Færsluflokkur: Dægurmál
12.3.2009 | 01:20
Að deyja í beinni
Jade Goody heitir ung kona sem eflaust margir hafa heyrt um. Hróður hennar berst nú óðum um hamsbyggðina þrátt fyrir að hún hafi ekkert sér til frægðar unnið en að taka þátt í nokkrum raunveruleika-sjónvarpsþáttum í Bretlandi.
Raunveruleikaþættir eins og Big-Brother þar sem fylgst er með sérvöldum einstaklingum í einn mánuð eða svo, þar sem þeir eru lokaði saman inni einbýlishúsi, er auðvitað eins lágkúrulegt og sjónvarp getur orðið en jafnframt eitt vinsælasta sjónvarpsefni okkar tíma.
Jade hefur tekist að gera sér mat úr því að vera fræg fyrir það að vera fræg og haft af því síðustu ár dálaglega þénustu.
Fyrir skömmu kom í ljós að hún er haldin banvænu krabbameini sem leiða mun hana til dauða á næstu vikum. Jade sem á tvo litla drengi, ákvað að gera dauðastríð sitt að fjölmiðlamat og þiggja fyrir það greiðslur sem hún segist ætla að erfa drengina sína að.
Hún gekk á dögunum að eiga unnusta sinn, dæmdan brotamann sem yfirvöld gáfu sérstaka undanþágu frá skilorði sínu svo hann gæti verið með Jade á brúðkaupsnóttina.
Vinsældir Jade eru svo miklar að jafnvel Gordon Brown sá ástæðu til að fara um hana lofsamlegum orðum í einni af ræðu sinni nýlega.
Bæði brúðkaupinu og veikindasögu Jade hefur verið gerð ærin skil í tveimur sérútgáfum á blaðinu sem hæst bauð í þetta umfjöllunarefni, og önnur blöð, útvarps og sjónvarpsstöðvar í Brtelandi lepja allt upp um Jade sem umfram fellur.
Fyrir nokkru dögum var kona ein handtekin í námunda við sjúkrahúsið sem Jade sagði að hefði staðið yfir sér þegar hún vaknaði og þulið bænir. Í fórum konunnar fannst hamar. Þetta þótti ágæt tilbreyting fyrir hinn mikla fjölda blaða og sjónvarpsmanna sem fylgjast grannt með öllu sem Jade viðkemur.
Jade sem verið hefur í geislameðferð á sjúkrahúsi ákvað í dgær að yfirgefa sjúkrahúsið og eyða síðustu dögunum heima hjá sér.
Hún er í fréttum á hverjum degi og fólk bíður spennt eftir því að það dragi til tíðinda í dauðastríði hennar.
Fólk ræðir sín á milli hvort brúðskaupsnóttina hafi verið sársaukafull fyrir hana af því að krabbameinið er í legi hennar, það gerir athugasemdir við hversu vel hún líti út svona grönn eftir að hafa misst talsvert af þunga sínum í geislameðferðinni og hversu ljót hún sé svona sköllótt eftir að hafa misst allt hár sitt af sömu ástæðu.
Fyrir utan fréttatímana eru spjallþættirnir og morgunþættirnir uppfullir af þessum spekúleringum um Jade og væntanlegan dauða hennar. Þá er einnig mikið rætt hvort sýnt verði frá dauðastundinni sjálfri í beinni útsendingu eða hún bara sýnd eftirá.
Og svo spyr fólk hvað sé að í þessum heimi.
11.3.2009 | 22:03
Fljúgandi mörgæsir, spennandi kostur
Stundum heyrir maður um hluti sem eru einfaldlega of ótrúlegir til að þeir geti verið sannir. En svo kemur í ljós að sannleikurinn er miklu ótrúlegri en skáldskapur getur nokkru sinni orðið. Íslendingar hafa sannreynt þetta aftur og aftur á síðast liðnum mánuðum.
Grænmetissalar og búðarstrákar sem afgreiddu mig um kartöflupoka á góðum degi fyrir nokkrum árum, urðu einhvern veginn að ofur-krimmum eins og þeir gerast verstir í ofurhetju-teiknimynda-sögunum, sem við vitum öll að eru ótrúlegastar af öllum ótrúlegum skáldsögum. Þeir sátu með puttann á hnappinum, tilbúnir til að brjóta fjöregg þjóðarinnar ef þeim yrði ógnað. Og svo, alveg eins og í teiknimyndablöðunum gerðist eitthvað og allt fór í há loft en þeir voru snöggir til og ýttu á hnappinn og tókst að flýja með allt sitt og komu sér fyrir í fylgsnum sínum út á eyðieyjum. Munurinn er sá að Þjóðin á enga súperhetju (Captain Ísland) til að leita réttar síns á þeim. Þess vegna brosa þeir í kampinn í dag og láta taka við sig vitöl þar sem þeir segja drýgindalega hafa tapað miklu sjálfir og e.t.v. hefði það verið farsælast hefðu þeir haldið áfram að selja bara kartöflur út í búð.
Upphæðirnar sem þessir drengir náðu að svindla út úr Íslendingum eru svo háar að það þarf sérstök útskýringa-myndbönd til að fólk fatti hversu miklir peningar þetta voru. - En satt að segja finnst mér upphæðirnar hættar að skipta máli. Þær hafa enga merkingu lengur fyrir mig og fá mig bara til að gapa eins og bjáni eina ferðina enn.
Þess vegna er líklega best að fá bara einhverjar ofurkonur með sæt nöfn og mikla reynslu utanúr heimi til að eltast við þessa bófa. Þá lendir heldur ekki einhver í því að þurfa handtaka og kæra besta vin sinn eða jafnvel bróður sinn.
En það sem kannski er verra er að fullt af frómu fólki reynir að sannfæra mig um að nú sé allt á leiðinni til betri vegar. Nýtt fólk sé að komast í valdastöðurnar, ný framboð séu í uppsiglingu og ný andlit séu að taka við af þeim gömlu í eldri framboðunum. Allt á að breytast nema, kerfið. Við því má ekki raska og mér líður eins og ég sé dottinn inn í kvikmyndina The Wall.
Mér finnst yfirstandandi breytingar álíka trúverðugar og meðfylgjandi myndband. Myndbandið hefur það fram yfir framboðs-framagosa-hjalið að það er skemmtilegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2009 | 14:42
Ég og ánamaðkurinn
Við flatmöguðum þarna í grasinu og nutum sólarinnar. Áin rann lygn við fætur mínar og liðaðist áfram eftir landslaginu uns hún hvarf á bak við næstu hæð.
Við ræddum um heima og geima og hann var afar viðkunnanlegur, virtist kunna á ýmsu skil sem ég hafði ekki reiknað með að venjulegir ánamaðkar væru að ómaka sig út af.
Af og til skreið hann ofaní moldina til að halda sér rökum og ég bar á mig sólolíu. Þegar hann kom upp í eitt skiptið sagði hann;
Ég sé að það er nú ekki mikill munur á okkur.
Nú, hvað meinarðu, svaraði ég.
Þú mátt ekkert við því að þorna frekar en ég.Og ef eitthvað, þá ertu mun þurftafrekari á umhverfið en ég. Þú þarft eflaust að kreista safann úr ótöldum tegundum jurta og blanda hann einhverri dýrafitu, bara til að geta smurt þessu á þig.
Nú ja, já, en það er nú mikill munur á okkur samt.
Það finnst mér ekki. Í raun ertu ánamaðkur sem ert búinn að safna utan á þig allskyns aukalíffærum sem þú hafðir upphaflega enga þörf fyrir.
Hu, ormur, ég er ekki ormur, ég er maður.
Jú, mannormur og ég get sannað það. Nokkrum dögum eftir að þú varst getinn, hvað varstu þá? Ég skal segja þér það. Eins sentímetra löng túpa með gat í sitt hvorum enda. Annað varð að munninum á þér og hitt að rassgatinu. Hvað er það annað en ormur?
Ja, þú ert nú bara að lýsa upphafinu á níu mámuða þroskaferli.
Upphafinu já já ,en upphafinu á hverju. Það sem gerist næst á þessu níu mánuða þróunarferli er að fyrirtaks hönnun sem hefur staðið af sér breytingar í milljónir ára, er eyðilögð. Þú ormurinn, byrjar að hlaða utan á þig vefjum og líffærum sem gera ekkert fyrir þig?
Ja, þau gera mig hæfari til að komast af í lífinu.
Það get ég ekki séð. Þú ert enn maðkur í mörgu tilliti. Eiginlega maðkur sem hefur hneppt sjálfan sig í ánauð. Þetta sem þú kallar að vera "maður" er bara millistig. Þegar því líkur, eftir allt bramboltið, muntu nefnilega enda aftur eins og þú byrjaðir, þú verður sem sagt að ormafæðu og þar með aftur að ormi. Nokkuð löng leið, fyrir ekki neitt, finnst þér ekki?
Ég var búin að fá nóg af þessu snakki maðksins í bili. Ég stóð upp og teygði mig í veiðistöngina, tróð ánamaðkinum á öngulinn og hélt áfram að renna fyrir boltann sem ég vissi að lá í felum einhversstaðar undir bakkanaum.
Dægurmál | Breytt 1.3.2009 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.2.2009 | 09:36
Bardaginn sem öllu breytti
Það var enginn smáræðis floti sem dró upp að ströndum Englands þann 28. september árið 1066. Mörg hundruð skip voru í flotanum og um borð voru ásamt átta þúsund hermönnum, sjómenn, eldabuskur og hestar og smiðir.
Fyrstur til að stökkva á land var Vilhjálmur hertogi af Normandí. Hann vildi sína mönnum sínum að hann væri maður sem hægt var að treysta. Um leið og hann kom upp í fjöruna datt hann kylliflatur í mölina. Það fór kurr um mannskapinn.
Þetta gat ekki boðað gott. Orðatiltækið "fall er fararheill" var eflaust í hugum þeirra eins og okkar, slöpp tilraun til að breiða yfir klaufaskap og oftast sagt til að segja bara eitthvað undir afar vandræðalegum kringumstæðum. -
Vilhjálmur spratt á fætur og snéri sér við og rétti báðar hendur í átt að mönnum sínum. "Við dýrð Guðs" hrópaði hann. "Ég hef enska jörð tveimur höndum tekið". Þetta nægði til þess að mennirnir róuðust og sumir fóru að brosa aftur í kampinn. Vilhjálmur var eins og aðrir snjallir lýðskrumarar snillingur í að snúa því sem miður fer, sér í vil.
Vilhjálmi tókst þennan dag, það sem engum hefur tekist síðan, að landa með glans innrásarher á enska grundu. Riddarar og bogaliðar þustu í land og á næstu dögum leiddi Vilhjálmur þá frá Pevensey flóa til Hastingshæða þar sem hann setti upp búðir.
Vilhjálmur var svo forsjáll að taka með sér forsmíðaðan trékastala sem hægt var að slá upp á nóinu. Grindurnar voru negldar saman með stautum sem pakkað hafði verið í tunnur og á skömmum tíma var Vilhjálmur búinn að koma sér fyrir í ágætis bækistöðvum.
Til að byrja með fóru Vilhjálmur og her hans sínu fram algjörlega óáreittir. Haraldur konungur Englands hafði öðrum hnöppum að hneppa við að hrekja nokkra Norðmenn aftur í sjóinn sem gert höfðu strandhögg norður í landi.
Þegar að Haraldur loks heyrði að Vilhjálmur væri mættur með lið sitt til að hertaka landið, dreif hann sig suður til að mæta honum og kom á Hastingsslóðir þann 13. október. Hermenn hans var þreyttur eftir langa göngu í einum spreng suður á bóginn, húskarlarnir moldugir og pirraðir og þungvopnaðir fótgönguliðarnir frekar fúlir líka. Haraldur skipaði þeim að taka sér stöðu á hæð einni réttum ellefu km. norðaustur af bækistöðvum Vilhjálms og verjast þaðan. Öllum varaliðum og heimavarnaliði skipaði hann að baki þeim.
Og þá var sviðið tilbúið fyrir frægustu orrustu sem háð hefur verið á Englandi, kennd við Hastings.
Normannar áttu erfðan dag fyrir höndum. Í morgunskímunni 14. október, stigu fylkingar þeirra út úr morgunlæðunni fyrir neðan hæðina og sáu fyrir ofan sig þéttan vegg húskarla Haraldar tvíhenda sínar bitru axir. Úff. Klukkan hálftíu dró loks til tíðinda. Lúðraþeytarar Vilhjálms blésu til orrustu og bogaskyttur hans stigu fram fyrir skjöldu. Um leið og örvadrífurnar skullu hver á eftir annarri á ensku fótgönguliðunum og húskörlunum efst á hæðinni gerðu riddaraliðar Vilhjálms árás og knúðu hesta sína upp hæðina.
Ensku húskarlarnir reiddu upp axir sínar og hjuggu niður bæði hesta og menn um leið og þeir skullu á skjöldum framliðanna.
Á vinstri væng hers Vilhjálms börðust riddarar frá Bretaníu. Árás þeirra var hrundið og þeir komu aftur veltandi niður brekkuna, hestar og menn í einni kös. Á eftir þeim fylgdu grenjandi Englendingar sem ólmir vildu reka flóttann. Þegar að Vilhjálmur sá í hvað stefndi, reif hann af sér hjálminn og öskaraði; "Horfið vel á mig. Hér er ég enn og ég mun enn með náð Guðs verða sigursæll".
Þetta virtist virka á strákana því þeir snéru við á flóttanum, náðu að skipuleggja sig og hófu að brytja niður Englendingana sem komið höfðu á eftir þeim.
Við þetta fékk Vilhjálmur hugmynd. Hann kom skilaboðum til sinna manna um að sviðsetja í skyndi nokkra slíka "flótta". Bragðið heppnaðist og Normönnum tókst að ginna talsverðan fjölda af mönnum Haraldar niður af hæðinni þar sem lífið var murkað úr þeim. En stærsti hluti hers Haraldar stóð samt stöðugur og húskarlar hans slógu skjaldborg um konung sinn sem riddarar Vilhjálms náðu ekki að brjóta á bak aftur.
Orrustan hélt áfram langt fram eftri degi og það var byrjað að skyggja þegar að einum bogamanna Vilhjálms tókst að skjóta ör í auga Haraldar.
Við að sjá konung sinn særast misstu Englendingar móðinn og hleyptu í gegnum raðir sínar hópi af riddurum Vilhjálms sem síðan náði fljótlega yfirráðum á hæðinni.
Þeir sóttu stíft að Haraldi sem var varinn hetjulega af húskörlum sínum og sagt er að hann hafi náð að draga örina úr hausnum á sér og berjast áfram. Loks náðu riddarar Vilhjálms að hakka sig í gegnum húskarlana, komast að konunginum og höggva hann niður. Megnið af enska hernum var þá flúinn.
Vilhjálmur fyrirskipaði seinna að klaustur skyldi byggt á hæðinni þar sem Haraldur féll og það helgað heilögum Martin og kallað Orrustu klaustur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2009 | 13:33
Sjaldgæfasti sjúkdómur í heimi - Ekki gefast upp
Hann heitir Ruben og er átta ára og á heima í Gomersal, West Yorkshire á Englandi. Sjúkdómurinn sem hann er haldinn er svo sjaldgæfur að það er ekki einu sinni búið að gefa honum nafn. Hann hefur þjáðst af sjúkdóminum frá fæðingu og læknar fundu enga lækningu. Það næsta sem þeir komust í greiningu sjúkdómsins var að segja hann líkjast Diamond Blackfan Anaemia (DBA)
Hann þjáðist af stöðugum svima og ónæmiskerfið var svo veikt að hann var með astma og exem á háu stigi. Hann þurfti stöðugar blóðgjafir vegna þess hve rauðu blóðkornin fjölguðu sér lítið. Hjartsláttur hans var stundum þrefalt hraðari en eðlilegt getur talist og hann var mikið á eftir jafnöldrum sínum í þroska.
Foreldrum hans Peter Mead og Michelle Grainger-Mead var sagt að líklega þyrfti hann að undirgangast beinmergskiptingu sem gæti verið honum lífshættuleg vegna þess hve veikbyggður hann var.
En þau gáfust ekki upp við að leita að lækningu fyrir son sinn. Þau rannsökuðu allar heimildir sem var að finna í þrjú ár og reyndu fjölda óhefðbundna læknisaðferða. Þau þræddu netið við að lesa læknisfræðigreinar og prófuðu jafnframt allt frá nálarstungu til sérstakra vatnsbaða.
Loks duttu þau niður á lausn sem virðist virka. Læknarnir sem önnuðust Ruben hafa lýst undrun sinni yfir því að drengur sem þurfti á blóðgjöf að halda einu sinni í mánuði hefur nú verið án þeirra í þrjú ár. Einkenni sjúkdómsins hafa að mestu horfið og þroski Rubens tekið stór stökk fram á við.
Það var næringarfræðingurinn Diana Wright sem kom þeim á sporið. Hún uppgötvaði að Ruben skorti ákveðnar kjarnasýrur (leucine og isoluceine) og eggjahvítuefni í líkama sinn. Hann var því settur á eisnkonar fæðubótarefni sem var blandað í drykk hans og fæðu. Áhrifin létu ekki á sér standa og nú hafa læknar ákveðið að rannsaka þessi tengsl ýtarlegan í von um að finna megi lækningu fyrir þau hundruð barna sem þjást af DBA.
Fæðubótarefnin sem Ruben tekur eru ekki ódýr. Þau kosta foreldra hans 10.000 pund á ári.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2009 | 21:27
Hið undarlega mál varðandi Dogon-fólkið
Suður af Sahara eyðimörkinni búa fjórir Afrískir ættbálkar. Á árunum 1945-50 dvöldust frönsku mannfræðingarnir Marcel Griaule og Germaine Dieterlen á meðal þeirra, aðallega samt hjá ættbálki sem kallaður er Dogon fólkið.
Á þessum skamma tíma áunnu mannfræðingarnir sér trúnað Dogon fólksins og trúarleiðtogar þeirra trúðu þeim fyrir launhelgum sínum. Með því að teikna í moldina, drógu prestarnir upp heimsmynd sem þeir höfðu erft og varðveitt um aldir. Þekking þeirra á stjörnufræði var svo mikil og nákvæm að undrum sætir.
Megin hluti þekkingar þeirra beindist að tvístirninu Síríus A og Síríus B. Síríus A er bjartasta stjarna á himnahvelfingunni en um hana snýst Síríus B sem er hvítur dvergur með gríðarlegan efnisþéttleika og eðlisþyngd en ógerlegt er að sjá berum augum frá jörðu.
Síríus B var fyrst uppgötvuð árið 1862 af Bandaríkjamanninum Alvan Clark þegar hann beindi sterkasta sjónauka sem þá var til að Síríusi A og tók eftir litlum hvítum depli sem var 100.000 sinnum dimmari en Síríus A.
Þrátt fyrir þetta vissu Dogonar um tilvist þessarar stjörnu og talvert um eiginleika hennar. Þeir vissu að hún var hvít og þótt hún væri með minnstu stjörnum sem finnast var hún jafnframt þyngsta stjarnan og gerð úr efni sem var þyngra en allt járn jarðarinnar. Þetta er ágæt lýsing á þéttleika Síríusar B þar sem einn rúmmetri af efni hennar vegur 20.000 tonn. Dogonar vissu að Síríus B var á sporbraut um Síríus A sem tók 50 ár að fara og að hann var ekki fullkomalega hringlaga heldur ílangur líkt og sporbraut flestra himintungla er, staðreynd sem ekki var vel kunn utan vísindasamfélagsins.
Þekking Dogona á almennri stjörnufræði var líka undraverð. Þeir teiknuðu bauginn í kring um Satúrnus sem ekki er hægt að sjá frá jörðu, þeir vissu að að Júpíter hefur fjögur stór tungl, að pláneturnar snúast um sólina, að jörðin er hnöttur og að hún snýst um möttul sinn. Þeir vissu að Vetrarbrautin er spíral-laga, eitthvað sem ekki var uppgötvað fyrr en seint á síðustu öld.
En það sem hljómar ótrúlegast af öllu er að Dogonar segja að þessi þekking hafi verið færð þeim af verum sem komu fljúgandi ofan frá himnum í einskonar örk. Þessar verur urðu a lifa í vatni og kölluðu sjálfa sig Nommos.
Þetta heiti veranna og sú þekking sem þær eru sagðar hafa skilið eftir sig á meðal Dogo ættflokksins, vakti athygli sagnfræðingsins Robert Temple. Hann setti heitið í samhengi við vatnaguð Babýloníumanna Oannes, sem sagður er hafa kennt Súmerum stærðfræði, stjörnufræði, landbúnað og skipulagningu samfélags þeirra.
Gríski fornaldar presturinn Berossus lýsir Oannes í bók sinni "Saga Babýlonar"; Allur líkami dýrsins var líkur fiski og undir fiskhausnum var annað höfuð líkt mannshöfði . Rödd þess og tungumál var mennskt og myndir af því eru enn til....Þegar að sól settist var það siður dýrsins að stinga sér í sjóinn og dveljast alla nóttina í djúpunum því dýrið var bæði land og sjávarskeppna.
Dægurmál | Breytt 25.2.2009 kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.2.2009 | 16:13
Af hrossakaupum og reykfylltum bakherbergjum
Allt frá því að lítill hópur öldungadeildarþingmanna bandaríska Repúblikanaflokksins settist niður í svítu 804-5 á Black stone hótelinu í Chicago árið 1920, til að ákveða hver skyldi verða forsetaframbjóðanda-efni flokksins, hefur frasinn og klisjan "reykfyllt bakherbergi" verið sett í samhengi við ákvarðanir stjórnmálamanna þar sem málamiðlanir og "hrossakaup" hafa augljóslega ráðið ferðinni.
Það er auðvelt að sjá fyrir sér harðsvíraða kaupsýslumenn og sjóaða pólitíkusa, súreygða og svefnlausa, takast á um orðalag og inntak yfirlýsinga eða jafnvel ákvarðanna sem skipta máli fyrir framgang sögunnar. Þess vegna varð frasinn fleygur og er enn notaður til túlka leynimakk og klíkugang í ákvörðunartöku um mikilvæg mál.
Nú var svita 804-5 síður en svo bakherbergi, en þegar að ákvörðun senatoranna var tilkynnt, að Warren Harding yrði forsetaefnið, urðu margir til að minnast orða helsta stuðningsmanns hans, Harry Daugherty, þegar hann spáði því fyrir nokkrum dögum áður, að ákvörðunin yrði tekin á þennan hátt, og því slegið upp á forsiðum blaða vítt og breitt um Bandaríkin.
Þá er orðatiltækið "hrossakaup" ekki síður merkingarhlaðið. Orðatiltækið er komið til af því hversu erfitt er á skjótum tíma að gera sér grein fyrir verðleikum hesta og þá býðst óprúttnum seljanda ágætt tækifæri til þess að hafa rangt við. Hér áður fyrr var ætíð reiknað með því að hestakaupmenn nýttu sér þessar aðstæður og fengu því á sig orð fyrir að vera óheiðarlegir. Enn eimir eftir af þessu víðsvegar um heiminn þar sem þetta vantraust fluttist yfir á þá sem selja notaðar bifreiðar.
Algengast er samt að heyra "hrossakaup" sett í samband við pólitískar ákvarðanir þar sem tveir eða fleiri ákveða að skiptast á stuðningi við mál hvers annars. -
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 13:50
Himnafiskar
Það veit enginn hvað nákvæmlega þetta fyrirbæri er. Það hefur verið ljósmyndað og kvikmyndað og margir hafa á því skoðun. Sumir kalla það Himnafiska, aðrir fljúgandi hólka og einhverjir nefna það Sólverur.
Nýlega birtist stutt en óvenju skýr kvikmynd af þessu fyrirbæri í fréttatíma BBC og ábirgðist fréttastofa þeirra að myndin væri ekki fölsuð.
Um er að ræða fljúgandi fyrirbæri sem margir trúa í dag að séu verur sem búi í einhverju af ytri hvolfum jarðarinnar. Þær ferðast svo hratt að þær eru varla sjánlegar berum augum, en hafa komið fram á ljósmyndum, kvikmyndum og videupptökum, einkum í seinni tíð. Nokkar gamlar ljósmyndir eru til teknar útan úr geimnum sem sýna fjölda slíkra himnafiska rétt fyrir utan gufuhvolvið.
Fyrstur til að vekja athygli á fyrirbærinu var kvikmyndagerðarmaðurinn José Escamilla, sem uppgötvaði "verurnar" fyrir tilviljun. Árið 1994 var Escamilla að kvikmynda venjuleg UFO fyrirbæri nálægt Midway, New Mexico. Á flimunni birtust myndir af einhverju sem voru ekki faratæki. Escamilla héllt að um væri að ræða fugla eða skordýr. En þegar hann skoðaði kvikmyndina ramma eftir ramma , sá hann a þarna var eitthvað annað á ferðinni.
Síðan að upptökuvélar og símar búnir mynd og videotökugetu urðu algengir, hefur náðst fjöldi mynda af þessum hólkum sem stundum líta út eins og kjósrákir og stundum eins og einhverskonar verur. En sjón er sögu ríkari;
16.2.2009 | 15:58
Að hýða norn
Það má vel vera að nornarhýðingin sem Eva Hauks og félagar stóðu fyrir hafi vakið fólk til umhugsunar um að þegar allt kemur til alls, elski fólk vöndinn á Íslandi sem og annarsstaðar. Þótt mótmælin hafi verið sögð til að vekja athygli á launung ákvæða í samningi Íslands við erlenda peningasjóði, beina þau einnig athyglinni að því að alþýða fólks sem heldur sig frýja og frjálsa þegna, er enn í þrælsfjötrum.
Rússneska orðið fyrir vinnu er rabota og er dregið af orðinu rab sem merkir þræll. Þar í landi þróuðu stjórnvöld á tímabili, í krafti flokksræðis, skrumskældustu mynd lýðræðis sem um getur.
Æðsti draumur neysluþjóðfélagsins er í raun, fyrir hvern og einn, að geta lifað eins og þrælsherra þar sem róbótar (vélmenni) vinna alla vinnu svo það sjálft geti verið frjálst.
Samt hefur sagan sýnt að fólk er jafnframt hrætt við að lifa frjálst og utan verndar og umsjár einhvers sem er voldugri en það sjálft.
Það sem í dag er kallað nútíma vestrænt "lýðræði" er aðeins þunnt gervi gamla lénsherraskipulagsins þar sem pólitískir flokkar fara með völdin í stað óðalsbænda og lénsherra. Alþýðan er jafn bundin í þrælsklafa þeirra og þess stjórnfarslega skipulags sem þeir viðhalda og þrælar "fortíðarinnar" voru eigendum sínum.
Það er ástæðan fyrir því að allar hugmyndir um beint lýðræði, þar sem kosið yrði til löggjafarþings án flokksframboðs eru ætíð slegnar umræðulaust út af borðinu. Jafnvel þótt íslenska stjórnarskráin geri ráð fyrir því að þingheimur kjósi eftir samvisku sinni, er búið að bjaga kerfið á þann hátt að þingmönnum er haldið eins og þrælum undir aga flokkanna. Allir tilburðir til að sýna sjálfstæði eru túlkaðir sem óhlýðni eða jafnvel svik við flokkinn og foringja hans.
"Það aumasta sem til er, er að þurfa reiða sig á vilja annarra" sagði sýrlenski þrællinn Publilíus sem á sínum tíma skemmti forn-Rómverjum með trúðsleikjum og skopi. Mér sýnast orð hans enn í fullu gildi og nornarhýðingin á Lækjartorgi túlkaði þau ágætlega.
Dægurmál | Breytt 17.2.2009 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.2.2009 | 16:18
Skautar, skíðasleðar og paradís
Þegar nýbyggingar fóru að rísa ört í Keflavík upp úr 1960 varð bærinn frægur fyrir alla drullupollana sem mynduðust við jarðrask og framkvæmdir í bænum. Þegar ég var átta ára, árið 1962, gekk í garð kaldasti vetur sem ég hef upplifað og allir pollar í bænum botnfrusu og héldust frosnir í margar vikur. Þetta var veturinn sem ég fór í fyrsta sinn á skauta.
Til að byrja með stalst ég á skauta eldri systur minnar, en sá fljótlega að það mundi ekki ganga til lengdar, hún alveg brjáluð yfir því að ég "skældi" skautana og svo voru þeir líka hvítir.
Eftir talvert þref í mömmu, fékk ég loks svarta skauta, (notaða að sjálfsögðu) og þá hófust æfingarnar fyrir alvöru. Upp úr flestum stærri pollunum stóðu steinsnibbur sem gerðu alvöru skautamennsku á þeim erfiða.
Þá var líklega ekki byrjað að úða vatni á fótboltavöllinn eins og gert var í seinni tíð svo ekki var annað til ráða enn að paufast upp "í heiði"; fram hjá vatnstönkunum báðum sem stóðu fyrir ofan bæinn, framhjá brennustæðunum okkar þar sem við hlóðum veglega kesti fyrir hvert á gamlárskvöld og áfram í vesturátt alla leið upp að "Vötnum." Það sem við kölluðum "Vötn" voru reyndar tvær litlar tjarnir skammt ofan við Keflavíkurkaupstað og var önnur þeirra, sú stærri, innan flugvallargirðingarinnar og því á yfirráðasvæði Kanans.
Í daglegu tali var greint á milli tjarnanna og þá talað um Litlu og Stóru Vötn. Rétt nafn þessara tjarna ku vera Róselsvötn og eru þau kennd við sel sem í fyrndinni stóð þarna í grenndinni.
Það var auðvitað mest spennandi að skauta á "Stóru Vötnum", því þá var maður líka að brjóta lögin með því að fara inn fyrir girðinguna. Á góðum degi eftir skóla var saman komin þarna tjörnunum þorri krakka bæjarins á skautum og skíðasleðum. (Þotur þekktust ekki) Sumir áttu hvorugt en drösluðu upp eftir með sér pappakössum sem þeir rifu niður í ræmur og skelltu undir magann um leið og þeir skutluðu sér á svellið eftir langt tilhlaup.
Skíðasleðarnir virkuðu illa í mjúkum snjó, en á svelli eða hjarni voru þeir frábærir. Það var líka kostur við þá að það mátti setja á þá yngri bróður eða systur, (sem maður var oftast neyddur til að hafa með) og koma þeim fyrir í sætinu framan á sleðanum.
Skíðasleðar voru afar vinsælir þennan vetur, sérstaklega í skrúðgarðinum í Keflavík, sem var einn af fáum stöðum þar sem brekku var að finna í kaupstaðnum. Skíðasleðana mátti líka tengja saman í lestar þegar brunað var niður á móti, en þá þurfti oft lítið út af bera til að allir lentu ekki í "klessu" eins og það var kallað.
Upp úr "Stóru Vötnum" stóðu tveir nokkuð stórir steinar. Þeir sem voru komnir upp á lag með að standa almennilega á skautunum, spreyttu sig á því að stökkva yfir steinanna einn af öðrum, en bilið á milli þeirra var of langt til að það væri hægt að stökkva yfir þá báða. Þrátt fyrir að það væri augljóst, gerðu margir tilraunir til þess, þar á meðal ég.
Ég uppskar aðeins auman skrokk, marða fótleggi og tvö göt á hausinn. Í seina skiptið fékk ég gat á hnakkann sem blæddi talsvert úr, án þess að ég yrði þess var. Því varð móðir mín þegar heim var komið löngu seinna, að þýða lambhúshettuna varlega af hausnum á mér með volgu vatni.
Eins og fyrr segir, þurfti að skríða undir flugvallargirðinguna til að komast upp að Stóru Vötnum. Þegar þangað var komið var aðeins stuttur spölur til paradísar fyrir gutta eins og mig og félaga mína. Paradís þessi var samsett úr gömlum aflóga herflugvélum og í daglegu tali nefnt "flugvélahaugarnir."
Stundum enduðu skautaferðirnar á því að það var laumast yfir á hauganna og gramsað þar í "kanaflugvéladóti" fram í myrkur. Af og til óku fram hjá flugvélunum gráir pallbílar með gulum sírennuljósum sem voru okkur algjör nýlunda. Þá var nauðsynlegt fyrir þann sem settur hafði verið "á vaktina" að gefa merki svo allir gætu falið sig á meðan bílinn ók framhjá, (líklega á leið til Rockville.)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)