Fyrsti rafmagnsgítarinn og drottningin af Hawaii

LiliʻuokalaniÍ hálfa öld og gott betur hafa Íslendingar sungið "Sestu hérna hjá mér ástin mín" um leið og þeir hjúfra sig upp að einhverjum kærum við varðeldinn.  Ljóðið er eftir Jón Jónsson (1914-1945)  frá Ljárskógum en lagið er eftir síðasta einvald Hawaii eyja, Lili'uokalani drottningu sem samdi einnig upphaflega texta þess. Lagið heitir á frummálinu Aloha 'Oe. 

Lydia Kamakaʻeha Kaola Maliʻi Liliʻuokalani eins og hún hét fullu nafni,  (1838 – 1917) naut í æsku leiðsagnar Henry nokkurs Berger, sem var sendur til Hawaii af Vilhjálmi I Prússakonungi og keisara af Þýskalandi að beiðni Kamehameha V konungs Hawaii eyja. (Bróðir Liliʻuokalani)  

Berger sem hafði verið  konunglegur hljómsveitarstjóri í Þýskalandi, heillaðist fljótt eftir komuna til Hawaii af þjóðlögum eyjaskeggja. Hann hóf að skrásetja þau og færa í búning sem gerði þau aðgengileg vestrænum tónlistarmönnum.

Lili'uokalani drottning samdi fjölda laga en þeirra þekktust eru Aloha 'Oe og Drottningarbænin svokallaða, sem hún samdi í stofufangelsi eftir að henni hafði verið steypt af stóli af bandarískum og evrópskum kaupsýslumönnum í lok 19. aldar.  Lög hennar voru samt ekki gefin út í heild sinni fyrr en árið 1999.

Hula dansarar frá HawaiiSnemma á síðustu öld barst Hawaii tónlistin til Bandaríkjanna sem þá höfðu gert eyjarnar átta að hjálendum sínum. Tónlistin varð strax vinsæl, þótti bæði seyðandi og fögur, rétt eins og  húla-dans innfæddu kvennanna sem dilluðu mjöðmunum undir strápilsunum við taktþýða tónana.

Vinsældir tónlistarinnar tengdust einnig þeirri miklu umfjöllun sem Lili'uokalani drottning fékk um þetta leiti í Bandaríkjunum en a.m.k. tvær skýrslur sem unnar voru af sérstökum nefndum fyrir þingið og forseta landsins komust að því að hún hafði  verið rænd krúnunni og ólöglega hefði verið staðið að stjórnarmyndun landsins eftir að hún fór frá.

Bar X Cowboys spiluðu sveitalög og Hawaii tónlistHljóðfærin sem Hawaii tónlistin var leikin á voru í fyrsta lagi ukulele, smágítarinn sem Hawaiibúar  höfðu þróað út frá fjögra strengja hljóðfærinu braguinha,sem borist hafði til eyjanna með sjómönnum frá Portúgal. Annað aðalhljóðfærið var gítarinn sem sagan segir að fyrst hafi komið til Hawaii með mexíkönskum kúasmölum. Með því að setja harða strengi í gítarinn og nota síðan málmstykki til að þrýsta á strengina fékkst hinn sérstaki Hawaii ómur sem hljómaði líkt og  mansröddin. - Seinna voru gerðir þar sérstakir stálgítarar til að hljómurinn yrði sterkari.

Upp úr 1925 var Hawaii tónlistin orðin svo vinsæl í Bandaríkjunum að margar hljómsveitir sem spiluðu ameríska sveitasöngva, tóku tónlistarstefnuna upp á sína arma og spiluðu Hawaii tónlist á milli sveitalaganna. Auk þess blönduðu þær Hawaii hljóminum inn í sveitatónlistina. Þetta gekk alveg upp því hljóðfæraskipanin var eins í hljómsveitum sem spiluðu Hawaii tónlist og sveitatónlist. Brátt fóru einnig stærri hljómsveitir að flytja Hawaii tónlist,  þótt sá hængur væri á að erfitt var að heyra í stálgítarnum innan um marga lúðra, trommur og píanó.

SteikarpannanLausnin á lélegum hljómburði stálgítarsins fannst árið 1931 þegar að tónlistar og uppfinningamaðurinn George Beauchamp, smíðaði fyrsta rafmagnsgítarinn. Eftir nokkra tilraunastarfsemi fékk hann Rickenbacker Electro til að framleiða þessa uppfinningu sína sem nefnd var Steikarpannan, vegna þess að gítarnum svipaði nokkuð til þess eldhúsaáhalds. Gítarinn var gerður úr áli og er einnig þekktur undir  framleiðslunúmerinu A-22.

Margir eru þeirrar skoðunar að rokktónlistin hefði aldrei orðið til ef rafmagnsgítarinn hefði ekki komið til sögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

takk fyrif

ELÍAS Rúnar (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband