22.4.2009 | 15:46
Endanleg kosningaspá Dr. Phil
Kosningaspá Dr. Phil fyrir alþingiskosningarnar á Íslandi 2009 hefur setið óþýdd í tölvupóstinum mínum í tvo daga. Ég hef verið að leiða það hjá mér að þýða og birta hana, en nú er mér ekki stætt á því lengur, því ítrekað hefur verið spurt hverju henni líði. Hér kemur því spáin.
Mjög hefur dregið úr þreki ránfuglsins og er hann nú orðin svo máttfarinn að honum mun aðeins auðnast að klekja út fimmtán eggjum.
Mikil verður vegur hins rauða röðuls en hans vagn munu draga um himinhvolfið, áður en yfir lýkur, ekki færri en tveir tugir geithafra.
Ljósbláa týran sem áður vakti athylgi líkt og hrævareldar á mastri þjóðarskútunnar, mun slokkna.
Örvhenta græna fylkingin mun breikka og tala skjaldbera hennar bera upp á tölu þjóðhátíðardagsins.
Þeir sem guðirnir elska deyja ungir og sumir ná því aldrei að fæðast og komast í tölu lifenda.
Græna frúin situr hokin í herðum og handfjatlar hattinn sinn. Úr honum hafa fokið allar skrautfjaðrirnar nema sex.
Hamar Þórs mun lenda á íslenska þjóðarsteðjanum með miklu meiri þunga en búist var við. Af höggi hans munu fimm appelsínugulir neistar spretta fram og kveikja í morgunhimninum.
Það líður senn að ögurstundu og brátt verða niðurstöður "stóru" skoðunarkönnunarinnar sem við köllum kosningar, ljósar.
Flokkarnir og framboðin hamast dag og nótt við að koma höggi á hvort annað, gömlu góðu klisjurnar bergmála í fjölmiðlunum og hýreygir lygarar brosa til okkar sem best þeir kunna og þess á milli núa þeir hvor öðrum um nasir misgjörðunum og óheiðarleikanum sem þeir allir eru ofurseldir.
Og hvernig mun fólk bregðast við? Þeir sem enn trúa á mátt og megin stjórnmálaflokkana munu eflaust skipta sér niður á þá sem þeir hafa ákveðið að halda með í þetta sinn.
En margir hafa ákveðið að taka ekki lengur þátt í þessari svikamillu sem kölluð er flokkapólitík.
"Minni" skoðanakannanir hafa upp á siðkastið gefið sterklega til kynna að stærsti hópurinn og þess vegna einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga verði þeir sem skila auðu, kjósa ekki eða ógilda atkvæðisseðla sína á annan hátt. - Ef fer sem horfir getur það orðið allt að 30% þeirra sem eru á kjörskrá og er hærra hlutfall en fylgi nokkurs framboðs eða stjórnmálflokks sem býður fram miðað við skoðanakannanir síðust daga.
Talið er að allt að 12% muni skila auðu, 3% ógildu og 16% muni ekki mæta á kjörstað. Þessar tölur eru fengnar með því að taka mið af kjörsókn 2007 sem var 83,6% og hlutfalli ógildra og auðra seðla sama ár og nýlegum skoðanakönnunum. (Sjá hér)
Þetta háa hlutfall auðra og ógildra atkvæðaseðla sem búist er við að komi í kassana á kjördegi, má örugglega rekja til óánægju þeirra Íslendinga sem gera sér grein fyrir að ekkert bendir til þess að stjórnmálamenn ætli að taka öðruvísi á málum en hingað til hefur verið gert. Að skila auðu, ógilda atkvæðaseðilinn eða mæta hreinlega ekki á kjörstað, er beint framhald af andófinu sem fyrir nokkru var kallað "búsáhaldabyltingin".
Öllum stjórnmálflokkunum hefur tekist að drepa á dreif áherslumálum hennar og gert inngöngu í Evrópubandalagið að megin kosningamálinu. Það var svo sem fyrirséð, enda kunna þeir ekkert annað en einhverjar tæknibrellur til að hylja yfir andlega fátækt sína.
Kröfurnar um að flokksræði víki fyrir alvöru lýðræði, um persónukjör og stjórnlagaþing, hafa allar endað í skrumi alþingismanna og kvenna, sem samt sækjast flest eftir umboði kjósenda til að halda ruglinu áfram eftir kosningar.
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Steinn Steinar
Og hverjir ætla svo að halda áfram að spila?
X-Autt
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
21.4.2009 | 21:08
Rasismi rasistans
Forseti Írans Mahmoud Ahmadinejad sparaði ekki grjótkastið á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um kynþáttafordóma í Genfar, þótt hann búi sjálfur í glerhúsi. Hann beinir spjótum sínum sem fyrr að Ísrael og segir Zionisma vera kynþáttastefnu. Hann ætti samt að líta sér nær. Eftir að hann komst til valda í Íran hafa ofsóknir á hendur minnihlutahópum þar í landi aukist til muna og var ástandið síður en svo gott fyrir.
Kúrdar Í Íran hafa sætt stöðugum ofsóknum og ásökunum um að vera "hryðjuverkamenn" án nokkra sannana þar um. Yfirvöld gera engan greinarmun á friðsamlegum mótmælum þeirra og árásum vopnaðra hópa Kúrda og ekki færri en sex leiðtogar þeirra hafa verið teknir af lífi í Íran á síðustu tveimur árum. Einnig hafa ofsóknir gegn Baluch fólkinu og Aröbum í Khuzestan aukist mjög í seinni tíð.
Enn er kynjamisrétti löglegt í Íran sem kemur í veg fyrir að konum séu veitt grundvallar mannréttindi. Kvenréttindakonum var t.d. umsvifalaust varpað í fangelsi fyrir það eitt að safna undirskriftum til að skora á stjórnvöld til að létta af þeim okinu. Að verja málstað kvenna í Íran varðar við þjóðaröryggislöggjöf landsins.
Misrétti og ofsóknir gegn trúar-minnihlutahópum eru afar algengar í Íran. Fyrir þeim verða kristnir, gyðingar, súfíar, sunní-múslímar og bahaiar. Einkum eru það meðlimir Bahai trúarinnar sem hafa þurft að þola margháttaðar ofsóknir, eingöngu vegna skoðana sinna. Á síuðustu fjórum árum hafa meira en 200 bahaiar verið handteknir, haldið föngnum, sætt kúgun og áreiti. Glæpirnir sem þeir eru sakaðir um þegar þeim er gert að mæta fyrir rétt, er að þeir brjóti gegn þjóðaröryggislögum landsins. Þeim er meinað sjá fyrir sér og eignir þeirra gerðar upptækar. Nemendum er meinaður aðgangur að skólum, ef upp kemst að þeir séu bahaiar.
Stjórnvöld í Íran hafa kerfisbundið notað fjölmiðla landsins til að ráðast að Bahai samfélaginu sem er stærsti trúarlegi minnihlutahópur landsins. Hundruð greina hafa birst í dagblöðum þar sem vitnað er í hatursáróður Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins gegn bahaíunum, þar sem almenningur er hvattur til að sýna þeim óvild. Hvatt er opinberlega til árása á heimili þeirra, vinnustaði og grafreiti.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2009 | 02:22
Stutt spjall við vændiskonu um nýju vændislögin
Ég hringdi í íslenska vinkonu mína sem stundar vændi á eigin vegum í Reykjavík til að spyrja hana hvernig nýju vændislögin sem gerðu starfsemi hennar löglega á Íslandi, legðust í hana. Hún var fljót að taka það fram að í raun væri starfsemi hennar ekki að fullu lögleg, þar sem það væri enn ólöglegt að henni væri borgað fyrir vændið og að þeir sem keypu þjónustu hennar gætu þurft að borga sektir eða jafnvel lent í fangelsi ef það sannaðist á þá að þeir hefðu borgað sér fyrir hana. Henni fyndist ekki réttlátt að geta sjálf selt vöru, en enginn mætti kaupa af henni vöruna. Hún sagðist ekki alveg sjá hvernig það kæmi heim og saman við frjálsa og óhefta viðskiptastefnu.
Hún var samt mjög ánægð með að ekki væri lengur hægt að gera greiðslur til hennar upptækar, svo fremi sem þær hefðu verið reiddar fram og það væri vissulega mikil bót fyrir hana persónulega að þurfa ekki að óttast það að verða kærð fyrir ólöglega iðju.
Hún sagði líka að miðað við hvernig vændi væri að stærstum hluta stundað á Íslandi, þar sem flestar vændiskonur hafa fasta og áreiðanlega viðskiptavini, væri mun erfiðara fyrir lögreglu að sanna það að einhver hefði borgað fyrir vændið. Sjálf sagðist hún aldrei sjá peninga orðið, allt færi fram með kortagreiðslum, millifærslum og innlögnum, sem aldrei færu inn á einkareikninga, heldur beint inn á skráð þjónustufyrirtæki.
Hún sagði að þær stelpur sem hún þekkti í bransanum væru fyrir löngu búnar að koma sér upp leiðum svo að ekki væri hægt að rekja greiðslurnar til þeirra svo auðveldlega.
Hún taldi einnig að nýleg lög ættu eftir að koma verst við stelpur sem væru að selja sig af því þær væru í dópinu því þær þyrftu reiðufé strax til að fjármagna neysluna. Lögin mundu fæla frá þeim kúnanna því lögreglan mundi einbeita sér að þeim frekar en viðskiptavinum stelpna sem þeir vissu að þeir gætu aldrei sannað neitt upp á. Í kjölfarið mundu dópstelpurnar trúlega hrekjast meira út í afbrot eins og þjófnaði og rán.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
19.4.2009 | 16:44
Kettir eru drullusokkar
Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og sofa síðan hjá konunni þinni. -
Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.
Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)
Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf", þá hefur hann rangt fyrir sér.
Kettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -
En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!
Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;
að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -
eða; að í anddyrinu þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -
eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?
Vísindi og fræði | Breytt 21.4.2009 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
19.4.2009 | 12:01
Lunda-hundar
Lunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.
Hann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts, minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.
Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.
Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.
Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.
Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2009 | 19:11
Pyntingaraðferðir CIA
Obama Forseti, segja fréttir, ætlar ekki að sækja til saka þá sem skipulögðu eða stóðu að pyntingum fanga í fangelsum CIA vítt og breitt um heiminn, ekki hvað síst í fangabúðum við Guantanamo flóa á Kúbu.
Sex mismunandi pyntingaaðferðir sem CIA reyndar kallar "Frekari yfirheyrslu aðferðir (Enhanced Interrogation Techniques) hafa verið í notkun frá miðjum mars 2002. Þær hafa einkum verið notaðar gegn grunuðum al Qaeda meðlimum sem haldið er föngnum í fangelsum CIA í Austur Evrópu og Asíu. Aðeins örfáir CIA fulltrúar eru þjálfaðir í notkun pyndingaaðferðanna og hafa leyfi til að nota þær.
Aðferðirnar sem um ræðir eru þessar:
1. Að ná athyglinni; Yfirheyrandi grípur í skyrtu fangans að framan og hristir hann.
2. Athygli-kinnhestar. Slegið er opinni hendi í andlit fangans með það fyrir augum að valda snöggum sársauka og ótta.
3. Maga-slög; Slegið er harkalega með opnum lófa á maga fangans. Markmiðið er að valda sársauka en ekki innvortis skaða. Læknar mæltu gegn því að nota hnefahögg sem gætu valdið innvortis blæðingum.
4. Langtíma-staða. Þessi er aðferð er sögð sú áhrifaríkasta. Fangar eru látnir standa hlekkaðir við keðjuauga sem fest er við gólfið, í meir en 40 klukkustundir. Þreyta og svefnleysi verða til þess að fanginn játar oftast.
5. Kaldi klefinn; Fanginn er látinn standa nakinn í klefa sem er fimm gráðu heitur. Allann tíman er skvett á fangann köldu vatni.
6. Vatns-pynding; Fanginn er reyrður við planka og fætur hans og höfðu reist frá honum. Plastfilma er strekkt yfir andlit fangans og vatni helt yfir hann. Ósjálfrátt byrjar fanginn að koka og drukknunarviðbrögð taka yfir. Nær undantekningarlaust biðja fangarnir sér vægðar og játa fljótlega í kjölfarið.
Samkvæmt heimildum CIA líða að meðaltali 14 sekúndur frá því að vatnspyndingarnar hefjast þangað til að játning liggur fyrir. sagt er að harðasti al Qaeda fanginn, Khalid Sheik Mohammed,hafi unnið sér aðdáun pyntara sinna með því að gefast ekki upp fyrr en eftir tvær og hálfa mínútu.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.4.2009 | 19:17
Brogaðar leikreglur alþingis koma í veg fyrir lýðræði
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stjórnarfar eins og það er útfært í flestum vestrænum löndum og þar á meðal á Íslandi sé gervi-lýðræði þar sem gamla lénsherraskipulagið hefur troðið á sig lambhúshettu pólitískra flokka.
Flokkspólitík er valdastreita þar sem flokkseigendur (sem oft eru þingmenn líka) púkka undir sig og sína svo lengi og svo mikið sem þeir mega. Keppt er um í þessu valdatafli að beygja sem flesta undir sinn vilja, með hvaða ráðum sem gefast. Mútur, gylliboð og síðast en ekki síst loforð um betri tíð með blóm í haga, eru helstu aðferðirnar til að ná umboðinu og almenningur er ginningarfíflin.
Síðustu fréttir úr þingsölum Íslendinga bera þessu glöggt vitni. Þar var restin af þjóðinni beygð undir vilja örfárra manna sem eru hræddir við að missa völd sín. Þjóðinni var neitað um að fá að kjósa til stjórnlagaþings og til að semja sér nýja stjórnaskrá.
Þvílík og önnur eins valdaníðsla er fáheyrð í þessari álfu en algeng í vissum ríkjum Afríku þar sem ódulbúið einræði ríkir.
Á alþingi nýtir einn flokkurinn sér brogaðar leikreglur alþingis og knýr fram vilja fáeinna einstaklinga í blóra við vilja meirihlutans. Þetta er valdníðsla af versta tagi. Ef einhvern tíman hefði verið ástæða fyrir meðlimi búsáhaldabyltingarinnar að mæta á þingpallanna, hefði það verið þegar verið var að ganga að helstu hugmynd hennar um umgætur dauðri í þingsölum.
En nú eru margir af forsprökkum hennar búnir að stofna stjórnmálhreyfingu og þurfa að standa í kosningabaráttu.
Nú ætla ég að magna seyð og mæli svo um og legg svo á að þessi flokkur valdaníðinga sem kenna sig við sjálfstæði, gjaldi svo mikil afhroð í næstu kosningum að þeir munu ekki koma til álita í stjórn landsins á næstu 12 árum.
Annars er svona um alla aðra flokka líka.
Sumir mega ekki til þess hugsa að þjóðin fái að velja sjálf hvort hún vilji hefja viðræður um inngöngu í Evrópubandalagið. Þeir segja fólki bara að halda kjafti og kalla það landráðamenn sem mælast til slíks.
Aðrir vilja alls ekki að hið óréttláta fiskveiði-kvótakerfi verði endurskoðað og leiðrétt. Þeir þykjast vilja það, en gera samt ekkert þegar þeir komast í valdastólanna.
En aðrir segjast vera stríðsandstæðingar en gera ekkert í því að segja þjóðina úr NATO þótt þeir komist í aðstöðu til þess.
Staðreyndir málsins eru, og skiptir þá akkúrat engu máli þegar upp er staðið, hvaða nöfnum þeir nefnast, að flokkarnir eiga það sameiginlegt að ganga allir erinda einhverra lénsherra, hver á sínu sviði. Þetta er allt sami grauturinn úr sömu skálinni. Því miður.
Legg til að flokkakerfið verði lagt niður og teknar verði upp alvöru persónukosningar.
X-autt
16.4.2009 | 01:22
Rautt kvikasilfur
Amma átti eina slíka enda voru þær afar algengar. Það hljóta enn að vera þúsundir til á íslenskum heimilum. Ef þú átt gamla SINGER saumavél, getur þú selt hana fyrir allt að 50.000 pund á ebay. Þetta háa verð er nýlega tilkomið og um þessar mundir eiginlega eingöngu bundið við Sádi-Arabíu.
Þar um slóðir eru menn sannfærðir um að í SINGER saumavélum sé að finna leyndardómsfullt efni sem gengur undir nafninu Rautt kvikasilfur. Rautt Kvikasilfur er svo verðmætt að margar milljónir fást fyrir nokkur grömm af því.
Rautt kvikasilfur kom fyrst fram á sjónarsviðið seint á síðustu öld og á að hafa ýmsa eiginleika, allt frá því að vera svo geislavirkt efni að það megi nota í atómsprengjur eða til að finna fjársjóði sem faldir hafa verið í jörðu.
Ef þú vilt ganga úr skugga um hvort SINGER saumavélin þín hefur Rautt Kvikasilfur að geyma, skaltu bera farsímann þinn upp að henni. Ef þú missir sóninn og línuna, ertu ríkari en þú gerðir þér grein fyrir.
Þrátt fyrir útbreidda trú á tilvist efnisins hefur aldrei tekist að fá skýr svör við hvað Rautt kvikasilfur raunverulega er. Um það eru margar tilgátur, en líklegast er að hér sé á ferðinni enn ein nútíma-flökkusagan. Hér er að finna upplýsandi grein um "efnið".
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2009 | 16:00
Ronnie Wood vinnur áfangasigur í Kazakhstan
Ég get ómögulega stillt mig um að koma hér á framfæri smá "update" á fyrsta og eina "skúbbinu" mínu, fram að þessu, þ.e. þegar ég hitti Ronnie Wood á förnum vegi í fyrra og átti við hann orðastað.
Það er ljóst að ævintýrið á Írlandi þar sem hann dvaldist með hinni rússnesku ástmey sinni Ekaterínu hefur dregið dilk á eftir sér. Um það sagði Ronnie á sínum tíma að hann hefði verið "bad boy". Ég taldi víst að hann meinti að þetta væru eins og hver önnur rokk-strákpör hjá honum. En nú er Ronnie skilinn og reynir hvað hann getur til að vingast við fjölskyldu kærustunnar og sérstaklega hina 75 ára gömlu Lyudmillu Ivanovu, sem er höfuð ættarinnar.
Hún býr í Kazakhstan og er enn ómyrk í máli þegar hún tjáir sig um Ronnie hinn 61. árs gamla gítarleikara sem hún kallar Ronik.
Hún sagði eitt sinn að Rollingarnir væru "bæði ljótir og ógeðslegir". Nýlega var hún spurð hvað henni fyndist um tilhugalíf þeirra Ronnie og Ekaterínu. "Ef hann vill giftast Ekaterínu, þá mun ég gleðjast fyrir þeirra hönd." svaraði sú gamla."Ef þetta er raunveruleg ást leyfum þeim þá að vera hamingjusöm."
Lyudmilla segist samt halda að " hjónbandið endist ekki lengi. "Hún er miklu yngri en hann þannig að hún mun fá tækifæri til að giftast aftur ef eitthvað kemur fyrir Ronik." "En svona er heimurinn í dag. Gamlir menn yfirgefa fjölskyldur sínar og finna sér ungar kærustur".
Ronnie yfirgaf Jo Wood eftir 23 ára hjónaband til að vera með Ekatreínu.
Gamla konan heldur því jafnframt fram að ástæðan fyrir því að enginn úr fjölskyldu Ronnie, ekki einu sinni börn hans, taka í mál að hitta Ekaterínu, sé að Jo hafi beðið þau um það. "Þetta ástand er ekki gott" bætir hún við.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2009 | 02:00
Heldri bloggarar
Ég hef lengi verið að hugsa um að skrifa pistil um Félag heldri bloggara á blog.is en einhvern veginn ekki komið mér að því fyrr en nú. Ég hef sterkan grun um að ástæðan fyrir þessu framtaksleysi sé sú, að þetta ágæta félag er ekki til.
Það ætti að vera til og gæti orðið til, en mér vitanlega hefur það ekki verið stofnað enn.
Félag heldri bloggara gæti starfað mjög svipað og önnur menningarfélög. Félagar kæmu saman einu sinni tvisvar á ári, til að sýna sig og sjá aðra, hvetja hvern annan til dáða og klappa hverjum öðrum á bakið.
Eða kannski er þetta bara gömul hugmynd sem ég greip út úr ljósvakanum, og sem löngu er búið að afgreiða sem dauðadæmt rugl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.4.2009 | 23:51
Vatn
"Vatn er olía framtíðarinnar" "Vatn verður meira virði en gull" "Vatn er gjaldmiðill framtíðarinnar"
Allt eru þetta fyrirsagnir úr fjölmiðlum heimsins fyrir fimm árum. Þessi umtalaða framtíð er komin. Vatn er alveg við að verða verðmætasta vara heimsins. Og íslendingar ráða sem stendur yfir dágóðum forða ferskvatns. Hvenær stórfeldir vatnsflutningar frá landinu verða að veruleika, er aðeins tímaspursmál. Eitt er víst að vandamál heimsins verða ekki leyst án þess að til þess komi.
Þegar í dag líta margir alþjóða-hagfræðingar svo á að vatn sé verðmætara en olía. Þrátt fyrir að 70% yfirborðs jarðarinnar sé þakið vatni er aðeins 3% hæft til drykkjar. Af þeim 3% er tveir þriðju hlutar bundnir í snjó og jöklum. Því er aðeins 1% af öllu vatni heimsins aðgengilegt til neyslu. 97% er saltvatn eða sjór sem ekki er hægt að nota til neyslu eða jarðræktar.
Það er ekkert meira af ferskvatni á jörðinni nú en til var fyrir milljón árum. En í dag deila 6.000.000.000. manns vatninu, auk landdýranna. Síðan árið 1950 hefur mannfjöldi jarðarinnar tvöfaldast og vatnsnotkun þrefaldast.
Vatnsskortur er víða orðið alvarlegt vandmál í heiminum og upp á síðkastið á svæðum þar sem hans hefur ekki gætt fyrr.
Samkvæmt skýrslum Sameinuðu þjóðanna liggja í 50% af sjúkrarúmum heimsins, sjúklingar sem veikst hafa af slæmu eða menguðu vatni. Í þróunarlöndunum má rekja 80% allra sjúkdóma til mengaðs vatns eða vatnsleysis. 5 milljónir deyja árlega af þeim sjúkdómum. Talið er að 1,1 milljarður manna líði daglega alvarlega fyrir vatnskort og að sú tala muni fara í 2.3 milljarðar fyrir árið 2025.
Iðnvæðing heimsins á einnig þátt í að gera heilnæmt drykkjar vatn að munaðarvöru. Á þéttbýlum svæðum eins og í Kína, á Indlandi, í Afríku, Mexíkó, Pakistan, Egyptalandi, og í Ísrael hefur fersku vatni verið fórnað fyrir mengandi iðnað.
Jarðrækt og áburður valda mestu vatnsmenguninni í heiminum en Skordýraeitur á þar einnig stóran þátt.
Þótt jarðvegshreinsun og eiming vatns sé í dag mikill iðnaður er talið að allt að 95% skólps frá almenningi og 75% af iðnaðarskólpi sé hleypt út í yfirborðsvatn án allrar meðhöndlunar.
Umhverfismál | Breytt 15.4.2009 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2009 | 13:17
Fuglar sem byggja og búa í þorpum
Á Norður-Höfða Suður-Afríku er að finna kyndugan smáfugl sem ég veit ekki hvort á eitthvað íslenskt heiti. Á ensku er hann kallaður Sociable Weaver og á latínu Philetairus socius. Nafnið er gefið fuglinum vegna þess háttar hans að vefa sér hreiður og bústaði í félagi við aðra fugla af sömu tegund. Íslenska nafnið mætti því alveg vera "Félagsvefari".
"Félagsvefarinn" er svo sem ekki mjög merkilegur á að líta. Það sem gerir hann verulega frábrugðin öðrum fuglum er að hann býr sér svo stóran bólstað að allt að 300 fuglar geta hafst þar við. Í raun vefa fuglarnir sér einskonar fuglaþorp í greinum trjáa, sem hvert hefur í kringum 50 íbúðir og jafn margar dyr.
Þorpið getur verið allt að eitt tonn á þyngd, 40 fermetrar í rúmmál og dæmi eru til um að tréð hafi sligast undan þunga þorpsins og brotnað. Að neðan verðu liggja inn í þorpið göng sem gerð eru úr stífum stráum sem liggja öll inn á við til að gera snákum og öðrum óvinum erfitt fyrir að komast inn í þorpið.
Hver íbúðarhola er hnefastór og fóðruð með mjúkum stráum og hárum. Yfir þorpið reisa fuglarnir vatnshelt þak þannig að í þorpsholunum er ætíð þurrt.
Allt árið í kring erfiða "Félagsvefararnir" við að byggja, bæta og breyta bústöðum sínum. Þessi óvenjulegu en þægilegu hýbýli laða gjarnan að aðra fugla þannig að vefararnir eru sjaldnast einir í þorpunum. Þar má sjá bæði smá-fálka jafnt sem rauðhöfðaðar finkur á ferli.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.4.2009 | 00:08
Hvað er svona spes við páskadag
Þá er hátíðlegasti og elsti helgidagur kristinnar trúar genginn í garð. Skilningur sumra er að á þessum degi fyrir réttum 2000 árum eða svo, hafi tilgangur gjörvallrar sköpunarinnar uppfyllt sig. Sú túlkun gerir ráð fyrir að dauði Krists sé miklu mikilvægari fyrir sáluhjálp fólks en líf hans og kenningar. Þeir sem halda því fram segja líka að einstæði Krists sé fólgið í því að hann einn reis upp frá dauðum og sté upp til himna. Þeir verða auðvitað að horfa fram hjá öðrum frásögnum í Biblíunni sem eru afar hliðstæðar, og gera það yfirleitt léttilega. Sem dæmi, var farið á slá vel í Lasarus þegar að Kristur kallaði hann til lífs aftur, þannig að Lassarus reis upp frá dauðum löngu á undan Kristi. Nokkrum hundruðum árum hafði spámaðurinn Elía spreytt sig á svipuðu kraftaverki með góðum árangri. Hann var auk þess sjálfur uppnuminn til himna með miklum gustó eða eins og því er lýst í Síðari Konungabók;
"11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. 12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar.
En ef við höldum okkur við atburði þá sem sagðir eru hafa átt sér stað á páskasunnudag fyrir rétt um 2000 árum, þá er þeim lýst í öllum fjórum guðspjöllunum.
Jóhannes ríður á vaðið með frekar látlausri frásögn þar sem allir eru voða mikið að flýta sér og hlaupa þess vegna talvert um. Það eina sem þeir finna er tóm gröf;
20 Jóhannes
1 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. 2 Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."3 Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. 4 Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. 5 Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. 6 Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar 7 og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. 8 Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. 9 Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. 10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.
Næst kemur frásögn Markúsar. Þar eru Maríurnar orðnar tvær auk einhverrar Salome. Þá kemur ungur maður í hvítri skikkju til sögunnar.
16 Markús
1Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 3Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?" 4En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. 5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.
Þá kemur framburður Lúkasar og færist nú fjör í leikinn. Konurnar eru aftur þrjár og einhver Jóhanna hefur slegist í för með Maríunum. Nú eru mennirnir sem þær sjá orðnir tveir og klæðin eru ekki lengur aðeins hvít, heldur skínandi og Þeir tala til kvennanna.
24 Lúkas
1En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. 2Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, 3og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. 4Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. 5Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? 6Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. 7Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."8Og þær minntust orða hans, 9sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. 10Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. 11En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. 12Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
Matteus slær síðan öllum hinum við. Þar byrjar sagan á jarðskjálfta, síðan koma tvær Maríur, þá er mættur engill og varðmenn komnir vettvang sem eru lafandi hræddir. Svo talar engillinn við konurnar en hápunkturinn er þegar Kristur sjálfur birtist og tekur fagnandi á móti þeim.
28 Matteus
1Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. 2Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. 3Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. 4Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.5En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. 6Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. 7Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.' Þetta hef ég sagt yður."
8Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.
9Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. 10Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."
Þessar mismunandi útgáfur Guðspjallanna af því hvernig lærisveinunum varð kunnugt um að að Kristur væri upprisinn bera vitni um að sagan hefur breyst eins og ævintýri í aldanna rás. Það Guðspjall sem síðast er samið, hefur bætt flestu við söguna og gert hana ævintýralegri en hinar frásagnirnar sem eru eldri.
Það sem fæstir kristnir gefa nokkurn gaum er sú staðreynd að í þrjá daga var Kristindómurinn dauður. Upprisa kristindómsins er stóri punkturinn í þessari sögu sem hefst með því að María kallar saman fyrsta fund lærisveinanna til að ráða ráðum sínum eftir aftöku Krists. - Það finnst mér öllu meiri áfangi í sögu trúarbragðanna en yfirnáttúrulegar skýringar á því hvað varð um líkama Krists.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.4.2009 | 13:24
Kristur heimsækir helvíti
Samkvæmt kristnum hefðum eyddi Kristur öllum þessum degi (laugardegi) í helvíti. Allir fermdir Íslendingar hafa játað því að trúa þessu, enda mjög mikilvægt atriði, svo mikilvægt að því er komið fyrir í sjálfri trúarjátningunni sem er eitt af því fáa sem flestir kristnir söfnuðir hafa látið vera í friði og haldið til haga í gegnum aldirnar. Það er í sjálfu sér merkilegt því ekki eina setningu í trúarjátningunni er að finna í sjálfri Biblíunni, heldur er hún umorðun á ákveðnum skilningi boðskapar hennar.
En í dag fyrir tveimur áraþúsundum eða þar um bil var mikill fögnuður í helvíti, því Kristur var kominn í heimsókn. Allt frá því Lúsífer hafði stofnað staðinn ásamt englunum sem fylgdu honum, stóð straumurinn af slæmu fólki til helvítis. Þar var fólkið pínt í eldinum og það skiljanlega glatt að sjá Krist loksins sem eyddi þessum laugardegi í að frelsa það úr klóm Lúsífers og koma því til himna. Sjálfsagt hefur Kristur frelsað englana líka, því Kristur kom jú til að "allir gætu öðlast eilíft líf".
Lúsífer var sem sagt frekar illa staddur þarna fyrir 2000 árum, einn og yfirgefinn eftir daginn. Samkvæmt sögunni átti Lúsífer að hafa verið klárasti engillinn á himni. Hann var svo klár að hann sá ekki hvað það var vonlaust að rísa upp gegn almættinu og byrjaði að slást. Ef að hann var sá klárasti, hljóta hinir englarnir að hafa verið hrikalega heimskir, enda fylgdu þeir Lúsífer út í vonlausa baráttuna.
En Kristur, sem sagt tæmdi helvíti fyrir 2000 árum en skildi lúserinn Lúsífer eftir einann. Síðan hefur hann reynt að vera duglegur að safna sér nýjum árum og púkum til að hrekkja menn og gabba þá til fylgis við sig. Og þeir sem láta ginnast eiga ekki von á neinni miskunn. Þeir munu kveljast í helvíti til eilífðarnóns.
10.4.2009 | 18:23
Augun í Írak
Öruggasti staðurinn í Bagdad hefur um langt skeið verið sá staður eða svæði þar sem sjálfsmorðssprengjufólk hefur látið til skarar skríða hverju sinni, næstu klukkustundirnar eftir að það hefur kippt í spottann eða ýtt á hnappinn. Það er ekkert óvenjulegt eða sjokkerandi lengur við tugi sundursprengdra líka eða blóðuga líkamsparta á víð á dreif. Og vegna þess að eftir að ósköpin hafa dunið yfir, hraða vitnis-samsærismennirnir sér af vettvangi til að segja frá "hetjudáðinni" á næsta sellufundi, sækjast bandarískir hermenn eftir að að sjá um öryggismálin á slíkum vettvangi. -
Fréttamenn sem venjulega þyrpast líka á staðinn til að taka myndir af ferskasta blóðbaðinu, hafa sagt frá því í einkaviðtölum að þegar að líkamsleyfum fólks er sópað saman, séu augun eini líkamshlutinn sem þeir beri kennsl á í fljótu bragði. Allt annað er eins og torkennilegir blóðkögglar. Það er einhver kaldhæðni í því að á meðan sum fórnarlömbin lifðu, sá almenningur aldrei meira af þeim en í augu þeirra. Gott að fréttamennirnir þekkja ekkert til Vatnsenda-Rósu og kveðskapar hennar.
Þegar að einhver sprengir sig í loft upp með sprengjubelti um mittið, verður oftast of lítið eftir af viðkomandi, til að hægt sé að bera á hann kennsl. Til þess eru því oftast notaðar upptökur úr myndavélum sem komið hefur verið fyrir af Bandamönnum víðs-vegar um borgina, einkum við opinberar byggingar, moskur og markaði. Að auki hafa Bandamen nokkur gervitungl sem stara sínum rafrænu augum niður á borgina með svo öflugum linsum að þær geta lesið á merki-flipanna í hálsmálununum á stuttermabolum drengjanna.
Í Írak hefur augað fleiri menningarlegar skírskotanir en í flestum öðrum samfélögum. Flest heimili eru skreytt með páfuglsfjöðrum enda fjaðrirnar taldar heillatákn. "Augu" fjaðranna minna fólk á allt-sjáandi auga Guðs. Skiljanlegt að í Evrópu eru páfuglsfjaðrir taldar óheillamerki á heimilum og augu þeirra sögð augu skrattans. Ekki síður í dag en á tímum Saddams Husayns eru augu stóra bróður allsstaðar í Bagdad.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2009 | 00:13
Íslendingar taka gleði sína á ný
Það er alltaf gott að fá góðar fréttir að heiman. Vissulega, svona rétt fyrir og eftir að landið fór á hausinn (eins og útendingar tala um það) voru tíðindin fá sem virkilega glöddu litla stolta íslenska hjartað. Drungi virtist leggjast yfir þjóðina, af fréttum að dæma og sumum var svo misboðið að þeir fóru út að berja búsáhöldin sín í mótmælaskyni.
Nú hafa Íslendingar greinilega heldur rétt betur úr kútunum. 88% þjóðarinnar segist samkvæmt nýjustu könnunum vera mjög ánægt með líf sitt. Margt bendir til að þetta sé satt og landið, þjóðin og þingið sé aftur búin að finna fjölina sína eins og þeir segja í handboltanum. Kunnuglegt karp í þingsölum, dægurhjalið á blogginu og Silfur Egils aftur orðið leiðinlegt.
Spurning hvort nokkuð hafi bjátað á hjá fólki yfirleitt, ég meina svona innast inni þar sem þeir eru mest hamingjusamir, þegar þeir sögðu allt vera að fara fjandans til. Satt að segja efast ég um að hamingjusveiflurnar geti verið svona djúpar og háar á stuttum tíma. Nem að Íslendingar séu svo æðrulausir að þeir halda hamingju sinni sama hvað á gengur. Það er örugglega langlíklegasta skýringin. Já Einmitt.
Lengi lifi Ísland, hamingjusamasta þjóð í heimi
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.4.2009 | 09:32
Apaspjall
í stað þess að sveifla sér milli trjánna og taka þátt í ærslum hinna gibbon apanna sat Aude, ungur karlapi, þögull undir tré og virtist þungt hugsi. Ale, systir hans sá að það amaði eitthvað að og settist hjá honum. Hún sagði ekki neitt um stund en einbeitti sér við að naga hríslu eins og hún væri gómsætur sykurreyr. Loks stóðst Aude ekki mátið lengur og spurði:
Geturðu ekki nagað þessa hríslu einhversstaðar annarsstaðar?
Ale; Jú jú, en ég kom nú hérna af því að ég sá að þér líður eitthvað illa. Kannski borðaðir þú of mikið af mangó í gær.
Aude: Mangó, nei það er ekkert að mér í maganum.
Ale Hvað er það þá?
Aude; Ég varð bara svo dapur allt í einu. Ég var að hugsa um hvernig órangútunum fækkar dag frá degi þarna á suður frá.
Ale; Hvað kemur það þér við; því færri sem þeir eru, því meira er að hafa fyrir okkur.
Aude; Þetta er nú mjög eigingjarnt sjónarmið. þeir eru einu sinni apar eins og við.
Ale; Eigingirni, hún er ekki til. Þeir hafa ekki vit á að bjarga sér eins og við. Þetta er bara lögmál, þeir sem geta bjargað sér lifa, hinir.....deyja.
Aude; En það er ekkert réttlæti í þessu. Órangútarnar hafa lifað á þessu svæði síðan allt byrjaði. Svo kemur þessi mannapi sem allt virðist eiga og geta. Hann heggur niður skóginn bara til að rækta sykur handa sjálfum sér og allir aðrir verða að víkja. Hvað eiginlega gefur honum rétt til að haga sér svona.
Ale; Réttlæti, það er ekkert til sem heitir réttlæti. Náttúran er ekki réttlát. Mannapinn er einfaldlega klárasti apinn í skóginum og þess vegna hæfastur. Hann þarf greinilega á öllu þessu sem hann framleiðir að halda. Eins og ég var að segja, þeir sem geta bjargað sér, lifa.
Aude; Nú ef það er ekki til neitt réttlæti, þá gæti mannapinn í það minnsta sýnt smá miskunnsemi. Hann tekur ekkert tillit til neins, bara veður áfram og heggur allt í burtu sem hægt er að lifa af.
Ale; Hvað ertu nú að bulla. Það er heldur ekkert til sem heitir miskunnsemi. Það sem þú tekur fyrir miskunnsemi, er þegar stóru aparnir vægja litlu öpunum til þess að stofninn þurrkist ekki út. Mannapinn hefur engar slíkar kenndir til okkar eða annarra dýra.
Aude; En allt hjá mannapanum er bara svo yfirgengilegt. Til hvers þarf hann allan þennan skóg, allt þetta svæði sem hann leggur undir sig. Hvernig væri að hann sýndi smá hógværð.
Ale. Það er eins og þú skiljir ekki þetta grundvallaratriði að það er aðeins eitt lögmál sem gildir. Það er að sá hæfasti til að lifa lifir, hinir deyja. Kallaðu það bara lögmál frumskógarins. Allt þetta sem þú ert að tala um hefur enga merkingu sem nær út fyrir þetta lögmál. Hógværð er bara þegar þú borðar ekki allt sem þú getur borðað í dag vegna þess að þá mundir þú fá meltingartruflanir og veikjast.
Aude; Ég hef nú samt áhyggjur af þessu. Hvað gerum við þegar að mannapinn kemur hingað til þess að höggva skóginn.
Ale; Það sem skiptir máli er dagurinn í dag. Við getum ekkert vitað hvað gerist á morgunn. Hvers vegna að eyða tímanum í að hafa áhyggjur af því sem enginn ræður nokkru um. Komdu bara aftur upp í tré og sveiflaðu þér eins og við hin. Nóg til af mangó og allt í goodí.
Aude sá að það var tilgangslaust að ræða áhyggjur sínar frekar við systur sínar. Hann stóð á fætur og teygði sig í næstu grein og vó sig upp í tréð.
Um leið og Ale ætlaði að fylgja honum fann hún fyrir sársauka í brjóstinu. Hún leit niður og sá blóð sitt drjúpa úr stóru gati í miðjum brjóstkassanum. Henni sortnaði fyrir augum og féll síðan máttvana á jörðina.
Þessi stutta frásögn er tileinkuð spjallvinum mínum Kristni Theódórs og DoctorE.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2009 | 20:17
"persónukjör" er orðið persónulíkjör
Það er augljóst á öllu að allir flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi eru mjög smeykir við að losa um hald sitt á því ferli sem gengur undir nafninu lýðræði hér á landi. Krafa fólks í Búsáhaldabyltingunni um minna flokksræði, var, eins og ég skildi hana, m.a. krafa um að hægt yrði að kjósa einstaklinga í stað lista eða flokka til þings.
Sú hugmynd um "persónukjör" sem er að veltast um í þinginu þessa dagana, er andvana svar við þeirri kröfu. Liðið lík og ekkert lík því sem verið var að mælast til. Nær að kalla hana "Frumvarp um persónulíkjör."
Frumvarpið er minniháttar breytingartillaga á ríkjandi fyrirkomulagi. Þess vegna sýti ég það litið þótt hún komist ekki í gegnum þingið. Samkvæmt henni og ríkjandi fyrirkomulagi þarftu ætíð að kjósa lista eða flokk, ekki einstaklinga.
Þess vegna er hugtakið "persónukjör", eins og að er notað af alþingismönnum um þessar mundir, afar villandi. Nær væri að þeir notuðu orðið "persónuröðun" Þ.e. fólk fær að velja röð manna á listanum sem það kýs.
Ef þú ert ekki fylgjandi neinum flokki en gætir samt sem áður hugsað þér að kjósa einstaklinga sem í framboði eru á mismunand listum, verður þú að skila auðu eða hreinlega leiða kosningarnar hjá þér.
Til nánari glöggvunar er eftir farandi lesning góð.
Hugtakið persónukjör getur verið misvíðfeðmt og virðist rófið í þeim efnum vera eftirfarandi og er þá kostunum raðað eftir því hvað þeir ganga langt:
P0: Frambjóðendum er skipað á framboðslista og í þeirri röð sem framboðin, flokkarnir, kjósa t.d. að loknum prófkjörum. Kjósendur velja lista en fá engu breytt um röð frambjóðenda. Þessi leið felur því ekki í sér persónukjör en er tilgreind sem grunnviðmiðun.
P1: Kjósendur velja sem fyrr lista en geta haft áhrif á röðun frambjóðenda á þeim sama lista með umröðun, útstrikun eða með því að draga einhverja sérstaklega fram með krossamerkingum. Misjafnt er hver eru áhrif þessara breytinga allt frá því að vera óveruleg upp í að þau geti verið afgerandi sé þátttaka nægileg.
P2: Listum er stillt upp í óskaröð framboða allt eins og í P0 en röðunin er aðeins til leiðbeiningar kjósendum. Beinar merkingar þeirra ráða því alfarið hverjir veljast af listunum á þing.
P3: Nú er listum stillt upp óröðuðum þannig að kjósendur ráða því alfarið hverjir á listunum komast á þing og fá enga leiðsögn til þess á kjörseðlinum eins og í P2.
P4: Næsta skref í persónukjöri er að kjósendur megi tína til frambjóðendur af fleiri en einum lista. Þar sem það er leyft fylgir því að jafnaði pólitísk ábyrgð í þeim skilningi að vali á frambjóðanda fylgir að listi hans fær tilsvarandi hlutdeild í atkvæði kjósandans. Þetta er þó ekki algilt.
P5: Frambjóðendur standa ekki á listum heldur bjóða sig fram sem einstaklingar. Víðast hvar er frambjóðendunum þó heimilt, ef ekki skylt, að gera grein fyrir flokkstengslum sínum á kjörseðlinum. Segja má að fyrirkomulag einmenningskjördæma falli undir þessa gerð persónukjörs. Einnig eru dæmi um fjölmenningskjördæmi með persónukjöri af þessu tagi.
Tekið úr grein af Visir.is sem má lesa alla hér
Af þessum kostum er ég hallastur undir P5. Best er þá að notast við fjölmenningskjördæmi (nema umtalverð fækkun verði á þingmönnum) og það ætti hreinlega að banna að sýna flokkstengsli á kjörseðlinum. Mér er ljóst að til þess að svo geti orðið þarf að breyta stjórnarskránni og kosningarlögunum í framhaldi af því. Þess vegna bind ég vonir við að stjórnlagaþing komi saman sem fyrst og að breytingatillögur þess verði til þess að hnekkja flokksræðinu og alvöru lýðræði komi í staðinn.
Að lokum; Ég staldraði við listann yfir "innlendar fréttir" neðst ásíðu mbl.is. Þær voru þessar;
- Samfylking áfram stærst
- Kannabisræktun stöðvuð
- Engin sátt í Breiðavíkurmáli
- Enn óvíst um sumarönn
- Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eignum
- Ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri
- Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka
- 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning
- Um 300 sagt upp í hópuppsögnum
- Loftnetsmastur á hliðina
Mér varð strax ljóst að þær átti að lesa í samhengi. Samfylkingin er áfram stærst vegna þess að kannabisræktin var stöðvuð. Enginn sátt um Breiðavikurmál og enn óvíst um sumarönnina þar. Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eigum og þess vegna ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri.
Það mátti nýta sér kerfisvillu í netbanka (og stela milljónum) en maður fær 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning. Um 300 var sag upp í hópuppsögnum sem lagði loftnetsmastur á hliðina, og ég er ekki undrandi á því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2009 | 21:42
Karl Bretaprins neitar að biðjast afsökunar á ummælum sínum!
Þrátt fyrir áköf mótmæli mín og þar af leiðandi umtalverða aukningu á umferð Íslendinga á heimasíðu Karls Bretprins í dag, sem taka vildu þátt í að andmæla umælum hans þar sem hann hæddi mig og aðra Íslendinga svo til opinberlega, bólar ekkert á afsökunarbeiðni frá honum.
Fyrir mína parta skil ég tilvonandi þjóðhöfðingjann vel, því ummælin áttu sér aldrei stað, né gerðist neitt af því sem tengdist frásögn minni í pistlinum hér næst á undan.
Um var að ræða 1. apríl gabb.
Ég verð að viðurkenna að mér hefur sjaldan verið eins skemmt hér í bloggheimum og í dag/gær. Allan daginn var ég að vakta athugasemdir til að reyna forða því að upp kæmist við lestur athugasemdanna að þetta væri allt saman tilbúningur.
Ég greip til þess ráðs að fjarlægja nokkrar athugasemdir sem komu fljótlega frá glöggum lesendum og sem hefðu komið upp um gabbið. En nú hef ég birt þær aftur eins og sjá má í athugasemdahala pistilsins.
Rétt um 2000 manns lásu greinina og margir létu greinlega blekkjast af þessum græskulausa grikk og ég vona að hann eigi ekki eftir að draga neinn dilk á eftir sér, sem gæti samt vel gerst, einkum ef það kemur í ljós að einhver hafi í raun og veru sent prinsinum harðorð skilaboð. Það er vissulega hægt að koma til hans skilaboðum í gegn um heimsíðu hans, þótt ég efist um að þau fari beint í pósthólfið hans. Ég verð því að biðja Karl Bretaprins afsökunnar á að hafa notfært mér nafn hans og heiður á þennan vafasama hátt, og geri það hér með.
Ég birti hér fyrir neðan þær athugasemdir sem gerðar voru við "yfirlýsinguna", þ.e. undirsíðuna þar sem gabbinu var uppljóstrað og er vitnisburður þeirra sem létu blekkjast.
Ólafur Kr. Ólafsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 01:13

So sorrrrry Ólafur. Takk fyrir að taka þátt :)
Sólveig, alveg niður í stórutá
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 02:02

fyrirgefðu Svanur ekki vildi ég eyðileggja skúbbið, en auðvitað tókstu út athugasemdina, enda var ég ekki búin að kíkja.
Ég er bara nokkuð sperrt yfir að hafa fattað 1sta apríl, venjulega hleyp ég af göflunum þennan dag, bláeyg og saklaus!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.4.2009 kl. 07:02

fíbl ;-) náðir mér gersamlega ;-) manni bregður ekki við neitt núorðið ! en flott ég hljóp .......... á vegginn
Grétar Eir, 1.4.2009 kl. 08:17
Jæja..alveg hljóp ég í hring ha,ha...þú náðir mér alveg þarna.
Þórey (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 08:30
Mér fannst þessi viðbrögð frekar ólik þér. Þannig að mig grunaði 1 apríl.
Ingo (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 09:33

Þette er í góðu lagi Jenný. Ég læt allra athugasemdir koma fram í lok dags . Þá sjá allir hvernig þetta gekk fyrir sig :)
Æ Grétar minn. Vonandi nærðu mér seinna í staðinn.
Þórey; Takk fyrir að taka þátt.
Ingó; Já þú segir nokkuð :) Ég hef nú velt því fyrir mér hvernig ég mundi bregðast við ef svona nokkuð gerðist í raun og veru. Hvað heldur þú?
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 09:48
Góður þessi. En ég hefði alveg trúað þessu, enda ekki í fyrsta sinn sem meðlimur í bresku konungsfjölskyldunni hefur móðgað fólk. Prince Philip maður Elísabetar hefur átt nokkur góð móment:
t.d. þessi:
During a state visit to China in 1986, he famously told a group of British students: "If you stay here much longer, you'll all be slitty-eyed".
Og fleiri hér:
Kristján Úlfsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 10:50

Ég var farinn að leita að athgasemdadálkinum á heimasíðu prinsins. Fann hann hvergi og fór þá á "þjónustutakkann" sem þú hafðir útbúið. Ég tel mig nokkuð heppinn að hafa hvergi fundið athugasemdadálkinn. Þetta var glæsilegt aprílgabb.
Jakob S Jónsson, 1.4.2009 kl. 12:54
Góður, loksins eitthvað á íslensku netmiðlunum sem fékk mann til að brosa
ASE (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 12:55

Takk fyrir það Kristján, Jakob og ASE að taka þátt í gríninu.
Philip er nú alveg kapítuli út af fyrir sig Kristjánog það væri verðugt verkefni að taka saman alla skandalanna sem hann hefur látið út úr sér.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 13:09
Þetta var eitthvert besta aprílgabb sem ég hef hlaupið! ég gerði dauðaleit á siðunni og var byrjaður á bréfi til Clarence House og allt það. Af því ég vinn í Bretlandi hef ég heyrt þessa brandara alla og var ekki skemmt. Takk fyrir - frábært.
Árni Helgason (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:29
Hahahahahaha!!! Þetta var gott gabb :D Ég var orðin mjög æst yfir þessum dónaskap í prinsinum... Hahahaha! :D
Sunneva Lind (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:35

Góður Árni
Ég er næstum farinn að trúa þessu sjálfur Sunneva Lind.
Takk Jenný mín.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 14:48
Ég held að þú hefðir verið fljótur að svar Karli og notað húmorinn að vopni.
Ingo (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:59

Aaa. Auðvitað maður.
Mér fannst þetta eitthvað reifarakennt en frásögnin að öðru leiti svo sannfærandi. Þ.e það reifarakenda var að prinsinn hefði gefið sig á tal við þig si sona með þessum hætti. Hálf ævintýralegt.
En þú náðir mér.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.4.2009 kl. 15:46
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Urrrrrrrrrr... You had me gjörsamlega going there... Mér var rétt forðað frá því að gera þetta að milliríkjamáli... Þú ert heimsklassa hrekkjalómur, það get ég svarið :)