Færsluflokkur: Spil og leikir
5.4.2011 | 08:10
Ekki skákborðið sem Fischer og Spasskí tefldu við
Fyrri fréttin um þessa sölu á skákborði og taflmönnum úr skákeinvígi allra tíma, sagði örugglega að borðið hafi verið notað í þriðju skákinni sem fór fram í bakherberginu. Nú er sagt að aðeins taflmennirnir hafi verið notaðir en taflborðið verið eitt af mörgum (sumir segja allt að 16) sem hinn sérvitri Fischer hafði til að velja úr og voru síðan gefin skáksambandsmönnum.
Spurningin sem vaknar er hvar er þá skakborðið sem var notað? Skáksambandið sendi frá sér einhverja athugasemd um að það harmaði að munir tengdir einvíginu væru farnir eitthvað á flakk. Hvað hefur sambandið gert til að halda þeim saman? Hvar er Volkswagen bjallan sem Fischer var fengin til umráða, hvar eru marmarareitirnir sem prýddu skákborðið til að byrja með en var skipt um að beiðni Fischers? Og hvar er pálminn sem keyptur var í Alaska til að prýða sviðið fyrir aftan keppendurnar og sést svo vel á meðfylgjandi mynd. Hver á húsið í Goðalandi sem Fischer var ætlað að búa í og væri kannski upplagt að það hýsti safnið um þennan heimsatburð sem fyrr eða seinna kemur til með að verða sett upp.
Enginn sýndi taflmönnum áhuga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2011 | 14:31
"Him bad man, Kemo sabe"
Söfnunarárátta var algeng meðal barna og unglinga í Klefavík upp úr 1960 og hefur líklega verið það víðar. Stelpur söfnuðu dúkkulísum, glansmyndum og servéttum. Strákar söfnuðu Matccbox bílum, frímerkjum, hasarblöðum og leikaramyndum. Reyndar söfnuðu einhverjar stelpur líka leikaramyndum, en þær höfðu ekki neinn sans fyrir verðmæti þeirra, eins og strákarnir. Það var t.d. auðvelt að fá í býttum frá þeim sjaldgæfa Bonanza myndir fyrir drasl eins og Connie Stevens, Brigitte Bardot, Ricky Nelson eða Fabian.
Leikaramyndirnar voru seldar í versluninni Kyndli sem var rekinn af Jósafati Arngrímssyni. Sundum fengust þær líka í Sölvabúð. Fyrst verslaði Jósafat fyrir aftan Kaupfélagið á Hringbrautinni og síðar við Hafnargötuna. Hann seldi vel af þeim því leikaramyndirnar komu í 10 mynda búntum og þar sem aðeins ein þeirra var sjáanleg var mikill galdur að vita nákvæmlega hvaða myndir leyndust í hverju búnti. Stundum þurfti að kaupa mörg búnt til að fá myndina sem þú vildir eignast.
Flestir leikararnir voru bandarískir og vel kunnir þeim sem höfðu aðgang að kanasjónvarpinu úr þáttum eins og Perry Mason með Reymond Burr sem leysti öll mál á skrifstofunni heima hjá sér, Combat með Vic Morrow sem reykti ótrúlega krumpaðar sígarettur og var alltaf órakaður og Bonanza með Lorne Greene, Pernell Roberts, Dan Blocker og Michael Landon sem seinna grét svo mikið á sléttunni.
Hasarblöðin var aftur á móti erfiðara að nálgast, sérstaklega Superman og Spiderman. Þau eftirsóttustu (Combat blöðin) komu ofan af velli og maður þurfti helst að þekkja einhvern kanastrák sem var tilbúin til að selja blöðin sín, eða það sem var enn betra, einhvern sem vann uppá velli og hafði einhver ráð með að nálgast dýrgripina fyrir lítið sem ekkert.
Stærsti markaðurinn fyrir leikara, hasarblöð og servéttur var fyrir utan Bjössabíó (Nýja Bíó) á sunnudögum áður en þrjúbíóið hófst. Að mestu var um að ræða "býtti" markað, en sumir seldu þó sitt fyrir beinharða peninga.
Meðal sjaldgæfari leikaramyndanna og þess vegna verðmætari að sjálfsögðu, voru myndir af Clayton Moore og Jay Silverheels (Tonto) þeim sem léku í The Lone Ranger sjónvarpsþáttunum.
Sagan af einfaranum grímuklædda hófst með útvarpsþáttum 1933 og var sögð áfram í sónvarpsþáttum frá 1949.
Auðvitað var einfarinn ekkert sérstaklega einmanna, því fljótlega var kynntur til sögunnar indíáninn Tonto (merkir "kjáni" á spænsku) sem varð dyggur förunautur þessa diskó klædda marghleypugirta riddara og laganna varðar sem enginn vissi hver í raun og veru var eða hvaðan kom.
Tonto kallaði hann ætíð Kemo sabe sem átti að vera indíánamál og merkja "traustur félagi".
"Him bad man Kemo sabe"var algeng setning úr munni Tonto sem sjálfur var svo miklu betri en enginn þegar kom að átökunum.
Hestur riddarans prúða var heldur enginn tunnumatur. Hann hét Silver og var sérlega vitur, hvítur og frár.
Hi-yo Silver hrópaði einfarinn í hvert sinn sem vildi hleypa á skeið og um leið var spilað af krafti endastefið úr forleiknum að Vilhjálmi Tell eftir Gioachino Rossini uns hetjan hvarf í moldarmökkinn.
Vinsældir þáttana voru með ólíkindum og í Bandaríkjunum er enn verið að sýna þá á sumum stöðvum. Þá voru einnig gerðar seríu-kvikmyndir um hetjuna bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.1.2011 | 22:11
Myndagáta
7.1.2011 | 01:09
Að sólunda 1.722.429.000 krónum
Margur verður af aurum api segir máltækið og það hefur oft sannast á þeim sem verða skyndilega forríkir en ekki kunnað að "fara með" eins og stundum er sagt.
Auðfenginn auður virðist renna auðveldlega úr greypum hinum nýríku og sérstaklega þeirra sem ekki hafa þurft mikið fyrir honum að hafa eins og að vinna í happdrætti.
Margar sögur eru til að fólki sem unnið hefur miklar fúlgur fjár í happdrættum en orðið skítblankt eftir tiltölulega stuttan tíma.
Enginn slær þó við hinum breska Michael Carroll, sem árið 2002 þá 19 ára, vann 9,7 milljónir sterlingspunda (1.722.429.000 krónur) í happdrætti. Saga hans ætti að verða öðrum víti til varnaðar, þótt ég efist um að svo verði.
Michael var að vinna við sorphirðingu þegar að honum bárust þau tíðindi að hann væri orðinn einn að auðugustu æskumönnum á Bretlandi.
Í bókinni "Gættu hvers þú óskar þér" (Careful What You Wish For) sem er ævisaga hans skrifuð af Sean Boru, kemur fram að á minna 18 mánuðum tókst Michael að sóa svo miklu af auði sínum, mest í sukk með þúsundum gleðikvenna, áfengi, hörð eiturlyf og veðmál, að hann átti þá aðeins eftir hálfa milljón punda.
Michael byrjaði á því að kaupa sér fjögur heimili, sumarvillu á Spáni og tvo BMW sportbíla, tvo Mercedes-Benza. Hann dældi peningum í ættingja sína og vini sem fjölgaði svo um munaði eftir að hann varð ríkur.
Michael komst fljótlega í kast við löginn vegna eiturlyfjanna og var sagður dyggur stuðningsmaður vígamanna-klíkunnar Ulster Defence Association.
Michael segist samt ekki sjá eftir neinu og kallar sjálfan sig konung hyskisins, (King of Chavs) uppnefninu sem sorpritin kölluðu hann á meðan þau fylgdist grannt með öllu sem honum viðkom og hann átti peninga. Samnefnd heimildakvikmynd var gerð um hann árið 2006.
Snemma á síðasta ári var Michael gerður gjaldþrota og það sem eftir var af eignum hans var selt á uppboði.
Um svipað leiti lék hann karakter sem var eins og hann sjálfur, í kvikmyndinni Killer Bitch.
Um tíma var hann á atvinnuleysisbótum en endaði að lokum aftur við sorphirðuna, starfið sem hann fékkst við áður en hann varð að "apa".
27.12.2010 | 22:38
Gamlárs-getraunin
Hér koma 10 spurningar sem þarfnast svara. Þeir sem telja sig vita svörin við einhverjum þeirra mega gjarnan setja þau niður í athugasemd hér að neðan.
Rétt svör verða birt 1. Jan. 2011.
1. Prumpa fiskar?
2. Hvers vegna er hor stundum grænt?
3. Hverjar eru tvær útbreiddustu farandsögur heimsins, sem fólk tekur trúanlegar?
4. Hvers vegna er himininn blár?
5. Hvort frýs fljótar í frysti, glas af sjóðandi heitu vatni eða glas af köldu vatni?
6.Hvaðan kemur aflið sem fær þig til að hendast þvert yfir herbergið þegar þú færð í þig sterkan straum?
7. Hvers vegna límist ofurlím (súperglue) ekki við túpuna að innanverðu?
8. Hvaða tengsl eru milli þess að vera kalt og að fá kvef?
9. Hvorir eru fleiri, hinir dauðu eða þeir sem lifa? (Hér er átt við mannfólkið)
10. Hvað er vitlaust við þetta skilti?
Spil og leikir | Breytt 28.12.2010 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
24.11.2010 | 00:40
Afmælisveislan sem aldrei verður haldin
Dagbjört varð snemma afar rökvís á lifið og tilveruna. Ung að árum hóf hún að vanda um fyrir meðborgurum sínum standandi á kassa niður á Lækjartorgi.
Hún var síður en svo ánægð með það þegar að foreldrar hennar, sem var mjög áreiðanlegt fólk, sögðust ætla að koma henni á óvart með að halda henni afmælisveislu einhvern tíman í vikunni fyrir 18. afmælisdaginn hennar.
Til að byrja með fylltist Dagbjört skelfingu. Veislan var sóun á tíma og fjármunum. Síðan fór hún að hugsa nánar út í hverju nákvæmlega foreldrar hennar höfðu lofað og varð þá ljóst að hún hafði ekkert að óttast. Það mundi enginn veisla verða haldin.
Rökhugsun hennar var á þessa leið. Foreldrar hennar sögðust á sunnudegi ætla að halda veisluna einhvern daginn í vikunni fyrir afmælið hennar sem yrði á laugardeginum næsta og veislan átti að koma henni á óvart.
Föstudagurinn kom ekki til greina vegna þess að á fimmtudeginum mundi hann vera eini dagurinn sem eftir væri og þá kæmi boðið ekki á óvart.
Dagarnir sem komu þá til greina voru; mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur.
Ef ekkert hefði gerst fyrir klukkan 24.00 á miðvikudegi, kom fimmtudagur heldur ekki til greina.
Þannig afgreiddi Dagbjört alla dagana koll af kolli og útkoman var að enginn þeirra kom til greina.
Þessi rök nægðu til þess að Dagbjört varð sannfærð um að veislan mundi aldrei verða haldin.
Hafði Dagbjört rétt fyrir sér?
23.11.2010 | 01:10
þúsundkallinn sem hvarf
Þrír sölumenn komu samtímis á Hótel Húsavík. Til að spara dagpeningana sína ákváðu þeir að deila saman einu herbergi. Herbergið kostaði 30.000 krónur sem þeir staðgreiddu. Rétt í þann mund sem sölumennirnir komu upp á herbergið, uppgötvaði stúlkan í afgreiðslunni að hún hafði gert mistök. Sumarverðin voru runnin úr gildi og vetrarverð tekin við.
Herbergið kostaði í raun 25.000 krónur en ekki 30.000.
Stúlkan kallaði þegar í stað á einn þjóninn úr matsalnum og bað hann að taka strax 5000 krónur upp á herbergi til sölumannanna. Þjónninn tók við fimm þúsund króna seðlum og hélt með þá upp á herbergið til sölumannanna.
Á leiðinni varð honum hugsað til þess að það mundi verða erfitt fyrir hann að skipta 5000 krónunum jafnt á milli manna þriggja. Hann ákvað því að stinga tveimur þúsundum í vasann og láta sölumennina hafa aðeins 3000 krónur, eða 1000 krónur hvern.
Þetta gerði svo kauði. -
En við þetta kom upp óvænt staða. Það lítur út fyrir að 1000 krónur (þúsundkall) hafi einfaldlega horfið.
Förum aðeins yfir dæmið;
Sölumennirnir greiddu fyrir herbergið 30.000 krónur, 10.000 hver.
Stúlkan sendi þjóninn með 5000 krónur af þessum 30.000 sem sölumennirnir greiddu með, sem hann átti að færa þeim. Þjónninn stakk tveimur þúsundum í vasann og lét sölumennina aðeins hafa 3000 krónur, eða eitt þúsund hvern.
Hver sölumaður greiddi upphaflega 10.000 (3 X 10.000= 30.000), og hver fékk eitt þúsund til baka sem þýðir að hver sölumaður greiddi í raun 9.000 krónur fyrir herbergið.
3 X 9000 gera 27.000. Tvö þúsund enduðu uppi í vasa þjónsins, eins og áður segir. Það gera samtals 29.000 krónur.
Getur einhver sagt mér, hvar er þúsundkallinn sem upp á vantar?
5.10.2010 | 18:22
Útgönguleið Jóhönnu
Jóhanna og Steingrímur eru komin í þrot. Þau eru að leita útgönguleiða. Í raun vilja þau nýjar kosningar. Þeim varð það ljóst í gærkveldi að hjá þeim yrði ekki komist nema að þau mundu bjóða stjórnarandstöðunni með í stjórn og Það vildu þau alls ekki.
Að kalla stjórnarandstöðuna á sinn fund, til að gera þeim grein fyrir að allt yrði með sama hætti og fyrr er liður í útgönguáætlun þeirra. Nú geta þau sagt að allt hafi verið reynt en stjórnarandstaðan hafi ekki viljað hjálpa neitt og því verði að efna til nýrra kosninga. -
Kosningabaráttan er í raun hafinn. Jóhanna notar sömu frasana í dag og hún notaði fyrir síðustu kosningar. - Spurningin er hvort þjóðin er sé tilbúin í eina umferð enn af þessum pólitíska hráskinnaleik.
Vilja ekki breyta um stefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2010 | 17:44
Mario 25 ára
Í aldarfjórðung hefur hann bjargað konungsdætrum, gætt sér á sveppum og hoppað á vondu kallana, en aldrei gert við svo mikið sem einn vask. Hér er auðvitað verið að tala um heimsins frægasta pípara, Mario, sem verður 25 ára um þessar mundir.
Það er eflaust erfitt að finna einhvern sem yfirleitt spilar tölvuleiki, sem ekki hefur spilað í það minnsta einn af Super Mario leikjunum.
Litli Ítalinn með risastóra yfirskeggið hefur skemmt tölvuleikjaspilurum frá því 13. September 1985 þegar fyrsti Super Marios Bros leikurinn kom á markað fyrir Nintendo leikjatölvurnar.
Leikurinn seldist í meira en 40 milljónum eintökum og skildi eftir hrúgu af gullpeningum í kistum hönnuðanna.
Í fyrsta leiknum þurfti hetjan að ferðast um átta borð í Sveppalandi, til að bjarga Froskaprinssessunni frá hinni illu skjaldböku Bowser. - Þetta voru tímar sakleysis í tölvuleikjunum, löngu áður en bílaþjófar og morðingjar urðu að aðal söguhetjunum.
Þótt veröld Mario hafi breyst mikið með þróun tölvuteikninga og leikjatölva, hefur formúla leiksins haldið sér, jafnvel þegar að Mario og félagi hans settust undir stýrið í Super Mario Kart.
Mario og félagi hans Luigi, sem oft vill gleymast, eru alltaf jafn vinsælir eins og sölutölur nýjasta leiksins; Super Mario Galaxy 2, sanna.
Mario var skapaður fyrir Nintendo af þeirra fremsta hönnuði Shigeru Miyamoto. Hann nefndi hetjuna eftir Mario Segale, yfirsmið Nintendo vöruhússins sem þá var í byggingu.
Reyndar kom Mario fyrst fram árið 1981 í Donkey Kong leiknum og þá (haldið ykkur fast) sem trésmiður. Hann var kallaður Jumpman, að sjálfsögðu vegna þess að hann hoppaði svo mikið. Í Donkey Kong Junior, sem kom á eftir, var Mario meira að segja einn af vondu köllunum.
Til hamingju með áfangann Mario!
8.9.2010 | 12:26
Skamm skamm á Alþingi
Stundum geta þingmenn þjóðarinnar bara ekki meira. Pirringurinn og óánægjan í samfélaginu er farin að segja til sín í þingsölum. Sýndarleikurinn er sem á að varveita virðugleika þeirra og heiður er orðin svo þrúgandi og leiðinlegur og hið rétta eðli þingmanna verður að fá að brjótast út.
Það gerist af og til og þá verða umræðurnar svipaðar og í sandkassanum á róló eða á leiðinlegum bloggsíðum um trúmál eða pólitík.
Nei.
Jú víst.
Nei.
Jú víst.
Sannaðu það!
Og skammastu þín Árni Johnsen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |