Færsluflokkur: Tónlist

Margt sem Lennon væri óhress með

HUgsa sér friðImagineer frægasta lag John Lennon. Friðarsúlan í Viðey er einskonar framlenging af texta þess lags og á hana er rituð skírskotun í textann á nokkrum erlendum tungumálum, eða "Ímyndið ykkur frið".

Á íslensku stendur hinsvegar eitthvað allt annað, eða "hugsa sér frið" sem  á ensku mundi vera "thinking of peace". 

Hvað og hver réði því að þessi túlkun eða þýðingarvilla varð ofaná, þegar að friðarsúlan var sett upp, veit ég ekki. En trúlega mundi John ekki vera sáttur við hana, eins nákvæmur ljóðasmiður og hann var. - Munur orðanna er augljós og óþarfi að rökstyðja hann frekar.

 

 


mbl.is John væri ekki ánægður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna ekki textana í brekkusöngnum

Árni JÁrni Johnsen og Róbert Marshall eru báðir söngelskir og ljóðadýrkendur. Þeir vita hvað klukkan slær þegar kemur að kunnáttu íslensks ungdóms hvað varðar ljóð og sönglög. 

Báðir  hafa t.d. stýrt fjöldasöng á fjölmennustu útihátíð landsins til margra ára, Þ.e. Þjóðhátíð í Eyjum. (Það var einmitt Róbert sem leysti Árna af í brekkusöngnum sumarið sem Árni sat inni.) 

Árni hefur verið þekktur fyrir að halda uppi mikilli stemmningu með því að syngja og leika gamla íslenska slagara.

E.tv. hefur Árna blöskrað síðustu árin hversu illa krakkarnir kunna textana við íslensku sönglögin í brekkusöngnum og vill bæta úr því með þessari þingsályktunartillögu.

 Þriðji þingmaðurinn sem stendur fyrir ályktuninni er Ólína Þorvarðardóttir, sjálfskipuð útvörður íslenskrar menningar á þingi og af landsbyggðinni í þokkabót eins og hin tvö.

Vonandi verður þetta samþykkt svo rútu og brekku söngur verði vinsæll að nýju meðal ungmenna. Fátt er eins vel til þess fallið að vekja og viðhalda heilbrigðri þjóðerniskennd.


mbl.is Auka skuli hlut ljóðakennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Poppgoðin deyja

michael-jackson-Þau eru menn og konur sem við hefjum í huga okkar og hjarta upp á ímyndaða festinguna vegna hæfileika þeirra til að hrífa okkur í burt frá þessum heimi um stund.

Við tilbiðjum þau líka með ýmsu móti, fórnum þeim verðmætum okkar, tíma og peningum, gerum af þeim líkön og myndir og prýðum með þeim vistarverur okkar og tilbeiðslumusterin öll; leik, kvikmynda, tónlistar og öldurhús borga og bæja.

Í nútíma samfélagi gegna þau sama hlutverki fyrir sálarlíf okkar og íbúar Ólympíu fjalls og Ásheima gerðu forðum. 

Á hverjum degi tínum við upp í okkur af mikilli græðgi alla fréttamolana sem umbar og spunameistararnir stjarnanna hafa matreitt sérstaklega ofaní okkur.

Við köllum þau stjörnur og sess þeirra er á himni, ekki satt?

En þegar stjörnurnar hverfa úr þessum heimi, ungar og í blóma lífsins og neyða okkur til að horfast í augu við forgengileika okkar sjálfra, hefst goðsagnagerðin fyrir alvöru. Besti efniviðurinn í hana á vorri upplýsingaöld, er fenginn úr samsæriskenningingum. Og þær bestu snúast aðallega um spurninguna; "hver drap hann/hana?"

Goð deyja nefnilega ekki á venjulegan hátt eins og ég og þú. Örlög þeirra og endalok verða að vera vafin einhverri dul og sveipuð leyndardómi. - Einungis þannig geta þau haldið áfram að vera aðgreind frá okkur hinum mennsku og ljóminn af hrævareldum lífs þeirra eins og hann birtist okkur í hinum margvíslegu fjölmiðlum, haldið áfram að veita okkur þá andlegu og trúarlegu fróun sem kakafónía margra og fjölbreyttra goða, ein getur áorkað.

Að vera tekin í  guðatölu á við margar kvikmynda, rokk og poppstjörnur sem látist hafa langt um aldur fram, en ekki allar. Útlitið þarf líka að vera guðdómlegt.

marilyn_monroe_Til dæmis voru þeir John Bonham og Keith Moon báðir of feitir og miklir nautnabelgir til að það kæmust af stað einhverjar sögusagnir um að orsök dauða þeirra hafi verið einhverjar aðrar en svall og svínarí. 

Brian Jones og Janis Joplin sem tilheyra reyndar hinum fræga 27 ára að eilífu félagsskap, dóu einnig undir afar grunsamlegum kringumstæðum, eða svona eins rokkstjörnum sæmir, uppstoppuð af dópi.

En að sjálfsögðu getur konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, ekki hafa látist nema fyrir sök einhvers annars en sjálfs sín. Auðvitað er það Conrad Murray  læknir sem ber sökina, eða til vara, einhver annar sem hann var að vinna fyrir. Hið fullkomna nútíma átrúnaðargoð getur ekki dáið nema að einhver hafi drepið það.

Eða trúir því einhver að Marilyn Monroe hafi ekki verið drepin af CIA vegna þess að hún hélt við tvo Kennedy bræður samtímis,  og var orðin of illa farin af drykkju og dópi til að vera treystandi til að halda því leyndu mikið lengur.

Og var ekki Elvis Presley grandað af CIA þegar hann brá sér á klósettið til að kúka,  eitt kvöldið?

Svo vita allir að breski krúnuerfinginn Charles lét drepa konu sína Diönu, prinssessu fólksins, til að geta giftast hinni ægifögru Camillu Parker, áskonu sinni til margra ára.

Eða hverju var raunverulega blandað í dópið sem Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sid Vicious tóku inn, allt saman alvanir menn þegar kom að blöndun eiturlyfja, dælum og nálum?

Elvis PresleyÞá er alveg ljóst að krabbameinið sem Bob Marley dó af  var tilkomið vegna þess hann var látinn eta geislavirk efni.  Og var ekki haglabyssuskotið sem Kurt Cobain dó af grunsamlegt, jafnvel þótt hann hafi skrifað sjálfsvígs-bréf og hleypt því af  sjálfur?

John Lennon var drepinn af einhverjum lúða sem gerður var út af einhverjum af þeim fjölmörgu sem óttuðust áhrif hans og eins fór fyrir Tubac Shakr og Biggie Smalls,  jafnvel þótt þeir hafi verið í einhverjum glæpagengjum sem virða mannslífin á borð við mexíkanska eiturlyfjaprangara.

Og hvað munum við þurfa að bíða lengi þangað til að sögusagnirnar fara á kreik um orsakir dauða Amy Winehouse. - Enn er verið að bíða eftir formlegum niðurstöðum úr krufningu hennar. Það tekur tíma að koma saman sögu sem passar við allar þessa dóptegundir sem í líkama hennar fundust.

Þörfin til að "trúa" er líklega rótin af öllum þessum samsæriskenningum um dauða átrúnaðargoða okkar. Goðsagnirnar og trúin sem var og er  hluti af sameiginlegu vitundarlífi okkar verður æ snauðara af því yfirnáttúrlega og dularfulla. Eitthvað í sálarlífinu krefst hinsvegar að slíkt sé til staðar.


Þegar amma var ung

Sú var tíðin að það þótti heyra til tíðanda ef að dægurlag með öðrum en íslenskum eða enskum taxta náði teljandi vinsældum meðal þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem var allsráðandi í þessum efnum langt fram á síðustu öld og átti því stærstan þátt í móta tónlistarsmekk þjóðarinnar á þeim tíma, réði því að sú tónlist sem leikin var í tónlistarþáttum eins og "Óskalög sjómana", "Óskalög sjúklinga" og "Við sem heima sitjum" voru hvað erlenda dægurtónlist snerti, endurómun af breska vinsældarlistanum. "Lög unga fólksins" fylgdi þessari sömu stefnu enda litu vinsældarlistarnir, sem þá voru komnir til sögunnar, flestir svipað út og þeir bandarísku og bresku. Vissulega voru þessir þættir pipraðir með tónlist frá framandi löndum og lög eins og hið kúbanska Guantanamera, hið hebreska  Hava Nagila og hið mexikanska La Bamba heyrðust af og til og voru sjálfsagt langlífari í íslenskum útvarpsþáttum en nokkrum öðrum.

Fyrsta lagið sem ég man eftir að spilað var látlaust í öllum óskalagaþáttum og hvorki var íslenskt eða enskt var  þýska lagið sem ýmist var kynnt undir heitinu "Der fröhliche Wanderer"  eða "Mein Vater war ein Wandersmann".

Þetta glaðlega "göngulag" sem allir héldu að væri gamalt þýskt þjóðlag, var reyndar samið af  Friedrich-Wilhelm nokkrum Möller skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk.  Það varð geysi-vinsælt víða um heim árin 1953-4 í flutningi barnkórs frá Schaumburg. Mörg barnanna í kórnum sem þekktur varð undir nafninu Obernkirchen kórinn og stjórnað var af systur Fredrichs, Edith Möller, voru munaðarleysingjar sem misst höfðu foreldra sína í stríðinu.

Sjálfsagt hefði lagið aldrei orðið jafn vinsælt og raun ber vitni, ef BBC hefði ekki útvarpað úrslitunum í alþjólegu Llangollen kórkeppninni árið 1953 þar sem Obernkirchen kórinn vann keppnina með glans með flutningi sínum á þessu glaðhlakkalegu lagi.

Árið 1954 sat það í margar vikur í efstu sætum vinsældalista viða um heim t.d. á þeim breska, í ekki færri en 29 vikur.

Texti lagsins er eftir Edith, en hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og  á ensku heitir lagið "The Happy Wanderer". Obernkirchen kórinn kom til Íslands árið 1968 og flutti m.a. lagið sem þýtt var á íslensku sem "Káti vegfarandinn" á vel sóttum tónleikum í Þjóleikhúsinu.

Næst var það trúlega ítalskan sem ég fékk að kynnast í söng á öldum ljósvakans i lagi sem síðan hefur verið hljóðritað og gefið út af meira en 100 mismunandi flytjendum.  Lagið heitir "Nel blu dipinto di blu" en allir þekkja það undir heitinu Volare.

Ítalska tónskáldið Domenico Modugno samdi lagið og einnig ljóðið ásamt Franco Migliacci. Það var fyrst flutt af Domenico og Johnny Dorelli á tónlistarhátíð í  Sanremo 1958 og sama ár var það valið til að vera framlag Ítalíu til Júróvisjón keppninnar.- 

En þrátt fyrir að  Domenico og Franco fengju að flytja lagið tvisvar í keppninni, vegna truflana á útsendingu í fyrstu atrennu, nægði það ekki til að koma laginu hærra en í þriðja sæti. - Lagið flaug samt inn á vinsældarlistanna víða um heim og hlaut síðan verðlaunin "besta lag ársins" á fyrstu Grammy verðlaunahátíðinni sem haldin var 1958 í Bandaríkjunum.

 

Árið 1963 þegar að Bítlarnir klifruðu upp alla vinsældarlista á ofurhraða fengu þeir samkeppni úr óvæntri átt. Belgísk nunna sem þekkt varð undir nafninu Sœur Sourire (Systur bros) hafði þá samið og hljóðritað lagið Dominique, sem varð svo vinsælt að það rauk upp í fyrsta sæti vinsældarlista bæði vestan hafs og austan. Fram til þessa dags, er það eina belgíska lagið sem náð hefur fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum. Lagið varð svo vinsælt að Jeanine Deckers, en svo hét þessi syngjandi nunna réttu nafni, fór í hljómleikaferð um Bandaríkin og var auk þess boðið að koma fram í skemmtiþætti  Ed Sullivan.

Deckers, sem sjálf fékk aldrei krónu borgaða fyrir lagið, heldur lét ágóðann renna til klaustursins, gafst upp á klausturslifnaðinum árið 1967.  Í framhaldi af því reyndi hún árangurslítið fyrir sér með tónlistarflutningi undir nafninu Luc Dominique þar sem henni var meinað að nota nafnið Sœur Sourire, sem var sagt eign útgefanda hennar, þ.e. Philips samsteypunnar.

Seint á áttunda ártugnum reyndu belgísk skattayfirvöld að innheimta af Deckers fúlgur fjár sem þau vildu meina að hún skuldaði í skatta af tekjunum af Dominique. - Deckers hafði þá þegar fallið í ónáð kaþólsku kirkjunnar vegna opinbers stuðnings síns við notkun "pillunnar" og vegna samkynhneigðar sinnar. Árið 1985 frömdu hún og sambýliskona hennar til margra ára, Annie Pécher, sjálfsvíg og sögðu í bréfi sem þær skildu eftir sig, fjárhagserfiðleika ástæðurnar.

Upp úr 1966 átti franska kynbomban Birgitte Bardott í ástarsambandi við sjarmörinn og tónlistarmanninn Serge Gainbourg. Hún bað hann að semja fyrir sig fegursta ástaróð sem hann gæti upphugsað og þá sömu nótt samdi hann lag sem átti eftir að kenna allri heimsbyggðinni að segja "Ég elska þig" á franska tungu, eða; Je t'aime.

Fyrst hljóðritaði hann lagið með stunum Bardott og sjálfs sín en sú útgáfa lagsins kom ekki út fyrr en árið 1986. Það var hins vegar ástkona hans, ofurskutlan Jane Birkin sem söng og andvarpaði ásamt Serge sjálfum á útgáfunni sem fór eins og eldur í senu um heiminn árið 1967. Í þeim löndum sem ekki bönnuðu flutninginn fór lagið gjarnan í fyrsta sæti.


350 ný lög eftir John Lennon

mike_powell_228170aEf trúa má Mike Powell, hefur John Lennon, eða öllu heldur vofa hans, samið 350 ný lög og komið þeim á framfæri við Mike.

Til að Mike gæti komið lögunum áleiðis þurfti John fyrst að kenna Mike á gítar. Að sögn Mike, sem er 56 ára prentari komin á eftirlaun, birtist vofa Lennons við rúmgaflinn hjá honum, skömmu eftir að bítillinn var myrtur árið 1980 og hefur síðan komið að vitja hans í ekki færri en 50 skipti.

Mike sem ekki kunni eitt grip á gítar, og hefur fengið fjölskyldu sína til að skrifa undir vottorð um að svo hafi verið, var kennt af hinum framliðna að spila á gítar 350 lög sem Lennon á að hafa samið handan jarðlífsins.

Að John skuli hafa valið Mike til að miðla þessum nýju tónlistarsmíðum sínum er að mati Mikes, vegna þess að fyrrum Bítillinn vildi finna einhvern sem ekki mundi nota tónsmíðarnar til að auðgast á þeim.

jlghostHann hefði því valið "venjulegan" man sem var sjálfslaus og þráði ekki frama eða fjármuni fyrir að deila með heiminum þesum lögum og textum sem væru algert "dýnamít".

Mike segir að John hafi birst sér þegar hann sjálfur var að ganga í gegnum mjög erfiða tíma. Foreldrar hans báðir höfðu þá nýlega andast og  hann að fara í gegnum átakasaman skilnað við fyrrum eiginkonu sína.

"En þá birtist hann eina nóttina og ég sá að hann þarfnaðist jafn mikillar hjálpar og ég. Hann starði á mig og þegar að augu okkar mættust varð tónlistin til, fullmótuð í höfði mínu, rétt eins og ég heyrði hana af hljómplötu"

" Ég reyni aldrei að breyta neinu í lögunum sem hann hefur gefið mér"

Mike vill meina að gæði lagana sanni að þau séu eftir Lennon.  Hann hefur þegar hljóðritað 50 ný Lennon lög og ætlar að senda þau til Yoko Ono. "Ég er viss um að Yoko mun kannast við tilfinningarnar sem búa að baki lögunum og staðfesta að þarna er á ferðinni raunveruleg lög eftir John Lennon" er haft eftir Mike í þessari furðufrétt Daly Post.


61 stig frá 11 löndum

Á meðan að lagið sem Íslendingar gáfu 12 stig vann keppnina fengum við aðeins 61 stig frá 11 löndum sem skilaði okkur 20 sætinu í kvöld. Þegar að útlitið var sem svartast og horfur á að við vermdum neðsta sætið komu Ungverjar okkur til bjargar. 12 stig frá þeim kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Norðurlöndin stóðu sig ágætlega gagnvart okkur fyrir utan Svíþjóð sem gaf okkur 1 stig. Stigin 10 frá Svisslandi komu einnig dálítið á óvart.

Franska lagið sem spáð var sigri af flestum veðbönkum var á svipuðu róli og við en mest kom á óvart ítalska framlagið. Krakkarnir fá Asarbaujan sem búa í norður London eru sem sagt sigurvegarar kvöldsins og næsta júróvisjón verður sem sagt haldin á spildunni út við Kaspíahafið milli Rússlands og Íran. Mikið er annars Evrópa orðin stór.

Sjaldan eða aldrei voru stigagjafir þjóðanna jafn fyrirsjáanlegar. Þessi blanda af atkvæðum almennings og valnefnd sem átti að koma í veg fyrir grófar Þjóðaklíkukosningar, er greinilega ekki að virka.


mbl.is Ísland endaði í 20. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir Sjonna sveipaðir í appelsínugult

Sjonni-BrinkÞað er ekki seinna vænna að spá aðeins í gengi Vina Sjonna í Juróvisjón. Einhvern veginn finnst mér eins og stemmningin í kring um lagið og strákana sé lágstemmdari á landinu en vaninn er um lög og flytjendur okkar í júróvisjón yfirleitt.

Margir spáðu að lagið mundi ekki komast áfram í úrslitakeppnina og helsti júróvisjón spekingur landsins varð að éta hattinn sinn eftir að þessir hressu fullorðnu drengir gerðu þá hrakspá að engu á þriðjudagskvöldið og skutu um leið ref fyrir rass lögum sem talin voru örugg áfram.

Myndbandið af strákunum og Þórunni  þegar þau heyrðu að lagið hefði komist áfram er frábært og auðsætt að fögnuðurinn er einlægur. Það sýnir þá til að byrja með alla guggna og vondaufa núa saman höndum. En svo allt í einu spretta þeir á fætur,  hoppandi og öskrandi af fögnuði.

Vel má samt vera að best fari á frekar lágstefndri stemmningu í þetta sinn. Oft höfum við farið offari og ætlað að vinna keppnina á ákafanum og bjartsýninni einni saman. Það hefur reyndar næstum því gengið upp tvisvar sinnum, en aldrei samt náð að senda okkur alla leið í 1. sæti.

Mér segir samt hugur um að gamli júróvisjón fiðringurinn muni ná að grípa um sig þegar líður á daginn og fleiri en ekki verði límdir fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Og hver veit, nema að hógværðin hafi bara góð skammtafræðileg áhrif á Evrópu og lagið nái mun lengra en nokkur þorði að vona. 

Spár veðbanka í Evrópu gefa Íslandi ekki mikla von um að vinna keppnina og staðsetja lagið á kunnuglegum slóðum, eða í 16-18 sæti. Það kætir kannski þá sem oft hafa haldið því fram að Ísland gæti ekki haldið keppnina vegna skorts á boðlegu húsnæði. Þær mótbárur hef ég aldrei skilið. Írar héldu eitt sinn keppnina í smáþorpi þar sem reiðhöll var breytt í risastórt útsendingarstúdíó. Eitthvað er jú til af reiðhöllum á Íslandi.

Æfingar fyrir lokasýninguna í kvöld gengu vel hjá Íslendingunum og vefsíða Júróvisjón segir að þeir gefi frá sér "góðar bylgjur". Á risastórum LED skjáum í bakgrunni munu appelsínugulir litir og tannhjól skapa hlýju sem hæfir lagi og flytjendum vel.  Texti lags Sjonna er eins og allir vita um hvernig best sé að grípa tækifærin og njóta lífsins á meðan tækifæri er til þess.  -  Í þeim anda samdi Sjonni lagið og í þeim anda er lagið flutt. - Í  þeim anda ætla ég að horfa á keppnina og hringja inn eins oft og ég get til að greiða Íslandi atkvæði mitt og pína alla kunningja mína hér í Bretlandi sem ég næ í, til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Sjáumst í Reykjavík 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar elska Ísland um þessar mundir

Ég hef grun um að Bretar hafi hringt grimmt inn til að kjósa lagið hans Sjonna. Breski þulurinn sagði söguna af laginu á þann hátt að það smellpassaði við stemmninguna hjá strákunum á sviðinu. Ef að þulir annarra landa hafa gert hið sama, og halda áfram uppteknum hætti á laugardaginn verður íslenska lagið ofarlega.  - Að auki er lagið sjálft ágætis hvíld frá öllu teknósuðinu frá flestum hinna landanna. -

Annars er Ísland að gera það virkilega gott í Bresku sjónvarpi þessa dagana, ef hægt er að taka þannig til orða.

BBC ákvað að efna til íslenskrar viku á BBC 4 og þar er verið að sýna íslenskt efni upp á hvern dag. Vikan hófst með Jar City, í gærkveldi var sýnd einhver heimildarmynd um og með Ragnari Axels ljósmyndara, og í kvöld heimildamynd gerð af BBC um Íslendingasögurnar. 

Þá hafa þættir af Næturvaktinni með Jóni Gnarr einnig verið sýndir á hverju kvöldi. Mér heyrist fólk vera hrifnast af þeim. Gnarrinn er að slá í gegn á Bretlandi líka.  Myndin um Raxa var tilgerðarleg og fékk ekki sérlega góða dóma. Fólk var á því að það hefði verið fróðlegra að heyra meira í fyrirsætum ljósmynda hans en honum sjálfum.

Álit fólks um annað á eftir að koma í ljós.


mbl.is „Þetta var stríðnin í Sjonna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salisbury, Silbury og Solsbury

Á Englandi eru þrír sögufrægir staðir sem bera svo svipuð nöfn að það er ekki óalgengt að Bretar sjálfir rugli þeim saman hvað þá útlendungar sem til landsins koma til að berja þá augum. Þessir staðir eru bærinn Salisbury í  Wiltshire, Silbury hóll sem einnig er í  Wiltshire og Solsbury hæð í nálægt Batheaston í Somerset. - Það eykur enn á ruglinginn hversu nálægt hver öðrum staðirnir eru í sveit settir. Fyrir utan að bera áþekk nöfn sem fólk gjarnan heldur að séu mismunandi útgáfur af sama orðinu, (svo er ekki)  eiga staðirnir þrír ýmislegt sameiginlegt. 

Old_SarumBærinn sem í dag er kallaður Salisbury (eða Nýja Sarum) var ekki reistur fyrr en um 1220 en á svæðinu hafa fundist menjar sem benda til að byggð hafi verið þar frá örófi. Á nærliggjandi hæð er að finna vísbendingar um virki sem fyrst var reist á steinöld.

Þegar Rómverjar hernumdu landið kölluðu þeir hæðina "Sorviodunum" en "dunum" merkir virki eða vígi á latínu og er algeng ending á enskum bæjum og borgum í dag. Í fyrndinni voru virki á Englandi gjarnan byggð á hæðum eða hólum sem veittu gott útsýni yfir næsta nágrenni. Á keltnesku þýðir orðið "dun" einnig hóll eða borg. Oðrið "sorvio" er ekki til í latínu en "sorfio" á keltnesku þýðir þurr. Sorviodunum er því rómverka útfærslan á keltneska orðinu Sorfidun sem einfaldlega merkir "Þurra borg".

Þá er vitað að Saxar byggðu sér einnig virki á hæðinni og kölluðu það á sinni tungu Særesbyrig. Þeir reynd sem sagt að halda orðinu "sorfio" til haga en nota engilsaxneska orðið "bær" í staðinn fyrir hið rómverska "dunum".

Trérista af virkinuNormannar tóku við virkinu eftir innrásina 1066 og og byggðu á hæðinni kastala. Í Dómsdagsbókinni (1086) þar sem Vilhjálmur l lét skrásetja öll byggðarlög í ríki sínu, er byggðin kölluð "Saresberi", skrifað að hætti normanna Salesberi

Af  þessum fræga virkishóli dregur því bærinn Salisbury sem er í rúmalega tveggja kílómetra fjarlægð frá henni,  nafn sitt.  Einnig Salisbury sléttan en Stonehenge er frægasta mannvirkið sem upp af henni rís. 

Silbury hillSilbury Hóll heitir manngerð hæð úr kalksteini sem stendur ekki langt frá hinum fornfrægu Avebury steinhringjum. Hóllinn er rétt um 40 metra hár og tveir hektarar að flatarmáli. Hann gerður í nokkrum áföngum og er innsti og elsti hluti hans um 5000 ára gamall en sá ysti og yngsti um 4300 ára.

Hóllinn er sögð stærsta manngerða hæðin í Evrópu og er stundum kölluð "enski píramídinn". Forðum hefur hvítur kalksteinninn eflaust gert hólinn tignarlegan á að líta þar sem hann reis upp úr annars  flatri sléttunni en í dag er Silbury hóll grasi vaxinn og lítur út eins líkt og hundruð hæða og gróinna holta sem prýða enskt landsslag og gera það svo sérstakt.  

Nokkuð hefur verið til reynt til að uppgötva til hvers hólnum var hrúgað upp á sínum tíma. Nokkrum sinnum hefur verið grafið í hann, bæði ofaní og undir hann, en ekkert komið í ljós sem gefið gæti vísbendinu um hversvegna forfeður Englendinga lögðu á sig þessa miklu jarðvinnu. Það hefur samt ekki staðið í vegi fyrir því að fjöldi tilgáta hefur verið settar fram um tilgang Silbury, án þess þó að nokkur þeirra sé talin sennilegri en aðrar.

Silsbury Hill 1Nafnið Silbury er talið samsett úr keltneska orðinu zilsem þýðir auga. Það er skylt orðinu sil í grísku saman ber Silvía mánagyðja og er einnig rótin að orðinu silfur. Nafn hæðarinnar getur því hæglega útlagst á íslensku "Mánaborg".  

Silbury er eins og áður er getið í Wiltshire. Í búar þess skýris eru oft nefndir "Mánarakarar". Sagan segir að að þeir bændur hafi forðum verið nokkuð stórtækir smyglarar, einkum á vín frá  Frakklandi. Tollmenn konungs voru á hverju strái og þurfti oft að leika á þá. Eitt sinn földu smyglararnir víntunnur sínar í tjörn einni. Tollmenn komu að tjörninni og sáu hvar bændur stóðu og rökuðu tjörnina í óða önn. Tollararnir furðuðu sig á athæfinu sem von var og spurðu hvað um væri að vera. Þeim var svarað því til að verið væri að raka saman ostinum sem í  tjörninni væri og bent á hvernig fullt tungl endurspeglaðist í tjörninni. Tollararnir hlógu að einfeldni bænda og hröðuðu sé á braut. Eftir þetta festist uppnefnið "Moonraker" við íbúa svæðisins sem þeir láta sér það vel líka.

Solsbury HillSolsbury Hæð er nafn allstórrar hæðar skammt frá borginni Bath í Somerset. Nafn hæðarinnar er dregið af  keltnesku gyðjunni Sulis sem var dýrkuð af Keltum á þessu svæði í fyrndinni og hæðin sjálf helguð henni. Leiðin til hinna hlegu véa gyðjunnar við heitu uppspretturnar í Bath, lágu meðfram hæðarrótunum.  

SólborgSuil  á gamalli írsku merkir "auga" eða "gap"  sem var inngangurinn í undirheima. En talið er að Gyðjan Sulis hafi fengið nafn sitt frá upphaflegri merkingu Indóevrópska orðsins orðsins  "sawl" (á latínu sol)  og á íslensku Sól. Upphaflega heiti hæðarinnar var því "Sólborg".

Efst á hæðinni eru ummerki eftir virki sem fyrst var byggt fyrir 2300 árum.

Peter Gabriel samdi á sínum tíma ansi gott lag um hæðina , en hljómver hans og reyndar heimili líka er staðsett þar um slóðir. Hér er það lag fyrir áhugasama.


Mundir þú kaupa bíl af þessum manni?

Cal WorthingtonEinn kunnasti bílasali Bandaríkjanna Calvin Coolidge, betur þekktur sem Cal Worthington, á að baki ansi langan og litríkan feril sem bílasali. Í seinni tíð hefur hann einnig getið sér orð sem hinn mesti kvennabósi þrátt fyrir að vera orðin talsvert aldraður.

Cal er fæddur árið 1920 en árið 1979 þá tæplega sextugur skildi hann við Barböru konu sína til margra ára og gekk að eiga Susan Henning. Það hjónaband endaði illa sjö árum seinna. 1995 giftist hann útvarpskonunni Bonnie Reese sem þá var 35 ára. Það hjónaband endaði árið 2002. Í síðasta mánuði giftist Cal í fjórða sinn, í þetta skipti íslensku jazz-söngkonunni Sjúbídú Önnu Mjöll Ólafsdóttir Gauks og  Svanhildar Jakobsdóttur.

cal worthington2Cal er best þekktur fyrir auglýsingar sínar í út og sjónvarpi þar sem hann kom ávalt fram með vini sínum "Spot" (Depli)  sem aldrei var hundur eins og nafnið gæti gefið til kynna, heldur eitthvað annað dýr og næstum aldrei það sama. Spot gat t.d. verið tígrisdýr, fíll, grís, höfrungur, selur eða skógarbjörn.

Brúðkaup þeirra Cals og hinnar íslensku brúðar Önnu Mjallar, vakti að sjálfsögðu athygli vegna aldursmunarins sem á milli hjónakornanna er, rétt um 50 ár ef rétt er farið með í fréttinni hér að neðan.

Cal Worthington Wedding_ April 2011Anna Mjöll fetar þarna í fótspor margra bandarískra smástirna sem giftast sér miklu eldri mönnum, auðvitað af einskærri ást. Kunnust þeirra er eflaust nafna hennar Anna Nicole Smith sem giftist herramanni og miljarðamæringi sem var 62 árum eldri en hún sjálf. - Ævi þeirrar stúlku og afrek eru tíunduð í nýrri óperu sem nú er sýnd við góðan orðstír í Konunglega óperuhúsinu í Lundunum.  - Verst að Anna Mjöll er jazzsöngkona en ekki óperusöngkona. Hún hefði passað svo vel í hlutverkið. -

Annars þarf Anna Mjöll að huga dálítið að ferilsskrá sinni á netinu. Þar er heldur mikið um endurtekinnar. Nema að hún hafi tekið þann pól í hæðina að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin.

In 2009 Mjöll released a CD, The Shadow Of Your Smile, featuring a mix of Icelandic songs and jazz standards. The CD featured a number of notable musicians including Vinnie Colaiuta, Dave Carpenter, Don Grusin, Neil Stubenhausand Luis Conte, and was voted one of the top 5 Female Vocal Jazz CD's of 2009 at Arnaldo DeSouteiro's Jazz Station.

In 2009 Mjöll was voted one of the top 5 Jazz singers of the year by DeSouteiro's Jazz Station.

In 2010 Mjöll released her first solo holiday CD, "Christmas JaZZmaZ". "Christmas JaZZmaZ" features original arrangements by Ólafur Gaukur and musicians including Vinnie Colaiuta, Luis Conte, Ólafur Gaukur, Don Grusin, Dave Carpenter and Charlie Bisharat, and was voted one of the top 10 Female Vocal Jazz CD's of 2010 at Arnaldo DeSouteiro's Jazz Station.

In 2010 Anna Mjöll was voted one of the 10 best female Jazz singers of the year by DeSouteiro's Jazz Station, and "Christmas JaZZmaZ" was voted "Christmas CD of the Year".


mbl.is Anna Mjöll giftist forríkum bílasala 9. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband