Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hvað er rasismi og hvernig má uppræta hann

nullRasismi eða kynþáttahatur er viðvarandi vandamál í heiminum vegna þess að það hefur tekið sér bólfestu í hugum og meðvitund einstaklinga.

Kynþáttahatur er lærð hegðun eða atferli og tjáning þess er sprottin bæði úr hjarta og huga.

Þar af leiðandi þurfa allar aðgerðir sem miða að því að uppræta kynþáttahatur að stuðla að  sinnaskiptum fólks og breytingu á viðmóti þess. Pólitískar aðgerðir nægja ekki.  Ef að viðmót fólks breytist ekki og sú grundvallar lífsskoðun fólks að allir menn séu jafn réttháir, nær ekki fótfestu meðal almennings og stjórnmálamanna, geta risið upp til áhrifa menn og konur sem láta kynþáttahatur stýra ákvörðunum sínum.

Hvernig má uppræta kynþáttahatur. Margvísleg pressa nútíma samfélags kyndir undir kynþáttahatri.  Kynþáttahatur er fyrst og fremst ávöxtur; vanþekkingar, klisjukennds misskilnings, þeirrar áráttu mannsins að hefja stöðugt einn hóp yfir annan og skorts á andlegum gildum.   

Hinum augljóslega fölsku staðhæfingum sem kynþáttahatur byggir á verður að andmæla með sannleikanum. Hann er að allir menn tilheyra söAfríski vandinnmu fjölskyldu manna, fjölskyldu sem er sameinuð líffræðilega, samfélagslega og andlega. Samtímis auðgar hún jörðina með fjölbreytileika útlits síns.  

Ef að hver og einn er samþykkur þessum sannleika og er tilbúinn að bjóða velkominn inn í sína nánustu fjölskyldu einstakling með annan hörundslit, mun kynþáttahatur hvergi finna sér heimili framar og hverfa að sjálfu sér.

Það er nauðsynlegt að fræða okkur öll, en ekki hvað síst börnin okkar, um einingu mankynsins, sannleika sem allar greinar vísinda staðfesta.  


Hversu almenn er kynþátta-andúð á Íslandi?

landvættasupa Fyrir rúmlega 15 árum kom til landsins þekktur bandaríkur rithöfundur sem fjallað hefur mikið um fordóma og kynþáttahatur í bókum sínum. Hann hélt því fram að Ísland væri í faldi fordómaskeflu sem mundi steypa sér innan fárra ára. Ég man að mér fannst þessi ágæti maður gera helst til mikið úr hlutunum.

Eftir að hafa fylgst náið með umræðunni um útlendinga (Pólverja aðallega) á Íslandi og nú síðast umfjölluninni um flóttakonurnar frá Írak, verð ég að viðurkenna að rithöfundurinn kann að hafa haft rétt fyrir sér.

Sé bloggheimur þverskurður af Íslenskri alþýðu, er ekki annað að sjá en að kynþáttaandúð sé almenn og rótföst á Íslandi. Íslendingar hafa lengst af getað frýjað sig öllum ákúrum í þá átt að þeir séu þjóðernissinnar og kynþáttahatarar í skjóli þess að fáir aðrir en hvítir kristnir menn hafa byggt landið eða fengið hér inni. Þessi staðreynd villti um fyrir mér þegar ég stóð á því fastari fótunum að á Íslandi væri kynþáttaandúð lítil og risti grunnt þar sem hún fyndist. - Ég var líka viss um að Íslendingar mundu njóta fjarlægðarinnar frá meginlandinu á þann hátt að þeir mundu  læra af mistökum annarra þjóða og getað þannig brugðist rétt við þegar hið óhjákvæmilega gerðist, að Ísland tæki sinn verðuga sess meðal þjóða sem ættu fjölmenningarlegt samfélag. En því miður, svo virðist ekki vera.

Þótt ég sé enn viss um að meiri hluti Íslendinga sé gott og grandvart fólk hefur vofa kynþáttaandúðar náð að glepja nógu marga til þess að rödd hennar heyrist nú oftar og hærra svo jafnvel íslenskar stjórnmálahreyfingar með kosna þingmenn í sínum röðum taka undir þessa rödd.

Ég held að það sé tími til kominn fyrir alla þá sem telja að kynþáttaandúð og fordómar séu ekki eitt af því sem við viljum að börn okkar þurfi að alast upp við að skora á yfirvöld að beita sér fyrir því að alvöru jafnréttisfræðsla fari fram í skólum landsins, þar sem eining mannkynsins er áréttuð og almenn mannréttindi allra manna verði innrætt börnunum.


Er meirihluti Íslendinga virkilega á móti að þessu fólki verði veitt landvistarleyfi?

al_waleedJárnsmiður fór út til að snæða á nærliggjandi veitingastað. Hann snéri aldrei til baka. Tveimur dögum seinna voru kennsl borin á lík hans í einu líkhúsa borgarinnar. Það bar merki um pyntingar.

Verslunareigandi giftur og fimm barna faðir var hrifin frá tveimur börnum sínum úr fjölskyldubílnum af vopnuðum mönnum. Hann var seinna skotinn til bana og líki hans hent á götuna.

Leigubílsstjóri sem beið áfyllingar á bíl sinn var numinn á brott af vopnuðum mönnum. Tveimur dögum seinna notuðu mannræningjarnir farsímann hans til að tilkynna fjölskyldu hans um að lík hans væri að finna á líkhúsinu.  Líkami hans bar merki pyntinga þ.á.m. djúp sár eftir vélbor.  

 Fjórir menn, þar á meðal, tveir al palestinian_refugees_iraqbræður voru handteknir af írösku öryggislögreglunni. Nokkru seinna komu þeir fram í sjónvarpi þar sem þeir játúðu að hafa staðið að sprengingum í Bagdad. Það kom í ljós að þeir höfðu verið pyntaðir í 27 daga, - barðir með vírum, gefið raflost og brenndir með sígarettum.

Þeir játuðu að hafa staðið að sex sprengjutilræðum, þar á meðal fimm sem aldrei höfðu átt sér stað.  

Fjölskyldur þessara manna dveljast m.a í Al-Waleed búðunum.

Góða greinargerð frá Amnesty International um ofsóknir á hendur Palestínumönnum í Írak er að finna hér.

 

 

Waleedcamp10


Nýlegt myndband frá AL-WALEED flóttamannbúðunum, aðstæður, andlit og raddir flóttafólksins

Hér er að finna nýlegt myndband frá AL-WALEED flóttamannabúðunum á landamærum Íraks og Sýrlands þar sem flóttafólk frá Palestínu hefst nú við. Íslendingar hafa einir þjóða ljáð máls á að veita fólkinu landvistarleyfi. AL-WALEED flóttamannabúðirnar

Lífið í Al-Waleed flóttamannabúðunum hjá verðandi Akurnesingum

070518-refugees-iraqMargt af flóttafólkinu reyndi að yfirgefa Írak til að flýja ofbeldið sem þar er orðið daglegt brauð. Miðstéttar Palestínumenn réðu ekki yfir vopnuðum herflokkum til að vernda sig og því hröktust þeir úr landi fljótlega eftir innrás Bandamanna í Írak. Þeir voru auðveld bráð fyrir mannræningja og fjárkúgara. Fjörutíu ára þriggja barna móðir móðir;  Tisar Abdel Fadi fór frá  Baghdad til Al-Tanf eftir að eiginmanni hennar var rænt af sjúkrahúsi. Hann var síðan pyntaður og myrtur.

Fyrir marga var flóttinn för úr öskunni í eldinn því við tóku Al-Waleeda búðirnar. Þær eru sérstakt bitbein hreppspólítíkur í hinu löglausa Anbar héraði. Allir sem eiga leið um héraðið verða að borga verndartolla eða láta eftir skerf af þeim gögnum sem þeir hafa undir höndum til Sheiksins sem svæðinu ræður. Þetta gerir starf hjálparstofnana nánast útilokað. Að auki bætast við afskipti banvænnar blöndu landamæravarða, staðarlögreglu og Íraska hersins. 

Allir eru sammála að langvarandi dvöl í þessum búðum er ómöguleg. Ískaldir vetur, brennheit sumur,eldhætta, snákar, sporðdrekar, vatnsleysi, skortur á sjúkraaðstöðu, er meðal þess sem gera það ómögulegt.

Í Al-Waleed eru plastklósett í hverju tjaldi. Jörðin er samt svo hörð að hún drekkur ekki einu sinni í sig vatnið sem hellt er á hana. Skólpið rennur því opið um búðirnar. Fyrir utan auðsæja smithættu er íbúarnir afar illa á sig komnir líkamlega. Sérstök þörf er á sálfræðiaðstoð fyrir konur búðanna sem sumar eru á barmi örvæntingar. Læknar sem heimsótt hafa búðirnar hafa allir orð á slæmri andlegu heilsu íbúanna sem er bein orsök af vonleysinu og úrræðaleysinu sem heltekið hefur þá alla.

Eina uppbyggilega starfsemi búðanna er skólakennsla barna.

Engi von virðist vera um að þessu  fólki verði hleypt inn í Sýrland. Sýrlendingar hýsa þegar á eigin kostnað meira en milljón flóttamanna. 

Íslendingar eru fyrstir þjóða til að ljá því máls að hjálpa þessu ákveðna fólki með því að veita því landvistarleyfi á Íslandi. Málið hefur verið gagnrýnt af þröngum hópi sem telur að íslendingar eigi að hjálpa betur að eigin fólki áður en við aðstoðum aðra. Í orðum þeirra liggur að þrátt fyrir að Íslendingar séu ein af auðugustu þjóðum veraldar, hafa þeir ekki efni á að veita fólki í öng hjálp. Hverjir eru þá aflögu færir má þá spyrja?

Þá hefur einnig heyrst sú skoðun að hjálp við þetta fólk mundi betur gagnast því á svæðinu sem auðvitað er fásinna þar sem svæðið er óbyggilegt.

Það er því ekki að furða að það læðist að manni sá grunur að þeir sem eru á móti því að taka á móti þessu flóttafólki, tali gegn komu þess til landsins af enn annarlegri ástæðum en heimóttaskap, fáfræði eða óbilgirni.

 


Saga úr stríðinu...af flóttakonu

 Þar til að stríðið barst til heimabæjar hennar, lifði Móna Ghunnam hamingjuríku lífi. Hún átti ástríkan eiginmann og fjögra ára dóttur. Í nágrenni við hana bjuggu foreldrar hennar og fjórir bræður.

Árið 2003 varð sprengjuflaug móður hennar og föður að bana. Hún grandaði líka bræðrum hennar fjórum og lítilli dóttur hennar. Sjálf lamaðist hún að hluta.

Eiginmaður hennar, lögreglumaður, reyndi að fá aðhlynningu handa henni á vestrænu sjúkrahúsi en gat sjálfur ekki sætt sig við bæklun hennar. Hann kastaði henni á götuna og flutti inn til nýrrar eiginkonu.

Móna sem hafði verið kennari var ein þeirra 750.000 Íraka sem lentu í hrakningum og enduðu á götum Amman borgar í Jórdaníu. Hún býr í eins herbergis kjallaraholu án hita, vatns eða salernis.

Flestar stundir grúfir hún sig upp að vegg í herberginu og grætur. Hún er ekki lengur, móðir, eiginkona, dóttir eða systur.

Mónu hefur verið boðið að setjast að í landinu sem grandaði fjölskyldu hennar en hún er hikandi.

"Ég trúi ekki lengur að ég verði nokkru sinni hamingjusöm aftur" segir hún."Skömmin er yfirþyrmandi, ég var skólakennari nú er ég betlari. Síðasta minningin af dóttur minni er að hún var að leika sér á meðan aðrir í fjölskyldunni stigu út veröndina til bæna þann 31 mars. 2003. "

"Passaðu að detta ekki" sagði hún og brosti við dóttur sinni um leið og hún snéri sér í átt til Mekka.  Það næsta sem hún vissi var hún stödd á sjúkrahúsi með þrjú sprengjubrot í höfðinu, heyrnarlaus á hægri eyra og lömuð vinstra megin líkamans.

Hún spurði eftir dóttur sinni og fjölskyldu en fékk engin svör. Eftir þrjár aðgerðir hélt hún heim. Eiginmaður hennar sagði henni að öll fjölskylda hennar væri látin. "Það var erfiðasti dagur lífs míns. Mér fannst eins og ekkert væri eftir" sagði Móna um þann dag.

Hann sagði að best væri að þau seldu hús sitt og flyttust frá þorpinu og settust að í Austurríki. Móna gaf eiginmanni sínum leyfi til sölunnar. Nokkru seinna sagðist hann ekki hafa neinn áhuga á að yfirgefa Írak og lýsti því yfir að hann vildi eignast aðra konu. "Hann fórnaði mér" sagði hún með tárin flóandi niður kinnarnar."Hann fékk húsið mitt og launin mín sem hann notaði til að kaupa nýjan bíl. En nú var ég þurfalingur, óvinnuhæf, byrði".

Móna gaf öll föt dóttur sinnar og leikföng. "Hárspennurnar, fyrsta afmæliskertið hennar, litina hennar, öll mjúku leikföngin sem sum hver hún hafði ekki einu inni leikið sér enn að".

"Ég pakkaði niður í ferðatösku og fór".

Móna dvaldi um hríð hjá aldraðri konu sem bjó í grenndinni, eða þar til maður hennar kom með prestinn til að skilja við hana. Hún tók hönd eiginmannsins og kyssi fingur hans og bað hann um að skilja ekki við sig. Hann kippti til sín hendinni og sagði að hún væri ekki lengur kona sín og hefði því ekki rétt til að kyssa hann framar.

Fjarlægir ættingjar hennar töldu sig ekki geta tekið á móti henni í því ástandi sem hún var´og það eina sem beið hennar var vergangur.

"Ég seldi það sem ég átti, jafnvel giftingarhring móður minnar og hélt af stað út í buskann."

"þegar ég kom til Jórdaníu dvaldist ég á gistihúsi þar til því var lokað. Nú bý ég í þessu herbergi og eigra þess á milli um göturnar hlægjandi. Ég veit ekki af hverju ég er hérna eða hvert ég er að fara".

 


Hinar ósnertanlegu....

Írakar eru nú í þriðja sæti þeirra þjóða og þjóðarbrota sem eru á vergangi í heiminum. Aðeins Palestínumenn og Súdanir eru fleiri. Tala landflótta Íraka á eftir að aukast þar sem engin merki eru um að styrjaldarástandinu í landinu sé að linna.

Talið er að 2.5 milljónir Íraka séu landflótta í Sýrlandi og í Jórdaníu. Í báðum löndum er einnig fjölda landflótta Palestínumanna að finna. Í Líbanon, Egyptalandi, Íran og Tyrklandi fjölgar Írökum einnig jafnt og þétt. Í þessum löndum sem mest standa straum af kostnaðinum við flóttamennina sjálf, eru mennta og heilbrigðis-kerfin þanin til hins ýtrasta, vatnsskortur er mikill og þjónusta við sorphirðu og skólp hefur riðlast að því marki að heilsu fólks stafar hætta að. Þrátt fyrir að þessi mál hafi verið í sviðsljósi frétta í nokkur ár, vantar mikið á að brugðist hafi verið við þessum vanda sem skyldi af umheiminum.

Einn er sá hópur meðal flóttafólksins frá Írak sem hefur all-mikla sérstöðu. Þessi hópur eru konur og börn landflótta Palestínuaraba sem búið hafa í Írak, sumt hver allt frá árinu 1948. Sadam Husayn hlóð nokkuð undir þetta fólk og það var því fljótlega talið til eins þjóðarmeinanna eftir að honum var steypt af stóli. Verst úti af þessum hópi  urðu ekkjur og eiginkonur flúinna eða dáinna Palestínumanna. Þær voru  algjörlega úthrópaðar strax og fundamentalisminn settist að í landinu undir áeggjan klerka beggja megingreina Íslam. Þær flúðu heimili sín í Bagdad og hafa dvalist í tjaldbúðum frá árinu 2006 við landamæri Sýrlands. En þessar einstæðu mæður komast hvergi, eiga ekki neitt og eru álitnar dreggjar samfélagsins í Írak. Þær eru "hinar ósnertanlegu" Íraks.

Hluta þessara kvenna er sagt að íslendingar séu tilbúnir til að hjálpa og jafnvel bjóða hér búsetu. Það er einkar viðeigandi þar sem íslendingar studdu dyggilega þær ákvarðanir sem urðu til þess að þetta fólk varð fyrst landflótta frá heimalandi sínu Palestínu og síðan aftur úr landinu sem það hafði flúið til, Írak.

Íslendingar vilja sem sagt gera einhverja yfirbót sem er öllum hollt að gera af og til. En samt heyrast líka raddir um að þessar konur séu betur settar heima hjá sér og að þessum krónum sem á að verja til að koma þeim fyrir hér, sé betur varið í að byggja upp heimili þeirra í eign landi. Þeir sem þannig tala ættu endilega að koma með nákvæmari tillögur. Ég er handviss um að konur þessar yrðu því fegnastar að fá að snúa aftur til heimila sinna sem nú eru sum hver í eigu gyðinga í miðri Jerúsalem. 



 


Biðjið fyrir Burma, börnin þar deyja á meðan pólitíkusarnir rífast.

 may-cyclone-message-2

Á meðan ég skrifa þessar línur deyja nokkrir tugir Burmabúa, meiri hluti þeirra eru börn. Hörmungarnar sem gengu yfir Burma fyrir nokkrum dögum gætu alveg eins hafa átt sér stað á Mars. Viðbrögð stjórnmálamanna Vesturlanda eru að velta því fyrir sér hvernig þessar náttúrhamfarir geta mögulega breytt pólitísku landslagi landsins.

Stjórnvöld í Burma hafa aðeins leyft fáeinum löndum óheft aðgengi til hjálparstarfa og á meðan þjarka auðugu þjóðirnar um pólitík. Kínverjar hafa leyfi til hjálparstarfa en það er óhugsandi fyrir Evrópuþjóðirnar og USA að beina hjálp sinni í gegnum þá.

Tillögur um að varpa niður á flóðasvæðin hjálpargögnum ná ekki fram að ganga af ótta við að her landsins nái í hjálpargögnin og noti til eigin þarfa. Allar ábendingar um að héruðin séu lokuð af bæði fyrri her og öllum öðrum og að á þeim sé enginn nema þeir sem á þurfa að halda, eru hafðar að engu og afhjúpa pólitískt stýrðan hjálparhug Vesturlanda.

Tala látinna er nú komin yfir 100.000. Tvær milljónir manna eru á vergangi og hafa ekkert til að leggja sér til munns annað en það sem finna má á víðavangi. - Þrátt fyrir að margir séu að vona að þetta "vandamál" hverfi bara og að sjónvarpið geti aftur einbeint sér aftur að dægurmálunum, munu eftirmál þessara hörmunga verða langdregin. Héraðið sem varð harðast úti er mikið hrísgrjónaræktarsvæði. Öll uppskeran eyðilagðist. Hrísgrjón eru ein helsta útflutningsvara Burma og eyðileggingin mun hafa áhrif á hrísgrjónaverð heimsins og þar af leiðandi á aðra matvöru einnig. 

Til að koma í veg fyrir að ótölulegur fjöldi Burmabúa svelti ekki í hel þarf að skipuleggja á næstu klukkustundum og dögum loftbrú til Burma með matvælum sem kasta á niður á svæðið til íbúa þess.

Mér segri svo hugur að það verði ekki gert.

Biðjið fyrir íbúum Burma, börnin þar deyja á meðan pólitíkusarnir rífast.

 

 

 


Matthías Jochumsson og hinn persneski Messías

Stundum eru tilviljanirnar svo undarlegar að það er ekki furða að það hvarfli að fólki að ekki sé um hreinar tilviljanir að ræða.

Einn af fyrstu íslendingunum sem tóku bahai trú var búfræðingurinn, rithöfundurinn og að marga mati, sérvitringurinn Jochum Eggertsson. Jochum var líka þekktur undir skáldanafninu Skuggi. Jochum var barnabarn Matthíasar Jochumssonar þjóðskálds. Jochum arfleiddi bahai samfélagið á Íslandi að landareiginni Skógum í Þorskafirði, fæðingarstað Matthíasar og hefur þar verið ræktaður allmikill skógur.

Það sem fæstir vita er að Matthías Jochumsson var fyrsti Íslendingurinn sem heyrði um bahai trúna. Matthías sótti heimssýninguna í Chicago 1893 þar sem Bahai trúin var í fyrsta sinn kynnt á vesturlöndum. Kynninguna flutti Rev. Henry Jessup sem hafði verið trúboði í Sýrlandi. Ræða hans var síðan gefin út í bók sem innihélt samantektir af þeim ræðum sem haldnar voru á "Alheimsþingi Trúarbragða" eins og þessi hliðarráðastefna heimssýningarinnar var kölluð. Bók þessa er að finna í bókasafni Matthíasar. 

Fyrsta kynning á bahai trúnni hér á landi fór fram árið 1908. Það var Þórhallur Bjarnason biskup sem þá reit grein í Kirkjublaðið þar sem hann rekur helstu kenningar trúarinnar, fer lofsamlegum orðum um hana og talar um upphafsmann hennar sem hinn persneska Messías. Heimildir Þórhalls eru ókunnar, en vitað er að Matthías og Þórhallur voru mestu mátar.

Bahai samfélagið á Íslandi fékk fyrst vitneskju um þessa grein Þórhalls þegar að Kristján Eldjárn þáverandi Forseti, benti nokkrum bahaium á hana þar sem þeir voru í formlegri  heimsókn á Bessastöðum.

 


Stighækkandi opinberun, tengslin milli manna og Guðs samkvæmt Bahai kenningum

Kjarninn sem enginn getur þekkt

Til þess að fjalla um hvernig bahá'íar líta á tengslin milli Guðs, trúar og mannkyns, er best að byrja á skilningi þeirra á Guði. Þar er frumatriðið að gera sér grein fyrir að Guð er óskiljanlegur. Bahá'u'lláh kenndi að Guð sé skapari alheimsins og að hann hafi stjórn hans í hendi sér. Eðli hans er án takmarkana, óendanlegt og almáttugt. Það er því ógerlegt fyrir dauðlega menn, með takmarkaðan skilning og getu, að átta sig á eða skilja milliliðalaust hinn guðlega veruleika, tilgang hans og á hvaða hátt hann vinnur.

Þó að Guð sé í kjarna sínum óþekkjanlegur hefur hann valið að gera sig kunnan mannkyninu gegnum guðlega boðbera hvern eftir annan. Þessir boðberar hafa verið eini vegurinn til þekkingar á Guði og í þeirra hópi eru stofnendur trúarbragða heimsins; Móses, Krishna, Zaraþústra, Búdda, Kristur og Múhameð svo að nefndir séu þeir sendiboðar sem best eru þekktir.

Boðberarnir eru, með orðum Bahá'u'lláh, „opinberendur Guðs“. Opinberendurnir endurspegla á fullkominn hátt eigindir Guðs og eru hreinir farvegir fyrir vilja hans mönnunum til handa. Kenningin að Guð hafi sent röð sendiboða til að fræða mennina er kölluð „stighækkandi opinberun“. Þessu má líkja við fræðslu í skóla. Eins og börn byrja með einfaldar hugmyndir í grunnskóla og fá síðan smátt og smátt flóknari verkefni og viðfangsefni þegar lengra er komið þannig hefur mannkynið verið frætt af röð sendiboða. Á hverjum tíma hafa kenningar sendiboðanna um Guð ekki ráðist af þekkingu þeirra heldur þroskastigi okkar mannanna.

Tvíþætt staða

Opinberendur Guðs hafa tvíþætta stöðu. Annars vegar eru þeir guðlegar verur sem spegla fullkomlega vilja Guðs. Hins vegar mannverur, sem ganga í gegnum fæðingu, sjúkdóma, þjáningar og dauða. Þeir hafa mismunandi efnisleg einkenni og tala til mannkynsins á mismunandi skeiðum sögunnar. Þessi mismunur veldur menningarlegri aðgreiningu milli trúarbragða sem stundum dylur eðlislæga einingu þeirra.

„Sérhverjum spámanni, sem Almættið, hinn óviðjafnanlegi Skapari, ákvað að senda til okkar á jörðu, hefur verið treyst fyrir boðskap og falið að koma fram með þeim hætti, sem best þjónar þörfum þess tíma sem hann birst á“, sagði Bahá'u'lláh.

En í öllum meginatriðum hefur þó hinn andlegi boðskapur sendiboða Guðs verið hinn sami á öllum tímum. Allir hafa þeir lagt áherslu á mikilvægi þess að elska Guð og hlýðni við vilja hans og á ástina til mannkynsins. Þó að orðin hafi verið breytileg, hafa þeir allir kennt „gullnu regluna“, að menn skuli koma fram við náunga sinn eins og þeir vilja að komið sé fram við þá.

Bahá'u'lláh ritaði: „Vitið með vissu að kjarni allra spámanna Guðs er einn og hinn sami. Eining þeirra er algjör. Guð, skapari vor, segir: Það er engin aðgreining af neinu tagi meðal flytjenda boðskapar míns.“

Fyrir tilstilli guðlegrar opinberunar upplýsa boðberar Guðs mannkynið um vilja Guðs. Þetta ferli opinberunar hefur verið skráð í helgiritum trúarbragðanna, helgiritum sem ná allt frá Torah til Kóransins og fela í sér rit hindúa, búddista, kristinna manna og rita Zaraþústra. Þessar rit hafa að geyma það sem mannkynið hefur skráð um opinberað orð Guðs.

(Tekið af síðu Bahai samfélagsins á Íslandi)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband