyndar skráður meðhöfundur að laginu en John sagði oft að það hefði verið Yoko sem samdi lagið með honum en Paul hefði hvergi komið nálægt því. Einnig er haft eftir John Lennon að þegar hann heyrði 500.000 mótmælendur syngja lagið fyrir utan hvíta húsið í Nóvember 1969 hafi það verið "ein stærsta stund lífs hans".
Þegar að leiðir skildu með þeim Gail og John, lét hann hana hafa nafnspjald með símanúmeri sem hann sagði henni að hringja í ef hún þyrfti einhvern tíman að ná af honum tali.
Gail varð seinna þekkt sjónvarpskona og framleiðandi og fékk m.a Bafta verðlaun 2001 fyrir verk sín. Um þessi kynni sín af John og Yoko hefur látið hafa þetta eftir sér; "Ég fór bara upp í rúm til þeirra. Mér leið vel með þeim. Getið þið ímyndað ykkur hvað mundi gerast í dag ef poppstjarna hagaði sér svona gagnvart 16 ára stúlku. En þetta snérist allt saman um ást og frið og fólkið trúði því. Það var John og öllu þessu að þakka að ég varð hugrakkari. Þessi reynsla fékk mig til að trúa því að ég gæti breytt heiminum, í það minnsta litlum hluta hans, og maður ætti ávalt að reyna það".
Gail varðveitti textablaðið sem John gaf henni til ársins 2008 eða þar til hún ákvað að selja það á uppboði og láta þannig orð John Lennons rætast. Fyrir snepilinn fékk hún 421,250 pund.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2011 | 22:54
Saltkjöt og baunir, túkall.
Fréttastofa leitaði í gær að uppruna lagstúfsins "saltkjöt og baunir túkall." Þjóðháttafræðingar og starfsmenn þjóðminjasafnsins hvorki skýringar á aldri þessa orðasambands né á því hvernig túkallinn komst inn í borðhaldið. Ómar Ragnarsson elsta hljóðritaða dæmið vera frá miðri öld. Karen Kjartansdóttir reyndi að leysa gátuna.
Fjöldi góðra ábendinga bárust fréttastofu í gær eftir að óskað var eftir skýringum á uppruna lagstúfsins góða sem menn söngla oft á sprengidegi.
Góður áhorfandi benti á að áður fyrr var oft soðbrauð haft með saltkjöti og baunum. Brauð þetta var soðið í kjötinu í hátt í klukkutíma og var það í laginu eins og kleinuhringur, rétt eins og danski túkallinn gamli sem lagið vísar í. Lagið vísi því í máltíð samansetta af salkjöti, baunasúpu og soðbrauði.
Annar áhorfandi hringdi og benti á að Baldur Georgs sjónhverfingamaður og búktalari sem þekktur var fyrir að skemmta með brúðunni Konna á árunum 1946 til 1964, hafi líklega fyrstur manna endað skemmtiatriði með þessum orðum.
Við bárum þessar skýringar undir Ómar Ragnarsson sem kominn er af bökurum auk þess sem hann hefur endað mörg atriði sín með þessum orðum í rúmlega hálfa öld.
Hann taldi sennilegt að elsta hljóðritaða dæmi af þessum söng sé af plötu með Baldri frá árinu 1954.
Þá benti hjálpsamur starfsmaður Þjóðminjasafnsins á að fyrir tveimur árum hafi verið spurt um orðatiltækið í þættinum Íslenskt mál hjá Ríkisútvarpinu. Þá hafði samband kona sem benti á að lagið væri þekkt frá rakarakvartettum í Bandaríkjunum sem á árum áður sungu Shave and a haircut 10 cents. Ekki fékkst þó skýring á því hvernig þetta var svo yfirfært á túkallinn og saltkjöt og baunir.
Ómar segir auk þess að þótt ekki sé vitað hve lengi Íslendingar hafi sönglað þetta hafi verið alþekkt að ljúka atriðum á þennan hátt þegar hann var átján ára gamall að stíga sín fyrstu skref á sviði um miðbik síðustu aldar.
Barnabarn Baldurs, Ágúst Freyr Ingason, staðfesti í samtali við fréttastofu að þetta mætti allt rekja til Baldurs. Afi hans hafi sagt honum frá því að þetta væri frá sér komið.
Í fyrirspurn um málið til Vísindavefsins mánuði seinna svarar Guðrún Kvaran prófessor á þessa leið;
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2010 | 09:02
Hvað gerir maður nú um helgar
Það munað litlu að óvinum X-factors, eða á ég að segja óvinum Simons Cowell, tækist að eyðileggja keppnina með því að halda inni í henni alllengi hinum vita-laglausa spilagosa Wagner. Í stað hans þurftu áhorfendur sem aldrei hafa verið fleiri að X-factor, að sjá á bak nokkrum frábærum keppendum, allt of snemma.
Mörgum er í nöp við völd Cowell yfir breska tónlistarmarkaðinum og er þess skemmst að minnast þegar milljónir tóku sig saman um að hala niður gamla smellinum Killing in the Name með Rage Against the Machine til að hamla því að x-factor sigurvegarinn færi ekki sjálfkrafa í fyrsta sætið yfir jólin 2009.
Ekkert slíkt mun gerast yfir þessi jól og Simon og hans lið; Cheryl Lloyd, Mary Byrne, Rebeccu Ferguson , One Direction, með Matt í fararbroddi, mun bera herðar og höfuð yfir annað tónlistarfólk á tónlistar-sölulistunum Bretlands þetta árið.
Þrátt fyrir þessa vitleysu með Wagner, eru flestir á því að keppnin í ár hafi verið sú besta fram að þessu og að hver og einn af þeim sem komust í úrslitin hefðu sómt sér vel sem sigurvegarar. Auðvitað datt maður sjálfur ofaní í X-faxtor svartholið um hverja helgi, þrátt fyrir góðan ásetning um að gera það ekki. Spurning hvað maður tekur sér nú fyrir hendur :(
Fyrrum málari sigraði í X Factor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2010 | 21:07
Hinn laglausi, sú afkáralega og sú skelfda
Vinsælustu sjónvarpsþættirnir í Bretlandi, The X Factor, Strictly come dancing og Im A Celebrity... Get Me Out Of Here, eiga það sameiginlegt að almenningur ræður nokkru um framvindu þáttana.
Í X factor ráða símakosningar því hvorn af tveimur neðstu, dómararnir fá að velja um að reka heim.
Í Strictly come dancing, ræður atkvæðafjöldi algerlega hver fer heim.
Í Im A Celebrity... , ræður almenningur hver þátttakenda verður að takast á við að leysa þrautirnar sem ræður fjölda matarskammtanna til hópsins.
Í öllum þessum þáttum sem nú eru í sýningu í Bretlandi og víðar, hefur almenningur tekið völdin og gert alla þættina heldur pínlega á að horfa. Afkáraleikinn er greinilega mun vinsælla sjónvarpsefni en hæfileikar og atgervi.
Í X factor nær Simon Cowell varla upp í nefið á sér fyrirvandlætingu yfir því að Wgner Carrilho 54 ára gamall einkaþjálfari,sem er upprunalega frá Brasilíu skuli komast áfram á kosnað frambærilegra söngvara. Simon hefur nokkuð til síns máls, því Wagner getur tæpast haldið lagi. Fram að þessu hefur hann ekki lent einu af tveimur neðstu sætunum og þess vegna fær Simon ekkert að gert.
Almenningur heldur Wagner inni og mann grunar að hann geri það bara til að gera Simon gramt í geði.
Sama er upp á tenngnum í danskeppninni Strictly come dancing. Þar greiðir almenningur Önnu Widdecombe, 63 ára fyrrum þingmanni Íhaldsflokksins atkvæði sín, þrátt fyrir að konan sé vita taktlaus og stirð fram úr hófi.
Dómararnir gefa henni alltaf lægstu einkunnir sem sést hafa í keppninni, en hún kemst ætíð áfram. Reyndar gerir hún sjálf út á afkáraleikann og hefur gaman að. Dómararnir sem líta á þetta sem "alvöru" danskeppni, vita ekki sitt rjúkandi ráð.
Im A Celebrity... Get Me Out Of Here þættirnir eru búnir að vera í gangi í viku að þessu sinni. Sama konan hefur á verið valin á hverjum degi til að gangast undir ógeðslegar þrautirnar sem þeir bjóða upp á í þeim þáttum. Hún heitir Gillian McKeith og er 52 ára næringarfræðingur.
Gillian er haldin mikilli skordýra-fóbíu og er grænmetisæta þar að auki. Þrautirnar fela það gjarnan í sér að skríða á meðal fjölda skordýra, nagdýra og skriðdýra, nagdýra og leggja þau sér til munns, ósoðin blönduð saman við leðju og drullu. (Spurning hvað hún er að gera í þætti sem þessum.)
Gillian varð svo miður sín í gærkveldi að hún fékk aðsvif og hné niður meðvitundarlaus í beinni útsendingu. Hún var borin burtu en fréttir herma að hún ætli sér ekki að gefast upp.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2010 | 22:07
Ópera
Fólk sem segir að óperan sé ekki eins og hún áður var, hefur rangt fyrir sér. Og það er einmitt vandamálið við óperuna.
Ef það er satt að óperan sé efsta stig á tónlistar þroskaferli hvers einstaklings, er ég nokkuð viss um að þangað muni ég aldrei komast. Ekki vegna þess að ég hafi ekki reynt.
Ég hef hlustað á óperusöng af hljómdiskum og meira að segja keypt mig inn dýrum dómum á Parsifal og Niflungahringinn. Parsifal byrjaði klukkan átta og eftir þrjá tíma leit ég klukkuna og sá að hún var bara hálf níu. Og í sögunni af Sigfríði, virtist Guðrún vera eina konan í stykkinu sem ekki var frænka hans. Reyndar hafði ég lúmskt gaman af leiknum, þrátt fyrir sönginn.
Margt gerist á annan hátt í óperunni en á nokkrum öðrum stað. Til dæmis þegar maður er stunginn í bakið, syngur hann í stað þess að blæða.
Og það er alveg sama á hvaða tungumáli óperan er sungin á, ég skil aldrei orð. Kannski er það bara fyrir bestu.
Og eitt eiga allar óperur sameiginlegt, þeim lýkur ekki fyrr en feita konan hefur sungið.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2010 | 13:52
Afneitun Biskups
Allt bendir til að aðskilnaður ríkis og kirkju verði eitt umdeildasta málið á stjórnlagaþinginu komandi. Það er gott, breytinga er þörf. Biskup vill samt þæfa málið. Hann segir að hér sé ekki eiginleg ríkiskirkja. Gaman væri að heyra skilgreiningu hans á "ríkiskirkju". Ljóst er að Biskup er í algjörri afneitun þegar kemur að því að horfast í augu við þá þróun.
Biskup segir líka að fólk treysti prestum sínum, bara ekki kirkjunni. Kannski hann ætti að skilgreina líka hvað kirkjan er ef ekki prestar hennar og biskupar. Hann segir mikið af fólki sem noti þjónustu kirkjunnar treysti henni. Þjónustan sem almenningur notar aðallega eru skírnir, fermingar, giftingar og greftranir. Flestir þurfa ekki að treysta kirkjunni eða prestunum til að þiggja þessa þjónustu. Hún er innbyggð í samfélagið. Fólk þiggur telur þessa þjónustu sjálfsagða, eins og vatn og rafmagn og þess vegna er notkun hennar ekki mælikvarði á traust almennings til kirkjunnar.
Þverrandi traust áhyggjuefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)