11.5.2009 | 03:10
Smáfólkinu í Afríku nauðgað.... aftur
Í mörgum Afríkulöndum er að finna ættbálka smávaxins fólks sem kalla sjálfa sig ýmsum nöfnum eins og Aka, Baka, Mbuti og Twa. Hver þessara ættbálka er samsettur af ættflokkum sem einnig bera sérstök heiti. Að auki eru til á hinum mörgu Afríkumálum ýmis nöfn yfir þetta smáfólk á meðal hverra hæstu karlmenn verða aldrei hærri en 150 cm. Þá búa ættbálkar smáfólks í Taílandi, Malasíu, á Indónesíu, á Filippseyjum, á Papúa Nýju Geníu, í Brasilíu og í Bólivíu og bera þeir allir sérstök heiti, rétt eins og við köllum okkur Íslendinga.
Vesturlandabúar þ.á.m. Íslendingar, kjósa enn að kalla þetta fólk Pygmýja sem er komið úr grísku og fyrir utan að vera sú stærðaeining sem lýsir fjarlægðinni á milli olnboga og hnúa er nafn á einhverjum dvergum sem bjuggu í Eþíópíu og/eða á Indlandi og fornskáldið Hómer lýsir fyrstur manna.
Sjálfu finnst smávaxna fólkinu þetta orð óviðeigandi og vilja láta kalla sig því nafni sem það nefnir sig sjálft.
Að kalla smáfólkið Pygmýja, er ekki ósvipað því þegar fáfrótt fólk talar um Grænlendinga sem Eskimóa.
Eins og tugir annarra netmiðla, flytur Mbl.is um þessar mundir fréttir af hópi smáfólks í Austur-Kongó, sem er af Aka ættbálknum og býr í þorpinu Kisa í Walikalen. MBL.is kallar þá Pygmýja. Smáfólk þetta, sem annað, kemst ekki oft í heimsfréttirnar og t.d. var lítið sem ekkert um það fjallað þegar að styrjöldin í Kongó stóð sem hæst og pyntingar, nauðganir og fjöldamorð á Aka og Baka fólkinu, voru daglegt brauð. Heimurinn kærði sig kollóttann þótt einhverjir "villimenn" dræpu aðra "villimenn" í Kongó.
Nú gerðist það fyrir nokkrum vikum að einhverjir hjátrúarfullir og fáfróðir villimenn, sem starfa fyrir ríkjandi stjórnvöld í Kongó, réðust einu sinni enn á smáfólkið. Í þetta sinn í þeim eina tilgangi að nauðga gömlum konum og kornabörnum í þorpinu og síðan höfðingjanum sjálfum. Hluti þessarar "manndómsvígslu" var að gera skömm höfðingjans sem mesta og því var hinum nauðgað að konu sinni og öðrum þorpsbúum ásjáandi.
Nú er allur heimurinn orðin vitni að skömm hans og þetta þykir góður fréttamatur og fullboðlegt í dag, þótt þetta hafi gerst og komið fyrst fram fyrir nokkrum vikum.
Einhver gerði sér grein fyrir því að það sem þykja mundi fréttnæmt væri að villimennirnir trúðu því, eftir því sem sagt er, að þeir mundu hljóta við þessi voðaverk "yfirnáttúrlega krafta". Sá hluti sögunnar varð að fyrirsögn fréttarinnar.
Flestar þær greinar sem ég hef séð um málið, (þær skipta tugum) eru nánast algjörlega eins, orðrétt uppétnar eftir hverjum þeim sem fyrstur skrifaði fréttina um þessi gömlu tíðindi.
Engin þeirra gerir minnstu tilraun til að skýra baksvið þessarar fréttar eða kynna fyrst og fremst fyrir okkur þolendurnar voðaverkanna sem í henni er lýst. Gerendur slíkra óhæfuverka eiga hvort eð er svipaða sögu að baki, hverrar þjóðar sem þeir kunna að vera.
Og Engin greinin getur þess t.d. að þessum sérstaka ættbálki tilheyrir fólk sem í er að finna elstu mannlegu litningana. Þeir eru því elsta "gerð" mannvera sem til er í heiminum. Það var frá sömu slóðum og eru og hafa verið hefðbundin heimkynni þeirra, að lítill hópur fólks tók sig upp fyrir ca. 200.000 árum og hélt norður á bóginn. Af honum er mannkynið komið.
Aka fólkið er enn á einskonar millistigi jarðræktar og safnarastigs. Það neytir 63 mismunandi tegunda jurta, 20 skordýrategunda, hunangs frá 8 mismunandi tegundum býflugna og kjöts af 28 tegundum dýra.
Þess er heldur ekki getið að feður af Aka ættbálknum, verja meiri tíma með afkvæmum sínum en nokkrir aðrir feður í heiminum. Börn þeirra eru innan seilingar þeirra 47% af deginum og þeim hefur verið lýst sem bestu feðrum í heimi. Þeir taka upp börn sín, knúsa þau og leika við þau, fimm sinnum oftar en aðrir feður í hinum ýmsu samfélagsgerðum heimsins. Það er álitið að ástæða þess sé hin sterku bönd sem eru á milli eiginmanns og eiginkonu í samfélgi þeirrra.
Alla daga hjálpast hjónin að við veiðar, fæðusöfnun og eldamennsku og deila auk þess frítíma sínum með hvort öðru. Það eru sterk samsvörun milli þess tíma sem hjónin verja saman og þess tíma sem karlmaðurinn ver til að veita börnum sínum umhyggju.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.5.2009 | 20:55
Næstu 100 dagar / Nýtt upphaf eða Waterloo
Íslenska ríkisstjórnin nýja boðar 100 daga aðgerðaráætlun. Hún fetar þannig í fótspor Franklins Delano Roosevelt sem varð forseti Bandaríkjanna 4. mars 1933. Roosevelt einsetti sér að leggja drögin að því sem hann kallaði "The new deal" á fyrstu hundrað dögum sínum sem forseti.
Fyrstu aðgerðir Roosevelt til að endurreisa efnahag Bandaríkjanna fólu í sér að fá þingið til að samþykkja 15 meiriháttar lagabreytingar, sem var fylgt eftir af 15 ávörpum , 10 útvarpsræðum, fréttafundum sem haldnir voru tvisvar í viku, þ.e. eftir hvern ríkisstjórnarfund. Hann kallaði einnig saman alþjóðlega ráðstefnu um efnahag heimsins, og setti fram stefnu sína í utarríkismálum sem innanlands.
Þegar kemur að stjórnmálsögu heimsins, koma samt aðrir 100 dagar frekar upp í hugann en 100 fyrstu valdadagar Roosevelts forseta.
Dagarnir sem liðu frá því að Napóleon snéri aftur frá útlegðinni á Elbu 20. mars 1815 og þangað til Lúðvík fjórtándi settist aftur í valdstól í Frakklandi, 8. júlí sama ár, voru nákvæmlega 100 dagar og eru oft kallaðir 100 dagar Napóleons.
Þeir dagar voru ölagaríkustu dagar Napóleons og að segja má allrar Evrópu á þeim tíma. Á þessu tímabili tók ein orrustan við af annarri hjá Napóleon og herjum hans sem enduðu við Waterloo þar sem endir var loks bundinn á valdaferil hans að fullu og öllu.
Mér segir svo hugur að íslenska ríkisstjórninni leiki hugur á að vekja með landmönnum svipaðar tilfinningar og bæði Napóleon og Roosevelt gerðu í brjóstum sinna landa þótt endirinn á 100 daga aðgerðaráætlunum þeirra geti varla verið ólíkari.
En það á eftir að koma í ljós hvort Jóhönnu og Steingrími tekst að gefa íslendingum sitt "nýja upphaf" eða hvort þau stýra þjóðinni til sér-íslensks Waterloo.
10.5.2009 | 17:15
Þóra Janette Scott
Upphafslagið í söngleiknum The Rocky Horror Show heitir Science Fiction/Double Feature og er óður til B kvikmyndanna um skrímsli og óvættir ýmsar sem voru afar vinsælar á árunum 1950-1970. Í texta lagsins er að finna ýmsar skýrskotannir til löngu gleymdra kvikmynda þar á meðal The Day of the Triffids.
Kvikmyndin fjallar um stórhættulega plöntu sem lítur úr svipað og spergill og eru kölluð Triffid. Plantan getur slitið sig upp og gengið um, stungið bráð sína með eitruðum göddum og tjáð öðrum Triffidum hugsannir sínar.
Í texta Science Fiction/Double Feature segir m.a:
"And I got really hot
When I saw Janette Scott
Fight a triffid that spits poison and kills."
Nýlega sá ég gamla kvikmynd sem heitir School for Scoundrels or How to Win Without Actually Cheating! (1960) Leikkonan sem fór með eitt aðalhlutverkið myndinni vakti athygli mína, fyrir það hversu óhefðbundið útlit hennar var miðað við aðrar breskar kvikmyndaleikkonur á þessum tíma. Ef hún hefði verið amerísk, hefði málið verið auðskýrt, en hún var bresk en samt afar aðlaðandi. (Ekki að breskar konur geti ekki verið aðlaðandi, en fegurð þeirra felst meira í hvernig gallar þeirra koma saman frekar en fullkomið útlit.) Við nánari athugun var þarna komin Þóra Janette Scott, sú sama Janette og minnst er á í textanum úr Rocky Horror.
Janette var fædd 1938 og var dóttir tveggja all-vel þekktra breskra leikara Jimmy Scott og Þóru Hird. Hún hóf að leika ung að árum og skrifaði sjálfsævisögu sína aðeins 14 ára gömul. Það þóttu mikil tíðindi á þeim tíma enda þótt það þyki ekkert tiltökumál í dag að frægir unglingar og börn gefi út sjálfsævisögu sína. Margir eru meira að segja á bindi tvö þegar þeir eru rétt 14 ára.
Það er kannski ekki hægt að segja að kvikmundaferill Janette hafi verið mjög glæstur en hún lék alls í fimmtán myndum.
No Highway in the Sky (1951)
- The Good Companions (1957)
- Happy is the Bride (1957)
- The Devil's Disciple (1959)
- The Lady Is a Square (1959)
- School for Scoundrels (1960)
- Double Bunk (1961)
- The Day of the Triffids (1962)
- Paranoiac (1963)
- Siege of the Saxons (1963)
- The Old Dark House (1963)
- The Beauty Jungle (1964)
- Crack in the World (1965)
- Bikini Paradise (1967)
- How to Lose Friends & Alienate People (2008)
Flestar að þessum kvikmyndum eru ekki mikið þekktar í dag en í sumum þeirra léku helstu stórleikarar þeirra tíma eins og í mundinni The Devils Disciples þar sem Janette lék á móti Kirk Douglas, Burt Lancaster og Laurence Olivier.
Eins og sést á þessum lista hætti hún að leika upp úr 1967. Frá 1959-1965 var hún gift Jackie Rae, Kanadískum tónlistarmanni. Ári eftir skilnaðinn við Rae, Janette hinum kunna jass-tónlistarmanni Mel Torméog átti með honum tvö börn. Annað þeirra er söngarinn James Tormé. Janette skildi við Mel árið 1977 og giftist núverandi eiginmanni sínum William Rademaekers árið 1981.
Því miður er fátt að finna um hagi Janette eftir að hún hætti að leika. Kannski hún hefði átt að bíða með ævisöguna aðeins lengur.
Engar myndir er að finna af henni á netinu eftir að hún hætti að leika 1967, ekki einu sinni í tengslum við kvikmyndina How to Lose Friends & Alienate People sem var gerð á síðasta ári. En eins og sést af meðfylgjandi myndum hafði Jennet svo sannarlega útlitið og útgeislunina með sér.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2009 | 19:18
Lögmál Lavers
James Laver (1899-1975) hét maður sem lagði fyrir sig ritstörf og sagnfræði, aðallega í Bretlandi. Sérsvið hans var tíska og fatnaður. Hann átti mikinn þátt í að gera rannsóknir á búningum og klæðnaði í aldanna rás að virtri fræðigrein.
Í merkustu bók hans; In Taste and Fashion setti hann fram kenningu um hvernig almenningur bregst við tískufatnaði. Kenning hans er stundum kölluð lögmál Lavers og er einhvern veginn svona;
Tískufatnaður er álitinn;
Ósæmilegur, tíu árum áður en tími hans er kominn
Skammarlegur, fimm árum áður,
Vogaður, einu ári áður
Flottur ----------------------------
Vafasamur, einu ári síðar
Hræðilegur, 10 árum síðar
Fáránlegur, 20 árum síðar
Skemmtilegur, 30 árum síðar
Sérstakur, 50 árum síðar
Heillandi, 70 árum síðar
Rómantískur, 100 árum síðar
Fallegur, 150 árum síðar
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2009 | 15:38
Wall Street nornin
Árið 1998 safnaði bandaríska tímaritið American Heritage Magazine saman nöfnum 40 auðugustu Bandaríkjamanna fyrr og síðar miðað við gengi dollarans það sama ár. 39 karlmenn voru á þeim lista og aðeins ein kona. Enn í dag er hún talin auðugasta konan sem Bandaríkin hafa alið. Hún hét Hetty Green og þegar hún lést árið 1916 voru auðævi hennar metin á rúmar 100 milljónir dala. (17 billjónir á núvirði bandaríkjadollara)
Hetty Green var mjög fræg á sínum tíma, ekki fyrir auðævi sín, heldur fádæma nísku.
Hetty varð auðug á afar hefðbundin hátt, þ.e. hún erfiði mikið fé. Faðir hennar sem bjó í New Bedford í Massachusetts varð ríkur á hvalveiðum og þegar Hetty Howland Robinson fæddist árið 1834 var hann þegar orðin þekktur kaupsýslummaður. Hetty fékk snemma áhuga á fjrámálum og lærði að stauta á læri föður síns sex ára að aldri, þegar hann las kaupsýslutíðindin. 13 ára hóf hún að færa bókhald föður síns og fjárfesti laun sín á verbréfamarkaðinum. Í öllum fjárfestingum sínum fór hún afar varlega og kom sér í því efni upp vinnureglum sem hún fylgdi allt til dauðadags.
Í "villta vestrinu" varð til málsháttur sem sagði; "Þegar að staðreyndir verða að goðsögn, prentaðu þá goðsögnina". Sögurnar af nísku Hetty voru frægar um öll Bandaríkin á sínum tíma. Sagt var að þegar hún varð 21. árs hafi hún neitað að tendra kertin á afmæliskökunni sinni. Daginn eftir afmælisdaginn tók hún kertin og skilaði þeim aftur í verslunina þar sem þau höfðu verið keypt og fékk þau endurgreidd.
Þegar að faðir hennar dó, erfði Hetty eina milljón dollar eftir hann og aðrar fjórar sem bundnar voru í sérstökum sjóði. Tveimur vikum eftir dauða föður hennar, lést auðug frænka hennar sem lofað hafði Hetty að hún mundi arfleiða hana að tveimur milljónum dollara. Þegar á daginn kom að frænkan hafði aðeins ánafnað Hetty 65.000 dollurum í erfðarskrá sinni, reiddi Hetty fram aðra erfðaskrá sem var handrituð af henni sjálfri. Hetty uppástóð að gamla konan hefði fengið hana til að rita nýja erfðaskrá skömmu áður en hún lést og þá ánafnað Hetty allan auð sinn. Það tók Hetty fimm ára baráttu fyrir dómstólum landsins að fá þessa nýju erfðarskrá viðurkennda en það gekk að lokum.
Hetty grunaði alla þá sem sóttust eftir að giftast henni að ágirnast auð hennar meira en hana sjálfa og því festi hún ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 33 ára. Hún giftist Edward Henry Green sem einnig var kaupsýslumaður. Hetty var öllu glúrnari í viðskiptum en Edward og þegar að hún neyddist til að borga fyrir hann skuld, losaði hún sig við skuldina og eiginmanninn í leiðinni.
Þegar að Ned sonur hennar var 14 ára, lenti hann í slysi á snjósleða. Annar fótleggur hans hrökk úr liðnum en móðir hans neitaði að leggja drenginn inn á sjúkrahús. Í staðinn reyndi hún að lækna hann sjálf og leita til læknisstofa sem veittu frýja þjónustu. Að lokum fór svo að drep hljóp í fótinn og taka varð hann af við hné.
Dóttir hennar Sylvía, bjó með móður sinni fram að þrítugu. Öllum vonbiðlum var hafnað þar sem Hetty þótti engin nógu góður fyrir dóttur sína.
Þegar hún loks leyfði ráðhag dóttur sinnar og Matthew Astor Wilks sem giftu sig 1909, lét Hetty Matthew skrifa undir kaupmála þar sem hann afsalaði sér öllu tilkalli til auðæva Sylvíu, þótt hann væri sjálfur ekki beint bláfátækur þar sem eignir hans voru metna á meira en 2. milljónir dala.
Hetty var skuldseig með eindæmum og greiddi aldrei reikninga án þess að röfla yfir þeim. Oftast enduðu ógreiddir reikningar á hendur henni í lögfræðiinnheimtu.
Sagt er að eitt sinn hafi hún eytt hálfri nóttu í að leita að tveggja senta frímerki.
Eftir að fyrrum eiginmaður hennar lést árið 1902, flutti hún frá heimabæ hans í Belloes Falls í Vermont til Hoboken í New Jersey, til að ver nær kauphöllinni í New York borg. Hún klæddist alltaf svörtu og fór á fund við kaupsýslumenn og bankastjóra á hverjum degi. Klæðnaður hennar og sérviska urðu til ess að hún var uppnefnd Wall Street nornin.
Allt sem Hetty tók sér fyrir hendur virtist enn auka á munmælasögurnar sem af henni fóru. Hún bjó í herbergiskytru sem hún leigði og eyddi aðeins um 5 dollurum á viku til lífsviðurværis.
Hún gerði oft langan hlykk á leið sína til að kaupa brotið kex í heildsölu. Hún klæddist sama kjólnum dag eftir dag uns hann lak í sundur á saumunum. Þegar hún komst ekki lengur hjá að þvo flíkina, skipaði hún svo fyrir að hún skyldi aðeins þvegin að neðan þar sem hún skítugust.
Hádegisverður hennar var hafragrautur sem hitaður var á ofninum í skrifstofu hennar í Seaboard National Bank þar sem hún vildi ekki greiða leigu fyrir sér húsnæði. Eini munaðurinn sem hún leyfði sér tengdist hundinum hennar, sem borðaði miklu betri mat en Hetty sjálf.
Oft leituðu borgaryfirvöld í New York til Hetty til að fá lán svo borgin gæti staðið í skilum. Í þrengingunum 1907 lánaði hún borginni 1.1 milljón dollara og fékk greitt í skammtímavíxlum.
Í elli þjáðist Hetty af slæmu kviðsliti en neitaði sér um læknisaðgerð sem kostaði hefði hana 150 dollara. Hún fékk slag oftar en einu sinni og var bundin við hjólastól síðustu ár ævi sinnar.
Hún óttaðist að henni yrði rænt og lét rúlla sér krókaleiðir til að forðast þá sem hún hélt að væru á eftir sér. Hún hélt því fram á gamalsaldri að eitrað hefði verið fyrir föður hennar og frænku.
Þegar að Hetty dó árið 1916, þá 81 árs, rann allur hennar auður til tveggja barna hennar, Ned og Sylvíu sem ekki tileinkuðu sér sama lífsmáta og móðir þeirra og eyddu fé sínu frjálslega og af gjafmildi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 10.5.2009 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.5.2009 | 23:17
Wabi-sabi
Wabi-sabi er Japanskt hugtak og tjáir tærustu fagurfræðilegu skynjun Japana. Hugtakið á rætur sínar að rekja til Búddískra kenninga um þrjú einkenni lífsins; forgengileika, ófullnægju og sjálfsleysi.
Það er notað um allar tegundir myndlistar, nytjalist, arkitektúr og landslagshönnun. Wabi-sabi er fegurð hins ófullkomna og forgengilega, þess gallaða og ókláraða. Það er fegurð hins auðmjúka og auvirðilega og um leið hins óhefðbundna og einfalda.
Ef þú spyrð Japani hvað Wabi-Sabi sé, verður þeim oft fátt um svör. Allir Japanir vita hvað það er, en finna ekki orðin til að lýsa því. Orðin tvö hafa mismunandi merkingu þegar þau eru notuð í sitt hvoru lagi.
Sumir vesturlandabúar hafa sett wabi-sabi á bekk með hinni kunnu kínversku Feng shui speki, en þótt hugtökin skarist að nokkru þar sem bæði hafa víðtæka skírskotanir, er hugmyndafræðin að baki þeim ólík.
Orðin wabi og sabi eru bæði notuð sér í daglegu tali. Þau eru aðeins notuð saman þegar fagurfræði ber á góma. Sabi er oftar notað um efnislega listræna hluti, ekki um hugmyndir eða ritverk.
Wabi tjáir fullkomna fegurð sem hefur rétta tegund ágalla, rétt eins eðlilegt munstrið sem sjá má á handgerðri leirskál en ekki í verksmiðju framleiddri skál með fullkomlega skínandi sléttri áferð og er sálarlaus framleiðsla vélar. Gott dæmi um það sem kallað er wabískur hlutur eru stífpóleraðir svartir herklossar sem á hefur fallið ryk þegar þeir voru notaðir við skrúðgöngu. Margir japanskir dýrir vasar eru gljáandi og kolsvartir með grárri rykslikju.
Sabi er sú tegund fegurðar sem aldurinn ber með sér, eins og patína á gamalli bronsstyttu. Sabishii er í daglegu tali notað yfir eitthvað sorglegt, eins og t.d. sorglegan endi í kvikmyndum. En orðið yfir ryð er líka borið fram sabi.
Menning og listir | Breytt 5.5.2009 kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.5.2009 | 19:14
Næst tekur til máls hæstvirt þriðja þingkona Reykjavíkurkjördæmis norður, Illugi Gunnarsson
Ef að mæðraveldi (matriarchy) hefði verið við lýði á Íslandi, mundu þá karlmenn sem kosnir væru til þings á öld jafnréttis og jafnræðis, láta sér lynda að vera kallaðir "þingkonur".
Og mundu þeir karlmenn sem eftir langa jafnréttisbaráttu næðu þeim árangri að setjast í ríkisstjórn, vera ánægðir með að vera titlaðir "ráðfrúr"?
Stjórnsýslutitlum á Íslandi fylgja kyngreiningar. Uppbygging tungumálssins gerir ráð fyrir því, ólíkt sem gerist t.d. í ensku. En hvers vegna er þá ekki almennt talað um þingkonur og ráðfrúr? Þingkona á þingi er kölluð "hæstvirtur þingmaður" aldrei hæstvirt þingkona. Hvers vegna ekki? Reglum tungumálsins er þarna varpað fyrir róða í krafti misréttis.
Eitt sinn var sú tíð að eingöngu konur gengdu starfi flugfreyja og/eða flugþerna. Um leið og karlmenn fóru að sinna þeim störfum tóku þeir upp starfsheitið flugþjónn. Það kom ekki til greina fyrir þá að vera kallaðir þernur eða freyjur.
Eins er með hjúkrunarmenn sem áður voru kallaðir hjúkrunarfræðingar.
Hér áður fyrr voru konur sem stýrðu búi kallaðar bústýrur. En um leið og þær eru settar við stjórn á fyrirtækjum verða þær forstjórar, ekki forstýrur. Hvaða karlmaður mundi una því, ef saga okkar hefði verið á aðra lund, að vera kallaður forstýra eða bankastýra.
Á áttunda áratugnum var gerð gagnskör að því að laga málrænt og hugrænt umhverfi okkar að kynjajafnrétti. Við vöndumst meira að segja á að kalla forsetann okkar frú. - Síðan þá hefur greinilega verið slakað á klónni og eiginlega verður maður ekki einu sinni var við jafnréttisumræðuna lengur.
Hvers vegna? Sá spyr sem ekki veit.
3.5.2009 | 16:18
Martröð Darwins
Það er langt síðan ég hef séð aðra eins hrollvekju og þessa kvikmynd sem fór algjörlega fram hjá mér á sínum tíma. Það er eins og sjálfur Dante hafi verið með í að skapa umgjörðina fyrir þessa kvikmynd sem er frá árinu 2004 og er frönsk-belgísk-austurrísk heimildarmynd um fiskveiðar og fiskverkun við Viktoríuvatn í Tansaníu.
Hún lýsir með viðtölum við innfædda fiskimenn, frystihúsaeigendur, hórur og flugmenn, sem búa í Mwanza, hvernig ferskvatnsfiskinum Nílar-Karfa var sleppt í vatnið fyrir nokkrum ártugum og hvernig hann er á góðri leið með að eta upp allt lífríki vatnsins.
Karfnn getur orðið allt að 200 kg. þungur en um 50 tonnum af fullunnum karfa-flökum er flogið til annarra landa daglega á meðan innfæddir hafa hvorki í sig eða á.
Fiskurinn er of dýr til að borða hann.
Kvikmyndina má sjá í fullri lengd með því að smella á myndina hér til vinstri. Ég hvet alla sem þetta lesa að horfa á hana, ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar.
Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur auk þess hlotið mörg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Frekari upplýsingar um myndina á ensku, má finna hér.
Í umfjöllun sinni um myndina sem var sýnd á kvikmyndahátíð í Gautaborg 2005, skrifar Ari Allansson;
Martröð Darwins gerist á bökkum Viktoríuvatns, sem er næst stærsta stöðuvatn í heimi og á Níl upptök sín þar. Myndin segir frá því hvernig á sjötta áratugnum, einn maður, með eina fötu fulla af fisktegund sem ekki fannst í vatninu áður, hellti úr fötunni í vatnið, og sjá, ný fisktegund fannst í Viktoríuvatni. Þessa fisktegund, Nile Perch (Nílarkarfi), sem er auðvelt að veiða og gefur af sér mikið kjöt, étur aðrar fisktegundir svo heilu stofnarnir hafa horfið úr vatninu. Vistkerfi Viktoríuvatns hefur veikst til muna og nú er svo komið að menn óttast um framtíða lífríki þess. Á meðan innfæddir deyja úr hungri og af alnæmi á bökkunum, lítil börn sniffa lím og sofa á götunum, eru risavaxnar flutningaflugvélarnar að flytja Nílarkarfa til Evrópu, þar sem fiskurinn er seldur dýru verði. Og ekki nóg með það, heldur þegar flugvélarnar snúa aftur, hafa þær meðferðis vopn, svo að fólkið í Tanzaníu geti murrkað lífið úr hvort öðru, þar að segja þeir sem lifa af hungursneyð og alnæmi. Myndin er næsta martraðarlík og maður skammast sín næstum fyrir að búa og hafa alist upp í vestrænu landi. Sérstaklega í senu þar sem sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar World Bank, sitja á málþingi í Tanzaníu og tala um hvað vel hafi gengið að koma á efnahagskerfi í landinu. Vei sé þeim sem heldur að nýlendustefnan og arðránið í þriðja heiminum sé liðið undir lok.
Ég þakka Ingó kærlega fyrir þessa ábendingu
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 14:49
Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?
Auðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)
Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.
Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.
Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.
Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.
Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.
Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi.
Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.
![]() |
Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.
"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2009 | 11:48
Sagan í hausnum
Hausmyndin mín er máluð af tveimur kínverskum listamönnum og gerð í stíl ítalskra endurreisnarmálara. Á henni er a finna 100 frægar persónur úr mannkynssögunni auk listamannanna sjálfra. Til skamms tíma var hausmyndin á blogginu mínu mín tekin innan úr þessari mynd en sett inn í fullri stærð fyrir viku.
Með því að smella á myndina hér fyrir neðan og síðan aftur á myndina sem þá birtist, færðu upp stækkaða mynd þar sem öll smáatriði koma greinilega fram. Þú getur athugað hversu margar persónur þú telur þig þekkja á myndinni.
Ef þær eru færri en 20 er komin tími til að þú rifjir lítillega upp mannkynssöguna. Ef Þú kannast við 20-60 ertu gjaldgengur í hvaða spurningakeppni sem er og ef þú þekkir 61-100 ertu snillingur. Ef þú þekkir nöfn allra þeirra 102 andlita sem á verkinu sjást ertu annar þeirra sem málaðir verkið.
Þegar þú ert búin að spreyta þig á kunnáttu þinni getur þú fengið allar upplýsingar um hverjar þessar persónur eru, með því að færa bendilinn yfir andlit þeirra á myndinni sem er að finna HÉR
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.4.2009 | 18:07
Dansar þú 1.maí?
Árþúsundum áður en þing evrópskra verkalýðsfélaga sem haldið var í París árið 1889 samþykkti tillögu Frakka um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks, var dagurinn almennur frídagur og hátíðisdagur víðast hvar í Evrópu.
Gamla keltneska tímatalið gerði ráð fyrir fjórum jafnlöngum árstíðum og samkvæmt því hófst sumar 1. maí. Með auknum umsvifum og landvinningum Rómverja í mið og norður hluta álfunnar, blandaðist 1. maí hátíðarhöldin rómversku hátíðinni Floralíu sem tileinkuð var gyðju blómanna Flóru. Sú hátíð var haldin frá 28 apríl til 2. maí.
Á Bretlandseyjum þar sem 1. maí hátíðin gekk undir gelíska heitinu Beltene-hátíðin. Var hún allsherjar hreingerningarhátíð, andlega jafnt sem efnislega og stjórnað af Drúída-prestum. Jafnvel búféð var hreinsað af öllu illu með að reka það í gegnum eld.
Seinna runnu ýmsir siðir þessara tveggja hátíða saman. Til þeirra má rekja siði sem enn eru í heiðri hafðir víða um Evrópu eins og að reisa og dansa í kringum maí-stöng og krýna maí-drottningu og kveikja í bálköstum. Þess má geta að fyrirmyndin að "frelsistrénu" sem var tákn frönsku byltingarinnar var fengin frá maí-stönginni.
Um leið og kristni breiddist út um álfuna var mikið til reynt til að gera 1. maí að kristinni hátíð. Kaþólska kirkjan helgaði daginn Maríu Guðsmóður og seinna var hann kenndur við dýrlinginn Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Í Þýskalandi hét hátíðin "Valborgarnætur". Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.
Lengi vel var siður að gefa 1. maí-körfur sem fylltar voru einhverju góðgæti og blómum sem skilja átti eftir við dyr nágranna án þess að gefa til kynna hver gefandinn væri.
Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum heimsins sem alþjóðlegur frídagur verkafólks, en þó ekki í Bandaríkjunum eða Kanada. Það kann að sýnast dálítið kaldhæðnislegt, því þegar ákveðið var að dagurinn skyldi tileinkaður verkfólki var haft í huga að minnast fjöldamorðanna sem áttu sér stað á Heymarkaðinum í Chicago þann 4. maí 1886, þegar á annan tug stuðningsmanna verkammanna í verkfalli, var feldur af lögregluliðum borgarinnar.
30.4.2009 | 11:54
Tæknilegt einelti
Það vekur alltaf athygli þegar ofbeldi og hrottaskapur stúlkna gegn stallsystrum sínum kemst í fréttirnar. Það er næsta víst að ofbeldi á borð við það sem átti sér stað upp í Heiðmörk fyrir stuttu, tengist einelti. Reyndar er daglegt einelti meðal unglinga orðið svo hátæknilegt að það er stundum erfitt að átta sig á hvort um raunverulegt einelti er að ræða eða "eðlileg" samskipti unglinga.
Þannig gerðist það fyrir stuttu að Jessie Logan, átján ára skólastúlka í Cincinati í Bandaríkjunum sendi stráknum sem hún var að deita, mynd af sér í dálítið sexý pósu. Slíkt er afar algengt og stundum kallað "sexting". Eftir að þau hættu saman, hóf stráksi að dreifa myndinni meðal félaga sinna og þannig flaug myndin milli nokkur hundruð farsíma á örskammri stundu. Í kjölfarið varð Jessie að þola einelti og stríðni frá skólafélögum sínum og kunningjum sem voru að senda á hana illgjarna texta í tíma og ótíma. Skólayfirvöld reyndu að slá á eineltið með því að láta Jessie koma fram í sjónvarpi og biðjast vægðar. En allt kom fyrir ekki og að lokum hengdi Jessie sig.
Í Bretlandi hefur nýlega verið tekin í gagnið hjálpar-miðstöð sem kallast "Cyber-mentors" fyrir börn og unglinga sem verða fyrir einelti og áreiti í gegnum farsíma og tölvur. Þeir sem á annað borð taka þátt í eineltis-aðgerðum gegn félögum sínum vita að í skólum er reynt að fylgjast með atferli þeirra. Í stað "hefðbundins" eineltis er því meir og meir notast við farsíma, skilaboð og tölvur þar sem hægt er að semda myndefni og rætna texta eftirlitslaust.
29.4.2009 | 18:45
Samantekt á fréttanöldri
Obama er búin að vera við völd í USA í rúma 100 daga. Það eru mikil tímamót hjá þjóð þar sem hlutirnir gerast hratt. Obama er rosalega vinsæll eftir þennan tíma í embætti, um það bil eins vinsæll og forveri hans Bush var eftir fyrstu 100 dagana sína í Hvíta húsinu. Góður árangur hjá Obama!
Svínaflensan er kominn á fulla ferð um heiminn. Samsærismennirnir segja að hún sé sérhönnuð til þess að taka athyglina frá einhverju voðalega ljótu sem er að gerast í fjármálheiminum. Á hverju kvöldi birtist heimskortið á skjánum þar sem hvert land lýsist upp ef þar hefur fundist tilfelli. Svo virðist sem Svínaflensan sé miklu skæðari en fuglaflensan var og komið er í ljós að það er tilgangslaust að reyna að hindra útbreiðslu hennar. Viðbrögð stjórnvalda eiga að miðast frekar við meðhöndlun. Allir eru að kaupa sér andlitsgrímur nema múslíma-konur sem eiga þær til. Tölurnar yfir látna og veika birtast líka yfir hverju landi og svo segir þulurinn eða þulan frá því hvar sé líklegast að hún skjóti sér niður næst og hvað margir komi til með að deyja þar. Svei mér þá, ef þetta er ekki jafn spennandi og juróvisjón.
Og vel á minnst, skartgripasali í Skotlandi er búinn að banna búrkur og andlistgrímur íslamskra kvenna í verslun sinni eftir að tveir karlmenn klæddir sem konur í serk og með grímur, rændu verslun hans. Nú verða íslamskar konur að hringja á undan sér og panta sér afgreiðslukonu ef ær vilja versla við hann.
Stríðið í Írak gengur vel. Það er búið að drepa þar dagskammtinn sem er venjulega milli 40-100 manns.
Árni í Eyjum segir að það hafi verið unnið á móti honum í flokknum hans. Eitraðar tungur spilltu fyrir honum og hvöttu til þess að yfirstrika hann. Árni veit vel hvað það er að verða fyrir eitrun. Ég sá á honum hendurnar eftir að einhver eitraði fyrir honum fyrir þremur árum. Þær voru bólgnar og þrútnar. Nú bólgnar Árni aftur og þrútnar af réttlátri reiði. Pólitík er eitur.
Mín tillaga er að Árni J, Guðlaugur Þór sem langar svo til þess að verða aftur litli góði drengurinn, og Björgvin pípari, (saklausi bankamálaráðherrann) taki sig saman og stofni með sér "Útstrikaða-flokkinn".
VG og Sf halda áfram að spjalla um hvernig þeir eigi að stjórna landinu. Það liggur ekkert á segja þau, því þau eru hvort eð er við stjórn. Stóra málið er auðvitað hvernig á að standa að því að ganga í Evrópubandalagið. Samfylkingin vill ekki ganga í EB, heldur hlaupa þangað og VG vilja heldur ekki ganga í það, en eru tilbúnir í að skríða.
Svo eru það hremmingarnar hans Þráins. Í Borgarhreyfingunni á fólk að vera svo heilagt að það á að skila launum fyrir störf sem það hefur fyrir löngu unnið. Að auki er hér um að ræða "verðlaun" sem hann var "heiðraður" með. Nú er heiður hans fallinn að sumra mati sem vilja að hann skili verðlaununum rétt eins og íþróttagarpur sem hefur orðið uppvís af dópnotkun. Þráinn; nú er tími til kominn að hvetja exina og höggva nokkrar gagghænur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2009 | 16:14
Auðmýking Íslendinga
Engin þjóð í heiminum sem náð hefur þeim árangri að halda þjóðareinkennum sínum og menningu, hefur sloppið við auðmýkingu. Stór lönd sem smá hafa þurft að sætta sig við að fara halloka í stríðum og pólitískum átökum. Auðmýkingin hefur kennt þjóðunum að þeirra eigingjarni hugsunarháttur er ekki alltaf farsælastur og þeirra sértæku viðmið halda ekki alltaf vatni. Hún hefur neytt þjóðirnar til að taka mið af hugmyndum, straumum og stefnum hvor annarrar. Hún hefur þjappað saman þjóðunum í þjóðabandalög sem margir spá að sé aðeins millistig að alheimslegu samveldi.
Íslendingar eru illa í stak búnir til að takast á við slíka auðmýkingu.
Um stund héldu þeir jafnvel að þeir væru undanþegnir þeirri reglu að þurfa nokkru sinni að verða fyrir henni. Eftir að þjóðin varð sjálfstæð fylgdi hún þeim ásetningi í samskiptum sínum við önnur lönd að "eiga kökuna og borða hana líka." Kannski var það af minnimáttarkennd tilkomin vegna smæðar þjóðarinnar og að í mörg hundruð ár var hún fátækasta þjóð Evrópu. Kannski var það vegna þess að hún hélt að sinn tími væri loks kominn.
Í milliríkjadeilum, jafnvel við stórveldi, höfðu Íslendingar jafnan sigur. Þeir höguðu sér eins og þeir sem aldrei geta klikkað. Þeir voru fegurstir, sterkastir, gáfaðastir og alveg að verða ríkastir líka. Þeir fóru mikinn hvar sem þeir komu og keyptu sér fjölda rótgróinna erlendra verslana, fótboltafélög, fjarskiptasamsteypur og lyfjafyrirtæki. Sjálfsmynd þeirra einkenndist af stolti, nánast þjóðarrembingi.
Síðan þegar skellurinn kom, hitti hann þá fyrir þar sem þeir héldu að þeir væru hvað sterkastir. Auðmýkinguna sem einstaklingar, samfélög og þjóðir þurfa að fara í gegn um til að þroskast og læra að umgangast hvor aðra af háttvísi, upplifðu þeir fyrst sem höfnun. Næstu viðbrögð voru afneitun og síðan reiði. Þar eru þeir staddir í dag.
Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar. Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim auðlindum okkar.
Íslendingar vita flestir innst inni að efnahagshrunið mun fyrr eða síðar knýja okkur til nýs hugsunarháttar og víðtækari ábyrgðar. Við munum hætta að hugsa eins og unglingur sem sér fátt mikilvægara en "sjálfstæði" sitt, þegar allir aðrir sem á horfa sjá, að allt það sem hann heldur að geri sig svo sérstakan, er það sem gerir hann mest líkan öðrum unglingum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2009 | 12:45
Business as usual
Kosningarnar afstaðnar og allir flokkar og listar greinilegar sigurvegarar, eins og venjulega, nema kannski XF flokkurinn sem varð fórnarlamb sinna eigin fordóma og jæja, kannski einhverra annarra líka sem hafa fordóma gegn fordómum.
Ástþór sigraði feitt, vegna þess að hann fékk að koma fram með hinum framagosunum og segja þeim til syndanna. Svo fékk hann líka tækifæri til að neita fréttamiðlinum sem hann hatast út í, um nærveru sína. Ég held að ég hafi aldrei séð eins glaðvært glott á vörum fréttaþular og þegar hann tilkynnti það.
Allt fór vel hjá Sjálfstæðisflokknum sem hvort eð er hafði ekki gert ráð fyrir að vera með í næstu stjórn landsins. Nú fá þeir kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja sig og "vinna fylgið til baka" því þeir hafa "stefnuna og fólkið sem þjóðin þarf" til að velsæld ríki í landinu. Og allar gömlu konurnar klöppuðu hátt í Valhöll þegar að foringinn tilkynnti þetta.
Vinstri grænir voru hinir eiginlegu sigurvegarar því þeir hafa aldrei verið stærri en nú, nema í flestum skoðanakönnunum fyrir kosningar. En eins og allir vita er ekkert að marka skoðanakannanir. Þeir eru orðnir svo stórir að þeir eru orðnir svona "sjáum til" flokkur, eins og hinir flokkarnir hafa alltaf verið. Því miður fyrir vin minn Bjarna Harðar, sá hann það ekki fyrr en það var um seinan.
Stórsigur Samfylkingarinnar og Jóhönnu er eiginlega ekki fréttnæmur. Þegar loks er búið er að hræra saman og baka köku úr öllu sem til var; kvennaframboðinu, krötum, allaböllum og Ómari Ragnars, þá ber að gleðjast yfir því að kakan kom loks ófallin úr ofninum.
Stórkostleg framsókn framsóknarflokksins, sem aðeins einu sinni í sögu landsins hefur verið með jafn fáa þingmenn, er staðreynd. Flokkurinn stækkaði um 100% í þessum kosningum frá því sem slökustu skoðanakannanir sýndu. Mikið afrek fyrir annars aflóga stefnu og frekar ógeðgeldan strák sem tók við þessu hrafnaþingi fyrir nokkrum vikum.
Borgarhreyfingin sem eyddi bara einni og hálfri milljón og þremur vikum í að koma framboðinu saman fékk fjóra þingmenn og þar af einn flóttamann frá hrafnaþinginu, er hinn sanni sigurvegari þessarar kosninga, vegna þess að nú munu raddir fólksins í landinu loksins heyrast í þingsölum landsins. - Þeir ætla að halda uppi málþófi í öllum málum sem þingið tekur fyrir og þeir eru ekki sammála. Það er mikill sigur fyrir lýðræðið að fá þá málgarpa á þing.
Nú tekur við smá karp milli XS og XV um hvernig það verði hægt fyrir stjórnina að fara strax út í EB aðildarviðræður án þess að XV missi algjörlega andlitið. Og þegar því er lokið, verður þetta business as usual.
Heima sitja flokkseigendurnir ánægðir og núa sér um handabökin. Eftir allt þetta tilstand fór þetta bara dável allt saman. Enginn kærður fyrir stórþjófnaðina, engin ný stjórnarskrá til að endurskilgreina rétt þegna landsins, ekkert persónukjör og búið að stinga snuði upp í pottaglamursliðið. Business as usual.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.4.2009 | 17:45
Kristnir "Talibanar" til Genfar
Jean Cauvin (betur þekktur sem Jóhann Kalvin) var aðeins átta ára þegar Martin Lúther negldi hið fræga skjal sitt á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517 og hóf þannig baráttu sína sem kennd er við siðbót innan kristinnar trúar.
Kalvin átti þá heima í fæðingarbæ sínum Noyon í Frakklandi og hafi verið alinn upp við kaþólska trú af löglærðum föður sínunm. Hann gerðist mótmælandi ungur að árum og til að forðast ofsóknirnar sem þá voru tíðar á hendur mótmælendum, flúði hann Frakkland til Basel í Svisslandi. Þar nam hann guðfræði og skrifaði sitt frægasta rit, "Stofnanir kristnu trúarbragðanna" sem kom út þegar hann var aðeins 27 ára gamall.
Hann heimsótti borgina Genf 1536 þar sem mótmælendur voru fjölmennir og tók þar upp kennimannsstöðu. Hann lenti fljótlega í útistöðum við borgarbúa vegna púritanískra skoðana sinna og var eiginlega rekinn frá borginni 1538. Hann gerðist þá klerkur í Strassburg og stundaði þar einnig skriftir. Honum var samt boðið að snúa aftur til Genfar árið 1541 og varð eftir það óumdeildur leiðtogi borgarbúa allt til dauðadags árið 1564.
Í Genf hrinti Jóhann Kalvin í framkvæmd kenningum sínum um hvernig kristið samfélag ætti að starfa, þótt að nafninu til væri borginni stjórnað af 25 manna borgarráði sem Jóhann átti ekki sæti á. Undir hans stjórn varð Genfar að miðstöð mótmælenda í Evrópu og stundum nefnd "Róm mótmælenda."
Í Genf Kalvins var framhjáhald og allt lauslæti gert að alvarlegum glæp. Fjárhættuspil, víndrykkja, dans og dægurlaga söngur var algjörlega foboðið athæfi að viðlagðri harðri refsingu. Öllum var gert skylt að mæta til guðþjónustu í kirkjum borgarinnar á vissum tímum þar sem predikanir klerkanna voru yfirleitt afar langar. Þá var allur skrautklæðnaður bannaður og ekkert mátti taka sér fyrir hendur á hvíldardeginum.
Kalvin var mjög óumburðalyndur og fljótur til að fordæma þá sem ekki fóru eftir túlkunum hans. Einn af frægari andstæðingum hans var Mikael Servetus, spánskur læknir og guðfræðingur sem ekki hugnaðist kenningarnar um þrí-einan guð. Þegar Servetus heimsótti borgina lét Jóhannes handtaka hann og dæma fyrir villutrú. Servetus var síðan brenndur á báli árið 1553. Talverður fjöldi manna og kvenna hlaut sömu örlög undir stjórn Jóhanns í gegnum tíðina, flestir fyrir galdra og villutrú. (Myndin sýnir tvo Dóminik-munka sem brenndir voru í Genf árið 1549)
Ýmsir trúarhópar spruttu upp sem studdust við kenningar Kalvins og má þar á meðal nefna Presbyterian-kirkjuna í Skotlandi, Hugenotta í Frakklandi og Púrítananna í Englandi. Kalvinísk mótmælendatrú varð ofaná í Sviss og Holllandi og einnig er stóra Kalviníska söfnuði að finna í Póllandi, Ungverjalandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Uppi hafa verið kenningar um að afstaða Kalvins til vinnu-siðferðis og sú staðreynd að hann lagðist ekki gegn því að vextir væru teknir af fé, hafi átt stórann þátt í uppgangi kapitalismans (Auðhyggju) í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig að ástæðan fyrir því að nútíma lýðræði þróaðist fyrr í löndum þar sem Kalvinistar voru jafnan í minnihluta, hafi verið vegna þrýstings þeirra um virka þátttöku í málefnum samfélagsins.
Trúmál og siðferði | Breytt 26.4.2009 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.4.2009 | 06:16
Kynlíf í kvöld
Hætt er við að spennan sem hefur verið að hlaðast upp í fólki smá saman undanfarnar vikur og jafnvel mánuði, nái hámarki í kvöld, þegar kjörstöðum verður lokað og byrjað verður að telja upp úr kössunum. Víst er að Það verður spennufall hjá mörgum seinni hluta kvöldsins þegar úrslit verða staðfest og því mikilvægt að vita hvernig hægt er að bregðast við því. -
Framvindan um myndun stjórnar eftir kosningar er nokkuð skýr og fyrirsjáanleg, þannig að ekki verður nein veruleg spenna tengd henni. XV og XS munu mynda stjórn og í stjórnarandstöðu verða XO, XB og XD. En hvort sem þú telur að þú hafir unnið eða tapað kosningunum, aukið völd þín eða tapað þeim, er viðbúið að í þér búi langvaraandi streita sem leita muni útrásar í kvöld.
Það er samdóma álit lækna og sérfræðinga að besta leiðin til að bregðast við spennufalli sé að beina hinni innlokuðu orku inn í kynlífið.
Kynlíf og spenna eru mjög tengd. Spenna hefur oft verið sögð orsök minni kynþarfar en jafnframt er kynlíf oft besta leiðin til að losa um spennu. Þeir sem eru í vafa um undursamleg áhrif kynlífs á heilsu og líf okkar, geta lesið hér og hér stuttar greina um efnið.
24.4.2009 | 01:08
Fagrar og sexý eða konur í neyð
Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú sérð svona myndir? Í gegnum huga minn flaug spurningin,
Hvað er eiginlega að í þessum heimi?
Ef það eru til vitsmunaverur á öðrum hnöttum, skilur maður vel af hverju þær halda sig fjarri okkur, þegar við skoðum myndirnar sem hér fylgja og berum þær saman.
Sumar eru teknar í landi þar sem fólk lifir við alsnægtir og friður ríkir. Aðrar eru teknar þar sem styrjaldir, hungurneyðar og kerfisbundin utrýming fólks hafa átt sér stað.
Sjúkdómarnir sem valda þessu ástandi eru mismunandi.
Þeir heita mismunandi nöfnum en eiga það sameiginlegt að eiga heima í huga og hjörtum fólks.
Annars vegar heita þeir; hatur og vanþekking, fordómar og græðgi. Einkenni þessarar sjúkdóma á heimsmælikvarða eru styrjaldir og hungurneyðir.
Hins vegar heita þeir; sjálfshatur, ímyndarveiki, depurð og einmannleiki sem eru andleg einkenni anorexíu og búlimíu.
Eins og flestum er orðið ljóst eru myndirnar vinstra megin af tísku-sýningarstúlkum. Þær eru fyrirmyndir þúsunda ungra stúlkna í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu. Stúlkurnar hægra megin eru fórnalömb úr útrýmingarbúðum og hungursneyða af völdum styrjalda.
23.4.2009 | 18:36
Grænu börnin
Þorpið Woolpit er nefnt eftir fornum pyttum sem finna má í grenndinni og kallaðir eru "Úlfapyttir" vegna þess að þeir voru í fyrndinni notaðir til að veiða í úlfa.
Dag einn síðla sumars fyrir meira en átta hundruð árum gengu þorpsbúar Woolpit til verka sinna á akrinum fyrir utan þorpið. Þegar þeir nálguðust akurinn heyrðu þeir hræðileg óp kom úr einum úlfapyttinum skammt utan akursins. Við nánari eftirgrennslan fundu þeir tvö felmtri slegin börn á botni hans.
Börnin virtust eðlileg í alla staði fyrir utan tvennt; þau töluðu tungumál sem enginn skildi, en það sem meira var, hörund þeirra var grænt á litinn. Drengurinn og auðsýnilega eldri systir hans voru líka klædd í föt sem gerð voru úr torkennilegum efnum.
Eftir að þorpsbúar höfðu undrast og býsnast nægju sína yfir börnunum, ákváðu þeir að far með þau til landeigandans Sir Richard de Calne, á óðal hans í Wikes. Sagan um fund barnanna fór eins og eldur í sinu um héraðið og margir lögðu leið sína til Wikes til að berja eigin augum undrin.
Börnin voru greinilega örmagna og hungruð en fengust ekki til að borða neitt af því sem þeim var boðið. Það var ekki fyrr en einhver veitti því athygli að þau gutu augunum í áttina að matreiðslukonu sem fór fyrir gluggann með fulla körfu af grænum baunum í fanginu, að þeim var boðið hrátt grænmeti eingöngu. Það þáðu þau og næstu mánuði lifðu þau eingöngu á grænum baunum og káli þar til loks þau fengust til að bragða á brauði og öðrum almennum mat.Smátt og smátt breyttist litarháttur þeirra og færðist nær því sem gekk og gerðist meðal enskrar alþýðu á þeim tíma.
Fólki fannst viðeigandi að láta skýra börnin og var það gert en þau dvöldust í góðu yfirlæti á heimili
Sir Richard þar sem allir komu vel fram við þau.
Þegar leið að jólum, var orðið ljóst að drengurinn átti greinlega mun erfiðara með að aðlaðast nýjum háttum. Hann varð þunglyndur og lést skömmu fyrir aðfangadag eftir skammvinn veikindi. Systir hans braggaðist hins vegar vel og eftir nokkra mánuði var ekki hægt að sjá muninn á henni og öðrum börnum.
Hún dvaldist á heimili Sir Richards í mörg ár og lærði þar að tala reiprennandi ensku. En það sem hún hafði af fortíð sinni að segja jók frekar á leyndardóminn frekar en að skýra hann. Hún sagðist hafa átt heima í landi sem kallað væri St. Martin. Landið væri kristið og þar væri að finna margar kirkjur. Þar risi sólin ekki upp á himininn og íbúar þess byggju þess vegna í stöðugu rökkri.
Stúlkan gat ekki skýrt hvernig hún og bróðir hennar hefðu lent í úlfapyttinum. Hún sagðist eingöngu muna eftir því ð hafa verið að gæta kinda föður síns þegar að hún heyrði mikinn klukknahljóm. Við hljóminn missti hún meðvitund og þegar að hún rankaði við sér voru þau stödd í stórum helli. Þau reyndu hvað þau gátu til að komast út úr hellinum og gengu á birtu sem barst inn í hann. Þannig komust þau í botn pyttsins þar sem þorpsbúarnir loks fundu þau.
Saga stúlkunnar var skráð af sagnritaranum William of Newburge. (1136-1198 í Historia rerum Anglicarum) Samkvæmt heimildum hans tók stúlkan sér nafnið Agnes Barre og giftist manni frá King's Lynn.
Annar sagnritri Ralph of Coggeshall (d.1228), segir einnig frá grænu börnunum í Chronicon Anglicanum sem hann skrifaði í frá 1187 til 1224.
Báðir skrifuðu samt um atburðinn löngu eftir að hann átti að átt sér stað.
Sagan um grænu börnin er einnig varðveitt í skjaldarmerki þorpsins Woolpit sem enn er í byggð og einnig á útsaumuðum refli í kirkju staðarins. Ekki er vitað hvort "Agnes" eignaðist afkomendur en svo mikið er víst að ekki hafa nein græn börn fæðst á Englandi svo vitað sé um.
PS. Hér er að finna athyglisverða grein um svo kölluðu "Grænu veikina" eða chlorosis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2009 | 13:53
Hvar eru allir japönsku skóladrengirnir?
Sumardagurinn fyrsti heilsaði mér með sólskini og bros á vör. Ég kreisti fram hálfkarað glott til baka. Þegar ég rölti niður í miðbæ til að drekka morgunkaffið mitt voru rónarnir þegar vaknaðir og sötruðu morgunbjórinn sinn, reyktu og glugguðu í frýju dagblöðin. Sum höfðu greinilega verið ábreiður þeirra um nóttina.
Þegar sólin skín brosir fólk meira. Kaffið bragðast líka betur. Stúlkurnar eru léttstígari og strákarnir flexa vöðvunum meira í stuttermabolunum. Ég sé að blikið í augum götusalanna er skærara og einhvern veginn lítur vara þeirra betur út líka. Japönsku skólastelpurnar fara um bæinn tvær og tvær og rýna í kortin sín. Hversvegna sjást japanskir skóladrengir aldrei á ferð?
Fréttirnar í blöðunum eru samt jafn leiðinlegar og áður, kannski enn leiðinlegri. Söngleikur um Jade Goody í startholunum...vá eitthvað sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Darling sjóðstjóri segir að best sé að bregðast við kreppunni með því að gera ekki neitt og láta sem allt sé eðlilegt...Condoleezza Rice með í ráðum þegar Zubaydah var pyntaður með "vatnsborðsaðferðinni" 83 sinnum Khalid Sheikh Mohammad 183 sinnum...og mér sem fannst hún alltaf svo brosmild og viðkunnanleg...Kannski var það bara af því hún var kona, svört kona. 28 manns dánir í enn einni sprengjunni í stríðinu sem er löngu lokið í Írak...Næstum því heimsendir 2012 þegar sólvindar slá út öllu rafmagni, eyðileggja gervihnettina og Internetið.....and so on and so on.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)