Færsluflokkur: Mannréttindi
3.5.2009 | 16:18
Martröð Darwins
Það er langt síðan ég hef séð aðra eins hrollvekju og þessa kvikmynd sem fór algjörlega fram hjá mér á sínum tíma. Það er eins og sjálfur Dante hafi verið með í að skapa umgjörðina fyrir þessa kvikmynd sem er frá árinu 2004 og er frönsk-belgísk-austurrísk heimildarmynd um fiskveiðar og fiskverkun við Viktoríuvatn í Tansaníu.
Hún lýsir með viðtölum við innfædda fiskimenn, frystihúsaeigendur, hórur og flugmenn, sem búa í Mwanza, hvernig ferskvatnsfiskinum Nílar-Karfa var sleppt í vatnið fyrir nokkrum ártugum og hvernig hann er á góðri leið með að eta upp allt lífríki vatnsins.
Karfnn getur orðið allt að 200 kg. þungur en um 50 tonnum af fullunnum karfa-flökum er flogið til annarra landa daglega á meðan innfæddir hafa hvorki í sig eða á.
Fiskurinn er of dýr til að borða hann.
Kvikmyndina má sjá í fullri lengd með því að smella á myndina hér til vinstri. Ég hvet alla sem þetta lesa að horfa á hana, ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar.
Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur auk þess hlotið mörg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Frekari upplýsingar um myndina á ensku, má finna hér.
Í umfjöllun sinni um myndina sem var sýnd á kvikmyndahátíð í Gautaborg 2005, skrifar Ari Allansson;
Martröð Darwins gerist á bökkum Viktoríuvatns, sem er næst stærsta stöðuvatn í heimi og á Níl upptök sín þar. Myndin segir frá því hvernig á sjötta áratugnum, einn maður, með eina fötu fulla af fisktegund sem ekki fannst í vatninu áður, hellti úr fötunni í vatnið, og sjá, ný fisktegund fannst í Viktoríuvatni. Þessa fisktegund, Nile Perch (Nílarkarfi), sem er auðvelt að veiða og gefur af sér mikið kjöt, étur aðrar fisktegundir svo heilu stofnarnir hafa horfið úr vatninu. Vistkerfi Viktoríuvatns hefur veikst til muna og nú er svo komið að menn óttast um framtíða lífríki þess. Á meðan innfæddir deyja úr hungri og af alnæmi á bökkunum, lítil börn sniffa lím og sofa á götunum, eru risavaxnar flutningaflugvélarnar að flytja Nílarkarfa til Evrópu, þar sem fiskurinn er seldur dýru verði. Og ekki nóg með það, heldur þegar flugvélarnar snúa aftur, hafa þær meðferðis vopn, svo að fólkið í Tanzaníu geti murrkað lífið úr hvort öðru, þar að segja þeir sem lifa af hungursneyð og alnæmi. Myndin er næsta martraðarlík og maður skammast sín næstum fyrir að búa og hafa alist upp í vestrænu landi. Sérstaklega í senu þar sem sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar World Bank, sitja á málþingi í Tanzaníu og tala um hvað vel hafi gengið að koma á efnahagskerfi í landinu. Vei sé þeim sem heldur að nýlendustefnan og arðránið í þriðja heiminum sé liðið undir lok.
Ég þakka Ingó kærlega fyrir þessa ábendingu
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2009 | 12:45
Business as usual
Kosningarnar afstaðnar og allir flokkar og listar greinilegar sigurvegarar, eins og venjulega, nema kannski XF flokkurinn sem varð fórnarlamb sinna eigin fordóma og jæja, kannski einhverra annarra líka sem hafa fordóma gegn fordómum.
Ástþór sigraði feitt, vegna þess að hann fékk að koma fram með hinum framagosunum og segja þeim til syndanna. Svo fékk hann líka tækifæri til að neita fréttamiðlinum sem hann hatast út í, um nærveru sína. Ég held að ég hafi aldrei séð eins glaðvært glott á vörum fréttaþular og þegar hann tilkynnti það.
Allt fór vel hjá Sjálfstæðisflokknum sem hvort eð er hafði ekki gert ráð fyrir að vera með í næstu stjórn landsins. Nú fá þeir kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja sig og "vinna fylgið til baka" því þeir hafa "stefnuna og fólkið sem þjóðin þarf" til að velsæld ríki í landinu. Og allar gömlu konurnar klöppuðu hátt í Valhöll þegar að foringinn tilkynnti þetta.
Vinstri grænir voru hinir eiginlegu sigurvegarar því þeir hafa aldrei verið stærri en nú, nema í flestum skoðanakönnunum fyrir kosningar. En eins og allir vita er ekkert að marka skoðanakannanir. Þeir eru orðnir svo stórir að þeir eru orðnir svona "sjáum til" flokkur, eins og hinir flokkarnir hafa alltaf verið. Því miður fyrir vin minn Bjarna Harðar, sá hann það ekki fyrr en það var um seinan.
Stórsigur Samfylkingarinnar og Jóhönnu er eiginlega ekki fréttnæmur. Þegar loks er búið er að hræra saman og baka köku úr öllu sem til var; kvennaframboðinu, krötum, allaböllum og Ómari Ragnars, þá ber að gleðjast yfir því að kakan kom loks ófallin úr ofninum.
Stórkostleg framsókn framsóknarflokksins, sem aðeins einu sinni í sögu landsins hefur verið með jafn fáa þingmenn, er staðreynd. Flokkurinn stækkaði um 100% í þessum kosningum frá því sem slökustu skoðanakannanir sýndu. Mikið afrek fyrir annars aflóga stefnu og frekar ógeðgeldan strák sem tók við þessu hrafnaþingi fyrir nokkrum vikum.
Borgarhreyfingin sem eyddi bara einni og hálfri milljón og þremur vikum í að koma framboðinu saman fékk fjóra þingmenn og þar af einn flóttamann frá hrafnaþinginu, er hinn sanni sigurvegari þessarar kosninga, vegna þess að nú munu raddir fólksins í landinu loksins heyrast í þingsölum landsins. - Þeir ætla að halda uppi málþófi í öllum málum sem þingið tekur fyrir og þeir eru ekki sammála. Það er mikill sigur fyrir lýðræðið að fá þá málgarpa á þing.
Nú tekur við smá karp milli XS og XV um hvernig það verði hægt fyrir stjórnina að fara strax út í EB aðildarviðræður án þess að XV missi algjörlega andlitið. Og þegar því er lokið, verður þetta business as usual.
Heima sitja flokkseigendurnir ánægðir og núa sér um handabökin. Eftir allt þetta tilstand fór þetta bara dável allt saman. Enginn kærður fyrir stórþjófnaðina, engin ný stjórnarskrá til að endurskilgreina rétt þegna landsins, ekkert persónukjör og búið að stinga snuði upp í pottaglamursliðið. Business as usual.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.4.2009 | 17:45
Kristnir "Talibanar" til Genfar
Jean Cauvin (betur þekktur sem Jóhann Kalvin) var aðeins átta ára þegar Martin Lúther negldi hið fræga skjal sitt á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517 og hóf þannig baráttu sína sem kennd er við siðbót innan kristinnar trúar.
Kalvin átti þá heima í fæðingarbæ sínum Noyon í Frakklandi og hafi verið alinn upp við kaþólska trú af löglærðum föður sínunm. Hann gerðist mótmælandi ungur að árum og til að forðast ofsóknirnar sem þá voru tíðar á hendur mótmælendum, flúði hann Frakkland til Basel í Svisslandi. Þar nam hann guðfræði og skrifaði sitt frægasta rit, "Stofnanir kristnu trúarbragðanna" sem kom út þegar hann var aðeins 27 ára gamall.
Hann heimsótti borgina Genf 1536 þar sem mótmælendur voru fjölmennir og tók þar upp kennimannsstöðu. Hann lenti fljótlega í útistöðum við borgarbúa vegna púritanískra skoðana sinna og var eiginlega rekinn frá borginni 1538. Hann gerðist þá klerkur í Strassburg og stundaði þar einnig skriftir. Honum var samt boðið að snúa aftur til Genfar árið 1541 og varð eftir það óumdeildur leiðtogi borgarbúa allt til dauðadags árið 1564.
Í Genf hrinti Jóhann Kalvin í framkvæmd kenningum sínum um hvernig kristið samfélag ætti að starfa, þótt að nafninu til væri borginni stjórnað af 25 manna borgarráði sem Jóhann átti ekki sæti á. Undir hans stjórn varð Genfar að miðstöð mótmælenda í Evrópu og stundum nefnd "Róm mótmælenda."
Í Genf Kalvins var framhjáhald og allt lauslæti gert að alvarlegum glæp. Fjárhættuspil, víndrykkja, dans og dægurlaga söngur var algjörlega foboðið athæfi að viðlagðri harðri refsingu. Öllum var gert skylt að mæta til guðþjónustu í kirkjum borgarinnar á vissum tímum þar sem predikanir klerkanna voru yfirleitt afar langar. Þá var allur skrautklæðnaður bannaður og ekkert mátti taka sér fyrir hendur á hvíldardeginum.
Kalvin var mjög óumburðalyndur og fljótur til að fordæma þá sem ekki fóru eftir túlkunum hans. Einn af frægari andstæðingum hans var Mikael Servetus, spánskur læknir og guðfræðingur sem ekki hugnaðist kenningarnar um þrí-einan guð. Þegar Servetus heimsótti borgina lét Jóhannes handtaka hann og dæma fyrir villutrú. Servetus var síðan brenndur á báli árið 1553. Talverður fjöldi manna og kvenna hlaut sömu örlög undir stjórn Jóhanns í gegnum tíðina, flestir fyrir galdra og villutrú. (Myndin sýnir tvo Dóminik-munka sem brenndir voru í Genf árið 1549)
Ýmsir trúarhópar spruttu upp sem studdust við kenningar Kalvins og má þar á meðal nefna Presbyterian-kirkjuna í Skotlandi, Hugenotta í Frakklandi og Púrítananna í Englandi. Kalvinísk mótmælendatrú varð ofaná í Sviss og Holllandi og einnig er stóra Kalviníska söfnuði að finna í Póllandi, Ungverjalandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Uppi hafa verið kenningar um að afstaða Kalvins til vinnu-siðferðis og sú staðreynd að hann lagðist ekki gegn því að vextir væru teknir af fé, hafi átt stórann þátt í uppgangi kapitalismans (Auðhyggju) í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig að ástæðan fyrir því að nútíma lýðræði þróaðist fyrr í löndum þar sem Kalvinistar voru jafnan í minnihluta, hafi verið vegna þrýstings þeirra um virka þátttöku í málefnum samfélagsins.
Mannréttindi | Breytt 26.4.2009 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.4.2009 | 01:08
Fagrar og sexý eða konur í neyð
Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú sérð svona myndir? Í gegnum huga minn flaug spurningin,
Hvað er eiginlega að í þessum heimi?
Ef það eru til vitsmunaverur á öðrum hnöttum, skilur maður vel af hverju þær halda sig fjarri okkur, þegar við skoðum myndirnar sem hér fylgja og berum þær saman.
Sumar eru teknar í landi þar sem fólk lifir við alsnægtir og friður ríkir. Aðrar eru teknar þar sem styrjaldir, hungurneyðar og kerfisbundin utrýming fólks hafa átt sér stað.
Sjúkdómarnir sem valda þessu ástandi eru mismunandi.
Þeir heita mismunandi nöfnum en eiga það sameiginlegt að eiga heima í huga og hjörtum fólks.
Annars vegar heita þeir; hatur og vanþekking, fordómar og græðgi. Einkenni þessarar sjúkdóma á heimsmælikvarða eru styrjaldir og hungurneyðir.
Hins vegar heita þeir; sjálfshatur, ímyndarveiki, depurð og einmannleiki sem eru andleg einkenni anorexíu og búlimíu.
Eins og flestum er orðið ljóst eru myndirnar vinstra megin af tísku-sýningarstúlkum. Þær eru fyrirmyndir þúsunda ungra stúlkna í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu. Stúlkurnar hægra megin eru fórnalömb úr útrýmingarbúðum og hungursneyða af völdum styrjalda.
21.4.2009 | 21:08
Rasismi rasistans
Forseti Írans Mahmoud Ahmadinejad sparaði ekki grjótkastið á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um kynþáttafordóma í Genfar, þótt hann búi sjálfur í glerhúsi. Hann beinir spjótum sínum sem fyrr að Ísrael og segir Zionisma vera kynþáttastefnu. Hann ætti samt að líta sér nær. Eftir að hann komst til valda í Íran hafa ofsóknir á hendur minnihlutahópum þar í landi aukist til muna og var ástandið síður en svo gott fyrir.
Kúrdar Í Íran hafa sætt stöðugum ofsóknum og ásökunum um að vera "hryðjuverkamenn" án nokkra sannana þar um. Yfirvöld gera engan greinarmun á friðsamlegum mótmælum þeirra og árásum vopnaðra hópa Kúrda og ekki færri en sex leiðtogar þeirra hafa verið teknir af lífi í Íran á síðustu tveimur árum. Einnig hafa ofsóknir gegn Baluch fólkinu og Aröbum í Khuzestan aukist mjög í seinni tíð.
Enn er kynjamisrétti löglegt í Íran sem kemur í veg fyrir að konum séu veitt grundvallar mannréttindi. Kvenréttindakonum var t.d. umsvifalaust varpað í fangelsi fyrir það eitt að safna undirskriftum til að skora á stjórnvöld til að létta af þeim okinu. Að verja málstað kvenna í Íran varðar við þjóðaröryggislöggjöf landsins.
Misrétti og ofsóknir gegn trúar-minnihlutahópum eru afar algengar í Íran. Fyrir þeim verða kristnir, gyðingar, súfíar, sunní-múslímar og bahaiar. Einkum eru það meðlimir Bahai trúarinnar sem hafa þurft að þola margháttaðar ofsóknir, eingöngu vegna skoðana sinna. Á síuðustu fjórum árum hafa meira en 200 bahaiar verið handteknir, haldið föngnum, sætt kúgun og áreiti. Glæpirnir sem þeir eru sakaðir um þegar þeim er gert að mæta fyrir rétt, er að þeir brjóti gegn þjóðaröryggislögum landsins. Þeim er meinað sjá fyrir sér og eignir þeirra gerðar upptækar. Nemendum er meinaður aðgangur að skólum, ef upp kemst að þeir séu bahaiar.
Stjórnvöld í Íran hafa kerfisbundið notað fjölmiðla landsins til að ráðast að Bahai samfélaginu sem er stærsti trúarlegi minnihlutahópur landsins. Hundruð greina hafa birst í dagblöðum þar sem vitnað er í hatursáróður Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins gegn bahaíunum, þar sem almenningur er hvattur til að sýna þeim óvild. Hvatt er opinberlega til árása á heimili þeirra, vinnustaði og grafreiti.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2009 | 02:22
Stutt spjall við vændiskonu um nýju vændislögin
Ég hringdi í íslenska vinkonu mína sem stundar vændi á eigin vegum í Reykjavík til að spyrja hana hvernig nýju vændislögin sem gerðu starfsemi hennar löglega á Íslandi, legðust í hana. Hún var fljót að taka það fram að í raun væri starfsemi hennar ekki að fullu lögleg, þar sem það væri enn ólöglegt að henni væri borgað fyrir vændið og að þeir sem keypu þjónustu hennar gætu þurft að borga sektir eða jafnvel lent í fangelsi ef það sannaðist á þá að þeir hefðu borgað sér fyrir hana. Henni fyndist ekki réttlátt að geta sjálf selt vöru, en enginn mætti kaupa af henni vöruna. Hún sagðist ekki alveg sjá hvernig það kæmi heim og saman við frjálsa og óhefta viðskiptastefnu.
Hún var samt mjög ánægð með að ekki væri lengur hægt að gera greiðslur til hennar upptækar, svo fremi sem þær hefðu verið reiddar fram og það væri vissulega mikil bót fyrir hana persónulega að þurfa ekki að óttast það að verða kærð fyrir ólöglega iðju.
Hún sagði líka að miðað við hvernig vændi væri að stærstum hluta stundað á Íslandi, þar sem flestar vændiskonur hafa fasta og áreiðanlega viðskiptavini, væri mun erfiðara fyrir lögreglu að sanna það að einhver hefði borgað fyrir vændið. Sjálf sagðist hún aldrei sjá peninga orðið, allt færi fram með kortagreiðslum, millifærslum og innlögnum, sem aldrei færu inn á einkareikninga, heldur beint inn á skráð þjónustufyrirtæki.
Hún sagði að þær stelpur sem hún þekkti í bransanum væru fyrir löngu búnar að koma sér upp leiðum svo að ekki væri hægt að rekja greiðslurnar til þeirra svo auðveldlega.
Hún taldi einnig að nýleg lög ættu eftir að koma verst við stelpur sem væru að selja sig af því þær væru í dópinu því þær þyrftu reiðufé strax til að fjármagna neysluna. Lögin mundu fæla frá þeim kúnanna því lögreglan mundi einbeita sér að þeim frekar en viðskiptavinum stelpna sem þeir vissu að þeir gætu aldrei sannað neitt upp á. Í kjölfarið mundu dópstelpurnar trúlega hrekjast meira út í afbrot eins og þjófnaði og rán.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.4.2009 | 19:11
Pyntingaraðferðir CIA
Obama Forseti, segja fréttir, ætlar ekki að sækja til saka þá sem skipulögðu eða stóðu að pyntingum fanga í fangelsum CIA vítt og breitt um heiminn, ekki hvað síst í fangabúðum við Guantanamo flóa á Kúbu.
Sex mismunandi pyntingaaðferðir sem CIA reyndar kallar "Frekari yfirheyrslu aðferðir (Enhanced Interrogation Techniques) hafa verið í notkun frá miðjum mars 2002. Þær hafa einkum verið notaðar gegn grunuðum al Qaeda meðlimum sem haldið er föngnum í fangelsum CIA í Austur Evrópu og Asíu. Aðeins örfáir CIA fulltrúar eru þjálfaðir í notkun pyndingaaðferðanna og hafa leyfi til að nota þær.
Aðferðirnar sem um ræðir eru þessar:
1. Að ná athyglinni; Yfirheyrandi grípur í skyrtu fangans að framan og hristir hann.
2. Athygli-kinnhestar. Slegið er opinni hendi í andlit fangans með það fyrir augum að valda snöggum sársauka og ótta.
3. Maga-slög; Slegið er harkalega með opnum lófa á maga fangans. Markmiðið er að valda sársauka en ekki innvortis skaða. Læknar mæltu gegn því að nota hnefahögg sem gætu valdið innvortis blæðingum.
4. Langtíma-staða. Þessi er aðferð er sögð sú áhrifaríkasta. Fangar eru látnir standa hlekkaðir við keðjuauga sem fest er við gólfið, í meir en 40 klukkustundir. Þreyta og svefnleysi verða til þess að fanginn játar oftast.
5. Kaldi klefinn; Fanginn er látinn standa nakinn í klefa sem er fimm gráðu heitur. Allann tíman er skvett á fangann köldu vatni.
6. Vatns-pynding; Fanginn er reyrður við planka og fætur hans og höfðu reist frá honum. Plastfilma er strekkt yfir andlit fangans og vatni helt yfir hann. Ósjálfrátt byrjar fanginn að koka og drukknunarviðbrögð taka yfir. Nær undantekningarlaust biðja fangarnir sér vægðar og játa fljótlega í kjölfarið.
Samkvæmt heimildum CIA líða að meðaltali 14 sekúndur frá því að vatnspyndingarnar hefjast þangað til að játning liggur fyrir. sagt er að harðasti al Qaeda fanginn, Khalid Sheik Mohammed,hafi unnið sér aðdáun pyntara sinna með því að gefast ekki upp fyrr en eftir tvær og hálfa mínútu.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.4.2009 | 19:17
Brogaðar leikreglur alþingis koma í veg fyrir lýðræði
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stjórnarfar eins og það er útfært í flestum vestrænum löndum og þar á meðal á Íslandi sé gervi-lýðræði þar sem gamla lénsherraskipulagið hefur troðið á sig lambhúshettu pólitískra flokka.
Flokkspólitík er valdastreita þar sem flokkseigendur (sem oft eru þingmenn líka) púkka undir sig og sína svo lengi og svo mikið sem þeir mega. Keppt er um í þessu valdatafli að beygja sem flesta undir sinn vilja, með hvaða ráðum sem gefast. Mútur, gylliboð og síðast en ekki síst loforð um betri tíð með blóm í haga, eru helstu aðferðirnar til að ná umboðinu og almenningur er ginningarfíflin.
Síðustu fréttir úr þingsölum Íslendinga bera þessu glöggt vitni. Þar var restin af þjóðinni beygð undir vilja örfárra manna sem eru hræddir við að missa völd sín. Þjóðinni var neitað um að fá að kjósa til stjórnlagaþings og til að semja sér nýja stjórnaskrá.
Þvílík og önnur eins valdaníðsla er fáheyrð í þessari álfu en algeng í vissum ríkjum Afríku þar sem ódulbúið einræði ríkir.
Á alþingi nýtir einn flokkurinn sér brogaðar leikreglur alþingis og knýr fram vilja fáeinna einstaklinga í blóra við vilja meirihlutans. Þetta er valdníðsla af versta tagi. Ef einhvern tíman hefði verið ástæða fyrir meðlimi búsáhaldabyltingarinnar að mæta á þingpallanna, hefði það verið þegar verið var að ganga að helstu hugmynd hennar um umgætur dauðri í þingsölum.
En nú eru margir af forsprökkum hennar búnir að stofna stjórnmálhreyfingu og þurfa að standa í kosningabaráttu.
Nú ætla ég að magna seyð og mæli svo um og legg svo á að þessi flokkur valdaníðinga sem kenna sig við sjálfstæði, gjaldi svo mikil afhroð í næstu kosningum að þeir munu ekki koma til álita í stjórn landsins á næstu 12 árum.
Annars er svona um alla aðra flokka líka.
Sumir mega ekki til þess hugsa að þjóðin fái að velja sjálf hvort hún vilji hefja viðræður um inngöngu í Evrópubandalagið. Þeir segja fólki bara að halda kjafti og kalla það landráðamenn sem mælast til slíks.
Aðrir vilja alls ekki að hið óréttláta fiskveiði-kvótakerfi verði endurskoðað og leiðrétt. Þeir þykjast vilja það, en gera samt ekkert þegar þeir komast í valdastólanna.
En aðrir segjast vera stríðsandstæðingar en gera ekkert í því að segja þjóðina úr NATO þótt þeir komist í aðstöðu til þess.
Staðreyndir málsins eru, og skiptir þá akkúrat engu máli þegar upp er staðið, hvaða nöfnum þeir nefnast, að flokkarnir eiga það sameiginlegt að ganga allir erinda einhverra lénsherra, hver á sínu sviði. Þetta er allt sami grauturinn úr sömu skálinni. Því miður.
Legg til að flokkakerfið verði lagt niður og teknar verði upp alvöru persónukosningar.
X-autt
10.4.2009 | 18:23
Augun í Írak
Öruggasti staðurinn í Bagdad hefur um langt skeið verið sá staður eða svæði þar sem sjálfsmorðssprengjufólk hefur látið til skarar skríða hverju sinni, næstu klukkustundirnar eftir að það hefur kippt í spottann eða ýtt á hnappinn. Það er ekkert óvenjulegt eða sjokkerandi lengur við tugi sundursprengdra líka eða blóðuga líkamsparta á víð á dreif. Og vegna þess að eftir að ósköpin hafa dunið yfir, hraða vitnis-samsærismennirnir sér af vettvangi til að segja frá "hetjudáðinni" á næsta sellufundi, sækjast bandarískir hermenn eftir að að sjá um öryggismálin á slíkum vettvangi. -
Fréttamenn sem venjulega þyrpast líka á staðinn til að taka myndir af ferskasta blóðbaðinu, hafa sagt frá því í einkaviðtölum að þegar að líkamsleyfum fólks er sópað saman, séu augun eini líkamshlutinn sem þeir beri kennsl á í fljótu bragði. Allt annað er eins og torkennilegir blóðkögglar. Það er einhver kaldhæðni í því að á meðan sum fórnarlömbin lifðu, sá almenningur aldrei meira af þeim en í augu þeirra. Gott að fréttamennirnir þekkja ekkert til Vatnsenda-Rósu og kveðskapar hennar.
Þegar að einhver sprengir sig í loft upp með sprengjubelti um mittið, verður oftast of lítið eftir af viðkomandi, til að hægt sé að bera á hann kennsl. Til þess eru því oftast notaðar upptökur úr myndavélum sem komið hefur verið fyrir af Bandamönnum víðs-vegar um borgina, einkum við opinberar byggingar, moskur og markaði. Að auki hafa Bandamen nokkur gervitungl sem stara sínum rafrænu augum niður á borgina með svo öflugum linsum að þær geta lesið á merki-flipanna í hálsmálununum á stuttermabolum drengjanna.
Í Írak hefur augað fleiri menningarlegar skírskotanir en í flestum öðrum samfélögum. Flest heimili eru skreytt með páfuglsfjöðrum enda fjaðrirnar taldar heillatákn. "Augu" fjaðranna minna fólk á allt-sjáandi auga Guðs. Skiljanlegt að í Evrópu eru páfuglsfjaðrir taldar óheillamerki á heimilum og augu þeirra sögð augu skrattans. Ekki síður í dag en á tímum Saddams Husayns eru augu stóra bróður allsstaðar í Bagdad.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2009 | 20:17
"persónukjör" er orðið persónulíkjör
Það er augljóst á öllu að allir flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi eru mjög smeykir við að losa um hald sitt á því ferli sem gengur undir nafninu lýðræði hér á landi. Krafa fólks í Búsáhaldabyltingunni um minna flokksræði, var, eins og ég skildi hana, m.a. krafa um að hægt yrði að kjósa einstaklinga í stað lista eða flokka til þings.
Sú hugmynd um "persónukjör" sem er að veltast um í þinginu þessa dagana, er andvana svar við þeirri kröfu. Liðið lík og ekkert lík því sem verið var að mælast til. Nær að kalla hana "Frumvarp um persónulíkjör."
Frumvarpið er minniháttar breytingartillaga á ríkjandi fyrirkomulagi. Þess vegna sýti ég það litið þótt hún komist ekki í gegnum þingið. Samkvæmt henni og ríkjandi fyrirkomulagi þarftu ætíð að kjósa lista eða flokk, ekki einstaklinga.
Þess vegna er hugtakið "persónukjör", eins og að er notað af alþingismönnum um þessar mundir, afar villandi. Nær væri að þeir notuðu orðið "persónuröðun" Þ.e. fólk fær að velja röð manna á listanum sem það kýs.
Ef þú ert ekki fylgjandi neinum flokki en gætir samt sem áður hugsað þér að kjósa einstaklinga sem í framboði eru á mismunand listum, verður þú að skila auðu eða hreinlega leiða kosningarnar hjá þér.
Til nánari glöggvunar er eftir farandi lesning góð.
Hugtakið persónukjör getur verið misvíðfeðmt og virðist rófið í þeim efnum vera eftirfarandi og er þá kostunum raðað eftir því hvað þeir ganga langt:
P0: Frambjóðendum er skipað á framboðslista og í þeirri röð sem framboðin, flokkarnir, kjósa t.d. að loknum prófkjörum. Kjósendur velja lista en fá engu breytt um röð frambjóðenda. Þessi leið felur því ekki í sér persónukjör en er tilgreind sem grunnviðmiðun.
P1: Kjósendur velja sem fyrr lista en geta haft áhrif á röðun frambjóðenda á þeim sama lista með umröðun, útstrikun eða með því að draga einhverja sérstaklega fram með krossamerkingum. Misjafnt er hver eru áhrif þessara breytinga allt frá því að vera óveruleg upp í að þau geti verið afgerandi sé þátttaka nægileg.
P2: Listum er stillt upp í óskaröð framboða allt eins og í P0 en röðunin er aðeins til leiðbeiningar kjósendum. Beinar merkingar þeirra ráða því alfarið hverjir veljast af listunum á þing.
P3: Nú er listum stillt upp óröðuðum þannig að kjósendur ráða því alfarið hverjir á listunum komast á þing og fá enga leiðsögn til þess á kjörseðlinum eins og í P2.
P4: Næsta skref í persónukjöri er að kjósendur megi tína til frambjóðendur af fleiri en einum lista. Þar sem það er leyft fylgir því að jafnaði pólitísk ábyrgð í þeim skilningi að vali á frambjóðanda fylgir að listi hans fær tilsvarandi hlutdeild í atkvæði kjósandans. Þetta er þó ekki algilt.
P5: Frambjóðendur standa ekki á listum heldur bjóða sig fram sem einstaklingar. Víðast hvar er frambjóðendunum þó heimilt, ef ekki skylt, að gera grein fyrir flokkstengslum sínum á kjörseðlinum. Segja má að fyrirkomulag einmenningskjördæma falli undir þessa gerð persónukjörs. Einnig eru dæmi um fjölmenningskjördæmi með persónukjöri af þessu tagi.
Tekið úr grein af Visir.is sem má lesa alla hér
Af þessum kostum er ég hallastur undir P5. Best er þá að notast við fjölmenningskjördæmi (nema umtalverð fækkun verði á þingmönnum) og það ætti hreinlega að banna að sýna flokkstengsli á kjörseðlinum. Mér er ljóst að til þess að svo geti orðið þarf að breyta stjórnarskránni og kosningarlögunum í framhaldi af því. Þess vegna bind ég vonir við að stjórnlagaþing komi saman sem fyrst og að breytingatillögur þess verði til þess að hnekkja flokksræðinu og alvöru lýðræði komi í staðinn.
Að lokum; Ég staldraði við listann yfir "innlendar fréttir" neðst ásíðu mbl.is. Þær voru þessar;
- Samfylking áfram stærst
- Kannabisræktun stöðvuð
- Engin sátt í Breiðavíkurmáli
- Enn óvíst um sumarönn
- Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eignum
- Ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri
- Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka
- 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning
- Um 300 sagt upp í hópuppsögnum
- Loftnetsmastur á hliðina
Mér varð strax ljóst að þær átti að lesa í samhengi. Samfylkingin er áfram stærst vegna þess að kannabisræktin var stöðvuð. Enginn sátt um Breiðavikurmál og enn óvíst um sumarönnina þar. Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eigum og þess vegna ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri.
Það mátti nýta sér kerfisvillu í netbanka (og stela milljónum) en maður fær 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning. Um 300 var sag upp í hópuppsögnum sem lagði loftnetsmastur á hliðina, og ég er ekki undrandi á því.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)