Gagnrýni óskast

Fyrir sex mánuðum heyrði ég Tom Corneill syngja og spila í fyrsta sinn. Hann var meðal sex annarra flytjenda á einskonar popp/þjóðalaga-kvöldi sem ég lét tilleiðast að sækja. Á meðal þeirra laga sem hann flutti var lagið "I go to pieces" sem hann hafði þá nýlokið við að semja og er mjög persónulegt en Tom er ungur upprennandi listamaður hér í Bath.  Eftir að hann hafði lokið spilamennskunni þetta kvöld, gaf ég mig á tal við hann og þannig hófst samvinna okkar.

Hér að neðan er myndbandið af I go to pieces sem verður formlega flutt í fyrsta sinn á Laugardag Í Chapel Art Centre hér í Bath ásamt lögunum af hljómdisk með sama nafni. Mig langar með birtingu og frumflutningi þessa lags og myndbands hér að kanna aðeins viðbrögðin hjá ykkur lesendur góðir og biðja ykkur gera mér og Tom þann greiða að vera ósparir á gagnrýni eða lof á myndbandið, lagið og flutninginn, þ.e. að segja nákvæmlega það sem ykkur finnst. Með fyrirfram þökkum.

 


Hvít Jól

Oft hafa verið gerðar kannanir á hvaða jólalag heimsbyggðinni hugnast best og oftar en ekki hefur lagið "White Christmas" (Hvít Jól) vermt efsta sætið. Það er því ekki að furða að höfundur þess Irving Berlin hafi verið upp með sér eftir að hafa lokið við samningu lagsins þar sem hann sat við sundlaugina í  Arizona Biltmore Resort and Spa í Phoenix, Arizona árið 1940.

Sagan segir að daginn eftir hafi hann komið askvaðandi inn á skrifstofu sína mjög uppveðraður og hrópað á ritarann sinn; "Gríptu pennann þinn og taktu niður þetta lag. Ég hef lokið við að semja besta lag sem ég hef nokkru sinni samið - svei mér þá, ég hef samið besta lag sem nokkru sinni hefur verið samið".

Í fyrstu útgáfunni af texta lagsins gerði Berlin grín að gervijólatrjám og íburði Los Angeles búa við jólahaldið en breytti svo textanum síðar en hann hljómar svona:

I'm dreaming of a white Christmas
Just like the ones I used to know
Where the treetops glisten and children listen
To hear sleighbells in the snow

I'm dreaming of a white Christmas
With every Christmas card I write
May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white

May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white

 

"Hvít Jól" var fyrst sungið af Bing Crosby árið 1942 í söngva-kvikmyndinni "Hollyday Inn."  Reyndar syngur hann dúett með leikkonunni Marjorie Reynolds en rödd Marjorie var skipt út fyrir rödd söngkonunnar Mörthu Mears.

Sú útgáfa sem vinsælust er af laginu í flutningi Bings er samt ekki úr kvikmyndinni eða sú sem hann tók upp árið 1942. Sú upptaka skemmdist af mikilli notkun og árið 1947 var Bing kvaddur Til Decca hljóðritunarinnar og látinn syngja lagið upp á nýtt með upphaflegu bakröddunum og sömu hljómsveit og áður þ.e. Trotter Orchestra and the Darby Singers.

Sjálfur var Crosby ekkert skerstaklega ánægður með útkomuna og fór háðslegum orðum um hana; "a jackdaw with a cleft palate could have sung it successfully."

Árið 1954 var lagið valið sem titillag kvikmyndarinnar "White Christmas" með Bing Crosby, Danny Kaye, Rosemary Clooney og Veru-Ellen. Þrátt fyrir að svipa mjög til fyrri myndarinnar "Holliday Inn" varð hún mun vinsælli og er í dag sýnd á flestum sjónvarpsstöðvum á Jólum.

Hljómplata Crosbys "White Christmas" er talin mest selda plata allra tíma en lagið hefur að auki verð gefið út á fjölda annarra hljómplata og gert skil af ókunnum fjölda listamanna.

 


 


Jólasaga fyrir unglinga

Það var fátt meira gaman þegar ég var ungur drengur en að halda jól með fjölskyldunni minni. Spenningurinn var stundum yfirþyrmandi. Jólafötin, jólaskórnir, jólamaturinn, jólatréð og bara allt var frábært.  En svo gerðist það, ég er ekki alveg viss hvenær eða hvernig, en að jólin hættu að vera....ja,  það sem þau höfðu verið. Ekkert virtist passa lengur, jólasálmarnir voru leiðinlegir, jólamessan óþolandi, Jólamaturinn svo "same old" og gjafirnar ekki nógu dýrar, allir eitthvað svo stressaðir og, og .....ég var orðin unglingur. Allt virtist vera miðað við yngstu krakkana (ég á 7 yngri systkini), ekkert fyrir unglinginn. Uhu.

Ég settist niður og reyndi að skrifa sögu fyrir unglinga. Hún var í þróun í nokkur ár og fékk sitt endanlega form einhvern tíman um 1990. Þegar ég las hana aftur um daginn þótti mér hún bera þess merki að vera samin á þremur áratugum. Hér er hún og hún heitir þrátt fyrir allt afar þjóðlegu nafni, eða;

Kerti og Spil

 

Það var aðfangadagur jóla. Húsið nötraði af urri frá ryksugu og hrærivéla-mótorum í bland við jólasálmana í útvarpinu. Þeir félagarnir Benni og Einsi sátu inni í herbergi Benna og hámuðu í sig Mackintosh og reyktu. Benni hafði stolið stórri dollu af þessu gómsæta gúmmulaði, frá mömmu sinni, fyrr um morguninn, úr skápnum í þvottahúsinu sem var úttroðinn af allskyns niðursuðudósum og sælgæti sem faðir hans hafði komið með heim úr síðustu siglingu. Samkvæmt mömmu Benna átti allt sem í skápnum var að borðast á jólunum. Alla vega var það viðkvæðið, þegar Benni bað um
eitthvað úr skápnum. Jæja jólin voru hvort eð er svo til komin, hugsaði Benni um leið og hann stakk dolluni inn á sig og laumaðist með hana inn í herbergið. Skömmu síðar birtist svo Einsi. Heima hjá honum var allt á öðrum endanum, og ástandið öllu verra en venjulega því allir gríslingarnir, bræður hans og systur voru inni og létu eins og sérþjálfaðir terroristar um alla íbúðina á meðan mamma hans reyndi án árangurs að hirða upp eftir þau draslið. Einsi var því dauðfeginn að komast yfir til Benna, sem átti sitt eigið herbergi þar sem þeir gátu reykt í friði og spjallað saman. Einsi og Benni voru vinir, og höfðu lagt lag sitt saman frá því að þeir mundu eftir sér. Fyrstu árin áttu þeir heima í sömu blokk, en svo fluttu foreldrar Benna í einbýlishús og nú þegar þeir voru komnir vel á fimmtánda ár duldist hvorugum hversu mikill munur var í raun og veru á högum þeirra, þó þeir mættu ekki hvor af öðrum sjá í öllum frístundum. Ef þeir hefðu verið að hittast núna í fyrsta sinn hefðu þeir áreiðanlega ekki orðið eins góðir vinir og raunin var á. Á meðan að foreldrar Einsa bjuggu enn við ómegð og fátækt í lítilli blokkaríbúð, höfðu foreldrar Benna efnast. Þau höfðu efni á því að senda einkason sinn í einkaskóla samtímis því að Einsi gekk í sinn hverfisskóla. Benni fékk úthlutað vasapeninga vikulega, Einsi átti aldrei aur. Samt var smekkur þeirra í klæðaburði og tónlist áþekkur, því báðir voru þeir eins pönkaðir og þeir þorðu að vera án þess að eiga það á hættu að gert væri að þeim gys. Þeir hlustuðu báðir aðeins á þungarokk og gáfu skít í allt sem hét hipphopp, house eða rapp. Reyndar var það stórfurðulegt, þegar tillit er tekið til þess hve ákaft þeir reyndu að árétta sjálfstæði sitt með klæðaburði sínum og töktum, hversu ákaflega líkir þeir voru öðrum unglingum á sama reki.

En þarna sátu þeir sem sagt, með gúlana fulla af gotti og reyktu úr Camel pakkanum hans Einars. Þrátt fyrir öll blankheitin, æxluðust mál einhvernvegin alltaf á þann veg að það var Einsi sem alltaf átti fyrir sígarettum. Báðir voru þeir orðnir of gamlir, eða of cool, til að sýna óþreyju eftir að jólahátíðin gengi í garð. Báðir búnir að tapa hinni barnslegu eftirvæntingu, sem bundin er við góðan mat , falleg ný föt,og
fjölmarga litskrúðuga pakka sem komið er fyrir undir upplýstu jólatré. "Veistu hvað þú færð frá þeim gömlu?" spurði Einsi um leið og hann lokaði Sippónum og reyndi um leið að gera hringi. "Blessaður, það verður eitthvað ferlega ömurlegt eins og venjulega. Einhver helvítis jogginggalli eða eitthvað álíka hálfvitalegt" svaraði Benni. "Ég þoli ekki mjúka pakka" sagði Einsi. "Á öllum jólum sem ég man, hef ég ekki fengið annað en ógeðslega mjúka pakka, nema þegar ég fékk smokka-pakkann frá þér í fyrra."
"Þeir hafa nú kannski orðið mjúkir á endanum" svaraði Benni og glotti. Einsi fattaði ekki brandarann strax, en svo fór hann allt í einu að hlægja, þessum einkennilega hlátri sem mútur á byrjunarstigi valda, hann hljómar eins og verið sé að starta Skóda í fimmtán stiga gaddi. Þeir héldu áfram að masa um ömurlegar jólagjafir sem þeir höfðu fengið í gegnum árin og gerðu að þeim óspart grín. Tíminn leið, Mackintosh dósin tæmdist og sígarettu reykurinn varð þéttari í herberginu. Klukkan var farin að ganga sex þegar allt í einu var bankað á herbergishurðina og hún síðan opnuð. Í gættinni birtist andlit móður Benna . "Benni minn, ætlarðu ekki að fara að klæða þig fyrir matinn? Þarf Einar ekki að fara að tygja
sig heim? Voðaleg reykingafýla er þetta. Opnið nú glugga strákar." Svo steig hún inn í herbergið og byrjaði að bjástra við að opna gluggann sjálf. Einsi greip leðurjakkann sinn og stóð á fætur. "Ég sé þig á morgun, hringdu í mig í kvöld og segðu mér hvað þú fékkst." Svo drap hann í sígarettunni, krumpaði tóman pakkann og henti honum í barmafullan öskubakkann. Aldrei þessu vant, fylgdi Benni vini sínum nú til dyra, og horfði um stund á eftir honum út í létta snjódrífuna. Helvíti, hugsaði hann með sér, ég gleymdi að kaupa handa honum jólagjöf, jæja ég geri það bara seinna. Aðfangadagskvöld gekk í garð á heimili Benna með kalkúnilm og grenilykt um allt húsið, jólamessu á sjónvarpsskerminum , uppljómaða stofu og veglega skreytt jólatré í henni miðri, sem samt varla sást í fyrir pakkahrúgu sem bókstaflega flaut út um allt stofugólfið. Þegar búið var að troða því næst ósnertum kalkúninum inn í ísskáp ásamt
megninu af fjölbreyttu beðlæti. og setja óhreina diska og föt í uppþvottavélina, réðust Benni og foreldrar hans á pakkahrúguna. Þau rifu upp pakkana einn af öðrum og stöfluðu innihaldi þeirra við hlið sér. Móðirin hafði orð á því að þau þyrftu að hraða sér, því von væri á foreldrum hennar í stutta heimsókn ásamt honum Þórði móðurbróður hennar, sem dúkkað hafði skyndilega upp á heimili gömlu hjónanna og gert sig líklegan til að dveljast hjá þeim um jólin. Benni hafði aldrei hitt þennan Þórð,
aðeins heyrt af honum einhverjar furðu sögur sagðar í hvíslingum. Benni velti því fyrir sér hversvegna fólk talaði alltaf í hvíslingum þegar það ræddi um fólk sem var veikt eða skrítið. "Hann er svo undarlegur í háttum hann Þórður" heyrði Benni móður sína eitt sinn hvísla," að ég held að engin kona hafi þýðst hann".
 
Benni var í óða önn að flytja góssið sem hann fékk í jólagjöf úr stofunni inn í herbergið sitt, þegar að dyrabjallan glumdi. Benni fór til dyra en varð svo að hörfa aftur inn í forstofuna því gangurinn fyllist af jólapökkum sem móðir hans og faðir hófu strax að ferja inn í stofuna. "Gleðileg jól öll," söng amma hans og svo tóku við faðmlög og varalitur á báðar kinnar. Aðeins Þórður stóð í fordyrinu, án þess að segja orð og beið eftir því að sér yrði boðið inn. Hann var teinréttur örugglega tveggja metra hár, með brúnan flókahatt á höfði og í síðum brúnum frakka. Benni kinkaði til hans kolli og forðaði sér svo aftur inn í stofuna. Hann beið eftir að masandi fólkið kæmi á eftir honum en það gerðist ekki í bráð. Aðeins Þórður birtist í stofudyrunum. Benni gaut til hans augunum og velti því fyrir sér hvort maðurinn væri vangefinn eða bara undarlegur. Þórður sem hvorki hafði farið úr frakkanum eða skónum né tekið af sér hattinn. Hann stóð bara og starði um stund á Benna. Benni tók eftir því hvernig snjórinn á skóm Þórðar bráðnaði og lak ofan í þykkt ullarteppið á stofunni. "Hann er stórskrýtinn hugsaði Benni. "Þú munt vera Benedikt" sagði Þórður allt í einu. Benni hrökk næstum því í kút. Rödd Þórðar var svo rám og djúp að hún minnti Benna helst á röddina í Axel Rose þegar hann spilaði plöturnar hans hægt aftur á bak í leit að földum skilaboðum. "Já ég er Benni" svaraði hann svo. " Ég heiti Þórður Sumarliðason og er bróðir hennar ömmu þinnar, komdu sæll Benedikt" rumdi í kallinum um leið og hann steig inn í stofuna í átt að Benna með útrétta hendi. Benni sem ætlaði að fara að heilsa Þórði þrátt fyrir að honum væri brugðið, kippti að sér hendinni ósjálfrátt þegar hann sá hendi Þórðar. Hún var náhvít og þakin einhverju ókennilegu hreistri. Þórður tók auðvitað eftir viðbrögðum Benna, því hann dró að sér höndina og settist um leið niður á stól við hlið hans tók niður hattinn og sagði. "Fyrirgefðu, ég gleymi alltaf þessu árans exemi, en það er víst ekki smitandi". Benni horfði forviða á Þórð, því undan hattinum kom í ljós þykkt grátt og sítt hár sem bundið var í tagl í hnakkanum. "Þetta er sannarlega furðulegur fýr" hugsaði Benni en þorði ekki að segja neitt. Ómurinn frá samræðum ömmu hans og afa við foreldra hans barst nú fram af ganginum og að herbergi Benna. Ömmunni var víst nóg boðið við að sjá kjaftfullan öskubakkann á borðinu í herbergi hans, því hún kom nú ásamt hinum býsnandi inn í stofuna. Um leið og hún birtist stóð Þórður á fætur og sagði með dunandi hárri röddu sem fékk alla til að þagna. " Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil. Sú var nú tíðin að það þóttu ágætar gjafir. Nú þykja ekkert gjafir nema þær séu tugþúsunda virði, gerðar úr plasti og hægt sé að stinga þeim í samband. Aldrei hafa jólin verið eins vel upplýst og á heimilunum nú til dags og samt hefur aldrei fyrr ríkt á þeim jafn mikið myrkur og nú."Þegar Þórður þagnaði, settist hann aftur niður og horfði spekingslega út í loftið. Eldra fólkið starði á hann agndofa eins og það væri að bíða eftir einhverju meiru, en ekkert kom. Benni heyrði svo afa sinn pískra eitthvað um að nú væri sér nóg boðið og ömmu sína þagga niður í honum og hefja síðan aftur taut sitt um óhollustu reykinga.


Benni ákvað að hringja í Einsa og brá sér í símann. Ásta elsta systir Einsa svaraði.
Halló.
Hæ Ásta, er Einsi heima spurði Benni.
Í símanum varð vandræðaleg þögn.
Þetta er Benni, má ég tala við Einsa ítrekaði Benni.
Heyrðu Benni, veistu ekki hvað kom fyrir, veistu ekki að Einar er á spítala? svaraði Ásta.
Á spítala, hváði Benni vantrúaður. Hvað er hann að gera á spítala?
Hann lenti undir bíl á leiðinni frá þér. Læknarnir segja að hann sé með brotinn hrygg, þeir segja að.....
Hvaða helvítis lygi er þetta í þér Ásta, leyfðu mér að tala við Einsa eða þú skalt hafa verra af, nördið þitt, hrópaði Benni í síman.
Ég er að segja þér alveg satt, heyrði hann Ástu segja sem var nú byrjuð að vola. Mamma og pappi eru bæði á sjúkrahúsinu og ég er ein hérna heima
með krakkana. Ég skal biðja mömmu um að hringja í þig þegar þau koma heim.
Bless.
Benni lagði tólið á og horfði stjarfur fram fyrir sig. Án þess að segja orðvið masandi fólkið í stofunni fór hann inn í herbergið sitt, rótaði í öskubakkanum þar til hann fann stóran stubb sem hann kveikti síðan í. Hann tók ekki eftir Þórði sem hafði staðið upp úr stól sínum og komið á eftir honum. Í annarri hendinni hélt Þórður á litlum pakka sem vafin var inn í brúnan umbúðapappír. Þennan pakka lagði Þórður á borðið í herbergi Benna og sagði svo um leið og hann fór út.

Handa þér drengur minn, handa þér.
Benni horfði orðlaus á eftir Þórði og brátt heyrði hann ömmu sína og Afakveðja. Brátt voru þau á braut og Þórður með þeim. Nokkrum mínútum síðar kom mamma hans inn til hans.

Þú varst ekki mikið að kveðja afa þinn og ömmu, eða þakka þeim fyrir allar gjafirnar, lét hún móðinn mása. Svo rak hún augun í pakkan á skrifborðinu og spurði.

Hvaða pakki er þetta, ekki kom Þórður með þetta?
Benni leit upp og svaraði: Mamma, Einsi lenti í bílslysi í kvöld þegar hann fór frá okkur. Hann liggur á sjúkrahúsi. Ásta sagði að hann væri með brotinn hrygg.
Hvað segirðu barn, með brotinn hrygg. Þetta er hræðilegt, að lenda í bílslysi á sjálfum jólunum. Það á ekki af þessari fjölskyldu að ganga,
eitt eftir annað, hvílíkt ólán.

Meira heyrði Benni ekki af því sem móðir hans sagði, því síminn hringdi og hann þaut upp til að svara honum. Í símanum var móðir Einsa sem með mæðulegri röddu staðfesti allt sem Ásta hafði sagt honum, og upplýsti jafnframt að Einsi væri á gjörgæslu og berðist nú fyrir lífi sínu. Að símtalinu loknu fór Benni aftur inn til sín og læsti að sér. Hann lét nýja geisladiskinn á geislaspilarann sinn og lagðist upp í rúmið sitt. Einhvern tímann seint um nóttina sofnaði hann loksins og svaf langt fram á jóladag. Þegar hann vaknaði aftur var gjöfin frá Þórði gamla það fyrsta sem hann rak augun í. Hann reis upp við dogg og teygði sig eftir pakkanum og reif hann upp. Í ljós kom hvítur kertisstúfur og gamall og lúinn
spilastokkur. Hann brosti með sjálfum sér að þessum einföldu munum, en mundi svo eftir Einsa og hentist á fætur og í símann. Það var móðir Einsa sem svaraði.

Nei, ekkert nýtt að frétta, nema að myndataka staðfesti að hann væri mænuskaddaður og að hann lægi enn á gjörgæslu.

Benni lagði á og fór inn í eldhús til að fá sér Chereeos. Foreldrar hans voru ekki heima, líklega farin til kirkju. Hann kveikti á sjónvarpinu, en slökkti fljótt á því aftur. Honum datt í hug að hringja í einhverja félaga sína en kom sér ekki til þess. Loks ákvað hann að reyna að taka til í herberginu sínu og
koma einhverju af nýja dótinu sem hann hafði fengið í jólagjöf, fyrir. En honum varð ekkert úr verki, svo hann settist niður á gólfið, reif upp spilastokkinn sem hann hafði fengið frá Þórði og ætlaði að fara leggja þennan eina kapal sem hann kunni. Um leið og hann náði spila-stokknum úr, kom í ljós samanbrotið bréf. Hann fletti bréfinu í sundur og las. Hann las bréfið þrisvar yfir áður en hann áttaði sig á innihaldi þess, þó það væri ritað með skýrri skrift. Þegar hann loks skildi bréfið, lá við að
hann færi að skellihlæja. Hvílíkt bull. Þessi Þórður var sko alveg snargeggjaður ef hann hélt að einhver tæki þessa vitleysu alvarlega. Samt greip hann bréfið aftur sem hann hafði krumpað saman í vantrú, og las það í fjórða sinn.
Kæri Benedikt.
Ég veit að þér þykir eflaust lítið til gjafar minnar koma í samanburði við allar hinar sem ég er vissum að þú færð. Samt er hún í höndum þess sem með hana kann að fara ómetanlega verðmæt. Bæði kertið og spilin eru æfa forn og þeim fylgir undra náttúra sem ég kann ekki að skýra. Ég get aðeins sagt
þér hvernig hún virkar. Náttúra kertisins er sú að hver sem horfir í loga þess, læknast af öllum sjúkleika hversu alvarlegur sem hann kann að vera. Spilin eru þess eðlis að ef þú leggur þau í hring fyrir einhvern, eða með einhvern í huga, segja þau nákvæmlega til um æfi þess hins sama. Þeir
annmarkar eru á ofureðli beggja að þau er aðeins hægt að nota einu sinni á hálfrar aldar fresti. Um þessar mundir eru rúmlega fimmtíu ár síðan gripirnir voru notaðir síðast. Þá sá ég fyrir í spilunum framtíð mína og hver átti að fá þessa gripi næst og hvenær.

Vertu sæll Benedikt.
Þórður Sumarliðason.

Þrátt fyrir hversu fáránlegt innihald bréfsins virtist Benna, fann hann hjá sér ómótstæðilega löngun til að sannreyna það. Ef til vill voru það kringumstæðurnar. Var það algjör tilviljun að hann fékk þessa gjöf
nákvæmlega þegar hann þurfti svo sannarlega á henni að halda, ef að allt reyndist rétt sem karlinn hafði skrifað. Úr huga hans hvarf aldrei hugsunin um að á sjúkrahúsi lá besti vinur hans fyrir dauðanum. Svo hafði Þórður verið svo dularfullur. Hvað um það hugsaði Benni, það var svo
sem nógu auðvelt að sannreyna spilin. Hann hugsaði málið augnablik, tók svo ákvörðun og lagði spilin í stóran hring á gólfið. Hann var varla búinn að sleppa síðasta spilinu, þegar sitthvað fór að gerast og svo hratt að hann varð að hafa sig allan við til að geta fylgst með. Á einhvern
undursamlegan hátt lyftust spilin frá gólfinu og í hverju spili sá Benni svipmynd úr lífi Einsa. Hann sá hvernig móðir Einsa rembdist við að koma honum í heiminn, hvernig hann skreið um skítugt eldhúsgólfið í blokkinni heima hjá sér, hvernig hann át sand úr sandkössum dagheimilisins, skítugur
og með hor í nefinu. Hann fylgdist með hvernig Einsi stækkaði og hvar hann hljóp um göturnar klæddur í föt af systkinum sínum, stundum jafnvel af Ástu, og loks sá hann sjálfan sig kynnast Einsa í barnaskóla. Benna varð allt í einu ljóst hversu mikið Einsi þurfti að hafa fyrir hlutum sem honum
sjálfum þóttu auðveldir. Hann sá að Einsi byrjaði snemma að stela peningum, hvar sem hann gat, til þess að endrum og eins þóttst geta splæst, og hvernig hann smá saman sætti sig við að hafa minna úr að moða en flestir kunningjar hans, að ekki sé minnst á Benna sjálfan. Að lokum sá hann Einsa
hlaupa út frá sér kvöldið áður, of seinan til að taka strætó, of blankan til að taka leigubíl, of stoltan til að biðja um að sér yrði ekið. Hann sá Einsa hverfa undir grænan upphækkaðan Cheroky jeppa og hvernig sippóinn hans þeyttist inn í húsgarð hinumegin við götuna og hverfa þar í skafl.
Síðasta spilið sýndi aðeins gráa móðu. Svo féllu spilin niður á gólfið í eina hrúgu.
Benni sat á gólfinu og nötraði allur af geðshræringu. Hann var lengi að jafna sig, en varð á sama tíma ljóst hvað hann varð að gera. Eftir nokkra stund klæddi hann sig í flýti, stakk kertinu í vasann á leðurjakkanum og hraðaði sér út. Það var jóladagur og enga strætisvagna að fá. Benni hljóp við fót og
stefndi í átt að Borgarsjúkrahúsinu. Móður og másandi hratt hann upp hurðinni á bráðamóttökunni. Bak við öryggisglerjað afgreiðsluborð sat sloppklædd kona sem mændi á hann ósamúðarfullum augum. Benni reyndi að útskýra í fljótheitum að hann þyrfti nauðsynlega að hitta vin sinn sem lægi
fyrir dauðanum á gjörgæsludeild og hann ætlaði að hjálpa honum. Afgreiðslukonan blikkaði bara augunum og hristi höfuðið. Nei, það kom ekki til greina að hún hleypti honum inn þangað sem Benni lá. Jafnvel foreldrar drengsins sagði hún höfðu aðeins fengið að líta til hans augnablik
í fylgd með lækni. Benna varð fljótt ljóst að þessari kjellu yrði ekki haggað. Hann var í þann mund að yfirgefa móttökuna, þegar að maður í hvítum slopp birtist fyrir innan afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslukonuna sem Benni heyrði ekki vegna öryggisglersins. Eitthvað í
fari mannsins fannst honum samt kunnuglegt. Hann sá afgreiðslustúlkuna kinka kolli til mannsins, og kalla síðan til hans. "Heyrðu þarna drengur, læknirinn segir að það sé óhætt að þú komir inn fyrir
í nokkrar mínútur." Svo þrýsti hún á hnapp sem staðsettur var úr sjónmáli og dyrnar að bráðadeildinni opnuðust. Benni var ekki lengi að skjótast inn fyrir þar sem hann bjóst við að hitta lækninn. En hann var hvergi sjáanlegur. Benni hafði tekið eftir því á töflu í anddyrinu að gjörgæslan var á annarri
hæð sjúkrahússins. Í stað þess að bíða eftir lækninum ákvað hann að halda þangað á eigin spýtur. Hann fann fljótt stiga sem lá upp á aðra hæð og síðan dyr sem á stóð Gjörgæsla. Benni flengdi upp dyrunum og skaust inn á gjörgæsluganginn, beint í flasið á holdugri hjúkrunarkonu sem riðaði við
og hefði eflaust dottið á afturendann ef Benni hefði ekki náð að grípa hana. "Hvað ert þú að vilja hér ungi maður," spurði hjúkkan og togaði niður sloppinn sem eitthvað hafði aflagast við áreksturinn. Benna kom ekkert til hugar sem hljómað gæti sennilega í eyrum hjúkkunnar svo hann lét reyna á
hálfan sannleikann. Hann fálmaði eftir kertisstúfnum og sýndi hjúkkunni og sagði. " Það eru jól, og vinur minn liggur hér fyrir dauðanum. Hann lenti í bílslysi í gær og ég verð að fá að hitta hann. Ég ætla að kveikja á þessu kerti fyrir hann og..." Konan brosti nú við Benna og sagði svo góðlátlega. Jæja góði, fylgdu mér þá og ég skal sýna þér hvar hann liggur. Konan gekk rösklega inn ganginn og Benni á eftir. Innan nokkurra sekúndna stóð Benni við rúm vinar síns, þar sem hann lá með lokuð augun og andaði óreglulega. "Kveiktu þá á kertinu vinur" sagði hjúkkan, og svo skulum við bara koma. Ég skal svo líta eftir því. " En hann verður að sjá logann svaraði Benni svolítið annars hugar en áttaði sig svo og bætti við. "Ég á við að mér finnst eins og hann viti af mér hérna en geti bara ekki opnað augun hjálparlaust. Getur þú ekki fengið hann til að opna þau, þó ekki væri nema augnablik" Hjúkkan virtist klökkna
við viðkvæmi Benna, því nú teygði hún sig yfir Einar og opnaði augnalok hans með þumlunum. Samtímis kveikti Benni á kertinu. Kertisloginn flökti og Benni tók eftir því hvernig hann speglaðist dauflega í sjáöldrum Einsa. "Jæja, þá er þessu lokið" sagði hjúkkan og gerði sig líklega til að fara.
Hún lagði höndina á öxl Benna eins og til að stýra honum út. "Má ég ekki sitja stundarkorn hérna einsamall við hlið hans" Konan kinkaði kolli, og fór út. Benni settist niður á stól sem stól við
hliðina á rúminu og hugsaði með sér. Þannig var þetta þá, aðeins spilin virkuðu, kertið var greinilega gagnlaust. En svo tók hann eftir því að Einsi hreyfði fæturna. Benni stóð upp og
leit framan í vin sinn. Einsi opnaði augun, leit á Benna og sagði: "Hvar er ég". Það tók Benna aðeins nokkur augnablik að útskýra í stórum dráttum fyrir Einsa hvað hafði gerst, á meðan Einsi starði á hann gapandi. Þegar Benni þagnaði, leit Einsi í kring um sig og spurði. "Hvar eru fötin mín. " Svo
stökk hann á fætur og fór að leita að þeim. Auðvitað voru engin föt í herberginu, svo þeir ákváðu að fara fram á gang. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að komast út, án þess að þurfa að útskýra hvað gerst hafði. Það var alltof ótrúlegt hvort sem var, og læknarnir mundu örugglega vilja halda
Einsa á sjúkrahúsinu öll jólin, bara til að rannsaka hvað gæti hafa gerst. Einar var bara klæddur í þunnan slopp sem opin var að aftan. Þeir komust klakklaust út af gjörgæsludeildinni og voru í þann mund að leggja af stað niður stigann, þegar stór brúnn frakki kom svífandi niður stigaopið. Benni
leit upp fyrir sig og sá hvar maðurinn í hvíta sloppnum sem hann hafði séð niðri í móttökunni nokkru fyrr, stóð fyrir ofan þá og brosti. Svo snéri hann sér við og Benni sá í hendingu að hann var með sítt grátt hár, bundið í tagl í hnakkanum.


Einsi var ekki seinn að koma sér í frakkann á hlaupunum. Áður en varði voru þeir komnir niður á fyrstu hæð og þeir stefndu beint á dyr sem merktar voru Neyðarútgangur. Þeir spyrntu hurðinni upp og hlupu út í snjóinn sem þyrlaðist upp undan fótum þeirra. "Hvert erum við að fara, ég drepst úr kulda á löppunum ef ég fæ ekki skó" hrópaði Einsi móður af hlaupunum. " Eigum við ekki bara að koma heim til mín," hrópaði Benni á móti," við getum spilað póker ef þú nennir, ég fékk þessi fínu spil í jólagjöf".

 


Hvar eru allar geimverurunar?

Steve_BikoMér þykir gaman að tala og hugsa um hugmyndir. Auðvitað er til fjöldi fólks sem getur sagt það sama, en samt verð ég alltaf uppveðraður þegar ég hitti persónur sem leggja sig meira eftir því að ræða eða jafnvel skrifa um hugmyndir frekar en atburði og fólk eins og þorri fólks gerir.

Ég er að sjálfsögðu meðvitaður um að ekki eru allar hugmyndir þess virði að hugarorku sé eytt á þær, einnig að margar hverjar eru ekki tímabærar þótt áhugaverðar séu. En það sem gerir hugmyndapælingarnar þess virði að leggjast í þær er að af og til rekstu á hugmyndir hvers tími er kominn. Og í orðum hins merka manns Stephen Bantu Biko frá Suðurafríku, sem lést í fangelsi á dögum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er "Ekkert eins máttugt og hugmynd hvers tími er kominn."

Nú er ég ekki að halda því fram að neðanritað falli sérstaklega undir þann flokk hugmynda, en eitt er víst að margir ræða þetta sín á milli.

Enrico_Fermi_1943-49Sú hugmynd sem mig langar að tjá mig um að þessu sinni er stundum kölluð Fermi mótsögnin. Hún er kennd við Ítalann Enrico Fermi sem hlaut Nóbelverðlaunin fyrir 1938 fyrri störf sín í þágu eðlisfræðinnar og lagði m.a. mikið af mörkum til þróunar skammtafræðinnar.

Fermi sat ásamt vinum sínum, sumarið 1940 og ræddi við þá líkurnar á lífi á öðrum hnöttum í alheiminum. Út frá þeim staðreyndum að í Vetrarbrautinni einni eru 100 milljónir fastastjarna og að líf þróaðist tiltölulega snemma og stöðuglega hér á jörðinni, þótti þeim líklegt að viti bornar verur ættu að hafa þróast fyrir löngu á öðrum hnöttum og gætu hæglega hafa lagt undir sig nærliggjandi sólkerfi á nokkrum milljónum ára. Þeir ályktuðu sem svo að viti bornar lífverur ættu að vera frekar algengar í stjörnuþokunni. Fermi hlustaði þolinmóður á þessar pælingar og spurði svo; hvar eru þá allir?

Í fimmtíu ár hafa mennirnir skimað himnanna með öflugum sjónaukum og hlustunargræjum og ekki fundið nein staðfest ummerki um ójarðneskt vitsmunalíf. Hvers vegna?

alien_playing_poolÍ fljótu bragði mætti ætla að svörin við þessari spurningu geti verið mörg, en mér virðast aðeins þrír möguleikar koma til greina

Fyrsta tilgátan er; alheimurinn er svo gríðarlega stór að líkurnar á að við finnum merki um líf eru hverfandi jafnvel þótt við hlustum og skimum í mörg hundruð ár.

Þetta getur vissulega verið rétt, en þá er vitmunalíf ekki eins algengt og félagar Fermi vildu vera láta.

Önnur tilgáta er að vitmunaverurnar feli sig fyrir jarðarbúum, annað hvort af því að þeir vilja ekki hafa áhrif á "eðlilega framþróun" siðmenningar okkar eða að þeir álíta okkur svo vanþróaða og hættulega að það sé ekki þess virði að skipta sér af okkur.

Þesssi tilgáta gerir ráð fyrir slíkri ofurtækni að hún er næstum óhugsandi. Að fela útvarpsbylgjur og aðra geislun, ummerki sem gefa til kynna þróaða siðmenningu,  er nánast útilokað.

Þriðja tilgátan og jafnframt sú kaldhæðnislegasta er sótt í ákveðna túlkun á okkar eigin siðmenningu og er reyndar sú hugmynd sem varð kveikjan af þessum pistli. 

Skömmu fyrir aldamótin 1900 og allt fram eftir tuttugustu öldinni einkenndust uppfinningar mannkynsins af viðfangsefnum raunheima. Bílar, flugvélar, rafmagnsljós, ryksugur, ísskápar, brjóstahöld og rennilásar. En árið 2008 einkennast flestar uppfinningar af sýndarveruleika. Topp tíu eigendur nýrra einkaleyfa eru IBM, Matsuhita, Canon, Hewlett-Packard, Micron Tecnology, Samsung, Intel, Hitachi, Toshiba og Sony. - Ekki Boeing, Toyota eða Wonderbra.

1Hér á jörðinni eiga viðskipti sér ekki lengur stað í raunveruleikanum heldur í sýndarveruleika eins og íslendingar hafa orðið illþyrmilega varir við á síðustu mánuðum.

Þótt vísindin bjóði fólki upp á fleiri möguleika en áður til að viðhalda líkamlegu þreki og fegurð er eftirsóknin í sýndarheima útlits,  förðun, lýtaaðgerðir og fitusog,  meiri en í þrekhjólin.

Og svo er miklu auðveldara að tína sér í "Friends" í sjónvarpinu en að afla sér raunverulegra vina.

Getur verið að flestar framandi siðmenningar hafi farið sömu leið? Getur verið að þær taki sýndarheima fram yfir raunveruleikann og séu uppteknir við að spila úber-tölvuleiki þar sem þeir leggja undir sig alheiminn eins og við gerum með Star Wars.

Endanleg útkoma slíkrar siðmenningar er auðvitað að það er setið á sama stað og samt verið að ferðast.

Þessi tilgáta felur í sér þá niðurstöðu að allir vitsmunir leiði þróunarfræðilega á endanum til þess að fullnægja sér á sem auðveldastan hátt og að hermiheimar og sýndarveruleiki séu mun auðveldari viðfangs en raunveruleikinn.


Rúnar Júlíusson - Kveðja

Það þekktu allir Rúnar í Keflavík, ekki bara í sjón, heldur af viðkynnum. Hann var og verður í hugum landsmanna um einhverja ókomna tíð, holdgerfingur alls þess sem var og er Keflvískt. Hann talað Keflvísku, hafði Keflvíska útlitið, Keflvíska kúlið eins og það er kallað í dag eftir að "töffið" varð eitthvað súrt og hann hafði Keflvísku taktanna í tónlistinni. Er nokkur furða þótt hann hafi verið fúll þegar að nafninu á bæjarfélaginu var breytt í Reykjanesbær. Myndirnar tala.......og texti lagsins.


Hvernig Íslendingar refsa sjálfum sér eftir bankahrunið?

Ég veit eftir að hafa starfað að staðaldri í nokkur ár við ferðamennsku og jafnframt dvalist langdvölum erlendis að oft líta útlendingar landið og landann skrýtnum augum. Margt af því sem okkur finnst sjálfsagt og eðlilegt í fari okkar, lítt merkilegt eða eftirtektavert, finnst þeim undur og stórmerki. Við gefum gjarna lítið fyrir túlkun þeirra á íslenskri þjóðarsál, enda oft klisjukennd og grunn. En af og til ratast þeim satt orð á munn og gefa okkur innsýn í okkur sjálf sem við höfum einhverra hluta vegna ekki horfst í augu við af sjálfsdáðum.

 
Í viðtali við Íslending (Ísleif Friðriksson) í ríkisútvarpi Breta; BBC, kom fram á dögunum að Íslendingar sæktust meira í köld sjóböð eftir hrun íslenska bankakerfisins en áður.
Sannur ÍslendingurÍ myrkri og kulda mæta nú rúmlega 100 manns tvo daga í viku til að skella sér út í 3,5 gráðu sjóinn þar sem áður rétt um 30 manns vandi komur sínar fyrir hrunið. Gert er að því skóna í viðtalinu að þessi sérstaka grein norrænnar sjálfpíslaráráttu hafi aldrei verið vinsælli en nú. 

Sjálfur sagði Ísleifur að hann héldi að fólk væri orðið svo þreytt á jakkafataliðinu að það kæmi til sjóbaðanna til þess að geta umgengist hvert annað án þeirra. (Jakkafatanna)

Aðförum fólks við sjóböðin var svo lýst á eftirfararandi hátt; Þú kemur á baðfötunum einum á ísköldu dimmu kveldi, safnar hugrekki í nokkrar mínútur í grunnri heitri laug við bryggjuna, hleypur síðan um 100 metra að sjónum og stingur þér í hann öskrandi.

Fréttamaðurinn kom einnig við hjá Rauða kross Íslands þar sem viðmælandi hans segir honum að sú hugmynd að Ísland hafi talist fimmta auðugasta ríki veraldar sé nú brandari. 150 manns standi nú og bíði eftir að verða úthlutað brauði, kartöflum, smjöri og mjólk. Meðal þeirra séu einstæðar mæður sem nýlega hafa misst vinnuna og eftirlaunafólk sem missti allan sinn sparnað á einni nóttu við hrun bankanna.

"Ég get ekki ímyndað mér hvernig veturinn verður" er haft eftir 44 ára öryrkja hvers bætur hafa verið skornar niður við nögl. " Ég þekki fólk sem hafa fengið taugaáfall. Íslendingar eru mjög þreyttir á þessu ástandi."

Fréttamaðurinn lýsir einnig hvernig þrátt fyrir þetta, hafi gjörðir óhæfra stjórnenda og örfárra gráðugra bankastarfsmanna, ekki orðið til þess að æsa fólk til mikilla mótmæla eða borgaralegrar óhlýðni. 60% þjóðarinnar býr á Reykjavíkursvæðinu en aðeins 2% þeirra mæta á skipulögð mótmæli.

Íslenska stoltiðHins vegar sjáist annarsstaðar hvernig sprungurnar í samfélaginu eru smá saman að gliðna undir rólegu yfirborðinu. Lögreglan sér merki um aukið heimilisofbeldi og ofbeldi tengdu aukinni áfengsneyslu. Kvennaathvarfið segist sjá verulega aukningu meðal þeirra kvenna sem sækjast eftir viðtölum og ráðgjöf að sögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur. Hún setur það í beint samband við efnahagsástandið.

Af lýsingum fréttamannsins er svo að sjá að meiri hluti Íslendinga bregðist við þrengingunum með því að byrgja innra með sér reiði sína og vanþóknun.

Það hefur svo sem lengi loðað við okkur Íslendinga að bregðast þannig við persónulegu mótlæti, en um félagslegt óréttlæti, sem sannarlega er eins stærsta ástæða bankahrunsins, höfum við gjarnan getað tjáð okkur og oft knúið fram umbætur með beinskeyttum aðgerðum. Allt bendir því til að fjölmargir íslendingar í sínum innsta ranni líti ekki á ástandið sem afleiðingar félagslegs óréttlætis, heldur sem svo að það sé jafnvel sök þeirra sjálfra hversu illa er komið og bregðist því við í samræmi við það.


 


Glöggt er gests augað, mótmæli án markmiðs?

BBCFyrir rúmri viku hlustaði ég á útvarpsþátt á BBC sem fjallaði um ástandið á Íslandi. Fréttamaður fór um götur Reykjavíkur með hljóðnemann og tók viðtöl þar sem fólk lýsti áhyggjum sínum og sumir hverjir reiði yfir gangi mála á landinu bláa.

Margir báru sig illa en fleiri virtust nálgast málin af miklu æðruleysi. Fréttamaðurinn mætti á mótmælafund í miðbænum og tók upp frekar lágvær mótmælahrópin. Það sem virtist koma honum mest á óvart var hversu friðsamlega öll mótmæli gengu fyrir sig, þrátt fyrir talsverðan fjölda mótmælenda og mjög sýnilega viðveru lögreglu sem yfirleitt virkar eins og bensín á eld á æsta mótmælendur. Engir brotnir eða útbrenndir búðargluggar eða áflog milli mótmælenda og löggæslunnar eins og títt er í borgum annarra Evrópulanda þegar íbúar þeirra taka sig til við að mótmæla einhverju, jafnvel þótt tilefnið sé miklu minna en Íslendingar hafa til þess um þessar mundir.

Hörður TorfasonHonum var einnig tíðrætt um hversu pólitísk samtök landsins, verkalýðshreyfingar og neytendasamtök tæki lítinn sem engan sýnilegan þátt í mótmælunum. Stjórnmálamönnum væri nánast bönnuð formleg aðkoma að þeim og þau væru leidd af þjóðlagasöngvara. Hann sagði það vera einsdæmi að 7000 mótmælendur söfnuðust saman um hverja helgi sem hefðu það eitt sameiginlegt að vera óánægðir með gang mála í landinu. Hann sagðist sjá að svona mótmælafundir gætu þjónað þeim tilgangi að virka sem ventill fyrir uppsafnaða óánægju og reiði, en án skilgreinds markmiðs og ákveðinna krafa, þjónuðu mótmælin jafnvel betur en nokkru öðru, þörfum þeirra sem þeim er beint gegn.

Þótt ég sé stoltur að tilheyra þjóð sem seint verður espuð til ofbeldisverka og hefur að mestu lifað í friði í rúm 700 ár, sá ég samt hvað fréttamaðurinn breski var að fara.

ÁtökÍ ljósi síðustu kannanna sem sýna að VG eru með 32% fylgi virðist sem þorri íslendinga segi eitt en geri allt annað.

Segjum t.d. að krafan sem flestir mótmælendur eru sammála um sé; að ríkjandi stjórn eigi að fara frá. Ef svo er, hvers vegna mæta þá ekki þessar tugþúsundir sem núna styðja VG í mótmælin?

Ef að krafan er að koma seðlabankastjórnaum frá,  (sem 90% þjóðarinnar vilja samkvæmt skoðanakönnunum)  hvers vegna mæta þau ekki öll (þ.e. þau af 90% sem eiga heimangengt) í mótmælin?

Það mætti halda að allir séu ekki alveg þar sem þeir eru séðir þegar kemur að því að túlka skoðanir sínar og tilfinningar yfir í einhverskonar verk, jafnvel þótt þær séu ekki veigameiri en að mæta á mótmælafund.

Jafnvel þótt annað hvert blogg á blog.is og rúmlega það, sé gremjukast út í og úthrópun þeirra sem rústuðu fjárhag þjóðarinnar, fer fáum sögum af raunverlegum lausnum á vandamálunum. Og auðvitað er það ekki hlutverk fjölmiðlafólks að gera það heldur, enda skemmta valdhafar sér konunglega við á hverjum degi að snúa út úr fyrir því og tala niður til þess.  

Ég hef grun um að þrátt fyrir óánægjufylgið við VG um þessar mundir sé engin raunveruleg samstaða um það með þjóðinni að VG sé til þess fallið að stýra henni í gegnum heimskreppuna sem núna vofir yfir og hefur alls ekki skollið á með fullum þunga enn. Spurningin er því sú, hverjir geta og vilja takast á við það vandaverk. 


Smá aðventu-jólablogg

Musteri SaturnusarEins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.

Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.

Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.

Júlíus l PáfiEkki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.

Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.

jolahafurMargir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.

Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.

Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.

jolakotturÍslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.

Jólasveinninn

Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.Gríla með Leppalúða og Jólakötturinn

Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.

(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)

En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð. 

Boyana_AngelSem ungabarn er sagt að hann hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.

Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

596px-Gentile_da_Fabriano_063Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a.  viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.

Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.

Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.

 Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja. 

Heilagur Nikulás BiskupNikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.

Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.

Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.

Faðir KristmessaEnglendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.

Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus,  Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".

Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju,  rauðar buxur og svört stígvéli,  hefur þróast smá saman.st-claus

(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)

Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast  að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.

Jólatré

JólatréUm uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.

Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.


Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma , að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 – 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.

Gamalt íslensk JólatréVar þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli 

Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.

Venjulegt jólatréÁrið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.

Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.

 


Fleira smálegt

links

"Það sem gerir þig ánægða(n), það er fjársjóður þinn. Þar sem fjársjóður þinn er þar er hjarta þitt. Þar sem hjarta þitt er þar er hamingja þín."  

Heilagur Ágústínus (354-430)

The naked Icelanders

"Þegar þú öðlast persónuleika, þarftu ekki á nektinni að halda".

Mae West, (1892-1980 Bandarísk leikkona)

149syllabus9crystal2

Sveitin er staður sálarinnar, borgin er staður líkamans.

(Bahai ritningargrein)

yogazo0

Aleinn með sjálfum mér

Trén beygja sig til að gæla við mig

Skugginn faðmar hjarta mitt

Candy Polgar

a279_Hallgrimur

Trúarbrögð mín eru einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf fyrir flókna heimsspeki. Hugur okkar og hjarta er hofið; heimspekin er velvilji. Dalai Lama


Porsche 550 Spyder og James Dean

James_DeanÁsamt því að leika í frábærum kvikmyndum eins og Rebel Without a Cause, East of Eden og Giant stundaði James Dean kappakstur. Á meðan hann var að leika í  Rebel Without a Cause eignaðist hann bifreið af gerðinni Porsche 550 Spyder.

Bifreiðin var ein af 90 slíkum sem framleiddar voru og var merkt tölunni 130. Bifreiðin var með tveimur hvítum röndum að aftan og var kölluð "litli bastarðurinn" ("Little Bastard") .

Sagan segir að viku fyrir slysið þar sem James Dean lést, hafi hann hitt hinn góðkunna breska leikara Alec Guinness. Alec hafði orð á því við James að sér þætti bíllinn "varasamur" og sagði síðan; "Ef þú ferð upp í þennan bíl finnst þú dauður innan viku". Þessi orð áttu eftir að rætast Því James Dean lést í hræðilegu bílsslysi þann 30. September 1955.

Hann var á leið á Porschinum sínum til að taka þátt í kappakstri ásamt viðgerðarmanni sínum Rolf Wutherich. Skömmu áður en slysið varð var hann stöðvaður af lögreglunni og sektaður fyrir að aka á 65 mílna hraða þar sem leifður hámarkshraði var 55 mílur.

JamesDeanCarDean ók sem leið liggur eftir fylkisvegi 46 í Cholame í Kaliforníu. Á móti honum kom akandi á 1950 modeli af Ford Tudor, Donald Turnupseed nemi í skóla ekki langt frá. Donald ók yfir á akreinina sem Dean ók á þar sem vegurinn skiptist og lenti beint framan á Porschinum. Dean virðist hafa lifað af áreksturinn en lést á leiðinni í sjúkrabílnum sem flutti hann á sjúkrahúsið í Paso Robles.

Wutherich sem lifði af slysið sagði að síðustu orð Deans hafi verið "Þessi gaur hlýtur að stoppa,... Hann sér okkur."

Porschinn var í köku en lánleysi hans endaði ekki þarna. Þegar að brakið var dregið af slysstað og á verkstæði, féll vélin úr bílnum ofaná vélvirkja og mölbraut á honum báða fótleggina.

Vélin var nokkru síðar seld lækni sem setti hana í kappakstursbíl sem hann átti. Læknirinn dó skömmu seinna í slysi á kappakstursbraut þar sem hann keppti á bílnum með Porschvélinni. Í sama kappakstri lést annar ökuþór sem ók bifreið sem í hafði verið sett drifskaftið úr bíl James Dean.

james-dean-car-crash-07Seinna þegar að Porsche James Dean var að lokum endurbyggður, brann verkstæðið þar sem endurbyggingin fór fram, til grunna.

Seinna þegar bílinn var á sýningu í Sacramento, féll hann af stokkunum sem honum hafði verið komið fyrir á og fyrir hinum varð unglingur sem mjaðmagrindarbrotnaði.

Nokkru seinna var bíllin til sýnis í Oregon. Honum var komið fyrir aftaná öðrum bíl sem flutti hann á sýningarstaðinn. Þá vildi ekki betur til en svo að hann rann ofan af flutningsbílnum og lenti inn í miðri verslun.

Að endingu datt bifreiðin í sundur í 11 hluta þar sem hún sat á stálbitum en hún var þá til sýnis í Los Angeles.

 


Skalli

yul-brynner1Það hefur löngum þótt bagalegt fyrir unga menn að missa hárið snemma. Eiginlega finnst mér gæta nokkurs tvískinnungs í því máli, því margir sem eru sköllóttir segja það ekki skipta sig nokkru máli og vera jafnvel betra en ella.  Þrátt fyrir að þess séu dæmi að skallinn hafi orðið mönnum til framdráttar, ( hvar væri ferill Yul Brynners eða Telly Savalas án skallans) telly-savalas 
þá seljast fá eða engin "fegrunarlyf" fyrir karlmenn betur en þau sem lofa endurkomu hárs og endurvirkni hársekkjanna sem það framleiða. Greinilegt er að hárleysið er í hugum margra ekki eftirsóknarvert.
Fremstu hugsuðir fornaldar gerðu hvað þeir gátu til að leggja sitt af mörkum til að sigrast á höfuðhárleysi.
Hippocrates_LightGríski læknirinn Hippókrates reyndi að lækna skalla með dúfnaskít. Aristóteles var hallur undir geitarhland hvað sig sjálfan varðaði.
Júlíus Sesar var sköllóttur sem þótti kaldhæðnislegt því nafn hans er dregið af latneska orðinu "caesaries" sem þýðir "vel hærður". Sagt er að Kleópatra hafi gert handa honum smyrsli úr möluðum hrosstönnum og dádýrsbeinamerg og síðan borið herlegheitin á gljáandi kúpu ástmögur sinnar, án árangurs.
jcaesar_coinRómverska aðferðin að nota tjöru, kísil og mismunandi gerðir af dýrahlandi gagnaði ekki heldur. Að lokum greip Sesar til þess ráðs að hjúpa höfuð sitt sveig úr lárviðarlaufi. Þessi saga af Kleó er undarleg í ljósi þess að Egyptar rökuðu hár sitt alltaf og leyfðu því aðeins að vaxa dálítið sem merki um sorg þeirra.
Einhvern veginn varð til sú fyrra að það væri skammarlegt að vera sköllóttur. Þeir sem voru það tóku það óstinnt upp ef þeim var strítt ef marka má frásögn sjálfrar Biblíunnar. Eftirmaður Elía spámanns hét Elísa. Um hann er þessa frásögn að finna í annarri Konungsbók gamla testamentisins;

19Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."

elijah20Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo. 21Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði." 22Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.

23Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" 24Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 25Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.

Þetta ætti að kenna fólki að vera ekki að abbast upp á sköllótta menn og uppnefna þá, sérstaklega ef þeir eru í náðinni hjá alvaldinu. Persónulega finnast mér viðbrögð spámannsins dálítið yfirdrifin. Sérstaklega í ljósi þess að honum var sjálfsagt í lófa lagt að fá hár sitt til að vaxa með því að nota sömu aðferð og hann notaði til að gera vatnsuppsprettuna heilnæma.

skallagrimur_i_smidjuEinn af forfeðrum mínum, ef marka má móðurafa minn Gísla Guðmundsson sem missti hárið á tvítugsaldri og kenndi þar um ætterni sínu, var Grímur Kveldúlfsson landnámsmaður í Borgarfirði. Hann var sagður  ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill en skáld gott.  Hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt Skallagrímur, en undir því nafni þekkjum við hann flest.

Íslendingum þótti greinilega lítið til hárleysis koma á söguöld, hvort sem um höfuð eða andlitshár var að ræða. Frægt er háðið sem Njál á Berþórshvoli og synir hans urðu að þola fyrir skeggleysi sitt og þeir uppnefndir taðskegglingar.

Myanmar_yangon_monksAustur Asíu þjóðir virðast hafa öðruvísi viðhorf til höfuðshárs en vesturlandabúar. Þar er afar algengt að raka allt hár af höfðinu. Mongólar til forna skildu eftir langa fléttu aftast á hnakkanum svo almættið gæti náð taki á einhverju til að kippa þeim inn í himnaríki þegar þeir dóu í miðjum bardaganum. Helgum mönnum og munkum þótti það sjálfsögð afneitun á hégóma þessa heims að raka höfuð sitt og það viðhorf barst meira að segja til hins kristna menningarheims og skýrir að nokkru afar sérkennilegan hárstíl munka í Evrópu á miðöldum.monkdrinking

 

 


Gvendur Þribbi og Dóra Hjörs.

ZKCAGE20WUCA92LP1YCAXO3V2CCANVFTR1CAM29TLMCA15QX56CAEBFRA5CAQO29NYCAEXZNA3CANM0AQBCA3X68MXCAIH8VSOCAC1LSI8CAMBXDH1CA29O2Y3CAQ6YIDGCARHJ6W0Þegar ég var að alast upp í Keflavík (1960+) bjuggu í bænum ýmsir kynlegir kvistir. Sumir þeirra, eins og Guðmundur Snæland, kallaður Gvendur Þribbi af því hann var einn þríbura, voru alkunnar persónur í bæjarlífinu og settu á það sinn sérstaka svip. Mér var sagt að Gvendur Þribbi væri heimsfrægur munnhörpusnillingur og ég trúði því, sérstaklega eftir að ég heyrði hann eitt sinn spila í barnatíma útvarpsins. Þótt Gvendur væri yfirleitt ölvaður var hann mikið snyrtimenni og sjentilmaður. Í seinni tíð gekk yfirleitt um í einkennisbúningi og með húfu í stíl sem minnti um margt á klæðnað Stuðmanna þegar Þeir voru upp á sitt besta eða jafnvel stíl drengjanna í Oasis. Hann var ekki ólíkur þeim sem myndin er af hér að ofan, en gott væri ef einhver lumaði á mynd af snillingnum, að fá hana senda.

Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn á heimili foreldra minna á Hringbrautinni, þáði þar kaffi og spilaði fyrir okkur krakkana á munnhörpurnar. Hann hafði venjulega nokkrar slíkar á sér. Ég gat samt aldrei áttað mig á lögunum sem hann spilaði. Ég bað hann einu sinni að spila "Hafið bláa hafið" en eftir hálftíma trillur á munnhörpuna gafst ég upp á að hlusta eftir laglínunni. Kannski var Gvendur allt of djassaður fyrir mig. Gvendur angaði ætíð sterklega af Old spice og ég var aldrei viss um hvort sú angan kæmi frá vitum hans eða bara andlitinu en sjálfsagt hefur það verið bæði.

db_The_Harmonica_Player10Gvendur gaf mér tvær munnhörpur en ég gat ekki fengið mig til að spila mikið á þær vegna þess hversu mikið þær lyktuðu af kogara og rakspíra í bland. Ég átti þær fram eftir aldri en veit ekki hvað af þeim varð.

Munnhörpur voru þróaðar í Evrópu snemma á nítjándu öld. Christian Friederich Ludwig Buschmann er oftast eignuð uppfinning þessa hljóðfæris en margar gerðir af munnhörpum virtust spretta upp bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum á svipuðum tíma.

Á Ensku er munnharpa nefnd "Harmonica". En eins og allir vita er harmónikka allt annað hljóðfæri á Íslandi eða það sem nefnd er accordion upp á enskuna. Hvernig nikkan fékk þetta nafn munnhörpunnar hér á landi eins og í Finnlandi og á mörgum austur-Evrópu tungum, er mér ókunnugt um. Fyrstu harmónikkurnar fóru að berast til landsins upp úr 1874. Þá var notað orðið dragspil yfir fyrirbærið.

hansgretelÁ Sólvallargötu skammt vestan Tjarnargötu, stóðu á sínum tíma húsakynni sem í minningunni voru einskonar blanda af gömlum torfbæ og kofatildri. Garðurinn í kring var afgirtur og í þessum óhrjálegu húsakynnum bjó gömul einsetukona sem mér var sagt að héti Dóra Hjörs. Hún var alla vega aldrei kölluð annað í mín eyru.

Í þau fáu skipti sem ég sá Dóru, var hún klædd í sítt pils með strigasvuntu bundna framan á sig og með skuplu á höfðinu. Hvernig sem á því stóð, hafði Dóra í hugum okkar krakkanna á sér ímynd nornarinnar í ævintýrinu um Hans og Grétu. Ég man ekki eftir neinum stað í Keflavík sem fékk hjartað til að berjast í brjóstinu eins ört og þegar farið var fram hjá kotinu hennar. Það sem kynti undir þessa hræðslutilfinningu voru sögur sem oftast voru eflaust skáldaðar upp á staðnum um krakka sem lent höfðu í því að ná í bolta sem skoppað hafði inn í garðinn hennar þar sem hún ræktaði kartöflur, rabarbara og rófur. Hvað nákvæmlega gerðist var aldrei fullkomlega ljóst, en það var eitthvað hræðilegt. Venjulega var hlaupið á harðaspretti fram hjá húsinu og ekki litið til baka fyrr en þú varst komin vel fram hjá. 

Dag einn var ég á gangi annars hugar og vissi ekki fyrri til en ég var kominn alveg upp að girðingunni í kringum garð Dóru. Ég var í þann mund að taka sprettinn þegar að hún birtist skyndilega beint fyrir framan mig. Ég stóð eins og þvara, lamaður af ótta. Hún fálmaði undir svuntu sína og dró fram brúnan bréfpoka, opnaði hann og rétti hann að mér. Ef hún sagði eitthvað heyrði ég það ekki. Ég sá að í pokanum var kandís. Eins og í leiðslu tók ég einn molann og hélt svo áfram að gapa framan í gömlu konuna. Hún tróð pokanum aftur undir svuntuna og rölti svo í hægðum sínum inn í bæinn.

Það þarf ekki að taka það fram, að það trúði mér ekki nokkur maður, þegar ég reyndi að segja þessa sögu í krakkahópnum. En eftir þetta gekk ég óhræddur fram hjá húsi Dóru Hjörs og skimaði jafnvel eftir henni ef ég átti leið þar fram hjá.

 

 

 

 

 


Hámark veisluhaldanna

Það þekkja það flestir að þurfa að fara í veislur sem þeir vildu frekar ekki hafa þurft að sækja. Það sem fer hér á eftir eru nokkrar útgáfur að sömu aðferðinni sem margir nota þegar þeim leiðist í veislum eða vilja lýsa vanþóknun sinni á öðrum gestum eða jafnvel gestgjafanum sjálfur. Það sem er svo merkilegt við þessa aðferð er að hún er nánast eins og sú leið sem notuð er oft til að sýna hversu mjög viðkomandi nýtur veisluhaldanna.

fullur2

fullur4

fullur5

fullur3

fullur1

fullur7

 


Óvenjuleg Störf

Ég hef komið víða við á minni ævi, sem enn er ekkert sérstaklega löng, hvað störf varðar. Stundum hef ég verið svo heppinn að get valið það sem ég vann við og stundum,  með ódauðlegum orðum John Wayne, "þurfti maður að gera það sem maður þurfti að gera".

Hér koma samt dæmi um störf og starfsaðferðir sem ef Guð og lukkan lofar, ég kem aldrei til með að vinna.

vinna2

vinna3

vinna4

vinna5

vinna6

vinna1

vinna8

vinna7


Skrifað í sandinn mikla...blog.is

Það þekkja vitanlega allir sem komnir eru til vits og ára orðatiltækið að skrifa í sandinn. Það á við um eitthvað sem er tímabundið og forgengilegt eða um eitthvað sem enginn veit líkt og það sem Kristur á að hafa ritað í sandinn forðum.

Íslendingar hafa margir skrifað í sandinn, sérstaklega upp á síðkastið, þótt þeir vildu kannski frekar hafa skrifað það sem á veggnum stendur. Sandströndin mikla sem svo margir pára sitt, heitir blog.is

Á Íslandi hefur af augljósum ástæðum aldrei þróast nein sandstrandarmenning. Við höfum því að mestu farið varhluta af listgreinum sem aðeins eru iðkaðar þar sem nógu er af sandi og tíma. Sýnishorn af slíkri óvenjulega forgengilegri list er að finna hér að neðan.

sandur1

sandur2

sandur3

sandur5

sandur7

sandur8

sandur9

sandur10

sandur11

sandur12

sandur13

sandur6

 


Afmæli

Þessa dagana, 27- 28.  Nov. er eitt ár síðan að ég byrjaði að blogga og ýtti fyrst á "vista og birta" og "skoða síðu" takkana og sá fyrsta bloggið mitt á blog.is birtast þann 29.

280 misgóðum færslum og rúmlega 58.000 góðum gestum síðar er ég enn að, þótt þetta hafi í upphafi átt að vera einhverskonar tilraunastarsemi. Fyrstu mánuðina komu hér fáir enda tekur tíma að grundvalla blogg. 

Um leið og ég þakka lesendum og bloggvinum "samvistirnar", "samræðurnar" og "samstöðuna" á þessu tímabili bíð ég í smá blogg-veislu af tilefni dagsins. Ég ætla sem sagt að birta nokkur blogg í dag með jöfnu millibili en ég lofa því jafnframt að þau verða ekki þungmelt.

Hér í lokin, endurbirti ég fyrsta bloggið sem mér finnst bara ágætt enn, þrátt fyrir ellina. Góðar stundir.

Shakespear og Biblían

  shakespear_william             biblia

Þegar að þýðingu The King James Biblíunnar var lokið árið 1610 var William Shakespear 46 ára.

Sumir halda fram að William hafi komið nálægt þýðingu hennar og sett mark sitt á hana með því að fela nafn sitt í 46. Sálmi.

Fertugasta og sjötta orð sálmsins er "shake" og fertugasta og sjötta orð talið frá enda sálmsins er "spear". Ekki á að telja viðbótarorðið "selah" með, enda seinni tíma viðbót.

Dæmið sjálf;

 Psalm 46... 1God 2is 3our r4efuge 5and 6strength, 7a 8very 9present 10help 11in 12trouble. 13Therefore 14will 15not 16we 17fear, 18though 19the 20earth 21be 22removed, 23and 24though 25the 26mountains 27be 28carried 29into 30the 31midst 32of 33the 34sea; 35Though 36the 37waters 38thereof 39roar 40and 41be 42troubled, 43though 44the 45mountains 46shakewith the swelling thereof. Selah. There is a river, the streams whereof shall make glad the city of God, the holy place of the tabernacles of the most High. God is in the midst of her; she shall not be moved: God shall help her, and that right early. The heathen raged, the kingdoms were moved: he uttered his voice, the earth melted. The LORD of hosts is with us; the God of Jacob is our refuge. Selah. Come, behold the works of the LORD, what desolations he hath made in the earth. He maketh wars to cease unto the end of the earth; he breaketh the bow, and cutteth the 46spear 45in 44sunder; 43he 42burneth 41the 40chariot 39in 38the 37fire. 36Be 35still, 34and 33know 32that 31I 30am 29God: 28I 27will 26be 25exalted 24among 23the 22heathen, 21I 20will 19be 18exalted 17in 16the 15earth. 14The 13LORD 12of 11hosts 10is 9with 8us; 7the 6God 5of 4Jacob 3is 2our 1refuge. Selah.

Svindl, svik og prettir

victor-lustigHann varð frægur fyrir svindl sín og pretti á fyrrihluta síðustu aldar og vann sér m.a. til sinnar vafasömu "frægðar" að selja Eiffel turninn í París og svindla talverða upphæð út úr einum þekktasta glæpamanni allra tíma; Al Capone.

Victor Lustig var fæddur í Bóhemíu 1890. Það fer fáum sögum af uppvexti hans eða æskuárum. Honum skýtur upp í mið-Evrópu skömmu eftir heimstyrjöldina síðari, að því er virðist þegar fullharðnaður glæpamaður.

Fyrsta svindl Lustigs var svo kölluð "peninga-prentvél." Hún minnir um margt á viðskiptahætti íslenskra banka í seinni tíð.  Vélin sem Lustig seldi venjulega fyrir 30.000 dollara, stórfé á þeim tíma, var svartur kassi. Þegar hann sýndi kassann, kvartaði hann mikið yfir því hversu hæggeng vélin væri því það tæki hana sex tíma að prenta einn hundrað dollara seðil. Það virtist ekki letja gráðuga viðskiptavini Lustigs sem eftir að hafa keypt vélina horfðu á hana spýta úr sér tveimur hundrað dollara seðlum yfir næstu tólf tímana. En eftir það komu úr henni aðeins auðir pappírssneplar. Þegar að kaupendur vélarinnar gerðu sér loks grein fyrir að þeir höfðu verið illilega gabbaðir, var Lustig auðvitað hvergi að finna.   

Á árunum eftir heimstyrjöldina fyrri, voru miklir uppgangstímar í Frakklandi. Dag einn árið 1925, las Lustig blaðagrein um hversu erfitt það væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins. Turninn hafði ekki verið málaður nýlega og leit afar illa út. Hjá Lustig fæddist hugmynd sem hann hrinti fljótlega í framkvæmd.

101520-9Hann lét útbúa fyrir sig bréfsefni með haus ríkisins og sendi síðan eigendum sex járn og stál endurvinnslu fyrirtækjum boð um að hitta sig á tilteknum tíma á einu flottasta hóteli París borgar Hotel de Crillon. Lustig kynnti sig fyrir þeim sem skrifstofustjóra póst og fjarskipta ráðuneytisins. Hann sagði hinum sex virtu fyrirtækjaeigendum að þeir hefðu verið valdir til að bjóða í ákveðið verkefni á vegum stjórnvalda, vegna þess hve gott orð fór af þeim og starfsemi þeirra. Að svo mæltu hóf Lustig að skýra hversu erfitt væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins og nú væri svo komið að ákveðið hafi verið að rífa turninn og selja efnið í brotajárn. Það yrði að ganga að þessu fljótt og snurðulaust því annars mundi almenningur e.t.v. reyna að koma í veg fyrir verkið og þess vegna væri líka nauðsynlegt að halda málinu leyndu. Lustig sagði að sér hefði verið falin umsjá verkefnisins og að finna fyrirtæki sem gæti unnið verkið.

eiffel-tower-landmark-3Árið 1925 var þessi hugmynd kannski ekki eins fjarri raunveruleikanum og hún virðist í dag. Eiffel turninn var reistur í miðborg Parísar árið 1889 fyrir heimssýninguna sem þar var haldin sama ár. Honum var ekki ætlaður varanlegur staður þar sem hann stendur og yfirgnæfir aðrar byggingar og merk minnismerki eins og Sigurbogann og Gotnesku dómkirkjuna. Ætlunin var að taka turninn niður árið 1909 og endurbyggja hann á minna áberandi stað.

Lustig gaf sér góðan tíma til að mæla út hver fyrirtækjaeigendanna væri líklegastur til að bíta á agnið en bað um að tilboðum yrði skilað daginn eftir fundinn. Þá þegar hafði Lustig ákveðið fórnarlambið. Andre Poisson var greinilega þeirra óreyndastur og virtist ekki eiga heima meðal hinna kaupsýslumannanna. Að landa slíkum samningi og nú var í boði mundi lyfta honum upp um nokkur sæti í viðskiptaheiminum.

Z1809E~Paris-Street-circa-1925-PostersÞrátt fyrir að eiginkona Poissons hefði ákveðnar efasemdir um hvernig staðið var að útboðinu, náði Lustig að róa hana. Hann fullvissaði Poisson hjónin en frekar þegar hann trúði þeim fyrir því að hann hefði ákveðnar "umfram væntingar" til útboðsins þar sem hann mundi velja það fyrirtæki sem væri til í að umbuna hinum sjálfum fyrir vikið. Poisson var vanur að eiga við lágt setta undirmenn sem auðvelt var að múta til að hagræða verkefnum og því fannst honum Lustig hljóma afar sannfærandi.

Að svo búnu voru Lustig afhentir peningarnir fyrir "brotajárnið" og múturnar að auki. Með peningana í ferðatösku tók hann næstu lest til Vínar ásamt "ritara" sínum Robert Arthur Toubillion (fransk-amerískum svindlara) sem einnig var þekktur undir nafninu Dan Collins.

Þrátt fyrir að vera svona illa svikinn fannst Poisson svo skammarlegt að hann hafði látið blekkja sig, að hann kærði ekki Lustig til lögreglunnar. Mánuði síðar snéri Lustig aftur til Parísar og reyndi sama leikinn aftur við sex aðra kaupsýslumenn. Í þetta sinn þóttist einn þeirra greina óhreint mjöl í pokahorninu og kallaði til lögreglu. Bæði Lustig og Collins tókst samt að komast hjá handtöku.

capone6Það leið ekki á löngu uns Lustig ákvað að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum. Hann fékk hinn fræga gangster Al Capone til að fjárfesta 50.000 dollara í verðbréfum. Lustig tók peningana og geymdi þá í bankahólfi í tvo mánuði. Að svo búnu tók hann þá aftur út og afhenti Al Capone þá. Hann sagði viðskiptin hafa farið illa en tekist fyrir harðfylgi að bjarga upphaflegu fjárfestingunni. Al var svo hrærður yfir heiðarleika Lustigs að hann gaf honum 5000 dollara.

alcatrazÁrið 1934 var Lustig handtekinn af bandarísku alríkislögreglunni fyrir peningafals. Degi fyrir réttarhöldin yfir honum flýði hann úr fangelsinu í New York þar sem hann var hýstur. Hann náðist 27 dögum seinna í Pittsburgh. Hann játaði sekt sína fyrir dómi og dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Alcatraz. Eftir 14 ára fangavist fékk hann slæma lungnabólgu og lést af henni í fangelsissjúkrahúsinu 11. Maí 1947.


Í ísnum

 Fyrir nokkrum árum fundust á vesturströnd Grænlands tvær álftir, saman frosnar í jöklinum. Rannsóknir leiddu í ljós að álftaparið hafði frosið til dauða fyrir meira en 20.000 árum. Á leið þeirra yfir Atlantshafið frá Norður Ameríku til Evrópu, virðist annar vængur kvenfuglsins hafa laskast svo þau urðu að nauðlenda á Grænlandsjökli. Álftirnar voru svo vel varðveittar að hamir þeirra voru stoppaðir upp og eru nú til sýnis í náttúrugripasafninu í Kulusukk.  

Einþáttungur

Persónur:

Hann

Hún

Ókunnur maður.

Karlmannsrödd. 

Sviðið er afar þröngur íshellir einhverstaðar á Grænlandsjökli. Upp úr snjónum fyrir ofan hellinn sést í brak úr lítilli flugvél.  

 

Hann Mér er kalt 

Hún Já. Það er komið að því. Við erum að deyja 

Hann Eins og það sé einhver afsökun. Maður er alla ævina að deyja, en það þýðir ekki að manni eigi alltaf að vera svona skít kalt. 

Hún Mikið ertu heimskur. 

Hann Þú ert bara búin að missa móðinn. 

Hún Ég sem hélt að þú værir raunsæismaðurinn. 

Hann Á maður ekki að fyllast einhverri ró þegar að dauðinn horfir í augun á manni.  

Hún Nei, það gerist ekki fyrr en maður horfir óhræddur til baka. 

Hann Ertu þá að stara í glyrnurnar á honum núna. 

Hún (Brosir) Já ætli það ekki. Allavega er ég ákaflega róleg. 

Hann Fari það í helvíti. Djöfull er kalt. Eigum við ekki að syngja eitthvað. 

Hún Ég get ekki sungið meira. 

Hann (Byrjar að blístra en getur það ekki) Geturðu þá ekki komið nær. 

Hún Til hvers. 

Hann Reyna að halda á hvert öðru hita. 

Hún Er það ekki fullreynt. Nei. Ég er tilbúin held ég. 

Hann Þú varst alltaf tilbúin, nema þegar að ég var tilbúinn. Þá varstu annað hvort farinn eða hreint ekki byrjuð að hafa þig til. 

Hún Já og allt það. Við erum búin að fara svo oft yfir þetta. Það er ekkert eftir ósagt. 

Þögn 

Hann Á hvað ertu að horfa 

Hún Bara á snjóinn...snjókornin. 

Hann Þau eru allt of mörg greinilega. Eru þau ekki öll eins. 

Hún (Hlær) Eins! Þú gekkst í skóla var það ekki. Last bækur.   

Hann Jú mikið rétt. Bækur og blöð, allt um frost og snjó. 

Hún Æ góði láttu ekki svona. Það vita allir að engin tvö snjókorn eru eins. 

Hann Og það sérð þú núna alveg greinilega er það ekki. 

Hún Ég sé að þetta er búið. 

Hann Er ekkert sem skiptir máli lengur. 

Hún Það sem skiptir máli, kemur okkur ekki lengur við. 

Hann Þú ert sem sé búin að gefast upp. 

Hún Þetta er ekki einu sinni spurning um uppgjöf, heldur að horfast í augu við það sem er. 

Hann Er þér ekki lengur kalt. 

Hún Auðvitað er mér kalt. Sérðu ekki að ég er að deyja úr kulda. 

Hann Er ekki sagt að hugurinn sé það fyrsta sem fer. 

Hún Það er svo margt sem er sagt. 

Hann Mér finnst ég aldrei hafa hugsað skýrar. 

Hún Það er örugglega merki þess að hugurinn er að fara. 

Hann Sem þýðir að allt þetta getur bara blekking. 

Hún Ég er þreytt. Ég vil ekki að tala meira. 

(Það heyrist marra í snjónum) 

Hann Hvað er þetta? 

Hún Hvað? 

Hann Þetta hljóð 

Hún Hvaða hljóð, ég heyri bara í vindinum. 

Hann Nei, ég heyrði eitthvað. 

Hún Hugurinn er að fara eins og ég sagði. 

Mannsrödd (Í fjarlægð) Halló, er einhver þarna. 

Hann Heyrðir þú þetta ekk? 

Hún (Hrópar af veikum mætti) Halló, við eru hér. 

Hann(Hrópar líka) Heyrirðu í okkur. Halló. 

Mannsrödd (Nálgast) Halló, er einhver hér. 

Hún (Hrópar hærra) Halló, Halló. 

Hann(Hrópar hásri röddu) Við eru hér. 

Mannsrödd (Röddin fjarlægist) Halló er einhver hérna. Halló. Halló  

Hann Við erum hér. Ekki fara. Hér. (Reynir að standa á fætur) 

Hún Ha. Hall. (Röddin brestur) 

Hann (Byrjar að kjökra) 

Þögn 

Hún Er hann farinn 

Hann (Í gegnum kjökrið) Hvað veit ég um það. 

Hún Af hverju grætur þú?

Hann Ég er ekkert að gráta. Ég var að reyna að kalla. (Reynir aftur að kalla) Halló! 

Hún Hann er farinn 

Hann Heyrðir þú ekki örugglega í honum líka. 

Hún Hvaða máli skiptir það núna. 

Hann Þetta var ekki nein ímyndun hjá mér. 

Hún Og hvaða máli skiptir það. 

Hann (Reiður) Þú ert ekki dauð enn. Það er svona hugsunarháttur sem drepur okkur. 

Hún Hvað erum við eiginlega búin að vera hérna lengi? 

Hann (Lítur á úrið sitt) Það er kominn sjötti. 

Hún Sjötti.... Manstu þarna þegar að þú sofnaðir og þegar þú vaknaðir aftur hélstu að þig væri að dreyma. 

Hann Já, hvenær var það, í gær. 

Hún Manstu hvað þú varst hræddur. 

Hann Hræddur. Hvenær. 

Hún Nú þegar þú vaknaðir og hélst að þig væri að dreyma. 

Hann Ég var ekki hræddur, bara dáldið skelkaður. Það er svo vont þegar maður veitt ekki muninn á svefni og vöku. 

Hún Jæja skelkaður þá. En þú varst nálægt því að örvænta. 

Hann Einmitt. Örvænta, Það hlýtur að hafa verið þarna rétt á eftir að þú öskraðir þig hása. Það var nú ekki gáfulegt. 

Hún Ég var að reyna að láta vita af okkur. 

Hann Já þegar vitað var að enginn var nálægur til að heyra í okkur. Þú varst bara hrædd. Viðurkenndu það bara. 

(Þögn) 

Hún Ég, ég , nenni þessu ekki lengur. 

Hann Viltu ekki koma til mín. 

Hún Var raunverulega einhver þarna uppi áðan.   

Hann Nei það held ég ekki. Við erum grafin í fönn einhvers staðar langt upp á Grænlandsjökli. 

Hún En heyrðum við ekki örugglega bæði það sama. 

Hann Hvað heyrðir þú. 

Hún Mann hrópa Halló. Er einhver þarna. 

Hann Ég held að ég hafi bara heyrt einhvern hrópa Halló. 

Hún En ef þetta er eitthvað rugl, þá er það ansi svipað hjá okkur báðum og svo gerðist það líka samtímis. 

Hann Ég trúi bara ekki að við höfum verið svona nálægt því að bjargast. 

Hún Stundum er lífið lygilegt. 

Hann Djöfull ertu æðrulaus yfir þessu kona. Kannski vorum bara hársbreidd frá því að bjargast. 

Hún Já, kannski. 

Hann Viltu gera mér greiða. 

Hún Ég nenni ekki að færa þér kaffi elskan. 

Hann Aaaaa, vorum við ekki búin að ákveða að tala ekki meira um mat. 

Hún Kaffi er ekki matur. Hvað viltu annars að ég geri fyrir þig. 

Hann Viltu ekki koma. Ég held að ég vilji sofna. 

Hún Þú ert að deyja. 

Hann Ég ætla bara að sofa svo lítið. 

Hún Þá ætla ég að sofa líka.

(Þau hjúfra sig upp að hvert öðru og sofna) (Sviðið myrkvast en birtir svo strax aftur. Við hlið þeirra hjóna liggur ókunnur maður, glaðvakandi. 

Hann (Opnar augun fyrst og trúir þeim varla) Hva, hver ert þú? (Maðurinn segir ekkert en brosir breitt) Hvaðan komst þú, hvernig komstu? (Teygir sig og snertir manninn, sprettur svo til þegar að hann finnur að hann er raunverulegur og hrópar.) Hver ertu? 

Hún (Vaknar upp við hrópið) Hvað, hver er þetta? Er hann raunverulegur? 

Maður Us suss, ekki vera hrædd. Hvað hafið þið svo sem að hræðast. 

Hann Eru fleiri á leiðinni. 

Maður Nei, ég er einn. 

Hún Ertu kominn til að bjarga okkur. 

Maður Já, til að bjarga ykkur. (Hlær) 

Hann Ertu á einhverju farartæki sem getur tekið okkur öll. 

Maður Nei. Ekki beint. 

Hún Nú, hvernig komstu þá.  

Maður Ég kom eins og vindurinn og smaug svo í gegnum snjóinn líkt og frostið. 

Hann Nú þú ert sem sé bara sameiginleg ofskynjun. 

Hún Eða kannski er hann dauðinn. 

Hann Dauðinn er ekki persóna. 

Hún Jæja þá persónugerfingur hans. 

Hann Erum við sem sagt dáin. 

Maður Nei, ekki alveg, en við dauðans dyr. 

Hún Ertu sem sagt kominn til að taka okkur héðan. 

Maður Nei, það ætla ég ekki að gera. 

Hann Hvað þá 

Maður Hvert ætti ég svo sem að taka ykkur.  

Hann Nú, þangað sem dáið fólk fer. 

Maður Það fer ekki neitt. 

Hún Ertu að segja að eftir að við deyjum verðum við áfram hérna. 

Maður Það má segja að ég sé að segja það já. 

Hann Mér er hætt að vera kalt. 

Hún Já ég veit, en samt. 

Hann Ertu þá bara að látra okkur vita að við séum að deyja. Við vissum það nú fyrir. 

Maður Nei þið bara hélduð það. Nú eftir að ég kom vitið þið það fyrir víst. 

Hún Ég var alveg viss. 

Maður Jæja þá er komið að þessu 

Hann (Hlægjandi) Hverju,að deyja.  

Maður  

Hún Mér finnst ég vera meira lifandi en nokkru sinni eftir að við lentum hérna. Bara hress. 

Hann Ég líka. Svefninn hefur endurnært okkur. 

Maður Þetta er í bara dauða-tifinningin sem er að koma yfir ykkur. Dauðateygjurnar eins og sumir kalla það. 

Hann Það getur bara ekki verið, ég er svo fjári hress.  

Hún Ef þetta er að deyja, er það ekki svo slæmt. 

Maður Þetta er að deyja. 

(Þögn og rýmið utan um þau hverfur) 

Hann Erum við dáin.  

Maður  

Hann (Hlær) Þetta er nú bara fyndið. 

Hún Ég ætla að prufa að klípa mig. Ef ég er dáin get ég ekki fundið til, er það. (Klípur sig, finnur ekkert, klípur sig aftur og svo hann) Finnur þú eitthvað. 

Hann Þetta er nú ekkert að marka. Við erum svo dofin af kulda að við finnum ekkert fyrir svona smá klípum. 

Hún Einmitt. Og ef við erum dáin, hvað ert þú að hangsa hér. Er ekki nóg af fólki að deyja þessa stundina sem þú átt að vera að sinna. 

Maður Ég er að fara. Ætlaði bara að vera viss um að þið væruð búin að átta ykkur. 

Hann Átta okkur. Á hverju eigum við að átta okkur. 

Maður Á að þið séuð dáin. 

Hún Bíddu nú við. Það er eitthvað í gangi hérna sem ég ekki skil. Við erum sem sagt dáin, en finnst við vera lifandi eða hvað. 

Maður Þið eruð dáin. 

Hann Auðvitað. Erum við sem sagt núna í lífinu eftir dauðann. 

Maður Já. 

Hún Og hvar er þá þarna eh, himnaríki. 

Maður (Hlægjandi) Afsakið, en ég fer alltaf að hlægja þegar fólk spyr að þessu. 

Hann Hvað er svona hlægilegt, erum við kannski ekki nógu góð fyrir himnaríki. 

Maður Heldurðu að þú sért á leiðinni til helvítis kannski (Hlær meira) 

Hann Af hverju ertu þá að hlægja 

Hún Heldurðu að við séum einhverjir kjánar. 

Maður (Stendur upp og gengur rólega af sviðinu) Nei, nei, þið misskiljið þetta eins og flestir. Þið eruð ekki að fara neitt, ekki á neinn stað. Finnið þið ekki hvað allt er,,, segjum óraunverulegt. Eins og í draumi.. 

Hún Er okkur sem sagt að dreyma. 

Maður Nei skynjun ykkar er eins og í draumi en þið eruð dáin.

(Þau horfa bæði á eftir manninum um stund)

Hún (Byrjar að hlægja og stendur upp og gengur af sviðinu) Veistu, ég held að ég nenni ekki að hanga lengur hér. 

Hann (Stendur upp og fer á eftir henni) Bíddu, bíddu ég er að koma.


ZANA; frumkvendið ógurlega frá Georgíu

GeorgiaUm miðja nítjándu öld fönguðu veiðimenn í  Ochamchir héraði í Georgíu "villta konu". Eftir að hafa gengið kaupum og sölum í nokkurn tíma, endaði hún upp sem eign aðalsmanns sem hét Edgi Genaba en hann bjó í þorpi nokkru sem heitir Tkhina. Þessi villta kona hafði mörg einkenni frummanna.

Hún var afar þrekin yfir herðar, brjóst og lendar og með miklu sverari handleggi og fingur en venjulegir menn.  Hörund hennar var dökkt og hún var alþakin dökkrauðu hári. Höfuðhár hennar var þykkur ókembanlegur rauður makki sem náði langt niður á breitt bakið. Andlitið var breiðleitt, ennið lágt og kinnbeinin afar há, nef hennar flatt og nasaholur útvíðar. Hún var stórmynnt og með hvítar stórar tennur. Kjálkarnir voru svo öflugir að hún lék sér að því að brjóta með þeim hörðustu gerð af hnetum.

Konan sem nefnd var Zana af þeim sem fönguðu hana, var svo hættuleg og ofbeldisfull að henni var komið fyrir í búri þar sem hún var látin hafast við í þrjú ár uns hún vandist umgengni við venjulegt fólk. Hún gróf sér holu í búrinu og hafðist við í henni og hagaði sér að öllu leiti til að byrja með eins og villidýr.

Matnum var kastað inn í búrið til hennar en henni þóttu þrúgur afar góðar og svo er að skilja að henni hafi einnig þótt vín gott því hún drakk af því ótæpilega þegar henni var gefið það og lá svo sofandi eftir í marga tíma. Eins og Colin Wilson bendir á í bók sinni The Encyclopedia of Unsolved Mysteries er Þetta er líklega ástæðan fyrir því hversu Zana eignaðist mörg ósamfeðra börn. Zana var að endingu "tamin" og gert að vina einföld störf eins og að mala bygg. Hún lærði aldrei stakt orð af mannamáli en tjáði sig með umli og öskrum þegar eitthvað virtist pirra hana. Hún virtist þola kuldann ótrúlega vel en gat aftur á móti ekki hafst við í upphituðum vistarverum.

abkhaziafljótZana lifði meðal þorpsbúa í mörg ár án þess að á henni sæjust nokkur ellimörk. Hún hélt tönnum sínum og hár hennar gránaði ekki. Afl hennar virtist ofurmannlegt. Hún lék sér að því að lyfta með annarri hendi 80 kílóa þungum sekkjum og ganga með þá í sitt hvorri hendi upp allbratta hæð þar sem milla þorpsins stóð. Á hlaupum gat hún haldið í við hvaða hest sem var og hún synti oft í ískaldri ánni.

Á nóttum eigraði hún um nærliggjandi hæðir og bar þá lurk í hendi sem hún notaði til að berja frá sér hunda og önnur dýr sem urðu á vegi hennar. Hún át allt sem að kjafti kom og átti það til að sveigja niður á jörð greinar sem báru ávexti, á meðan hún úðaði þeim í sig. Hún virtist hugfangin af steinum og lék sér stundum að því að berja þeim saman svo þeir sprungu í tvennt. Henni var illa við allan klæðnað og fór yfirleitt um nakin. Flestir voru hræddir við Zönu en húsbónda sínum hlýddi hún ætíð.

khwitBörn Zönu dóu flest þegar hún reyndi að baða þau upp úr helkaldri ánni sem rann fram hjá , þorpinu þar sem hún dvaldist. Eftir að fullreynt þótti að Zana væri óhæf til að ala önn fyrir börnum sínum, hófu þorpsbúar að taka frá henni börnin strax eftir fæðingu og ala þau upp sem sín eigin. Fjögur börn hennar, tveir drengir og tvær stúlkur, þroskuðust eðlilega og gátu ólíkt móður sinni tjáð sig eins vel og hvert annað fólk. Elsti sonur hennar hét Dzhanda og elsta stúlkan Kodzhanar. Yngri drengurinn var nefndur Khwit og yngri stúlkan Gamasa. Öll eiga þau afkomendur sem búa víðsvegar um Abkhazia hérað enn í dag.

Snemma kom upp sá kvittur að eigandi Zönu, óðalsbóndinn Edgi Genaba væri sjálfur faðir Gamasa og Khwit þrátt fyrir að vera gefið eftirnafnið Sabekia í manntölum frá þessum tíma.

 Zana lést árið 1890 og var þá grafin í fjölskyldugrafreit bóndans þar sem yngstu börn hennar hvíla líka. Yngsti sonur hennar Khwit, dó ekki fyrr en árið 1954.

Saga Zönu var skrásett af Professor Porchnev sem tók viðtöl við fólk sem enn mundi eftir Zönu en það elsta sagðist vera meira en hundrað ára gamalt. Professor Porchnev tók einnig viðtöl við barnabörn Zönu sem áttu það sameiginlegt að vera öll mjög dökk á húð og hár. Eitt þeirra, karlmaður Shalikula að nafni, hafði svo sterklega kjálka að hann lyft með munninum fullorðnum manni sitjandi á stól. zana-sonkhwit-tm

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að finna líkakleyfar Zönu en þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Dmitri Bayanov gerði þrjár tilraunir á árunum 1971-1978 og tókst aðeins að finna höfuðkúpu Khwit, yngsta sonar Zönu. Rannsóknir  M.A. Kolodievea við Moscow State University Institute of Anthropology leiddu í ljós að höfuðkúpan er í mörgum atriðum afar frábrugðin öðrum Abkhazis kúpum sem í safninu eru að finna. Í vestur Kákassus fjöllum er talið að lifað hafi ætt frummanna sem nefnd er Abnauayu. Það er álit sumra að Zana hafi verið síðasti eftirlifandi einstaklingur þeirrar mannsættar.


The man in black með skilaboð til Íslendinga

Það eru margir sem spreyta sig á því að koma orðum að því sem hefur verið og er að gerast í íslensku samfélagi. Ég er löngu hættur að reyna það, enda virðist sem nánast allar upplýsingar sem fram koma vera annað hvort misvísandi eða ófullnægjandi ef ekki beinlínis rangar. Bláa höndin bendir en allar litlu gulu hænurnar segja "ekki ég" og áfram heldur sýningin.

Hér á eftir fara fjögur tólistarmyndbönd sem mér finnast koma mörgu af því til skila sem svo margir reyna að tjá um þessar mundir. Þessi fjögur lög eiga það líka sameiginlegt, að mínum mati, að vera miklu betur flutt hér heldur en frumútgáfur þeirra voru. En það er auðvitað smekkatriði.

Nú er bara að slaka á og hlusta á frábæra listamenn flytja frábærar tónsmíðar við texta sem tala til okkar betur nú en oft áður.

Fyrst kemur "The man in Black" Johnny Cash með lag Trent Reznor HURT. Reznor sagði eftir að hafa heyrt lagið í flutningi Cash; "Þetta er ekki mitt lag lengur".

 

Næsta kemur lagið REDEMPTION SONG eftir Bob Marley hér í flutningi Joe Strummer.

 

Allar nafnabreytingarnar á bönkunum og hugmyndirnar um að rétt sé að kalla landið  "Nýtt Ísland" leiddi hugann að þessu skemmtilega lagi sem upphaflega var flutt af The Four Lads en er hér sungið af They Might be Giants. Lagið er að sjálfsögðu INSTANBUL (Not Constantinople)

Að lokum sígildur ástaróður eftir Prince og hér í flutningi Sinead O´Connor. "NOTHING COMPARES TO YOU" sem ég held að sé enn og verði ávalt sú tilfinning sem sterkust er gagnvart landinu þegar allt kemur til alls.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband