Færsluflokkur: Ferðalög

Eftirlíkingar Árna Johnsen

Hvað er þetta með Árna Johnsen og áhuga hans á smíði eftirlíkinga af gömlum húsum. Kannski hann hafi kviknað fyrir alvöru við setu hans í byggingarnefnd Þjóðleikhússins upp úr 1996. Víst er að hann hlaut talverða reynslu af almennu byggingarferli við þá setu.

Kirkja Þjóðhildar í Bröttuhlíð á Grænlandi Árni sá um að reisa eftirlíkingu af kirkju Þjóðhildar og bæjar Eiríks rauða í Bröttuhlíð á Grænlandi.

Á árinu 1997 ákvað Vestnorræna ráðið og Grænlenska Landsráðið að setja á fót byggingarnefnd, sem hefði það verkefni að byggja kirkju og bæ í Brattahlíð á Grænlandi. Formaður byggingarnefndar var skipaður Árni Johnsen.

Þegar að Norsk stjórnvöld ákváðu í tilefni af 1000 ára afmæli Kristnitöku á Íslandi að gefa íslensku þjóðinni stafkirkju og var henni valinn staður í Vestmannaeyjum.

Stafkirkjan á Skansinum í VestmannaeyjumSkipuð nefnd til að hafa stjórn og yfirumsjón með framkvæmdum og öðru er laut að móttöku gjafarinnar. Árni Johnsen var skipaður formaður nefndarinnar.

Kirkjan reis á Skansinum árið 2000 til minningar, er sagt, um svipaða kirkju sem reist var í fyrndinni af Hjalta Skeggjasyni hinum megin hafnarinnar á Hörgaeyri, líklega fyrst kirkna á Íslandi.

Bær Herjólfs í Herjólfsdal í VestmannaeyjumÞá stóð Árni Johnsen fyrir því 2005 (ásamt öðrum Eyjamönnum) að eftirlíking af landnámsbæ, e.t.v. Herjólfs Bárðarsonar sem talinn er hafa fyrstur numið eyjarnar, reis inn í Herjólfsdal.  Húsið er byggt sem langhús og gripahús.

Nú er Árni Johnsen kominn aftur af stað við að reisa eftirlíkingu.  - Svonefnt Þorláksbúðarfélag er undir forystu Árna Johnsen, en það ætlar að reisa eftirlíkingu af kirkju sem er kennd við Þorlák helga Þórhallsson, verndardýrling Íslands, sem var biskup í Skálholti undir lok 12. aldar. Alls óvíst er hvenær kirkjan sem höfð er að fyrirmynd var fyrst byggð en það setur Árni ekki fyrir sig.

ÞorláksbúðSamkvæmt fundargerð Kirkjuráðs frá því haustið 2010 var áætlaður kostnaður við Þorláksbúð um 38 milljónir króna. Í fjölmiðlum hefur komið fram að kostnaðurinn sé greiddur af opinberu fé og með framlögum einkafyrirtækja.

Gerð, staðsetning, tilgangur og fjármögnun allra þessara verkefna hafa verið umdeild. Einnig að það skuli hafa verið Árni Johnsen sem veiti framkvæmd þeirra forystu.

Spurningin sem ég velti fyrir mér er hvers vegna Árni sýnir svona verkefnum mikinn áhuga og er tilbúin að leggja frekar viðkvæmt orðspor sitt að veði í hvert sinn sem hann kemur nálægt þeim. -

Eftirlíkingar koma aldrei í stað þess sem raunverulega var og stundum er betra að láta sér nægja ímyndunaraflið frekar en að reiða sig á umdeildar eftirlíkingar. - Þessi árátta að gera eftirlíkingar af fornum mannvirkjum, af því engin raunveruleg hafa varðveist, sver sig dálítið í ætt við amerísku leikgarðamenninguna. Sá buisness byggist upp á því að fólk kæri sig kollótt um að það sem það sér og upplifir sé ekki ekta og e.t.v. ekki neitt í líkingu við það sem bestu heimildir segja til um.  -

Viking_VillageÉg held að hvorki Íslendingar eða erlendir ferðamenn sem til landsins koma, hafi mikinn áhuga á slíku í tengslum við mikilvægar söguslóðir og raunverulega náttúru. Viðbrögð gesta í Þjóveldisbæinn í Þjórsárdal og í eftirlíkinguna af bæ Eiríks rauða í Haukadal, bera vitni um það. Góðlátlegt grín bjargar oftast málunum, en er það markmiðið?

Ef til vill er samt markaður fyrir víkinga-skemmtigarð með eftirlíkingum af húsakynnum víkinga,  leikurum og leikmunum. Eitt slíkt var um tíma fyrirhugað í Reykjanesbæ en er víst ekki lengur á kortinu.


mbl.is Skálholt skyndifriðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indíánasumar

IndíánasumarIndíánasumar kalla fjölmiðlar góða veðrið sem leikið hefur við íbúa Bretlands og stórs hluta Norður-Evrópu nú á hautsdögum.

Orðatiltækið ku ættað frá Norður-Ameríku þar sem herskáir indíánaflokkar notuðu forðum slíka sumarauka til ránsferða.

Framan af öldum í Evrópu voru óvenju sólríkir og heitir góðviðrisdagar að hausti kenndir við heilagan Martein og kallaðir Marteinssumar en 11. Nóvember var og er helgaður honum.

Blíðan undanfarna daga hefur haft mikil áhrif á verslun og viðskipti hér í Englandi. Biðraðir mynduðust víða við bensíndælur á þjóðvegum úti um helgina og sumir kráreigendur urðu uppiskroppa með bjór. Ferðamannastaðir vítt og breitt um landið, sérstaklega þeir sem standa út við strendur landsins, voru fullir af sólelskandi og fáklæddu fólki.

Nú spá veðurfræðingar að í vikunni framundan muni kólna aftur í veðri og haustgolan með tilheyrandi regni verða aftur köld og svalandi. -


mbl.is Hitabylgja í Norður Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólugrafin ásjóna Íslands

vor_ufargan.jpgVíst er að vörður hafa verið hlaðnar á Íslandi frá upphafi byggðar og eru sumar þeirra sem enn standa mjög gamlar, þótt erfitt sé að greina aldur þeirra með fullri vissu. Margra er getið í gömlum heimildum og munnmælum. - Forðum voru flestar vörður hlaðnar sem vegvísar en aðrar til að þjóna sem eyktamörk .-  Einhverjum var vafalaust hrúgað upp af smölum sér til hita eða dægradvalar og enn öðrum af fræknum fjallagörpum sem vildu skilja eftir sig vegsummerki á sigruðum fjallstindum. - Þá voru veglegar vörður hlaðnar af landmælingamönnum á árunum 1910-1940, þegar landið var kortlagt og danskir landmælingamenn notuðu þær sem mælipunkta.  

Við þessum vörðum er ekki verið að amast. 

vor_ubani.jpgÁ síðasta ári vakti það athygli þegar að nokkrir leiðsögumenn tóku sig saman og fóru í dagsferð gagngert til þess að jafna við jörðu um 1200 vörður. Meining þeirra og margra annarra landverndarmanna er sú að vörðuhleðsla ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra,  sé orðin svo algeng að ásjóna landsins bíði af því skaða. - Þeir kölluðu vörðuhleðsluna "eitt versta náttúrusóðavandamál síðari ára." -

Þetta má til sannsvegar færa, einkum þegar það er haft í huga að við viljum gjarnan geta bent á að á Íslandi finnist enn náttúra sem er að öllu ósnert af mannanna höndum. - Þessar smástrýtur eru orðnar of margar og af þeim mikil sjónmengun, einkum meðfram fjölförnum fjallvegum þar sem næsta umhverfi er líkt og bólugrafið af þeim.

Erlendir ferðamenn sem taka eftir þessum steinbólum, álíta gjarnan að hér sé um þjóðlegan sið að ræða sem þeir vilja gjarnan taka þátt í. - 

Það er hæglega hægt að stemma stigu við þessum ósið með aukinni fræðslu og upplýsingum til ferðamanna og einnig leiðsögumanna. - Þeir eru ekki ófáir ferðapésarnir sem dreift er til erlendra ferðamanna á hverju ári. En ég minnist þess ekki að hafa sé eina einustu ábendingu varðandi þetta mál í neinum þeirra , hvað þá netsíðum með upplýsingum um landið. 


Mjólkuróþol skrælingja

Fyrr í sumar kom ég við á Eiríksstöðum í Haukadal  og hlustaði á sögumann staðarins segja enskum ferðamönnum m.a. frá siglingum norræna manna til vesturheims fyrir 1000 árum.

Karlsefni og RauðbuxiÁ honum mátti skilja að hann teldi ástæðuna  fyrir því að landnám norrænna manna  fór út um þúfur í N- Ameríku vera; að þeir gáfu "skrælingjunum" skyr að borða. Vegna erfðabundins mjólkuróþols flestra N-amerískra frumbyggja, hafi þeir orðið fárveikir af velgjörðunum og héldu auðvitað að verið væri að byrla þeim eitur.

Mjólkuróþol er kvilli sem hrjáir sumt fólk sökum þess að líkami þeirra framleiðir of lítið eða ekkert af laktasa, sem er prótín sem brýtur niður mjólkursykur og meðal amerískra indíána er mjólkuróþols-tíðnin hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum. 

Það er staðreynd að Grænlendinga saga segir að Karlsefni hafi látið gefa skrælingjunum "búnyt"  sem vel kann að hafa verið skyr, í kaupum fyrir skinnavöru. 

LeifsbúðEn það sem skýtur skökku við er að sama heimild segir að skrælingjarnir hafi ekki viljað sjá annað eftir að þeir brögðuðu búnytina og þrátt fyrr að óþolið hafi hugsanlega valdið þeim uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi, hafi þeir seinna, snúið aftur, eftir meiru af því sama.  

Hér kemur frásögnin úr Grænlendinga sögu:

Eftir þann vetur hinn fyrsta kom sumar. Þá urðu þeir varir við Skrælingja og fór þar úr skógi fram mikill flokkur manna. Þar var nær nautfé þeirra en graðungur tók að belja og gjalla ákaflega hátt. En það hræddust Skrælingjar og lögðu undan með byrðar sínar en það var grávara og safali og alls konar skinnavara og snúa til bæjar Karlsefnis og vildu þar inn í húsin en Karlsefni lét verja dyrnar. Hvorigir skildu annars mál.

Þá tóku Skrælingjar ofan bagga sína og leystu og buðu þeim og vildu vopn helst fyrir en Karlsefni bannaði þeim að selja vopnin.

Og nú leitar hann ráðs með þeim hætti að hann bað konur bera út búnyt að þeim og þegar er þeir sáu búnyt þá vildu þeir kaupa það en ekki annað. Nú var sú kaupför Skrælingja að þeir báru sinn varning í brott í mögum sínum en Karlsefni og förunautar hans höfðu eftir bagga þeirra og skinnavöru. Fóru þeir við svo búið í burt.

Nú er frá því að segja að Karlsefni lætur gera skíðgarð rammlegan um bæ sinn og bjuggust þar um. Í þann tíma fæddi Guðríður sveinbarn, kona Karlsefnis, og hét sá sveinn Snorri.

Á öndverðum öðrum vetri þá komu Skrælingjar til móts við þá og voru miklu fleiri en fyrr og höfðu slíkan varnað sem fyrr.

Þá mælti Karlsefni við konur: "Nú skuluð þér bera út slíkan mat sem fyrr var rífastur en ekki annað."

Og er þeir sáu það þá köstuðu þeir böggunum sínum inn yfir skíðgarðinn. En Guðríður sat í dyrum inni með vöggu Snorra sonar síns. Þá bar skugga í dyrin og gekk þar inn kona í svörtum námkyrtli, heldur lág, og hafði dregil um höfuð, og ljósjörp á hár, fölleit og mjög eygð svo að eigi hafði jafnmikil augu séð í einum mannshausi.

Hún gekk þar er Guðríður sat og mælti: "Hvað heitir þú?" segir hún.

"Ég heiti Guðríður eða hvert er þitt heiti?"

"Ég heiti Guðríður," segir hún.

Þá rétti Guðríður húsfreyja hönd sína til hennar að hún sæti hjá henni en það bar allt saman að þá heyrði Guðríður brest mikinn og var þá konan horfin og í því var og veginn einn Skrælingi af einum húskarli Karlsefnis því að hann hafði viljað taka vopn þeirra og fóru nú í brott sem tíðast en klæði þeirra lágu þar eftir og varningur. Engi maður hafði konu þessa séð utan Guðríður ein.

"Nú munum vér þurfa til ráða að taka," segir Karlsefni, "því að eg hygg að þeir muni vitja vor hið þriðja sinni með ófriði og fjölmenni. Nú skulum vér taka það ráð að tíu menn fari fram á nes þetta og sýni sig þar en annað lið vort skal fara í skóg og höggva þar rjóður fyrir nautfé vort þá er liðið kemur framúr skóginum. Vér skulum og taka griðung vorn og láta hann fara fyrir oss."

En þar var svo háttað er fundur þeirra var ætlaður að vatn var öðru megin en skógur á annan veg. Nú voru þessi ráð höfð er Karlsefni lagði til.

Nú komu Skrælingjar í þann stað er Karlsefni hafði ætlað til bardaga. Nú var þar bardagi og féll fjöldi af liði Skrælingja. Einn maður var mikill og vænn í liði Skrælingja og þótti Karlsefni sem hann mundi vera höfðingi þeirra. Nú hafði einn þeirra Skrælingja tekið upp öxi eina og leit á um stund og reiddi að félaga sínum og hjó til hans. Sá féll þegar dauður. Þá tók sá hinn mikli maður við öxinni og leit á um stund og varp henni síðan á sjóinn sem lengst mátti hann. En síðan flýja þeir á skóginn svo hver sem fara mátti og lýkur þar nú þeirra viðskiptum.

Það er greinilegt að Karlsefni telur sig hafa sloppið ódýrt frá viðskiptum sínum við skrælingjanna sem aðeins höfðu magafylli af "búnyt"  upp úr krafsinu. E.t.v. fékk hann slæma samvisku því hann lætur víggirða bæ sinn eftir þessi viðskipti.

Spurningin sem eftir situr er hvort skrælingjarnir hafi snúið aftur til að ná sér niðri á landnemunum eða hvort þeir komu bara til að verða sér út um meira skyr.


Öfugmælið Iceland Express

Ég ætlaði að fljúga til London í morgunn með Iceland Express. Ætlaði að vera viðstaddur stór-afmæli niður  í Cornwall í kvöld. Vélin átti að fara samkvæmt bókuninni kl: 08.20 og lenda 20 mín yfir 12 að staðartíma. Nægur tími til að komast með lest á áfangastað, jafnvel þótt fluginu seinkaði dálítið eins og vaninn er hjá þessu flugfélagi sem reyndar er svo alls ekki flugfélag þegar nánar er skoðað heldur söluskrifstofa fyrir eitthvað enskt flugfélag og  lætur bara alla halda að hún sé alvöru flugfélag.-

Þegar ég kom á Keflavíkurflugvöll sá ég að flugið var áætlað kl: 8:50,- seinkun sem ég get sætt mig við,  hugsaði ég. Þegar klukkan nálgaðist 9:00 og ekki var enn farið að hleypa um borð í vélina mjakaði ég mér fram hjá langri röð farþega sem stóðu þolinmóðir við útganginn og biðu eftir að verða hleypt um borð.

Fyrir aftan afgreiðsluborðið stóð ung stúlka og brosti. "Hvað er mikil seinkun í viðbót?", spurði ég. Hún sagðist ekki vita það, en hún væri að bíða eftir nákvæmari upplýsingum. Í þeim töluðu orðum kom ungur maður að borðinu og af orðum hans sem hann beindi reyndar að stúlkunni, mátti skilja að flugvélin væri biluð og það ætti að athuga með flugið kl. 11:00.

Hann bað stúlkuna, sem var greinilega farin að vera óstyrk, að tilkynna þetta í kallkerfið. Fyrir aftan mig var fólk farið að ókyrrast og kalla á pörin fyrir innan borðið og vildi geinilega vita hvað væri á seyði.

Stúlkan færðist undan því að tilkynna seinkunina og sagðist aldrei hafa gert svona áður og hún kynni ekkert á kallkerfið. Ungi maðurinn reyndi að telja í hana kjark og eftir nokkurt þref beygði hún sig niður undir afgreiðsluborðið og af því að ég stóð svo nálægt heyrði ég hana stauta sig fram úr afsökunarbeiðni, tilbúnum texta sem maðurinn hafð fundið handa henni í einhverri möppu.

Ekki heyrðist samt múkk í hátalarakerfi flustöðvarinnar.

Fólk fyrir aftan mig var nú byrjað að hrópa og vildi fá að vita hvort það ætti að fljúga eða ekki. Unga manninum varð þá ljóst að skilaboð stúlkunnar höfðu ekki komist til skila því kallkerfið virkaði ekki frá afgreiðsluborðinu.

Þetta var all-pínleg staða. Úti stóð flugvélin biluð og inni var kallkerfið bilað. Ungi maðurinn tók sér nú stöðu fyrir framan afgreiðsluborðið og hóf að útskýra það fyrir nærstöddum að hann væri ekki vélvirki og gæti því ekki sagt neitt um hvenær eða hvort vélin mundi  fljúga.

Stúlkan sat á meðan fyrir aftan hann heldur hnýpin og lét lítið fyrir sér fara. - Ungi maðurinn benti fólki á að fara til þjónustuborðs fyrir utan biðsalinn til að fá nánari upplýsingar. - Ég brá mér þangað og hitti þar fyrir miðaldra konu sem sat við tölvu. "Það á að athuga með flugið kl:11:00"  tjáði hún mér. "Matarmiðum verður útbýtt eftir að þrjár klukkustundir eru liðnar frá áætlaðri brottför"  tilkynnti hún svo á ensku, því fyrir framan hana hafði  nú safnast saman hópur farþega sem vildi fá upplýsingar um hvað þessi söluskrifstofa ætlaði að gera fyrir fólkið. Margir sögðust vera að missa af tengiflugi til annarra áfangastaða.  Við því var lítið að gera taldi konan.

Um kl. 10:30 birtist á skjánum og brottfarir og komur að þessu ákveðna flugi til London mundi seinka til 16:30.

Það er auðvitað nokkuð ljóst að ég verð af afmælisveislunni. Næsta flug til Bretlands er kl: 16:00 með Icelandair og með þeim kostar farið um 80.000 kall. Farmiðinn með Iceland Express var 50.000 krónum ódýrari og sá munur nægði til að ég var tilbúinn til að taka áhættuna (sem ég vissi að var veruleg) á talverðri seinkun. En að hún yrði meira en 8 tíma var nokkuð sem ég reiknaði alls ekki með.

Nú sit ég leiður og súr og bíð eftir að skrifstofa þeirra Express manna svari í símann. Ég er númer 2 í röðinni en komst áðan upp í að vera númer eitt í röðinni. Ég hringdi um leið og ég hóf að skrifa þennan leiða pistil fyrir klukkustund eða um leið og skrifstofa þeirra á að opnaði kl. 11.00. 

Rétt í þessu var mér svarað. Jú það verður örugglega flogið í dag, staðfest brottför kl: 17:15!

Ef ég vill fá miðann endurgreiddan verð ég að hringja aftur í dag, jafnvel þótt það taki klukkustund að fá samband.  Ekki er hægt að senda tölvupóst í því skyni og já, hún mundi láta einhvern vita af þessu rugli í símkerfinu þar sem fólk rokkar sjálfvirkt milli sæta í röðinni sem það bíður í.

Niðurstaðan er að það sé um að gera fyrir fólk að fljúga með Iceland Express ef það skiptir engu máli fyrir það hvenær flogið er.


Lundi með hanakamb

ÞjóðhátíðarmerkiðAðstandendur Þjóðhátíða  í Vestmannaeyjum hafa fram að þessu reynt að gera hverja hátíð sérstaka og einstaka með ýmsum hætti. Þótt að skreytingar í dalnum hafi haft sína föstu liði, ætíð hefur þess verið gætt að gera þær mismunandi á hverju ári.

Þá hefur Sérstakt þjóðhátíðarlag hefur verið samið fyrir hverja hátíð og veggspjöld og auglýsingar hafa skartað mismundi útfærslum á vörumerkinu sem orðið "þjóðhátíð" er.

HanakamburÞessu hafa menn unað lengi enda vel til tekist í flest skipti. Spurningin er hvaða ástæður fyrir því að breyta út af hefðinni í tenglum við atburð sem einkum byggir á hefðum.

Nú hafa Eyjamenn semsagt, ef ég skil þessa frétt rétt, ákveðið að eitt merki, (lógó) skuli prýða allar auglýsingar og efni tengt Þjóðhátíð Vestmannaeyja um ókomna framtíð. Höfundi merkisins gengur greinilega ýmislegt ágætt til, en merkið er samt ekki gallalaust.

costume_harlehatVið fyrstu sýn minnir það á lunda með hanakamb. Ef að eldurinn í kórónunni væri rauður eða gulur eins og eldurinn í þjóhátíðakestinum oftast er, væri "kórónan" enn líkari hanakambi.

"Kórónan" eins og sér dregur einnig upp myndir af höfuðfati hirðtrúða til forna sem voru eins konar grínútgáfur af hefðbundnum kórónum konunga. Flugeldarnir gætu svo hæglega verið bjöllur. (Sjá mynd) Reyndar hef ég séð svona höfuðföt til sölu á þjóðhátíð, en það er önnur saga.

3744964938_aa8ae9b6f1Vissulega er þjóðhátíðin "konungur" útihátíðanna en þessi kórónaði þjóðhátíðarlundi er reyndar  líkari Fratercula cirrhata (sjá mynd) en Fratercula arctica, þ.e. lunda eins og við flest þekkjum hann og mest er af í Vestmanneyjum.

Letrið sem notað er í merkinu er einnig all sérstætt. Ég veit satt að segja ekki hvað fonturinn heitir, en e.t.v. er hann sérteiknaður. Letrið minnir helst á einhvern tréútskurð eða jafnvel Anþrópósófískan bautasteinastíl sem notaður er mikið meðal Steiners fylgjenda.

HeykrókurJoðið er mest áberandi stafurinn og minnir á heykrók. Kannski að þarna sé komin lúmsk skírskotun til Húkkaraballsins?  Heildarmyndin á letrinu er samt  ekki samfelld og dálítið klúðursleg á að líta.

Mér finnst allt ílagi að nota þetta merki fyrir Þjóðhátíðina í ár en ég er ekki viss um að það fari svo vel á því að gera það að lógói sem nota á framvegis.

Bestu kveðjur til Eyja.

Ég læt hér fylgja vísustúf sem ég fann um Lundakónginn. Spurningin er hvort einhver getur fundið lag sem við þekkjum öll sem hægt er að syngja við þessa ágætu vísu.

 

I imagine I’m the Puffin King
Ruling the island of Congabing.
All the birds sing praise to me
Bringing gifts of pearls and starfish tea.
Except for this bizarre crane
Who believes the island is his to reign.
Now every time that I bow down
He sneaks up and steals my crown.


mbl.is Nýtt merki þjóðhátíðar í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salisbury, Silbury og Solsbury

Á Englandi eru þrír sögufrægir staðir sem bera svo svipuð nöfn að það er ekki óalgengt að Bretar sjálfir rugli þeim saman hvað þá útlendungar sem til landsins koma til að berja þá augum. Þessir staðir eru bærinn Salisbury í  Wiltshire, Silbury hóll sem einnig er í  Wiltshire og Solsbury hæð í nálægt Batheaston í Somerset. - Það eykur enn á ruglinginn hversu nálægt hver öðrum staðirnir eru í sveit settir. Fyrir utan að bera áþekk nöfn sem fólk gjarnan heldur að séu mismunandi útgáfur af sama orðinu, (svo er ekki)  eiga staðirnir þrír ýmislegt sameiginlegt. 

Old_SarumBærinn sem í dag er kallaður Salisbury (eða Nýja Sarum) var ekki reistur fyrr en um 1220 en á svæðinu hafa fundist menjar sem benda til að byggð hafi verið þar frá örófi. Á nærliggjandi hæð er að finna vísbendingar um virki sem fyrst var reist á steinöld.

Þegar Rómverjar hernumdu landið kölluðu þeir hæðina "Sorviodunum" en "dunum" merkir virki eða vígi á latínu og er algeng ending á enskum bæjum og borgum í dag. Í fyrndinni voru virki á Englandi gjarnan byggð á hæðum eða hólum sem veittu gott útsýni yfir næsta nágrenni. Á keltnesku þýðir orðið "dun" einnig hóll eða borg. Oðrið "sorvio" er ekki til í latínu en "sorfio" á keltnesku þýðir þurr. Sorviodunum er því rómverka útfærslan á keltneska orðinu Sorfidun sem einfaldlega merkir "Þurra borg".

Þá er vitað að Saxar byggðu sér einnig virki á hæðinni og kölluðu það á sinni tungu Særesbyrig. Þeir reynd sem sagt að halda orðinu "sorfio" til haga en nota engilsaxneska orðið "bær" í staðinn fyrir hið rómverska "dunum".

Trérista af virkinuNormannar tóku við virkinu eftir innrásina 1066 og og byggðu á hæðinni kastala. Í Dómsdagsbókinni (1086) þar sem Vilhjálmur l lét skrásetja öll byggðarlög í ríki sínu, er byggðin kölluð "Saresberi", skrifað að hætti normanna Salesberi

Af  þessum fræga virkishóli dregur því bærinn Salisbury sem er í rúmalega tveggja kílómetra fjarlægð frá henni,  nafn sitt.  Einnig Salisbury sléttan en Stonehenge er frægasta mannvirkið sem upp af henni rís. 

Silbury hillSilbury Hóll heitir manngerð hæð úr kalksteini sem stendur ekki langt frá hinum fornfrægu Avebury steinhringjum. Hóllinn er rétt um 40 metra hár og tveir hektarar að flatarmáli. Hann gerður í nokkrum áföngum og er innsti og elsti hluti hans um 5000 ára gamall en sá ysti og yngsti um 4300 ára.

Hóllinn er sögð stærsta manngerða hæðin í Evrópu og er stundum kölluð "enski píramídinn". Forðum hefur hvítur kalksteinninn eflaust gert hólinn tignarlegan á að líta þar sem hann reis upp úr annars  flatri sléttunni en í dag er Silbury hóll grasi vaxinn og lítur út eins líkt og hundruð hæða og gróinna holta sem prýða enskt landsslag og gera það svo sérstakt.  

Nokkuð hefur verið til reynt til að uppgötva til hvers hólnum var hrúgað upp á sínum tíma. Nokkrum sinnum hefur verið grafið í hann, bæði ofaní og undir hann, en ekkert komið í ljós sem gefið gæti vísbendinu um hversvegna forfeður Englendinga lögðu á sig þessa miklu jarðvinnu. Það hefur samt ekki staðið í vegi fyrir því að fjöldi tilgáta hefur verið settar fram um tilgang Silbury, án þess þó að nokkur þeirra sé talin sennilegri en aðrar.

Silsbury Hill 1Nafnið Silbury er talið samsett úr keltneska orðinu zilsem þýðir auga. Það er skylt orðinu sil í grísku saman ber Silvía mánagyðja og er einnig rótin að orðinu silfur. Nafn hæðarinnar getur því hæglega útlagst á íslensku "Mánaborg".  

Silbury er eins og áður er getið í Wiltshire. Í búar þess skýris eru oft nefndir "Mánarakarar". Sagan segir að að þeir bændur hafi forðum verið nokkuð stórtækir smyglarar, einkum á vín frá  Frakklandi. Tollmenn konungs voru á hverju strái og þurfti oft að leika á þá. Eitt sinn földu smyglararnir víntunnur sínar í tjörn einni. Tollmenn komu að tjörninni og sáu hvar bændur stóðu og rökuðu tjörnina í óða önn. Tollararnir furðuðu sig á athæfinu sem von var og spurðu hvað um væri að vera. Þeim var svarað því til að verið væri að raka saman ostinum sem í  tjörninni væri og bent á hvernig fullt tungl endurspeglaðist í tjörninni. Tollararnir hlógu að einfeldni bænda og hröðuðu sé á braut. Eftir þetta festist uppnefnið "Moonraker" við íbúa svæðisins sem þeir láta sér það vel líka.

Solsbury HillSolsbury Hæð er nafn allstórrar hæðar skammt frá borginni Bath í Somerset. Nafn hæðarinnar er dregið af  keltnesku gyðjunni Sulis sem var dýrkuð af Keltum á þessu svæði í fyrndinni og hæðin sjálf helguð henni. Leiðin til hinna hlegu véa gyðjunnar við heitu uppspretturnar í Bath, lágu meðfram hæðarrótunum.  

SólborgSuil  á gamalli írsku merkir "auga" eða "gap"  sem var inngangurinn í undirheima. En talið er að Gyðjan Sulis hafi fengið nafn sitt frá upphaflegri merkingu Indóevrópska orðsins orðsins  "sawl" (á latínu sol)  og á íslensku Sól. Upphaflega heiti hæðarinnar var því "Sólborg".

Efst á hæðinni eru ummerki eftir virki sem fyrst var byggt fyrir 2300 árum.

Peter Gabriel samdi á sínum tíma ansi gott lag um hæðina , en hljómver hans og reyndar heimili líka er staðsett þar um slóðir. Hér er það lag fyrir áhugasama.


Make me one with everything

Íslenska pylsan er einn af fáum réttum sem getur gert tilkall til þess að kallast þjóðarréttur íslendinga. Það líður sjaldan langur tími frá því að ég stíg á íslenska grund og þangað til ég er kominn inn í einhverja sjoppuna til að fá, það sem fyrir mér er hinn eina sanna pylsa.

Hér áður fyrr, áður fyrr þegar Prins póló var og hét og bragðaðist eins og Prins á að bragðast, var það hluti af þjóðarréttinum, eins konar eftirréttur. En eftir Chernobyl slysið breyttist bragðið og síðan umbúðirnar og þá fór þjóðlegi svipurinn af því.

Eins og pylsa með öllu er nú góð og vinsæl á landinu er mesta furða að útlenskir  matargurúar hafi ekki fyrir löngu tekið hana upp á sína arma líkt og gert er í Huffington Post. En þá ber þess að gæta að smekkurinn fyrir réttinum er "áunninn" því margir af þeim útlendingum sem ég hef boðið upp á góðgætið, eru ekki eins hrifnir og ég, alla vega ekki í fyrsta sinn.

Besti pylsubrandarinn sem ég hef heyrt er svona; Búddisti gekk upp að pylsusalanum í New York og sagði; make me one with everything.


mbl.is Íslenska pylsan slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleki á milli fleka

Holan í San AntonioAlmannagjá er tvímælalaust ein merkilegasta náttúrperlan á Íslandi. Jarðfræðilega og sögulega er hún einstök.

 Ferðamenn sem til landsins koma taka gjarnan andköf á Hakinu þegar þeir líta yfir þingvelli og Þingvallavatn "yfir til Evrópu og þegar þeir ganga niður gjána drýpur sagan ef hverri nibbu.

Þessi hola niður í "nýja gjá" undir gamla þjóðveginum sem liggur niður Almannagjá á bara eftir að auka á undrið sem við köllum "þingvelli" og þar með ánægju ferðamanna sem sækjast eftir að sjá áþreifanleg og ný merki um að landið sé að gliðna í sundur eins og flekakenningin gerir ráð fyrir. 

Að byggja fleka yfir holuna eða  byrgja hana á annan hátt, eins og segir í fréttinni að eigi að gera,  eru mistök. Það er í lagi að girða hana ef hætta er á hruni, en mér finnst sjálfsagt að fólk fáið að berja hana augum.

Hún er svo sem ekki stór þessi hola og jafnast kannski ekki á við holuna sem opnaðist  í San Antonio í Gvatamala á síðasta ári en sú er 70 metra djúp og varð einmitt til af völdum vatnsrofs.


mbl.is Almannagjá opnuð aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlíf í geimnum

Stephen Hawking og fleiri virtir vísindamenn hafa bent á það í bókum sínum að framtíð mankyns geti oltið á því hversu vel því tekst að lifa í aðstæðum þar sem þyngdaraflsins gætir lítið eða ekki. Fyrst og fremst hafa þeir í huga langar geimferðir.

Líklegt er að mannkynið þurfi fyrr eða síðar að leggja á sig slíkar geimferðir til að leggja undir sig nýjar plánetur og gera þær að heimili sínu. Ferðirnar eru svo langar að mannkyninu mun reynast nauðsynlegt að viðhalda sér með einhver konar tímgun á meðan á þeim stendur. 

Þrátt fyrir að vísindamenn hafi bent á þetta, hefur enn verið lítið fjallað um þennan þátt geimferða og enn minna reynt til að rannsaka hann. Þá liggja nánast engar upplýsingar fyrir um áhrif langvarandi þyngdarleysis á fóstur.

Tvö einNokkrar umræður um þetta spennandi rannsóknarefni fóru í gang 1989 eftir að gabb-skýrslu sem gengur undir heitinu "skjal 12-571-3570" var dreift um heiminn. Margir trúðu skjalinu sem fjallaði um kynlífs tilraunir sem NASA var sögð hafa staðið fyrir í geimnum.

Samkvæmt skjalinu áttu þátttakendur í tilraununum að hafa reynt mismunandi samræðis-stellingar í þyngdarleysi. Tíu þeirra voru útlistaðar sérstakalega og sex þeirra voru taldar raunhæfar, en þær notuðu ákveðin hjálpargöng eins og belti og uppblásinn göng.

Þá fengu þessar sérstöku kynlífspælingar byr undir báða vængi þegar að hjónin Mark C. Lee og Jan Davis, bæði þrautþjálfaðir bandarískir geimfarar, flugu út í geiminn í rannsóknarerindum. Þau hafa samt aldrei staðfest að um kynlífsrannsóknir hafi verið að ræða.

Þá má eining geta þess að í fyrstu kynblönduðu geimferðinni sem farin var á vegum Sovétríkjanna sálugu árið 1982, lék sterkur grunur um að  Svetlana Savitskaya sem einnig var fyrsta konan sem fór í "geimgöngu" hafi átt vingott við karl geimfarana sem tóku þátt í ferðinni og þannig í geimnum orðið fyrstu meðlimir 100 km.( 62 mílu)  klúbbsins svo kallaða. Svipaður orðrómur komst aftur á kreik árið 1990 þegar að Elena Kondakova og  Valery Polyakov, rússneskir geimfarar dvöldu samtímis um hríð í rússnesku geimstöðinni MIR.   

Samkvæmt bestu heimildum hafa kynlífrannsóknir í geimnum aldrei farið fram. Miðað við hugsanlegt mikilvægi slíkrar þekkingar, er það með ólíkindum. Kannski hugsa menn sem svo að nægur tími sé til stefnu eða að óþarfi sé að rannsaka hluti sem sjái um sig sjálfir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband