Tveggja álfu landið

Bretar hafa lengi haft áhuga á Íslandi og það kemur ekki á óvart hversu margir af þeim hafa það efst á óskalista sínum að heimsækja Landið. Það kemur heldur ekki á óvart hversu margir Bretar hafa ekki hugmynd um hvar landið er, þótt væntanlega séu það ekki sömu Bretarnir og eiga þá ósk heitasta að heimsækja landið. -

En öll sú umfjöllun sem Ísland hefur fengið í breskum fjölmiðlum undanfarin fjögur ár, er að skila sér í auknum fjölda breskra ferðamanna til landsins.

Annars verður íslensk ferðaþjónusta að búa sig undir það að taka á móti erlendum gestum sem vita svo til ekkert um land og þjóð. - Það er liðin tíð að hinn almenni túristi til Íslands sé náttúrunött sem eyðir frítíma sínum í að læra forn-norsku. -

Hingað streymir þegar allskonar fólk, mismunandi vel undirbúið og hæft til að meta að verðleikum íslenska náttúru, hvað þá sögu og menningu. -  

Margir virðast aðeins hafa komið hingað vegna þess að verðið á flugmiðanum var skaplegt og þetta var eitt af löndunum sem þeir áttu eftir að heimsækja. -

Gagnvart slíkum túristum skiptir það litlu máli hvaða álfu Ísland tilheyrir og þeir ruglast enn meira í rýminu þegar það heyrir leiðsögumenn segja fá því að jarðfræðilega tilheyri landið tveimur álfum. -

 


mbl.is Ísland ofarlega á óskalistanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver fer best að boðum Krists; Davíð Þór, Guðni Ágústsson eða Ólafur Ragnar Grímsson

Ólafur Ragnar segir; "Ég tilheyri þjóðkirkjunni eins og flestir, en þrátt fyrir það er ég nokkuð sannfærður um, að Guð sé ekki til.“ (1980)

Ólafur Ragnar segir; "Auðvitað er ég kristinn maður eins og þorri þjóðar­innar og hef verið í þjóð­kirkjunni, skírður og fermdur og trúi á þann Guð, sem að sérstaklega amma mín kenndi mér að trúa á.“ (1996)

Kristur segir; "Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin."

Davíð Þór segir; "Enn átakanlegra hefur mér þó þótt að sjá hve lyga- og rógsherferð hans fyrir endurkjöri virðist eiga greiða leið að atkvæðum Íslendinga."

Guðni segir; "Ég sagði við hana (biskupinn) að mér þætti þetta vera ófær framkoma hjá hennar þjóni. Ég gerði kröfur til þess sem heiðarlegur maður og kristinn að þessi maður gjaldi fyrir orð sín bæði í minn garð og forsetans.“

Kristur segir;"Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.' En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina."

Biskup segir: "Ef Guðni er ósáttur þá getur hann að sjálfsögðu farið með málið fyrir dómstóla eða rætt við höfundinn sjálfan"

Kristur segir;"Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka."

Davíð Þór segir; "Ef hann telur að það sé eitthvað í skrifum mínum sem fellur undir meiðyrðalöggjöf, þá getur hann gert það,“

Guðni segir; "Maður gerir meiri kröfur til manna sem hafa gengið í guðfræðideild og lært siðfræði og ætla að boða hið góða orð kirkjunnar en annarra."

Biblían  boðar; "Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs."


mbl.is Skilur ekki afstöðu Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið skítlega eðli Davíðs

Sáttin sem forseti vor vill að komist á í samfélaginu, eftir að hann vissi að það var öruggt að hann hlyti kosningu, verður víst að bíða eitthvað. Illindi og deilur í tengslum við kosningarnar ráða ríkjum þessa dagana.

Öryrkjabandalagið ætlar að kæra sjálfar kosningarnar og láta dómsstóla kveða á um hvort þær hafi verið löglegar eða ekki.

Einn af aðal hvatamönnum framboðs forsetans,  Guðni Ágústsson,  hugleiðir að kæra Davíð Þór fyrir að hafa skrifað eitthvað ljótt um forsetann og jafnvel Guðna sjálfan í aðdraganda kosninganna.

Guðni fer framsóknarleiðina í þessu máli. Hann talar ekki við þann sem hann þykist eiga sökótt við, en fer beint í atvinnurekandann sem Davíð vinnur hjá og kvartar við hann. Vill sjálfsagt láta reka Davíð fyrir það skítlega eðli að tala um forsetann eins og hann sé einhver loddari og segja líka svo eitthvað slæmt um hann sjálfan í leiðinni.

Þegar að Davíð Oddson kallaði fram í fram í þingræðu Ólaf Ragnars, "hvers konar loddari ert þú" sá Guðni Ágústsson ekki ástæðu til að kæra. Og þegar að Ólafur Ragnar sagði að Davíð Oddson hefði "skítlegt eðli" sá Guðni heldur ekki ástæðu til að kæra. Þá voru þeir allir þingmenn og á þingi mega þingmenn segja ýmislegt sem leikmenn geta átt á hættu að verða kærðir fyrir.


mbl.is Davíð svarar Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að teygja íslenskan lopa í Kína

Rammagerðin selur "íslenskar" lopapeysur sem eru prjónaðar í Kína. Hráefnið, ullin er íslensk og verksmiðjan "íslensk" þ.e. í eigu 66°Norður. Þeir kunna að teygja lopann í Kína.

Að sögn starfsmanns Rammagerðarinnar er þetta fyrirkomulag tilkomið vegna þess að þeir sem prjóna lopapeysur hér heima fyrir Rammagerðina anna ekki eftirspurn. Og auðvitað er ekki hægt fyrir fyrirtæki eins og Rammagerðina að búa við skort á lopapeysum. Peysan er afar vinsæll minjagripur og megnið er keypt af erlendum ferðamönnum. Við þurfum svo sannarlega á pundum og evrum að halda. Þess vegna er það gert sem gera þarf, jafnvel þótt einhverjir væli og segi þetta tómt svindl og svínarí. 

Mér finnst reyndar mjög snjallt af fulltrúum íslenskra lopapeysuprjónara að vekja athygli á þessu máli. Þeir fá góða auglýsingu út á það og geta um leið minnt sjálfa sig á að merkja sínar peysur, svo ekki fari á milli mála hver prjónaði hvað. -

En hvernig væri að  einhver sem illa gengur að losa sig við peysurnar sínar, hefði samband við Rammagerðina og bjóði þeim varning sinn til kaups. - Þeir selja svo mikið segja þeir, að þeir verða að fá Kínverja til að prjóna.

Engin hefur einkaleyfi á munstrinu sem gera lopapeysur "íslenskar" og þaðan af síður á íslensku ullinni. Það er vitað. - En eins og oft áður, þegar einhverjum sýnist hann missa spón úr sínum aski í munn útlendinga, glittir í þjóðrembuna.

Nú vill íslenskt verkalýðfélag láta kanna aðbúnað kínverskra prjóna- kvenna og karla ef ske kynni að hann væri ekki sambærilegur við það sem íslenskir prjónarar lifa við. - Kannski þeir kanni í leiðinni hvernig fólk hefur það í svitasjoppunum á Taívan, Indlandi og í Kóreu þar sem stór hluti þess klæðnaðar sem við göngum í daglega er framleiddur.

Kínversku lopapeysurnar eru á sama verði  (20-2400) og þær sem prjónaðar eru á Íslandi þannig að þótt vinnulaunin í Kína séu ekki sambærileg við það sem gengur og gerist hér á landi, kemur það  sem sagt út á jöfnu fyrir 66°Norður að flytja ullina til Kína, láta prjóna peysurnar þar og flytja þær aftur til landsins. -

Ætla má að Rammagerðin telji það fullreynt að fá fleiri Íslendinga til að prjóna fyrir sig hér heima, (líklegt eða hitt þó heldur) þar sem kostnaðurinn, miðað við útsöluverð, hlítur að vera sá sami. Ekki fara þeir að leggja meira á kínversku peysurnar? En þá ber líka að hafa í huga að þeir ráða innkaupsverðinu. 

Svo kemur það auðvitað til að kínversk/íslensku peysurnar eru ekki aðeins framleiddar fyrir Ísland því nú má fá slíkar flíkur víða um heim.

Íslensku lopapeysuna, "drottninguna", þjóðartáknið sem er íslenskara enn allt annað sem íslenskt er, fyrir utan rembinginn auðvitað,  er hægt að rekja alla leið aftur til 6. áratug síðustu aldar, þegar hún komst fyrst í tísku. Hún er nú orðin vestrænni neyslumenningu að bráð, en eins og allir vita er það Kína sem gerir okkur hana mögulega. (Veit annars einhver um fleiri dæmi að minjagripir séu framleiddir í Kína?)

Reyndar gerðist það fyrir löngu og þetta uppþot vegna Kínapeysa nú, dálítið skondið. Kínversk/íslenskar "handprjónaðar" lopapeysur, trúlega jafnvel úr kínverskri ull, hafa verið á boðstólum í Bandaríkjunum í áratugi. Nýmælið er e.t.v. að nú eru þær framleiddar í Kína af íslenskum aðilum, úr íslenskri ull og seldar án sérstakra merkinga til að aðgreina þær frá íslensku handverki, í íslenskum verslunum.

Munstur á íslenskum lopapeysum byggðust til að byrja með á hefðbundnu norsku munstri en það er tvíbanda með beinum axlabekkjum. Reyndar voru svipaðar peysur afar vinsælar í Svíþjóð um sama leiti og íslenskar handverkskonur fóru að spreyta sig á að prjóna slíkar peysur í íslensku suðalitunum. Það er því ljóst að fyrirmyndin að "drottningunni" er sótt til útlanda. Og hvaðan fengu Norðmenn og Svíar sínar fyrirmyndir. Kannski eru þær komnar langt að.

sweater-402Besta svar al-íslenskra framleiðenda væri að byrja að prjóna lopapeysur með hefðbundnu kínversku munstri. Þær seljast afar vel í Kína og út um allan heim og líta svona út. (sjá mynd) Þær koma líka eitthvað svo kunnuglega fyrir sjónir.


Forsetaembætti í mótun

Þjóðin, eða alla vega 35% kosningabærs hluta hennar, hefur veitt Ólafi Ragnari Grímssyni áframhaldandi umboð til að móta embættið eftir eigin túlkun. Hann hefur þegar látið reyna á þanþol hefðbundinnar túlkunar á tilgangi þess og valdsviðs og engin ástæða er til að ætla að hann haldi því ekki áfram.

Líkast til munu flestir una þessu vel því ekki var einu sinni hlustað á raddir sem í aðdraganda þessara kosninga, vörðu við þessari sjálftöku valds.

Svo lauslega virðist forsetaembættið skilgreint í lögum og stjórnarskrá landsins að ekki verður betur séð en að sitjandi forseti geti mótað það á hvern þann veg sem honum þóknast. -

Sjái forseti t.d sér akk í því að sækja stuðning sinn til ákveðinna stjórnmálaflokka og gera þannig embættið að flokkpólitísku bitbeini, er ekkert sem mælir á móti því, eins og  nýafstaðnar kosningar bera reyndar vitni um. -

Kjósi forsetinn að halda úti eigin stefnu í samskiptum sínum við erlenda fjölmiðla og stjórnvöld annarra ríkja, frekar en stefnu stjórnvalda, er honum það heimilt. -

Ákveði hann að einhver mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, getur hann gert það án nokkurs samráðs og ekkert ræður því annað en geðþótti hans sjálfs. -

Vilji forseti sitja í embættinu um lífstíð, er erfitt að ímynda sér að nokkur geti komið í veg fyrir það, slíkir eru yfirburðir aðstöðu sitjandi forseta þegar kemur að því að kljást við aðra frambjóðendur.

Það er greinilegt að forsetaembættið, eins og það hefur verið túlkað af forsetum landsins fram að þessu, getur verið annað hvort valdminnsta eða valdamesta embætti þjóðarinnar. Hvort það er, ræðst af forsetanum sjálfum,  persónunni og hvern mann hún hefur að geyma.

Ekkert bendir til að Ólafur haldi ekki áfram að auka völd embættisins enn meir á næsta kjörtímabili, gera það enn pólitískara og hleypa þannig inn í það þeim glundroða og þeirri sundrungu sem pólitíkin er þekkt fyrir að skapa.

Vísast er Ólafur "sterkasti" forseti sem þjóðin hefur eignast, en það er hann einkum í krafti þess sundurlyndis sem er harðkóðuð í stefnu hans sem stjórnmálamanns, sem er af nákvæmlega sama meiði  og pólitíkin sem stunduð er á alþingi og hefur orðið til þess að 90% af þjóðinni vantreysta því.


mbl.is Ólafur Ragnar ótvíræður sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hugsar fólk

Það ku veramikil list að vita hvað og hvernig fólk almennt hugsar. Sérfræðingar í þeirri grein er gjarnan að finna á stóru auglýsingastofunum og þá bestu, (að eigin mati) ráða sig sem spunameistara til fólks sem hyggur á frama sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. - Þeir færustu telja sig ekki aðeins vita hvað fólk hugsar, heldur geta haft mikil áhrif á hugsun þeirra og skoðanir.

Forsetakosningarnar sem nú standa fyrir dyrum, bera þess nú aukin merki, að auglýsinga og skrummeistararnir hafa fengið frjálsar hendur a.m.k. hjá einum frambjóðandanum.

Eftir að skoðanakannanir sýndu a fylgið var að hrynja af Þóru og örvæntingin greip um sig í herbúðum hennar, var greinilega ákveðið að hleypa þeim og nýta aðgang hennar að vel digrum sjóðum framboðsins,(sem hljóta að telja talvert fleiri milljónir en þær 12-14 sem framboðið segist hafa til umráð) til að reyna leiðrétta þann leiða misskilning almennings að fleiri en Þóra og Ólafur Ragnar séu í framboði.

Skilaboðin eru þau, að viljirðu ekki Ólaf áfram sem forseta, verðir þú að kjósa Þóru. Ekki kjósa þann sem þér finnst hæfastur, ekki kjósa eins og samviska þín býður þér, hinir frambjóðendurnir eiga enga möguleika, kjóstu taktískt, kjóstu Þóru. 

Og ef þú nærð ekki þessari einföldu reglu og ert einn þeirra sem kærir þig kollóttann um hver verður forseti, en ætlar sem að kjósa, kýstu vitanlega þann sem mest berst á.

Þeir stóla á að þegar fólk sér myndirnar í öllum strætóskýlunum, hugsi það, "já mikið er hún frambærileg, í stað, "eitthvað hlýtur þetta að hafa kostað"

Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar eiga það sameiginlegt að hafa öll orðið landsþekkt í gegnum sjónvarpið. Ari Trausti og Þóra njóta einnig slíks meðbyrs enda í öðru og þriðja sæti í skoðanakönnunum. Það er því ekki nema von að spunameistararnir haldi sér við gömlu klisjurnar og álykti sem svo að þjóðin muni kjósa það andlit sem oftast ber fyrir augu almennings.

Ein af áherslunum í málflutningi Herdísar Þorgeirsdóttur er að skilja beri að eins og kostur er, auðvaldið frá fjölmiðlavaldinu. Enginn ætti t.d. að geta orðið sér út um opnbert embætti með ótakmörkuðum aðgangi að fjölmiðlum í krafti peninga, þótt það sé löngu orðið alsiða eins og dæmin sanna.

Til að vekja þá umræðu enn frekar opnaði Herdís bókhald framboðs síns upp á gátt og skoraði á aðra frambjóðendur að gera það sama. - Í ljós hefur komið að bæði Þóra og Ólafur sjá sér ekki fært að gera það.

 

 

 


Vilja Íslendingar raunverulega gera upp hrunið?

Flestir Íslendingar jánka því að það þurfi "Að gera upp hrunið" eins og oft er komist að orði. Þetta uppgjör sem stendur enn yfir, felur m.a. í sér að draga þá til ábyrgðar sem ábyrgir reynast fyrir stærstu skakkaföllunum sem þjóðin varð að líða, bæði efnahagslega og andlega.

Fram að þessu hefur það fallið í hlut Alþingis og sérstaks saksóknara að finna hina seku og veita þeim makleg málgjöld, þótt allir séu ekki sammála um hvort vel hafi til tekist í öllum þeim málaferlum.

En 30. Júní n.k. gefst þjóðinni allri tækifæri á að gera eitthvað í málunum. Alþingi lét vinna fyrir sig skýrslu í kjölfar hrunsins þar sem reynt vara að  skilgreina orsakir hrunsins og gera tillögur að úrbótum. Þar kemur m.a. fram mikill áfellisdómur yfir störf herra Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi forseta og forsetaframbjóðanda eins og lesa má hér að neðan.

Spurningin er hvort þjóðin ætli að láta sér þetta tækifæri úr greipum renna og gera um leið ómerkt allt þetta fjálglega tal um að nauðsyn beri til að "gera upp hrunið" svo hún þurfi ekki að lifa áfram í löngum skugga þess.

Hlutur forseta Íslands.
Niðurstöður kafla 11.4, bls. 178 í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:
Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008.
(http://www.rannsoknarnefnd.is/html/vidauki1.html)


Ályktanir og lærdómar
    Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki. Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen.


    Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið.1 Forsetaembættið var óspart nýtt í þágu einstakra aðila til að koma á tengslum víða um lönd. Þegar lýðræðislega kjörinn forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. Þar liggur ábyrgð forseta Íslands.

Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga.

Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.


Er Herdís snobbuð

Sumir segja að Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi sé snobbuð og þess vegna eigi hún ekkert erindi á Bessastaði. Ef spurt er nánar út í hvernig meint snobb Herdísar lýsi sér, verður samt fátt um svör.

Þetta virðist vera einhver tilfinning sem fólk fær sem séð hefur hana í sjónvarpi eða jafnvel aðeins á mynd og aldrei hitt hana í eigin persónu. -

 Nú er kannski ekki auðvelt að skilgreina snobb í fljótu bragði en við getum öll verið því sammála að það felur í sér mismunun og óheilbrigt verðmætamat. - ´

Það skýtur því afar skökku við að manneskja sem sækist eftir forsetaembættinu á grundvelli þess að hún hyggist tala fyrir mannréttindum og lýðræði og er einkum kunn fyrir störf sín í þágu slíkra gilda, skuli af einhverjum vera talin endurspegla andstæðu þeirra.

Hvað sér þá fólk í fari Herdísar sem fær það til að halda að hún sé snobbuð. Einhverjir nefndu sem dæmi að hún klæddi sig bara í merkjavöru og talaði ekki við hvern sem er í samkvæmum og á mannafundum.

Herdís er vel menntuð og kann að koma fyrir sig orði. Hún er fræðimaður og á það til að grípa til hugtaka og orðfæra sem heyra til  þeim fræðigreinum sem hún hefur numið. Hún er háttvís og hefur afar fágaða framkomu. Sem kennari og fyrirlesari hefur hún  tileinkað sér fas sem virkar stundum ekki eins hversdagslegt og við flest erum vön.

Allt þetta kann að koma fólki fyrir sjónir sem snobb en er það alls ekki.

Þvert á móti vitna vinir hennar og kunningjar ætíð um hlýleika nærveru hennar, einlæga samúð hennar og alþýðleika þegar kemur að daglegu amstri.

Herdís er nú á ferð um landið þar sem hún gerir sér far um að hitta fólk og kynna áherslur sínar fyrir löndum sínum. - Ég hvet alla til að nýta sér þetta tækifæri til að kynnast Herdísi persónulega og sannfærst um, hvaða álit þeir kunna að hafa á málflutningi hennar, að snobbuð er hún ekki.


Hugsjónir Herdísar

Herdís Þorgeirsdóttir býður sig fram til forseta. Hún er þegar flestum
landsmönnum kunn af góðum verkum sínum og eljusemi við að koma
hugsjónum sínum í framkvæmd.

Hugsjónir Herdísar tengjast fyrst og fremst  auknum mannréttindum og
auknu lýðræði, baráttu fólks fyrir að fá að ráða lífi sínu sjálft í
sátt við samfélag sitt og umhverfi. Hún hefur notað góða menntun sína
og persónulega hæfileika til að takast farsællega á við margvísleg
verkefni tengdum þessum hugsjónum, bæði á Íslandi og fyrir alþjóðlegar
stofnanir.

Herdís sækist nú eftir embætti forseta Íslands til að gera það m.a. að
vettvangi og farvegi þessara hugsjóna.  Henni hefur tekist á
starfsferli sínum að hefja þessar hugsjónir upp yfir dægurþras
stjórnmálanna, fullviss um að þau snerti fæðingarrétt hvers einasta
manns sem jörðina gistir. - Sýn og nálgun Herdísar við forsetaembættið
er einmitt sama eðlis. Flokkadráttum og pólitískum væringum á að halda
fjarri Bessastöðum.

Þess vegna beinir hún máli sínu nú, í ræðu og riti, beint til okkar
almennra kjósenda. Óháð öllum stjórnmálaflokkum, án tengsla við
auðhringa og valdaklíkur,  skorar hún á alla Íslendinga að skoða verk
sín og hugsjónir í samhengi  við okkar daglega líf og þær
grunnhugsjónir sem við byggjum það á.

Með framboði sínu dregur hún skýr mörk milli þeirra sem sjá
forsetaembættið sem friðarstól og þeirra sem skoða það sem pólitískt
bitbein.

Herdís hyggist ekki gera forsetaembættið að pólitískum neyðarhemli sem
hún stígur á eftir eigin geðþótta. En um leið kvikar hún hvergi frá
þeirri sannfæringu sinni að sjálfsákvörðunarrétt hverrar þjóðar verði
að virða í öllum tilvikum. Réttinn til að skjóta málum til þjóðarinnar sem hann
snerta,  mun hún ekki hika við að nota, komi sú
staða upp.

Margir minnast þess helst úr forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur hversu
hún vakti þjóðina vel til meðvitundar um að græða landið okkar.
Fingraför hennar sjást allvíða þar sem skóga prýða híðaranar sem áður
voru örfoka.

Styrkleiki Herdísar felst fyrst og fremst í hæfni hennar til að
gróðursetja hugmyndir og hlúa að þeim. Og ég er viss um að hugmyndir
hennar um lýðræðið og mannréttindi falla vel að hugmyndum miklu fleiri
Íslendinga en skoðanakannanir um fylgi hennar til embættisins gefa til
kynna .

Þess vegna skora ég á alla sem þetta lesa að kynna sér
rækilega ferilsskrá hennar og afstöðu til þessara mikilvægustu
málflokka okkar tíma. Kjósum Herdísi Þorgeirsdóttur  næsta forseta
lýðveldisins.


Svo mikið 2007

Dramb er löstur sem öðrum fremur einkenndi fas og framkomu hinna svo kölluðu útrásarvíkinga. Ákveðið yfirlæti sem reyndar hefur lengi blundað með þjóðinni, magnaðist svo mög við tímabundið og hverfult efnahagslegt velgengi hennar á upphafsárum aldarinnar að það varð fljótt að þjóðarrembingi sem illa rímaði við raunveruleikann sem blasti við öllum árið 2008.

Þá þöktu fregnir af velgengi gírugra íslenskra kaupahéðna forsíður dagblaðanna á degi hverjum og myndir af þeim, vinum þeirra og vandamönnum í einkaþotum á leið í gullát út í heimi, prýddu slúðurdálkana. Þjóðin miklaðist yfir afrekum sona sinna og dætra og hætti að gera greinarmun á eðlilegri ættjarðarást og þjóðardrambi.

Ráðamenn landsins reyndu eftir megni að rýmka hið lagalega umhverfi athafnafólksins svo það gæti  sjálft og áhyggjulaust ákveðið fjölda núllanna í gróðatölunum. "Fé án hirðis" var allsstaðar að finna, ekki hvað síst í vösum breskra og hollenskra sparifjáreigenda. Þaðan var það numið, líkt og forfeður okkar víkingarnir gerðu forðum þegar þeir frelsuðu allan auðinn sem engum gerði gagn í djúpum kistum klaustra og kirkna við vesturstrendur Evrópu fyrir 1000 árum og komu með því aftur lífi í staðnaðan efnahag álfunnar.

Enginn hlustaði á þær fáu raddir sem hvöttu til hófsemi og yfirvegunar. Þjóðin öll virtist trúa því að gullöldin væri gengin í garð og Ísland væri raunverulega "stórasta land í heimi." Silfrið flóði inn og út..aðallega út, eins og seinna kom í ljós. 

Sá sem gegndi æðsta embætti landsins, forseti Íslands, lét sig hvergi vanta og gerðist öflugur talsmaður þessa vogaða darraðardans. - Við hvert tækifæri sem hann fékk mærði hann íslenska hugvitið og íslenska dugnaðinn við þá iðju og þær athafnir sem áttu áður en langt um leið eftir að koma íslensku þjóðinni á vonarvöl.

En þegar að afleiðingarnar urðu öllum ljósar og rostinn lækkaði um hríð í þeim sem hæst létu og voru nú komnir í felur, var sá hinn sami forseti fljótur að venda sínu kvæði í kross. Allt í einu var hann orðin að talsmanni hinnar hnípnu þjóðar sem umheimurinn talaði svo illa um og engin tók upp hanskann fyrir...nema hann.  Þjóðin, sagði hann,  tekur ekki í mál að greiða skuldir þessa óreiðumanna sem árinu áður höfðu verið gulldrengirnir hans, vormenn íslensku yfirburðaþjóðarinnar.

Sinnaskipti og um leið hlutverkaskipti forsetans voru afar sannfærandi. Svo sannfærandi að brátt var byrjað að tala um hann sem bjargvætt þjóðarinnar. Hann einn varði hana á örlagastundu. Hann einn stóð í vegi fyrir því að skuldir óreiðumannanna lentu á okkur, börnum okkar og barnabörnum.

Í fimmta sinn sækist hann eftir umboði okkar til að halda þessum e.t.v. ómeðvitaða blekkingarleik áfram.  Og það sem meira er, afar stór hluti þjóðarinnar segist ætla að veita honum það þrátt fyrir að flestir viti innst inni að maðurinn er eitthvað svo mikið 2007.

Í þetta sinn birtist hann okkur á auglýsingaspjöldunum sem tvíeggja sverð. Önnur eggin er bljúg og deig, klædd í íslenska lopapeysu. Hin er hörð og hvöss, klædd í svört jakkaföt, með hverri hann vegur á báða bóga þá sem hann segir eiga sök á því að ekki vilji hann allir fyrir forseta áfram.

Ef þú ert einn þeirra skaltu kynna þér áherslur og stefnumál Herdísar Þorgeirsdóttur forsetaframbjóðenda.

 

 


Allir óvinir óvina minna eru vinir mínir

Það liggur ljóst fyrir að til að einhver annar en ÓRG setjist að á Bessastöðum næstu fjögur árin, verður hann að snúa þeim hughvarf sem í undanförnum skoðanakönnunum hafa sagst ætla að kjósa Ólaf.

Reyndar er ekki alveg pottþétt að viðkomandi verði að bíða fjögur ár, því Ólafur hefur ýjað því að hann kunni að sitja ekki allt kjörtímabilið saman ber þessi orð hans;

Og eftir þó nokkra umhugsun þá var það niðurstaðan mín að verða við þessum óskum en þó með þeim fyrirvara eins og ég nefni í yfirlýsingunni að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði varðandi stjórnskipun og, og stöðu mála í landinu, þá hafi menn á því skilning að ég muni þá ekki sitja út allt næsta kjörtímabil og forsetakosningar fari þá fram fyrr en ella.

Ekki er hlaupið að því að ná fylgi af Ólafi því baneitruð flokkspólitík eins og hún er stunduð þessa dagana, er hlaupin í forsetakjörið.  Bæði óbreitt sjálfstæðisfólk og kjósendur Framsóknarflokks slá um hann skjaldborg á rammpólitískum forsendum, líkt og hann sé líkamsgerfingur stefnumála þeirra flokka sem það styður. - Sú staðreynd að Ólafur setti sig á móti tveimur stjórnarfrumvörpum núverandi ríkisstjórnar og hlaut í staðinn opinberlega snuprur frá forsætisráðherranum frú Jóhönnu, gefur þessum nýfundnu aðdáendum Ólafs ástæðu til að hugsa sem svo; allir óvinir óvina minna eru vinir mínir.

Þá eru þeir enn til sem halda því fram að Ólafur einn hafi burði til þess að vísa ESB málinu, þegar að það loks verður tilbúið,  í þjóðaratkvæðagreiðslu. - Þessu er haldið fram blákalt þrátt fyrir að líklegt sé að þá verði orðin stjórnarskipti, þrátt fyrir það að núverandi stjórnarliðar haldi því stöðugt fram að málið verði að fara fyrir þjóðina, og þrátt fyrir að allir hinir forsetaframbjóðendurnir hafi lýst yfir því að frumvarpi um inngöngu í ESB verði að vísa í Þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eina raunverulega ástæðan til að óttast að í ESB í málinu verði ekki farið að vilja meirihluta þjóðarinnar eru kannski þau orð Ólafs sjálfs um að honum sé frjálst að reka sjálfstæða utanríkisstefnu, samanber þessa gagnrýni hans á ummælum Þóru Arnórsdóttur um að forseta beri að fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda hverju sinni;

Það er alvarlegt ef sá sem er að bjóða sig fram til þess að gegna embætti forseta lýsir því skýrt yfir í viðtali að hún telji það hlutverk forsetans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar.

Ekki verður annað lesið út úr þessum orðum en að Ólafur telji sig þess umkominn sem forseti að reka sjálfstæða heimatilbúna utanríkisstefnu.

Hvernig ætli kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks muni hugnast það, komist þeir flokkar í ríkisstjórn á næstu misserum, að hafa forseta sem er allt eins líklegur til að halda uppi opinberu andófi við stefnu sem hann hefur marglýst sig andsnúinn. Fólk verður að muna að ÓRG á sér djúpar pólitískar rætur sem liggja þvert á mörg stefnumál þessara flokka, ekki hvað síst utanríkistefnu þeirra.

Sú þróun að blanda hefðbundinni flokkspólitík inn í forsetakjörið, sérstaklega þegar þjóðin þarf að horfa daglega upp á afleiðingar slíkrar vitfirringar í sölum alþingis og sem hefur haft þær afleiðingar að aðeins 10% þjóðarinnar ber traust til þeirrar stofnunar, verður því að teljast afar varhugaverð, svo ekki sé meira sagt.

Þessar forsetakosningar verða mjög sérstakar því um leið og þjóðin velur sér forseta er hún einnig að kjósa um hvernig forsetaembættið á að vera nú og í framtíðinni, því erfitt verður að snúa við ef framheldur sem horfir.

Þeir sem vilja að embættið verði ekki að pólitísku bitbeini í framtíðinni eiga góðan kost. Þeir geta stutt Herdísi Þorgeirsdóttur sem er hugsjónamanneskja fram í fingurgóma og hefur gert baráttuna fyrir auknu lýðræði og mannréttindum í heiminum að ævistarfi sínu.

Herdís sækist eftir að gera forsetaembættið að farvegi þeirra hugsjóna án þess að þar komi að flokkadrættir og klíkuskapur sem einkennir svo mjög mörg ráðandi öfl í þjóðfélaginu.

Styðjum Herdísi til áframhaldandi góðra verka í embætti forseta Íslands.

Helstu áherslur Herdísar er að finna hér.

 

 

 

 


Er hræðsluáróðurinn að virka?

Teflon pólitíkusinn Ólafur Ragnar Grímsson mælist nú með afgerandi mest fylgi í skoðanakönnunum. Ljóst er að stór hluti þjóðarinnar vill að embættinu sem ætlað er að vera sameinandi og ópólitískt, verði breitt í pólitískan vettvang, einskonar allra handa varnagla  fyrir ákvarðanir óvinsælla ríkisstjórna, sem þá ræðst af hentisemi eins manns,  frekar en hefðum og reglum. 

Slíkt hentar ÓRG afar vel og hann er því núna réttur maður á réttum stað. -

Margt bendir til að ÓRG hugnist einmitt vel að gera embættið eins pólitískt og valdamikið og ystu mörk túlkunar stjórnarskrárákvæða leyfa. - Hann elur þrotlaust á þeirri hugsun að mikil óvissa ríki í samfélaginu, stór mál séu á dagskrá sem þurfi mann eins og hann til að meta hvernig farið skuli með þau og að hann einn sé hinn vitri og sterki leiðtogi sem þjóðin þarfnast á ögurstundu.  

Hvar hefur maður aftur heyrt svona málflutning áður?

En þessi hræðsluáróður ÓRG virðist virka vel í bland við brosandi tvíeykis framboðsmyndirnar af honum og Dorrit, sem ekki virðist síður vera í framboði enn ÓRG sjálfur. Kannski ætti að deila í þessar fylgistölu ÓRG með tveimur þar sem þau tvö eru greinilega í framboði saman. 

Hræðsluáróðurinn ku einkum ganga vel í kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfólk. Hætt er samt við að sá stuðningur eigi eftir að koma í bakið á þeim að loknum næstu þingkosningunum ef vilji þeirra nær fram að ganga í forsetakosningunum og það ágæta fók ætti kannski að minnast dæmisögunnar um sporðdrekann og skjaldbökuna áður en það er orðið of seint.

Og hvenær urðu íslendingar svona hrifnir af sjálfhælni? Eða eru umbúðir ÓRG svo þykkt vafðar í orðaflauminum að fólk sér ekki í gegn um þær?

ÓRG að eigin sögn bestaði Paxman ofurfréttamann hjá BBC einn sín liðs, varði Ísland einn fyrir óverðskulduðum árásum í tengslum við Icesave og eldgos, bjargaði einn þjóðinni frá gjaldþroti og seldi einn fullt af íslenskri vöru og þekkingu í útlöndum þegar hann var á  ferð með útrásarvíkingunum forðum daga.... úps, ekki minnast á það.

Ef þessi nýja sýn á embættið og útfærsla hennar falin ÓRG næstu fjögur árin verður staðfest í komandi kosningum, mun erfitt að snúa til baka og gera embættið aftur að þeim friðarstól sem því er ætlað að vera. - Þess vegna væri nær að styrkja lýðræðið í landinu með að hreinsa til á löggjafarsamkundunni en að stuðla að því að gera forsetaembættið að eins manns stjórnmálaflokki sem á að hafa síðasta orðið í öllum mikilvægum málum.

Þegar horft er á forsetaframbjóðendurnar án pólitískra gleraugna og aðeins tekið tillit til hæfni þeirra og ferilskrár, líkt og á að gera þegar ráða skal hæfasta umsækjandann í ákveðið starf, verður fljótt ljóst að ein manneskja ber þar höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur. Það er Herdís Þorgeirsdóttir.  

Hún er ópólitísk og óháð að öllu leiti en virðist samtímis vera afar meðvituð um þá samfélagslegu ábyrgð sem embættið kann að leggja á herðar forsetanum þegar kemur að vernd lýðræðisins.


mbl.is Ólafur Ragnar með 58%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra ef ''hæstvirtur'' þingmaður hefði verið fullur

Það er nú meira hvað þessir háttvirtu bjálfar á hinu háa alþingi geta tekið sig alvarlega. Þeir bulla í málþófi daginn út og inn og kalla það umræður. Grútmátlausir stjórnarandstöðuþingmenn jórtra á frekjuhunda-frumvörpunum eins og kýr, spyrja hvorn annan einhverra aulaspurninga og eru meira að hættir að þykjast vera málefnalegir. -

En svo þykjast þeir fyrtast við ef einhver dregur í efa að þeir séu allsgáðir. Það væri alla vega bót í máli ef viðkomandi hefði verið fullur, þá gæti hann afsakað aulagang sinn sig með því.

Svo var víst ekki og hann og vinir hans úr stuttbuxnadeildinni ná ekki upp í nefið á sér fyrir hneykslan.  Þeir eru slegnir yfir ummælunum segir fréttin, slegnir án þess að Árni Johnsen komi þar nokkuð við sögu, slegnir út af laginu líklega, sem samt var rammfalskt fyrir.

Lágkúran meðal hæstvirtra þingmanna á hinu háa alþingi Íslendinga er orðin svo mikil að það er ekki nokkur leið að taka hvaðeina sem þaðan kemur alvarlega.

Þetta er svo langt gengið að almenningur hugleiðir í alvöru að kjósa  forseta sem gæti orðið pólitískt mótvægi við hyskið á alþingi. - Honum þykir greinilega borin von um að hægt sé að bæta eitthvað löggjafarsamkunduna með öllum sínum hugmyndafræðilegum geldingum innanborðs.

Þetta er  örugglega hið nýja Ísland sem allir voru að tala um að væri í burðarliðnum fyrir tveimur árum?


mbl.is Þingmenn slegnir yfir ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ignorance is bliss

OECD lífsgæðavísitölur sýna að Íslendingar eru hamingjusamari og jafnframt minna menntaðri að meðaltali en aðrar samanburðarþjóðir. Þar sannast rækilega að menntun ein og sér er ekki nauðsyleg forsenda hamingju og bendir miklu frekar til þess að það sé eins og enska orðatiltækið segir; "ignorance is bliss".
mbl.is Lífsgæði Íslendinga skora hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sieg heils!

Þúsundir íslendinga hafa flutt úr landi og gerst flóttamenn bágra lífskjara í öðrum löndum. Nágrannaþjóðir okkar hafa í samræmi við gildandi milliríkja samninga, tekið við okkar fólki möglunarlaust og gefið því tækifæri á að sjá sér farborða, án þess að saka það um að misnota samkomulagið.

Fátækt, styrjaldir og pólitískar ofsóknir hafa hrakið milljónir manna, víðs vegar um heiminn, á vergang. Í daglegu tali er þetta fólk nefnt flóttafólk.  - Vegna þess að vandamálið er alþjóðlegt hafa flestar þjóðir komið sér upp ákveðnu regluverki sem byggir á alþjóðlegum samþykktum, til bregðast við hinum margslungnu vandamálum sem þetta böl ber með sér. - Þessar samþykktir þykja vel í samræmi við helstu mannréttindasáttmála sem allar siðmenntaðar þjóðir gera sitt besta til að fylgja.

Ísland á hlut að  þessum alþjóðlegu samningum og hefur í samræmi við þá, komið sér upp vinnulagi sem er viðhaft þegar að flóttafólk ber að garði. 

Nú bregður svo við að það sem ég vona að séu aðeins einhver einmenningssamtök sem kalla sig "Bjartsýnisflokkinn",  sjá ástæðu til þess að kalla í "yfirlýsingu" þá sem eru að fara eftir þessum alþjóðlegu samningum; "góðsemispostula og meðvirknisjúklinga". -

Þessa "yfirlýsingu" sem mbl.is sér svo einhverja ástæðu til að birta,  mætti vel afskrifa sem hjáróma bergmál afdankaðrar þjóðernisstefnu ef ekki væri fyrir hversu oft "málsmetandi" menn, leyfa sér enn að daðra við þá hugmyndafræði sem hún byggir á, og er  sú að aðeins ákveðnar tegundir fólks séu æskilegar í landinu og geti þar sótt samningsbundinn rétt sinn, á meðan öðrum skal um það neitað. -

Sérstaklega lúalegt er að sjá hvernig reynt er að nota  bágborið efnahagsástand þjóðarinnar til að koma því að að þjóðin hafi ekki efni á að fara eftir gerðum samningum og réttlæta um leið þá þjóðernisstefnu að Ísland eigi bara að vera fyrir Íslendinga.


mbl.is Segja flóttamenn misnota okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræða Jóhönnu Sig. á NATO fundinum í Chicago nú um helgina

Komiði sælir herrar mínir. (horfa upp)

(muna að tala hægt svo túlkurinn hafi tíma til að þýða)

Ég flyt ykkur góðar kveðjur frá ríkisstjórn minni á Íslandi. Jú, það er rétt, sumir af ráðherrum mínum eru þeirrar skoðunar að NATO sé leifar frá kaldastríðinu. En það eru bara svona fyrrum friðarsinnar sem eins og alkunna er, eru ætíð tilbúnir til að fórna hugsjónum sínum í staðinn fyrir smá völd. (brosa) Við köllum það á Íslandi "að verða raunsæ."

johanna1Það er dálítið skondið að hugsa til þess að sumir þeirra skuli hafa arkað 50 km á hverju ári í rigningu og roki frá Keflavík til Reykjavíkur til að mótmæla veru landsins í NATO og hvetja skrattans Kanann til að hypja sig. - (smá hlátur)

(Alvarleg) Sem stendur reynum við á Íslandi að verjast árásum tveggja NATO ríkja. Bæði Hollendingar og Bretar standa í efnahagslegu stríði við okkur og reyna að neyða landið til að borga fyrir óvarleg innlán þeirra eigin þegna í netbanka sem starfræktur var á internetinu en var í eign íslensks fyrirtækis sem nú er farið á hausinn.

En þeir eru báðir drulluhræddir við okkur. Bretar voru meira segja svo hræddir við okkur að þeir flokkuðu landið meðal hryðjuverkahópa og stríðsglæpamönnum. - Vitanlega er hræðsla þeirra skiljanleg í ljósi þess að þeir hafa áður reynt að knésetja land okkar, en orðið frá að hverfa.

En, þið afsakið drengir að ég skuli ver að minnast á þetta hér. Þetta kemur NATO að sjálfsögðu ekkert við. NATO er eins og við vitum öll til að sprengja í loft upp óvini USA og UK í fjarlægum löndum sem ekki vilja selja þeim olíu á skikkanlegu verði, 

En hei, gaman að vera með ykkur. ( Brosa)

Bæ. (Veifa)


mbl.is Jóhanna Sigurðardóttir á fund NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabarátta ÓRG eykur forskot Þóru

Það dregur aftur sundur með Þóru og Ólafi Ragnari. Eitthvað virðist skapillsku kastið sem ÓRG tók þegar hann hóf kosningabaráttuna formlega, hafa farið fyrir brjóstið á landsmönnum því hann var nánast kominn upp að hlið Þóru en nú dregst hann afturúr aftur, svo um munar. 

ÓRG lítur greinilega svo á að þessar kosningar séu pólitískar og þar kann hann ýmislegt fyrir sér. Þeir sem lengra muna, vita hvernig ÓRG var til orðs og æðis, þegar hann flakkaði á milli flokka í leit að pólitískum samherjum og hjó frá sér hægri vinstri í leiðinni.

Það má draga af þessu þá ályktun að ÓRG hafi ekki aðeins gert mistök þegar hann lét Goofy og Plúto plata sig til að sækjast eftir áframhaldandi setu á Bessastöðum, heldur séu það líka mikil mistök hjá honum að reyna að höfða til landsmanna með pólitískum illdeilum og ásökunum eins og hann gerði í gamla daga.

 Ef ÓRG ætlar ekki að drullutapa þessum kosningum, eins og sagt er í boltanum, verður hann að finna fljót og koma á framfæri, einhverju pólitísku sætuefni því þetta skítkast hjá honum er ekki að virka.

Og jafnvel þótt hann flaggi Dorrit í ýmist hálfa eða heila stöng, dugar það ekki einu sinni.

Líklega væri samt besti kosturinn hjá ÓRG að láta forsetafrúna alfarið um kosningaslaginn, enda er hún  miklu vinsælli en ÓRG sjálfur.

 -


mbl.is 8% skilja Þóru og Ólaf Ragnar að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfarnir æfir út í Árna Johnsen

Eins og fram kom í fréttum stóð Árni Johnsen á dögunum í steinflutningum eina ferðina enn. Í þetta sinn var um að ræða álfaklett mikinn af Suðurlandi sem hann tók og flutti með sér út í Eyjar.

Nú hefur komið í ljós að Árni tók klettinn, heimili álfana, í algjöru heildarleysi og án þess að spyrja álfana sem nú vilja skiljanlega fá heimili sitt aftur.  Einn álfana sem bjó í klettinum hefur nú vitjað Gísla Oddssonar hins kunna berdreymna bónda á Kumbaravogi og sagði farir sínar ekki sléttar.

Hann sagði að Árni hefði hreinlega stolið heimili sínu og farið með það út Eyjar. Í félagi með Árna hefi verið einhver gervisjáandi úr Hafnarfirði, sem logið hafi því til  að þau sem bjuggu í steininum væru tilbúin til að flytja búferlum til Eyja. - 

Draummaðurinn sagði að það væri mikil fásinna að ætla að álfar væru ekki færir um að sjá um búferlaflutninga sína sjálfir, ef þeir vildu flytja flytja. Þeir væru ekki svo auðveldlega fældir frá bústöðum sínum og hefði ýmis ráð til að koma í veg fyrir spillingu þeirra eins og svo margar sögur vitna um.  Þessi saga  Árna og Ragnhildar sjáanda væri  auk þess augljós ósannindi því allir vita að álfar flytja ekki búferlum nema á ákveðnum tímum ársins, þ.e. á gamlárskvöld, á þrettándanum og á Jónsmessu.

Álfurinn, sem var sjálfur heimilisfaðirinn,  tjáði Gísla að mikið hefði verið reynt til að hafa samband við þessa Ragnhildi  Jónsdóttur sem gæfi sig út fyrir að geta séð og heyrt álfa, en það hafi reynst algjörlega árangurslaust. - Því hafi verið gripið til þess ráðs að hafa samband við hann, Gísla,  sem áður hafði reynst áfunum vel þegar mikið lá við. -

Álfafaðirinn bað Gísla að koma því til skila við Árna að álfarnir væru mjög reiðir honum fyrir þetta uppátæki og að þeir hefðu nú lagt þau álög á Vestmannaeyjar að bræla og óveður muni ætíð skella á í Eyjum skömmu fyrir fyrstu helgi hvers ágústmánaðar og vara fram yfir hana, þar til bústað þeirra verði skilað aftur.


Framtíðin er brún

Ýmislegt  bendir til að hvíti (bleiki) húðliturinn sé stundarfyrirbrigði í sögu mannkynsins. T.d. er talið að húðlitur norður Evrópubúa hafi verið tiltölulega dökkur þangað til fyrir ca. 6000 árum. -

Og miðað við þá miklu blöndun sem á sér stað í dag milli fólks af mismunandi litahætti, verður þess ekki lengi að bíða að hvíti liturinn muna hverfa fyrir fullt og allt og mannkynið verða álíka brúnt á litinn, en konur þó sýnu ljósari en karlmenn.  Hinn svo kallaði "hvíti kynstofn" verður því brátt úr sögunni fyrir fullt og allt og þessar tölur frá USA eru í samræmi við þá spá.

Að auki er því  spáð  að mannkynið verði afar hávaxið eða yfir 2 metrar að meðaltali, meðalaldur muni verða 120 ár og andlitsdrættir og almennt útlit afar áþekkt, hvar sem er í heiminum.


mbl.is Hvít börn ekki í meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint lýðræði gerir flokkana óþarfa

Beint lýðræði er auðvitað það sem koma skal. Helgi Hjörvar sér það í hendi sinni enda þvargið á alþingi búið að bera bæði alla skynsemi og eðlilega þolinmæði ofurliði.

Rót vandans er auðvitað flokkspólitíkin sjálf og eðli hennar. Pólitískir flokkar gera ekkert annað en að ala á sundrungu og eru orðnir að samnefnara fyrir allt það sem miður hefur farið í samfélaginu.

Hvar í flokki sem fólk stendur, er leikurinn sá að kenna hinum flokkunum um það sem miður fer og reyna að taka sem mest kredit fyrir það sem lánast.

Að skipta í lið eftir hverjar kosningar þannig að einhverjir flokkar fá að ráða öllu og hinir ekki neinu, býður auðvitað upp á leðjuslagi á borð við þá sem alþjóð hefur orðið vitni að, hvað eftir annað,  í þingsölum hennar.

Að flokkakerfið sé alvarleg bjögun á lýðræðinu, er mörgum ljóst, en það eru flokkarnir sem hafa völdin og þeir gera auðvitað allt sem þeir geta til að viðhalda sjálfum sér.

Helsta aðferðin er að ljá alls ekki máls á að beint lýðræði geti leyst þá af hólmi sem þó er vel tæknilega mögulegt nú til dags. Beint lýðræði mundi gera pólitíska flokka algerlega óþarfa.

Þess vegna er það sögulegt að einhver úr þeirra hópi sé orðin það langþreyttur á bullinu niður í alþingi að hann leggur slíkt til.


mbl.is Þjóðin taki af skarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband