Færsluflokkur: Mannréttindi
2.4.2011 | 11:59
Priyanka Thapa og miskunarlaus Útlendingastofnun
Það er eitthvað verulega bogið við stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum. Ekki nema von að almenningur finnur sig knúinn til að reyna að grípa enn og aftur inn í atburðarásina og reyni að hindra að stefna stjórnvalda nái fram að ganga.
Hvað eftir annað vísar Útlendingastofnun burtu úr landinu ungu og gjörvulegu fólki sem hér hefur getið hefur sér gott orð og eignast góða vini og kunningja. - Hvaða lagabókstaf er svona mikilvægt fyrir Útlendingastofnun að fylgja, að allt tillit til mannúðar og almennrar skynsemi er látið lönd og leið bara til að framfylgja honum.
Það er erfitt að sjá hvaða upplýsingum Útlendingastofnun fer eftir í úrskurði sínum í máli Priyönku Thapa. Útlendingastofnun segir í úrskurði sínum að ekki hafi verið sýnt fram á að Priyanka verði neydd í hjónaband snúi hún aftur til Nepal.
Þeir sem vinna fyrir stofnunina vita eflaust að í Nepal er það alsiða að gifta ungar stúlkur eldri mönnum til fjár og jafnvel selja þær úr landi.
Nú er ljóst að Priyanka er ekki trúlofuð syni íslensks þingmanns eða eitthvað svoleiðis, og því er henni miskunnarlaust vísað á dyr.
Hvernig á Priyanka annars að sanna að slík verði örlög hennar snúi hún aftur heim? Bjóst Útlendingastofnun við að hún kæmi með undirritað skjal frá föður sínum um að hann mundi gefa hana nauðuga í hjónaband ef hún kæmi til baka?
6 þúsund manns lýst yfir stuðningi á Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2011 | 00:45
Íslensk fjölþjóðamenning
Hafi einhver efast um að fjölþjóðamenningin hafi skotið rótum á Íslandi, þarf ekki lengur vitnana við. Þessar tölur tala sínu máli. 42.230 einstaklingar á Íslandi eiga útlendinga fyrir foreldri, annað eða báða. -
Íslenska þjóðin er ekki lengur einlit né eru allir íbúarnir frændur í báða ættliði. Ekki tala þeir allir íslenskuna reiprennandi og margir hafa meira að segja aldrei smakkað þorramat.
Sumir eru miklir andstæðingar fjölmenningarsamfélags og sjá því allt til foráttu. Þeir koma ekki til með að fagna þessum fréttum, þrátt fyrir að þeim hljóti um leið að vera ljós villa síns vegar.
Fjölmenningarsamfélagið gengur greinilega ágætlega upp á Íslandi, þrátt fyrir fordómana sem öll okkar eru sek um á einn eða annan hátt. -
Mikilvægast er að við göngumst við þeim. Fordómar eru eins og alkóhólismi, það er enginn möguleiki að lækna hann nema að viðkomandi viðurkenni að hann eigi við vandamál að stríða.
13,3% eiga erlent foreldri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.3.2011 | 18:03
Hræsni Steingríms
Eitthvað hafa Færeyingar dregist aftur úr í tækninni. Steingrímur J: fer þangað í heimsókn og verður algjörlega sambandslaus við um heiminn. Hann vissi ekkert af því að NATO var að taka við yfirstjórn hernaðaraðgerða gegn Líbíu og Ísland þar með orðin aðili að stríðinu í Líbíu. Trúlegt eða hitt þó heldur.
Hann les greinilega heldur ekki bloggið mitt, en ég var einmitt að benda honum og Jóhönnu á fyrir nokkrum dögum að ef ekkert væri aðhafst mundi Ísland óhjákvæmilega verða aðili að stríðinu í Líbíu sem aðili að NATO. (Sjá hér)
Ég hef reyndar grun um að bæði Steingrími og Jóhönnu standi nokk á sama um þetta stríð þótt Þau hafi rifið kjaft þegar að þjóðin var skuldbundin til að styðja við innrásina Í Írak. En það var greinilega allt saman flokkapólitík, enn ekki af hugsjón.
Nú eru þau við völd og láta sem ekkert sé þegar íslendingar eru gerðir ábyrgir fyrir morðum á fólki í framandi löndum, án þess að vera svo mikið sem spurðir álits.
Vorum ekki spurð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2011 | 10:50
Áttu þeir skilið traustið?
Ákvörðunin um að þiggja sæti á stjórnlagaráði er mikill prófsteinn á heilindi og siðferðislegan styrk þessara einstaklinga sem kosnir voru á stjórnlagaþing. Áttu þeir skilið það traust sem þeim var sýnt? Kosningarnar voru úrskurðaðar ógildar og þar með misstu þeir umboð sitt frá þjóðinni.
Til að fá það aftur hefði þurft að efna til nýrra kosninga. Í stað þess er það vilji meirihluta þingheims að þessir 25 einstaklingar taki til starfa á ráði undir þeirra verndarvæng og í umboði þingsins. - Þetta er svo langt frá því sem lagt var upp með og átti að vera hluti af að byggja upp nýtt Ísland, að ég trúi ekki að nokkur þeirra sem hlaut kosningu á stjórnlagaþing þiggi sæti á þessu bastarðs ráði. -
Ef þeir gera það hinsvegar, opinbera þeir um leið að þeir eiginleikar sem fólk hélt að þeir hefðu og mundu hafa gert þá hæfa til að taka þátt í mótun nýrrar og réttlátari stjórnarskrár, eru ekki til staðar. - Þeir verða sem sagt hluti af gamla Íslandi, ekki þess nýja, hluti af vandamálinu, ekki lausninni.
Eru hugsi um stjórnlagaráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2011 | 23:45
Ísland úr NATO
Að vera í hernaðarbandlagi með öðrum þjóðum þýðir að hver þjóð verður að taka ábyrgð á því sem bandalagið tekur sér fyrir hendur hverju sinni. Ekkert aðildarríkja í slíku bandalagi getur sett sig upp á móti aðgerðum þess af einhverri alvöru, nema að vera tilbúið til að segja sig úr því, líki þeim ekki aðfarirnar.
Bandaríkjamenn og Bretar hafa att fjölda ríkja út í vonlausar hernaðaraðgerðir í Líbíu og nú vilja þeir koma af sér ábyrgðinni og fá um leið fleiri þjóðir til að axla kostnaðinn við þessar heimskulegu aðgerðir. Með því að skipa herjum NATO að taka yfir hernaðinn gegn Libíu, eru íslendingar dregnir inn í styrjöldina óspurðir að sjálfsögðu, því enn hafa hinar ýmsu þjóðir NATO ekki verið spurðar álits á þessum aðgerðum.
Vinstri stjórnin á Íslandi stendur hjá og lætur sig þetta engu varða. Eitt sinn gengu þessir ráðherrar um götur með spjöld sem áletruð voru "Ísland úr NATO, herinn burt". Það gera þeir ekki lengur, enda orðnir feitir og sællegir af kjötkötlunum sem þeir sitja við. - Herinn er víst farinn og þegar hann fór báru allir sig illa. En þjóðin er enn í NATO og sem slík verður samábyrg fyrir óumflýjanlegum stríðsafglöpum NATO í Líbíu.
Samkomulag innan NATO | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 25.3.2011 kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.3.2011 | 20:57
Hræ í uppstúf
Hvaða bastarð eru þessir blessuðu þingmenn að reyna að bjóða þjóðinni upp á? Það er eins og þeir séu á einhverju einkaflippi þar sem mestu máli skiptir að einhverjir flokkar eða persónur innan þeirra setji ekki ofan. Eftir að hafa viljandi eða óviljandi klúðrað stjórnlagaþinginu, ætla þeir að taka hræið og kokka það upp á nýtt, í þetta sinn í uppstúf sem þeim hugnast líklega betur. Ráð sem alþingi skipar, vinnur klárlega fyrir Alþingi og ækir umboð sitt þangað. Vægi þess er ekki það sama og þings sem kosið er til af þjóðinni og sækir umboð sitt beint til hennar. - Þetta lyktar allt af verstu gerð af flokkapólitík og valdapoti. - Vonandi verður þetta frumvarp fellt og kosið verður aftur sem fyrst til stjórnlagaþings eins og lög gera ráð fyrir.
Umræðu um stjórnlagaráð lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2011 | 23:52
Ætla að vinna stríðið með friði
Refskák heitir leikurinn sem leikinn er þessa dagana í Líbíu. Margir óttast að hún endi með þrátefli. Fyrstu leikirnir voru ekki erfiðir. Nú blasa við ýmsir möguleikar. Hvað gerist til dæmis ef andstæðingar Gaddafis fara með vopnum gegn óbreyttum borgurum landsins, eins og reyndar þegar hefur gerst?
Ætla þeir sem nú fylgja eftir flugbanninu og segjast ætla að fylgja samþykkt öryggisráðs sameinuðu þjóðanna um að gera allt sem mögulegt er til að vernda óbreytta borgara landsins, að beina sprengjuoddum sínum að óvinum Gaddafis.
Hvað verður um óvopnaðar sveitir íbúa Líbíu sem bíða í ofvæni eftir vopnasendingum frá Bretlandi, til að "verja hendur sínar" ef engar þeirra komast alla leið en þær lenda í höndum stuðningsmanna Gaddafis, eins og þegar hefyr gerst? Voru sendingarnar kannski ætíð ætlaðar honum? - Munu sérsveitir og þjálfunarsveitir bandamanna nokkru sinni hætta á landgöngu á meðan Obama vill ekki koma meira að málinu en hann hefur þegar gert og Arababandalagið heldur áfram að draga fæturna, enda komu stuðningsyfirlýsingar þeirra aðeins eftir að óheyrilegum þrýstingi var beitt á þá.
Líklega er þráteflið skemur undan en marga grunar. Gaddafi semur nú við Kínverja og Indverja um olíuvinnslu landsins og BP menn gráta blóði. - Hann er ekki á förum, enda ekki á dagskrá neinna, nema örfárra óvopnaðra mótmælenda í fjarlægum borgum, sem honum er eiginlega orðið alveg sama um. - Gaddafi veit sem er að það er erfitt að vinna stríð með friði.
Ég er hér enn" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 23.3.2011 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2011 | 19:25
Japan og Haiti
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2011 | 14:36
Ef það gengur eins og önd...
Enskur málsháttur segir eitthvað á þá leið að ef það gengur eins og önd og hljómar eins og önd, er það líklega önd. Bæði Útlendingastofnun og dómsmálráðuneytið virðast hafa farið eftir þessari ágætu alþýðuspeki og ekki talið nauðsynlegt að rannsaka málið sem fréttin hér að neðan fjallar um, út í hörgul.
Að ganga í málamyndahjónaband er ein af mörgum leiðum sem fólk notar til að flýja örbyrgð og hafa möguleika á að öðlast hlutdeild í velmegun auðugra landa. - Sérstök lög, að mínu áliti mjög harkaleg og oftast ósanngjörn, voru sett á sínum tíma til að koma í veg fyrir að þetta gerðist hér á landi og á forsendum þeirra laga hefur óréttlætið stundum orðið ofaná eins og lesa má um t.d. í þessum vitnisburði.
Útlendingastofnun og dómsmálráðuneytið hafa nú orðið uppvís að því að misbeita lögunum. það er vont til þess að vita að ekki sé hægt að treysta jafn mikilvægum stofnunum í samfélaginu og þessar tvær eru og fólk þurfi að verja hendur sínar fyrir þeim með því að leita til dómstóla landsins.
Þessi dómur er því sannur áfellisdómur yfir vinnubrögð Útlendingastofnunar.
Synjun um dvalarleyfi felld úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.3.2011 | 22:02
Barndóminum stolið
Á sama tíma og samfélagið berjast látlaust gegn misnotkun barna og yfirvöld elta barnaníðinga á enda veraldar, viðgengst mikill tvískynnungur í samfélaginu, sérstaklega gagnvart stúlkubörnum sem eru kynlífsvædd af skeytingarlausum foreldrum.
Merkilegt samt hvað lítið er um málið fjallað. Kannski er málið svo viðkvæmt að hræðslan við að vera stimplað "eitthvað skrýtið" við það eitt að benda á vandann, aftrar fólki frá að tala mikið um hann.
Ég vil því nota tækifærið og benda á nýlega og góða grein eftir
Tvískinnungurinn felst í því hvernig stúlkubörn eru notuð til að vera einskonar framlenging á mæðrum sínum. Þetta kemur einkum fram í klæðnaði þeirra, notkun andlitsfarða og hvernig þær bera sig til. Taktarnir, jafnvel danshreyfingar þeirra eru greinileg eftirherma.
Stundum langar litlum stúlkum að líkjast mömmu sinni en það virðist æ algengara að mömmurnar vilji að telpurnar líti út eins og þær. Við það verða telpurnar vitanlega eldri í útliti, sem er rangt á svo marga vegu. Á vissan hátt er verið að stela frá þeim barndóminum og æskunni.
Þessi afstaða til ungra telpna er orðin svo algeng að kaupmenn nota sér hana eindregið og þess vegna er til markaður fyrir brjóstahöld fyrir stúlkubörn allt niður í þriggja ára aldur, eins og frétt mbl.is hér að neðan fjallar um.
Öfgarnar í Ameríku, hvað þetta snertir eru þegar "heimsfrægar" og ég vona að málin þróist aldrei í þá átt á Íslandi. - Myndin er einmitt af einum keppenda í fegurðarsamkeppni barna sem eru svo algengar í USA.
Stækka brjóst átta ára stúlkna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |