Ísland brýtur enn og aftur blað í mannkynssögunni

200794104226_johanna_sigurdardottir_vefEins og kunnugt er völdu Íslendingar sér, fyrstir allra þjóða, konu fyrir þjóðhöfðingja í lýðræðislegum kosningum þegar Frú Vigdís Finnbogadóttir var kosin Forseti. Sú niðurstaða vakti verðskuldaða heimsathygli og þótti sigur fyrir kveinréttindabaráttuna almennt. Nú stefnir í að annað blað verði brotið í sögu mannkynsins þá Jóhanna Sigurðardóttir verður valin til að gegna embætti forsætisráðfrúar. Jóhanna er óumdeilanlega fyrsta opinberlega samkynhneigða persónan sem sest í slíkan valdastól í nútíma lýðræðisríki. Slíkt mun vekja athygli á mannréttindabaráttu samkynhneigðra um allan heim, enda er heimspressan þegar byrjað að skrifa um þennan þátt í gangi stjórnamála á Íslandi. 


Áttburar fæddir

Kona í Bandaríkjunum hefur fætt átta börn og er önnur konan í heiminum sem elur áttbura sem allir lifa fæðinguna. 

Sex drengir og tvær stúlkur komu í heiminn fyrir stundu og voru öll tekin með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Los Angeles í Kaliforníu.

Börnun vógu á bilinu 820-1640 grömm og heilsast öllum vel.

Nafn móðurinnar hefur ekki enn verið gert opinbert. Þá kom fram að búist hafði verið við aðeins sjö börnum og að það áttaunda hafi því komið á óvart. Móðurinn hyggist brjóstfæða öll börnin sem einn fæðingarlæknanna segir "sparka og öskra af hreysti".

ÁttburarFyrstu áttburnair  í heiminum fæddust í Huston Í Texas fylki í USA árið 1998.

Einn þeirra dó viku seinna en sjö þeirra héldu upp á tíu ára afmælið sitt 10. des s.l.

Nkem Chukwu móðir þeirra segir að móðir hinna nýfæddu áttbura verði að njóta þessarar blessunar sem átta börn í einu séu.

 

Rockabyebaby

Ég man ekki betur en að fyrir margt löngu hafi verið gerð kvikmynd með Jerry Lewis þar sem hann eignaðist átta börn á einu ári. 

Gott ef  þessi mynd hét ekki einmitt " Átta börn á einu ári"  á Íslensku?

En hann átti þau ekki öll í einu, svo mikið man ég.


Animal Farm Ísland

SáttÍsland er eina ferðina enn í heimsfréttunum. Ríkisstjórnin íslenska er sögð sú fyrsta af mörgum sem alheimskreppan á eftir að velta úr sessi. Spekingarnir, fréttaskírendur, tala aftur um  Ísland eins og fyrirmynd þjóðanna og segja fólkið sjálft hafa brugðist við sem heild og tekið málin í sínar hendur.

Ein af helstu kröfum mótmælenda er orðin að veruleika. Óhæf ríkisstjórn er farin frá. Önnur megin krafan um að reka seðlabankastjóra verður trúlega að veruleika fljótlega eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokks  tekur við stjórnartaumunum. Og ef allt gengur eftir sem horfir mun þriðju kröfunni um kosningar, verða gerð skil snemma í vor.

Sjálfstæðisflokkurinn mun sleikja sárin í nokkrar vikur og taka síðan til óspilltra málana (ef það er mögulegt að nota það hugtak um þann bæ) við að endurskipuleggja í stöðurnar og endur-uppfinna sjálfan sig fyrir kosningarnar. 

Helstu nýju baráttumál hans verða "sterk efnahagsstjórnun" og "ný sókn" og "átak í atvinnumálum" og "Nýr Bjarni Ben" og "Allt er nú svo breytt" og "Við öxlum ábyrgð" og "Sameinuð í Sjálfstæðisflokki stöndum vér, sundruð allstaðar annarsstaðar föllum vér".

Stjórnin og Jóhanna forsætisráðsfrú munu eflaust gera sitt besta til að standa við samningana við alþjóða gjaldeyrissjóðinn og byrja að þefa ofaní pyttina fúlu sem gleyptu alla peningana sem þjóðin tók að sér að borga og koma á einhverjum reglum svo þetta endurtaki sig ekki aftur alveg strax. Áherslan verður að sjálfsögðu á að láta allt líta út sem best og að enginn fljúgi t.d. Elton John út til Íslands til að spila í afmælispartýi. Ef Jóhanna nær ekki árangri á þessum stutta tíma sem nægir til að tryggja svipað fylgi og venjulega, ja, þá er það hún sem verður blóraböggullinn. Stjórn landsins er nefnilega baneitrað epli fyrir pólitíkusa um þessar mundir, jafnvel þá sem beðið hafa þolinmóðir eftir því að þeirra tími rynni upp.

afturganga25En hvað verður um allar hliðar (minni) kröfurnar sem áttu að koma til framkvæmda eftir að megin kröfurnar næðu fram að ganga?

Kröfurnar sem áttu að móta "Nýja Ísland"  þar sem atvinnupólitíkusar hoknir af reynslu og fláræði áttu ekki að fá að komast að. 

Þar sem hugsjónirnar um afnám öfga auðs og fátæktar yrðu innlimaðar í stefnu og stjórnarhætti landsins.

Hvað verður um hreint borð þar sem hrossakaupin og samtryggingarbraskið sem á stjórnmálamáli heitir "málamiðlun" eða bara "pólitík" áttu ekki að fá að ráða ferð? 

Sá draumur er vitanlega fyrir bý. Hann var óraunhæfur hvort eð er. Við erum það sem við erum.

Með því að mynda nýjan stjórnmálflokk (enn annan undir 10% flokkinn) úr grasrótarhreyfingum mótmælenda, verða tennurnar dregnar úr dýrinu sem þó náði að naga sig í gegnum þráa stjórnmálamanna til að láta eftir völd sín, í bili.  Áður en varir mun þessi stjórnmálflokkur sem talar núna um að mynda breiðfylkingu fólksins (hvar hefur maður heyrt þennan frasa áður) fylla framboðssætin af fyrrverandi og wannebee pólitíkusum.  Animal Farm all over again.

Það sem fólk vill ekki horfast í augu við, allra síst pólitíkusar, er að þetta flokkskerfi sem við búum við er andstætt lýðræðinu. Enn eitt stjórnmálaflið eða framboðslisti breytir engu um það. Það er e.t.v. allt of snemmt að skrifa eftirmæli um raddir fólksins, en sannleikurinn er sá að flokkar og flokkspólitík er helsta sundrungaraflið í þjóðfélaginu.

Fyrir hendi er löng barátta og löng endurhæfing til að óflokksbundið framboð og bann á framboð í nafni flokka nái að verða að veruleika. En aðeins þá mun flokksræðinu hnekkt.

Þegar fólk getur boðið sig fram án þess að tilheyra lista, þegar hægt er að kjósa menn og konur til góðra verka sem gefa kost á sér til þeirra starfa, án þess að þurfa að merkja þurfi við lista, getum við talað um beint lýðræði.

Þing mun þá ekki skipa sér í stjórn og stjórnarandstöðu, heldur verða samráðsstofnun þar sem kosið verður um málin og þau afgreidd til framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnarinnar sem kosin er af þinginu. Og auðvitað eiga ráðherrar hennar ekki að sitja á þingi.

Þessar og líkar hugmyndir hafa frá því snemma í haust verið reifaðar víða í samfélaginu og núna þegar verið er að snúa fólki til baka til hefðbundinnar pólitíkur, er hætta á að þær gleymist fljótt.

Þær eru svo róttækar að þær mundu raunverulega breyta öllu og þess vegna munu þær ekki ná fram að ganga og  það sem þegar hefur áunnist, verður notað sem snuð upp í þá sem mæla fyrir þeim.


Tveggja ára snáði í fangelsi

2Two_year_old_toddler_Kananelo_2Ríkisstjórn ZIMBABWE virðast engin takmörk sett í grimmd sinni.
Í 76 daga þurfti þessi tveggja ára snáði, Nigel Mupfuranhehwe, að dúsa við illan kost í einu af illræmdustu fangelsum landsins.
Hann var barinn og þurfti að horfa á foreldra sína barða og pyntaða en þeim var gefið að sök að vera á móti stjórn landsins og reyna að koma Mugabe forseta landsins frá völdum .

Athygli á örlögum Nigles var vakin fyrst af bloggara sem heitir  Denford Magora og skrifar frá Zimbabwe. Hann lýsti eftir drengnum 8. janúar en nú er hann fundinn og hefur verið látinn laus.
Foreldar hans eru að sjálfsögðu enn haldið í fangelsinu.
Ástandið í Zimbabwe heldur áfram að versna og alvarlegur matvælaskortur ríkir í landinu. Hjálparstofnanir segjast dreifa matvælum en myndir frá landinu sýna sveltandi fólk víðsvegar um landið sem eitt sinn var kallað matarkista Afríku.

Gunnar í Krossinum sagður hugsjúkur

Gunnar ÞorsteinssonÁ bloggi  Margrétar St Hafsteinsdóttur  lýsir Svanur Sigurbjörnsson læknir því yfir í að Gunnar Þorsteinsson oft kallaður Gunnar í Krossinum sé hugsjúkur. Hugsýki (neurosis) er samkvæmt skilgreiningu vísindavefs Háskóla Íslands tegund af vægum geðsjúkdómi. Svanur Læknir greinir líka eðli geðsjúkdómsins og segir hann stafa af "bókstafstrú í bland við mikilmennskuóra".

Nú veit ég ekki hvort Gunnar er skjólstæðingur (sjúklingur) Svans en ef svo er efast ég ekki um hæfni læknisins til að sjúkdómsgreina Gunnar. En þá skýtur upp spurningunni hvort rétt sé að Svanur læknir tjái sig um geðheilsu sjúklings síns á opinberum vettvangi. Sé Gunnar aftur á móti ekki skjólstæðingur Svans, er erfitt að sjá hvaða læknisfræðilegar forsendur liggja að baki þessari greiningu.

Á umgetinni síðu Margrétar hafa margir tjáð sig um persónu Gunnars og að mínu viti jaðra mörg ummælin við brot á meiðyrðalöggjöfinni, hvort sem hún er túlkuð vítt eða þröngt. En það má virða það sumum til vorkunnar að þeir telja sig nokkuð örugga þegar þeir eru aðeins að enduróma skoðun læknis.

Svanur SigurbjörnssonNú kann vel að vera að athugasemd (49) Svans Sigurbjörnssonar hafi verið skrifuð af kappi frekar en forsjá. Og e.t.v. var hann ekki að nota orðið hugsýki sem læknisfræðilega skilgreiningu.  

Þegar verkfræðingur tjáir sig um styrkleika byggingar er á hann hlustað. Í krafti þekkingar verkfræðinga standa hús eða falla. Þegar að læknar tjá sig um heilbrygði eða veikindi, er tekið mark á orðum þeirra. Það geri ég alla vega.

Ég hefi oft á mínu bloggi talað gegn "bókstafstrú" og talið hana undirrót margra af heimsins meinum. Ég hef líka talað á móti persónuníði í athugasemdum mínum, þótt ég sé alls ekki sammála þeim sem fyrir því verður á neinn hátt, líkt og er í þessu tilfelli.

En af því ég er "trúaður" og af því að það gæti hæglega einhverjum dottið í hug að kalla trú mína "bókstafstrú" leiði ég hugann að því hvenær ég verð kallaður hugsjúkur af því tilefni.

PragÉg heimsótti einu sinni gamla konu sem hét Júlía og átti heima í Prag. Þetta var á þeim tímum þegar kalda stríðið var upp á sitt besta og Tékkóslavía var öllu jöfnu lokað land. Ástæða heimsóknarinnar var að Júlía hafði verið leyst úr haldi eftir 15 ára vist á geðveikrahæli sem í sjálfu sér var ekkert annað en fangelsisvist. Hennar geðveila var að hún hafði tekið Bahai trú.

Ég gleymi aldrei æðruleysi hennar og ánægjunni sem skein úr gráum augum hennar yfir að sjá einhvern sem hugsaði svipað og hún. Hún ræddi við mig á slæmri ensku en mest brosti hún bara og sýndi mér gamlar myndir frá því að hún var ung kona. 

Ég mátti aðeins vera í þrjá daga í Prag og hvar sem ég fór um var ég stöðvaður af lögreglu og beðin um skilríki og skýringu á veru minni í landinu. Skömmu eftir að ég var kominn heim aftur bárust þær fregnir að Júlía hafði verið aftur flutt á geðveikrahælið aftur þar sem síðan lést þremur árum seinna,nokkrum mánuðum áður en kalda stríðinu síðan lauk og Sovétríkin hrundu.

 

 


Tvífari Obama

Tvífari ObamaHann heitir Ilham Anas, er 34 ára og er frægur á Jakarta, þar sem  Obama forseti Bandaríkjanna eitt sinn bjó. Og nú berst frægð hans víða um heiminn. 

Hann hefur komið fram í sjónvarpsþáttum, gert auglýsingar sem Obama og fengið ýmis gylliboð út á útlitið eitt. ´

Sjálfur er Anas fæddur og uppalinn í Bandung á vestur Jövu. Hann segist ánægður með að geta unnið sér inn peninga með þessum hætti en hann geri ekki hvað sem er.

_45398334_obamas"Ég tek öllum tækifærum sem mér bjóðast svo fremi sem þau stríða ekki gegn samvisku minni og persónulegu siðgæði" er haft eftir honum. Hann segist jafnframt vera frekar feiminn og eiga erfitt með að vera í sviðsljósinu.

Í Indónesíu er mikill áhugi fyrir Obama sem bjó þar í nokkur ár eftir að móðir hans  Ann Dunham, gekk að eiga Indónesískan mann Lolo Soetoro eftir að hún hafði skilið við faðir Obama sem var frá Kenýa.

 


Ótrúlega Ísland - The home of the shitballs

Undur Íslands, fólkið og náttúran, eru sannarlega mörg og ég þreytist ekki á því að tíunda það fyrir þeim sem á vilja hlusta. Ég sé það oft á augnagotum fólks sín á milli að það á erfitt með að trúa ýmsu, sem ég hef að segja, en samt er síður enn svo að ég ýki. Þess er hreinlega ekki þörf. Sannleikurinn hreinn og beinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur, eða það finnst þeim. 

untitledÞað er svo sem ekkert nýtt að útlendingar furði sig á þeim fjölmörgu náttúrundrum sem er að finna á Íslandi. Þegar ég kom inn í hið heimsfræga furðusafn Ripleys (Ripley´s belIeve it or not museum) í Flórída fyri mörgum árum, blasti við mér í anddyrinu risastór teikning af Hérðaskólanum á Laugarvatni. 

Í texta undir myndinni var fullyrt að þetta væri fyrsta hús í heimi sem byggt hefði verið og ráð fyrir því gert að hita það upp með jarðvarma einum saman. Ripley sem kom til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og teiknaði húsið, fannst  mikið koma til fyrirbæris sem er okkur heimafólki ósköp venjulegt og margir útlendingar vita núorðið um.

kuluskitur3-10Í hinum upplýsta internets-heimi sem við lifum í, þar sem öll þekking er við fingurgómana og googlið er véfréttin mikla, eru samt fáir sem vita af fyrirbærinu sem við köllum hér á Íslandi Kúluskít.

Í stórum hópi kunningja í kvöld minntist ég á þetta náttúruundur sem aðeins finnst í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og japanska vatninu Akan á Hokkao eyju. Allir viðstaddir drógu í efa að þetta væri satt. Kúlulaga skítur sem vex í breiðum???

Kannski var það íslenska nafnið sem gerði þetta svona tortryggilegt, (á ensku ball-shit eða shitball) enda líkt öðru sem þýðir bull (bullshit).

Nú vill svo til að það er til frábær netsíða á íslensku um kúluskít og með að sýna hana náði ég loks að sannfæra liðið. Svo var japanska nafnið auðvitað Googlað. Þeir sem ekki hafa séð kúluskít eða vilja fræðast um fyrirbærið geta nálgast þessa netsíðu  hér.


Kosið verður í júní samkvæmt frétt BBC

kveðjukossinnÍ sjónvarpsfréttum BBC í nótt var haft eftir ónefndum íslenskum ráðherra að trúlega yrði efnt til alþingiskosninga í júní mánuði.

Í fréttinni var fjallað nokkuð ýtarlega um mótmælin og sýnt var stutt viðtal við grímuklæddan kvennamann sem lét að því liggja að jafnvel þótt stjórnin segði af sér, væri það bara byrjunin. Þá var þess getið að mótmælendur væru almennt að bíða eftir því að dagsetning kosninga yrði ákveðin.

Það var einnig ljóst af fréttinni að samúð fréttamannsins með mótmælendum var all-mikil.

Nokkuð er um það í bresku blöðunum að farið er að líkja Bretlandi við Ísland og gerðir að því skórnir að Bretland muni skjótt finna sig í svipaðri stöðu og litla landið í norðri sem fór á hausinn.

Samúð með Íslendingum skín í gegnum greinarnar og t.d. mjög dregið í efa að Bretland hefði skellt hryðjuverkalögum á önnur lönd eins og Frakkland eða Þýskaland ef sama staða hefði komið upp hjá þeim og á Íslandi. - Þá undrast fjölmiðlafólk sig á hvar íslenskir athafnamenn finna enn peninga til að fjarfesta í breskum fyrirtækjum, jafnvel þeim sem komin eru í þrot eins og Woolwourth verslanirnar en 52 slíkar verslanir voru nýlegar keyptar af Baugi.


Íslenski forsætisráðherrann hrakinn frá völdum

Forsætisráðherra Íslands Geir Haarde og ríkisstjórn hans var hrakinn frá völdum í dag. Í kjölfarið á hruni efnahags landsins....... Geir Haarde frosætisráðherra Íslands rífur þing og boðar til kosninga semma í vor.... 

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig fyrirsagnir fjölmiðlanna verða á morgunn eða einhvern næstu daga. Ríkisstjórnin er í raun fallin og það er formsatriði hvernig verður gengið frá því.

610xYfirvöld hafa spilað út síðasta spilinu, því sem aðeins átti að nota í nauðavörn. Þau hafa gefið fyrirmæli um að tvístra mótmælendum með táragasi.

Fyrsta stig, stöðug og sýnileg viðvera í bland við spjall er löngu liðið. Annað stig; að nota piparúða var gert á Gamlársdag og allar götur síðan. Þriðja stig að nota kylfurnar sömuleiðis degi seinna. Fjórða stig notkun táragass sem núna hefur gerst. Það er ekkert fimmta stig til.

Enginn lögreglumaður á Íslandi mun nokkurn tíman fást til að beina skotvopnum að mótmælendum þannig að úrræði lögreglunnar og ráðherrana sem stjórna henni eru á þrotum. Mótmælendur hafa sigrað.

Eina úrræði ríkistjórnarinnar ef hún vill ekki segja af sér, er að taka upp stjórnarhætti eins og Mugabe viðhefur í Zimbave.   En það getur aðeins orðið tímabundið því afleiðingar þess yrðu að Forsetinn mundi þurfa að beita neyðarlöggjöfinni.

Sögulegir tímar hafa runnið upp á Íslandi hvernig sem fer.


Fyrirgefðu að ég skuli hafa drepið þig

Teikning frá Gaza 2Drunurnar frá stórskotaliðinu og skriðdrekunum eru þagnaðar í bili. Leyniskytturnar horfnar úr hreiðrum sínum og þoturnar fljúga ekki eins oft yfir. Því ber að fagna. Gazaströnd hefur verið bombarderuð aftur á steinöld.

Og já, í þessari lotu dóu rétt um fimmtán hundruð Palestínumenn og þrettán úr röðum Ísraelsmanna.

Vopnahléið sem Ísraelar boðuðu eftir að nánast allar þjóðir heimsins höfðu skorað á þá að hætta blóðbaðinu kann vel að verða skammvinnt. Markmiðið, að útmá Hamas,  náðist víst ekki.

