Færsluflokkur: Bloggar

Waltzing Matilda

Eins og gerist og gengur með dægurlög, lærir maður þau stundum og syngur, án þess að vita nokkuð um tilurð lags eða texta. Eitt slíkt lag, Waltzing Matilda, ættað frá Ástralíu eins og "Tie me Kangaroo Down Sport" sem ég bloggaði um fyrr í vikunni, er sungið víða um heim án þess að margir skilji textann sem þó á að heita að sé á ensku. En það er ekki nein furða því fæst í textanum hefur augljósa merkingu. Hann er skrifaður á sér-mállýsku ástralskra flækinga og farandvinnumanna sem flökkuðu um Ástralíu um og eftir aldamótin 1900.

Nánar til tekið er textinn saminn af skáldinu og þjóðernissinnanum Banjo Paterson árið 1887 en lagið var fyrst gefið út á nótnablöðum árið 1903. Það sama ár var byrjað að nota það til að auglýsa Billy te og upp úr því varð það landsfrægt.  Peterson byggði laglínuna á lagstúf eftir eftir Christinu Macpherson, skoska konu sem sjálf taldi sig aldrei til tónskálda.

478593450_c83d0791f4

Um lagið hafa spunnist fjölmargar sögur og sagnir og þeim er öllum gert skil á Waltzing Mathilda safninu í Vinton í Queensland. Ein þeirra þykir líklegri en allar aðrar og hún er sú að taxti lagsins sé byggður á atburðum sem áttu sér stað í Queensland árið 1891. Þá fóru rúningarmenn í verkfall sem næstum því varð að borgarstyrjöld í nýlendunni. Verkfallinu lauk ekki fyrr en forsætisráðherrann Samúel Griffith sendi herinn gegn verkfallsmönnum. Í september 1894 hófu rúningsmenn á Dagworth býlinu í norður Winton enn á ný verkfall. Aðgerðirnar fóru úr böndunum og hleypt var af byssum upp í loftið og kveikt var í  reyfakofa sem tilheyrði býlinu auk þess sem nokkrar ær voru drepnar.

Eigandi býlisins ásamt þremur lögreglumönnum elti uppi mann sem hét Samúel Hoffmeister sem æi stað þess að láta ná sér lifandi fyrirfór sér með byssuskoti við  Combo vatnsbólið.

Tribute%20to%20Waltzing%20MatildaÍ textanum segir frá farandverkamanni sem lagar sér te við varðeld eftir að hafa satt hungur sitt á stolnum sauð. (Minnir á lagið um íslenska útlagann upp undir Eiríksjökli) Þegar að eigandi sauðsins kemur á vettvang ásamt þremur lögreglumönnum til að handtaka þjófinn (refsingin við sauðaþjófnaði var henging) hleypur hann út í tjörn og drukknar. Eftir það gengur hann aftur á staðnum.

Þótt lagið sé oft notað eins og þjóðsöngur Ástralíu, hefur það aldrei hlotið formlega viðurkenningu sem slíkt. Hér á eftir fer algengasta útgáfa textans en hann er til í nokkrum útgáfum. Þetta er sú útgáfa sem varð frægust og notuð er m.a. í teauglýsingunni. Hana er líka að finna vatnsþrykkta í síðustu blaðsíðurnar á áströlskum vegabréfum.

Once a jolly swagman camped by a billabong
Under the shade of a coolibah tree,
And he sang as he watched and waited 'til his billy boiled
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me"

Waltzing Matilda, Waltzing Matilda
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me"
And he sang as he watched and waited 'til his billy boiled,
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Down came a jumbuck to drink at that billabong,
Up jumped the swagman and grabbed him with glee,
And he sang as he shoved that jumbuck in his tucker bag,
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Waltzing Matilda, Waltzing Matilda
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me"
And he sang as he shoved that jumbuck in his tucker bag,
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Up rode the squatter, mounted on his thoroughbred,
Down came the troopers, one, two, three,
"Where's that jolly jumbuck you've got in your tucker bag?"
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Waltzing Matilda, Waltzing Matilda
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me"
"Where's that jolly jumbuck you've got in your tucker bag?",
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Up jumped the swagman and sprang into the billabong,
"You'll never catch me alive", said he,
And his ghost may be heard as you pass by that billabong,
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me".

Waltzing Matilda, Waltzing Matilda
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me"
And his ghost may be heard as you pass by that billabong,
"You'll come a-Waltzing Matilda, with me."
"Oh, You'll come a-Waltzing Matilda, with me."

Swagman er maður sem ferðast um landið og leitar sér að vinnu. "Swag" eru pjönkur hans, venjulega viðlegubúnaður hans samanrúllaður utanum aðrar eigur hans.

Waltzing  er að flakka (að valsa um). Kemur af þýska orðatitækinu  auf der Walz  notað yfir iðnaðarmenn sem ferðuðust um í þrjú ár og dag til að vinna og kynna sér nýungar í fagi sínu. Þetta er siður sem enn í dag tíðkast meðal smiða.

Matilda  er rómantískt nafn yfir pjönkur flakkara. Þýskir innflytjendur kölluð ákveðna tegund af yfirhöfn Mathildi vegna þess að hún hélt á þeim hita um nætur rétt eins og kona mundi gera.

 Billabong er tjörn sem mynduð er við árbugðu og notuð er til að brynna dýrum og mönnum. 

 Coolibahtré er tegund af  tröllatré (eucalyptus) tré sem grær nálægt billabongum.

Jumbuck er villisauður sem erfitt er að náí til að rýja eða nýta á annan hátt. Nafnið gefur til kynna að að sauðurinn hafi gengið villtur og órúinn og þess vegna hvers manns að slátra.

Billy er dós eða dolla sem vatn er soðið í. Tekur venjulega um 1. lítir.

Tucker bag  er malur. (tucker = fæða)

Troopers er lögreglumenn

Squatter er  land eða hústökufólk. Ástralskir landtökumenn voru bændur sem ólu hjarðir sínar á landi sem ekki tilheyrði þeim löglega. Í mörgum tilfellum fengu þeir lagalegan rétt til að nota landið þótt þeir eignuðust það aldrei.


Tjóðraðu kengúruna mína félagi

r266846_1116866Upp úr 1960 fór að heyrast æ oftar í ríkisútvarpinu lag ástralska tónlistar og fjöllistamannsins Rolf Harris, Tie Me Kangaroo Down, Sport.

Ég man að ég átti það til að söngla lagið daginn út og inn án þess að geta nokkurn tíman farið með textann rétt hvað þá að ég skildi hann. En lagið var fjörugt og skemmtilegt og svo var ég nokkuð viss um að það fjallaði um einhvern sem væri að "taka dansspor við kengúru."

Lagið er samið og hljóðritað í Ástralíu árið 1957 og varð afar vinsælt um allan heim upp úr 1960. Harris bauð á sínum tíma söngvurunum fjórum sem syngja lagið með honum 10% af stefgjöldunum sem hann kæmi til með að fá fyrir lagið en þeir afþökkuðu og þáðu frekar að skipta þeim 28 pundum á milli sín sem Rolf  bauð þeim í staðinn.

kangaroo06-Fighting-JumpingKickÁrið 1963 komst lagið í þriðja sæti bandaríska Billboard hot 100 listans og hefur síðan öðlast sess sem lang-vinsælasta og þekktasta lag sem komið hefur frá Ástralíu.

Hljóðið sem gerir lagið svo sérstakt er framleitt af Rolf með því að sveigja fram og til baka meter langa masónít-plötu.

Texti lagsins segir frá smala eða vinnumanni sem er að ganga frá sínum málum við félaga sína áður en hann gefur upp öndina og við sögu koma ýmsar kunnar ástralskar dýrategundir. Þ.á.m. wallabie, (lítil kengúra) kengúra, kakadú-páfagaukur, kalabjörn og flatnefja. Auk þess er minnst á ástralska frumbyggjahljóðfærið didgeridú og sútað skinn. Í myndbandinu sem hér fer á eftir heyrum við Ralph syngja lagið og með fylgja myndir af því sem sungið er um. 

Í upphafi voru vers textans fjögur en fjórða versið þótti, þegar fram liðu tímar, vera of í anda kynþáttafordóma og var því stíft aftan af laginu. Það fjallaði um Ástralíufrumbyggjana (Abos) og var svona;

Let me Abos go loose, Lou
Let me Abos go loose
They're of no further use, Lou
So let me Abos go loose.

Aboriginal-Dijiridu-Player-IMG_4050Þarna er komið inn á þá staðreynd að frumbyggjar voru lengi vel eins og þrælar hvítu herraþjóðarinnar í Ástralíu. Í textanum segir smalinn að það megi því sleppa þeim eftir að hann er allur því þá hefði hann ekki lengur þörf fyrir þá. Þetta minnir dálítið á viðhorf George Washington sem lét í erfðaskrá sinni frelsa þræla sína eftir dauða sinn þótt hann fengist ekki til þess á meðan hann lifði.

Ralf Harris sem er ann að sem vinsæll skemmtikratur hefur margsinnis beðist afsökunar á að hafa sungið erindið í upphaflegri útgáfu lagsins og á heimasíðu hans er það hvergi að finna.

 


Eylandið stóra skammt suður af Íslandi

FrisalandÁ nánast öllum kortum sem gerð voru af norður Atlantshafi á árunum 1550 til 1660 er að sjá suður af Íslandi stórt og mikið eyland. Landið er kallað Frisland, Frislanda, Frischlant, Friesland, Freezeland, Frislandia, eða Fixland.

Ekki ber samt að rugla þessum heitum saman við héraðið Frísland í norður Hollandi þar sem  Egill Skallagrímsson herjaði forðum. 

Á sumum kortum frá þessum tíma eru annað hvort eða bæði Ísland og Færeyjar stundum nefnd Frislönd en það stafar af þeim misskilningi manna almennt á þessum tíma að í miðjum norður Atlantsálum hafi risið umgetið eyland.

Misskilningurinn fékk byr undir báða vængi árið 1558 þegar Nicolò nokkur Zeno, gaf út bréf sem hann sagði vera skrifuð af áum sínum, bræðrunum Nicolò og Antonio Zeno. Bréfin kvað hann vera samtímaheimild um ferðir þeirra bræðra um norðurhöf laust fyrir aldamótin 1400. Bréfunum fylgdi kort sem þekkt hefur orðið sem "Zeno kortið" en það sýnir í viðbót við kunn lönd eins Bretlandseyjar, Írland og Ísland, eylandið "Frislanda" auk nokkurra annarra óþekktra eyja.

Zeno bréfBréf þeirra Nicolò og Antonio eru að öllum líkindum skáldskapur og m.a. hefur komið í ljós að á þeim tíma sem þeir eru sagðir vera í ferðalögum til Frislanda, Íslands og Grænlands, stóð Nicolò í málferlum suður á Ítalíu í tengslum við fjársvik sem kennd voru upp á hann þegar hann var herstóri í Modone og Corone á Grikklandi frá 1390-1392. Zeno aðalsfjölskyldan var vel kunn á Ítalíu og auðgaðist vel á því m.a. að hafa einkaleyfi til vöru og fólksflutninga milli Landsins helga og Ítalíu á meðan fyrstu krossferðunum stóðu.

Bréfunum er skipt í tvo hluta. Sá fyrri eru bréf frá Nicolò til Antonio og sá síðari frá Antonio til bróður síns Carlo. Þrátt fyrir að vera gróf fölsun eru þau samt ansi skemmtileg aflestrar. Þau blanda saman staðreyndum og skáldskap þannig að erfitt er stundum að greina muninn þar á milli. Nicolò lýsir ferðum sínum til Bretlands, Íslands og "Frislanda" sem hann segir vera stærri en Írland. Nicolò segist hafa verið fyrir tilviljun bjargað af prinsinum "Zichmni"sem réði yfir Porlandseyjum undan suðurströnd Frislanda og einnig jarlríkinu Sorand á suðurströnd Frislanda.

Nicolò býður Antonio bróður sínum að koma til Frislanda sem hann og gerir og þar dveljast þeir saman næstu 14 árin. Undir stjórn Zichmni herja þeir á nálæg lönd, þ.á.m. "Estlanda" sem gætu verið Shetlandseyjar miðað við hvernig staðsetningu þeirra er lýst í bréfunum. Þeir ráðast líka á Ísland en verða frá að hverfa vegna þess hve vel landið er varið. Að lokum ráðast þeir á eyjarnar Bres, Talas, Broas, Iscant, Trans, Mimant, Damberc. (Allt eru þetta ímynduð eylönd.)

FrislandZichmni byggir virki á Bres og lætur Nicolò eftir stórn þess. Nicolò siglir þar á eftir til Grænlands og finnur þar munkaklaustur með miðstöðvarkyndingu. Hann snýr aftur til Frislanda eftir fjögur eða fimm ár, þar sem hann deyr.

Skömmu eftir dauða Nicolò fær Zichmni fréttir af sjómönnum sem snúið hafa aftur til Frislanda eftir 25 ára fjarveru. Segjast þeir hafa tekið land á stórum eylöndum í vestri sem þeir kalla Estotiland og Drogeo. Sjómennirnir segjast hafa séð þar einkennileg dýr og komist í kynni við mannætur sem þeim tókst samt um síðir að kenna að veiða fisk.

Með það fyrir augum að sannreyna sögu sjómannanna siglir Zichmni ásamt Antonio í vesturátt á tveimur skipum og finnur þar fyrir eylandið Íkaríu. (Icaria)

Samkvæmt bréfunum, koma íbúar Íkaríu róandi á móti þeim áður en þeim tekst að taka þar land. Þeim er gert ljóst af einum frumbyggjanum sem talaði mál þeirra, að ef þeir hygðust taka landið mundu þeir mæta mikilli mótspyrnu.

Zichmni siglir síðan áfram í vestur og tekur loks land á skaga sem nefndur er Trin og er að finna á suðurodda landsins Engrouelenda. Þar ákveður Zichmni að byggja sér bæ en Antonio sem ekki líkaði loftslagið heldur til baka til Frislanda ásamt mörgum úr áhöfn sinni.

Þrátt fyrir að allar frásagnir í bréfunum séu með ævintýralegasta hætti, er svo að sjá að margir hafi trúað þeim. Í seinni tíð hafa nokkrir rithöfundar reynt að færa rök fyrir því að prins Zichmni hafi verið sannsöguleg persóna, eða Hinrik I Sinclair, Jarl af Orkneyjum.

HenrysinclairÞótt nokkuð sé vitað um ættir og ævi Hinriks er ekki vitað hvernig hann dó. Hans er síðast getið í tengslum við orrustu sem átti sér stað á Scalloway nálægt Þingvöllum á Shetlandseyjum 1391. Í annálum er þess getið að Englendingar hafi gert innrás í Orkneyjar sumarið 1401. Vegna þess að Hinriks er hvergi getið eftir það hefur verið gert ráð fyrir að hann hafi þá verið dáinn eða verið drepinn í þeim skærum.

Á síðari árum hefur hins vegar komið út haugur af bókum sem leiða líkur að því að Hinrik hafi sigld frá Orkneyjum til Vesturheims og ekki snúið til baka. Sumar þessara bóka styðjast við Zeno bréfin.

Þá halda enn aðrar því fram að Hinrik hafi verið einn af musterisriddurunum og verið falið að sigla með fjársjóð þeirra sem sagt er að þeir hafi fundið undir musterisrústunum í Jerúsalem, þangað sem hann væri óhultir. Þessu halda sumir fram í fullri alvöru þótt að rúm öld hafi liðið a milli aðfararinnar miklu á hendur riddurunum og þar til Hinrik fæddist.  Fjársjóðurinn er sagður hafa verið frá dögum Salómons konungs en aðrir segja hann hafa verið hinn heilagi kaleikur.

micmactemplararSem rök fyrir því að Hinrik hafi siglt til Nova Scotia í Kanada og sest þar að á meðal Mic Mac indíána sem eru frumbyggjar þess landshluta, er bent á að siglingafáni  riddarareglunnar og flaggveifa MicMacanna séu nánast eins.  

Þá hefur fundist fallbyssa í höfninni í Louisburg í Nova Scotia af ítalskri gerð og frá þeim tíma er þær voru enn steyptar í hlutum frekar en í heilu lagi og þess vegna fyrir árið 1400. Byssuna er hægt að sjá í virkissafninu í Louisbourg.

Rosslyn%20Chapel%20(7)Öllu veikari rök eru tengd hinum svokallaða Newport turni og steinristum við Westford Knight.  Bæði turnin og risturnar hafa verið notuð sem "sannanir" fyrir því að vesturlandabúar hafi gengið um grundir norður Ameríku löngu fyrir daga Kólumbusar þar. (1492)

Þá er einnig peningapytturinn á Eykareyju dreginn in á málið sem felustaður umgetins fjársjóðs.

Árið 1486 lauk barnabarn Hákons, William Sinclair, við byggingu á kapellu í skotalandi sem kölluð er Rosslyn Kapellan. Víða í um bygginguna er að finna tákn sem notuð voru af musterisriddurunum og það sem meira er, myndir af jurtum sem aðeins er að finna í Norður Ameríku. Aðrir hafa bent á þann möguleika að myndirnar séu stílfærðar myndir af evrópskum jurtum.


Pældíðí mar

Það er óhætt að fullyrða að rétt eins og hver kynslóð tileinkar sér ákveðin klæðaburð, kryddar hún málfar sitt með tískuorðum. Hvernig ákveðin orð eða frasar komast í tísku og falla síðan í gleymsku, finnst mér áhugaverð pæling. Sérstaklega hvernig hópar sem kenna sig við ákveðna jaðarmenningu taka upp orð, oft gömul, og gefa þeim nýja merkingu. Sum þessara orða lifa reyndar áfram í málinu eins og t.d. sögnin að "pæla" sem komst í tísku upp úr 1960 en var sjaldan notað fram að því nema að hún tengdist jarðrækt eða mælingu á vatnshæð eða olíuhæð í tönkum. Upp úr 1960 voru allt í einu allir farnir "að pæla í gegnum" eitthvað eða bara "að pæla í" einhverju,  í merkingunni að hugsa um eða áforma.

groovyÞegar ég var unglingur notuðust hipparnir mikið við ensku orðin "groovy" og "heavy."  Þau orð heyrast lítið í dag en í staðinn eru komin orðin "cool" og "awesome".  Mestu töffararnir notuðu "groovy baby" og "heavy man".

Groovy var notað yfir eitthvað sem var mjög gott. Fyrst var það aðallega brúkað um tónlist enda ættað úr þeim bransa. Í kring um 1930 töluðu djass og swing aðdáendur um að vera "in the groove" og áttu þá við að allt væri komið af stað rétt eins og nálin væri komin í skorurnar (grooves) á hljómplötunni.

GroovyBabyLagið "Feeling groovy" með Art Garfunkel og Paul Simon var vinsælt hippalag og Dave Cash sem starfaði sem plötuþeytir hjá BBC 1 gerði frasann "Groovy baby" að slagorðum þátta sinna. Brátt varð allt sem hönd á fest "groovy" og  tónlistarmenn á þeim tíma töluðu um "ákveðið groove" um sérstakan áslátt eða tilfinningu við hljóðfæraleik.

Samt er ekki svo að skilja að íslenskir hippar hafi látið sitt eftir liggja þegar kom að hinni sérstöku íslensku málhreinsunarstefnu. Orðið "joint" varð að jónu og "stoned" að skakkur. Þannig sátu þrælskakkir unglingar og réttu á milli sín jónuna á mean allt var svo Groovy.

page225_4Orðið "heavy" var notað um allt sem þótti sérstaklega alvarlegt, mikilvægt eða krefjandi. "Heavy" kom líka úr tónlistarbransanum og var eiginlega andstæða þess sem var "groovy" í djassinum upp úr 1930. Hipparnir tóku orðið upp á arma sína og þegar að hljómsveitin Steppenwolfe notaði setninguna "Heavy metal thunder" í laginu Born to be wild árið 1968, fluttist notkun þess yfir á ákveðna tegund rokks, það sem íslendingar kalla þungarokk. Á Enskunni heitir það vitanlega "Heavy metal". Þungur málmur (heavy metal) hafði fram að þeim tíma aðeins átt við þungamálminn úraníum.

 


Svanir á Avon á

Í gegnum miðja borgina Bath á Englandi rennur áin Avon. Avon þýðir reyndar "á" á keltnesku en líklega voru það Rómverjar sem festu þetta heiti við ána í sessi og það er í sjálfu sér auðvelt að ímynda sér hvernig það gerðist. Bókstaflega þýðir fyrirsögnin því; Svanir á á á.

SkurðabáturÞar sem ég bý svo til á árbakkanum eru gönguferðir mínar oftast meðfram ánni. Áin er lygn og í henni er að finna fjölda skipastiga sem gera skurðabátum mögulegt að sigla um hana. Skurðabátar þessir sem áður fyrr voru helstu vöruflutningatæki þessa svæðis, eru nokkuð vinsælir sem fastabústaðir og liggja því summir hverjir bundnir við bakkann allt árið.

Fyrir nokkrum vikum veitti ég athygli svanapari sem var í óða önn að byggja sér hreiður við árbakkann, spölkorn frá íbúðinni minni.

Í heiðrið verpti frúin fimm eggjum. Nokkrum dögum seinna missti hún eitt þeirra út fyrir hreiðrið og það festist milli greinanna sem þau höfðu hrúgað saman til að vera undirstöður hreiðursins.

Home livingroom 018Þrátt fyrir mikið bras og óteljandi tilraunir tókst þeim hjónum ekki að bjarga egginu upp í hreiðrið aftur.  En fjögur egg eru eftir og nú bíð ég, eins og þau væntanlega líka, spenntur eftir að þau klekist út en það getur tekið allt að einn og hálfan mánuð er mér sagt.

Eins og svana er siður, svamlar karlfuglinn í kringum hreiðrið og sest sjálfur á eggin þegar frúin þarf að bregða sér frá. Ég smellti þessum myndum af frúnni í dag. Hún var allt of upptekin við að snyrta sig og veitti mér litla athygli. Aldrei þessu vant var karlinn hvergi nærri. Vona að ekkert alvarlegt hafi komið upp á.

Home livingroom 020Home livingroom 019


Smáfólkinu í Afríku nauðgað.... aftur

African_Pigmies_CNE-v1-p58-BÍ mörgum Afríkulöndum er að finna ættbálka smávaxins fólks sem kalla sjálfa sig ýmsum nöfnum eins og Aka, Baka, Mbuti og Twa. Hver þessara ættbálka er samsettur af ættflokkum sem einnig bera sérstök heiti. Að auki eru til á hinum mörgu Afríkumálum ýmis nöfn yfir þetta smáfólk á meðal hverra hæstu karlmenn verða aldrei hærri en 150 cm. Þá búa ættbálkar smáfólks í Taílandi, Malasíu, á Indónesíu, á Filippseyjum, á Papúa Nýju Geníu, í Brasilíu og í Bólivíu og bera þeir allir sérstök heiti, rétt eins og við köllum okkur Íslendinga.  

Vesturlandabúar þ.á.m. Íslendingar, kjósa enn að kalla þetta fólk Pygmýja sem er komið úr grísku og fyrir utan að vera sú stærðaeining sem lýsir fjarlægðinni á milli olnboga og hnúa er nafn á einhverjum dvergum sem bjuggu í Eþíópíu og/eða á Indlandi og fornskáldið Hómer lýsir fyrstur manna.

Sjálfu finnst smávaxna fólkinu þetta orð óviðeigandi og vilja láta kalla sig því nafni sem það nefnir sig sjálft. 

Að kalla smáfólkið Pygmýja, er ekki ósvipað því þegar fáfrótt fólk talar um Grænlendinga sem Eskimóa.

Eins og tugir annarra netmiðla, flytur Mbl.is um þessar mundir fréttir  af hópi smáfólks  í Austur-Kongó, sem er af Aka ættbálknum og býr í þorpinu Kisa í Walikalen. MBL.is  kallar þá Pygmýja. Smáfólk þetta, sem annað,  kemst ekki oft í heimsfréttirnar og t.d. var lítið sem ekkert um það fjallað þegar að styrjöldin í Kongó stóð sem hæst og pyntingar, nauðganir og fjöldamorð á Aka og Baka fólkinu, voru daglegt brauð. Heimurinn kærði sig kollóttann þótt einhverjir "villimenn" dræpu aðra "villimenn" í Kongó.

pygmies-754018Nú gerðist það fyrir nokkrum vikum að einhverjir hjátrúarfullir og fáfróðir villimenn, sem starfa fyrir ríkjandi stjórnvöld í Kongó, réðust einu sinni enn á smáfólkið. Í þetta sinn í þeim eina tilgangi að nauðga gömlum konum og kornabörnum í þorpinu og síðan höfðingjanum sjálfum. Hluti þessarar "manndómsvígslu" var að gera skömm höfðingjans sem mesta og því var hinum nauðgað að konu sinni og öðrum þorpsbúum ásjáandi.

Nú er allur heimurinn orðin vitni að skömm hans og þetta þykir góður fréttamatur og fullboðlegt í dag, þótt þetta hafi gerst og komið fyrst fram fyrir nokkrum vikum.

 Einhver gerði sér grein fyrir því að það sem þykja mundi fréttnæmt væri að villimennirnir trúðu því, eftir því sem sagt er, að þeir mundu hljóta við þessi voðaverk "yfirnáttúrlega krafta". Sá hluti sögunnar varð að fyrirsögn fréttarinnar.

aka_fatherFlestar þær greinar sem ég hef séð um málið, (þær skipta tugum)  eru nánast algjörlega eins, orðrétt uppétnar eftir hverjum þeim sem fyrstur skrifaði fréttina um þessi gömlu tíðindi.

Engin þeirra gerir minnstu tilraun til að skýra baksvið þessarar fréttar eða kynna fyrst og fremst fyrir okkur þolendurnar voðaverkanna sem í henni er lýst.  Gerendur slíkra óhæfuverka eiga hvort eð er svipaða sögu að baki, hverrar þjóðar sem þeir kunna að vera.

Og Engin greinin getur þess t.d. að þessum sérstaka ættbálki tilheyrir fólk sem í er að finna elstu mannlegu litningana. Þeir eru því elsta "gerð" mannvera sem til er í heiminum. Það var frá sömu slóðum og eru og hafa verið hefðbundin heimkynni þeirra, að lítill hópur fólks tók sig upp fyrir ca. 200.000 árum og hélt norður á bóginn. Af honum er mannkynið komið.

Aka fólkið er enn á einskonar millistigi jarðræktar og safnarastigs. Það neytir 63 mismunandi tegunda jurta, 20 skordýrategunda, hunangs frá 8 mismunandi tegundum býflugna og kjöts af 28 tegundum dýra.

DR_Congo_pygmy_familyÞess er heldur ekki getið að feður af Aka ættbálknum, verja meiri tíma með afkvæmum sínum en nokkrir aðrir feður í heiminum. Börn þeirra eru innan seilingar þeirra 47% af deginum og þeim hefur verið lýst sem bestu feðrum í heimi. Þeir taka upp börn sín, knúsa þau og leika við þau, fimm sinnum oftar en aðrir feður í hinum ýmsu samfélagsgerðum heimsins. Það er álitið að ástæða þess sé hin sterku bönd sem eru á milli eiginmanns og eiginkonu í samfélgi þeirrra. 

Alla daga hjálpast hjónin að við veiðar, fæðusöfnun og  eldamennsku og deila auk þess frítíma sínum með hvort öðru. Það eru sterk samsvörun milli þess tíma sem hjónin verja saman og þess tíma sem karlmaðurinn ver til að veita  börnum sínum umhyggju.


Þóra Janette Scott

Rocky_HorrorUpphafslagið í söngleiknum The Rocky Horror Show heitir Science Fiction/Double Feature og er óður til B kvikmyndanna um skrímsli og óvættir ýmsar sem voru afar vinsælar á árunum 1950-1970. Í texta lagsins er að finna ýmsar skýrskotannir til löngu gleymdra kvikmynda þar á meðal The Day of the Triffids.

Kvikmyndin fjallar um stórhættulega plöntu sem lítur úr svipað og spergill og eru kölluð Triffid. Plantan getur slitið sig upp og gengið um,  stungið bráð sína með eitruðum göddum og tjáð öðrum Triffidum hugsannir sínar.

Í texta Science Fiction/Double Feature segir m.a:

"And I got really hot
When I saw Janette Scott
Fight a triffid that spits poison and kills."

triffidsusdvd1Nýlega sá ég gamla kvikmynd sem heitir School for Scoundrels or How to Win Without Actually Cheating!  (1960) Leikkonan sem fór með eitt aðalhlutverkið myndinni vakti athygli mína, fyrir það hversu óhefðbundið útlit hennar var miðað við aðrar breskar kvikmyndaleikkonur á þessum tíma. Ef hún hefði verið amerísk, hefði málið verið auðskýrt, en hún var bresk en samt afar aðlaðandi. (Ekki að breskar konur geti ekki verið aðlaðandi, en fegurð þeirra felst meira í hvernig gallar þeirra koma saman frekar en fullkomið útlit.) Við nánari athugun var þarna komin Þóra Janette Scott, sú sama Janette og minnst er á í textanum úr Rocky Horror.

Janette var fædd 1938 og var dóttir tveggja all-vel þekktra breskra leikara Jimmy Scott og Þóru Hird. Hún hóf að leika ung að árum og skrifaði sjálfsævisögu sína aðeins 14 ára gömul. Það þóttu mikil tíðindi á þeim tíma enda þótt það þyki ekkert tiltökumál í dag að frægir unglingar og börn gefi út sjálfsævisögu sína. Margir eru meira að segja á bindi tvö þegar þeir eru rétt 14 ára.

Það er kannski ekki hægt að segja að kvikmundaferill Janette hafi verið mjög glæstur en hún lék alls í fimmtán myndum.

  • frostscott64No Highway in the Sky (1951)
  • The Good Companions (1957)
  • Happy is the Bride (1957)
  • The Devil's Disciple (1959)
  • The Lady Is a Square (1959)
  • School for Scoundrels (1960)
  • Double Bunk (1961)
  • The Day of the Triffids (1962)
  • Paranoiac (1963)
  • Siege of the Saxons (1963)
  • The Old Dark House (1963)
  • The Beauty Jungle (1964)
  • Crack in the World (1965)
  • Bikini Paradise (1967)
  • How to Lose Friends & Alienate People (2008)

Flestar að þessum kvikmyndum eru ekki mikið þekktar í dag en í sumum þeirra léku helstu stórleikarar þeirra tíma eins og í mundinni The Devils Disciples þar sem Janette lék á móti Kirk Douglas, Burt Lancaster og Laurence Olivier.

janette%20scottEins og sést á þessum lista hætti hún að leika upp úr 1967. Frá 1959-1965 var hún gift Jackie Rae, Kanadískum tónlistarmanni. Ári eftir skilnaðinn við Rae, Janette hinum kunna jass-tónlistarmanni Mel Torméog átti með honum tvö börn. Annað þeirra er söngarinn James Tormé. Janette skildi við Mel árið 1977 og giftist núverandi eiginmanni sínum William Rademaekers árið 1981.

Því miður er fátt að finna um hagi Janette eftir að hún hætti að leika. Kannski hún hefði átt að bíða með ævisöguna aðeins lengur.

Engar myndir er að finna af henni á netinu eftir að hún hætti að leika 1967, ekki einu sinni í tengslum við kvikmyndina How to Lose Friends & Alienate People sem var gerð á síðasta ári. En eins og sést af meðfylgjandi myndum hafði Jennet svo sannarlega útlitið og útgeislunina með sér.


Wall Street nornin

greenÁrið 1998 safnaði bandaríska tímaritið American Heritage Magazine saman nöfnum 40 auðugustu Bandaríkjamanna fyrr og síðar miðað við gengi dollarans það sama ár. 39 karlmenn voru á þeim lista og aðeins ein kona. Enn í dag er hún talin auðugasta konan sem Bandaríkin  hafa alið. Hún hét Hetty Green og þegar hún lést árið 1916 voru auðævi hennar metin á rúmar 100 milljónir dala. (17 billjónir á núvirði bandaríkjadollara)

 Hetty Green var mjög fræg á sínum tíma, ekki fyrir auðævi sín, heldur fádæma nísku.

Hetty varð auðug á afar hefðbundin hátt, þ.e. hún erfiði mikið fé. Faðir hennar sem bjó í New Bedford í Massachusetts varð ríkur á hvalveiðum og þegar Hetty Howland Robinson fæddist árið 1834 var hann þegar orðin þekktur kaupsýslummaður. Hetty fékk snemma áhuga á fjrámálum  og lærði að stauta á læri föður síns sex ára að aldri, þegar hann las kaupsýslutíðindin. 13 ára hóf hún að færa bókhald föður síns og fjárfesti laun sín á verbréfamarkaðinum. Í öllum fjárfestingum sínum fór hún afar varlega og kom sér í því efni upp vinnureglum sem hún fylgdi allt til dauðadags.

Í "villta vestrinu" varð til málsháttur sem sagði; "Þegar að staðreyndir verða að goðsögn, prentaðu þá goðsögnina". Sögurnar af nísku Hetty voru frægar um öll Bandaríkin á sínum tíma. Sagt var að þegar hún varð 21. árs hafi hún neitað að tendra kertin á afmæliskökunni sinni. Daginn eftir afmælisdaginn tók hún kertin og skilaði þeim aftur í verslunina þar sem þau höfðu verið keypt og fékk þau endurgreidd.

Þegar að faðir hennar dó, erfði Hetty eina milljón dollar eftir hann og aðrar fjórar sem bundnar voru í sérstökum sjóði. Tveimur vikum eftir dauða föður hennar, lést auðug frænka hennar sem lofað hafði Hetty að hún mundi arfleiða hana að tveimur milljónum dollara. Þegar á daginn kom að frænkan hafði aðeins ánafnað Hetty 65.000 dollurum í erfðarskrá sinni, reiddi Hetty fram aðra erfðaskrá sem var handrituð af henni sjálfri. Hetty uppástóð að gamla konan hefði fengið hana til að rita nýja erfðaskrá skömmu áður en hún lést og þá ánafnað Hetty allan auð sinn. Það tók Hetty fimm ára baráttu fyrir dómstólum landsins að fá þessa nýju erfðarskrá viðurkennda en það gekk að lokum.

hetty%20greenHetty grunaði alla þá sem sóttust eftir að giftast henni að ágirnast auð hennar meira en hana sjálfa og því festi hún ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 33 ára. Hún giftist Edward Henry Green sem einnig var kaupsýslumaður. Hetty var öllu glúrnari í viðskiptum en Edward og þegar að hún neyddist til að borga fyrir hann skuld, losaði hún sig við skuldina og eiginmanninn í leiðinni.

Þegar að Ned sonur hennar var 14 ára, lenti hann í slysi á snjósleða. Annar fótleggur hans hrökk úr liðnum en móðir hans neitaði að leggja drenginn inn á sjúkrahús. Í staðinn reyndi hún að lækna hann sjálf og leita til læknisstofa sem veittu frýja þjónustu. Að lokum fór svo að drep hljóp í fótinn og taka varð hann af við hné.

225px-HettyGreen001aDóttir hennar Sylvía, bjó með móður sinni fram að þrítugu. Öllum vonbiðlum var hafnað þar sem Hetty þótti engin nógu góður fyrir dóttur sína.

Þegar hún loks leyfði ráðhag dóttur sinnar og Matthew Astor Wilks sem giftu sig 1909, lét Hetty Matthew skrifa undir kaupmála þar sem hann afsalaði sér öllu tilkalli til auðæva Sylvíu, þótt hann væri sjálfur ekki beint bláfátækur þar sem eignir hans voru metna á meira en 2. milljónir dala.

Hetty var skuldseig með eindæmum og greiddi aldrei reikninga án þess að röfla yfir þeim. Oftast enduðu ógreiddir reikningar á hendur henni í lögfræðiinnheimtu.

Sagt er að eitt sinn hafi hún eytt hálfri nóttu í að leita að tveggja senta frímerki.

Eftir að fyrrum eiginmaður hennar lést árið 1902, flutti hún frá heimabæ hans í Belloes Falls í Vermont til Hoboken í New Jersey, til að ver nær kauphöllinni í New York borg. Hún klæddist alltaf svörtu og fór á fund við kaupsýslumenn og bankastjóra á hverjum degi. Klæðnaður hennar og sérviska urðu til ess að hún var uppnefnd Wall Street nornin.

hettygreenAllt sem Hetty tók sér fyrir hendur virtist enn auka á munmælasögurnar sem af henni fóru. Hún bjó í herbergiskytru sem hún leigði og eyddi aðeins um 5 dollurum á viku til lífsviðurværis.

Hún gerði oft langan hlykk á leið sína til að kaupa brotið kex í heildsölu. Hún klæddist sama kjólnum dag eftir dag uns hann lak í sundur á saumunum. Þegar hún komst ekki lengur hjá að þvo flíkina, skipaði hún svo fyrir að hún skyldi aðeins þvegin að neðan þar sem hún skítugust.

Hádegisverður hennar var hafragrautur sem hitaður var á ofninum í skrifstofu hennar í Seaboard National Bank þar sem hún vildi ekki greiða leigu fyrir sér húsnæði.  Eini munaðurinn sem hún leyfði sér tengdist hundinum hennar, sem borðaði miklu betri mat en Hetty sjálf.

Oft leituðu borgaryfirvöld í New York til Hetty til að fá lán svo borgin gæti staðið í skilum. Í þrengingunum 1907 lánaði hún borginni 1.1 milljón dollara og fékk greitt í skammtímavíxlum.

Í elli þjáðist Hetty af slæmu kviðsliti en neitaði sér um læknisaðgerð sem kostaði hefði hana 150 dollara. Hún fékk slag oftar en einu sinni og var bundin við hjólastól síðustu ár ævi sinnar.

Hún óttaðist að henni yrði rænt og lét rúlla sér krókaleiðir til að forðast þá sem hún hélt að væru á eftir sér. Hún hélt því fram á gamalsaldri að eitrað hefði verið fyrir föður hennar og frænku.

Þegar að Hetty dó árið 1916, þá 81 árs, rann allur hennar auður til tveggja barna hennar, Ned og Sylvíu sem ekki tileinkuðu sér sama lífsmáta og móðir þeirra og eyddu fé sínu frjálslega og af gjafmildi.


Dansar þú 1.maí?

Workers_UniteÁrþúsundum áður en þing evrópskra verkalýðsfélaga sem haldið var í París árið 1889 samþykkti tillögu Frakka um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks, var dagurinn almennur frídagur og hátíðisdagur víðast hvar í Evrópu.

Gamla keltneska tímatalið gerði ráð fyrir fjórum jafnlöngum árstíðum og samkvæmt því hófst sumar 1. maí. Með auknum umsvifum og landvinningum Rómverja í mið og norður hluta álfunnar, blandaðist 1. maí hátíðarhöldin rómversku hátíðinni Floralíu sem tileinkuð var gyðju blómanna Flóru. Sú hátíð var haldin frá 28 apríl til 2. maí.

Á Bretlandseyjum þar sem 1. maí hátíðin gekk undir gelíska heitinu Beltene-hátíðin.  Var hún allsherjar hreingerningarhátíð, andlega jafnt sem efnislega og stjórnað af Drúída-prestum. Jafnvel búféð var hreinsað af öllu illu með að reka það í gegnum eld.

may1_maypole_raise_smSeinna runnu ýmsir siðir þessara tveggja hátíða saman.  Til þeirra má rekja siði sem enn eru í heiðri hafðir víða um Evrópu eins og að reisa og dansa í kringum maí-stöng og krýna maí-drottningu og kveikja í bálköstum. Þess má geta að fyrirmyndin að "frelsistrénu" sem var tákn frönsku byltingarinnar var fengin frá maí-stönginni.

Um leið og kristni breiddist út um álfuna var mikið til reynt til að gera 1. maí að kristinni hátíð. Kaþólska kirkjan helgaði daginn Maríu Guðsmóður og seinna var hann kenndur við dýrlinginn Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Í Þýskalandi hét hátíðin "Valborgarnætur". Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.

Lengi vel var siður að gefa 1. maí-körfur sem fylltar voru einhverju góðgæti og blómum sem skilja átti eftir við dyr nágranna án þess að gefa til kynna hver gefandinn væri.

haymarketÍ dag er 1. maí haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum heimsins sem alþjóðlegur frídagur verkafólks, en þó ekki í Bandaríkjunum eða Kanada. Það kann að sýnast dálítið kaldhæðnislegt,  því þegar ákveðið var að dagurinn skyldi tileinkaður verkfólki var haft í huga að minnast fjöldamorðanna sem áttu sér stað á Heymarkaðinum í Chicago þann 4. maí 1886, þegar á annan tug stuðningsmanna verkammanna í verkfalli, var feldur af lögregluliðum borgarinnar.


Samantekt á fréttanöldri

obama-100-daysObama er búin að vera við völd í USA í rúma 100 daga. Það eru mikil tímamót hjá þjóð þar sem hlutirnir gerast hratt. Obama er rosalega vinsæll eftir þennan tíma í embætti, um það bil eins vinsæll og forveri hans Bush var eftir fyrstu 100 dagana sína í Hvíta húsinu. Góður árangur hjá Obama!

bb79eda6-71a8-4416-b157-85fb902009afSvínaflensan er kominn á fulla ferð um heiminn.  Samsærismennirnir segja að hún sé sérhönnuð til þess að taka athyglina frá einhverju voðalega ljótu sem er að gerast í fjármálheiminum. Á hverju kvöldi birtist heimskortið á skjánum þar sem hvert land lýsist upp ef þar hefur fundist tilfelli. Svo virðist sem Svínaflensan sé miklu skæðari en fuglaflensan var og komið er í ljós að það er tilgangslaust að reyna að hindra útbreiðslu hennar. Viðbrögð stjórnvalda eiga að miðast frekar við meðhöndlun. Allir eru að kaupa sér andlitsgrímur nema múslíma-konur sem eiga þær til. Tölurnar yfir látna og veika birtast líka yfir hverju landi og svo segir þulurinn eða þulan frá því hvar sé líklegast að hún skjóti sér niður næst og hvað margir komi til með að deyja þar. Svei mér þá, ef þetta er ekki jafn spennandi og juróvisjón.

multiple_BURKA%20wivesOg vel á minnst, skartgripasali í Skotlandi er búinn að banna búrkur og andlistgrímur íslamskra kvenna í verslun sinni eftir að tveir karlmenn klæddir sem konur í serk og með grímur, rændu verslun hans. Nú verða íslamskar konur að hringja á undan sér og panta sér afgreiðslukonu ef ær vilja versla við hann.

Stríðið í Írak gengur vel. Það er búið að drepa þar dagskammtinn sem er venjulega milli 40-100 manns.

Goslokahteyjum2007097-viÁrni í Eyjum segir að það hafi verið unnið á móti honum í flokknum hans. Eitraðar tungur spilltu fyrir honum og hvöttu til þess að yfirstrika hann. Árni veit vel hvað það er að verða fyrir eitrun. Ég sá á honum hendurnar eftir að einhver eitraði fyrir honum fyrir þremur árum. Þær voru bólgnar og þrútnar. Nú bólgnar Árni aftur og þrútnar af réttlátri reiði. Pólitík er eitur.

Mín tillaga er að Árni J, Guðlaugur Þór sem langar svo til þess að verða aftur litli góði drengurinn,  og Björgvin pípari, (saklausi bankamálaráðherrann) taki sig saman og stofni með sér "Útstrikaða-flokkinn".

ViðræðurVG og Sf halda áfram að spjalla um hvernig þeir eigi að stjórna landinu. Það liggur ekkert á segja þau, því þau eru hvort eð er við stjórn. Stóra málið er auðvitað hvernig á að standa að því að ganga í Evrópubandalagið. Samfylkingin vill ekki ganga í EB, heldur hlaupa þangað og VG vilja heldur ekki ganga í það, en eru tilbúnir í að skríða.

2003123112046920Svo eru það hremmingarnar hans Þráins. Í Borgarhreyfingunni á fólk að vera svo heilagt að það á að skila launum fyrir störf sem það hefur fyrir löngu unnið. Að auki er hér um að ræða "verðlaun" sem hann var "heiðraður" með. Nú er heiður hans fallinn að sumra mati sem vilja að hann skili verðlaununum rétt eins og íþróttagarpur sem hefur orðið uppvís af dópnotkun. Þráinn; nú er tími til kominn að hvetja exina og höggva nokkrar gagghænur.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband