Færsluflokkur: Íþróttir
12.10.2009 | 21:25
Teygjustökk og N´gol
Ein af vinsælustu jaðaríþróttum seinni tíma er teygjustökk. (Bungee jumping) Teygjustökk á rætur sínar að rekja til athafnar sem þekkt er undir nafninu "Landdýfingar" (N´gol) og er ein af sérkennilegustu leiðum sem hægt er að hugsa sér til að hætta lífi og limum. N´gol er stundað á hinum lítt þekktu Hvítasunnueyjum í Vanuatu Archipelago í Kyrrahafi, um það bil 2000 km. austur af austurströnd Ástralíu. Í dag er athöfnin aðeins stunduð á suður hluta eyjarinnar. Sjá myndband.
Arfsögn á Hvítasunnueyjum rekur upphaf hennar til sögunnar af Tamale. Tamele var maður sem átti konu sem hljóp oft í burtu frá honum. Eitt sinn eftir að hann hafði lúskrað henni fyrir að flýja, hljóp hún í burtu og faldi sig hátt upp í tré. Tamale klifraði á eftir henni en þegar hann ætlaði að grípa í hana, stökk hún niður úr trénu. Tamele stökk á eftir henni en þar sem konan hafði bundið vafningsvið um ökkla sinn, lifði hún af fallið en hann lét lífið.
Eftir þessa atburði tóku menn og drengir, sumir ekki eldri en sjö ára, að stunda það að stökkva af þar til gerðum stökkpöllum, til að sína styrk sinn og hugrekki og til að sýna konum sínum að þær mundu ekki framar komast upp með nein brögð. Þá stökkva þeir einnig til að tryggja að Yam uppskeran verði góð, en Yam er þeirra helsta lífsviðurværi. Um leið og strekkist á vafningsviðnum, fetta þeir höfuðið fram á við og herðarnar snerta jörðina, sem gerir hana frjóa. Ár hvert í apríl byggja eyjaskeggjar a.m.k. einn 25 metra háan turn með stökkpalli og hefja athöfnina sem getur tekið tvo daga.
Aðeins umskornir karlmenn fá að taka þátt í þessari athöfn þar sem vafningsviður er bundin utan um hvorn ökkla til að taka af fallið. Hár mannsins verður að snerta jörðina til að hún teljist hafa heppnast og gert er ráð fyrir að allir sem mögulega geta , taki þátt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2009 | 03:48
Tvíkynjungar
Árið 1843 óskaði Levi Suydam, 23 ára íbúi í Salisbury, Connecticut, eftir því að fá að kjósa í bæjarstjórnarkosningum sem voru á næsta leiti þar sem afar tvísýnt var um útkomuna. Ósk Levi olli miklu fjaðrafoki í bænum þar sem margir sögðu að Levi væri meira kona en karl og aðeins karlmenn hefðu kosningarétt. Bent var á að hann væri afar kvenlegur í útliti, hefði gaman að bútasaumi og væri hrifinn af skærum litum. Að auki færust honum karlmannleg verk illa úr hendi.
Kjörnefndin kallaði til Dr. William Barry lækni til að fá úr þessu skorið. Eftir að hafa gengið úr skugga um að Levi var búinn bæði limi og eistum, lýsti læknirinn góði yfir því að Levi væri karlmaður. Kosningarnar fóru síðan fram og báru þeir sigur úr býtum sem Levi hafði stutt, með einu atkvæði.
Nokkrum dögum seinna uppgötvaði Barry að "herra" Levi Suydam hafði reglulegar tíðir og kvenmanns-sköp. En hvernig gat þetta hafa gerst. Jóna Ingibjörg Kynfræðingur lýsir því á eftirfarandi hátt:
Við vitum að grunnkynið er kvenkyns, þ.e.a.s. fram að sjöttu viku meðgöngu eru öll fóstur með útlit kvenkynskynfæra. En ef fóstrið hefur Y-litning þá er byggt ofan á grunninn (sumir kysu að segja: þá verður frávik), þ.e.a.s. innri og ytri kynfærin sem eru með kvenkyns útlit breytast þá í karlkynskynfæri. Þannig verða t.d. ytri skapabarmar að pung, innri skapabarmar eiginlega hverfa en sjá má leifar af þeim sem röndina eða sauminn á limbolnum. Og geirvörturnar - hvað með þær hjá körlum? Þær verða bara þessir tveir blettir sem karlar skarta á brjóstkassanum, hálf tilgangslausir sem slíkir eða hvað?? Jæja, alla vega kemur Adam úr Evu en ekki öfugt! Þar hafið þið það!
Engin veit hvort Levi missti kosningaréttinn við þessa uppgötvun læknisins en sagan sýnir að vandamál sem stafa af óvissu um kyn einstaklinga eru ekki ný af nálinni.
Tvíkynja einstaklingar hafa gjarnan verið nefndir "Hermaphrodite" eftir hinum gríska Hermaphroditusi sem var sonur Hermesar og Afródítu og er heiti hans samsett í nöfnum foreldranna. Samkvæmt arfsögninni var Hermaphroditus alin upp af skógargyðjum á hinu helga fjalli Phrygja (Freyja) í Tyrklandi. Þegar hann varð fimmtán ára var hann orðinn leiður á vistinni á fjallinu og lagði því land undir fót. Hann heimsótti borgirnar Lysíu og Karíu og þar hitti hann vatnagyðjuna Salmakíu sem hafist við í stöðuvatni í skóginum fyrir utan Karíu.
Lysía varð svo hrifinn af drengnum að hún reyndi að draga hann á tálar. Hermaphroditus færðist undan ástleitni Lysíu og þegar hann hélt að hún væri farin óð hann út í vatnið til að baða sig. Lysía sem hafði falið sig á bak við tré, stökk á bakið á Hermaphroditusi og vafði fótunum um lendar hans. Á meðan þau flugust þannig á, ákallaði Lysía guðina og bað þá um að gera þau óaðskiljanleg. Guðirnir urðu við ósk hennar og hún sameinaðist líkama Hermaphroditusar sem varð við það tvíkynja.
Gríski sagnritarinn Herodotus (484 f.K. 425 f.K.) segir frá tvíkynja ættbálkinum Makhlya sem hafðist við í norð-vestur Líbýu við strendur Triton vatns. Hann segir meðlimi ættbálksins vera konur örðu megin en karlmenn á hina hliðina. - Líklegt þykir að stríðstilburðir kvenna ættbálksins og sá siður karlmanna hans að láta hár sitt vaxa niður á mitti hafi verið megin orsök þessarar sögusagnar.
Segja má að athygli almennings nú til dags beinist mest að tvíkynjungum í tengslum við íþróttir. Fyrir skömmu gerðist það einmitt, svo um munaði þegar Caster Semenya, 18 ára stúlka frá suður Afríku vann óvænt 800 metra hlaupið (1:55.45.) á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Berlín fyrir nokkrum mánuðum. Í ljós kom eftir mikið umstang og rannsóknir, að Caster er líffræðilega tvíkynja en þrefið hafði mjög alvarlegar sálfræðilegar afleiðingar fyrir Caster sem ekki hefur teyst sér til að taka þátt í keppnum eftir þetta.
Þá er fræg sagan af hinni pólsk fæddu Stanisłöwu Walasiewicz eða Stellu Walsh sem var nafnið sem henni var gefið eftir að foreldrar hennar fluttu til Bandaríkjanna. Þar sem hún fékk ekki að keppa fyrir Bandaríkin hóf hún að æfa hlaup í Póllandi og varð fljótlega að alþjóðlegri hlaupastjörnu. Á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1932 vann hún gullið í 100 metra hlaupinu. Á leikunum í Berlín árið 1936 fékk hún silfur þar sem hún kom önnur í mark á eftir Helen Stephens. Andrúmsloftið á Nasistaleikunum 1936 var lævi blandið og m.a var Helen sökuð um að vera karlmaður og þá ásökun studdi Walasiewicz. Helen var neydd til að gangast undir kynpróf og stóðst það með glans; hún var kona.
4. desember árið 1980 varð Walasiewicz (Stella Walsh) þá 69 ára gömul, óvart fyrir byssukúlu í misheppnaðri vopnaðri ránstilraun í Cleveland í USA. Hún lést á sjúkrahúsinu þar í borg og krufning leiddi í ljós að hún var með karlmanns kynfæri. Við frekari rannsókn varð ljóst að hún hafði karlmannslitningin XY og hefði því, samkvæmt reglum Ólympíuleikana, ekki verið leyft að keppa sem kvenmaður.
Kynjapróf urðu skylda á Ólympíuleikum upp úr 1968 þegar það uppgötvaðist á Evrópuleikunum 1967 að önnur pólsk hlaupadrottning, Ewa Klobukowska var með karllitninginn. Klobukowska varð að skila aftur gull og brons verðlaununum sem hún hafði unnið á Tokyo leikunum 1964.
Sá gjörningur var reyndar mjög óréttlátur því seinna kom í ljós að hún var ekki með karllitninginn XY heldur stökkbreyttan XXXY litning sem hafði engin áhrif á kynfæri hennar eða kynferði.
Örðu máli gegnir hins vegar um Úkraínsku systurnar Tömru og Irinu Press sem unnu samtals fimm gull í frjálsum Íþróttum á Ólympíuleikunum 1960 en hurfu síðan af sjónarsviðinu eftir að kynjaprófið var gert að skyldu. Margir eru þeirrar skoðunar að þær hafi báðar verið tvíkynjungar þótt Rússar hafi ætíð neitað því.
Frá árinu 2000 hefur ekki verið kafist að keppendur á Ólympíuleikum gangist undir kynjapróf en nefndin áskilur sér rétt til að krefjast slíks ef ástæða þykir til.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 04:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.8.2009 | 12:15
Af hverju girðir hún bara ekki niðrum sig og málið er dautt?
Af hverju girðir hún bara ekki niðrum sig og málið er dautt?
Margir spurðu þessarar spurningar og enn fleiri hugsuðu hana þegar sá kvittur komst upp að Caster Semenya, 18 ára stúlka frá suður Afríku sem vann óvænt 800 metra hlaupið (1:55.45.) á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Berlín fyrir nokkrum dögum, væri ekki stúlka heldur karlmaður.
En því miður er málið ekki svona einfalt. Kyn ræðst víst ekki lengur af gerð kynfæra fremur en kynhneigð. Til að greina kyn hennar (ég læt hana njóta vafans og kalla hana "hana") svo ekki verði um villst verður hún að ganga í gegnum margar læknaskoðanir og rannsóknir.
Sumar þeirra eru ansi flóknar. Að þeim verða að koma hol-líffærasérfræðingur, kvenlæknir, sálfræðingur, litninga og erfða-sérfræðingur og innkirtlafræðingur og vaka og hormónafræðingur.
Gullpeninginn sem hún vann fékk hún að taka með sér á skilorði. Ef hún greinist sem kvenmaður fær hún að halda honum. Niðurstöður í hinum margþátta rannsóknum sem hún verður að gangast undir er ekki að vænta fyrr en eftir nokkrar vikur.
Ég læt hér að fylgja niðurlag greinar á ensku af taragana.com. sem fjallar um málið.
About 1 percent of people are born with some kind of sexual ambiguity, sometimes referred to as intersexuality. These people may have the physical characteristics of both genders, a chromosomal disorder, or simply have ambiguous features. People who have both male and female organs are hermaphrodites.
Until 1999, the International Olympic Committee analyzed chromosomes from saliva samples to confirm the gender of female competitors and prevent men from masquerading as women. Other sports organizations have called the tests unreliable. The tests were scrapped before the 2000 Sydney Games.
The most common cause of sexual ambiguity is congenital adrenal hyperplasia, an endocrine disorder where the adrenal glands produce abnormally high levels of hormones.
In women, this means a masculine appearance. They may have female sexual organs, but the ovaries may be unable to produce estrogen, preventing the growth of breasts or pubic hair.
There are also several rare chromosomal disorders where women may have some male characteristics. Women with Turner syndrome, which affects about 1 in 2,000 babies, typically have broad chests and very small breasts. Their ovaries do not develop normally and they cannot ovulate.
About 1 in 1,000 women are also born with three X chromosomes. They tend to be exceptionally tall, with long legs and slender torsos. They usually have female sexual organs and are fertile.
A handful of athletes have typically dropped out or been thrown out of the Olympics for failing gender tests over the years. But no evidence supports the idea that such competitors have an unfair athletic advantage.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.5.2009 | 14:49
Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?
Auðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)
Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.
Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.
Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.
Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.
Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.
Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi.
Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.
Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.
"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2009 | 00:22
Spáin um úrslit leiksins við Eista á Sunnudag og Dr. Phil svarar tveimur spurningum
Þá er komið að því að efna loforðið og birta hér spádóm Dr. Phil um leikinn við Eistlendinga á morgunn. Dr. Phil ræður aðeins í liti, tölustafi og bókstafi í spádómum sínum en þeir geta verið furðu nákvæmir þrátt fyrir það. En þá er það leikurinn á morgunn.
Dr. Phil segir; það er pott þétt að sú þjóð sem hefur bláan lit í fána sínum sigrar og sú þjóð sem hefur ekki færri en tvo liti í fána sínum hefur betur. Ég tek það fram að jafnt verður á öllum tölum þar til að annað liðið nær að síga fram úr og að meira en fjórar tylftir marka verða skoraðar í leiknum."
Ef að ég reyni nú aðeins að hjálpa við túlkun þessa spádóms þá lítur dæmið út svona. Báðar þjóðirnar hafa þrílita fána. Eistneski fáninn er svartur hvítur og blár, sá íslenski rauður, blár og hvítur. Í fljótu bragði virðist spádómur Dr. Phils því geta átt við báðar þjóðirnar. En ef við höldum okkur við strangar vísindalegar skilgreiningar þá eru hvorki hvítt eða svart raunverulega litir. Svart varpar sem sagt ekki frá sér neinum lit og hvítt varpar frá sér öllum litum. Ef að tekið er tillit til þessa hljóta það að vera Íslendingar sem hafa sigur því þeir eru með tvo liti í fána sínum, rautt og blátt en Eistlendingar aðeins með einn, blátt. Saman ber; "sú þjóð sem hefur ekki færri en tvo liti í fána sínum hefur betur."
Dr. Phil svaraði einnig emailum mínum varðandi spurningarnar tvær sem bárust frá bloggvinum mínum í gær og svörin við þeim eru eftirfarandi;
Til "Love Her Everyone" Íslendingar berjast við rauða litinn. Hann er allsráðandi á bankareikningunum þeirra. Atvinnuástandið er svart og það byrjar ekkert að lýsast fyrr en á níunda mánuði ársins 2009. Framundan hjá þér eru hærri mínus tölur. Þær byrja að lækka aftur á sjöunda mánuði ársins 2009 ef þú elskar græna litinn.
Skilaboð til ungmeyjarinnar á skerinu; Marga Íslendinga fýsir að flýja hvíta og gráa litinn. En þegar að græni liturinn fer að sjást, róast þeir aftur. Fáir munu því fara enda ástandið svart í flestum löndum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.3.2009 | 11:16
Vor í lofti og Íslendingar á sigurbraut segir Dr. Phil
Vorið er komið og grundirnar gróa, alla vega hér í Bath á Englandi. Síðustu tveir dagar hafa fært mér sanninn heim um að vorið sé komið fyrir alvöru. Það er yfir 18 stiga hiti og rjóma blíða, gróðurinn óðum að taka á sig lit eins og mannlífið.
Kaffihúsin eru búin að setja stóla og borð út á stéttar, dagblöðin liggja hreyfingarlaus á borðunum og smáfuglar tísta í trjánum eins og þeir hafi eitthvað mikilvægt að segja. Ungmennin sitja í hópum á graseyjunum út um alla borg og eldra fólk stansar lengur við til að spjalla á götuhornunum. Þetta er skemmtilegur tími.
Ég er byrjaður að ræða aftur við Dr. Phil um handboltann. Hann er góðkunningi lesenda minna frá því á ólympíuleikunum í fyrrasumar. Hann sagði mér í fyrradag að Íslendingar mundu vinna landa Alexanders mikla. Það gekk eftir. Á Laugardaginn ætlar hann að spá fyrir um leikinn við Eistlendinga. Hann var með allt á hreinu í spám sínum um gengi íslenska liðsins á ólympíuleikunum, þannig að ég bind miklar vonir við spádómshæfileika hans.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.2.2009 | 16:18
Skautar, skíðasleðar og paradís
Þegar nýbyggingar fóru að rísa ört í Keflavík upp úr 1960 varð bærinn frægur fyrir alla drullupollana sem mynduðust við jarðrask og framkvæmdir í bænum. Þegar ég var átta ára, árið 1962, gekk í garð kaldasti vetur sem ég hef upplifað og allir pollar í bænum botnfrusu og héldust frosnir í margar vikur. Þetta var veturinn sem ég fór í fyrsta sinn á skauta.
Til að byrja með stalst ég á skauta eldri systur minnar, en sá fljótlega að það mundi ekki ganga til lengdar, hún alveg brjáluð yfir því að ég "skældi" skautana og svo voru þeir líka hvítir.
Eftir talvert þref í mömmu, fékk ég loks svarta skauta, (notaða að sjálfsögðu) og þá hófust æfingarnar fyrir alvöru. Upp úr flestum stærri pollunum stóðu steinsnibbur sem gerðu alvöru skautamennsku á þeim erfiða.
Þá var líklega ekki byrjað að úða vatni á fótboltavöllinn eins og gert var í seinni tíð svo ekki var annað til ráða enn að paufast upp "í heiði"; fram hjá vatnstönkunum báðum sem stóðu fyrir ofan bæinn, framhjá brennustæðunum okkar þar sem við hlóðum veglega kesti fyrir hvert á gamlárskvöld og áfram í vesturátt alla leið upp að "Vötnum." Það sem við kölluðum "Vötn" voru reyndar tvær litlar tjarnir skammt ofan við Keflavíkurkaupstað og var önnur þeirra, sú stærri, innan flugvallargirðingarinnar og því á yfirráðasvæði Kanans.
Í daglegu tali var greint á milli tjarnanna og þá talað um Litlu og Stóru Vötn. Rétt nafn þessara tjarna ku vera Róselsvötn og eru þau kennd við sel sem í fyrndinni stóð þarna í grenndinni.
Það var auðvitað mest spennandi að skauta á "Stóru Vötnum", því þá var maður líka að brjóta lögin með því að fara inn fyrir girðinguna. Á góðum degi eftir skóla var saman komin þarna tjörnunum þorri krakka bæjarins á skautum og skíðasleðum. (Þotur þekktust ekki) Sumir áttu hvorugt en drösluðu upp eftir með sér pappakössum sem þeir rifu niður í ræmur og skelltu undir magann um leið og þeir skutluðu sér á svellið eftir langt tilhlaup.
Skíðasleðarnir virkuðu illa í mjúkum snjó, en á svelli eða hjarni voru þeir frábærir. Það var líka kostur við þá að það mátti setja á þá yngri bróður eða systur, (sem maður var oftast neyddur til að hafa með) og koma þeim fyrir í sætinu framan á sleðanum.
Skíðasleðar voru afar vinsælir þennan vetur, sérstaklega í skrúðgarðinum í Keflavík, sem var einn af fáum stöðum þar sem brekku var að finna í kaupstaðnum. Skíðasleðana mátti líka tengja saman í lestar þegar brunað var niður á móti, en þá þurfti oft lítið út af bera til að allir lentu ekki í "klessu" eins og það var kallað.
Upp úr "Stóru Vötnum" stóðu tveir nokkuð stórir steinar. Þeir sem voru komnir upp á lag með að standa almennilega á skautunum, spreyttu sig á því að stökkva yfir steinanna einn af öðrum, en bilið á milli þeirra var of langt til að það væri hægt að stökkva yfir þá báða. Þrátt fyrir að það væri augljóst, gerðu margir tilraunir til þess, þar á meðal ég.
Ég uppskar aðeins auman skrokk, marða fótleggi og tvö göt á hausinn. Í seina skiptið fékk ég gat á hnakkann sem blæddi talsvert úr, án þess að ég yrði þess var. Því varð móðir mín þegar heim var komið löngu seinna, að þýða lambhúshettuna varlega af hausnum á mér með volgu vatni.
Eins og fyrr segir, þurfti að skríða undir flugvallargirðinguna til að komast upp að Stóru Vötnum. Þegar þangað var komið var aðeins stuttur spölur til paradísar fyrir gutta eins og mig og félaga mína. Paradís þessi var samsett úr gömlum aflóga herflugvélum og í daglegu tali nefnt "flugvélahaugarnir."
Stundum enduðu skautaferðirnar á því að það var laumast yfir á hauganna og gramsað þar í "kanaflugvéladóti" fram í myrkur. Af og til óku fram hjá flugvélunum gráir pallbílar með gulum sírennuljósum sem voru okkur algjör nýlunda. Þá var nauðsynlegt fyrir þann sem settur hafði verið "á vaktina" að gefa merki svo allir gætu falið sig á meðan bílinn ók framhjá, (líklega á leið til Rockville.)
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2009 | 00:53
Getur þú ráðið þessa gátu?
Eitt sinn var auðugur konungur í ríki sínu sem átti fagra dóttur. Þegar hún varð gjafvaxta þyrptust að vonbiðlarnir en enginn þeirra þótti boðlegur fyrir hina glæstu og gáfuðu prinssessu. Sjálf var hún hæst ánægð með stöðu mála uns dag einn að tveir prinsar úr fjarlægu ríki komu ríðandi á fráum fákum sínum í konungsgarð.
Prinsarnir sem hétu Pí og Pan voru bræður og þóttu bráðefnilegir í alla staði. Þeir urðu strax afar ástfangnir af prinsessunni og ekki mátti milli sjá hvor dáði hana meira. Konungurinn var svo hrifinn af þeim að hann sagði dóttur sinni að hann mundi gera sér að góðu hvorn þann sem hún veldi fyrir mannsefni og láta þeim ánægður eftir ríki sitt eftir sinn dag. En þá kom í ljós að konungsdóttirin gat alls ekki gert upp á milli prinsanna.
Eftir talsverða umhugsun ákvað hún að leggja fyrir þá þraut til að leysa. Prinsarnir komu frá landi þar sem kappreiðar voru afar vinsælar og eins og áður er getið riðu þeir báðir afburða klárum. Prinsessan boðaði báða á fund sinn og sagði þeim hvað hún hugðist fyrir.
Bauð hún þeim að ríða í einn dag í suður frá höllinni út á eyðimörkina. Ekki væri hyggilegt fyrir þá að slá af hestum sínum á þeirri leið því við sólarlag skyldu þeir að snúa til baka og gilti nú að fara sér sem hægast því sá mundi vinna hönd hennar hvers hestur kæmi síðar inn um hallarhliðið.
Prinsarnir sem báðir voru miklir keppnismenn en jafnframt yfir sig ástfangnir af konungsdóttur, féllust á þetta. Næsta morgun héldu þeir á stað og keyrðu hesta sína sem mest þeir máttu til að komast sem lengst frá höllinni svo þeir mættu eiga sem lengst að fara er þeir snéru til baka.
Við sólarlag þegar þeir snéru við voru þeir samt samhliða. Þeir létu nú hesta sína lötra áfram og sjálfir voru þeir orðnir svo þreyttir að þeir gátu varla haldið augunum opnum. Þannig riðu þeir alla nóttina og þegar sólin kom upp brennandi heit morguninn eftir voru þeir orðnir örþreyttir. Þegar þeir sáu vinjar framundan komust þeir að samkomulagi að þeir mundu báðir á um stund og brynna hestum sínum og hvílast.
Eftir fimm klukkustunda stopp brá nú svo við að þeir komu á þeysireið aftur út á eyðimörkina og stefnu í átt til hallarinnar. Hvöttu þeir hestana sem mest þeir máttu alveg þangað til að þeir riðu í gegn um hallarhliðið og var þá Pí aðeins hálfri hestlengd á undan Pan.
Spurningin er; hver fékk konungdótturina og hvers vegna?
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.8.2008 | 21:14
Til varnar forsetafrú Íslands
Þau eru ófá bloggin þessa dagana sem fjalla um Dorrit Moussaieff. Yfirskins-neistinn að þessu bloggbáli er framkoma hennar á Ólympíuleikunum í Bejiing þó margir hafi orðið til að benda á að slíkir neistar virðast oftast tendrast í sömu eldsneytislausu ofnunum og af einskonar pólitískri fyrirtíða-spennu.
Það er staðreynd að ef við berum saman hvernig makar fyrrverandi forseta gegndu hlutverki sínu og hvernig Dorrit gerir það, ber himin og haf á milli. Þær Georgia Björnsson; kona Sveins Björnssonar (1944-1952) Dóra Þórhallsdóttir; kona Ásgeirs Ásgeirssonar (1952-1964) og Halldóra Eldjárn kona; Kristjáns Eldjárns (1968-1980), þrátt fyrir að vera afar ólíkir persónuleikar, áttu það sameiginlegt að finna sig við hlið eiginmanna sinna sem voru valdir til að sinna embætti sem átti sér enga hliðstæðu í sögu landsins.
Embættið var nýtt og í mótun. Því síður voru til í landinu einhverjar siðareglur um hegðun eða hlutverk maka íslenskra þjóðhöfðingja. Eitt var þeim samt ljóst, öðru fremur, að það voru eiginmenn þeirra sem kosnir höfðu verið til embættisins, ekki þær og á á þeim skilningi grundvallaðist opinber framkoma þeirra öðru fremur.
Þegar að Frú Vigdís Finnbogadóttir var kosinn forseti, riðluðust heldur betur þær fáu hefðir sem mótast höfðu um hlutverk maka forsetans. Fyrir utan að vera fyrsta konan sem kosin var í heiminum til að gegna stöðu þjóðhöfðingja, staðreynd sem dró að henni ómælda athygli heimspressunnar, var hún einhleyp.
Vigdís var heimskona, talað mörg tungumál reiprennandi og kunni sig vel á meðal allra manna hvort sem þeir voru alþýðufólk eða eðalbornir. Hispurslaus og sjarmerandi framkoma hennar ávann henni aðdáendur vítt og breitt um heiminn.
Ég er ekki frá því að íslenska þjóðin hafi hálft í hvoru séð Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur sem einskonar arftaka Vigdísar, jafnvel þótt það væri bóndi hennar, herra Ólafur Ragnar Grímsson sem kosinn var til að vera forseti 1996. -
Áfallið sem þjóðin öll gekk í gegnum við ótímabært andlát Guðrúnar, var rétt að sjatna þegar Ólafur gengur að eiga Dorrit Moussaieff 2003. Á þeim forsendum einum átti Dorrit á brattann að sækja hér á Íslandi til að öðlast viðurkenningu þjóðarinnar. Að auki var Ólafur umdeildur sjálfur fyrir að beita í fyrsta sinn sérstökum ákvæðum embættisins sem fram að þessu höfðu ekki verið notuð.
Í gegn um pólitískt öldurótið þurfti Dorrit að sigla, læra að þekkja þjóðina, tungumálið og auðvitað nýja eiginmanninn. Hún hóf fljótlega að beita áhrifum sínum til að koma íslenskum listamönnum á framfæri og nú er svo komið, eins og einhver sagði, að talað er um fyrir og eftir Dorrit, þegar um möguleika íslenskra listamanna erlendis er rætt. Hvar sem hún fer á erlendri grund, ein eða í fylgd eiginmanns síns, bar aldrei nokkurn skugga á framkomu hennar eða hegðun. -
Allar raddir sem reynt hafa að velta upp að Dorrit sé fordekruð eða reynt að gera hana tortryggilega vegna auðæfa hennar eða fjölskyldu hennar, hafa lognast út eins og hjáróma öfundarraddir jafnan gera.
Sömuleiðis hafa ásakannir um að vera haldin athyglisþörf þagnað þegar sýnt er hvernig Dorrit hefur tekist að beina ljósi fjölmiðla fyrst og fremst að Íslandi og íslenskri menningu frekar en eigin persónu.
Um framkomu hennar á Ólympíuleikunum í Bejiing þegar hún fagnaði sigri íslenska liðsins, er efnilega lítið að segja. Það sem kom landinu og handboltaliðinu á forsíðu New York Times var frækilegur sigur smáþjóðar yfir stórþjóð og í tilefni þess fór Dorrit út á völlinn eftir leik og veifaði tveimur Íslenskum fánanum. Gleraugu fólks þurfa að vera með rafsuðustyrkleika pólitísks litar til að lesa út úr þeirri framkomu eitthvað slæmt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
27.8.2008 | 16:31
Bretar kunna að teigja á Ólympíudýrðinni
Almenningur var hvattur til að koma ekki á flugvöllinn til að taka á móti Ólympíuhetjum Breta í fyrra dag, þegar þær voru ferjaðir yfir frá Kína í endurskírðri þotu sem heitir nú "Pride" eftir breska ljóninu. (Stolt). Í viðbót við gullið nef þotunnar stóð á henni "Stoltir yfir að færa bresku hetjurnar heim"
Í gær og í dag, hafa staðið yfir látlaus hátíðarhöld í heimabæjum hetjanna, garðar hafa verið endurnefndir þeim til heiðurs, nýjar sundlaugar nefndar í höfuð þeirra, og sportvarningur ýmiskonar helgaður þeim.
Þessu mun líklega fram haldið alveg þangað til í Október, þegar allsherjar fagnaður er undirbúinn í London. Þá munu allar hetjurnar koma saman til að veifa verðlaunum sínum framan í pöpulinn þegar þeim verður ekið á rauðum tveggja hæða rútum um borgina.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)