Færsluflokkur: Lífstíll
5.7.2008 | 12:44
Fimm merkustu konur allra tíma
Umræðan um jafnrétti heldur áfram sem betur fer því margir segjast sjá þess merki að enn hafi ekki náðst fullt jafnrétti kynja á Íslandi þrátt fyrir löggjöf og reglugerðir sem áttu að tryggja það. Hvað veldur? Er t.d. möguleiki að konum skorti fyrirmyndir?
Þegar spurt er; hverja þú mundir telja fimm merkustu karlmenn heims, fyrr og síðar, skortir ekki svörin hvorki hjá körlum eða konum.
Kristur og Napóleon, Gandhi og Alexander Mikli, Sókrates og Shakespeare eru meðal þeirra sem títt eru nefndir. Af nægu er að taka, stórmennin eru mörg og skoðanir manna fjölbreyttar.
En ef fólk er beðið að nefna fimm merkustu konur allra tíma, vefst mörgum tunga um tönn. Þegar búið er að nefna mömmu og eiginkonuna koma yfirleitt þekktar leikkonur eða stjórnmálakonur síðustu aldar helst upp í hugann.
Til að sanna eða afsanna þessa kenningu langar mig að efna til smá könnunar meðal lesenda þessa pistils. Ég skora á ykkur að nefna í réttri röð þær sem ykkur finnst vera fimm merkustu konur allra tíma. Ekki er nauðsynlegt að rökstyðja svarið sérstaklega en ef konurnar eru ekki kunnar er vel við hæfi að birta stutta skýringu. Fróðlegt verður einnig að sjá, ef þátttakan verður góð, muninn á þeim sem karlar velja og þeim sem konur velja. Ef ástæða er til mun ég vinna úr svörunum og birta þær niðurstöður fljótlega.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
30.6.2008 | 20:30
Súfismi og dansandi Dervisar
Einu sinni var kona sem heyrði um hinn himneska ávöxt. Hún þráði hann.
Hún spurði dervish einn, sem við getum kallað Sabar.
Hvernig get ég fundið þennan ávöxt svo ég öðlist þekkingu þegar í stað?
Best væri fyrir þig að leggja stund á nám hjá mér, svaraði hann. En ef þú vilt það ekki verður þú að ferðast um heiminn og una þér hvergi hvíldar uns þú finnur það sem þú þráir.
Hún yfirgaf Sabar, og leitaði að öðrum, Arif hinum vitra, síðan að þulnum Hakim og þá að vísindamanninum Halím og marga fleiri leitaði hún upp.
Þrjátíu ár liðu án þess að hún fyndi nokkuð. Loks kom hún að garði. Og í garðinum stóð tré himnaríkis og í greinum þess hékk hinn himneski ávöxtur.
Og standandi upp við tréð stóð dervisinn Sabar, sá er hún hafði fyrst leitað til.
Hversvegna sagðir þú mér þegar við hittumst fyrst að þú værir sá sem gættir hins himneska ávaxtar spurði hún.
Vegna þess að þú hefðir ekki trúað mér svaraði Sabar, og þar fyrir utan ber tréð ávexti á aðeins þrjátíu ára og þrjátíu daga fresti.
Þetta er saga sem er rakin til svo kallaðra Súfía. Súfíar eru dulspekingar sem tilheyra Íslam og dulspekin sjálf er kölluð súfismi. Dulspekin byggist á því að þótt Íslam kenni að allir séu á leið til að nálgast Guðs og muni vera með Honum á "drottins degi", trúa Súfíar að hægt sé að nálgast Hann á meðan við erum enn á lífi. Markmið þeirra er að geta sleppt öllum hugmyndum um aðskilnað, þar á meðal hugmyndinni um eigið sjálf, til þess að geta upplifað sameiningu við Guð.
Súfíum er kennt í litlum hópum sem Súfí meistari hefur tekið að sér. Þeir nota mikið dæmisögur og táknfræði í lærdómi sínum og halda því fram að þýðing alls sé aðeins skilin í gegnum sjálfskönnun og sjálfsþekkingu.
Þótt finna megi mismunandi áherslur í heimspeki þeirra eftir reglum, er fjallar allur Súfismi um hina persónulegu upplifanir og reynslu og sem slíkur er sambærilegur við aðrar tegundir dulhyggju.
Flestir kannast við hinna dansandi dervisa. Dervisi er annað nafn fyrir Súfía. Þessi siður að dansa í hringi uns þú fellur í trans var þróaður af Súfíum í Persíu. Í raun er þetta einskonar íhugunar aferð þar sem þeir reyna að yfirstíga sjálfið og mannlegar kenndir til að nálgast hið guðlega. Þeir segjast líkja eftir spuna himintunglanna og jafnvel atómanna með hringdansi sínum og þannig túlka bæði micro og macrokosmos í senn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.6.2008 | 00:03
Tiffany, litla föla andlitið á bak við gardínudruslurnar.
Af og til heyrir maður í fréttum um svo hræðilega hluti að það fer um mann ískaldur hrollur. Slíkar voru fréttirnar af Austurríkismanninum Fritz sem hélt dóttur sinni fanginni í mörg ár og gat með henni börn. Í kvöld voru rifjaðir upp í fréttum hræðilegir atburðir sem áttu sér stað í Scarborough Arms kránni, í Upperthorpe, Sheffield í September á síðast liðnu ári. Tilefni fréttaupprifjunarinnar var að dómur er genginn í málinu.
Sabrina Hirst var 22 ára móðir þriggja ára stúlku sem hét Tiffany. Sabrina rak krá með fósturföður Tiffany litlu, Róbert Hirst að nafni.
Í skítugu rottugreni fyrir ofan krána geymdu þau Tiffany litlu. Engar myndir eru til að Tiffany og þeir fáu sem vissu af tilvist hennar lýstu henni sem fölu andliti á baki við rifnar gardínudruslur í glugga einum fyrir ofan krána. Þessi þrjú ár sem hún lifði var þetta herbergi heimur hennar. Þegar að lík hennar fannst fyrir tilviljun nokkru eftir dauða hennar vó líkami hennar minna en venjulegs eins árs barns. Hún hafði dáið úr sulti og vannæringu og lá samanhnipruð í horni herbergis sem var lýst af lögreglunni sem "greni fullt af mannasaur, pöddum og rottum." Beint fyrir neðan herbergið á kránni skemmti fólk sér á hverju kvöldi við neyslu á mat og vínföngum.
Í réttinum kom fram að sama dag og Tiffany dó hafði móðir hennar átt langt símtal við vinkonu sína um erfiðleika við að koma mat ofaní hundinn sem hún átti.
Dómarinn sagði í dómsorði að hann hefði aldrei orðið vitni að slíku hirðuleysi foreldris gagnvart barni sínu og þetta væri versta manndráps mál sem hann hafi meðhöndlað.
Sabrína (sjá mynd) var dæmd í 12 ára fangelsi eftir að hafa viðurkennt manndráp. Róbert Hirst (sjá mynd) hinn 44 ára fósturfaðir Tiffany fékk 5 ára fangelsisdóm fyrir níðingshátt sinn.
Hér er að finna nákvæmari frétt af þessu máli. Einnig er fjöldi annarra greina vítt og breitt um netið um þetta mál.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.6.2008 | 14:52
Fjöll
Hér um slóðir (suður England) eru fá fjöll að finna. Landslagið er auðvelt fyrir augað, líðandi hæðir og hólar, ásar og kambar en engin alvöru fjöll. Alla vega ekki eins og augun rembast við að meðtaka hvar sem þú ert staddur á Íslandi. Hvergi þessir stóru dalir á hvolfi eins og skáldið orðaði það. Ég held að allir íslendingar elski fjöll. Maður tarf ekki að vera með neina króníska fjalladellu til þess, okkur þykir einfaldlega vænt um fjöllin.
Kannski er það vegna þess að við horfum á þau verða til eins og t.d. Heklu sem er enn að stækka og hækka. Eða kannski er það vegna þess að þú eru svo táknræn fyrir líf okkar, þetta söðuga ströggl upp á móti við að komast af, eða klífa tindinn eins nú þykir best. Öll okkar bestu skáld yrkja um fjöll og allir listmálarar mála þau. Flest gallerí á Íslandi eru full af mismunandi góðum tilraunum til að fanga þau á striga. Sumir mála sama fjallið aftur og aftur eins og Stórval gerði.
það er líka eitthvað svo himneskt við fjöllin.
Þeir sem dveljast á fjöllum langdvölum fá á augun fjarrænt augnaráð eins og þeir séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Það er ekki að furða að þjóðirnar sem fyrstar þróuðu með sér hugmyndina af guðum töldu heimili þeirra vera á fjallstindum. Ólympus er gott dæmi um það. Seinna þegar mennirnir fóru að trúa á einn Guð, birtist hann þeim upp á fjalli eins og gerðist þegar Móses fékk boðorðin frá honum forðum.
Ef til vill eru hugmyndir okkar um andlegt upp og niður, himnaríki og helvíti grundvallaðar á upplifun okkar af fjöllum. Þar erum við eins frjáls og hægt er að vera, hugurinn eins skýr og mögulegt er og við verðum eins vídsýn og við ættum að vera á jafnsléttu.
Alla vega sakna ég fjalla.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.6.2008 | 02:32
Frí-hlaup
Á uppvaxtarárunum í Keflavík var það vinsæl dægradvöl mín og félaga minna að klífa stillansa og lesa sig upp steypuvíra utan á hálfbyggðum byggingum sem meira en nóg var af á þeim tíma. Þá var stokkið ofan af húsþökum, riðlast á girðingum og sveiflað sér á snúrustaurum og handriðum. Þá sóttumst við eftir að komast í veiðafærageymslur, verksmiðjuloft og jafnvel báta sem stóðu á búkkum niður í gamla slippnum. Einhvernvegin lagðist þessi árátta samt af að mestu um leið og við lukum barnaskólanum.
Nú sé ég að hálf fullorðnir menn víðsvegar um heiminn hafa tekið þessa bæja og borga iðju okkar smádrengjanna og gert að alþjóðlegri íþróttagrein. Hún kallast á alþjóðamálinu Free running. Haldin eru mót í helstu heimsborgunum og keppt í klifri og glæfra stökkum um metorð og titla. Íþróttin varð fræg þegar að nokkrir iðkendur hennar voru notaðir í James Bond mynd fyrir nokkrum árum en síðan hefur hópur þeirra vaxið jafnt og þétt. Ég veit ekki til að frí-hlaup sé stundað á Íslandi en ef svo er væri gaman að heyra af því.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.6.2008 | 18:12
Um Drúída Í tilefni af sumarsólstöðum
Í dag eru sumarsólstöður og lengstur dagur á norðurhvelinu. Það er haldið upp á þennan dag af hópi fólks sem kennir sig við trú Drúída. Sjóðríkur seiðkarl er okkur flestum kunnur úr teiknimyndasögunum um Ástrík. Persóna Sjóðríks minnir mjög á hugmyndir fólks um svokallaða Drúída sem voru sambland af seiðkörlum, prestum og samfélagsleiðtogum á keltneska menningarsvæðinu í Evrópu fyrir 2000 árum. Einnig hefur verið bent á að hlutverk Drúíta hafi verið ekki ólíkt því sem Goðar höfðu á Íslandi fyrir kristnitöku. Heimildir um átrúnað Drúída eru ekki margar en sú elsta og helsta kemur frá Júlíusi Cesari sjálfum. Hann skrifaði um fólkið og hætti þeirra sem hann mætti á landvinningaferðum sínum og meðal þeirra voru Drúídar (Druid). Cesar skrifaði m.a;
Öll þjóð Gaulverja iðkar af ástundun helgiaðhald og þess vegna stunda þeir sem sýktir eru af alvarlegri sjúkdómum og þeir sem eiga á hættu að falla í orrustum, mannfórnir eða heita því að færa slíkar fórnir og nota Drúída til að hafa umsjón með athöfninni. Þeir trúa því að miklileiki eilífra guða verði ekki að fullu hylltur nema þeim sé fórnað mannslífi og í opinberu lífi jafnt sem einkalífi sínu framfylgja þeir fórnarlögum að einhverju tagi. Aðrir nota risastór líkneski og eru limir þess ofnir úr tággreinum og þeir fylltir af lifandi fólki sem síðan er borinn að eldur í hverjum mennirnir farast. Þeir trúa að að aftökur þeirra sem gerst hafa sekir um þjófnað og rán eða aðra glæpi, sé þóknanleg hinum ódauðlegu guðum en þegar þeim er ekki til að dreifa grípa þeir til fórna saklauss fólks.
Julius Cesar, "De Bello Gallico", VI, 13
Af skrifum Cesars má ráða að tvær stéttir ráðamanna hafi tíðkast meðal Gaulverja. Aðra kallaði hann equites eða aðalsmenn og hina disciplina eða prestastétt. Prestastéttin varðveitti hin fornu óskrifuðu lög og dæmdu eftir þeim þegar á þurfti að halda. Versta hegningin var talin ef maður var gerður útlægur og burtrækur. Drúídadómurinn gekk ekki í erfðir en þeir þurftu ekki að gegna herþjónustu og voru undanþegnir sköttum. Cesar segir að það hafi tekið 20 ár að þjálfa og kenna nýjum Drúídum.
Cesar segir að megin kenning þeirra hafi verð að "sálir deyja ekki heldur fari eftir dauðan í annan líkama"
Á átjándu öld spratt upp mikill áhugi á Drúídum og trúarbrögðum þeirra og urðu margir til að skrifa um þá. Mest af því sem nútíma Drúídar styðjast við í átrúnaði sínum er hreinn skáldskapur sé miðað við það litla sem vitað er um forn-Drúída.
Mistilsteins skurður, eykarlundir, Stonhenge og jurtaseiðir eru meðal þeirra launhelga sem fólk setur í samband við nútíma Drúída en engar heimildir eru fyrir að þeir hafi nokkuð haft með þá að gera í raun og veru.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.6.2008 | 14:36
17. Júní, ekki dagur ofur-vantrúaðra?
17. Júní, fána og blöðrudagur, þjóðsöngurinn og fjallkonan, andlitsmálning og stúdentahúfur, lúðrasveitir, skátar og blómsveigar. Dagurinn sem Jón Sig. og Íslenska lýðveldið eiga afmæli. Bærilegur dagur fyrir flesta skyldi maður halda. En hvað um þá sem við getum kallað ofur-vantrúaða. Þeir hljóta að vera pirraðir á að sitja undir blaktandi fánum með krosstákninu, tákni sem þeir líta helst á sem rómverskt pyntingartæki. Auk þess eru litir fánans, litir elds, íss, hafs og himins líka aðallitir kristinnar trúar. Hinn hvíti litur himnaríkis, sá rauði fyrir ást og fórn og sá blái litur hreinleika.
Það er ekki nóg með að ofur-vantrúaðir verði að láta sér lynda fánana, heldur verða þeir að taka sér í munn orð sem eru þeim tóm vitleysa, þ.e. ef og þegar þeir syngja Þjóðsönginn. Þá tilbiðja þeir Guð vors lands og hafa yfir að eigin mati allskyns bábiljur um heilaga herskara og þess háttar í ofaná lag.
Fjallkonan sem gæti verið eina heimsbarns-tákn þjóðarinnar og hafið yfir trúarkenningar, lumar samt í frumteikningu á heiðnum táknum og jafnvel kristnum. (Sjá hrafn á öxl og krossa á skjölum) Þetta Þjóðfélag er líkast til svo mengað trú og trúartáknum að það getur verið ómögulegt fyrir ofur-vantrúaða að aka þátt í hátíðarhöldum eins og 17. Júní án þess að vera málstaðnum ótrúir.
Kannski verður þetta til að ofur-vantrúaðir flýja í auknum mæli inn í svarthöfða-búningana sína við þessi tækifæri. Jedakirkjan boðar nefnilega ákaflega sambærilegan boðskap og ég hef rekið mig á í máli ofur-vantrúaða. Þeir álíta m.a. að það sé manninum meðfætt að geta greint gott frá illu. Það eina sem þurfi til að vera góður, sé að hlusta á samviskuna. Eins og ofur-vantrúaðir láta þeir sér í léttu rúmi liggja hvernig samviskan mótast. Kristin eða önnur trúarleg gildi þurfa þar ekkert að koma að.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Hvað hafa prestar með að "staðfesta" samvistir fólks að gera? Ég hélt að prestar gæfu fólk saman í hjónaband?
Öllum er ljóst að það er ekki réttlætanlegt að skikka presta þjóðkirkjunnar með lögum til þess að framkvæma vígslur sem þeir telja að brjóti í bága við trú sína. En hversvegna er verið að blanda þeim inn í eitthvað secular skráningar-apparat?
Eða er sú staðreynd að prestar þiggja laun sín af ríkinu, þyngri á metunum en trúarleg sannfæring þeirra sjálfra? Er verið að reyna að sætta fólk með því að skipta út orðunum að "gefa saman í hjónaband" fyrr "að staðfesta sambúð"?
Einu gildu rök þeirra sem vilja skikka presta með lögum til að gefa saman samkynhneigð pör í hjónaband eins og t.d. Siðmennt vill, eru að þeir séu hluti af þjónustugeira samfélagsins og sem ríkisstarfsfólki geti þeir ekki neitað fólki um þjónustu á grundvelli sinna persónulegu skoðana. -
Ef þessi rök halda er sannarlega kominn tími til að kirkja og ríki skilji að skiptum eða að kirkjan leggi sjálfa sig niður sem trúarlega stofnun.
Samkvæmt slíkri túlkun er Kirkjan ekkert annað en þjónustustofnun og um hana gilda lög og reglugerðir Alþingis. Hvað stendur í Biblíunni er aukaatriði.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.6.2008 | 23:04
Japönsk Jaðarmenning, Harajuku, Ganguro og Gothic Lólíta
Japan er mörgum dularfullt land jafnvel óskiljanlegt þótt þeir heimsæki landið og dvelji þar um tíma. Japönsk menning er afar gömul og rótgróin en á henni byggja fjölmörg ný menningarleg fyrirbæri sem stundum er talað um sem jaðar-menningu.
Eitt að þeim fyrirbærum er Harajuku. Harajuku er samheiti fyrir unglinga menningu/tísku og er kennt við ákveðið svæði í Tókío. Harajuku skiptist í nokkrar undirdeildir en hér er um að ræða stúlkur aðallega (90%) á aldrinum 14-25 sem klæða sig á ákveðinn hátt og tileinka sér ákveðið hlutverk sem fylgir búningnum.
Harajuku þýðir bókstaflega "sá sem dvelur á grasinu" sem er túlkað á mörgum öðrum málum sem flækingstíska. Fyrir utan að klæða sig á vissan hátt gengur lífið út á að hittast, spjalla saman og láta taka af sér myndir. Þótt Goth ímyndin sé vestræn hafa Goth Lólíturnar takmarkaðan áhuga á vestrænni Goth-tónlist. Margar tilheyra vaxandi hópi ungra kvenna sem delur innanhúss í margar vikur í senn og tala ekki við nokkurn mann en koma síðan út til að viðra sig í búningnum sínum. Út eru gefin sérstök tískublöð fyrir stúlkurnar og til er meira að segja svo kölluð Goth Lolita Biblía.
Undirgreinar Harajuko eru fjölmargar og hafa sumar hverjar aðrar undirgreinar eins og t.d. Ganguro(stelpurnar) útlitið. Frægasta og vinsælasta útlitið um þessar mundir og allt frá 1999 þegar það kom fyrst fram er Lolítu útlitið. Til eru margar útfærslur á því, Gothic Lólíta er þar af vinsælust. Á netinu er að finna fjölmargar skemmtilegar greinar um þessa litríku jaðarmenningu Japana en af því ég hef ekki séð mikið um fyrirbærið á Íslensku datt mér í hug að vekja athygli á því hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.6.2008 | 10:10
Góðar fréttir fyrir þá sem ekki vilja drekka alkahól....
Alltaf birtast af og til fréttir í fjölmiðlum af góðum eiginleikum víns, sérstaklega þess rauða og þeir sem ekki vilja drekka alkahól hafa þurft að neita sér um alla þá hollustu.
Ekki lengur.
Nýjustu rannsóknir benda til að rautt vín komi í veg fyrir magasár og hjartaáföll, hreinsi æðar, haldi krabbameini í skefjum, hjálpi lungunum og geti virkað eins og sýklalyf gegn bakteríum. Rannsóknirnar sýna einnig að hægt er að komma öllum þessum jákvæðu áhrifum fyrir í einni pillu.
Vísindamenn við Pavese Pharma Biochemical Institute í Pavia á Ítalíu hafa tekið vökvann sem verður eftir þegar alkahólið hefur verið eimað úr rauðu víni og blandað hann með sykri, amínó-sýrum og rotvarnarefnum. Þessi blanda er síuð, þurrfryst og þjöppuð í töflur.
"Hver tafla hefur að geyma öll góðu áhrifin af einu glasi af víni" segja uppfinningamennirnir í
við New Scientist blaðið nýlega. Töflurnar verða settar á markað á næsta ári og seldar í almennum verslunum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)