Færsluflokkur: Íþróttir
26.8.2008 | 13:03
Flest Ólympíugull í 100 ár
Bretar eru alveg að springa úr monti þessa dagana. Í gær kom Ólympíuliðið þeirra til baka frá Bejiing með uppskeruna 19 gullpeninga, 13 silfur og 15 brons. Samtals 47 verðlaunapeningar, sem er besti árangur Breta á Ólympíuleikum frá því að þeir héldu sjálfir leikanna 1908. Liðið kom í þotu og hafði nef hennar verið gyllt í tilefni árangursins og í dag standa yfir hátíðahöld vítt og breytt um landið þar sem heimabæir Ólimpíustjarnanna hylla sínar hetjur.
Þegar litið er yfir gullverðlaunalista Breta kemur samt eitt í ljós sem ég er ekki viss um hvernig eigi að túlka. Gullverðlaunin eru langflest fyrir greinar þar sem setið er á rassinum eða legið á maganum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.8.2008 | 10:31
Ömurlegt atriði Breta á lokahátíðinni í Bejjing
Ég horfði með athygli á lokahátíðina í Bejjing í gær og gat ekki annað en dáðst aftur og aftur af því sem fyrir augu bar. Ljós og litir, form og líf, hljóð og andrúmsloft, allt hjálpaði til við að búa til undraheim sem lengi verður í minnum hafður. Lokahátíðin var ekki eins formleg og opnunarhátíðin og var ekki gert að fjalla um og mikla sögu Kína. Þess vegna fannst mér hún listrænt séð betri.
EN svo kom Boiris. Borgarstjórinn sem nýlega hrifsaði til sín borgarstjórastólinn í London og átti engan þátt í á fá leikana til Englands 2012. Hann kjagaði inn á leikvanginn og veifaði Ólympíufánanum yfir lýðinn og veifaði þess á milli til fólks á leikvanginum sem hann taldi sig þekkja.
Og það sem fylgdi á eftir var svo ömurlegt að ef það á að bera vitni því sem koma skal, býð ég ekki í það.
Þau þrjú sem voru kosin til að taka við leikunum af hálfu Breta voru; knattspyrnumaður hvers ferill er að enda, (ég segi ekki útbrunninn), tónlistamaður sem varð frægur fyrir að spila í hljómsveit sem er löngu hætt og söngkona sem vann hæfileikakeppni og hefur verið ýtt áfram í poppheiminum af tónlistarmógúl sem lofaði að sjá um hana.
Þau komu inn í rauðri tveggja hæða rútu sem Bretar gerðu sitt besta til að losa sig við af götum Lundúna fyrir fáeinum árum og þegar hann flettist sundur eins eftir sprenginguna þar í borg 7.7.05 birtust myrkvaðar útlínur (Skyline) Londonborgar.
Allt í kringum vagninn voru ósamhæfðir dansarar, dansandi dansa sem eru svo vinsælir í Bretlandi vegna þess að allir geta gert eins og þeim sýnist. Breska atriðið var í hrópandi ósamræmi við agaða fjöldasýningu Kínverja, en það er staðreynd að engir eru betri í kóreugröffuðum fjöldaatriðum en Kínverjar nema kannski Kóreumenn.
Bretar heima fyrir tóku andköf af skömm og spurningin sem þeir spyrja sig er; eiga þeir virkilega enga menningu sem ristir dýpra en popp, rokk, tíska og fótbolti?
24.8.2008 | 10:03
Dr. Phill skýrir ástæðurnar fyrir tapi Íslendinga
Dr. Phill sem staddur er í Frakklandi og fylgdist með leik Íslendinga og Frakka í sjónvarpinu þar, hringdi núna skömmu eftir að leiknum lauk og sagðist ætla að beita sér fyrir því að Bretar eignist alvöru handboltalið sem geti tekið þátt á næstu Ólympíuleikum sem verða haldnir í London 2012. Handbolti væri svo skemmtileg íþrótt þótt hann skildi ekkert í því hvers vegna völlurinn væri svona illa nýttur. Helmingur hans væri venjulega auður fyrir utan markmanninn í hverri sókn.
Hann sagðist senda Íslendingum hamingju óskir með silfurverðlaunin og um leið samúðarkveðjur vegna þess að þeir misstu af gullinu. Ástæðurnar fyrir tapinu sagði hann augljósar eftir að hafa kynnt sér málvöxtu; Af því bara.
24.8.2008 | 09:12
Íslendingar geta verið sáttir við silfur.
Úrslitin réðust í fyrri hálfleik. Íslendingar sáu aldrei til sólar, skoruðu ekki úr dauðafærunum, klúðruðu vítum og misstu boltann í hvert sinn í hendur Frakka sem refsuðu okkur miskunnarlaust. Seinni hálfleikur var örvæntingarfullur að hálfu íslendinga og þegar munurinn var orðin sjö mörk, og Óli klúðraði vítinu og átta marka munur staðreynd var lánleysi íslendinga algjört. Hvað eftir annað skall boltinn í stöngum franska marksins og þess á milli hirtu íslendingar hann úr neti eigin marks og 9 marka mun er ógerlegt að vinna upp í svona sterkri keppni.
Vissulega gera Íslendingar sér að góðu að vinna til silfurverðlauna en þegar leikurinn um gullið gengur út á að komast frá honum skammlaust frekar en að vinna, er það kannski einum of. Spurningin um hvort það hafi verið einskær heppni leitar sterkt á mann.
Samt verður aldrei sagt um Íslendinga að þeir kunni ekki að slá heimsmetin. Þeir brutu blað í sögu handboltans með því að vera fyrsta smáþjóðin til að komast í úrslit í hópíþrótt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.8.2008 | 07:09
Dr. Phill segir augljóst hverjir vinni leikinn á eftir.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.8.2008 | 13:33
Verður þjóðin ánægð með silfrið, ef...?
Ef ég þekki landann rétt, er erfið nótt framundan hjá allri þjóðinni. Jafnvel þótt menningarnótt í Reykjavík fái sumt fólk til að gleyma um stund eftirvæntingunni og þeirri hugsun að Kaleikurinn helgi er innan seilingar. Við dagrenningu á Íslandi munu sextán ungir íslenskir piltar hefja lokaorrustuna út í Bejiing um gullverðlaunin fyrir handknattleik á Ólimpíuleikum.
Mótherjar þeirra koma frá þjóð sem telur um 65 milljónir íbúa og þar sem fleiri iðka handbolta en öll íslenska þjóðin telur. Þeir koma frá voldugri menningarþjóð sem á langa og stolta sögu af landvinningum og afrekum á sviðum bókmennta og lista, jafnt sem íþrótta.
Nú þarf íslenska þjóðin sem sé að taka ákvörðun um ýmislegt. Fyrst, hvort eigi að vaka alla nóttina þar til leikurinn hefst, eða fara snemma að sofa til að vakna eldhress klukkan fimm til að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu.
Síðan þarf að ákveða hvernig bregðast skal við úrslitum leiksins.
Ef kaleikurinn helgi fellur ÍSLANDS megin, verður mikið um dýrðir hjá öllum, hvort sem þeir hafa áhuga á handbolta eða ekki. Að vinna Ólympíugull er nefnilega ekkert smá mál fyrir dvergþjóð eins og íslendinga. Ef slíkt gerist, verður það sigur hins auðmjúka Davíðs (strákanna) yfir Golíat (les Experts). Þá munu tárin renna af stolti af ungum jafnt sem öldnum hvörmum og eftir ærandi fagnaðarlæti og dans á götum úti (framlengd menningarnótt í Rvík) mun andi værðar og friðar færast smá saman yfir þjóðina. Við munum bíða heimkomu hetjanna með stóískri ró og hugleiða stöðu okkar fyrir framtíðina.
En ef það verður ekki krossfáninn sem blaktir í miðju við verðlaunaafhendinguna og Guðs vors lands verður ekki á vörum strákanna, mun andrúmsloftið vrða ögn vandræðalegra. Jú þeir stóðu sig frábærlega, en þeim árangri höfum við þegar fagnað (í huganum) því annað sætið var öruggt fyrr fram, tryggt með sigri liðsins yfir Spánverjum. Að auki hafa íslendingar unnið áður til silfurs á Ólympíuleikum. Auðvitað munum við taka vel á móti "strákunum" en á bak við dempaða gleðina mun líklega glitta í eftirsjána eftir því sem hefði getað gerst, ef, ef, ef og ef.
23.8.2008 | 01:08
Franska handboltaliðið kallar sig nú les Experts.
Franska liðið, mótherjar Íslendinga í úrslitum um Ólympíumeistaratitilinn í Handknattleik 2008, kalla lið sitt Les Experts (Sérfræðingana) sem er heitið á Bandarísku sakamálaþáttunum CSI í Frakklandi. Spurningin er hvort þeir eru nægilega miklir sérfræðingar til að leggja "strákana" frá Íslandi af velli. Fimm leikmanna þeirra leika með liðum í Þýskalandi og tveir með spænskum liðum og restin með frönskum.
Leikmenn þeirra eru;
- 1 Yohan Ploquin (Toulouse Union Handball), France) (goalkeeper)
- 12 Daouda Karaboué (Montpellier HB, France) (goalkeeper)
- 16 Thierry Omeyer (THW Kiel, Germany) (goalkeeper)
- 2 Jérôme Fernandez (Barcelona, Spain)
- 3 Didier Dinart (BM Ciudad Real, Spain)
- 4 Cédric Burdet (Montpellier HB, France)
- 5 Guillaume Gille (HSV Hamburg Germany)
- 6 Bertrand Gille (HSV Hambourg, Germany)
- 8 Daniel Narcisse (Chambéry Savoie Handball France)
- 11 Olivier Girault (Paris Handball France)
- 13 Nikola Karabatić (THW Kiel Germany)
- 14 Christophe Kempe (Toulouse Union Handball, France)
- 18 Joël Abati (Montpellier HB France)
- 19 Luc Abalo (US Ivry, France)
- 20 Cédric Sorhaindo (Paris Handball, France)
- 21 Michaël Guigou (Montpellier HB France)
- 22 Geoffroy Krantz (VfL Gummersbach, Germany)
- 23 Bertrand Roine (Chambéry Savoie Handball, France)
- 24 Sébastien Ostertag (Tremblay-en-France Handball, France)
- 26 Cédric Paty (Chambéry Savoie Handball, France)
- 30 Fabrice Guilbert (US d'Ivry Handball France)
Auðvitað eru Frakkar stórveldi í handbolta þótt þeir hafi átt skrautlegan feril frá því að liðið fór að láta kveða að sér fyrir alvöru á alþjóðavettvangi upp úr 1990.
Þeir fengu sín einu Ólympíuverðlaun árið 1992 og urðu þá þekktir undir nafninu les Bronzés eftir að hafa lent í þriðja sæti. Íþróttin er afar vinsæl í Frakklandi og landsliðið hefur æ síðan verið með þeim bestu í heiminum.
Árið eftir að þeir unnu Ólympíubronsið eða 1993, töpuðu þeir úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu gegn Rússum. Á næsta heimsmeistaramóti, sællar minningar, sem haldið var á Íslandi 1995 komust þeir líka í úrslitin gegn Króatíu og unnu í það skiptið og urðu heimsmeistarar. Það var í fyrsta sinn sem Frakkar eignuðust heimsmeistara í hóp-íþrótt. Það lið var þekkt undir nafninu les Barjots vegna þess að allir leikmenn liðsins voru með klikkaðar hárgreiðslur en barjot er slanguryrði á frönsku yfir klikkun.
Á Ólympíuleikunum 1996 hafnaði franska landsliðið í fjórða sæti og urðu það töluverð vonbrigði því þeir töpuðu leiknum um þriðja sætið gegn Spáni, liði sem þeir höfðu burstað í undanriðlunum.
Ári síðar 1997 lentu þeir í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu en fengu enga verðlaunapeninga 1999 eða á Ólympíuleikunum 2000.
Liðið var að bíða þar til á heimsmeistaramótinu 2001 til að vinna til alþjóðlegra verðlauna aftur og það gerðu þeir eftir að hafa unnið leiki sína gegn Þýskalandi og Svíþjóð svo naumlega eftir að hafa verið undir mest allan leiktímann, að þér voru kallaðir les Costauds (hinir sterku eða seigu) en þeir stóðu uppi sem heimsmeistarar það árið.
2003 urðu þeir þriðju á heimsmeistaramótinu og komu heim verðlaunalausir frá Ólympíuleikunum í Sydney 2004.
2005 lentu þeir aftur í þriðja sæti heimsmeistarakeppninnar og 2006 urðu þeir í fyrsta sinn Evrópumeistarar. Þeir tóku þá Spán þáverandi heimsmeistara í bakaríið og eftir það nefndu þeir sig les Euros.
Fyrr á þessu ári lentu þeir í þriðja sæti á Evrópumótinu en voru ósigraðir þar til þeir töpuðu fyrir Króatíu í undanúrslitum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2008 | 17:52
Hvernig er talað um íslenska handbolta-liðið í erlendu pressunni.
Það er alveg klárt að Spánverjar eru alveg í rusli eftir tapið fyrir Íslendingum. Hér kemur skemmtilegt sýnishorn af þeim fjölda greina sem nú er að finna á netinu og í öðrum fjölmiðlum um frammistöðu íslenska liðsins gegn Spánverjum. Þessi er skrifuð af Breta sem gerir sitt besta til að segja samviskusamlega frá leiknum.
Ótrauðir möluðu Íslendingar Spánverja 36-30, niðurstaða sem komu mjög á óvart í undanúrslitum í handbolta og gefur þeim tækifæri á fyrstu gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikum þegar þeir leika við Frakka á sunnudag sem fyrirfram eru taldir sigurstranglegri.
Spánverjar, bronsverðlaunahafar í Sydney og í Atlanta, sofnuðu á verðinum gegn allsherjar árás íslendinganna og náðu sér aldrei á strik gegn mótherjum sínum sem snúið hafa þessu móti á haus með eyðandi stórsigrum sínum.
Afskrifaðir áður en keppnin hófst, bæta Íslendingarnir nú Spánverjum við vaxandi fjölda höfuðleðra sem þeir hafa safnað í belti sér á þessum Ólympíuleikum í Bejiing, þar á meðal Rússa, heimsmeistara Þjóðverja og Pólverja.
Leikmenn þurrkuðu tárin úr augunum um leið og þeir þökkuðu örfáum stuðningsmönnum sínum sem lagt höfðu land undir fót til Kína, frá þessari litlu eyþjóð sem aðeins telur 300.000 íbúa.
Íslendingar rotuðu mikilfenglega andstæðinga sína með því að hefja leikinn á að skora fimm mörk, þar af áttu Snorri Guðjónsson og ALexander Petersson tvö hver.
Rueben Garabaya maldaði í móinn fyrir Spánverja gegn Norðmönnunum (Norsemen) sem héldu áfram uppteknum hætti með stöðugum árásum sem leiddu til að staðan var 8-4 eftir 10 mínútur.
Spáni tókst um tíma að hægja á leiknum og aðeins frækileg framganga Björgvins Gústafssonar varnaði þeim að jafna leikinn á þrettándu mínútu þegar staðan var 8-7.
Þeim tókst að jafna 9-9 þremur mínútum seinna en þá var Carol Prieto vísað af leikvell í tvær mínútur fyrir að láta sig falla og íslendingar notfærðu sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í viðbót.
Gústafsson bjargaði síðan nokkrum sinnum og muldi þannig sjálfstraust þeirra Spánverja sem reyndu að koma sínu liði yfir.
Önnur markaruna kom Íslandi í 13-9 áður en Spánn gátu endurskipulagt sig og komist í 13-13 með marki frá Prieto.
Í hálfleik var staðan 17-15 Íslandi í vil og eftir hálfleik náðu þeir að halda þeim mun nokkuð vel.
Varnarboltinn Sigfús Sigurðsson sem vegur 114 kg jók þann mun í fjögur mörk á fertugustu mínútu með því að slöngva "massívum" líkama sinum eftir endilöngum vellinum og klína boltanum í spánska netið.
Þegar hér var komið í´sögu var ljóst að hlutlausir áhorfendur fjölmennustu þjóðar heimsins voru orðnir dyggir aðdáendur liðsins frá einni af þeirri fámennustu sem tekur þátt í leikunum og hrópið "Iceland, Jia you" (áfram Ísland) ómaði um gjörvallt húsið.
Forystan jókst upp í sex mörk á síðustu 10 mínútunum og Íslendingarnir guldu hvert örvæntingarfullt spánskt mark með marki þar til að flautað var til leiks loka.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
22.8.2008 | 13:55
Dr. Phill sendir hamingjuóskir
Dr. Phill hefur reynst sannspár um íslenska handboltaliðið og segir það hafa haft slíka yfirburði yfir Spánverjum að þeir hljóti að að vinna gullið.
Ég get ekki lengur efast um spámannsleika hans og undirbý mig núna undir að fagna fyrsta Ólympíugulli Íslendinga.
Dr. Phill verður vitanlega í heiðurssessi, enda vel að því kominn eftir að hafa verið svona sannspár um leik Íslands og Spánverja.
Enn sem fyrr eru ástæður hans fyrir velgengninni, "af því bara".
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.8.2008 | 08:24
Við vinnum í Bejiing samkvæmt Dr. Phill
Veistu að Íslendingar eru komnir í fjögra liða úrslitin á Ólympíuleikunum spurði skurðlæknirinn Phill mig á pubbanum í gærkveldi. Þeir voru að vinna Pólverja, bætti hann við. Hvernig vissir þú það, spurði ég undrandi. Handbolti er ekki íþrótt sem nokkur Breti kann skil á hvað þá sýnir hinn minnsta áhuga á.
Ég sá það á textavarpinu, svaraði Phill, heldurðu að þeir vinni ekki til gulls?
Íslendingar hafa aldrei fyrr unnið gull á Ólympíuleikum, en þeir hafa verið í þessari stöðu áður, spilað um úrslitaleikinn, tapað, spilað um bronsið og tapað.
Hva, hafið þið aldrei unnið til gullverðlauna....í neinu, spurði Kim (kona Phills)
Nei ekki á Ólympíuleikum, svaraði ég. Aldrei gull, bara tvö brons og eitt silfur, silfur fyrir þrístökk karla, og brons fyrir stangarstökk kvenna og Júdó.
Hvað eru íslendingar aftur margir, hélt Kim áfram.
300.000, svaraði ég.
Þögn.
Ég held að þið vinnið núna, sagði Phill hróðugur.
Hvers vegna, spurði ég undrandi á þessum löngu umræðum um handbolta.
Bara, svaraði hann og byrjaði svo að segja okkur frá hvernig hann var sleginn í andlitið af einum sjúklingnum.
Ég hugleiddi þetta svar um stund og sá svo að líklega hefði enginn líklegri skýringu á væntanlegum sigri Íslendinga. Tölfræðin er á móti okkur og hefðin. Ef við vinnum, vinnum við af því bara.