Teikning frá Gaza 3Og ó já, meðal þess sem þeir kalla á stríðsmáli "samhliða tjón" (collateral damage)  voru á þriðja hundrað börn. Allir harma það. Fyrirgefðu að ég skuli hafa drepið þig. Það var alls ekki meiningin. En þetta gerist bara í stríðum, þú veist.

Á meðan skytturnar biðu eftir skotmarki í yfirgefnum húsum á ströndinni, dunduðu þeir sér við að pára á veggina. Það þarf enga sálfræðinga til að lesa út úr þessum myndum. Þær eru af "samhliða tjóninu".


"Þau meira að segja brenndu jólatréð!"

Fyrir stuttu fjallaði BBC um hinar óhefðbundnu og siðmenntuðu leiðir sem Íslendingar hafa fundið til að mótmæla í kjölfar bankahrunsins. Aðdáun þeirra á íslensku aðferðunum við að beita fyrir sig mennta og listafólki til að halda ræður á fundum í stað óeirða, leynir sér ekki. Með slíkri uppfræðslu er nú svo komið að fáir landsmanna efast um réttmæti mótmælanna þótt þeir taki ekki beinan þátt í þeim sjálfir. Nei, Íslendingar gera ekkert í hálfkáki.  Í augum allra sem skrifa um Ísland, er landið og íbúar þess enn sveipað ævintýraljóma og ef fer sem horfir munu fleiri Bretar heimsækja Ísland á þessu ári en nokkru sinni fyrr. 

En nú hefur dregið til tíðinda og mótmælin á Íslandi eru farin að líkjast meira því sem gengur og gerist í öðrum EvrópulöndumBT.  Ég spái því samt að þessi tegund mótmæla muni taka aðra stefnu en algengast er í útlöndum. Það væri t.d.  óhugsandi að þingfundum væri frestað í Bretlandi vegna mótmæla eins og gerst hefur á Íslandi. En ef Geir neitar að rjúfa þing og boða til kosninga, verða næstu mótmælafundir líklega haldnir á Bessastöðum. Þangað er öllum frjálst að koma.

Sumir af bloggurunum hér á blog.is  tala um að nú hafi "skríllinn" gengið einum of langt með því að kveikja í jólatrénu á Austurvelli í gærkvöldi og finnst það vera merki þess að mótmælin séu í besta falli orðin ómarkviss og í versta lagi algjör skrílslæti.

Mér fannst aftur á móti það vera mjög táknrænt að brenna dautt jólatréð sem þegar hafði lokið hlutverki sínu.

P.S.

Svo er önnur hlið á þessu máli sem fáir kannski átta sig á. Þótt það sé ekki minn háttur að "lemja fólk í hausinn" með Biblíunni má færa fyrir því rök að mótmælendur hafi í raun verið að framfylgja anda hennar.

Skoðið bara eftirfarandi texta sem er úr Jeramía 10.2-6. sem mér finnst tala beint inn í umræðuna.

 2Svo segir Drottinn:

Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

3Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, 4hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

5Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott.


Hvað kalla Íslendingar stúlkur sem........

LadettellHvað mundi maður kalla stúlku á Íslandi sem hefði það helst fyrir áhugamál að; drekka sig hauga-fulla af bjór um helgar (eða eins oft og kostur er og helst æla) , öskra, dansa, aka um í hraðskreiðum bílum, segja og hlusta á kjaftasögur, senda skilaboð í síma og láta sér í léttu rúmi liggja hvar hún eyðir nóttunum og í félagsskap við hvern.

Hvað kalla Íslendingar stúlku sem hagar sér, ja, eins og illa upp alinn strákur?    Illa upp alda stelpu eða eitthvað annað?

Sín á milli kalla þær hver aðra það sama og strákarnir kalla þær, þ.e.  druslur, dræsur, tíkur og tussur. Hér í Bretlandi kallar almenningur þær Ladettes.

LadettelllÞað ber meira á slíkum stúlkum hér enn nokkru sinni fyrr og þær eru að finna í hverju einasta bæjarfélagi. Þær halda ekkert sérstaklega félag við drengina en þær haga sér nákvæmlega eins.  

Fjöldi unglinga sem eyðir mestum tíma kvöldsins drekkandi á götum úti hefur aukist svo um munar og mórallinn á meðal þeirra er miklu harðari og metnaðarlausari enn sést hefur. -

Ný yfirriðin kreppa, atvinnuleysi og lánaþurrð, komu eins og staðfestingar fyrir þessa krakka á því að það sem réði framapoti þeirra sem ólust upp á níunda og tíunda áratugnum, sé ekki meira virði en fyllirí og flans.

ladetteStrákarnir eru búnir að vera í uppreisn við hugmyndina um "mjúka manninn" all-lengi og stelpurnar nenna ekki lengur að halda einar uppi því sem var eftir af siðmenntaðri hegðun í hópnum.

Strákarnir eru kallaðir Lads (sveina) og stelpurnar Ladettes(sveinkur?) Afar siðmenntuð nöfn yfir frekar lágkúrulega lífsstefnu.

Þeir sem vinna að kynja-jafnréttismálum sjá mikla afturför í hegðun þessara krakka. Dræsutískan er alsráðandi meðal stelpnanna og grín strákanna gengur aðallega út á klúran sexisma. Markmið stelpnanna er ekki miklu hærra en að verða óléttar, komast á bætur og barnabætur og fá bæjaríbúð til umráða, án vinnandi maka til að missa ekki bæturnar. 


Óþekkti uppreisnarmaðurinn

CARI_ObamaSögulegir atburðir gerast enn með óvæntum hætti, þótt það sé ótvíræð viðleitni í gangi til að reyna að stjórna framvindu þeirra eða jafnvel búa þá til. Atburðir eins og þeir sem eiga sér stað í Bandaríkjunum í dag, eiga sér langan aðdraganda og eru vandlega undirbúnir.

Á komandi árum munu fjölmiðlar væntanlega sýna okkur aftur og aftur þegar B.H. Obama flytur ræðu sína og sver þess að gæta Bandaríkjanna sem fertugasti og fjórði forseti þeirra.  Setningar úr ræðu hans munu eflaust verða fleygar líkt og er um klausurnar úr ræðum forsetana í hvers fótspor Obama reynir að feta, J.F. Kennedy og Abrahams Lincolns.

J.F. notaði reyndar slangur af tilvitnunum frá Lincoln þegar hann sór embættiseiða sína og ég yrði ekki hissa þótt Obama gerði það sama. Í dag svellur ættjarðarástin í Bandaríkjunum og heimurinn eignast "bestu síðustu vonina á jörðu".

051201_Tiananmen-Square_exEn þær fréttamyndir sem mestu áhrifin hafa eru þó þær sem segja sögu sem er miklu lengri og umfangsmeiri enn nokkur sviðsett uppákoma getur fangað.  

Meðal þeirra fréttamynda síðustu aldar eru t.d. upptakan og ljósmyndirnar sem teknar voru af unga manninum á torgi hins himneska friðar (Tiananmen) sem teknar voru þann 5. júní 1989.

Enginn veit enn með fullri vissu nafn þessa unga manns en hann hefur verið þekktur þau tæpu tuttugu ár sem liðin eru frá atburðinum; "óþekkti uppreisnarmaðurinn" og hann og myndirnar urðu heimsfrægar á einni nóttu. Þær hafa síðan verið taldar meðal  mikilvægustu og áhrifamestu fréttamynda aldarinnar og voru t.d. valdar í þann hóp af bandaríska tímaritinu Time.

Einn síns liðs með innkaupapoka í hvorri hendi stöðvar hann röð af skriðdrekum sem sendir voru til að leysa upp fjöldamótmælin sem staðið höfðu í fáeina daga á torginu. Á myndbandinu sést að skriðdrekarnir reyna að aka framhjá honum en hann heldur þeim...einsamall. Að lokum stekkur hann upp á einn drekann og virðist eiga orðaskipti við áhöfn hans. Að lokum stekkur hann  af skriðdrekanum og hverfur í fjöldann. Síðan hefur ekkert til hans spurst þrátt fyrir nákvæmar eftirgrennslanir fréttahauka frá ýmsum löndum.

Einn þerra sem varð vitni að atburðinum; fréttamaðurinn Charlie Cole, fullyrðir að maðurinn hafi verið tekinn af öryggisvörðum Kínversku stjórnarinnar og líklega verið tekinn af lífi. Bruce Herschensohn, fyrrum sérlegur aðstoðarmaður forseta Bandaríkjanna í stjórn Richards Nixons segir að hann hafi verið skotinn af aftökusveit 14 dögum eftir að atburðurinn á Tiananmen átti sér stað. Hinsvegar segir Jan Wong í bók sinni Red China Blues: My Long March from Mao to Now að maðurinn sé enn á lífi í felum einhversstaðar í Kína.

Árið 1990 tók hin kunna Bandaríska fréttakona Barbara Walters viðtal við Jiang Zemin sem þá var aðalritari kínverska Kommúnistaflokksins. Hún spurði hann um örlög óþekkta uppreisnarmannsins. Zemen svaraði að mestu á ensku.

BARBARA WALTERS, ABC News: Hvað varð um unga manninn?

JIANG ZEMIN: Ég held þesi ungi maður kannski ekki vera drepinn af skriðdrekanum.

BARBARA WALTERS: Nei, en handtókuð þið hann? Við heyrðum að hann hefði verið handtekin og tekinn af lífi.

JIANG ZEMIN: [Í gegn um túlk] Jæja, ég get ekki staðfest hvort þessi ungi maður sem þú nefnir hafi verið handtekinn eða ekki.

BARBARA WALTERS: Veistu hvað varð um hann?

JIANG ZEMIN: En ég held aldrei drepinn. 

BARBARA WALTERS: Heldurðu að hann hafi aldrei verið drepinn.

JIANG ZEMIN: Ég held aldrei drepinn.

BARBARA WALTERS: Aldrei drepinn. 

OLIJiang Zemin varð síðar forseti Kína og kom til Íslands í opinbera heimsókn ásamt fríðu föruneyti í júní 2002. Hann kom því þá til leiðar að fjöldi manns sem tilheyrði hreyfingunni Falun Gong var fangelsaður á Íslandi eða meinað að koma til landsins. Þá var gulklætt fólk fjarlægt úr sjónmáli hans hvar sem hann fór um landið. (Gulur er litur Falun Gong hreyfingarinnar)

Engin tilraun var gerð til að spyrjast fyrir um "óþekkta uppreisnarmanninn" af íslenskum stjórnvöldum, enda þeim annt um að styrkja viðskiptasambönd sín í Kína í upphafi útrásarinnar miklu.

Þeir sem vilja rifja frekar upp atburðina á torgi hins himneska friðar fyrir tæpum 20 árum geta horft á þetta 10. mín. myndband sem fjallar um atburðina og er með ensku tali.


Hallelujah

Að leiða hugann að því sem virkilega gleður mann getur verið afar gagnleg sjálfsskoðun. Ég ákvað fyrir skömmu að gera skrá yfir þá hluti sem eru flestum aðgengilegir og hafa glatt mig í gegnum tíðina. Meðal tveggja laga sem ég setti á listann var lagið Halleluhja sem samið var af kanadíska ljóðskáldinu Leonard Cohen og gefið fyrst út á plötu með honum sjálfum árið 1984. Síðan þá hafa meira en 180 listamenn get laginu skil en af þeim sem ég hef heyrt, er ég enn hrifnastur af frumútgáfunni.

LeonardCohen er sagður hafa gert áttatíu útgáfur af ljóðinu áður en hann varð sáttur við það og eitthvað mun hann síðar hafa reynt að krukka í textann því árið 1994 söng hann lagið á plötunni "Cohen live" og þar er textinn mikið breyttur.

Margt hefur verið ritað um merkingu upphaflega ljóðsins en það þykir augljóst að það er í stórum dráttum skírskotunin til ákveðinna texta úr Gamla testamentinu. Með  þessum skýrskotunum skýrir ljóðmælandi afstöðu sína til Guðs og hvernig maðurinn, hann sjálfur, nálgast Guðdóminn. Titill lagsins og viðlag er lofgjörð og ákall til Guðs. Ljóðið er bæði heimspekilegt og Guðfræðilegt, en fyrst og fremst talar það til okkar í einfaldri fegurð sem hrífur sálina, hver sem skilningur okkar er.

Fyrsta erindið hljóðar svona;

Now I've heard there was a secret chord
That David played, and it pleased the Lord
But you don't really care for music, do you?
It goes like this
The fourth, the fifth
The minor fall, the major lift
The baffled king composing Hallelujah


Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah

Í fyrri Samúelsbók 16:23 er þessa tilvitnun að finna:

Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.

Í niðurlagi erindisins er hljómagangur lagsins og tónfræði þess rakinn en það er jafnframt árétting stöðu mannsins (minor fall)  sem fallinnar veru og guðdómsins (major lift) sem lyftir.


Annað erindið er svona;


Your faith was strong but you needed proof
You saw her bathing on the roof
Her beauty and the moonlight overthrew her
She tied you
To a kitchen chair
She broke your throne, and she cut your hair
And from your lips she drew the Hallelujah


Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah

Það er einnig greinileg skírskotun til Samúelsbókar síðari 11:2, þar sem segir frá því er Sál fellur fyrir Batsebu.

Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur. 3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta." 4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.

Niðurlagið beinir huga okkar að örlögum Samsons sem greinir frá í Dómarabókinni 13-16. Breyskleiki allra, jafnvel þeirra sem eru Guði þóknanlegir er megin þemað í þessu erindi. Og það er breyskleikinn og freystingain (táknmyndir hans eru Batseba og Dalíla) sem draga lofgjörðina fram á varir okkar.

Í þriðja erindinu er fjallað um annað boðorðið 

"Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

You say I took the name in vain
I don't even know the name
But if I did, well really, what's it to you?
There's a blaze of light
In every word
It doesn't matter which you heard
The holy or the broken Hallelujah


Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah

Ljóðmælandi, sem mín skoðun er að sé Cohen sjálfur, segir að hann þekki ekki nafn Guðs og spyr hvaða máli það skipti þegar hann sjái hvert orð sem ljósaslóð,hvort sem þau eru  tilbeiðsla mannsins sjálfs eða tilbeiðsla (Hallelujah) sem manninum er lögð í munn af Guði.

Fjórða og síðasta erindið hljóðar svona;


I did my best, it wasn't much
I couldn't feel, so I tried to touch
I've told the truth, I didn't come to fool you
And even though
It all went wrong
I'll stand before the Lord of Song
With nothing on my tongue but Hallelujah


Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah

Sumir hafa reynt að setja þetta erindi í munn Krists en ég er því ósammála. Þetta er Cohen sjálfur sem talar til síns Guðs og segist koma til dyranna eins og hann er klæddur og þrátt fyrir breyskleika sína hafi hann reynt að gera líf sitt að lofgjörð.

Á myndabandinu hér fyrir neðan flytur Cohen lagið í Þýska sjónvarpinu. Hann er dálítið vandræðalegur með alla þessa "engla" fyrir ofan sig, en styrkur lagsins blívur samt.

 


Teiknimynda Kalli

BókinÁrið 1998 kom út bók hjá Great Plains Publications í Winnipeg sem heitir á frummálinu (Ensku) Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson. Bókin er eftir Gene Waltz og fjallar um hæfihlaup og list Charles Thorson sem var fæddur í Winnipeg, Kanada, árið 1890 og gefið nafnið Karl Gústaf Stefánsson.

Foreldrar Karls voru þau  Sigríður Þórarinsdóttir og Stefán Þórðarson (síðar Thorson). Frá Reykjavík fluttust þau til Vesturheims 1887. Þar tók Stefán upp ættarnafnið Thorson.  Synir þeirra Stefáns og Steinunnar eru Joseph Þórarinn Thorson sem síðar varð ráðherra í sambandsstjórn Kanada og bræður hans Karl (Charles Thorson) og Stefán (Stephan).

Karl Gústaf, eða Charlie eins og hann var kallaður af flestum sýndi fljótlega merki um talsverða listræna hæfileika og var líklega tekinn í læri hjá húsamálara og steinglerssmið einum sem hét Friðrik Sveinsson og kallaður var Fred Swanson. Fyrsta opinberlega teiknimyndin eftir hann birtist á forsíðu Heimskringlu 4. mars 1909 var einmitt af Friðriki sem var fóstursonur Ólafs Ólafssonar frá Espihóli sem fluttist  til Kanada 1873.

cartooncharlie1Kannski hefur áhugi Karls eitthvað tengst því að lærimeistari hans Friðrik átti fríða dóttur sem hét Rannveig. Alla vega voru þau Rannveig og Karl gefin saman á heimili foreldra Rannveigar í Gimli 11. október 1914.

Þau höfðu þá þegar einast son sem nefndur var Karl eftir föður sínum. En hamingjan var þeim ekki hliðholl því Rannveig dó af berklum 19. október 1916 og ári seinna dó Karl sonur þeirra af barnaveiki.

Karl teiknaði ýmiss konar skopmyndir og auglýsingar, bæði fyrir Heimskringlu, blað íhaldsmanna, og Lögberg sem frjálslyndir stóðu að. Það var svo árið 1922 að hann var ráðinn til að teikna pólitískar skopmyndir fyrir blaðið Grain Growers Guide sem um það leiti var prentað í 75.000 eintökum. 

Karl leysti þar af hólmi hinn fræga Arch Dale, sem var orðinn að goðsögn í lifanda lífi, en Dale sneri aftur ári síðar. Karl hvarf þá til starfa fyrir dagblaðið Manitoba Free Press og seinna meir teiknaði hann ósköpin öll af myndum í auglýsingabæklinga og vörulista, m.a. fyrir Eaton’s og Brigden’s.

Næstu árin voru róstusöm hjá Karli og það var ekki fyrr en hann hitti og giftist ungri stúlku sem hét Ada Albina Teslock, sem var pólskum ættum, ein níu systra, að líf hans róaðist. Ada var afar fögur, með kolsvart hár og með afar hvíta húð, grönn og lífleg. Fegurð hennar var slík að sagt var að engir karlmenn gætu staðist á móti því að horfa á eftir henni á þegar hún fór um götur. Þrátt fyrir fegurð hennar, eða kannski vegna hennar, endaði hjónaband þeirra fljótlega. Þau eignuðust einn son, Stephen.

AlltþettaÓgiftur enn á ný, hékk Karl á kaffihúsum og teiknaði. Uppáhalds kaffihúsið hans hét Wevel Cafe (Winnipeg). Þar hitti Karl hina fögru Kristínu Sölvadóttir sem þjónaði þar til borðs. Karl fór á fjörurnar við Kristínu en hún hafði heyrt af honum kvennabósasögurnar og svo var hann líka helmingi eldri. Í tilraunum sínum til að ná ástum Rannveigar teiknaði hann hana oft og sendi henni teikningarnar. "Allt þetta mun verða þitt ef þú villt mig" stóð á einni skopteikningunni sem hann sendi henni.

Kristín SölvadóttirKristínu leist ekki á blikuna og forðaði sér frá Winnipeg til Niagarafossa til að greiða úr tilfinningum sínum. Þau skrifuðust á, en um hvað er ekki vitað. Að lokum snéri Kristín aftur til lands forfeðra sinna, Íslands. Hvort hún á hér á landi einhverja afkomendur er mér ekki kunnugt um en ef einhverjir vita betur, væri fróðlegt að heyra af því.

MJallhvít-Kristín SölvadóttirÁrið 1934 hófst það skeið í lífi Kalla sem hann er hvað þekktastur fyrir. Fjörutíu og fjögurra ára gamall réðst hann til starfa fyrir Walt Disney, heillaður af tækninni sem færði gestum kvikmyndahúsanna teiknimyndina um Litlu grísina þrjá. Dvöl hans hjá Disney varð ekki ýkja löng, aðeins tvö ár.

Engu að síður lét Karl eftir sig ekki ómerkari fígúrur en sjálfa Mjallhvíti sem lenti í svo mögnuðu ævintýri með dvergunum sjö. Munnmæli segja að Kristín Sölvadóttir, hafi verið fyrirmyndin að Mjallhvíti og þannig urðu til sögurnar um að Mjallhvít væri íslensk og frá Winnipeg. Kristín Sölvadóttir

Snow-White-PieKalli var líka aðalmaðurinn í að teikna indíánastrákinn Hiawatha og meira og minna allar persónurnar í mynd Disneys um drenginn. En vegna þess að hann hvarf frá störfum fyrir stórfyrirtækið áður en kvikmyndirnar voru sýndar, er hans hvergi getið.

Eftir Disney-árin vann Karl m.a. fyrir Harman-Ising og MGM.

LT-Valentine-Bugs-Bunny-2Frægasta fígúran sem Charlie skapaði algjörlega sjálfur eftir að hann yfirgaf Disney er án efa Bugs Bunny. Teyminu sem falið var að teikna kanínuna , var stýrt af manni sem kallaður var Bugs. Vinnuheiti Karls á kanínunni var því "Bugs Bunny." sem a lokum festist við fígúruna. En það má kalla írónískt að á íslensku var hann kallaður Kalli kanína.

Mjallhvít-frímerkiKarl mun vera eini "íslendingurinn" sem fengið hefur teikningu eftir sig birta á bandarísku frímerki þótt hann fengi aldrei heiðurinn af því opinberlega, frekar en öðru sem hann vann fyrir Disney.

Charles Thorson lést árið 1967.

cartooncharlie2Ævintýrið um Mjallhvíti er um margt merkilegt og á netinu er ágætis sálfræðipæling sem leggur út frá sögunni sem ég linka hér við;  Mjallhvít   

Fyrst til að vekja athygli á því að Mjallhvít Disneys hafi verið teiknuð af íslensk-ættuðum manni og að fyrirmynd hans hafi einni verið íslensk stúlka var eftir því sem ég best veit Gréta Björg Úlfsdóttir.

cartooncharlie3Ég læt hér fylgja að lokum tvær teiknimyndir eftir Karl sem allir sem komnir eru til vits og ára eiga að kannast við úr bernsku sinni.

Það var Davíð Kristjánsson góðvinur minn á Selfossi sem vakti athygli mína á þessum merka Íslandssyni og þeim möguleika að andlit einnar þekktustu teiknimyndarpersónu heimsins væri einnig af íslenskri konu.


Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning

Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.

HrafnMargar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.

Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.

Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.

Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.

Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.

Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.

Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.

Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.

Edgar Allan PoeHrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis.

Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:

Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.

Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.

Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson.    Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.

Paul Gustave DoréMargir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í  Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og  Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.

Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.

 


Kolbítar

Tolkien_youngMargt hefur verið rætt og ritað um "Inklings" (Bleklingana) lesklúbb þeirra félaga J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis. En löngu áður en þeir mynduðu með sér það laushnýtta samfélag samtímaskálda voru þeir saman í leshring sem þeir kölluðu Kolbíta.  

Eða eins og Ármann Jakobsson orðar það á Vísindavefnum;

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin.

Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.

 

Áhrif íslenskra bókmennta á vinsælustu lesningu síðustu aldar; Hringadróttinssögu,  eru ótvíræð og sögusviðið sjálft "Miðgarður" ættleitt beint úr heimsmynd norrænnar goðafræðar. Kolbíta leshringurinn var starfræktur frá 1926 til 1933 átti stóran þátt í að móta frásagnarstíl og efnistök Tolkiens.

coal_fire_lgMargir Tolkiens aðdáendur hafa orðið til að velta fyrir sér nafninu "Kolbítar" og um það er að finna ýmislegt almennt á enskri tungu.

Ég var nýlega að leita að góðri lýsingu á hugtakinu til að segja frá því í boði  sem haldið var til að minnast  Tolkiens á fæðingardegi hans 3. janúar, þegar ég rakst á stórskemmtilega grein sem Már Viðar Másson skrifaði og heitir "Að rísa úr öskustónni" . Þar segir m.a;

Að leggjast í öskustóna var að taka sér hvíld frá amstri dagsins og taka út þroska sinn í friði. Öskustóin var við langeldinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða í eldahúsi. Sá sem lagðist þar fékk að vera í friði. Hann þurfti ekki að vinna hefðbundna vinnu þótt kannski hafi hann aðstoðað eldabuskurnar að einhverju marki, enda eins gott að koma sér vel við þær. Hann þurfti ekki að þrífa sig og mátti klæðast druslum. Vegna öskunnar kallaðist hann kolbítur. Aska er cinder, ella er kona og Öskubuska var kolbítur. A Kolbíturinn gat legið í öskunni mánuðum saman.

Einn góðan veðurdag reis hann upp, baðaði sig, rakaði (ef hann var karl), klippti hárið, klæddist og tók til við dagleg störf á nýjan leik. Hann hafði nú náð sáttum við sjálfan sig og aðra og var því tilbúinn til nýrra átaka. Í sumum tilvikum gekk faðir kolbítsins til hans, kannski á öðru ári, og fékk honum frækilegt verkefni að starfa að. Best var ef faðir gekk til sonar síns, sem þá var kannski sextán ára, og sagði: “Þykir mér góð sonareign í þér. Nú skalt þú koma þér í skip með kaupmönnum, sigla með þeim til Noregs, heimsækja frændur þína þar, skila kveðju til konungs og koma aftur að hausti, færandi heimvarning og nokkurn frama. Hafðu þetta forláta sverð með í för og þennan farareyri.” Líklega var algengast að menn legðust í öskustóna 12-15 ára gamlir. Ég veit það þó ekki fyrir víst.

Sumir telja að ekki hafi verið ástæða til að sinna þessum sið nema snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum föður og sonar. Var þá stundumsagt að sonurinn hefði óhlýðnast lögmáli föðurins. Ég ætla einmitt að taka dæmi af þannig vandræðaástandi hér. Þegar um stúlku var að ræða hefur líklega verið umerfitt samband að ræða milli hennar og móður, nema móðurina hafi hreinlega vantað. Öskubuska og Mjallhvít eru þekkt dæmi þar um. Oft fylgir sögunni að samband unglingsins við hitt foreldri sitt, það er af hinu kyninu, hafi veri náið, enda hefur kolbíturinn getað skákað í því skjólinu. Öskustóin var líklega tilraun unglingsins til að ná sáttum, til að bíða eftir því að nægilegur þroski yrði, svo hann mætti skilja betur hvert næsta skref hans yrði í lífinu. Sama gilti væntanlega um föðurinn, tíminn nýttist honum einnig til þroska. Efvel tókst til varð af því mikil gæfa. Og taugaveiklun og aðrir sálrænir kvillar voru þar með læknaðir. Kolbítar voru t.d. hinn norski Askaladden, hetjan Starkaður, Grettir, Egill og jafnvel Skalla-Grímur á gamals aldri. Og svo mætti lengi telja.

Oft er frá því sagt að kolbíturinn búi yfir undraverðum eiginleikum; sé óvenju stór og sterkur, búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, sé óvenju vel ættaður, eða sérlega fallegur. Og iðulega er eins og askan nái ekki að skyggja á gullið sem undir skín og bíður þess aðeins að af því sé dustað rykið. Hver man ekki eftir Bláskjá sem var af fínum ættum, en lenti um tíma hjá ribböldum. Í dimmum helli skógarmanna mátti sjá gylla í hárið undir skítnum og blámi augnanna var algerlega ósvikinn. Þegar Blárskjár komst aftur til manna spratt fram fullskapaður hefðarmaður. Dvölin í myrkrinu hafði ekki beygt hann, heldur þvert á móti dregið fram það besta í drengnum. Sama átti við um Oliver Twist.

Már Viðar Másson Að rísa úr öskustónni.


Ljóshnettir á ljósmyndum

svanurmswordÍ heimsókn hjá vini mínum fyrir skömmu, tók hann mynd af mér þar sem ég var "að vega mann og annan". Hann sendi mér myndina nokkru seinna og sagði að þetta hefði verið versta myndin sem hann tók allt kvöldið og hann skildi ekkert í öllum þessum deplum á henni.

Hann tók sama kvöld fjölda mynda af fólkinu sem þarna var statt og engin þeirra var eins meingölluð og af mér. Gallinn er eins og auðsætt er að það er fullt af einhverskonar deplum á myndinni sem ég hefði haldið að kæmu frá skítugri linsu eða einhverju álíka. En af því að á hinum myndunum var enga depla að sjá, getur það varla verið.

Ég hef lesið um þetta fyrirbæri og trúi ekki einu orði af því sem fólk segir um svona hnetti eða "orbs" eins og fyrirbærið er kallað upp á enskuna, en fann samt frásögn ljósmyndara sem reyndi að afsanna að þetta væri yfirnáttúrulegt fyrirbæri eins og margir halda fram. Frásögn hans er að finna hérna.

Ég er enn á því að þetta séu algjörlega náttúruleg fyrirbæri en kann ekki að skýra málið frekar en Dave Juliano.


Bölbænir í Bath

Heitavatnslindin í BathÉg átti erindi fyrir stuttu inn á stofnun þá er sinnir upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn hér í borg (BATH)  en hún er staðsett við hliðina á þeim stað sem mest aðdráttaraflið hefur, rómversku baðlindinni. Erindið var að fá að hengja upp auglýsingu um dagskrá listamiðstöðvar sem ég tengist lítilsháttar. Það var í sjálfu sér auðsótt mál því stór og mikil auglýsingatafla blasti þarna við öllum en það þurfti samt að borga fyrir að fá að hengja auglýsinguna upp á hana. Og eftir því sem sem þú vildir að hún væri lengur uppi, því meira kostaði það.

Rómverska musterið í BathÍ gærkveldi minntist ég á þetta við vinkonu mína sem er fornleyfafræðingur og hefur átt þátt í mörgum merkum fundum á svæðinu síðast liðin 20 ár. Hún sagði mér að upplýsingaþjónustan stæði á nákvæmlega sama stað og rómverskt musteri hafði staðið á fyrir rúmum 2000 árum. Í musterinu hafði verið starfrækt einskonar ferðamannaþjónusta þeirra tíma. Í nótt gluggaði ég svo í bækur um rómversku byggðina í Bath og rak þá augun í mynd af blýtöflu sem á var letruð bölbæn. Bölbænin hófst svona; Ég bölva  Tretiu Mariu, lífi hennar, huga og minni" og endaði á; "Þannig mun hún ekki geta talað um þá hluti sem nú eru leyndir".   

BölbænirSkýringin á bölbænatöflunni var sú að mikil helgi var höfð á heitu vatnsuppsprettunni í Bath meðal fornmanna og hafði fólk komið víðs vegar að frá Bretlandi og Frakklandi til að baða sig í henni og taka vatnið inn við ýmsum kvillum. Jafnframt var vatnið talið svo kynngimagnað og í umræddu musteri var hægt að fá útbúnar áletraðar bölbænir á blýtöflur sem síðan voru hengdar upp í musterinu fyrir gjald.  Eftir því sem taflan hékk lengur uppi, því meira var gjaldið.


Bloggsöknuður

nikÉg hef aðeins bloggað í rúmt ár og miðað við þá sem lengst hafa skrifað á blog.is er ég algjör nýgræðingur. En á þessum skamma tíma hefur áhugi minn og að vissu leyti umhyggja fyrir þessum anga menningarinnar, vaxið til muna. Bloggið hefur samt breyst ótrúlega mikið á þessu eina ári og mest á síðustu mánuðum.  - 

Auðvitað bloggar fólk af mismunandi ástæðum, en það er eins og að margir hafi hreint og beint fundið köllun sína í bloggheimum eftir að himnarnir hrundu í höfuðið á íslenskri alþýðu. Um leið og bloggið og bloggefnið varð þrengra og einlitara (að mínum dómi), geystust fram á ritvöllinn með gustó, fjöldi dágóðra penna með hið alþekkta og rammíslenska besserwisser heilkenni í farteskinu í bland við messíanskan eldmóð.

En þindarlaus pólitísk gagnrýni, endalaus álitsgjöf á mönnum og málefnum þar sem margir éta upp eftir hvor öðrum ágreiningsefnin, fara illa í minn pólitískt-óharðnaða maga. Í kjölfarið finnst mér eins og bloggumræðan hafi líka sett ofan. Athugasemdirnar koma yfirleitt frá sömu hópunum (the usual suspects) sem raðað hafa sér upp samkvæmt gömlu flokksfylkingunum á bloggsíðum "sinna manna/kvenna".

Frá mínum lága bæjarhóli séð eru persónulegu bloggin miklu fyrirferðarminni en áður og umtalsvert færri. Í staðinn hefur fréttabloggurum fjölgað til muna. Þessi þróun hefur orðið til þess að ég (og þar er ég sjálfsagt í miklum minni hluta) heimsæki mun færri bloggsíður en ég gerði áður.

ascii-blogger-portraitsNýlegt bann á birtingu blogga á forsíðu blog.is sem ekki fylgja þjóðskrárnöfn  höfunda, gerir mörg skemmtileg blogg næstum því ósýnileg og sum þeirra eru því miður horfin með öllu.

Það verður að segjast eins og er að um mörg þeirra léku ferskustu vindarnir. Ég sakna þeirra og ég sakna þess að sjá hressilegar fyrirsagnir á bloggforsíðunni sem ég er ekki þegar búinn að lesa á fréttasíðu MBL.is

Þá er að verða mun algengara að fólk nýti sér "skilaboðakerfið"  til að auglýsa færslur sínar. Almennt talað finnst mér að það eigi að spara kerfið fyrir "sérstök" skilaboð þannig að maður hætti ekki að nenna að lesa þau. Ef samkomulag er milli bloggvina um annað er það auðvitað sjálfsagt, en að ganga að skilaboðaskjóðunni sem sjálfsögðu auglýsingakerfi hugnast mér lítt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband