Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Spámaðurinn sofandi


  Í dag eru til hundruð nýaldarlækna og bókstaflega þúsundir sjúklinga um allan heim sem nota lækningaaðferðir sem þróaðar voru af manni sem hafði enga læknisfræðimenntun og framkvæmdi árangursfyllsta starf sitt meðvitundarlaus. Þessi maður hét Edgar Cayce hinn sofandi spámaður Ameríku, einn af almerkilegustu sjáendum 20 aldarinnar.

Edgar Cayce var fæddur á bóndabæ nálægt Hopkinsville í Kentucky-fylki í Bandaríkjunum 18 mars 1877. Fyrstu teikn um skyggnigáfu hans komu snemma í ljós. 7 ára að aldri sagði hann foreldrum sínum af fundum sínum með látnum afa sínum. Og ýmislegt bendir til þess að hann hafi haft sýnir af engli. Cayce gekk ekki í skóla nema fram að áttunda bekk og 16 ára var hann farinn að vinna í bókabúð. Eins og margir ungir Ameríkanar lék hann hafnarbolta í frístundum. Eitt sinn við slíkan leik fékk hann mikið högg á bakið sem gerði hann órólfæran. Á meðan hann þjáðist í rúminu skipaði hann móður sinni skyndilega að útbúa og bera á eymslin frjókornaseiði sem hann tilgreindi, sem hún og gerði. Morguninn eftir reis Cayce á fætur og kenndi sér einskis meins. Hann mundi þó ekki eftir neinu af þessari reynslu sinni, sem seinna kom í ljós að átti eftir að verða einkennandi fyrir líf hans.

Árið 1898 þegar Edgar var 21 árs gerðist hann sölumaður fyrir bréfsefnisheildsala og með honum hafði vaknað áhugi á ljósmyndun, en jafnframt var hann á ystu nöf með að verða einn af fremstu læknamiðlum sem heimurinn hefur þekkt. Þá þróun má rekja til veikinda sem hann átti sjálfur við að stríða og honum flaug í hug að lækna mætti með aðstoð dávalds. Hann fór á fund eins slíks sem ekki tókst samt að lækna meinið. En í einum af dásvefninum, í djúpu dái, tók Cayce skyndilega að lýsa meðali sem lækna myndi mein hans. Læknislyfið hreyf og hann fór að velta því fyrir sér hvort hann gæti endurtekið leikinn og orðið öðrum til góðs.

Áður en leið á löngu varð honum mögulegt að losa sig við þjónustu dávaldsins því hann gat komist í dásvefn hjálparlaust og af eigin rammleik.
 

Lækningar Cayces eru allt of margar og vel sannaðar til að geta kallast umdeilanlegar í dag, en hann fékkst ekki við trúarlegar lækningar í þeim skilningi sem það orð er notað. Hann stundaði ekki handa-yfirlagningar eða tók fólk í meðferð. Hæfileikar hans fólust að miklu leiti í að sjúkdómsgreina, sem hann gat oft á tíðum gert án þess svo mikið sem berja sjúklinginn augum. Oft á tíðum stönguðust greiningar hans algjörlega á við hefðbundnar læknagreiningar. En aftur og aftur reyndist Cayce hafa rétt fyrir sér og læknarnir rangt. Meðhöndlunaraðferðir hans voru ýmiskonar, allt frá hefðbundnum laxerolíukúrum og smáskammta-læknisaðferðum, til frekar ótrúlegra læknisaðferða eins og inntöku á sængurmaurasafa.
 

En eitt höfðu aðferðirnar þó sameiginlegt, þær virkuðu. Þegar hann lést árið 1945 hafði hann meðhöndlað mörg þúsund sjúklinga með góðum árangri, sem oft hafði verið vísað til hans af þeim sem störfuðu í læknastétt. Skyggnin sem lá að baki lækningastarfsemi Cayces leiddi hann inn á undarlegar leiðir. Eitt sinn hafði hann t.d. upp á morðingja með hæfileikum sínum. Í því tilfelli féll á hann sjálfan grunur um að hafa framið morðið því einn af rannsóknarlögreglumönnunum sem málið rannsökuðu trúði ekki á skyggnigáfu og var þess fullviss að vitneskja Cayces gæti aðeins stafað af því að hann hefði sjálfur framið morðið.
 

Frá sjúkdómsgreiningum sínum fór Cayce að stunda lífgreiningu, það er, lagði mat á framtíð sjúklingana. Vegna þess að í vöku var Cayce ákaflega bókstafstrúaður kristinn maður olli það honum talsverðri truflun, þegar honum varð ljóst að í dái gat hann greint frá fyrri lífum einstaklinga og sett fram fyrnalanga sögu mannskynsins sem náði langt aftur til hins forna meginlands Atlantis.


Adhan, bænakall múslíma sem íslensk stjórnmálakona kallar "gól"

Adhan eða bænakall múslíma hefur verið í umræðunni upp á síðkastið. Bænakallið fer fram fimm sinnum á dag og er kallað af sérstökum bænakallara (Muezzin)  úr bænakallsturninum (minaret) sem jafnan er byggður utan á moskur (bænahús) múslíma. Það var Múhameð sem ákvað að nota skyldi mannsröddina til bænakvaðningar, frekar en klukkur eins og hinir kristnu gera og gerðu eða horn líkt og gyðingar gerðu. Sagt er að blökkumaður og fyrrum þræll Bilal ibn Ribahað nafni hafi verið fyrstur til að kalla til þessarar bæna. Bænakallið sjálft eru 7 eða átta setningar, eftir því hvort um er að ræða Shi´a eða Sunni moskur.

Bænakallið er tónun sem fylgir afar mótuðum reglum og setningafræði. Lengri og lengri þögn fylgir hverri setningu. Á helgidögum er algengt að tveir kalli út samtímis.

Bænakallið hljómar svona í lauslegri þýðingu.

Guð er mestur.

Ég ber þess vitni að enginn er drottin nema Guð.

Ég ber þess vitni að Múhameð er boðberi Guðs.

Hraðið ykkur til bæna.

Hraðið ykkur til velfarnaðar.

Hraðið ykkur til hins besta (þessari línu er bætt við hjá Shi´a múslímum)

Guð er mestur.

Það er enginn drottin nema Guð.

Það eru til leiðir til að egna fólk upp og misbjóða því á marga vegu.  Ein aðferðin er að smána trúarhefðir þess og kalla það sjálft uppnefnum.

Ég var afar hissa að sjá á bloggi þekkts forsprakka eins af stjórnmálaflokkum landsins kalla bænakall múslíma "gól" og "óhljóð" og taka undir með fólki sem nefnir bænakallið "hávaða" og múslíma sjálfa "hyski." - Þetta gerir viðkomandi á bloggsíðu sem er sífellt að bjóða fólki að ganga í flokkinn og hefur sérstakt innskráningarkerfi á síðunni til þess. - Fyrir utan að vera í stjórnmálum rekur þessi aðili víst einhverjar verslanir í landinu. Það er ekki hægt að skilja á viðmóti hans annað en hann sé að afþakka viðskipti við þetta "gólandi hyski." Hann þarf alla vega ekki að undra þótt múslímir landsins og jafnvel þeir sem láta sig mannréttindi almennt varða, beini viðskiptum sínum annað.


Atlantis

Hvernig varð goðsagan til.

Í kringum árið 590 fyrir Krist lauk gríski stjórnmálamaðurinn Solon við röð pólitískra og efnahagslegra umbóta í Aþenu. Til að gefa þeim tóm til að skjóta rótum fór hann í langferð til Egyptalands. Nákvæm lýsing á ferðalagi hans hefur því miður ekki varðveist en talið er að Solon hafi heimsótt stjórnarfarslega höfuðborg Egyptalands, Sais, sem stóð aðeins 16 km frá Naucratis einu Grísku hafnarborg landsins. Heimsókn Solons til Sais var söguleg. Hann hafði mikinn áhuga á liðnum tímum og gerði sér far um að ræða við fornfræðinga, skjalaverði og sagnfræðinga og ekki hvað síst, við presta gyðjunnar Neith.
Einn af þeim sagði honum einkennilega sögu af styrjöld sem geisað hafði í fornöld og af meginlandi sem sokkið hafði í sæ. Það lítur út fyrir að Solon hafi orðið djúpt snortinn af frásögninni sem honum var sögð til að sanna að sagnfræðileg gögn Egyptalands næðu lengra aftur en þau grísku.Ýmislegt bendir til þess að Solon hafi ritað hjá sér minnispunkta, ef til vill með það fyrir augum að setja saman skáldsögu um efnið þegar hann kæmi heim. Ef svo var tókst honum það ekki, en hann endursagði frásögnina góðum vini og ættingja, Dropidesi. Dropides sem var kominn fast að níræðu, sagði söguna barnabarni sínu Critiasi sem sagði hana sínu barnabarni Critiasi öðrum. Critias hinn yngri var náskyldur Platoni, manni sem lýst hefur verið sem mestum allra grískra heimspekinga. munnmæli þessi urðu heimildir Platons að frásögn sinni af Atlantis. Ef til vill hafa fylgt frásögn Critiasar minnisblöð Solons en þeirra er hvergi getið. Seinna ákvað Platon að deila þessum heimildum með heiminum og gerði það í tveimur ritverkum, Timaeus og Critias. Þó sagan væri brotakennd, varð hún grundvöllur að heilum iðnaði sem þrífst vel enn þann daginn í dag og er fyrsta og elsta heimild okkar um Atlantis.

Í Timaeusi eru frásagnarbrotin heillegri og hefjast á lýsingu hugmynda Egypta um endurtekningu hörmunga. Prestar gyðjunnar Neith skýrskota til grísku arfsagnarinnar um Phaethon sem eyddi öllu á jörðinni með eldi vegna þess að hann missti stjórn á vagni föður síns Heliosar. Þó að um táknræna lýsingu væri að ræða, fullyrti presturinn að hér væri raunsönn lýsingu á ferð um hvernig himinhnettirnir hefðu rekist saman á himninum og valdið mikilli eyðingu á jörðinni. Hann gefur einnig í skin að slíkir atburðir eigi sér stað með vissu millibili í alheimssögunni. Presturinn heldur síðan áfram að segja sögu forfeðra Salons Aþenubúanna, sem Egyftaland geymdi heimildir um allt að 9000 ár aftur í tíman. Á þeim tímum, sagði hann, var til í Atlantshafi, utan súlna Herkúlesar, eða Gíbraltar eins og þær eru kallaðar í dag, eyja nokkur stærri en Libya og Asía til samans. Yfir henni og fjölda smáeyja, ríkti voldugt herveldi hvers yfirráð teygði sig allt að ströndum norður Ítalíu. Herveldi þetta réðist inn í Egyptaland og Grikkland níuþúsund árum fyrir tíma Solons. Þegar styrjöldin braust út féll Egyptaland en borgríki Aþeninga héldu velli gegn ótrúlegum líkum og tókst að síðustu að snúa styrjöldinni sér í hag og frelsa nokkur af þeim ríkjum sem sigruð höfðu verið. Þetta voru erfiðir tímar fyrir Atlantis. Í kjölfar hernaðarósigrana gengu yfir heimaeyju þeirra svo öflugar jarðhræringar og flóð að allar herdeildir þeirra sukku í jörðu og sjálf eyjan Atlantis hvarf í djúp hafsins.
Samkvæmt frásögn Solons eins og hún er höfð eftir Platon gengu hörmungarnar yfir á einum degi og einni nóttu, og ollu því að Atlantshafið varð í langan tíma ósiglanlegt vegna misturs og leðju.

Í bókinni Critas útskýrir Plató arfsögnina um upphaf Atlantis og segir frá því hvernig guðirnir skiptu jörðinni í hluta til þess að skapa mannkynið. En lýsing hans á meginlandinu og íbúum þess líkist meira sagnfræði.
Hálfa leið eftir allri eyjaálfunni var frjósöm strandlengja. Nokkrum mílum í burtu í miðju eyjarinnar stóð lágt fjall, kannski ekki meira en hæð, en á henni byggðu eyjaskeggjar sína elstu borg. Borgin var umkringd þremur dýjum, sem arfsögnin sagði að guðinn Póseiton hafi grafið. Gnægð var af gróðri og dýralífi sem virðist hafa verið svipað og gengur og gerist í hitabeltinu.
Þar var unninn úr jörðu óþekktur málmur,oricalsinum, sem lýst er sem verðmætari en nokkuð nema gull. Borgin á hæðinni varð að höfuðborg landsins. Skurður var grafinn frá sjó að ysta díki og höfn í miðju landi búin til. Díkin sjálf voru brúuð á mörgum stöðum og margir minni skurðir grafnir milli þeirra og inn og útgönguleiðir varðaðar með turnum. Veggir voru reistir í kringum hvert díki. Ysti veggurinn var lagður kopar, miðveggurinn tini og innsti veggurinn oricalsinum. Í borginni mátti finna almenningsböð, jafnt sem einkaböð, gosbrunna og rennandi vatn, sem hitað var upp, og jafnvel reiðvelli. Úr grjótnámu ekki langt frá var höggvinn steinn svartur, rauður og hvítur sem notaður var í allar byggingar. Fyrir utan borgina fóru flutningar og áveita eftir þéttu neti skurða, sem voru svo stórir að Plató átti auðsjáanlega erfitt með að trúa að þeir hefðu verið gerðir af manna höndum.
Stjórnarfarslega var Atlantis samband 10 konungsdæma sem hvert um sig var sjálfstætt ríki en samt bundið saman með ákvæðum um að hvert þeirra skyldi útvega hermenn til að verja veldið í heild. Meirihluti atkvæða hinna tíu konunga var nauðsynlegur til þess að hægt væri að dæma Atlantisbúa til dauða.
Frásögn Platós kynnti undir ímyndunarafl bæði þeirra sem lásu og skrifuðu um hana. Nýleg áætlun gerir ráð fyrir að yfir 1000 bækur hafi nú verið gefnar út um Atlantis og er sú áætlun talin hógvær. Þessi ritverk má flokka í þrjá meginflokka. Þann sem leitast við að sanna að Atlantis hafi verið til, þann sem styður og lýsir lifnaðarháttum og menningu Atlantis og að síðustu þann sem afneitar því að Atlantis hafi verið til í raun og veru en leitar að öðrum sögulegum skýringum á arfsögninni.
Ein af þeim bókum sem fyllir fyrsta flokkinn og er ein af eldri útgefnu bókunum um efnið, er Atlantis, The Antediluvian World eftir Ignatius Donnelly. Donnelly sem gaf út bók sína árið 1882 var heillaður af líkum menningar- og tungumálaþáttum forn-Egypta og þeirra sem byggðu suður-Ameríku til forna. Hann benti á að báðar þjóðirnar hefðu byggt píramída, báðar smurðu lík sín og báðar réðu yfir háþróaðri stjarnfræði.
Arfsagnir beggja vegna Atlantshafsins geyma líkar frásagnir, jafnvel staðarnöfn eru lík. Til að skýra þessar sameiginlegu þætti gerði Donnelli ráð fyrir Atlantískri menningu sem breiddist samtímis út til austurs og vesturs þegar eyálfan sökk. Annan flokkinn fylla meðal annars rit Maddam Blavanský sem leit á sögu Atlantis sem hluta af 18 milljón ára sögu mannkynsins og rit Edgar Cayce hins fræga Ameríska sofandi spámanns, sem dró upp myndir af Atlantis sem í mörgum tilvikum líkjast stórbrotinni vísinda-skáldsögu. Cayce trúði því ásamt fjölda annarra dulrænna rithöfunda að í raun hefði Atlantis sokkið þrisvar og þeir atburðir sem Plató lýsir hefðu gerst þegar Atlantis sökk í þriðja og síðasta sinn. Í reynd hefðu þá síðustu leifar mikillar heimsálfu, sem náði frá Mexíkóflóa yfir í Miðjarðarhaf, verið að sökkva í sæ. Það eina sem eftir standi pp úr sé hluti Ameríku, Vestur-Indíum og Bahama-eyjar.Cayce kenndi að á Atlantis hefði þrifist hátæknivædd menning sem grundvallaði vísindi sín á kristöllum, vísindum sem nú eru týnd. Það eru greinilegar vísbendingar um það í ritum Cayces að síðustu hörmungarnar sem gengu yfir Atlantis hafi verið af mannavöldum og orsök mikils vopnabúnaðar sem nota átti til þess að frelsa kynþátt þræla undan tilbúninni og stökkbreyttri herraþjóð.
Þriðja flokkinn fylla bækur eins og bókin End of Atlantis eftir Prófessor Luce, sem bendir á að frásögn Platós af hinni týndu álfu eigi margt sameiginlegt með því sem við vitum um hábronsaldar menningu Aegeana. Siðmenning sú blómstraði löngu fyrr en Egypsku heimildirnar segja til um, en nútímafræðingar halda að ef til vill hafi Plató einfaldlega ruglast á eða ranglega þýtt níuþúsund ár fyrir níuhundruð. Ef svo er hafa hörmungarnar sem eyddu Atlantis átt sér stað í kringum 15oo fyrir Krist frekar en 9600 f.K. Svo einkennilega vill til að sé reiknað með tímasetningunni 15oo f.K. ber hana upp á þann tíma er ótrúlegar hamfarir sannanlega eyddu miklu heimsveldi, þ.e. Minoan-veldinu á eyjunni Krít. Hamförunum ollu mikið gos í eldfjalli á eynni Santorin 70 mílur norður af Krít. Þetta eldgos er talið hafa verið 5 sinnum öflugra en þegar eyjan Krakatoa sprakk í loft upp og sendi flóðöldur þvert yfir Kyrrahafið á síðustu öld. Öldur frá Santorin skullu án efa á Krít og ollu gereyðingu slíkri að hið gamla heimsveldi náði sér aldrei aftur á strik.

 


Helena Patrovanía Blavatský

Þegar að rússneska skáldkonan Helena Fadeyev lá fyrir dauðanum aðeins 27 ára að aldri varði henni að orði: "Ef til vill er þetta fyrir bestu, mér verður alla vega forðað frá því að vita um örlög Helenu".


  Helena sú sem hún átti við var dóttir hennar, Helena Parovanía Hahn, óstýrilátt stúlkubarn sem fædd var að því er sumir segja löngu fyrir tímann þann 30 júlí 1831. Örlög Helenu urðu þegar á allt er litið vægast sagt undarleg. Hún hlaut nokkura uppfræðlsu í tungumálum og tónlist frá einkakennslukonu sem sagt er að hafi haft orð á hæfileikum Helenu á sviðum vísinda og bókmennta. En þrátt fyrir aðdáun hennar á Helenu varð samband þeirra þvingað.

Einhvern tíma á árinu 1847 komst pirringur kennslukonunnar í hámark og varð til þess að hún hrópaði á nemanda sinn að enginn mundi nokkru sinni fást til þess að giftast henni, jafnvel ekki hinn "plómuvana hrafn", Nikifor Blavatský sem þá var varafylkisstjóri í Erivan héraði. Helena ákvað að afsanna fullyrðingu lagskonu sinnar og þann 7. júlí 1848 varð hún að rjóðri brúður herra Blavatskýs.

Vera má að Herra Blavatský hafi í raun verði plómulaus eins og viðurnefni hans gaf til kynna, því hjónabandið varð aldrei fullnað. Þó verður að gæta sanngirni í því efni, Helena gaf honum lítinn tíma í að reyna því daginn eftir afhöfnina hljópst hún á brott með það fyrir augum að halda til Persíu, en var snúið til baka af varðflokki Kósakka.

Þremur mánuðum seinna hljópst hún aftur á brott og í þetta sinn til heimilis afa síns og ömmu. Fullkomlega ómyndugur til að takast á við þessa böldnu ungu konu ákvað afi hennar að senda hana til föður hennar í Sankti Pétursborg. Hluta ferðarinnar varð að fara sjóleiðis í bát. Af hræðslu við að verða send aftur til bónda síns tókst Helenu að telja skipstjórann á að setja þjóna sína á land í Kerch en sigldi síðan sjálf áfram með honum til Konstantínópel.

Erfitt er að henda reiður á með einhverri vissu hvað gerðist næst. Sérlegur ævisöguritari Helenu Blavatskýs, frú A P Sinnet heldur því fram að Helena hafði í Konstantínópel hitt greifafrú sem hún ferðaðist með til Grikklands og Egyptalands. En frændi hennar Witte greifi segir að hún hafi gerst sýningarstúlka í fjölleikahúsi og tekið upp samband við Ungverksan söngvara Agardi Metrovitch að nafni. Metrovitch þessi ku hafa flutt hana með sér til Evrópu og þar féllst hún á að giftast honum, auðsjáanlega búin að gleyma að hún var þegar gift.

Sennilega hefur þetta minnisleysi orðið að viðvarandi vandamáli því nokkrum árum seinna fékk afi hennar bréf frá enskum herramanni sem virtist sannfærður um að hann ætti að giftast Helenu. Af þeim bréfaskriftum er hægt að draga þær áætlanir að Helena var stödd i Ameríku sumarið 1851 og sótti meðal annars Voodoo-galdra athafnir í New Oleans.

Árið 1851 mun hafa verið gott ár fyrir grósku hvers kyns dulrænna fyrirbrigða í Ameríku, og það ár hittir Helena í fyrsta sinn holdi klæddan "kennara sinn", "öldunginn", eða "bróðurinn", sem verið hafði verndari hennar og gætt hennar í alvarlegum skakkaföllum á ærslafullum yngri árum. Kennari þessi var dulinn meistari og birting hans olli verulegum breytingum í lífi Helenu.

Með þennan öfluga leiðbeinanda á bak við sig lærði hún smá-saman að beita andlegum kröftum sínum. Hún ferðaðist til Himalajafjalla og nam þar austurlenskar dulrænar hefðir undir leiðsögn lærðra Lama-presta og sneri síðan aftur til Evrópu til að kenna á píanó í París og London þar sem hún hitti meðal annars hinn fræga miðil Daníel Dunglas Home.

Árið 1858 sættist hún við afa sinn og senri aftur til Rússlands þar sem hún sýndi vaxandi miðilshæfileika sína á miðilsfundum á meðal hástéttanna þar. En stuttu seinna stakk herra Metrovitch ungverski söngvarinn upp höfðinu og nam Helenu á brott með sér á ný, að þessu sinni til Kiev, svo Odessa, þar sem þau hjú settu upp fyrirtæki við framleiðslu gerviblóma. En þá dundu hörmungarnar yfir. Metrovich sem var að reyna fyrir sér sem atvinnusöngvari ákvað að þiggja boð um að syngja í Egyptalandi.

Hann og frú Blavatský stigu á skipsfjöl árið 1871 en skipið sem þau tóku sér far með sökk á leiðinni og Metrovich drukknaði.


   Tveimum árum seinna var Helena Blavatský komin á ný til Ameríku sem á þeim tíma var uppnumin af hinum ýmsu dulrænu fyrirbrigðum. Helena hellti sér í slaginn með eldmóði og áhuga og hélt því fram að andafundir væru aðeins hluti af mun stærra þekkingarsviði. Til væru dýpri lögmál í lífinu sem fram til þessa væru svo til ókönnuð og óþekkt af hinum vestræna heimi, þó vel þekt væru í austurlöndum þar sem þeirra var vandlega gætt af hinum huldu meisturum.

Árið 1877 kom hún mörgum af þessum hugmyndum á blöð sem síðan urðu að bók í tveimur bindum sem hún gaf nafnið Isis afhjúpuð. Upplagið seldist upp á 10 dögum. Í tilraun til að lýsa anda þessa verks skrifaði John Symonds, einn af þeim sem á sínum tíma reit ævisögu Blavatskýs, að ef Atlantis hefði raunverulega verið til og ef aðeins ein persóna, ein af hinum innvígðu, hefði verið valin af guðunum til að varðveita og færa svo heiminum, hina fornu þekkingu sem skolað var í burt þegar Atlantis sökk í sæ, þá væri maddam Helena Blavantský sú innvígða persóna og bók hennar "Isis afhjúpuð" farvegur þeirrar þekkingar. Bókin var rituð eins og önnur rit Blavatskýs þá er frú Blavatský var orðin leiðtogi Guðspekifélagsins, félagskapar sem hún hafði stofnað tveim árum fyrr. Áhugi á þeim félagsskap dvínaði þegar dulrænu æðið rann af Ameríkönum þeirra tíma, en færðist svo í aukana aftur þegar frú Blavatský og þáverandi vinur hennar H.S. Olcott liðsforingi, seldu allar eigur

sínar og héldu til Indlands.    
Þar hófu þau útgáfu á mánaðarlegu riti sem þau nefndu Guðspekinginn og horfðu þaðan á félag sitt vaxa og verða að blómlegri alþjóðlegri hreyfingu.

Árið 1884 snéru upphafsmenn þessarar hreyfingar sigri hrósandi aftur til Evrópu þar sem tekið var á móti frú Blavatský í borginni Nice í Frakklandi af hefðarfrúnni Caithness sem lánaði henni íbúð í París. Skömmu síðar sigldi Helena til Englands þar sem hið virta alþjóðlega félag um andlegar rannsóknir hugðist rannsaka það sem þeir kölluðu "Hið frábæra fyrirbrigði". En áður en þeim gafst ráðrúm til að birta niðurstöður sínar var Blavatský komin í deilur vegna ásakana um fals, sem komu frá gömlum 

vini hennar, Maddam Coulumb    
Í kjölfar hneykslisins sem þær deilur ollu og sem fékk þar af leiðandi umtalsverða umfjöllun í blöðum heimsins, umorðaði alþjóðlega rannsóknarfélagið ummælin í skýrslu sinni sem í var full af lofi og birti þess í stað niðurstöður sem lýsa frú Blavatský sem einum fremsta, uppfinningasamasta og áhugasamasta falsmiðli sögunnar.

Þegar hér var komið sögu ákvað frú Blavatský, þá of þjáð af Brigth sýki til að láta ásakanirnar á sig fá, að ferðast til Ítalíu, Sviss og Þýskalands og loks aftur til Englands þar sem að hún ritaði höfuðritverk sitt "Hinar leyndu kenningar", Það rit sagði hún að væri innblásið af hinum huldum meisturum. Ritið var hátindur hrífandi ferils en frú Blavatský lést árið 1891. Ritið hennar síðasta varð varanlegur minnisvarði hennar, því guðspeki frú Blavatský reyndist a.m.k. nægilega sterk til að standast vanþóknun hins alþjóðlega andlega rannsóknarfélags.


Gyðinglegur uppruni landvætta og skjaldarmerkis Íslendinga

Svo segir í Heimskringlu Snorra Sturlusonar um landvættina sem valdir voru til að vera skjaldberar í skjaldarmerki lýðveldisins:
"Haraldur (Gormsson Dana) konungr bauð kunnugum manni at fara í hamförum til Íslands og freista, hvat hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgdu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk í brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikil, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjöldi annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðafjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjöldi landvétta fylgdi honum. Brot fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Vikarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hærra en fjöllin ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endlöngu landi - "var þá ekki nema sandar ok öræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna," segir hann, "at ekki er þar fært langskipum."
Þar sem Heimskringla Snorra er frumheimild er ekkert hægt að segja með vissu um uppruna þessarar þjóðsögu. Víst er að trú á Landvætti var einlæg og ríkjandi á landinu því í Landnámu segir:
 
"Það var upphaf hinna heiðnu laga, að menn skyldu eigi hafa höfðuð skip í haf, en ef þeir hefðu, þá skyldu þeir af taka höfuðið, áður en þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við."
Þjóðsagan virðist hafa yfir sér al-norrænt yfirbragð en þegar betur er að gáð koma fyrir í henni vættir sem þekktar eru fyrir varnarhlutverk sín úr allt öðrum heimshluta og frá allt öðrum tíma.
Í Genesis fyrstu bók Biblíunnar er greint frá fyrstu landvættunum sem Drottinn sjálfur setur til að verja landsvæði það er Adam og Eva höfðu með framferði sínu gert sig afturreka úr.
"Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré." (GENESIS 3:23)
Kerúbar þessir voru, ef marka má lýsingu þeirra sem sögðust hafa barið þá augum, einhverskonar englaverur og sérstök sköpun. Esekiel lýsir kerúbunum sem gættu hásætis Guðs á þessa leið; "Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit. 15Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kerbarfljótið." (ESEKÍEL 10:14 15)
Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.(ESEKÍEL 1.10-11)
Ljóst er að Gyðingar höfðu á þessum vættum mikla helgi, svo mikla að þeir gerðu þá að helstu táknum þjóðar sinnar. Hinar tólf ættir Gyðinga (GENNESES 30:1-27) sem raktar eru til Jakops Abrahamssonar skiptu með sér landsvæði (ESEKÍELl 48:1-34)því er þeim var fengið til yfirráða í 11 hluta. Þar sem einn sona Jakops, Leví gerðist prestur, fékk hann ekkert land. Féll landhluti hans og Jósefs til Efarím Jósefsonar sem Jakop hafði ættleitt. Aðalættirnar voru fjórar og kenndar við Júda, Rúbín, Dan og Efraím. Felldi hver aðalætt tvær aðrar undir sitt merki og sá um varnir landsins hver til einnar höfðuáttar. (FYRRI KRONÍKUBÓK 9:23-24)
Ætt Júda, Issakar og Sebulon vörðust til austurs, tákn þeirra var ljónið, tákn Júda ættar.(Það þarf ekki mikið til að breyta ljóni í dreka, sérstaklega á þeim slóðum þar sem ljón finnast hvergi)
Ætt Dan, Assers og Naftalí gættu norðurs, tákn þeirra var örninn, tákn Dan ættar.
Ætt Efraím, Benjamíns og Manasse gættu vesturáttar, tákn þerra var uxi, tákn ættar Efraím.
Ætt Rúben, Símons og Gad sem gættu suðurs, tákn þeirra var maður, tákn Rúben ættar.
Það er varla tilviljun að Snorri raðar landvættunum upp á sama hátt í kring um landið og Gyðingar gerðu til forna með sín tákn.
Ýmsar aðrar vísbendingar eru um að í þjóðsögu Snorra séu á ferðinni sömu tákn og Gyðingar notuðu. Annað tákn Rúbens er sverð. Bergþursinn heldur á járnstaf. Tákn Dan var Örn, því "fyrir honum hopuðu allir óvinir".
Gyðingar eignuðu vættum sínum eftirfarandi dyggðir;
Júda, ljónið = vilji
Dan, örn = réttlæti
Efraím, uxi = frjósemi
Rúben, maður = innsæi
Snorri greinir frá því að galdramaðurinn sem hugðist njósna um hagi íslendinga hafi brugðið sér í hvalslíki. Minnir það óneitanlega á sæskrímslið og ógnvaldinn Levjatan. Eða eins og sagt er í GT; Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
(SÁLMARNIR 104:26-27)


Í kristinni trú er hlutverk landvættanna áréttað í sýn sem Jóhannes höfundur Opinberunarbókarinnar fær.
Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir. Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu.
(OPINBERUN JÓHANNESAR 10:6-11)

Strax á fyrstu öld var farið að kenna vættina við guðspjallamennina Matthías, Markús, Jóhannes og Lúkas. Var Matthíasi úthlutað mann-englinum, Markúsi, ljóninu, Lúkasi, griðungnum og Jóhannesi, erninum.
Samanber heildir frá St. Irenaeus of Lyons (ca. 120-202 EK) - Adversus Haereses 3.11.8
Það þarf í sjálfu sér ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá hvernig Snorri Sturluson hefur lagað þessar kunnu vættir úr gyðing og kristindómi, að íslenskum aðstæðum og fellt þær inn í söguna af landvættunum. Mann-engillinn verður að bergrisa og ljónið að dreka.


Á heimsíðu Forsætisráðuneytisins er að finna ýmsan fróðleik um skjaldarmerkið. Þar á meðal er grein um skjaldarmerki sem sagt var að tilheyrði Íslandskonungi á þrettándu öld.

"Á árunum 1950-1959 starfaði á vegum danska forsætisráðuneytisins nefnd, sem ráðuneytið hafði falið að gera athugun á og tillögur um notkun ríkisskjaldarmerkis Danmerkur. Einn nefndarmanna, P. Warming, lögfræðingur, sem var ráðunautur danska ríkisins í skjaldamerkjamálum, hefur síðar látið í ljós álit sitt á því hvernig ríkisskjaldarmerki Íslands muni hafa verið fyrir 1262-1264, þ.e. áður en landið gekk Noregskonungi á hönd, og hvernig skjaldarmerki Noregskonungs hafi verið, þegar hann notaði merki sem konungur Íslands. Fara hér á eftir nokkur atriði úr grein P. Warming.Til er frönsk bók um skjaldarmerki, talin skráð á árunum 1265-1285. Nefnist hún Wijnbergen-skjaldamerkjabókin og er varðveitt í Koninklijk Nederlandsch Gencotschap voor Geslachot en Wapenkunde í Haag. Efni hennar var birt í Archives Heraldiques Suisses á árunum 1951-1954. Í bókinni er fjallað um 1312 skjaldarmerki, flest frönsk, nokkur þýsk, en einnig eru þar um 56 konungaskjaldarmerki frá Evrópu, Austurlöndum nær og Norður -Afríku. Eru þar á meðal merki konunga Frakklands, Spánar, Aragoníu, Englands, Portúgals, Þýskalands, Bæheims, Danmerkur, Navarra, Skotlands, Noregs, Svíþjóðar og Írlands. En á bakhlíð eins blaðsins í bókinni (35.) er m.a. sýnt merki konungsins yfir Íslandi, þ.e. merki Noregskonungs sem konungs Íslands eftir atburðina 1262-1264. Textinn yfir myndinni hljóðar svo: le Roi dillande, þ.e. le Roi d'Islande (konungur Íslands). Skjaldarrendur eru dökkar, en þverrendur bláar og hvítar (silfraðar). Tveir þriðju hlutar skjaldarins neðan frá eru með þverröndum, silfruðum og bláum til skiptis. Efsti þriðjungur skjaldarins er gylltur flötur, án þverranda. Á skjöldinn er markað rautt ljón, sem stendur öðrum afturfæti niður við skjaldarsporð, en höfuð ljónsins nemur við efri skjaldarrönd. Í framlöppum ljónsins er öxi í bláum lit á efsta þriðjungi skjaldarins (hinum gyllta hluta), en skaftið, sem nær yfir sjö efstu silfruðu og bláu rendurnar, virðist vera gyllt, þegar kemur niður fyrir efstu silfurröndina. Ljónið í skjaldarmerki Noregs var ekki teiknað með öxi í klónum fyrr en á dögum Eiríks konungs Magnússonar eftir 1280.
 
Þetta umrædda skjaldarmerki virðist eftir hinni frönsku bók að dæma hafa verið notað af Noregskonungi sem konungi Íslands eftir árið 1280. Þótt öxin bættist í skjaldarmerkið eftir árið 1280, er hugsanlegt að sama eða svipað skjaldarmerki, án axar, hafi verið notað af "Íslandskonungi" áður, e.t.v. strax frá 1264. Um þorskmerkið sem tákn Íslands eru ekki skráðar heimildir fyrr en svo löngu seinna að notkun þess þarf ekki að rekast á þetta merki eða önnur, sem kynnu að hafa verið notuð sem merki Íslands. Skjaldarmerki "Íslandskonungs", sem að framan getur, virðist þannig myndað, að norska skjaldarmerkið, gullið ljón á rauðum grunni, er lagt til grundvallar, en litum snúið við: rautt ljón á gullnum grunni. Þessi breyting ein er þó ekki látin nægja, heldur er tveimur þriðju hlutum skjaldarins að neðan breytt þannig, að þar skiptast á bláar og silfraðar þverrendur, neðst blá, síðan silfruð, þá blá aftur og svo koll af kolli, en efsta silfraða þverröndin liggur að þeim þriðjungi skjaldarins, sem er gullinn. Með þessu er af einhverjum ástæðum brotin ein af grundvallarreglum við gerð skjaldamerkja, en hún er sú, að silfur og gull eiga ekki að koma saman, heldur á einhver af skjaldamerkjalitunum að vera á milli og sömuleiðis eiga skjaldamerkjalitirnir ekki að koma saman, heldur á að skiptast á litur-silfur-litur-gull o.s.frv. Hefði því lögmál skjaldarmerkjagerðar eitt ráðið, þegar umrætt merki var búið til, hefði næst gullna fleti skjaldarins átt að koma blá þverrönd, síðan silfurrönd o.s.frv. í stað þess að nú liggur silfurröndin næst gullfletinum og brýtur þar með reglur um gerð skjaldarmerkja eins og áður segir. Af þessu kynni að mega draga þá ályktun, að merkið sé þannig gert af því að þurft hafi að taka tillit til skjaldarmerkis, sem þegar var til. Í slíku tilviki, þegar aukið er við merki sem fyrir er, gerir skjaldarmerkjafræðin ráð fyrir frávikum frá meginreglunum. Af svipaðri ástæðu er það svo í danska skjaldarmerkinu að reitirnir fyrir Færeyjar og Grænland liggja hvor að öðrum, þótt báðir séu í lit, meira að segja í sama lit.Það skjaldarmerki, sem þegar hefur verið til og menn hafa viljað virða og taka tillit til um leið og við það var bætt hluta af ríkisskjaldarmerki Noregs, hlýtur að hafa verið skjaldarmerki Íslands fyrir árið 1262. Það skjaldarmerki hefur samkvæmt framansögðu verið skjöldur með tólf silfruðum (hvítum) og bláum þverröndum, efst silfur og neðst blátt. Í einfaldleik sínum er þetta frá skjaldarmerkjafræðilegu sjónarmiði fallegt merki.Ef þetta er rétt tilgáta, þá er elsta íslenska ríkisskjaldarmerkið álíka gamalt og það norska, en norska skjaldarmerkið (án axar) þekkist frá dögum Hákonar IV. Hákonarsonar. Fjöldi þverrandanna í Íslandsmerkinu þarf ekki að tákna neitt sérstakt, en gæti leitt hugann að því að Íslandi mun í upphafi hafa verið skipt í tólf þing, þótt því hafi að vísu verið breytt áður en sá siður barst til Norðurlanda á tímabilinu 1150-1200 að taka um skjaldarmerki.Það, að ljónið í norska skjaldarmerkinu skuli á mynd í umræddri bók vera með öxi, sem einmitt var bætt í merkið í þann mund sem bókin hefur verið í smíðum, sýnir að sá, sem lét setja bókina saman, hefur haft glögga vitneskju um norræn skjaldarmerki.Það, sem hér að framan er sagt um merki Íslands fyrir og eftir 1262, er lausleg frásögn af áliti P. Warming, lögfræðings og skjaldarmerkjaráðunauts í Kaupmannahöfn.Merkið, sem getið er um, skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gissuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli.Tilgátu P. Warmings um merki Íslandskonungs hefur verið andmælt, t.d. af Hallvard Trætteberg, safnverði í Noregi, og telja sumir merkið í Wijnbergen-bókinni tilbúning og hugarflug teiknarans. Þeim andmælum hefur P. Warming svarað og bent á að skjaldarmerkjabókin sé yfirleitt nákvæm og áreiðanleg svo sem um skjaldarmerki Englands, Skotlands, Írlands, Manar og Orkneyja, og ekki sé undarlegt að Ísland hafi haft sérstakt merki, þegar þess sé gætt að lítil samfélög eins og Mön, Orkneyjar, Jamtaland og Færeyjar höfðu sín merki.Hvað sem líður merki Íslandskonungs, þá telur P. Warming allt benda til þess að skjöldurinn með tólf hvítum og bláum þverröndum sé hið upprunalega (skjaldar)merki Íslands. Í þessu forna skjaldarmerki koma einnig fyrir kunn tákn úr gyðinga og kristindómi. Rendurnar tólf minna óneitanlega á hina tólf ættkvíslir og rautt ljónið á ættartákn Júda."


Útópían ÍSLAND

Árið 1516 kom út pólitísk satíra eftir Tómas nokkurnMore, þar sem hann lýsir hinu fullkomna samfélagi og nefnir það Útópíu.Útópíu fann Tómas stað á eyju skammt undan ströndum Suður- Ameríku þar sem áður hét Sanskúlottía. Svo sannfærandi þótti lýsing Tómasar á þessu ímyndaða sæluríki að fjöldi manna (Bretar aðallega) trúði að það væri raunverulega til og reyndi að bóka sér far þangað. Enn í dag notum við orðið Útópíu til að lýsa hástefndum og oftast óraunhæfum draumum um betra þjóðfélag. En hversu margir mundu nú til dags vilja lifa í Útópíu Tómasar?

Útópíu er líst á þann hátt að það minnir um margt á Ísland á mismunandi tímum, einskonar hræðilega blöndu af fortíð og nútíð.

Athafnasamir íbúar Útópíu höfðu náð að breyta auðnum og harðbýlu landi í akra og engi og lært að nýta sér auðlindir þess með harðýðgi og mikilli vinnu.

Í Útópíu tíðkaðist þrælahald, púritanískt viðhorf til vinnu, herþjónusta var skylda,  ríkið stundaði njósnir og það sem eflaust þætti verst, engan bjór var að fá. - Hvert heimili hafði tvo þræla sem fengnir voru úr röðum hertekinna óvina eða höfðu unnið sér eitthvað til saka og verið dæmdir í þrældóm. Þeim sem frömdu sjálfsmorð var hent í díki. Vinna var undirstaða útópíska samfélagsins. Eiginkonur voru undirgefnar mönnum sínum, einkaeign var ekki til, engir peningar voru í umferð, engin tíska (allir gengu eins til fara) og andlitsfarða mátti ekki nota né óþarfa skraut í hýbýlum sínum.

Við þetta stutta yfirlit um Útópíu kemur í ljós að þættir hennar voru einnig hluti af draumum mikilla "hugsjónamanna" og um leið glæpamanna. Þar á meðal eru Stalín, Mao, Phol Pots, Pinochet og svo auðvitað Hitler. - Allir ætluðu þeir að "hreinsa" soldið til áður en Útópíu-uppbyggingin hæfist fyrir alvöru, komast á núll punktinn svokallaða. Tabula rasa.

Í hugum margra útlendinga er Ísland Útópía. Hér er allt grænt og gróið, hreint og fágað og Heim Sigurrósar svífur yfir vötnunum meðal hamingjusamasta fólks á jörðinni.

Svo kemur áfallið. Fréttir berast nú frá Íslandi af kylfum, tárgasi, mótmælum, efnahagslegu óstöðugleika, trúarlegum fordómum, útlendingahatri og einsleitishyggju, arðráni og óréttlæti.  

 

 

 

 

 


Af Hundtyrkjum og Módjökkum

Það er svo auðvelt að gerast sekur um fordóma án þess að vilja vera það. Sérstaklega þegar maður hefur takmarkaða reynslu af því að umgangast aðra kynþætti og fólk sem ekki er nákvæmlega eins og maður sjálfur.

Þegar ég var að alast upp kallaði fólk svört börn "svörtu kolamolana" með blíðuhreim eins og ekkert væri sjálfsagðara. Afi minn kallaði Tyrki alltaf HUNDTYRKIog var sjálfsagt alveg ókunnugt um að foringi sjóræningjanna frá Alsír sem komu til landsins 1627 og við kölluðum "Tyrki" var hollenskur. (JAN JANZOON)

Þegar ég var að alast upp litu allir gyðingar út eins og Fagin í ÓLiver Twist og kallinn í sjoppunni sem aldrei gaf neitt var kallaður Gyðingur. Maður gat verið "algjör Arabi" ef maður sveik einhvern, Arabar voru lúmskir kallar, alltaf með hnífinn á lofti tilbúnir til að stinga fólk í bakið.

Rússar voru illaþefjandi ruddar, Dani (bauna) talaði fólk um með óttablandinni lítilsvirðingu og svo voru menn fullir út um allan bæ eins Færeyingar á hvolfi.

Í Bandaríkjunum er fordómar svo landlægir að fólk virðist vera farið að sætta sig við það. Vona að sú staða komi aldrei upp á Íslandi. Þessi orð sem ég nefndi heyrast varla orðið. En Kanar eru snillingar í að finna ný uppnefni á fólk.  Þeir kölluðu Íslendinga Módjakka (Mojack- kemur af "more Jack") vegna betliáráttu íslenskra barna sem langaði í meira súkkulaði og tyggigúmmí. Þeir eiga uppnefni fyrir alla en flest þeirra eru bönnuð í sjónvarpi og dagblöðum landsins þrátt fyrir að málfrelsið sé þar eitt af undirstöðum samfélagsins.

Alhæfingar og palladómar eru mjög algeng árátta hjá íslendingum. Kannski af því að við sjálf erum tiltölulega einsleitur hópur. Þegar við þurfum nú að aðlaga okkur "öðruvísi"  fólki sem er að flytja inn í landið okkar, finnst sumum okkar að við þurfum engu að breyta þegar þörfin til að breyta er e.t.v. mest.

 


"hrydjuverk" og fordómafull skjaldborg um þau.

Trúarlegir fordómar eru almennari á Íslandi en halda mætti. Það sést best á viðbrögðum margra sem halda úti trúarlegum bloggsíðum, þegar reynt er að sporna við þessum fordómum samanber þegar Blog.is gerði síðu sem gekk undir nafninu "hrydjuverk" að fylgja settum reglum bloggsins.

Jafnvel sögufróðir menn sem er fullkunnugt um hversu lævísir trúarlegir- og kynþátta-fordómar geta verið, telja aðgerðir blog.is "sögulegan" atburð og reyna á hræsnislegan hátt að slá skjaldborg utan um fáfræðina og óvildina í nafni tjáningarfrelsis.

Efist fólk um skaðsemi hrydjuverka-bloggsins, ætti það að setja skóinn á hinn fótinn og prófa að skipta út nokkrum orðum. Setja t.d. gyðingar, þar sem múslímar eru/voru nefndir, eða Kristindómur þar sem Íslam stendur/stóð.

Ætla mætti að út kæmi algjör merkingarleysa, en svo er ekki. Þvert á móti því miður. Í ljós koma allar þær rangfærslur og lygar sem eru gyðingum svo kunnuglegar úr dagblöðum Þýskalands á þriðja áratug síðustu aldar og ákúrur sem í kristnum eyrum hljóma kunnuglega þegar saga páfadóms og kristindóms er skoðuð "gagnrýnum" augum.

Flestir íslendingar tilheyra Evangelísku Lútersku Þjóðkirkjunni og hún heitir svo af því að hún styðst við túlkun Marteins Lúters á kristnum trúarbrögðum. Afstaða hans til Gyðinga eins og henni er lýst í bók hans "Gyðingar og lygar þeirra"hefðu alveg passað inn í "hrydjuverk"  ef orðinu "Gyðingar" væru skipt út fyrir "Múslímar." Engum dettur samt í hug að íslendingar séu raunverulega sömu skoðunnar og Lúter eða að þeir hagi sér samkvæmt því sem hann boðar.

Ég vil eining minna á að verstu þjóðhreinsanir sem framkvæmdar hafa verið í heiminum síðan að helförinni gegn Gyðingum lauk í heimstyrjöldinni síðari, var beint gegn múslímum í Bosníu á síðasta ártug síðustu aldar. -

Flestar af þeim síðum sem "hrydjuverk-bloggið" vitnaði í voru síður frá kristnum fundamentalistum og stofnunum sem var falið að réttlæta hernaðarbrölt vesturlanda með Bandaríkin í farabroddi í löndum múslíma. Þeir sem tekið hafa upp fána "hrydjuverka" og birta núna svipaðar eða sömu sögubjaganir og ósannindi sem einkenndu þá síðu, eru lýsandi fyrir vel heppnaðan stríðsáróður þeirra.

 

 

 

 


Allir óvinir óvina minna eru vinir mínir.

Málfrelsið er afar mikilvægur þáttur í lýðræðinu. Þeim sem fótumtroða málfrelsið , hvort sem það eru  hatursfullir öfgamenn sem nota það til að ala á fordómum og hatri eða þeim sem þrengja svo að því að allir verða að syngja sama sönginn til að nokkur rödd  heyrist, verður að verjast.

Skelfilegar afleiðingar þess að sitja hjá og líta fram hjá öfgafullum brotum á þessum ábyrgðarhvetjandi mannréttindum, eru mannkyni afar ferskar í minni.  Þær eru reyndar áréttaðar á hverjum degi þegar við heyrum af einræðislegum tilburðum stjórnavalda víðs vegar um heiminn til að þagga niður, girða af og fangelsa þegna sína og/eða íbúa þeirra landa sem þau hafa hersetið.

Á íslandi gilda sem betur fer lög sem vernda okkur íslendinga fyrir öfgafullum brotum á málfrelsinu en ekki eru allra þjóðir svo heppnar. Að auki eru margar af mikilvægust stofnunum landsins, þar á meðal flestir fjölmiðlar, það ábyrgar að þær vernda bæði bókstaf og anda lagana þótt stundum hafi reynt á þanþolið.

Það sem stendur upp úr í umræðunni sem hefur spunnist út af aðgerðum þessa miðils (blog.is) til að vernda málfrelsið fyrir atlögum þeirra sem bæði misnotuðu það og vanvirtu, er hvernig sá hópur er samansettur sem finnst að lögunum vegið og þar með auðvitað þeim sem lögunum var og er beitt gegn. Þeir sem þann hóp fylla virðast eiga eitt mottó sameiginlegt;  Allir óvinir óvina minna eru vinir mínir.


Rigning

Það rignir. Regnið fellur lóðrétt til jarðar, ekki eins og á Íslandi þar sem það fýkur upp í öll vit ef þú gengur ekki undan vindi. Ég bókstaflega horfi á trjákrónurnar laufgast, vorið er komið. Suður í Afríku fyllir Robert Gabriel Mugabe hjólbörurnar sínar af seðlum til að kaupa brauð. Hann er enn við stjórnvölinn í landinu og er að hugsa um að taka nokkur núll aftan af Zimbabwe dollaranum til að létta sér burðinn. Hvað þau verða mörg er ekki víst, kannski bara sama fjölda og hann lét taka aftan af atkvæðafjölda andstæðinga sinna í nýafstöðnum kosningum.

Í garðinum tútna túlípanarnir út í rigningunni og Rauðbrystingarnir mega vara sig þegar hnappblöðin byrja að falla. þau eru rauð og þung, kjötmikil og safarík eins og hold munkanna í Tíbet sem kínverska stjórnin er svo hrædd við að hún lætur aflífa þá. Ólympíuloginn heldur áfram að lýsa upp skömm Kínverja og á eftir að fara um eftirtaldar lendur; Islamabad, Pakistan; New Delhi, India; Bangkok, Thailand; Kuala Lumpur, Malaysia; Jakarta, Indonesia; Canberra, Australia; Nagano, Japan; Seoul, South Korea; Pyongyang, North Korea; and Ho Chi Minh City, Vietnam.

Á meðan telja gjaldkerarnir í Bejing bandarísku ríkisskuldabréfin sem þeir keyptu af Bush svo hann gæti fjármagnað stríðið í Írak. Það hefur kostað hingað til litlar 2 trilljónir bandaríkjadala og stefnir víst í þrjár. (Hver kann skil á svona mörgum núllum nema kannski Mugabe.) Kínverjar töldu það miklu betri ávöxtunarleið heldur en að aðstoða til bjargræðis 1.2 biljón íbúa landsins sem líða skort.

Jamm, það rignir.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband