11.2.2009 | 14:55
Dagur Rauðu handarinnar
Dagur Rauðu handarinnar er 12. febrúar er alþjóðlegur minningardagur sem settur var til að minnast og draga athygli að örlögum barna sem neydd eru til að taka þátt í hernaði sem hermenn í stríðum og vopnuðum átökum. Tilgangur dagsins er líka að kalla á aðgerðir á móti þessu athæfi og sýna stuðning við börn sem verða fyrir þessari grófu misnotkun.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að rúmlega 200.000 börn undir fimmtán ára að aldri séu undir vopnum í heiminum í dag. Flest þeirra tilheyra uppreisnarhópum og vígasveitum líkum þeim sem finna má í Eþíópíu, Afganistan og Burma. Meðal þeirra landa sem alræmd eru fyrir slíka misnotkun barna eru Alþýðulýðveldið Kongó, Rúanda, Úganda, Súdan, Fílbeinsströndin, Mjanmar, Filippseyjar, Kólumbía og Palestína.
Dagur Rauðu handarinnar var stofnsettur árið 2002 þegar að viðbót við mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna tók gildi þann 12. febrúar það ár en hann hafði verið samþykktur af allsherjarþingi SÞ í maí árið 2000. Sem stendur hafa 92 ríki undirritað sáttmálann. Mörg alþjóasamtök beita sér fyrir afnámi barnahermennsku og þar á meðal eru UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) Amnesty International, Terre des Hommes og Alþjóðlegi Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn.
Enska orðið yfir fótgönguliða "Infantry" er dregið af franska orðinu yfir barn. Tengining varð til vegna þess að yfirmenn vildu að fótgönguliðar þeirra væru undirgefnir og hlýddu boðum yfirmanna líkt og börn. Börn eru vissulega óvanari sjálfstæði og því tilleiðanlegri en fullorðið fólk.
12. febrúar er einnig afmælisdagur tveggja merkra manna sem fæddir eru sama ár, 1809 og því eru rétt 200 ár liðin frá fæðingu þeirra. Báðir höfðu mikil varanleg áhrif á hugmyndir mannkyns og endurmótuðu viðhorf þess um hvað það er að vera mennskur. Segja má að hugmyndir þeirra hafi báðir haft með frelsi okkar sem manneskja að gera, þótt þeir hafi nálgast viðfangsefni sín á gjörólíka vegu. Annar þeirra var fæddur í Englandi og hét Charles Darwin en hinn var fæddur í Bandaríkjunum og hét Abraham Lincoln.
8.2.2009 | 16:55
Af tilraunum til fjallaflutninga og fleira
Mörg orðatiltæki sem við notum í daglegu tali eiga rætur sínar að rekja til trúarbragðanna. Sum hafa kaupmenn og þjónustufyrirtæki tekið upp á sína arma og gert að slagorðum sínum í auglýsingum.
Þá eru frægar skírskotanirnar fyirtækja til trúarstefja eins og t.d. naglagerðin sem birti mynd af Kristi á krossinum og undir henni stóð; "Þeir halda naglarnir frá Vírneti."
"Af ávöxtunum þekkirðu þá" auglýstu nýlenduvöruverslunin Silli og Valdi lengi vel og vitnuðu þar til Biblíuversins úr Mattheusarguðspjalli. (Skemmtilegt og gildishlaðið orð; NÝLENDUVÖURUVERSLUN)
Fyrri hluti tilvitnunarinnar gæti samt vel átt við ákveðna tegund kaupahéðna sem margir hafa kvartað yfir á síðasta misseri.
15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. 16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.
Sendibílastöðin sem auglýsti hér áður fyrr; Trúin flytur fjöl, við flytum allt annað, og vitnaði í annað Mattheusarvers;
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum 15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín." 18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
Þessi saga er um margt merkileg og það væri gaman að fara einhvern tímann í góðu tómi yfir allt það sem hún segir frá og gefur til kynna. Mustarðskornið er einkar áhugaverð líking enda notað aftur í afar svipaðu dæmi þegar Kristur segir Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður." Þetta minnir dálítið á íslensku öfugmælavísurnar en það er víst önnur saga.
Svo skemmtilega vill að annar Guðsmaður, ákvað tæpum 600 árum seinna að láta reyna á þau orð Krists að trú geti fengi fjöll til að færast úr stað og frá þeirri tilraun er komið annað orðatiltæki sem fólk á Íslandi notar nokkuð mikið í seinni tíð.
Sagan og orðatiltækið sem henni tengist, berst trúlega til Íslands frá Englandi þar sem það kemur fyrst fyrir í ritgerð eftir Francis Bacon; "Of boldness", árið 1625. Bacon notar reyndar útgáfu sem alþekkt var um sama leiti sem máltæki á Spáni og hljómar svona; "Ef hæðin vill ekki koma til Múhameðs mun Múhameð fara til hæðarinnar." Enska orðið "hill" breyttist einhvern tíman í "mount" og þar með varð hæðin/hóllinn að fjalli.
Orðatiltækið á upphaflega rætur sínar að rekja til íslamískrar arfsagnar þar sem sagt er frá því þegar að Múhameð er beðinn að gera eitthvert kraftaverk sem ótvírætt mundi sanna guðdómleika kenninga hans. Hann bað Guð um að flytja til sín hæð nokkra sem heitir SOFA og rís skammt frá Mekka.
Þegar að hæðin haggaðist ekki sagði Múhameð það ótvírætt bera miskunn Guðs vitni því ef hún hefði tekist á loft og flogið til þeirra, mundu allir hafa grafist undir henni. Múhameð gekk því til hæðarinnar til að flytja þar Guði lofgjörð fyrir náð hans og miskunn.
8.2.2009 | 05:05
Framboð og fyrirspurn til þín
Óðum tínist til mannafli í flokksframboðin. Hér gilda allt önnur lögmál en í venjulegum mannlegum samskiptum. Það virðist ekkert samhengi milli framboðs og eftirspurnar.
Það úir og grúir af "nýju" fólki með "nýjar" samviskur (oftast samt með gamalkunn andlit), sem sækist eftir að fá að taka virkan þátt í að byggja upp "nýja" Ísland. Í baklöndunum góðu er þokunni óðum að létta og allir segjast glaðbeittir hafa kannað þau, hugrakkir og fífldjarfir eins og fyrstu pólfararnir forðum.
Fólk er óðum að koma sér fyrir í gamalkunnum og vel skipulögðum skotgröfum þar sem því líður vel meðal já-vina sinna í flokknum. Klisjurnar fljúga manna á millum og allt er aftur eins og það var. Ég dáist að hugrekki þessa fólks sem þorir raunverulega að mæta sjálfu sér í speglinum þegar það velur lit á bindi eða blússu sem hæfir dagverkinu, eftir allt sem á hefur gengið. Það þarf alvöru hugrekki til þess.
Nú morar allt í tilkynningum frá þessu fólki í fjölmiðlum og á blogginu. Framboðspistlarnir þar sem allir lofa ábúðarfullir að lofa engu sem þeir ætla ekki að efna og lofa því engu, eru þegar orðnir daglegt brauð, enda ekki ráð nema í tíma sé tekið, flokksþingin öll á næsta leiti og nýta þarf Gróu gömlu frá sama bæ til hins ýtrasta.
Brátt verður bloggið sprengfullt af mosagrænum og digrum en samt fúnum framboðsgreinum, flúruðum pólitísku hjali og skreyttum gljáandi vel lýstum myndum af framboðsfólkinu sem hrópa á þig; "horfðu á varir mínar".
Um leið heyrast einstaka stunur frá gömlum hrelldum sálum sem eru að draga sig í hlé, sármóðgaðar yfir öllum þessum hávaða frá fólki sem leyfir þeim ekki að verða sjálfdauðar í embættisstólunum. En þær vissu jú að póli-tíkin er ekki sú trygglyndasta í hverfinu.
Og fólk er sem sagt farið að kannast við sig í Kjósinni.
En hvað varð um þær fjölmörgu háværu raddir sem hrópuðu hátt og kröfðust þess að flokksræðið yrði lagt af með öllu? Hvar eiga þær heima á þessu "nýja" flotta flokkspólitíska Íslandi sem búsáhaldabyltingin virðist vera smátt og smátt að samþykkja eftir að "réttu" flokkarnir komust að í ríkisstjórn?
Kannski finna þær heimili sitt á auðu seðlunum sem skilað verður í komandi kosningum. Og kannski finna þær aftur tóninn þegar í ljós kemur að ekkert hefur í rauninni breyst og að flokksræðið blívur...nú sem fyrr.
Ef að kosið verður til stjórnlagaþings á þann hátt sem nú liggur fyrir, hversvegna er ekki hægt að breyta stjórnarskrá svo það verði kosið til alþingis með sama hætti og svo kallaðir meiri og minnihlutar á alþingi verði lagðir niður áamt öllu flokkakerfinu?
7.2.2009 | 18:08
Golliwogg og tvískynungur BBC
Myndin er af þeirri tegund brúðu sem kölluð er Golliwogg. (Seinna Golliwog) Brúðan er eftirmynd af sögupersónu í barnabókum eftir Florence Kate Upton sem gefnar voru út seint á 19. öld og nutu þá mikilla vinsælda í Betlandi, Bandríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Sumar heimagerðar Golliwogg dúkkur voru kvenkyns en yfirleitt voru þær alltaf karlkyns eins og upprunalega sögupersónan.
Fljótlega var byrjað að nota orðin Golliwog og "wog" sem uppnefni á þeldökku fólki og sem slíkt breiddist notkun þess orðs víða út.
Fyrir nokkru notaði Carol Thatcher, ein af stjórnendum BBC sjónavarpsþáttarins One show, þetta orð um tennisspilarann Jo Wilfried Tsonga. Carol sem er dóttir fyrrverandi forsætisráðsfrúar Bretlands Margrétar Thatcher, lét orð sín falla í starfsmanna-aðstöðu sjónvarpsins (Green Room) eftir að útsendingu var lokið. Fyrir þetta hefur henni verið vikið úr starfi.
Mikil umræða hefur spunnist út af uppsögn hennar og m.a. bent á að BBC sé með á sínum snærum hálaunaða starfsmenn sem hafa það fyrir atvinnu að ganga fram af fólki með blótsyrðum og hneykslanlegum uppátækjum.
Eru í því sambandi nefndur sem dæmi Jonathan Ross sem nýlega var settur í tímabundið bann á BBC fyrir að hafa tekið þátt í klúrum hrekk ásamt grínaranum Russel Brand sem sagði upp stöðu sinni hjá fjölmiðlarisanum í kjölfarið.
Þessi tvískynungur BBC er orðin að pólitísku bitbeini því hægri sinnaður stjórnmálamaður eins og borgarstjóri Lundúna Boris Johnson sagði þessar refsiaðgerðir gegn Carol of grófar en Hazel Blears samskiptaráðsstýra í ríkisstjórn Browns hefur svarað með því að lýsa stuðningi við ákvörðun BBC.
Þá er þess skemmst að minnast að bæði Charles tilvonandi konungur Bretlands og sonur hans Andrew, notðu báðir hliðstæð uppnefni, "Sooti" (Sóti) og "Paki" um menn sem þeir umgengust. Engar kröfur hafa heyrst um að þeir eigi að segja af sér sínum störfum.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.2.2009 | 13:43
"Fall lítillar kjánaþjóðar"
Mikið er enn fjallað um Ísland á síðum dagblaðanna í Bretlandi. Í dag birtir The Daily Telegraph hálf-síðu grein þar sem m.a. er vitnað í Egil Helgason, Össur Skarphéðinsson og ónafngreindan leigubílstjóra úr Reykjanesbæ.
Fyrirsögn greinarinnar er "Fall lítillar kjánaþjóðar"(Downfall of a foolish little nation) og er hún einskonar upprifjun á því hvernig Ísland varð á örfáum árum að ramm-kapítalískri og nýfrjálshyggju verstöð í norðri og hvernig sú stefna kollsteypti á nokkrum árum íslensku efnahagslífi.
Greinin segir að allt hafi verið gert til að niðurstöður efnahagsyfirlita banka og peningastofnanna yrðu sem hagkvæmastar og sem dæmi er tekið að kílóið af þorski sem hægt var að kaupa út í búð fyrir 1200 krónur var reiknað á kr. 4000 og þá átti meira að segja eftir að veiða fiskinn.
Í loki greinarinnar er klykkt út með að vitna í orð Egils; "Á endanum vorum við lítil kjánaleg þjóð sem hélt að hún hefði fundið nýja leið til að afla peninga. En svo var ekki."
6.2.2009 | 17:07
Ólíkt hafast þjóðirnar að
Ég er eflaust að bera í bakkafullan lækinn með að skrifa eitthvað um veðurfarið hér í Bretlandi um þessar mundir. Sjaldan eða aldrei kemur betur í ljós munurinn á samfélaginu heima og hér en þegar borin eru saman viðbrögð fólks við snjókomu. Mestur snjór á suðvestur og suður Englandi í 12 ár segja fjölmiðlar. (Á íslandi mundi þetta vera kölluð föl.)
Hér í Bath eru tveir þrír sentímetrar af jafnföllnum snjó og þess vegna hefur skólum verið lokað, bílar sitja fastir, fólk kemst ekki til vinnu, og allt mannlíf gengur úr skorðum.
Fjölmiðlar keppast um að segja fólki að halda sig heima við og ef það hugsi sér til hreyfings að láta vita um ferðir sínar, taka með sér skjólfatnað og heita drykki á brúsum. Hitastigið er í kringum tvö stig!
Bæjar og borgaryfirvöld hafa keppst við að bera á götur og vegi salt og sand og nú er svo komið að allar byrgðir af þeirri ágátu blöndu eru uppurnar.
Stjórnmálamenn kvarta yfir að veðrið komi til með að kosta þjóðarbúið miljarði og aðrir benda á að það sé bara gott að bankamennirnir komist ekki til vinnu til að eyða meira af þeim aurum sem stjórnvöld hafa ausið í bankanna upp á síðkastið. Enn aðrir benda á að fólk eigi bara að slappa af og njóta veðursins og hins sjaldséða snjós.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2009 | 16:22
Tæknlilegar lausnir á andlegum vandamálum
Sumir trúa því að tæknin og vísindin get leyst flest ef ekki öll vandamál mannkynsins, svo fremi sem þeim sé bara rétt beitt. Þessi trúa er jafnan byggð á þeirri staðreynd að mörg af þeim meinum sem fylgt hafa mannkyninu í gegn um tíðina hafa verið farsællega leyst með tilkomu vísindalegar þekkingar og beitingu hennar gegn vandamálinu. Sú staðreynd sýnir sig e.t.v. best í læknisfræðinni þar sem fjöldi sjúkdóma sem áður voru jafnvel banvænir, eru nú meðhöndlanlegir.
Siðferðilegum spurningum um hvað sé tilhlýðilegt og hvað ekki, þegar kemur að því að bjarga mannslífum, auka líkurnar á langlífi og velsæld og koma til móts við misjafnar og persónulegar kröfur fólks, fækkar stöðugt eða er slegið á frest að svara þangað til þær verða einhvern veginn óþarfar.
Engin spyr lengur hvort það sé siðferðilega rétt að koma í veg fyrir arfgenga sjúkdóma með því að breyta genauppbyggingu einstaklinga. Það gerist einnig æ líklegra, að fólk geti haft áhrif á útlit og atgervi barna sinna með því að breyta genauppbyggingu þeirra.
Þá eru í dag framleiddir róbottar sem hafa þann tilgang einan að vera félagar fólks sem þarfnast félagsskapar en fær hann ekki í nægjanlegum mæli frá samferðafólki sínu. Þessir róbottar sýna viðbrögð við strokum, bregðast við augnaráði og gefa frá sér hljóð eftir því hvernig þeir eru snertir. Allar siðferðislegar spurningar um hvort slíkt sé í lagi eða ekki eru löngu hættar að heyrast. Hver er munurinn á Róbott og hundi ef að hvorutveggja kemur á móts við þarfir einstaklingsins?
Æðstu siðferðilegu rökin við öllum nýungum eru; að ef þau skaða engan, eru þau í lagi og hver og einn verður að meta hvað er skaðlegt fyrir hann sjálfan.
En er þetta rétt? Er ekki hægt að ganga fram af siðferðiskennd fólks svo fremi sem þessi rök halda?
Tökum sem dæmi Þetta;
Í dag geta petafílar keypt sér litlar dúkkur við sitt hæfi sem kynlífsleikföng. Þá er unnið að því að þróa róbott sem sýnir þau viðbrögð sem petafílar sækjast eftir í fórnarlömbum sínum.
Tæknilega er verið að koma á móts við ákveðið vandamál sem mikill fjöldi karlmanna á við að stríða.
Með hvaða rökum er hægt að mótmæla þessu, svo fremi sem þeir gera sér "vélmennisbarn" að góðu? Og hvar á að stöðva þróun vélmenna í þessu tilliti. Má t.d. blanda saman lífrænum vefjum við vélina til að gera hana líkari mennsku barni? -
Hverjar eru ykkar skoðanir á þessu ?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2009 | 00:06
Ég og ófullnægði homminn
Í raun þekkti ég Martin ákaflega lítið. Ég hafði hitt hann nokkrum sinnum á þessu kaffihúsi og telft við hann skák. Nú sátum við þarna, búnir að tefla nægju okkar í bili. Hann gaut á mig stórum grásprengdum augunum yfir brúnina á bollanum um leið og hann dreypti á kaffinu. Umræðuefnið fram að þessu hafði verið vandræðalegt, um eitthvað sem hvorugur okkar hafði áhuga á að halda gangandi.
Hann dæsti, setti fæturna upp á einn stólinn sem stóð við borðið og hóf að tala eins og hann væri að hugsa upphátt.
"Jamm, það er svo skrýtið. Maður þarf víst að vera svo pólitískt rétthugsandi að maður þorir varla að orða svona pælingar. Ég meina, þú veist að ég er hommi, er það ekki? Ekki eins og það leyni sér eitthvað, við höfum jú oft séð hvorn annan áður. En að maður geti talað um hugsanir sínar, opinskátt. Maður heyrir bara; God, þetta er þitt mál og hvað, er kynhneigð ekki bara einkamál hvers og eins, og allt í einu er maður komin út í eitthvað sem ekki er pólitískt rétt. Kynlífsbyltingin er búin, allt orðið gott og ekkert meira um það að segja. Allt er svo sjálfsagt og eðlilegt, sem svo þarf ekkert að vera svo sjálfsagt, alla vega ekki fyrir mig."
"Ok ég er hommi og ég veit ekki betur en að ég hafi alltaf verið hommi, öll fjörutíu árin eða þannig. Fæddur svona. Úbs, er maður nokkuð að tala af sér. Lít ég ekki út fyrir að vera soldið yngri? - En öll þessi umræða samt, hvað er eðlilegt og hvað ekki, á bak við mann þegar maður er ekki á staðnum. En ég spyr; hvernig getur eitthvað ekki verið sjálfsagt eða verið óeðlilegt ef það er hluti af mannlegum kenndum, hluti af náttúrunni og allt það. - Svo var ég að lesa grein fyrir stuttu sem fjallaði um hvernig við sem lifum í dag erum sönnun þess að gen forfeðra okkar voru þau sterkustu sem völ var á og að í okkur birtist það besta sem þessi gen hafa getað búið til fram að þessu. Og að öll genin í gegn um tíðina hafi haft það eitt að markmiði að skapa hæfari einstaklinga sem verða stöðugt hæfari til að lifa. En svo þegar kemur að mér og þá, hm, þá fremja þau erfðafræðilegt sjálfsmorð. Ef ég fylgi mínum eðlilegu hvötum, einsog ég hef gert fram að þessu, munu gen mín enda með mér, ekki satt. Sjálfsmorð, ekkert annað. Og hvað þýðir það? Að ég sé í raun líffræðilega úrkynjaður í fyllstu merkingu þess ljóta orðs? Með mér er allt í einu öllu lífslögmálinu kippt úr sambandi. Vegna þess að ég get ekki, ef ég er eðlilegum tilfinningum mínum trúr, getið af mér afkvæmi nema með einhverjum tæknibrellum. Ég get ekki skilað genunum áfram, ég er, moi, will be no more. Rétt eins og óbyrja eða ófrjór maður. En hjá þeim ráða auðvitað einhverjir náttúrulegir gallar, eða sjúkdómar. Hjá mér, ekkert, ekkert óeðlilegt. Ég er eðlilegur að öllu leiti og... ég er hommi. Samt eru gen mín dæmd til að ljúka milljóna ára þróun sinni með mér."
"Og svo er það annað. Auðvitað veltir maður fyrir sér hlutunum á marga vegu. Hvað er ást og til hvers er ástin? Mig langar að finna einhvern til að elska, einhvern, fallegan og góðan mann sem sem er ímynd karlmennskunnar líka. Alveg eins og þú vilt vera með konu sem er ímynd alls þess sem er kvennlegt. Og þarna lendi ég líka í hvað sem þú vilt kalla það, sjálfskoðunarlegri eða heimspekilegri sjálfsheldu. Sannur karlmaður er auðvitað gagnkynhneigður og vill vera með konu en ekki öðrum karlmanni. Í því felst karlmennska hans í kynferðislegu tilliti ekki satt? Ég verð því að gera mér að góðu að finna einhvern annan homma sem einnig er staddur á sama stað og ég. Manni sem finnst hann vera eitthvað annað en sannur karlmaður í þessari merkingu. Sérðu ekki að þetta virkar ekki fræðilega. Ég er karlmaður sem finnst ég vera kona og ég vil ekki vera með öðrum manni sem finnst hann líka vera kona. Auðvitað gerir maður málmiðlun, en af hverju þarf ég að gera málamiðlun en þú ekki? Af hverju get ég ekki verið fullnægður með það sem til boða stendur?"
"Þetta verður öllu flóknara að sjálfsögðu þegar við ætluðum að flokka homma og lesbíur á sömu forsendum og við flokkum gagnkynhneigða karla og konur. Til dæmis þegar ég fer í sund, fer ég auðvitað í klefa með körlum eins og lesbíurnar fara með konunum. En hvers vegna? Hver er munurinn á mér og konu, ég meina með tilliti til minnar kynhneigðar? Ætti ég ekki að fá sér klefa? Það mundi ekki einu sinni duga, ég meina þá á sömu forsendum og körlum og konum er skipt niður í klefa, að vera með öðrum hommum í klefa."
Martin þagnaði allt í einu og byrjaði að flauta eitthvað lag sem ég kannaðist ekki við og horfði á mig af og til eins og hann byggist við einhverjum andsvörum. Ég reyndi að hvað ég gat að finna einhverja veika hlekki í rökleiðingum hans, en kom ekki í augnablikinu auga á neina þótt ég vissi að þeir hlytu að vera þarna.
Mannréttindi | Breytt 3.2.2009 kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.2.2009 | 19:26
Bretar ætla að bursta Júróvisjon keppnina!
Eins og fram hefur komið í fréttum, stefna Bretar á það að vinna Júróvisjón keppnina í ár og til þess að svo megi verða fengu þeir sitt þekktasta tónskáld til að semja lagið, útsetja það og velja flytjandann.
Bretar hafa aldrei kostað meiru til en nú og fengu sjálfan Andrew Lloyd Webber til að semja lagið. Hann valdi til að flytja það, eftir hrikalega hallærislega og óspennandi útsláttarkeppni sem tók mörg laugardagskvöld, Jade nokkra Ewen.
Hún mun syngja lag Webbers "It's My Time" sem þið getið heyrt og séð hér.
Breskir gagnrýnendur segja að lagið sé vel til þess fallið að hefja upp standardinn á Júróvisjón keppninni sem reyndar er ekki sagður hár hér í Bretlandi.
En í mínum eyrum hljómar þessi ballaða eins og enn einn söngleikjasmellurinn sem Webber er svo frægur fyrir að fjöldaframleiða.
Jade hefur ágætis rödd en hún er ekki lagviss eins og heyrðist vel síðasta laugardagskvöld þegar hún var tilkynnt sem sigurvegari og flutti aftur lagið sem hún hafði flutt áður um kvöldið.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.2.2009 | 19:21
Jesrúsalem Post segir að íslenska forsetafrúin sé álitin af Íslendingum hluti af samsæri gyðinga
Jersúsalem Post birtir í dag á netsíðu sinni grein þar sem því er haldið fram að gyðingahatur fari vaxandi á Íslandi. Þá er sagt að gyðingahatur eigi sögulegar rætur á landinu og að það kunni að færast í vöxt í kjölfar kreppunnar og viðtöku vinstristjórnar. Vitnað er til ummæla Vilhjálms Vilhjálmssonar þar að lútandi og þá er einnig minnst á fréttina um reiðhjólasalann sem auglýsti að gyðingar væru ekki velkomnir í verslun sína.
Það sem ég hef ekki heyrt minnst á fyrr, en kemur fram í fréttinni, er að það hafi verið opinberlega fullyrt að forsetafrúin, Dorrit Mussaieff, sé talin af Íslendingum hluti af samsæri Gyðinga þrátt fyrir að vera eina Þjóðhöfðingjafrúin í heiminum sem er gyðingur, fyrir utan Ísrael. Orðrétt segir í greininni þar sem vitnað er í Vilhjálm.
"When the bankruptcy came, you could see people expressing a new view [about Mussaieff]," said Vilhjálmsson. "Even though she was very good for Iceland, people said that 'an Icelandic person should never have married a Jewish woman. She is part of a Jewish conspiracy.'"
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (64)
Kristin hjúkrunarkona hér í Englandi hefur verið leyst frá störfum eftir að hafa boðist til að biðja fyrir bata roskins sjúklings.
Caroline Petrie, 45, var ásökuð um að hafa ekki í heiðri jafnréttis og fjölmenningar-reglur opinberarar sjúkraþjónustu og býður nú eftir að úrskurðað verði í máli hennar.
Caroline sem vinnur við heimahjúkrun í Norður Somerset, er gift og tveggja barna móðir, finnst hún ekki vera að neyða trú sinni upp á sjúklinga með að bjóðast til að biðja fyrir þeim og að hún hafi oft gert þetta áður. Það eina sem hún óskaði væri að þeir næðu heilsu.
Sjúklingurinn sem sagði frá þessu boði Caroline kvartaði ekki undan hegðun hennar enda sjálfur kristin, en uppljóstaði þessu þegar hann var beðin um að lýsa starfsháttum hennar í venjubundnu eftirliti.
"Ég er ekki reið og ég veit að sumir trúa ekki því sama og ég, en ég er í uppnámi vegna þess að ég nýt þessa starfs og bænin er mikilvægur hluti umönnunarinnar sem ég gef." Sagði Caroline í stuttu viðtali sem ég heyrði við hana í morgun.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
1.2.2009 | 18:57
Ég og Mímí
Ég sat þögull og starði ofan í kaffibollan minn. Ekki af því mig langaði ekki að segja eitthvað, heldur af því að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Konan hinum megin við borðið tók þögn mína greinilega á þann veg að ég hefði viljugur gerst "góður hlustandi" og héllt ótrauð áfram að láta dæluna ganga.
"Auðvitað hefur maður oft fengið að heyra það; - Mímí! Ha, það lýsir þér rétt. Eins eigingjörn og þú ert nú, ha. - Veistu, ég held að fólk sé nú bara að segja þetta. Nafnið býður bara upp á það. Reyndar heiti ég nú Margrét, en það kalla mig allir Mímí. Svo getur það líka verið bara öfundsýki. Sumum finnst örugglega að ég eigi ekki skilið að hafa það sem ég hef, þú veist, bara tuttugu og átta ára og flott...he he... að reka líka tvær flottar verslanir og allt það. En það hefur sko kostað sitt. Það eru heldur ekki margir karlmenn sem sætta sig við að vera tekjuminni en konan. Ég veit ekki hvað ég er búin að deita marga sem segjast hafa einhverjar rosa tekjur og svo kemur í ljós að þeir eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Ég þoli ekki karla sem villa á sér heimildir. Þegar upp er staðið hafa þeir nákvæmlega ekkert að bjóða. Ég hitti til dæmis einn um daginn. Vá, þvílíkur looser. Ég var nýkomin úr fitusogi og var svolítið aum um mjaðmirnar. Það er alveg rosalegt hvernig hvað maður getur safnað á sig þótt maður borði eiginlega ekki neitt, eða þú veist....(Hún setti putta upp í kokið á sér)... Læknirinn sagði reyndar að þetta væri genatískt. Jæja, þessi vildi endilega bjóða mér út eitthvað, Grikkland eða eitthvað. Heyrðu, þegar hann heyrði að ég væri ekki alveg til í að sýna mig á g-strengnum enn varð hann bara fúll. Og þegar hann heyrði að ég ætti búðirnar þá spurði hann hvort ég væri ekki til í að borga í ferðinni. Ég sem hélt að hann væri að bjóða mér. Jæja, svo kom í ljós að hann var líka með einhverri annarri......Heyrðu, sérðu eitthvað hérna fyrir ofan efri vörina. Nei, kannski sést það ekki, ég reyndi nú að sminka yfir það. Gvuð, ég varð alveg brjáluð þegar ég sá þetta. Ég hef látið sprauta í varirnar áður, en núna kom bara stórt gat þar sem hann setti nálina. Sérðu eitthvað...En ef þú sérð ekkert er þetta örugglega í lagi.... Ég fór um daginn til spákonu. Ég er svo mikið fyrir svona allskonar andlega hluti. Og veistu, hún sagðist sjá að ég mundi eignast barn fljótlega. Hvernig gat hún vitað það að ég hef einmitt verið að pæla í að eignast barn? Maður verður ekkert yngri skilirðu ha ha. Málið er að maður vill ekkert vesen auðvitað, og þess vegna er ég að hugsa um að kaupa mér bara sæði úr einhverjum sæðisbankanum. Gallinn er að maður fær ekki að sjá sæðisgjafann skilurðu, þannig að maður veit aldrei hvernig hann leit út. Ég mundi sko ekki vilja einhvern ljótan. Eiginlega finnst mér að ljótir karlar ættu ekki að fá að gefa sæði. Ímyndaðu þér sjokkið maður, ef barnið væri bara eitthvað lukkutröll. En ég vil helst eignast tvö börn, því ef eitthvað kemur fyrir annað þá hefur maður alla vega hitt. Þú tryggir ekki eftir á he he he....."
Nú hringdi gemsinn minn og ég svaraði. Mímí þagnaði og leit í kringum sig. Um leið og ég lauk samtalinu sem var stutt, hélt hún áfram. Ég notaði tækifærið og smelti af henni mynd.
1.2.2009 | 02:37
Brjóstahaldadeildin
Í september 1950, komu lögreglumenn á Miami, Florida fyrir tilviljun upp um glæpahring sem stolið hafði þúsundum dollara á mörgum árum frá símaþjónustufyrirtæki þar um slóðir. Þjófarnir voru allir ungar konur úr talningardeild Southern Bell Telephone Company. Þær smygluðu peningunum út úr byggingunni með því að fela smápeningarúllurnar í brjóstahöldum sínum. Þessi blanda af ungum konum, undirfatnaði og peningum var auðvitað ómótstæðileg fyrir pressuna og sagan af "Brjóstahaldadeildinni" komst á forsíður blaðanna.
Hvernig þær gerðu það
Glæpakvensurnar nýttu sér veikleika í þeirri aðferð sem Southern Bell Telephone Company meðhöndlaði smápeninga sem safnað var úr peningasímum þess. Peningarnir voru losaðir í innsiglaða kassa og fluttir í talningadeildina. Þar tæmdu ungar konur kassana og settu þá í sjálfvirka talningarvél. Talan sem vélin sýndi var fyrsta skráða heimildin um tekjurnar.
Að minnsta kosti þrjár af konunum (kannski fleiri) sá að það var auðvelt að fylla pappírsstauka af smáaurum áður en peningarnir fóru í vélarnar og stinga þeim í brjóstahöldin. Vegna þess að peningarnir höfðu aldrei verið taldir, saknaði fyrirtækið þeirra aldrei.
Ein af brotakonunum, Betty Corrigan,sagði lögreglunni í yfirheyrslum að sumar stúlknanna hefðu troðið allt að fimm rúllum af 25 senta peningum ofaní brjóstahöldin í einu. Í hverri rúllu vori 15 dollarar svo sumar stúlknanna voru að smygla út um 150 dollurum á dag.
Þær tóku samt ekki peningana sjálfar beint út úr byggingunni, heldur fengu leyfi til að fara á salernið þar sem þær afhentu lagskonu sinni þýfið sem síðan smyglaði því út.
Hvernig þær náðust
Ef ekki hefði komið til smá atvik hefði þessi glæpur e.t.v. aldrei komist upp. Dag einn fékk lögreglan upphringingu frá átján ára stúlku, Ritu Orr sem tilkynnti að $5000 hefði verið stolið úr kommóðu heima hjá sér. Rita var mágkona Marie Orr, sem vann á talningardeildinni.
Lögreglumaður að nafni I. Ray Mills kom á vettvang til að rannsaka þjófnaðinn og á meðan að hann var á staðnum ók Betty Corrigan, ein af vinnufélögum Maríu í hlaðið. Þegar að Mills leitaði í bíl Corrigan fann í honum þrjár ferðatöskur. Í tveimur þeirra fann hann $4107 í kvartdollurum. Í þriðju töskunni fann hann nálægt $1000 í seðlum. Þegar hann spurði konuna um peningana byrjaði öll sagan að skýrast.
Þær viðurkenndu að hafa stolið þúsundum dollara frá símafyrirtækinu og notað peningana til að kaupa nýja bíla, greiða af veðlánum heimila sinna. Í vörslu Corrigan og Orr fundust áður en yfir lauk $10,000 í reiðufé. Að auki bentu þær á fjórar aðrar samverkakonur.
Það skýrðist aldrei af hverju Rita Orr hringdi í lögregluna en svo virtist sem hún hefði ekki hugmynd um glæðastarfsemi systur sinnar.
Fjölmiðlarnir
Þegar af þessu spurðist varð allt vitlaust hjá fjölmiðlum landsins allt frá austur til vestur strandarinnar. Blaðamenn kepptust um að koma upp með ævintýralegar fyrirsagnir eins og "Mál silfur svikaranna" og " Málið um klingjandi brjóstahöldin" eða " Brjóstahalda bandittarnir" en vinsælasta nafngiftin varð " Brjóstahaldadeildin"
Lögreglan áætlaði að ekki færri en 14 manns hefðu verið viðriðnar þjófnaðina , átta konur og sex menn, eiginmen eða unnustar kvennanna. Tveimur kvennanna sem voru aðal-sakborningarnir; hin 23. ára Betty Corrigan og 21. Marie Orr, var að staðaldri lýst í blöðum sem "fallegum stúlkum" með "sérlega aðlaðandi símaraddir" og myndir af þeim birtust hvarvetna.
Til að lesendur gerðu sér betur grein fyrir hvernig þjófnaðurinn hafði farið fram, fékk eitt dagblaðana sýningarstúlkuna , Marge Connors, til að sitja fyrir á ljósmynd sem sýndu hvernig brjóstahöld gátu haldið peningarúllum. (Sjá mynd)
Lagaleg blindgata
Þrátt fyrir að mikið væri um handtöku stúlknanna fjallað í fjölmiðlum, hljóp fljótlega snurða á þráð saksóknara. Lögreglan gerði sér grein fyrir að þrátt fyrir munlega játningu, voru engin sönnunargögn að finna um glæpinn. Símafyrirtækið gat ekki staðfest hversu miklu eða hvenær peningunum hefði verið stolið.
Frekar máttlaus yfirlýsing frá lögfræðingi símafyrirtækisins hjálpaði ekki. "Stúlkurnar einfaldlega stungu rúllum af eins, tíu og tuttugu og fimm senta peningum í brjóstahöld sín áður en þeir voru taldir. Þess vegna er hvergi neitt að finna um hversu mikið silfur var tekið".
Konurnar gerður sér fljótlega grein fyrir stöðunni og breyttu framburði sínum snarlega. Þær neituðu að skrifa undir skráða játningar og sögðu að peningarnir sem fundust væru þeirra eigin peningar. Lögfræðingur þeirra hótaði því að höfða mál á hendur lögregluembættinu ef að 10.000 dölunum sem lögreglan hafði fundið, yrði ekki skilað og gegn símafyrirtækinu ef stúlkurnar fengu ekki að hverfa aftur til starfa sinna.
Með semingi, varð lögreglan að sleppa konunum.
Daginn eftir snéru konurnar sex aftur til starfa en var þá tjáð af yfirmanni að þær hefðu verið reknar og hleypti þeim ekki inn í bygginguna.
Sóttar til saka
Um tímaleit út fyrir að konurnar hefur framið hinn fullkomna glæp, en lögreglan var ekki á því að láta þær sleppa svona auðveldlega.
Að lokum var það bókhaldari sem gerði málshöfðun á hendur þeim mögulega. Símafyrirtækið lét rekja öll langsímasamtöl frá Jacksonville og lét bókarann sinn fínkemba skýrslurnar. Að lokum fékk hann það út að í vissum mánuðum vantaði vissa upphæð. Sem dæmi þá væri öruggt að 23. ágúst 1950 vantaði $464.75 upp á það sem kom frá talningardeild fyrirtækisins.
Þetta gerði það mögulegt að lögsækja konurnar fyrir meira en $50. stuld sem var forsenda þess að hægt væri að lögsækja konurnar fyrir "stórþjófnað". Og aftur galaði pressan; "Réttlætið eins teygjanlegt og hluturinn sem þýfið var borið út í, small á meðlimum Miami brjóstahaldadeildarinnar"
Það kom aldrei í ljós nákvæmlega hvað miklu konurnar stálu. Í fyrstu lögregluskýrslunni þar sem konurnar játuðu munlega, er upphæðin sögð nema hundruðum þúsunda dollara. Símafyrirtækið hélt því samt fram, kannski til að bjarga andlitinu, að upphæðin hefði aðeins verið $18,880.
Alls voru ellefu ákærðir í tengslum við þjófnaðinn. Corrigan og Orr voru ákærðar fyrir stórþjófnað. Billie Ruth McNabb (sem sögð var tengillinn þeirra á salerninu) var ákærð fyrir að aðstoða við að flytja þýfið. Hinir átta voru fjölskyldumeðlimir og vinir kvennanna sem var gefið að sök að hafa móttekið þýfi.
Það tók sex manna kviðdóm aðeins 24 mínútur að sakfella konurnar þrjár en jafnframt fór hann fram á að þeim yrði sýnd mildi. Dómarinn dæmdi þær í eins árs fangelsi og gerði þeim að endurgreiða símafyrirtækinu $24,118.
Í yfirlýsingu frá konunum segir að " að þær ætli sér að endurgreiða símafyrirtækinu alla þá peninga sem þær tóku frá því". Þær áfrýjuðu dóminum en töpuðu málinu þá líka.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.1.2009 | 20:16
Fólk beðið að sniðganga íslenskar vörur og ferðast ekki til landsins
Þá er ballið byrjað, rétt eina ferðina enn. Nokkur náttúruverndarsamtök hafa þegar sent frá áskorannir til fólks um að sniðganga íslenskar vörur og að ferðast ekki til landsins vegna nýrra heimilda til að veiða hvali í atvinnuskyni. Þar fara auðvitað fremst öfgasamtökin Sea Shepherd sem sökktu hvalveiðiskipum íslendinga fyrir nokkrum árum.
Á öðrum stað kemur fram að 150.000 manns hafi skrifað undir yfirlýsingu efnis efnis að þeir hyggist ferðast til Íslands ef Íslendingar láti af hvalveiðum sem mundi auka tekjur þjóðarbúsins um 117 milljónir dollara en hvalveiðar mundu aldrei gefa því meira en 4 milljónir dollara, jafnvel þótt það tækist að selja allt kjötið á Japansmarkað. Japanir segjast reyndar enn eiga nokkur þúsund tonn af óseldu hvalkjöti í frystingu svo óvíst sé að Íslendingum takist að selja afurðir sínar þar í landi.
Bent er á að 115.000 manns hafi á síðasta ári farið í hvalaskoðunarferðir á Íslandi og yfir 20% af þeim hafi staðfest að hvalaskoðun hafi verið megin ástæða komu þeirra til Íslands. Einnig að ferðamálsamtök á Íslandi hafi öll lýst sig andvíg áformum um frekari hvalveiðar í atvinnuskyni.
Þá leggja nokkur skeytin út frá þeirri staðreynd að þjóðin sé að reyna að reisa við efnahag sinn og orðstír eftir skelfilegt hrun og það þjóni illa hagsmunum hennar að ganga svona í berhögg við almenningsálit í öllum helstu viðskiptalöndum sínum.
30.1.2009 | 22:45
Rumpelstiltskin stjórnar
Ég hef á stuttum tíma lesið ekki færri þrjár færslur um draumfarir bloggara sem allar fjalla um ástandið á landinu. Það kannski ekki nema von því raunheimur rúmar ekki lengur þessa vitleysu sem er í gangi á Íslandi í dag.
Potta og pönnu byltingin þar sem alþýðan var að sjálfsögðu potturinn og pannan fagnar árangri á meðan gömlu sótugu seiðkarlarnir koma sér fyrir til að lepja dreggjarnar úr kjötkötlunum.
Draumar Austurvallarindíánanna sem kröfðust þess að náhirðin viki, er orðin að þrefi um tæknilega útfærslu á hvernig má fróa litla græna dvergnum sem hefur hreðjatak á þjóðinni í krafti flokkskerfissins.
Er það að furða að fólk sé að fara á límingunum og þá sæki illir draumar um dimmmynta og glottandi menn og konur sem aftur sjá sér færi til að toga í spottana sem liggja beint inn í hjarta frama-Gosa litla.
Einhver sagði að hann sæi eftir því að hafa eitt fimmtán undanförnum vikum í það að mótmæla.
Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir þreyttan potther með rámar raddir að horfa upp á sömu gömlu flokkadrættina gera "nýja Ísland" þannig að fólk vilji nú helst "flýja Ísland".
Allt fer enn fram fyrir jafn luktum tjöldum og fyrr, sama loðna tungutakið er notað til að skaffa eitthvað í fyrirsagnirnar og sama gamla póli-tíkur pissufílan rís upp af hrossakaupssvæðinu og fyrr.
það versta er að fólk trúir því raunverulega að þetta sé það besta sem við eigum völ á og þess vegna virka draumfaralýsingarnar eins fjarlægt andvarp. Ísland er besta baksvið í heimi fyrir líf, það vitum við öll. En leikritið sem er á fjölunum stinks.Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.1.2009 | 20:17
Bestu brandararnir
Bretar eru mikið fyrir skoðanakannanir. Margir háskólar hafa deildir sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum skoðanakannana. Háskólinn í Hertfordshire gerði skemmtilega og kannski hlægilega könnun fyrir skömmu. þeir könnuðu hvaða brandarar væru bestu brandarar í heimi. Hér eru niðurstöðurnar, ögn stílfærðar.
Fyndnasti brandari í heimi.
Tveir Hafnfirðingar voru á rjúpnaveiðum. Annar þeirra féll allt í einu máttlaus niður. Hann virtist ekki anda og augun runnu aftur í höfði hans. Hinum leist ekki á blikuna, reif upp farsímann og hringir í almannavarnir.
"Félagi minn er dáinn" hrópaði hann í síman þegar honum var svarað. "hvað á ég að gera?"
Sá sem svaraði var hinn rólegasti. "Vertu alveg rólegur, ég get hjálpað þér. Til að byrja með verður þú að fullvissa þig um að hann sé dáinn".
Í smá stund varð þögn og svo heyrðist skothljóð. Að svo búnu kom Hafnfirðingurinn aftur í símann og sagði. "Já, hvað svo?"
Í öðru sæti.
Sherlock Holmes og Dr Watson fóru í útilegu. Eftir að hafa gætt sér á góðum mat og drukkið flösku af víni, bjuggu þeir um sig og fóru að sofa.
Fáeinum tímum seinna vaknar Hólmes og stuggar við hinum trygga vini sínum. Watson, líttu upp í himininn og segðu mér hvað þú sérð?
"Ég sé milljón miljónir af stjörnum, Holmes" svaraði Watson.
"Og hvað ályktar þú af því?"
Watson hugsaði málið um stund.
" Nú stjarnfræðilega segir það mér að til eru milljónir af stjörnuþokum og mögulega biljónir af plánetum."
"Stjörnuspekilega sé ég að Satúrnus er í ljóninu."
"Tímafræðilega dreg ég þá ályktun að klukkan sé korter yfir þrjú."
"Veðursfræðilega, er líklegt að dagurinn á morgunn verði falllegur."
"Guðfræðilega get ég séð að Guð er almáttugur og að við erum smá og lítilfjörleg í alheiminum.
En hvaða ályktanir dregur þú Holmes?"
Holmes var þögull um stund.
"Watson, kjáni getur þú verið" sagði hann svo. "Það hefur einhver stolið tjaldinu okkar."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.1.2009 | 10:22
10 ára og skilin
Hún heitir Nujood Ali og hún er aðeins tíu ára. Faðir hennar er götusópari sem á tvær konur og 17 börn. Þau búa í Jemen þar sem lög landsins eru blanda af Sharia lögum Íslam og fornum ættbálkahefðum. Sjálf stjórnarskrá landsins er ein málamiðlun út í gegn til að friða afturhaldsama norðurlandsbúa og framfarasinnaða íbúa suður hlutans. Kveinréttindunum er eins og venjulega fórnað á altari þjóðareiningar.
Martröð hennar hófst morgun einn í febrúar á síðasta ári. Með tveggja daga fyrirvara tilkynnti faðir Nujood að hann hugðist gifta hana manni sem væri tuttugu árum eldri en hún. Hún hafði ekkert um málið að segja, hún var aðeins barn og að auki stúlkubarn.
Rödd hennar er mjúk og hrein en augu hennar ákveðin þegar hún talar; "Maðurinn minn sór í viðurvist föður míns að hann mundi ekki snerta mig í mörg ár. En það loforð gleymdist fyrstu nóttina eftir giftinguna. Þegar ég kom inn í svefnherbergið sá ég að það var bara eitt rúm. Ég reyndi að hlaupa í burtu. En hann náði mér, slökkti ljósin og klæddi mig úr öllum fötunum. Síðan sló hann mig og tók mig með valdi. Þetta gerðist á hverri nóttu í einn mánuð þangað til að frænka mín gaf mér smá peninga fyrir rútufari. Ég keypti miða og fór rakleiðis til dómshússins í næstu borg."
Nujood var heppin. Í dómshúsinu hitti hún Mohammed al-Qhadí, trúlega eina dómarann í landinu sem var tilbúin til að hlusta á hana án þess að kalla fyrst til eiginmann hennar og fjölskyldu.
Mohammed al-Qhadí var hneykslaður á meðferðinni á Nujood litlu og ákvað að skjóta yfir hana skjólshúsi á meðan að dómsmálið var tekið fyrir sem endaði með að hann veitti Nujood skilnað.
Eiginmaður hennar heimtaði sem nemur 30.000 krónum í skaðbætur, upphæð sem faðir Najood hafði ekki efni á að borga. Lögfræðingur Najood, Rashida al-Hamdani, eini kvenn-lögfræðingurinn í Jemen, greiddi sjálf skaðabæturnar.
Barnagiftingar eru algengar í Jemen. Fátækt í bland við forna siði og trúarkreddur eru helsta ástæðan. Samkvæmt skoðanakönnun er meira en tuttugu ára aldursmunur á hjónum í fjórða hverju hjónabandi í landinu.
Mál Najood vakti verðskuldaða athygli í landinu. Myndir birtust af henni í sjónvarpinu sem varð til þess að fleiri barnungar stúlkur sem gefnar hafa verið eldi karlmönnum hafa gefið sig fram við yfirvöld og óskað aðstoðar.
Eftir skilnaðinn fór Najood aftur til foreldra sinna og gengur nú í skóla. Hún segist aldrei ætla að gifta sig aftur og hún ætli sér að verða lögfræðingur eins og Rashida al-Hamdani.
28.1.2009 | 22:05
Trú Gandhi
Gandhi trúði því að til þess að öðlast umburðarlyndi þyrfti hinn venjulegi maður að öðlast persónulegan styrk og þar með óttaleysi. Sem drengur lifði hann í stöðugum ótta við myrkrið, þjófa, drauga og snáka. Sem unglingur heimsótti hann eitt sinn ásamt kunningja sínum hóruhús og varð orðlaus og lamaður af hræðslu. Allt hugrekki hans var afleiðing ásetnings hans að sigrast á þessum veikleikum sínum sem ollu honum stöðugum áhyggjum.
Friður hið innra var takmark hans; og hann var þeirrar skoðunar að með því að gera öðrum mögulegt að finna frið mundi hann sjálfur ná takmarki sínu. Að stuðla að einingu milli einstaklinga og samfélaga var honum lækning við eigin kvíða. Lausn hans fól í sér að umbreyta stjórnmálum í einskonar sálrænt ferðalag þar sem fólk reiddi sig ekki á sterka leiðtoga heldur á viðleitni hvers og eins; og að hver og einn breytti eigin hegðun í stað þess að kenna öðrum um aðstæður sínar; og að lokum; að gott fordæmi væri besta aðferðin til að hafa áhrif á samfélagið almennt.
Gandhi talaði opinskátt um sitt eigið líf og viðurkenndi að hann ætti sjálfur í erfiðleikum. Hann ræddi um óánægju konu sinnar yfir því að hann afneitaði venjulegum heimilis þægindum og yfir því að hann upp á stóð að allir peningar sem honum áskotnuðust og ekki fóru til beinna heimilisnota, væri sjóður sem nota ætti til almannaheilla. Synir hans sýndu honum vanþóknun sína vegna þess að hann sinnti þeim ekki og hann neitaði því ekki því hann var þeirrar skoðunar að maður ætti ekki takmarka ást sína við venslafólk sitt, heldur við alla sem yfirleitt er hægt að þróa samhygð með.
Persónulega taldi hann upp 150 einstaklinga sem féllu undir þá "ættmenna" skilgreiningu. Honum fannst að með því að breiða út "náungakærleik" og persónulega vináttu væri hægt að yfirstíga alla þröskuldi trúarbragða, þjóðernis og stéttaskiptingar. Kærleikinn ætti að tjá fyrst og fremst með sjálfs-lausri þjónustu í þágu annarra.
Hann stofnaði tilrauna-samfélag þar sem hann reyndi að hrinda þessum kenningum í framkvæmd. Margir af hindúunum sem með honum voru urðu skelfingu lostnir þegar þeir sáu að sumir þorpsbúanna tilheyrðu stétt "hinna óhreinu", þá sem allir forðuðust að eiga samskipti við. Sjálfur hafði Gandhi verið alinn upp við að halda þeim í ákveðinni fjarlægð og láta þeim eftir skítverkin. Nú tók hann tók sjálfur fullan þátt í þeim og hjálpaði t.d. til í eina klukkustund á dag við að halda sjúkrahúsi staðarins hreinu. Með þessu fordæmi trúði hann að gamlar kreddur mundu hverfa.
Gandhi var ekki mannblendinn persóna í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þess vegna fannst honum erfitt að vingast við alla þá sem hann umgekkst. Hann átti ekki vini sem voru jafningjar hans. Nehru var eins og sonur hans og Gokhale eins og faðir. Það var miklu frekar á meðal þeirra fullorðinu kvenna sem hjálpuðu honum í starfi hans að hann fann þá tilfinningalegu næringu sem hann þarfnaðist.
Þrátt fyrir að afstaða hans til kvenna væri frekar gamaldags og honum fyndist hin fullkomna kona einfaldlega vera "trú eiginkona", uppgötvaði hann með vinskap sínum við samverkakonur sínar að þær bjuggu yfir miklu meiri getu en hann hafi áður eignað þeim. Samt gerði hann sér ekki grein fyrir því að slíkur vinskapur milli kynjanna bæti verið mikilvæg viðbót í hinu nýja samfélagi. Hann kallaði eina vinkinu sína "bjána" og húna kallaði hann "harðstjóra". Hann hlustaði en heyrði aðeins hluta af því sem sagt var.
Gandhi reyndi ekki að má út allar hefðbundnar sérgreiningar. Það var ekki ósk hans að bæði kristnir og múslímar mundu viðurkenna að lokum Hindúisma sem æðri trúarbrögð. Fyrir honum voru öll trúarbrögð dyggðug og líka gölluð. Að predika trúarbrögð dugði ekki vegna þess að flestir fóru hvort eð er ekki eftir þeim almennilega.
Í stað þess að hvetja alla til að skipta um trúarbrögð hvatti hann alla til að fara betur eftir þeirri trú sem þeir höfðu þegar. Sannleikurinn hafði margar hliðar og engin leið að einfalda hann í einni trú. En það hafði þau áhrif að hann gerði ekkert til að koma á móts við ofsatrúarmenn sem álitu sína eigin sannfæringu allan sannleikann.
Gandhi sýndi að einn einstaklingur gat breytt hegðun 600 milljón manns tímabundið, og að eitthvað sem nálgast það að vera kraftaverk getur gerst. þegar að múslímar sem voru að flýja til Pakistan árið 1947 voru brytjaðir niður af hindúum voru ummæli Gandhis "Við höfum nánast breyst í skepnur".
Þegar múslímar hefndu sín og Kalkútta logaði í óeirðum sem aftur kölluðu á hefndaraðgerðir hindúa, tók Gandhi sér bólstað í hverfi múslíma og í húsi múslíma, án lögregluverndar. Þetta var táknræn gjörð fyrir hugrekki og sáttavilja. Innan nokkurra klukkustunda voru múslímar og hindúar byrjaðir að faðma hvern annan og biðjast fyrir í bænahúsum og moskum hvers annars. Síðan héldu óeirðirnar áfram. Gandhi hóf föstu og sór þess að neyta ekki matar fyrr en brjálæðinu linnti. Aftur hættu átökin og menn lögðu niður vopn sín.
Mountbatten landsstjóri sagði um Gandhi við þetta tækifæri. "Hann hefur með siðferðilegri sannfæringu áunnið meira en fjórar herdeildir hefðu getað með því að beita valdi". En árangurinn var skammvinnur. Allir urðu fyrir djúpum áhrifum af vilja Gandhi til að fórna sjálfum sér fyrir friðinn. Samt sem áður leið ekki á löngu uns hatrið sauð upp úr aftur.
Þannig má segja að Gandhi hafi bæði tekist og mistekist ætlunarverk sitt í senn. Hann sýndi að hægt er að yfirstíga ósamlyndi og óeiningu. En honum mistókst að gera árangurinn varanlegan. Eitt sinn sagði Gandhi að "allir menn væru eins, hluti af sömu allsherjar sálinni". samt sýndi tilraun hans að "góðum vilja" gagnvart öllu mannkyni er hægt að drekkja á augnabliki í öldum andúðar.
Gandhi var að mörgu leiti líkamsgerfingur þess besta og mesta sem maðurinn einn getur áorkað. Hann var einlægur, staðfastur, sannleikselskandi og auðmjúkur þjónn. Honum hefur verið líkt við persónur eins og Krist og Múhameð, Krisnha og Buddha. Samt gerði hann engar kröfur um að tala fyrir munn Guðs eða einhverskonar almætti. Þrátt fyrir marga dygga fylgjendur og nokkuð vel skráðar heimildir um líf hans og starf, og þótt eftir hann liggi mikið af spakmælum og vísdómsorðum, sumum hverjum ég hef gert skil á þessari bloggsíðu, hafa allar tilraunir til að setja hann í sama sæti og opinberendur trúarbragðanna, mistekist. Það er hægt að eigna Gandhi umbætur, vísdóm, kærleika og áhrifamikið fordæmi. En hann náði ekki að koma á varanlegum breytingum eða stofna til sjálfstæðrar og framsækinnar siðmenningar líkt og guðsmennirnir sem honum er stundum líkt saman við gerðu.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.1.2009 | 02:17
Fyrirgefning í Úganda
Í suður Úganda er moldin rauð, vatnið er rautt og himininn er rauður. Um sólarlag birtast þeir í gulnuðum skógarjaðrinum og ganga rólega að kofaþyrpingunni. Kolesnikov rifflarnir hanga kæruleysislega um axlir þeirra og hlaupin nema við jörð hjá sumum. Þeir voru ekki hávaxnir, flestir varla orðnir 12 ára. Þeir hlægja og stjaka við hvor öðrum eins og drengja er háttur.
Konurnar rísa upp frá eldstæðunum þegar þær verða drengjanna varar, grípa ungabörnin og standa síðan þöglar í hóp. Á afar skömmum tíma er gömlum konum og lasburða mönnum er smalað út úr kofunum og þau slást í hóp mæðranna.
Allir fullburða karlmenn í þorpinu eru í burtu. Þeir berjast með stjórnarhernum. Skelfingin skín úr augum þorpsbúa, þeir vita við hverju er að búast.
Tveir drengjanna sem komu út úr skóginum eru frá þessu þorpi. En það skiptir engu máli núna. Þeim var rænt fyrir tveimur árum og þeir hegða sér eins og þeir hafi aldrei fyrr séð systur sínar og mæður sem standa í hópnum. Þeir bera meira að segja ekki sömu nöfn og þeir gerðu áður.
Eftir um tvo tíma, Þegar að drengjahermennirnir fara, klyfjaðir ránsfeng og þeim matvælum sem í þorpinu er að finna, liggja sjö ungabörn í rauðri moldinni lífvana og með brotin höfuð. Mæður þeirra húka við hlið þeirra, skjálfandi af hryllingnum sem þær höfðu verið neyddar til að taka þátt í. Ekkert barnanna dó beint fyrir hendi drengjanna. Aðrar ungar konur liggja í hnipri á jörðinni og reyna hvað þær geta til að stöðva blóðrásina úr líkama sínum.
Stríðinu er lokið. Það er verið að rétta yfir foringjum drengjahermannanna í fjarlægu landi. Meðlimir Alþjóða Stríðsglæpadómstólsins hlusta á vitnisburði sem eru svo skelfilegir að þeir verða að taka hlé með reglulegu millibili til að frásagnirnar beri þá ekki yfirliði.
í þorpinu fer líka fram uppgjör. Drengirnir tveir sem tekið höfðu þátt í árásinni hafa snúið til baka. Þeir eru nú fullorðnir menn. Eftirlifandi karlmenn þorpsins fara með þá út á sléttuna og láta þá draga á eftir sér eina af geitum þorpsins.
Úti á sléttunni eru þeir látnir standa naktir á meðan grasið er barið niður hringinn í kring um þá. Karlmennirnir er vopnaðir spjótum og Þeir taka að stíga dans í kringum ungu mennina tvo. Þeir leggja til þeirra spjótunum öðru hvoru en gæta þess að spjótsoddarnir snerti þá ekki.
Eftir nokkra stund sleppa þeir geitinni og hlaupa síðan á eftir henni. Geitin kemst ekki langt áður en hún verður fyrir spjótlagi. Þeir kveikja eld, gera að skeppnunni og setja hana yfir bálið. Ungu mennirnir tveir standa allan tíman hreyfingarlausir og horfa á.
Loks er geitin steikt og þeim er boðið að fá sér bita. Eftir að þeir hafa bragðað á kjötinu borða allir hinir. Þegar ekkert er eftir nema skin og bein, er athöfninni lokið Allir halda til baka til þorpsins.
Ungu mönnunum hefur verið fyrirgefið að fullu. Syndir þeirra hlupu í geitina og síðan var geitin drepin.
"Þetta er okkar aðferð til að losna við slæma fortíð fyrir fullt og allt" skýrir seiðmaður þorpsins.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)