Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
23.5.2009 | 14:40
Eru sjálfsvíg "smitandi" ?
Lucy Gordon ein efnilegasta leikkona Breta framdi sjálfsvíg um nótt eina fyrir nokkrum dögum. Lucy bjó ásamt kærastanum sínum í leiguíbúð í París og það var hann sem fann hana þegar hann vaknaði um morguninn hangandi í reipi sem hún hafði bundið utan um bjálka í loftinu. Lucy var 28 ára þegar dún dó, jafngömul og mótleikari hennar í kvikmyndinni "Fjórar fjaðrir"(2002) Heath Ledger þegar hann lést, einnig á válegan hátt, í búð sinni í New York á síðasta ári.
Lucy hafði nýlokið við að leika kvikmyndinni Serge Gainsbourg, vie héroïque, sem er um ævi og starf franska tónlistarmannsins Serge Gainsbourg. Þar fór hún þar með hlutverk hinnar bresku ástkonu Serge, Jane Birkin. (Frægasta lag hans er án efa "Je t'aime... moi non plus," 1969, þar sem Serge og Jane stynja saman eins og í ástaratlotum en lagið var upphaflega tekið upp með Brigitte Bardot.)
Svipað og hjá Heath Ledger var ferill Lucy rétt að byrja. Eftir farsælan feril sem fyrirsæta hóf hún að leika í kvikmyndum. Árið 2007 lék hún fréttakonuna í Spiderman og 2008 fór hún með stórt hlutverk í hinni stórgóðu mynd Frost.
Samkvæmt heimildum frá foreldrum og vinum, virtist allt leika í lyndi hjá Lucy. Skýringar á framferði hennar liggja ekki á lausu. Það eina sem komið hefur fram er að nýlega fékk hún slæmar fréttir að heiman. Vinur hennar hafði framið sjálfsvíg. Vangaveltur fólks ganga út á hvort þessar fréttir hafi haft svona mikil á hrif á Lucy að hún hafi ákveðið að taka sitt eigið líf.
Læknar og sáfræðingar hafa lengi haldið því fram að sjálfsvíg geti verið "smitandi", sérstaklega á meðal ungs fólks. Mikið er til af dæmum um að ungmenni fremji sjálfsvíg í "öldum" og oft verði fréttir af sjálfsvígum til að aðrir herma eftir.
Þetta er alls ekki nýtt fyrirbrigði. Þvert á móti er þetta kallað "Werther heilkennið" eftir skáldsögu Goethe Die Leiden des jungen Werther (Sorgir hins unga Werther) sem kom út árið 1774. Í kjölfarið bókarinnar áttu sér stað fjöldi sjálfsvíga meðal ungmenna í Evrópu og í sumum löndum var bókin bönnuð til að vernda hina viðkvæmu.
Miðað við rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum er tvisvar til fjórum sinnum meiri hætta á að unglingar á aldrinum 15-19 ára verði fyrir smitáhrifum af fréttum um sjálfsvíg. Þá er það einkum athyglisvert að sumar kannanir hafa getað sýnt fram á tengsl milli þess hversu oft fréttir eru sagðar af sjálfsvígum og tíðni sjálfsvíga í kjölfarið. Til dæmis kom í ljós þegar að frægur aðili Austurríki framdi sjálfsvíg með skotvopni og um það var fjallað ýtarlega í slúðurblaði einu, mátti rekja sjálfsvígsölduna sem á eftir fylgdi til sömu slóða og dreifing blaðsins var sem mest.
Þá er einnig ljóst að sjálfsvíg þekktra einstaklinga er fjórtán sinnum líklegra til að verða til þess að aðrir hermi eftir en þegar óþekktir einstaklingar eiga í hlut.
Þrátt fyrir að sjálfsvígsöldur meðal unglinga fái yfirleitt meiri umfjöllun en önnur sjálfsvíg, eru þau tiltölulega lítill hluti af heildarmyndinni. Fjárhagslegar aðstæður, aldur og heilsa eiga mun meiri þátt en eftirherma eða "smit".
Á Vesturlöndum hefur t.d. sjálfsvíg ungra manna farið hraðfækkandi frá 1970 og er á það bent að almenn velmegun eigi sinn þátt í því. Það sama er að segja um sjálfvíg kvenfólks, þótt munurinn sé minni.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2009 | 16:06
Hvað á að gera við bólgið sjálf?
"Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;"hvers vegna ætti ég að vera snjöll, fögur, hæfileikarík og fræg?" Spurningin ætti frekar að vera, "hvers vegna ekki ég." Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörlegur þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra."
Ég rakst á þessa tilvitnun á fésbókarsíðu frænku minnar, reyndar á ensku, en ákvað að snara henni og birta hana hér á blogginu til gamans og fróðleiks. Tilvitnun kemur frá Marianne Williamson sem er bandarískur rithöfundur og predikari í svo kallaðri Einingarkirkju sem var stofnuð í Bandaríkjunum á síðari hluta 19. aldar. Meira um hana að finna hér fyrir áhugasama.
Það sem vakti áhuga minn við efni þessarar tilvitnunar er að hún fjallar um sjálfsmynd okkar. Flestum þykir mont og sjálfhælni leiðinlegir persónueiginleikar en samt finnum við öll fyrir kenndum sem hæglega geta orðið að grobbi og monti sé þeim ekki rétt stýrt. Marianne bendir þarna á frábæra leið til að horfa á okkur sjálf í þessu tilliti. Sjálfupphafningartilfinningin er tempruð með þeim tilgangi að vera öðrum hvatnig.
20.5.2009 | 03:37
Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?
Hversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.
Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.
Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu sem er ungt.
Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim." - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.
Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.
Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.
Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn. Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"
Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.
Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar.
3.5.2009 | 19:14
Næst tekur til máls hæstvirt þriðja þingkona Reykjavíkurkjördæmis norður, Illugi Gunnarsson
Ef að mæðraveldi (matriarchy) hefði verið við lýði á Íslandi, mundu þá karlmenn sem kosnir væru til þings á öld jafnréttis og jafnræðis, láta sér lynda að vera kallaðir "þingkonur".
Og mundu þeir karlmenn sem eftir langa jafnréttisbaráttu næðu þeim árangri að setjast í ríkisstjórn, vera ánægðir með að vera titlaðir "ráðfrúr"?
Stjórnsýslutitlum á Íslandi fylgja kyngreiningar. Uppbygging tungumálssins gerir ráð fyrir því, ólíkt sem gerist t.d. í ensku. En hvers vegna er þá ekki almennt talað um þingkonur og ráðfrúr? Þingkona á þingi er kölluð "hæstvirtur þingmaður" aldrei hæstvirt þingkona. Hvers vegna ekki? Reglum tungumálsins er þarna varpað fyrir róða í krafti misréttis.
Eitt sinn var sú tíð að eingöngu konur gengdu starfi flugfreyja og/eða flugþerna. Um leið og karlmenn fóru að sinna þeim störfum tóku þeir upp starfsheitið flugþjónn. Það kom ekki til greina fyrir þá að vera kallaðir þernur eða freyjur.
Eins er með hjúkrunarmenn sem áður voru kallaðir hjúkrunarfræðingar.
Hér áður fyrr voru konur sem stýrðu búi kallaðar bústýrur. En um leið og þær eru settar við stjórn á fyrirtækjum verða þær forstjórar, ekki forstýrur. Hvaða karlmaður mundi una því, ef saga okkar hefði verið á aðra lund, að vera kallaður forstýra eða bankastýra.
Á áttunda áratugnum var gerð gagnskör að því að laga málrænt og hugrænt umhverfi okkar að kynjajafnrétti. Við vöndumst meira að segja á að kalla forsetann okkar frú. - Síðan þá hefur greinilega verið slakað á klónni og eiginlega verður maður ekki einu sinni var við jafnréttisumræðuna lengur.
Hvers vegna? Sá spyr sem ekki veit.
25.4.2009 | 17:45
Kristnir "Talibanar" til Genfar
Jean Cauvin (betur þekktur sem Jóhann Kalvin) var aðeins átta ára þegar Martin Lúther negldi hið fræga skjal sitt á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517 og hóf þannig baráttu sína sem kennd er við siðbót innan kristinnar trúar.
Kalvin átti þá heima í fæðingarbæ sínum Noyon í Frakklandi og hafi verið alinn upp við kaþólska trú af löglærðum föður sínunm. Hann gerðist mótmælandi ungur að árum og til að forðast ofsóknirnar sem þá voru tíðar á hendur mótmælendum, flúði hann Frakkland til Basel í Svisslandi. Þar nam hann guðfræði og skrifaði sitt frægasta rit, "Stofnanir kristnu trúarbragðanna" sem kom út þegar hann var aðeins 27 ára gamall.
Hann heimsótti borgina Genf 1536 þar sem mótmælendur voru fjölmennir og tók þar upp kennimannsstöðu. Hann lenti fljótlega í útistöðum við borgarbúa vegna púritanískra skoðana sinna og var eiginlega rekinn frá borginni 1538. Hann gerðist þá klerkur í Strassburg og stundaði þar einnig skriftir. Honum var samt boðið að snúa aftur til Genfar árið 1541 og varð eftir það óumdeildur leiðtogi borgarbúa allt til dauðadags árið 1564.
Í Genf hrinti Jóhann Kalvin í framkvæmd kenningum sínum um hvernig kristið samfélag ætti að starfa, þótt að nafninu til væri borginni stjórnað af 25 manna borgarráði sem Jóhann átti ekki sæti á. Undir hans stjórn varð Genfar að miðstöð mótmælenda í Evrópu og stundum nefnd "Róm mótmælenda."
Í Genf Kalvins var framhjáhald og allt lauslæti gert að alvarlegum glæp. Fjárhættuspil, víndrykkja, dans og dægurlaga söngur var algjörlega foboðið athæfi að viðlagðri harðri refsingu. Öllum var gert skylt að mæta til guðþjónustu í kirkjum borgarinnar á vissum tímum þar sem predikanir klerkanna voru yfirleitt afar langar. Þá var allur skrautklæðnaður bannaður og ekkert mátti taka sér fyrir hendur á hvíldardeginum.
Kalvin var mjög óumburðalyndur og fljótur til að fordæma þá sem ekki fóru eftir túlkunum hans. Einn af frægari andstæðingum hans var Mikael Servetus, spánskur læknir og guðfræðingur sem ekki hugnaðist kenningarnar um þrí-einan guð. Þegar Servetus heimsótti borgina lét Jóhannes handtaka hann og dæma fyrir villutrú. Servetus var síðan brenndur á báli árið 1553. Talverður fjöldi manna og kvenna hlaut sömu örlög undir stjórn Jóhanns í gegnum tíðina, flestir fyrir galdra og villutrú. (Myndin sýnir tvo Dóminik-munka sem brenndir voru í Genf árið 1549)
Ýmsir trúarhópar spruttu upp sem studdust við kenningar Kalvins og má þar á meðal nefna Presbyterian-kirkjuna í Skotlandi, Hugenotta í Frakklandi og Púrítananna í Englandi. Kalvinísk mótmælendatrú varð ofaná í Sviss og Holllandi og einnig er stóra Kalviníska söfnuði að finna í Póllandi, Ungverjalandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Uppi hafa verið kenningar um að afstaða Kalvins til vinnu-siðferðis og sú staðreynd að hann lagðist ekki gegn því að vextir væru teknir af fé, hafi átt stórann þátt í uppgangi kapitalismans (Auðhyggju) í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig að ástæðan fyrir því að nútíma lýðræði þróaðist fyrr í löndum þar sem Kalvinistar voru jafnan í minnihluta, hafi verið vegna þrýstings þeirra um virka þátttöku í málefnum samfélagsins.
Trúmál og siðferði | Breytt 26.4.2009 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.4.2009 | 21:08
Rasismi rasistans
Forseti Írans Mahmoud Ahmadinejad sparaði ekki grjótkastið á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um kynþáttafordóma í Genfar, þótt hann búi sjálfur í glerhúsi. Hann beinir spjótum sínum sem fyrr að Ísrael og segir Zionisma vera kynþáttastefnu. Hann ætti samt að líta sér nær. Eftir að hann komst til valda í Íran hafa ofsóknir á hendur minnihlutahópum þar í landi aukist til muna og var ástandið síður en svo gott fyrir.
Kúrdar Í Íran hafa sætt stöðugum ofsóknum og ásökunum um að vera "hryðjuverkamenn" án nokkra sannana þar um. Yfirvöld gera engan greinarmun á friðsamlegum mótmælum þeirra og árásum vopnaðra hópa Kúrda og ekki færri en sex leiðtogar þeirra hafa verið teknir af lífi í Íran á síðustu tveimur árum. Einnig hafa ofsóknir gegn Baluch fólkinu og Aröbum í Khuzestan aukist mjög í seinni tíð.
Enn er kynjamisrétti löglegt í Íran sem kemur í veg fyrir að konum séu veitt grundvallar mannréttindi. Kvenréttindakonum var t.d. umsvifalaust varpað í fangelsi fyrir það eitt að safna undirskriftum til að skora á stjórnvöld til að létta af þeim okinu. Að verja málstað kvenna í Íran varðar við þjóðaröryggislöggjöf landsins.
Misrétti og ofsóknir gegn trúar-minnihlutahópum eru afar algengar í Íran. Fyrir þeim verða kristnir, gyðingar, súfíar, sunní-múslímar og bahaiar. Einkum eru það meðlimir Bahai trúarinnar sem hafa þurft að þola margháttaðar ofsóknir, eingöngu vegna skoðana sinna. Á síuðustu fjórum árum hafa meira en 200 bahaiar verið handteknir, haldið föngnum, sætt kúgun og áreiti. Glæpirnir sem þeir eru sakaðir um þegar þeim er gert að mæta fyrir rétt, er að þeir brjóti gegn þjóðaröryggislögum landsins. Þeim er meinað sjá fyrir sér og eignir þeirra gerðar upptækar. Nemendum er meinaður aðgangur að skólum, ef upp kemst að þeir séu bahaiar.
Stjórnvöld í Íran hafa kerfisbundið notað fjölmiðla landsins til að ráðast að Bahai samfélaginu sem er stærsti trúarlegi minnihlutahópur landsins. Hundruð greina hafa birst í dagblöðum þar sem vitnað er í hatursáróður Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins gegn bahaíunum, þar sem almenningur er hvattur til að sýna þeim óvild. Hvatt er opinberlega til árása á heimili þeirra, vinnustaði og grafreiti.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.4.2009 | 19:11
Pyntingaraðferðir CIA
Obama Forseti, segja fréttir, ætlar ekki að sækja til saka þá sem skipulögðu eða stóðu að pyntingum fanga í fangelsum CIA vítt og breitt um heiminn, ekki hvað síst í fangabúðum við Guantanamo flóa á Kúbu.
Sex mismunandi pyntingaaðferðir sem CIA reyndar kallar "Frekari yfirheyrslu aðferðir (Enhanced Interrogation Techniques) hafa verið í notkun frá miðjum mars 2002. Þær hafa einkum verið notaðar gegn grunuðum al Qaeda meðlimum sem haldið er föngnum í fangelsum CIA í Austur Evrópu og Asíu. Aðeins örfáir CIA fulltrúar eru þjálfaðir í notkun pyndingaaðferðanna og hafa leyfi til að nota þær.
Aðferðirnar sem um ræðir eru þessar:
1. Að ná athyglinni; Yfirheyrandi grípur í skyrtu fangans að framan og hristir hann.
2. Athygli-kinnhestar. Slegið er opinni hendi í andlit fangans með það fyrir augum að valda snöggum sársauka og ótta.
3. Maga-slög; Slegið er harkalega með opnum lófa á maga fangans. Markmiðið er að valda sársauka en ekki innvortis skaða. Læknar mæltu gegn því að nota hnefahögg sem gætu valdið innvortis blæðingum.
4. Langtíma-staða. Þessi er aðferð er sögð sú áhrifaríkasta. Fangar eru látnir standa hlekkaðir við keðjuauga sem fest er við gólfið, í meir en 40 klukkustundir. Þreyta og svefnleysi verða til þess að fanginn játar oftast.
5. Kaldi klefinn; Fanginn er látinn standa nakinn í klefa sem er fimm gráðu heitur. Allann tíman er skvett á fangann köldu vatni.
6. Vatns-pynding; Fanginn er reyrður við planka og fætur hans og höfðu reist frá honum. Plastfilma er strekkt yfir andlit fangans og vatni helt yfir hann. Ósjálfrátt byrjar fanginn að koka og drukknunarviðbrögð taka yfir. Nær undantekningarlaust biðja fangarnir sér vægðar og játa fljótlega í kjölfarið.
Samkvæmt heimildum CIA líða að meðaltali 14 sekúndur frá því að vatnspyndingarnar hefjast þangað til að játning liggur fyrir. sagt er að harðasti al Qaeda fanginn, Khalid Sheik Mohammed,hafi unnið sér aðdáun pyntara sinna með því að gefast ekki upp fyrr en eftir tvær og hálfa mínútu.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
11.4.2009 | 13:24
Kristur heimsækir helvíti
Samkvæmt kristnum hefðum eyddi Kristur öllum þessum degi (laugardegi) í helvíti. Allir fermdir Íslendingar hafa játað því að trúa þessu, enda mjög mikilvægt atriði, svo mikilvægt að því er komið fyrir í sjálfri trúarjátningunni sem er eitt af því fáa sem flestir kristnir söfnuðir hafa látið vera í friði og haldið til haga í gegnum aldirnar. Það er í sjálfu sér merkilegt því ekki eina setningu í trúarjátningunni er að finna í sjálfri Biblíunni, heldur er hún umorðun á ákveðnum skilningi boðskapar hennar.
En í dag fyrir tveimur áraþúsundum eða þar um bil var mikill fögnuður í helvíti, því Kristur var kominn í heimsókn. Allt frá því Lúsífer hafði stofnað staðinn ásamt englunum sem fylgdu honum, stóð straumurinn af slæmu fólki til helvítis. Þar var fólkið pínt í eldinum og það skiljanlega glatt að sjá Krist loksins sem eyddi þessum laugardegi í að frelsa það úr klóm Lúsífers og koma því til himna. Sjálfsagt hefur Kristur frelsað englana líka, því Kristur kom jú til að "allir gætu öðlast eilíft líf".
Lúsífer var sem sagt frekar illa staddur þarna fyrir 2000 árum, einn og yfirgefinn eftir daginn. Samkvæmt sögunni átti Lúsífer að hafa verið klárasti engillinn á himni. Hann var svo klár að hann sá ekki hvað það var vonlaust að rísa upp gegn almættinu og byrjaði að slást. Ef að hann var sá klárasti, hljóta hinir englarnir að hafa verið hrikalega heimskir, enda fylgdu þeir Lúsífer út í vonlausa baráttuna.
En Kristur, sem sagt tæmdi helvíti fyrir 2000 árum en skildi lúserinn Lúsífer eftir einann. Síðan hefur hann reynt að vera duglegur að safna sér nýjum árum og púkum til að hrekkja menn og gabba þá til fylgis við sig. Og þeir sem láta ginnast eiga ekki von á neinni miskunn. Þeir munu kveljast í helvíti til eilífðarnóns.
3.4.2009 | 09:32
Apaspjall
í stað þess að sveifla sér milli trjánna og taka þátt í ærslum hinna gibbon apanna sat Aude, ungur karlapi, þögull undir tré og virtist þungt hugsi. Ale, systir hans sá að það amaði eitthvað að og settist hjá honum. Hún sagði ekki neitt um stund en einbeitti sér við að naga hríslu eins og hún væri gómsætur sykurreyr. Loks stóðst Aude ekki mátið lengur og spurði:
Geturðu ekki nagað þessa hríslu einhversstaðar annarsstaðar?
Ale; Jú jú, en ég kom nú hérna af því að ég sá að þér líður eitthvað illa. Kannski borðaðir þú of mikið af mangó í gær.
Aude: Mangó, nei það er ekkert að mér í maganum.
Ale Hvað er það þá?
Aude; Ég varð bara svo dapur allt í einu. Ég var að hugsa um hvernig órangútunum fækkar dag frá degi þarna á suður frá.
Ale; Hvað kemur það þér við; því færri sem þeir eru, því meira er að hafa fyrir okkur.
Aude; Þetta er nú mjög eigingjarnt sjónarmið. þeir eru einu sinni apar eins og við.
Ale; Eigingirni, hún er ekki til. Þeir hafa ekki vit á að bjarga sér eins og við. Þetta er bara lögmál, þeir sem geta bjargað sér lifa, hinir.....deyja.
Aude; En það er ekkert réttlæti í þessu. Órangútarnar hafa lifað á þessu svæði síðan allt byrjaði. Svo kemur þessi mannapi sem allt virðist eiga og geta. Hann heggur niður skóginn bara til að rækta sykur handa sjálfum sér og allir aðrir verða að víkja. Hvað eiginlega gefur honum rétt til að haga sér svona.
Ale; Réttlæti, það er ekkert til sem heitir réttlæti. Náttúran er ekki réttlát. Mannapinn er einfaldlega klárasti apinn í skóginum og þess vegna hæfastur. Hann þarf greinilega á öllu þessu sem hann framleiðir að halda. Eins og ég var að segja, þeir sem geta bjargað sér, lifa.
Aude; Nú ef það er ekki til neitt réttlæti, þá gæti mannapinn í það minnsta sýnt smá miskunnsemi. Hann tekur ekkert tillit til neins, bara veður áfram og heggur allt í burtu sem hægt er að lifa af.
Ale; Hvað ertu nú að bulla. Það er heldur ekkert til sem heitir miskunnsemi. Það sem þú tekur fyrir miskunnsemi, er þegar stóru aparnir vægja litlu öpunum til þess að stofninn þurrkist ekki út. Mannapinn hefur engar slíkar kenndir til okkar eða annarra dýra.
Aude; En allt hjá mannapanum er bara svo yfirgengilegt. Til hvers þarf hann allan þennan skóg, allt þetta svæði sem hann leggur undir sig. Hvernig væri að hann sýndi smá hógværð.
Ale. Það er eins og þú skiljir ekki þetta grundvallaratriði að það er aðeins eitt lögmál sem gildir. Það er að sá hæfasti til að lifa lifir, hinir deyja. Kallaðu það bara lögmál frumskógarins. Allt þetta sem þú ert að tala um hefur enga merkingu sem nær út fyrir þetta lögmál. Hógværð er bara þegar þú borðar ekki allt sem þú getur borðað í dag vegna þess að þá mundir þú fá meltingartruflanir og veikjast.
Aude; Ég hef nú samt áhyggjur af þessu. Hvað gerum við þegar að mannapinn kemur hingað til þess að höggva skóginn.
Ale; Það sem skiptir máli er dagurinn í dag. Við getum ekkert vitað hvað gerist á morgunn. Hvers vegna að eyða tímanum í að hafa áhyggjur af því sem enginn ræður nokkru um. Komdu bara aftur upp í tré og sveiflaðu þér eins og við hin. Nóg til af mangó og allt í goodí.
Aude sá að það var tilgangslaust að ræða áhyggjur sínar frekar við systur sínar. Hann stóð á fætur og teygði sig í næstu grein og vó sig upp í tréð.
Um leið og Ale ætlaði að fylgja honum fann hún fyrir sársauka í brjóstinu. Hún leit niður og sá blóð sitt drjúpa úr stóru gati í miðjum brjóstkassanum. Henni sortnaði fyrir augum og féll síðan máttvana á jörðina.
Þessi stutta frásögn er tileinkuð spjallvinum mínum Kristni Theódórs og DoctorE.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2009 | 11:54
10 einkenni Alzheimer.
Hinum skelfilega sjúkdómi Alzheimer hefur verið skotið inn í umræðuna, alltént með ósmekklegum hætti. Það hlýtur að vera einsdæmi að fyrrum "landsfaðir" þjóðar lýsi því yfir á fjölmennum og fjölmiðalvöktuðum fundi, að hann vonist til að annar nafngreindur einstaklingur sé haldinn Alzheimer.
Flesti sjúkdómar takmarka getu þína til að njóta dagsins og jafnvel framtíðarinnar. Alzheimer rænir þig ekki bara nútíð og framtíð, heldur fortíð þinni líka. Minningarnar og tilfinningarnar sem tilheyra þeim, ástvinir og hugmyndirnar sem við varðveitum með okkur um þá, hverfa í móðuna sem heitir Alzheimer. Alzheimer rænir þig að lokum öllu sem gerir þig að þér.
Sem tilraun til þess að umræðan fari ekki öll í vandlætingu á höfundi téðra ummæla, þótt hún kunni að vera verðskulduð , birti ég hér að neðan 10 algengustu einkenni sjúkdómsins sem kenndur er við Alzheimer.
Minnisleysi | ||
Fólk gleymir oft nýlegum upplýsingum og getur ekki munað þær, jafnvel þó síðar sé. Eðlilegt er að ; Gleyma stöku sinnum nöfnum og dagsetningum.
|
Að eiga erfitt með að framkvæma dagleg verk. | ||
Fólk á í erfiðleikum með að skipuleggja og framkvæma dagleg verk. það getur átt í erfiðleikum með að elda mat, velja símanúmer eða taka þátt í leikjum. Eðlilegt er að; Muna ekki endrum og eins hvers vegna þú fórst inn í herbergið eð a hvað þú ætlaðir að segja.
|
Erfiðleikar með mælt mál | ||
Fólk með Alzheimer sjúkdóminn, man oft ekki einföld orð eða nota í stað þeirra óalgeng orð þannig að erfitt verður að skiljamálfar þeirra. Það er kannski að leita að tannbursta og segir þá; "þetta sem ég set í munninn". Eðlilegt er að; Fólk lendi af og til í erfiðleikum með að finna rétt orð.
|
Að ruglast á tíma og staðsetningu. | ||
Fólk með Alzheimer getur villst í nágrenni heimilis síns, gleymt með öllu hvar það er statt og hvernig það komst þangað sem það er statt og veit ekki hvernig það á að komast heim. Eðlilegt er að; gleyma stundum hvaða dag þú átt að vera einhversstaðar.
|
Slæm dómgreind. | ||
Þeir sem þjást af sjúkdóminum eiga það til að klæða sig á óviðeigandi hátt, geta farið í margar peysur á heitum degi eða litlu sem engu í köldu veðri. Dómgreind þeirra er skert og það getur átt það til að eyða háum peninga-upphæðum í símasölumenn. Eðlilegt er að; Gera eitthvað kjánalegt endrum og eins.
|
Að eiga erfitt að hugsa rökrétt | ||
Alzheimer sjúklingar eiga venjulega erfitt með að framkvæma flókin verk, gleymir gildi talna og hvernig á að nota þær. Eðlilegt er að; Finnast erfitt að reikna saman í huganum stöðuna á kortinu þínu.
|
Að týna hlutum | ||
Fólk með Alzheimer á það til að setja hluti á mjög óvenjulega staði; straujárnið í ísskápinn eða úrið sitt í sykurskálina. Eðlilegt er að; Finna ekki lyklana eða veskið sitt af og til. |
Breytingar á skapferli | ||
Alzheimer sjúklingar geta sýnt mjög skjóttar skapferlisbreytingar. Frá ró getur grátur sótt að því og síðan reiði, án sýnilegra orsaka. Eðlilegt er að; Að finna til sorgar eða reiði af og til.
|
Breytingar á persónuleika | ||
Persónuleiki Alzheimer sjúklingar getur breyst mjög mikið. Þeir verða mjög ringlaðir, finnst annað fólk grunsamlegt, verður auðveldlega hrætt og háð öðrum fjölskyldumeðlimum. Eðlilegt er að; Persónuleiki fólks breytist lítillega með aldrinum. |
Skortur á frumkvæði | ||
Alzheimer sjúklingar geta misst allt frumkvæði. Það getur setið fyrir framan sjónvarp klukkustundum saman, sefur meira en vant er og vill ekki taka þátt í daglegum störfum. Eðlilegt er að; Verða þreyttur á vinnunni eða samfélagskyldum. |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)