Færsluflokkur: Bloggar
26.4.2009 | 12:45
Business as usual
Kosningarnar afstaðnar og allir flokkar og listar greinilegar sigurvegarar, eins og venjulega, nema kannski XF flokkurinn sem varð fórnarlamb sinna eigin fordóma og jæja, kannski einhverra annarra líka sem hafa fordóma gegn fordómum.
Ástþór sigraði feitt, vegna þess að hann fékk að koma fram með hinum framagosunum og segja þeim til syndanna. Svo fékk hann líka tækifæri til að neita fréttamiðlinum sem hann hatast út í, um nærveru sína. Ég held að ég hafi aldrei séð eins glaðvært glott á vörum fréttaþular og þegar hann tilkynnti það.
Allt fór vel hjá Sjálfstæðisflokknum sem hvort eð er hafði ekki gert ráð fyrir að vera með í næstu stjórn landsins. Nú fá þeir kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja sig og "vinna fylgið til baka" því þeir hafa "stefnuna og fólkið sem þjóðin þarf" til að velsæld ríki í landinu. Og allar gömlu konurnar klöppuðu hátt í Valhöll þegar að foringinn tilkynnti þetta.
Vinstri grænir voru hinir eiginlegu sigurvegarar því þeir hafa aldrei verið stærri en nú, nema í flestum skoðanakönnunum fyrir kosningar. En eins og allir vita er ekkert að marka skoðanakannanir. Þeir eru orðnir svo stórir að þeir eru orðnir svona "sjáum til" flokkur, eins og hinir flokkarnir hafa alltaf verið. Því miður fyrir vin minn Bjarna Harðar, sá hann það ekki fyrr en það var um seinan.
Stórsigur Samfylkingarinnar og Jóhönnu er eiginlega ekki fréttnæmur. Þegar loks er búið er að hræra saman og baka köku úr öllu sem til var; kvennaframboðinu, krötum, allaböllum og Ómari Ragnars, þá ber að gleðjast yfir því að kakan kom loks ófallin úr ofninum.
Stórkostleg framsókn framsóknarflokksins, sem aðeins einu sinni í sögu landsins hefur verið með jafn fáa þingmenn, er staðreynd. Flokkurinn stækkaði um 100% í þessum kosningum frá því sem slökustu skoðanakannanir sýndu. Mikið afrek fyrir annars aflóga stefnu og frekar ógeðgeldan strák sem tók við þessu hrafnaþingi fyrir nokkrum vikum.
Borgarhreyfingin sem eyddi bara einni og hálfri milljón og þremur vikum í að koma framboðinu saman fékk fjóra þingmenn og þar af einn flóttamann frá hrafnaþinginu, er hinn sanni sigurvegari þessarar kosninga, vegna þess að nú munu raddir fólksins í landinu loksins heyrast í þingsölum landsins. - Þeir ætla að halda uppi málþófi í öllum málum sem þingið tekur fyrir og þeir eru ekki sammála. Það er mikill sigur fyrir lýðræðið að fá þá málgarpa á þing.
Nú tekur við smá karp milli XS og XV um hvernig það verði hægt fyrir stjórnina að fara strax út í EB aðildarviðræður án þess að XV missi algjörlega andlitið. Og þegar því er lokið, verður þetta business as usual.
Heima sitja flokkseigendurnir ánægðir og núa sér um handabökin. Eftir allt þetta tilstand fór þetta bara dável allt saman. Enginn kærður fyrir stórþjófnaðina, engin ný stjórnarskrá til að endurskilgreina rétt þegna landsins, ekkert persónukjör og búið að stinga snuði upp í pottaglamursliðið. Business as usual.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.4.2009 | 01:08
Fagrar og sexý eða konur í neyð
Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú sérð svona myndir? Í gegnum huga minn flaug spurningin,
Hvað er eiginlega að í þessum heimi?
Ef það eru til vitsmunaverur á öðrum hnöttum, skilur maður vel af hverju þær halda sig fjarri okkur, þegar við skoðum myndirnar sem hér fylgja og berum þær saman.
Sumar eru teknar í landi þar sem fólk lifir við alsnægtir og friður ríkir. Aðrar eru teknar þar sem styrjaldir, hungurneyðar og kerfisbundin utrýming fólks hafa átt sér stað.
Sjúkdómarnir sem valda þessu ástandi eru mismunandi.
Þeir heita mismunandi nöfnum en eiga það sameiginlegt að eiga heima í huga og hjörtum fólks.
Annars vegar heita þeir; hatur og vanþekking, fordómar og græðgi. Einkenni þessarar sjúkdóma á heimsmælikvarða eru styrjaldir og hungurneyðir.
Hins vegar heita þeir; sjálfshatur, ímyndarveiki, depurð og einmannleiki sem eru andleg einkenni anorexíu og búlimíu.
Eins og flestum er orðið ljóst eru myndirnar vinstra megin af tísku-sýningarstúlkum. Þær eru fyrirmyndir þúsunda ungra stúlkna í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu. Stúlkurnar hægra megin eru fórnalömb úr útrýmingarbúðum og hungursneyða af völdum styrjalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2009 | 18:36
Grænu börnin
Þorpið Woolpit er nefnt eftir fornum pyttum sem finna má í grenndinni og kallaðir eru "Úlfapyttir" vegna þess að þeir voru í fyrndinni notaðir til að veiða í úlfa.
Dag einn síðla sumars fyrir meira en átta hundruð árum gengu þorpsbúar Woolpit til verka sinna á akrinum fyrir utan þorpið. Þegar þeir nálguðust akurinn heyrðu þeir hræðileg óp kom úr einum úlfapyttinum skammt utan akursins. Við nánari eftirgrennslan fundu þeir tvö felmtri slegin börn á botni hans.
Börnin virtust eðlileg í alla staði fyrir utan tvennt; þau töluðu tungumál sem enginn skildi, en það sem meira var, hörund þeirra var grænt á litinn. Drengurinn og auðsýnilega eldri systir hans voru líka klædd í föt sem gerð voru úr torkennilegum efnum.
Eftir að þorpsbúar höfðu undrast og býsnast nægju sína yfir börnunum, ákváðu þeir að far með þau til landeigandans Sir Richard de Calne, á óðal hans í Wikes. Sagan um fund barnanna fór eins og eldur í sinu um héraðið og margir lögðu leið sína til Wikes til að berja eigin augum undrin.
Börnin voru greinilega örmagna og hungruð en fengust ekki til að borða neitt af því sem þeim var boðið. Það var ekki fyrr en einhver veitti því athygli að þau gutu augunum í áttina að matreiðslukonu sem fór fyrir gluggann með fulla körfu af grænum baunum í fanginu, að þeim var boðið hrátt grænmeti eingöngu. Það þáðu þau og næstu mánuði lifðu þau eingöngu á grænum baunum og káli þar til loks þau fengust til að bragða á brauði og öðrum almennum mat.Smátt og smátt breyttist litarháttur þeirra og færðist nær því sem gekk og gerðist meðal enskrar alþýðu á þeim tíma.
Fólki fannst viðeigandi að láta skýra börnin og var það gert en þau dvöldust í góðu yfirlæti á heimili
Sir Richard þar sem allir komu vel fram við þau.
Þegar leið að jólum, var orðið ljóst að drengurinn átti greinlega mun erfiðara með að aðlaðast nýjum háttum. Hann varð þunglyndur og lést skömmu fyrir aðfangadag eftir skammvinn veikindi. Systir hans braggaðist hins vegar vel og eftir nokkra mánuði var ekki hægt að sjá muninn á henni og öðrum börnum.
Hún dvaldist á heimili Sir Richards í mörg ár og lærði þar að tala reiprennandi ensku. En það sem hún hafði af fortíð sinni að segja jók frekar á leyndardóminn frekar en að skýra hann. Hún sagðist hafa átt heima í landi sem kallað væri St. Martin. Landið væri kristið og þar væri að finna margar kirkjur. Þar risi sólin ekki upp á himininn og íbúar þess byggju þess vegna í stöðugu rökkri.
Stúlkan gat ekki skýrt hvernig hún og bróðir hennar hefðu lent í úlfapyttinum. Hún sagðist eingöngu muna eftir því ð hafa verið að gæta kinda föður síns þegar að hún heyrði mikinn klukknahljóm. Við hljóminn missti hún meðvitund og þegar að hún rankaði við sér voru þau stödd í stórum helli. Þau reyndu hvað þau gátu til að komast út úr hellinum og gengu á birtu sem barst inn í hann. Þannig komust þau í botn pyttsins þar sem þorpsbúarnir loks fundu þau.
Saga stúlkunnar var skráð af sagnritaranum William of Newburge. (1136-1198 í Historia rerum Anglicarum) Samkvæmt heimildum hans tók stúlkan sér nafnið Agnes Barre og giftist manni frá King's Lynn.
Annar sagnritri Ralph of Coggeshall (d.1228), segir einnig frá grænu börnunum í Chronicon Anglicanum sem hann skrifaði í frá 1187 til 1224.
Báðir skrifuðu samt um atburðinn löngu eftir að hann átti að átt sér stað.
Sagan um grænu börnin er einnig varðveitt í skjaldarmerki þorpsins Woolpit sem enn er í byggð og einnig á útsaumuðum refli í kirkju staðarins. Ekki er vitað hvort "Agnes" eignaðist afkomendur en svo mikið er víst að ekki hafa nein græn börn fæðst á Englandi svo vitað sé um.
PS. Hér er að finna athyglisverða grein um svo kölluðu "Grænu veikina" eða chlorosis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2009 | 13:53
Hvar eru allir japönsku skóladrengirnir?
Sumardagurinn fyrsti heilsaði mér með sólskini og bros á vör. Ég kreisti fram hálfkarað glott til baka. Þegar ég rölti niður í miðbæ til að drekka morgunkaffið mitt voru rónarnir þegar vaknaðir og sötruðu morgunbjórinn sinn, reyktu og glugguðu í frýju dagblöðin. Sum höfðu greinilega verið ábreiður þeirra um nóttina.
Þegar sólin skín brosir fólk meira. Kaffið bragðast líka betur. Stúlkurnar eru léttstígari og strákarnir flexa vöðvunum meira í stuttermabolunum. Ég sé að blikið í augum götusalanna er skærara og einhvern veginn lítur vara þeirra betur út líka. Japönsku skólastelpurnar fara um bæinn tvær og tvær og rýna í kortin sín. Hversvegna sjást japanskir skóladrengir aldrei á ferð?
Fréttirnar í blöðunum eru samt jafn leiðinlegar og áður, kannski enn leiðinlegri. Söngleikur um Jade Goody í startholunum...vá eitthvað sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Darling sjóðstjóri segir að best sé að bregðast við kreppunni með því að gera ekki neitt og láta sem allt sé eðlilegt...Condoleezza Rice með í ráðum þegar Zubaydah var pyntaður með "vatnsborðsaðferðinni" 83 sinnum Khalid Sheikh Mohammad 183 sinnum...og mér sem fannst hún alltaf svo brosmild og viðkunnanleg...Kannski var það bara af því hún var kona, svört kona. 28 manns dánir í enn einni sprengjunni í stríðinu sem er löngu lokið í Írak...Næstum því heimsendir 2012 þegar sólvindar slá út öllu rafmagni, eyðileggja gervihnettina og Internetið.....and so on and so on.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2009 | 15:46
Endanleg kosningaspá Dr. Phil
Kosningaspá Dr. Phil fyrir alþingiskosningarnar á Íslandi 2009 hefur setið óþýdd í tölvupóstinum mínum í tvo daga. Ég hef verið að leiða það hjá mér að þýða og birta hana, en nú er mér ekki stætt á því lengur, því ítrekað hefur verið spurt hverju henni líði. Hér kemur því spáin.
Mjög hefur dregið úr þreki ránfuglsins og er hann nú orðin svo máttfarinn að honum mun aðeins auðnast að klekja út fimmtán eggjum.
Mikil verður vegur hins rauða röðuls en hans vagn munu draga um himinhvolfið, áður en yfir lýkur, ekki færri en tveir tugir geithafra.
Ljósbláa týran sem áður vakti athylgi líkt og hrævareldar á mastri þjóðarskútunnar, mun slokkna.
Örvhenta græna fylkingin mun breikka og tala skjaldbera hennar bera upp á tölu þjóðhátíðardagsins.
Þeir sem guðirnir elska deyja ungir og sumir ná því aldrei að fæðast og komast í tölu lifenda.
Græna frúin situr hokin í herðum og handfjatlar hattinn sinn. Úr honum hafa fokið allar skrautfjaðrirnar nema sex.
Hamar Þórs mun lenda á íslenska þjóðarsteðjanum með miklu meiri þunga en búist var við. Af höggi hans munu fimm appelsínugulir neistar spretta fram og kveikja í morgunhimninum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Það líður senn að ögurstundu og brátt verða niðurstöður "stóru" skoðunarkönnunarinnar sem við köllum kosningar, ljósar.
Flokkarnir og framboðin hamast dag og nótt við að koma höggi á hvort annað, gömlu góðu klisjurnar bergmála í fjölmiðlunum og hýreygir lygarar brosa til okkar sem best þeir kunna og þess á milli núa þeir hvor öðrum um nasir misgjörðunum og óheiðarleikanum sem þeir allir eru ofurseldir.
Og hvernig mun fólk bregðast við? Þeir sem enn trúa á mátt og megin stjórnmálaflokkana munu eflaust skipta sér niður á þá sem þeir hafa ákveðið að halda með í þetta sinn.
En margir hafa ákveðið að taka ekki lengur þátt í þessari svikamillu sem kölluð er flokkapólitík.
"Minni" skoðanakannanir hafa upp á siðkastið gefið sterklega til kynna að stærsti hópurinn og þess vegna einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga verði þeir sem skila auðu, kjósa ekki eða ógilda atkvæðisseðla sína á annan hátt. - Ef fer sem horfir getur það orðið allt að 30% þeirra sem eru á kjörskrá og er hærra hlutfall en fylgi nokkurs framboðs eða stjórnmálflokks sem býður fram miðað við skoðanakannanir síðust daga.
Talið er að allt að 12% muni skila auðu, 3% ógildu og 16% muni ekki mæta á kjörstað. Þessar tölur eru fengnar með því að taka mið af kjörsókn 2007 sem var 83,6% og hlutfalli ógildra og auðra seðla sama ár og nýlegum skoðanakönnunum. (Sjá hér)
Þetta háa hlutfall auðra og ógildra atkvæðaseðla sem búist er við að komi í kassana á kjördegi, má örugglega rekja til óánægju þeirra Íslendinga sem gera sér grein fyrir að ekkert bendir til þess að stjórnmálamenn ætli að taka öðruvísi á málum en hingað til hefur verið gert. Að skila auðu, ógilda atkvæðaseðilinn eða mæta hreinlega ekki á kjörstað, er beint framhald af andófinu sem fyrir nokkru var kallað "búsáhaldabyltingin".
Öllum stjórnmálflokkunum hefur tekist að drepa á dreif áherslumálum hennar og gert inngöngu í Evrópubandalagið að megin kosningamálinu. Það var svo sem fyrirséð, enda kunna þeir ekkert annað en einhverjar tæknibrellur til að hylja yfir andlega fátækt sína.
Kröfurnar um að flokksræði víki fyrir alvöru lýðræði, um persónukjör og stjórnlagaþing, hafa allar endað í skrumi alþingismanna og kvenna, sem samt sækjast flest eftir umboði kjósenda til að halda ruglinu áfram eftir kosningar.
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Steinn Steinar
Og hverjir ætla svo að halda áfram að spila?
X-Autt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.4.2009 | 12:01
Lunda-hundar
Lunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.
Hann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts, minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.
Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.
Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.
Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.
Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2009 | 16:00
Ronnie Wood vinnur áfangasigur í Kazakhstan
Ég get ómögulega stillt mig um að koma hér á framfæri smá "update" á fyrsta og eina "skúbbinu" mínu, fram að þessu, þ.e. þegar ég hitti Ronnie Wood á förnum vegi í fyrra og átti við hann orðastað.
Það er ljóst að ævintýrið á Írlandi þar sem hann dvaldist með hinni rússnesku ástmey sinni Ekaterínu hefur dregið dilk á eftir sér. Um það sagði Ronnie á sínum tíma að hann hefði verið "bad boy". Ég taldi víst að hann meinti að þetta væru eins og hver önnur rokk-strákpör hjá honum. En nú er Ronnie skilinn og reynir hvað hann getur til að vingast við fjölskyldu kærustunnar og sérstaklega hina 75 ára gömlu Lyudmillu Ivanovu, sem er höfuð ættarinnar.
Hún býr í Kazakhstan og er enn ómyrk í máli þegar hún tjáir sig um Ronnie hinn 61. árs gamla gítarleikara sem hún kallar Ronik.
Hún sagði eitt sinn að Rollingarnir væru "bæði ljótir og ógeðslegir". Nýlega var hún spurð hvað henni fyndist um tilhugalíf þeirra Ronnie og Ekaterínu. "Ef hann vill giftast Ekaterínu, þá mun ég gleðjast fyrir þeirra hönd." svaraði sú gamla."Ef þetta er raunveruleg ást leyfum þeim þá að vera hamingjusöm."
Lyudmilla segist samt halda að " hjónbandið endist ekki lengi. "Hún er miklu yngri en hann þannig að hún mun fá tækifæri til að giftast aftur ef eitthvað kemur fyrir Ronik." "En svona er heimurinn í dag. Gamlir menn yfirgefa fjölskyldur sínar og finna sér ungar kærustur".
Ronnie yfirgaf Jo Wood eftir 23 ára hjónaband til að vera með Ekatreínu.
Gamla konan heldur því jafnframt fram að ástæðan fyrir því að enginn úr fjölskyldu Ronnie, ekki einu sinni börn hans, taka í mál að hitta Ekaterínu, sé að Jo hafi beðið þau um það. "Þetta ástand er ekki gott" bætir hún við.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2009 | 02:00
Heldri bloggarar
Ég hef lengi verið að hugsa um að skrifa pistil um Félag heldri bloggara á blog.is en einhvern veginn ekki komið mér að því fyrr en nú. Ég hef sterkan grun um að ástæðan fyrir þessu framtaksleysi sé sú, að þetta ágæta félag er ekki til.
Það ætti að vera til og gæti orðið til, en mér vitanlega hefur það ekki verið stofnað enn.
Félag heldri bloggara gæti starfað mjög svipað og önnur menningarfélög. Félagar kæmu saman einu sinni tvisvar á ári, til að sýna sig og sjá aðra, hvetja hvern annan til dáða og klappa hverjum öðrum á bakið.
Eða kannski er þetta bara gömul hugmynd sem ég greip út úr ljósvakanum, og sem löngu er búið að afgreiða sem dauðadæmt rugl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.4.2009 | 00:08
Hvað er svona spes við páskadag
Þá er hátíðlegasti og elsti helgidagur kristinnar trúar genginn í garð. Skilningur sumra er að á þessum degi fyrir réttum 2000 árum eða svo, hafi tilgangur gjörvallrar sköpunarinnar uppfyllt sig. Sú túlkun gerir ráð fyrir að dauði Krists sé miklu mikilvægari fyrir sáluhjálp fólks en líf hans og kenningar. Þeir sem halda því fram segja líka að einstæði Krists sé fólgið í því að hann einn reis upp frá dauðum og sté upp til himna. Þeir verða auðvitað að horfa fram hjá öðrum frásögnum í Biblíunni sem eru afar hliðstæðar, og gera það yfirleitt léttilega. Sem dæmi, var farið á slá vel í Lasarus þegar að Kristur kallaði hann til lífs aftur, þannig að Lassarus reis upp frá dauðum löngu á undan Kristi. Nokkrum hundruðum árum hafði spámaðurinn Elía spreytt sig á svipuðu kraftaverki með góðum árangri. Hann var auk þess sjálfur uppnuminn til himna með miklum gustó eða eins og því er lýst í Síðari Konungabók;
"11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. 12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar.
En ef við höldum okkur við atburði þá sem sagðir eru hafa átt sér stað á páskasunnudag fyrir rétt um 2000 árum, þá er þeim lýst í öllum fjórum guðspjöllunum.
Jóhannes ríður á vaðið með frekar látlausri frásögn þar sem allir eru voða mikið að flýta sér og hlaupa þess vegna talvert um. Það eina sem þeir finna er tóm gröf;
20 Jóhannes
1 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. 2 Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."3 Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. 4 Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. 5 Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. 6 Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar 7 og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. 8 Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. 9 Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. 10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.
Næst kemur frásögn Markúsar. Þar eru Maríurnar orðnar tvær auk einhverrar Salome. Þá kemur ungur maður í hvítri skikkju til sögunnar.
16 Markús
1Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 3Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?" 4En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. 5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.
Þá kemur framburður Lúkasar og færist nú fjör í leikinn. Konurnar eru aftur þrjár og einhver Jóhanna hefur slegist í för með Maríunum. Nú eru mennirnir sem þær sjá orðnir tveir og klæðin eru ekki lengur aðeins hvít, heldur skínandi og Þeir tala til kvennanna.
24 Lúkas
1En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. 2Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, 3og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. 4Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. 5Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? 6Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. 7Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."8Og þær minntust orða hans, 9sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. 10Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. 11En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. 12Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
Matteus slær síðan öllum hinum við. Þar byrjar sagan á jarðskjálfta, síðan koma tvær Maríur, þá er mættur engill og varðmenn komnir vettvang sem eru lafandi hræddir. Svo talar engillinn við konurnar en hápunkturinn er þegar Kristur sjálfur birtist og tekur fagnandi á móti þeim.
28 Matteus
1Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. 2Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. 3Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. 4Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.5En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. 6Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. 7Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.' Þetta hef ég sagt yður."
8Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.
9Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. 10Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."
Þessar mismunandi útgáfur Guðspjallanna af því hvernig lærisveinunum varð kunnugt um að að Kristur væri upprisinn bera vitni um að sagan hefur breyst eins og ævintýri í aldanna rás. Það Guðspjall sem síðast er samið, hefur bætt flestu við söguna og gert hana ævintýralegri en hinar frásagnirnar sem eru eldri.
Það sem fæstir kristnir gefa nokkurn gaum er sú staðreynd að í þrjá daga var Kristindómurinn dauður. Upprisa kristindómsins er stóri punkturinn í þessari sögu sem hefst með því að María kallar saman fyrsta fund lærisveinanna til að ráða ráðum sínum eftir aftöku Krists. - Það finnst mér öllu meiri áfangi í sögu trúarbragðanna en yfirnáttúrulegar skýringar á því hvað varð um líkama Krists.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)