Hinar ósnertanlegu....

Írakar eru nú í þriðja sæti þeirra þjóða og þjóðarbrota sem eru á vergangi í heiminum. Aðeins Palestínumenn og Súdanir eru fleiri. Tala landflótta Íraka á eftir að aukast þar sem engin merki eru um að styrjaldarástandinu í landinu sé að linna.

Talið er að 2.5 milljónir Íraka séu landflótta í Sýrlandi og í Jórdaníu. Í báðum löndum er einnig fjölda landflótta Palestínumanna að finna. Í Líbanon, Egyptalandi, Íran og Tyrklandi fjölgar Írökum einnig jafnt og þétt. Í þessum löndum sem mest standa straum af kostnaðinum við flóttamennina sjálf, eru mennta og heilbrigðis-kerfin þanin til hins ýtrasta, vatnsskortur er mikill og þjónusta við sorphirðu og skólp hefur riðlast að því marki að heilsu fólks stafar hætta að. Þrátt fyrir að þessi mál hafi verið í sviðsljósi frétta í nokkur ár, vantar mikið á að brugðist hafi verið við þessum vanda sem skyldi af umheiminum.

Einn er sá hópur meðal flóttafólksins frá Írak sem hefur all-mikla sérstöðu. Þessi hópur eru konur og börn landflótta Palestínuaraba sem búið hafa í Írak, sumt hver allt frá árinu 1948. Sadam Husayn hlóð nokkuð undir þetta fólk og það var því fljótlega talið til eins þjóðarmeinanna eftir að honum var steypt af stóli. Verst úti af þessum hópi  urðu ekkjur og eiginkonur flúinna eða dáinna Palestínumanna. Þær voru  algjörlega úthrópaðar strax og fundamentalisminn settist að í landinu undir áeggjan klerka beggja megingreina Íslam. Þær flúðu heimili sín í Bagdad og hafa dvalist í tjaldbúðum frá árinu 2006 við landamæri Sýrlands. En þessar einstæðu mæður komast hvergi, eiga ekki neitt og eru álitnar dreggjar samfélagsins í Írak. Þær eru "hinar ósnertanlegu" Íraks.

Hluta þessara kvenna er sagt að íslendingar séu tilbúnir til að hjálpa og jafnvel bjóða hér búsetu. Það er einkar viðeigandi þar sem íslendingar studdu dyggilega þær ákvarðanir sem urðu til þess að þetta fólk varð fyrst landflótta frá heimalandi sínu Palestínu og síðan aftur úr landinu sem það hafði flúið til, Írak.

Íslendingar vilja sem sagt gera einhverja yfirbót sem er öllum hollt að gera af og til. En samt heyrast líka raddir um að þessar konur séu betur settar heima hjá sér og að þessum krónum sem á að verja til að koma þeim fyrir hér, sé betur varið í að byggja upp heimili þeirra í eign landi. Þeir sem þannig tala ættu endilega að koma með nákvæmari tillögur. Ég er handviss um að konur þessar yrðu því fegnastar að fá að snúa aftur til heimila sinna sem nú eru sum hver í eigu gyðinga í miðri Jerúsalem. 



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll, mjög fróðleg færsla. Vegna þeirrar umræðu sem á sér stað hér heima þá hefur gagnrýnin aðallega beinst að ráðuneitinu fyrir slæglegan undirbúning málsins. Síðan hefur vaknað upp spurningar hvernig eigi að standa að málunum þegar fólkið er komið. Svörin hafa verið rýr og maður fyllist þeirri tilfinningu að þetta sé gert í fljótfærni og til að slá sig til riddara. Því eiga orð þín vel við þegar þú talar um yfirbót. Menn eru kannski að kaupa sér syndaaflausn? Aftur á móti þá munu allir taka vel á móti fólkinu þegar það er komið.

Gunnar Skúli Ármannsson, 15.5.2008 kl. 20:21

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Gaman að heyra frá þér Gunnar Skúli.

Ég er ekki frá því að einhverjum hafi sollið móður við að heyra (eða sjá) aðbúnað fólk, einkum kvenna í El-Waleeda búðunum og ákveðið að bjarga þeim. Ég verð samt að segja að ef peningunum á að verja til að hjálpa flóttafólki af þessu svæði, eru fáir verðugri. Að öðru leiti tek ég undir orð þín, við munum öll taka vel á móti fólkinu og megi það verða sem fyrst. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.5.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband