Færsluflokkur: Ferðalög

Norðurljósin dansa í nótt

Ég skil ekki hversvegna verið er að "vara við" sólgosum, fyrst þau eru eining sögð skaðlaus með öllu. Nær væri að kætast yfir væntanlegri danssýningu norðurljósanna.

Ef að þessi flóðbylgja af hlöðnum efnisögnum hefur þegar skollið á jörðinni má gera ráð fyrir að mikið magn þeirra hringsóli nú í segulsviði jarðar og þeytist jafnframt á milli segulskautanna tveggja.

Eitthvað af þeim mun áreiðanlega rekast á lofthjúp jarðar og þá verður ljósasýningin aurora borealis og  aurora australis (Norður og suðurljós) til.

Þar sem heiðskýrt verður í nótt á Íslandi má því búast við miklum dansi norðurljósanna, svo fremi auðvitað að það verði nógu dimmt til að hann verði sýnilegur. 


mbl.is Varað við öflugu sólgosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarlegur alkóhólisti

Hér í borg (Bath), eins og í svo mörgum borgum Bretlands er talvert um útigangsfólk. Oft víkur það sér að vegfarendum og biður þá um peninga.

Algengasta betllínan er einhvern veginn á þennan veg; "Ég er heimilislaus og á ekki fyrir gistingu í athvarfinu í nótt. Geturðu séð af einhverri smámynnt handa mér."

Svarið er venjulega "því miður er ég ekki með neina smámynt á mér"

Í gærkveldi brá dálítið öðru við. Að mér vék sér maður og spurði kurteislega; "Má ég eiga við þig orð?"

Þegar ég jánkaði því kom þessi rulla sem ég hafði aldrei heyrt áður;

 "Ég er heimilislaus og ég er alkóhólisti. Mig vantar 30 pens svo ég eigi fyrir næstu flösku. Viltu gefa mér þau?"

Ég gaf honum 50 pens, 30 svo hann gæti keypt sér flöskuna og 20 fyrir hreinskilnina ;=)

 


Ísland svarar

BBC fjallar um íslenska átakið á netinu til að laða fleiri ferðamenn til landsins. Engin vafi er á að orðspor Íslands beið hnekki eftir efnahagsþrengingarnar og gosið í Eyjafjalajökli og áhrif þess á flugumferð jók síðan á pirringinn út í landið hjá Evrópubúum.

Átakið á netinu er því afar þarft framtak og viðbrögðin við því sem komið er mjög jákvæð. -Landkynningar myndbandið við lag Emilíönu Torrini - Jungle drum t.d. ágætlega unnið og skemmtilegt þrátt fyrir að vera mjög gamaldags og einfalt.  Það var satt að segja eins og gamalt júróvisjón innlegg.

Bestu landkynningar sem hægt er að hugsa sér er einmitt að fá Sigurrós, Björk og Emilíönu til þess að gera ný myndbönd við lög sín í íslensku umhverfi en best er að láta listamennina sjálfa eða fólk á þeirra vegum koma með hugmyndirnar að uppbyggingu mundbandsins.

Besta íslenska landkyninningarmyndband sem ég hef séð er við lagið Glósóli eftir Sigurrós. 

 


mbl.is Ókeypis að hringja út til að kynna Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logn og blíða, sumarsól

Ég var að lesa langtíma veðurspá sem veðurfræðingar í Bretlandi hafa sett fram. Þeir segja líkur á miklum hita í allt sumar um alla norðvestur Evrópu. Greinilegt að áhrifin eru þegar farin að teygja sig upp til Íslands miðað við þessar spár veðurstofunnar.

Sól og blíða er mér að skapi og þess vegna hlakka ég til að koma heim í sumar til að njóta hins góða og tempraða íslenska sumarveðurs. Alla vega held ég að 30 stiga hiti eins og hinir bresku veðurspámenn segja að verði algengur meðalhiti á Bretlandi í sumar, sé of heitt fyrir mig.


mbl.is Sumar og sól í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er andi í glasinu?

Draugaveiðarar og (fjöl) miðlar fjölmenna nú til The New Inn í Gloucester. Ástæðan er sú að fyrir fáeinum dögum tóku sjálfvirkar öryggismyndavélar staðarins myndir af ölglasi sem fer af stað af sjálfdáðum að því er virðist og skellur á gólfinu eins og sjá má hér. 

Myndbandið er talið vera óbreytt.

Þrátt fyrir nafnið er "The New Inn" alls ekki ný krá. Húsið var upphaflega byggt á 14 öld til að hýsa pílagríma sem komu til að heimsækja gröf Eðvarðs konungs II  sem er í dómkirkju staðarins.

Eigendur krárinnar halda því fram að reimt sé í kránni og að óútskýranlegir atburðir séu þar daglegt brauð.

Kráin býður enn upp á gistingu en þetta kvöld sem andinn hljóp í glasið var verið að undirbúa spurningakeppni á barnum. Við sjáum hvernig spurningakeppnisstjórinn setur glas sitt fullt af bjór niður á borð og fer síðan burtu. Eftir skamma stund hendist það af stað út af borðinu og mölbrotnar á gólfinu og gestirnir stara á í forundran.

PS. Eitthvað finnst mér fámennt á spurningarkeppniskvöldinu. En það er fátt sem trekkir meira en krassandi draugasaga.


Eyjamolar

300px-Heimaey1309Vestmannaeyjar og sér í lagi Heimaey, er að mínu áliti merkasti staðurinn á Íslandi. Bæði í jarðfræðilegu og sögulegu tilliti eiga Vestmannaeyjar ekki sinn líka á Íslandi og eru að margra mati einstæðar í heiminum. Fyrir þessu mati liggja margar orsakir sem allar leggjast á eitt. Ætlunin er að tilfæra hér nokkrar.

Til að byrja með er Heimaey afar ung og verður svo að segja til um það leiti sem fyrstu merki um siðmenningu mannsins koma fram.

Í lok síðustu ísaldar fyrir rúmum 11.000 árum, þegar að mennirnir voru rétt að byrja að stunda akuryrkju suður í Mesópótamíu og mynda með sér samfélög, urðu nokkur eldgos suður af  Íslandi undir jöklinum sem enn lá yfir landinu. Í þessum gosum urðu til elstu hlutar Heimaeyjar; Dalfjallið, Klif, Háin, Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur. 5000 árum síðar, þegar borgríki höfðu verið stofnuð víða um lönd og siðmenningin sitt hvoru megin við miðbaug var komin vel á veg,  urðu aftur gos á svipuðum slóðum sem mynduðu Stórhöfða, Stakkabótina og nokkru síðar Helgafell. Hraun úr Helgafelli tengdi Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Þá bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973 og þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km².

Elstu hlutar Heimaeyjar eru að mestu gerðir úr Móbergi,  enda bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu. Lengi var talið að það tæki Móberg langan tíma að harðna og verða til og þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar í rannsóknum á Surtseyjargosinu 1963 kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gjóska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.

Fuglalíf við eyjar er afar fjölbreytt og þar m.a að finna stærstu lundabyggðir í veröldinni.

200px-Keiko-airplaneTelja má víst að Ísland hafi komist oftast í heimspressuna vegna atburða sem tengjast Vestmannaeyjum. 

Fyrst var það árið 1963 þegar að Surtsey reis úr hafi ásamt nokkrum smáeyjum sem síðan sukku aftur.

Þá vakti gosið á Heimaey 1973 einnig heimsathygli. Í því gosi reyndu menn í fyrsta sinn í sögu heimsins að stöðva og breyta hraunrennsli frá virkum eldgígum með raunhæfum aðgerðum.

Síðast var það koma háhyrningsins Keikó til Heimaeyjar 1998 sem greip athygli umheimsins. Hvalnum var flogið til eyjarinnar með Hercules hergagna-flutningavél sem svo braut á sér annan hjóla-útbúnaðinn í lendingu og festist á miðjum flugvellinum í tvo daga

Lengi hefur skráð saga Vestmannaeyja verið tengd fyrstu landnámsmönnunum, þeim fóstbræðrum Ingólfi og Hjörleifi. Eyjarnar eru sagðar nefndar eftir írskum þrælum Hjörleifs sem Ingólfur drap alla á Þrælaeyði, nema foringja þeirra Dufþak. Hann er sagður hafa hlaupið á flótta undan Ingólfi fram af Heimakletti þar sem nú heitir Dufþekja.

mynd4Lítið hefur verið sett út á þessa sögu þótt bent hafi verið á að Írar hafi alls ekki verið kallaðir Vestmenn af Normönnum, heldur aðeins þeir norrænu menn sem sest höfðu að vestan Danmerkur, þ.e. í Setlandseyjum, Orkneyjum, á Mön eða á  Írlandi. – Ef að eyjarnar hefðu verið byggðar norrænum mönnum þegar Ingólfur nefndi þær, á nafnið alveg við. Reyndar bendir margt til að svo hafi verið.

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft í Herjólfsdal. Niðurstöður hennar og aldursgreiningar á fornleyfum af staðnum enda til þess að byggða hafi verið í Eyjum allt að 200 árum fyrr en haldið er fram í sögubókum.

Páll Theódórsson, eðlisfræðingur, hefur rýnt í þessa vinnu og fleiri aldursgreiningar og sagt niðurstöðu þeirra og nýrra aldursgreininga breskra og bandarískra vísindamanna, sýna nærri óvefengjanlega,  að landnám hófst á Íslandi tveimur öldum fyrr en almennt er talið, eða um árið 670.

Vestmannaeyjum tengjast ýmsir atburðir í sögu landsins og jafnvel heimsins sem ekki er oft getið um.  Verið getur að mörgum þyki heimildirnar eða ályktanir dregnar af þeim séu of veikar til að halda mikið á lofti.

viki13Landnáma segir að Herjólfur Bárðarson hafi numið Vestmannaeyjar fyrstur manna. Í Grænlendingasögu segir frá alnafna hans sem bjó skammt frá Eyrarakka og sem sagður er hafa siglt með Eiríki Rauða til Grænlands. Bjarni Herjólfsson sonur hans hafði þá verið í siglingum og ætlaði á eftir föður sínum til Grænlands. Hann villtist af leið og fann land í vestri. Seinna segir hann Leifi syni Eiríks frá þessu en Leifur er sagður hafa fyrstur vestrænna manna tekið land í Norður Ameríku.

Í febrúarmánuði árið 1477, fimmtán árum fyrir sögufræga siglingu sína yfir Atlantsálaárið 1492, kom ítalskur sæfari að nafni Kristófer Kólumbus til Íslands. Frá þessu segir í ævisögu hans, sem á frummáli heitir Historia del Almirante Don Cristóbal Colón og var skrifuð af syni hans Ferdinand Kólumbus nokkru eftir dauða "Cristobals".

Ævisöguna skrifaði sonurinn m.a. sem andsvar við tilraunum spænsku krúnunnar til að gera lítið úr hlut Kólumbusar í landafundunum miklu. Sú rimma snerist, eins og svo margar aðrar, um tilkall til valda og auðæfa. Leiðangur Kólumbusar var farinn með fulltingi Ísabellu drottningar af Spáni með samkomulagi um verulega upphefð Kólumbusi til handa ef leiðangurinn bæri árangur.

Colombus_portraitAfkomendur hans höfðu hins vegar verið þvingaðir til að afsala sér þeim forréttindum að miklu leiti. Það er athyglisvert að ein af rökum spænsku krúnunnar í því máli voru að Kólumbus hefði fengið hugmyndina að leiðangri sínum hjá öðrum, sem vekur spurningar um hvort slíkur orðrómur hafi verið á kreiki á þeim tíma?

Í stuttri frásögninni lýsir Kólumbus Íslandi sem eyju jafn stórri og Englandi og gefur upp sínar mælingar á staðarhnitum. Hann segir að Englendingar sigli þangað með vörur sínar, einkum frá Bristól. Hann segir að sjórinn við landið hafi ekki verið frosinn þegar hann var þar en öldur hafi verið ógnarháar. Kólumbus skrifaði þennan stutta texta, ásamt fleiri svipuðum, til að sýna að hann hefði víða farið og hafi verið fullfær um að leiða leiðangurinn yfir Atlantshafið til að leita Indíum.

Eins og margt annað sem haft er eftir Kólumbusi er frásögn hans af heimsókn hans til Íslands frá Írlandi algjörlega út úr kú að mestu leyti. Staðsetning hans á landinu skeikar litlum 400 mílum og stærðin er stórlega ýkt. En að einu leiti hefur hann rétt fyrir sér, enskir kaupmenn frá Bristól sigldu til og frá landinu með varning. Ýmsir telja í dag að Kólumbus hafi komið að Rifi á Snæfellsnesi með Englendingum, en þeir sigldu gjarnan þangað, hæfilega langt frá dönsku valdi sem kærði sig lítið um að þeir væru að stunda hér verslun. Hinn möguleikinn er að hann hafi komið til Vestmannaeyja þar sem enskir kaupmenn versluðu með saltfisk, lýsi og vaðmál. Þaðan getur Kólumbus hafa siglt í kring um landið á minni fiskiát og síðan til baka með kaupfari til Írlands.

Víst er að landi hans John Cobott kom við í Vestmannaeyjum á ferðum sínum um norðurhöf áður en  hann fékk leyfi Bretakonungs til að kanna ókunn fiskimið strendur Nýfundnaland 1495-6. John og Kólumbus áttu reyndar sameiginlegan vin í Englandi og til eru nokkur sendibréf frá honum stíluð á Kólumbus.  Sumir segja að Kólumbus og Cabott hafi verið afar góðir vinir en að Cabott hafi afrekað það fram yfir Kólumbus að stíga fæti á Ameríska meginlandið.

Eins og allir vita gerði  hollenski sjóræninginn Jan Janszoon, einnig þekktur sem Murat Reis, strandhögg í Vestmannaeyjum árið 1627. Strandhöggið er oftast nefnt Tyrkjaránið. Um ránið og afdrif sumra þeirra sem rænt var hafa varðveist nokkrar upplýsingar.

Minna fer fyrir upplýsingum um atburði sem áttu sér stað í Vestmannaeyjum 1614 þegar flokkur sjóræningja dvaldi á Heimaey í 20 daga samfleytt við rán og gripdeildir. Ef til vill  vegna þess að þessir kumpánar drápu enga, þóttu ránin varla heyra til tíðinda, alla vega bliknuðu þau alveg fyrir Tyrkjaráninu 13 árum seinna.

Kláus lögréttumaður Eyjólfsson (1584-1674)  skráði frásagnir af Tyrkjaráninu. Hann var um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum  Þar segir nánar af ýmsum fyrirburðum á himni og á jörð. “Þau teikn sem sáust áður en þessir morðlegu Tyrkir ræntu í Vestmannaeyjum og Austfjörðum voru:
Ein hræðileg ókind með síðum hornum, er gekk úr sjónum lifandi þar upp á eyjarnar, aktandi ei fallstykki, spjót og lensur. Hún sást þar og áður það fyrra Vestmannaeyjarán skeði af Jóhann Gentelmann, hver þar rænti, en enginn var þó drepinn, svo eg viti, en rændir voru þeir eignum sínum
.”

bonnethangingÁ þessum tíma gengu sjóræningjar undir mörgum nöfnum. Eyjamenn muna þennan Jóhann undir nafninu John Gentelman eða “Jón Herramann.”  Réttu nafni ku maðurinn hafa heitið James Gentleman og félagi hans, einnig kunnur stigamaður frá Englandi, Williams Clark.

Í júní 1614 komu þessir ensku sjóræningjar til Heimaeyjar. Áður höfðu þeir rænt tveimur dönskum skipum út fyrir eyjum. Þeir fóru síðan ránshendi um Vestmannaeyjar í tvær vikur . – Seinna sama ár voru þessir ræningja-herramenn handsamaðir, dæmdir og hengdir í Englandi, m.a. fyrir rán sín í Vestmannaeyjum.


Kannski stólpípa sé ekki svo slæm

Tælensk StólpípaÍ níunda mánuði hins kínverska tunglárs er haldin mikil grænmetis-fæðu hátíð á Phuket eyju suður af Tælandi. Hátíðinni er ætlað að vera sá tími þegar fólk hreinsar líkama sinn, eins konar andleg og líkamleg detox eða afeitrunar hátíð.

Fagnaðurinn hefst með sérstakari athöfn sem stýrt er af anda-miðli og fyrir utan að borða bara grænmeti yfir hátíðisdagana gerir fólk sér sitt hvað til skemmtunar.

Hluti af fjörinu, sem stendur í níu daga samfleytt, er mikil skrúðganga um götur bæjarins þar sem þramma karlmenn sem hafa stungið sveðjum, hnífum og sverðum í munn sér, líkt og sést á meðfylgjandi mynd. 

Hátíðin er sögð eiga rætur sínar að rekja til kínversks óperu-hóps sem veiktist af malaríu á meðan hann var í heimsókn á eyjunni.  Hópurinn ákvað að neyta aðeins grænmetis og biðja til guðs hinna níu keisara til að hreinsa huga sinn jafnt sem líkama. 

Þegar að söngfólkið náði sér af veikindunum sem í þá daga voru talin banvæn, var haldin mikil hátíð til að fagna fenginni heilsu og heiðra um leið guðina.


Fornir manngerðir hellar, undraverð listaverk

ellora-temple1-746801Dag einn í apríl mánuði árið 1819 fór Kaptein Smith á tígursdýraveiðar. Hann komst skjótt á slóð dýrs sem hann rakti að þröngri gjá. Inn af gjánni fann hann hellisop sem var vel byrgt af  þykkum gróðrinum.

Hellirinn var manngerður þótt hann hefði greinilega í langan tíma eingöngu hýst leðurblökur og rottur. 

Kapteinn Smith, var breskur hermaður og þjónaði í Midras hernum á Indlandi. Hann litaðist um og varð ljóst að hann hafði rekist á mjög sérstakar minjar. Hann var staddur skammt fyrir utan þorpið Ajinṭhā í Aurangabad héraði Maharashtra-svæðinu. Hann krotaði nafnið sitt með blýanti á hellisvegginn þar sem það er enn sjáanlegt þótt máð sé.

ajanta-caves-05Þegar farið var að kanna hellinn betur kom í ljós að hér var ekki aðeins um einn helli að ræða, heldur heilt þorp sem höggvið var út úr hráu berginu. Segja má að byggingarnar séu ein samfelld höggmynd með forgarði, hofum, turni, samkomusal, og hýbýlum sem eitt sinn hýsti a.m.k. 200 manns.

Hvarvetna getur að líta listilegar skreytingar, höggmyndir og málverk og allir veggfletir eru útflúraðir með tilvitnunum úr hinum fornu Veda-ritum skrifaðar á sanskrít. Talið er að það hafi tekið 7000 hagleiksmenn 150 ár að meitla í burtu 200.000 tonn af hörðu graníti til að ljúka þessu mikla verki.

Ajanta_CavesÞetta mikla listaverk er nefnt AJANTA HELLARNIR.

Gerð hellana hófst fyrir meira en 2000 árum. Haldið er að Búdda munkar hafi leitað skjóls í gjánni á monsún tímabilinu og byrjað að höggva hellana út úr berginu og skreyta þá með trúarlegum táknum til að stytta sér stundir á meðan rigningin varði. Eftir því sem hellarnir stækkuðu hefur viðdvöl þeirra orðið lengri uns þeir urðu að varanlegu heimili þeirra og klaustri.

Munkarnir voru miklir hagleiksmenn. Um það vitna haglega meitlaðar súlur, bekki, helgimyndir, greinar og stokkar. Jafnvel húsgögnin voru höggvin út úr steininum sem í raun má segja að hafi verið ein gríðarlega stór blokk úr hamrinum.

ajanta-cavesSkrautskriftin og máverkin voru máluð með náttúrulitum og það hlýtur að hafa verið vandasamt að framkvæma þar sem lítið sem ekkert sólarljós er að hafa við hellana. Mest af vinnunni hefur því farið fram við ljós frá olíulömpum.

Hvers vegna munkarnir yfirgáfu staðinn á sjöundu öld er enn ráðgáta. Kannski voru þeir að flýja ofsóknirnar á hendur Búddistum sem skóku Indland á þessum tíma. Eða ef til vill varð einangrunin þeim ofviða því erfitt er að lifa á ölmusu úr alfaraleið. Eftir að þeir fóru óx gróðurinn smá saman yfir hellaopin og öll ummerki um þessa merku byggð hurfu sjónum manna í rúm 1500 ár.

Ellora hofiðSumt bendir til að íbúar Ajanta hafi flutt sig um set til  Ellora sem er nær fjölfarinni verslunarleið. Ellora er staður sem að vissu leiti er áþekkur Ajanta því þar er einnig að finna skreytta úthöggna hella. Þar hefst byggð um sama leiti og hún leggst af í Ajanta.  


Móðir jörð grætur

Tár á tímans hvarmÞessi mynd var tekin í Austfonna jöklinum á eynni Nordaustlandet í Noregi í síðast liðnum júlí mánuði af ljósmyndaranum Michael Nolan. Myndinni hefur ekkert verið breytt og höfundurinn að þessari íshöggmynd er sjálf móðir jörð. 

Tár móður jarðar hafa verið vinsælt yrkisefni ljóðskálda, ekki hvað síst upp á síðkastið þegar í ljós hefur komið hversu mjög er gengið nærri náttúrunni af hendi manna. Segja má að þessi mynd sem er af bráðnun í jöklinum, sé afar ljóðræn og jafnframt táknræn. Móðir jörð grætur örlög sín og okkar, harmar röskun mannsins á jafnvægi náttúrunnar.

Illa gengur að stemma stigu við hitnun jarðarinnar og hver sem hlutur mannsins er í því ferli, eru nú líkur á að það sé orðið of seint að hægja á því hvað þá að koma í veg fyrir það. Á næstu áratugum munu afleiðingar þess fyrir menn og lífríki jarðarinnar yfirleitt verða að fullu ljósar.

 


Lífið er yndislegt

The naked IcelandersTveggja mánaða dvöl á Íslandi senn á enda runnin og ég held heim til Bath í dag enda komið hífandi rok og farið að kólna í veðri.

Dvölin hefur verið afar ánægjuleg í flesta staði, enda hafa fólk og veðurguðir gert allt til að gera hana sem ánægjulegasta fyrir mig.

Nú get ég kannski  svarað spurningunni sem dundi á mér allan síðastliðin vetur af einhverju viti og af eigin reynslu, þ.e: hvernig er ástandið á Íslandi?

Ástandið á Íslandi er nokkuð gott miðað við efni og ástæður. Fólk hefur það gott, alla vega flestir. Nokkrir hyggja samt á útrás, en í þetta sinn verður það útrás meðal-Jónsins, ekki auðjöfranna. 

Þeim sem tókst að bjarga einhverjum af miljörðunum sínum úr hruninu eru hvort eð er flestir farnir frá landinu. Þeir sem eftir eru og einhvers meiga sín, leita nú leiða til að næla sér í bónusa og yfirborguð embætti við að stýra þrotabúum og innheimta gamlar skuldir. -

icelandgAlþýða manna tekur þessu með stakri ró. Það er eins og hún viti að það þýðir ekki lengur að mótmæla, þýðir ekki lengur að rífa kjaft, Þýðir ekki að treysta á pólitíkusana,  þýðir ekkert annað en að taka því sem að höndum ber eins og um náttúrhamfarir sé að ræða.-

Það er nefnilega komið í ljós að allt þetta sem fólki misbauð, t.d. sjálftaka lána úr sjóðum almennings sem aldrei verða borguð aftur, verða öll fyrirgefin, því öll voru þau veitt með löglegum hætti. Þess vegna munu engir verða sóttir til saka eða refsað á annan hátt en að þeir verða litnir hornauga á götum fyrst um sinn, ef þeir annað borð láta nokkuð sjá sig á þeim slóðum.

Vöruverð hækkar jafnt og þétt á landinu, kaupmáttur alþýðunnar minkar, vextir eru háir svo þeir sem eiga einhverja peninga í sjóðum græða áfram, ofurveðsett hús og heimili munu fyrr en varir verða seld á nauðungaruppboðum og yfirleitt er allt við það sama og fyrir hrun, þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari og lífið er yndislegt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband