Bólugrafin ásjóna Íslands

vor_ufargan.jpgVíst er að vörður hafa verið hlaðnar á Íslandi frá upphafi byggðar og eru sumar þeirra sem enn standa mjög gamlar, þótt erfitt sé að greina aldur þeirra með fullri vissu. Margra er getið í gömlum heimildum og munnmælum. - Forðum voru flestar vörður hlaðnar sem vegvísar en aðrar til að þjóna sem eyktamörk .-  Einhverjum var vafalaust hrúgað upp af smölum sér til hita eða dægradvalar og enn öðrum af fræknum fjallagörpum sem vildu skilja eftir sig vegsummerki á sigruðum fjallstindum. - Þá voru veglegar vörður hlaðnar af landmælingamönnum á árunum 1910-1940, þegar landið var kortlagt og danskir landmælingamenn notuðu þær sem mælipunkta.  

Við þessum vörðum er ekki verið að amast. 

vor_ubani.jpgÁ síðasta ári vakti það athygli þegar að nokkrir leiðsögumenn tóku sig saman og fóru í dagsferð gagngert til þess að jafna við jörðu um 1200 vörður. Meining þeirra og margra annarra landverndarmanna er sú að vörðuhleðsla ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra,  sé orðin svo algeng að ásjóna landsins bíði af því skaða. - Þeir kölluðu vörðuhleðsluna "eitt versta náttúrusóðavandamál síðari ára." -

Þetta má til sannsvegar færa, einkum þegar það er haft í huga að við viljum gjarnan geta bent á að á Íslandi finnist enn náttúra sem er að öllu ósnert af mannanna höndum. - Þessar smástrýtur eru orðnar of margar og af þeim mikil sjónmengun, einkum meðfram fjölförnum fjallvegum þar sem næsta umhverfi er líkt og bólugrafið af þeim.

Erlendir ferðamenn sem taka eftir þessum steinbólum, álíta gjarnan að hér sé um þjóðlegan sið að ræða sem þeir vilja gjarnan taka þátt í. - 

Það er hæglega hægt að stemma stigu við þessum ósið með aukinni fræðslu og upplýsingum til ferðamanna og einnig leiðsögumanna. - Þeir eru ekki ófáir ferðapésarnir sem dreift er til erlendra ferðamanna á hverju ári. En ég minnist þess ekki að hafa sé eina einustu ábendingu varðandi þetta mál í neinum þeirra , hvað þá netsíðum með upplýsingum um landið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband