Færsluflokkur: Dægurmál

Gotham

Gothham hæðÍ Suður-Nottingham-skýri á mið Englandi er að finna lítið þorp. Í því eru fimm krár, ein kjötbúð, ein sjoppa sem verslar með sígarettur og dagblöð, fisk og flögu búð, kirkja, bókasafn og nokkur íbúðarhús.

Hvaða samband gæti verið á milli þessa hversdagslega og að mestu ókunna þorps og einnar skuggalegustu stórborgar sem mannshugurinn hefur skapað? Svarið felst í nafninu; GOTHAM.

Fyrirmynd Gotham-borgar, þar sem geðveiku illmennin; Gátumeistarinn, Jókerinn og Mörgæsamanni etja kappi við Leðurblökumanninn, var upprunalega New York. 

gotham-city-dark-knightBill Finger höfundur og skapari Batman hasarhetjunnar vildi ekki nota eiginlegt nafn neinar borgar og hugleiddi um sinn að kalla borgina annað hvort Civic City,  Capital City eða Coast City. Þegar hann rakst á auglýsingu í símskrá New York borgar frá skartgripasala sem kallaði verslun sína 'Gotham Jewelers' ákvað hann að Gotham skyldi verða heiti borgarinnar. Það nafn rímar ágætlega við uppruna þeirra sem grundvölluðu borgina, en það voru samkvæmt sögunni, Norðmenn.

Nafn skargripasalans á versluninni er fengin úr Salmangundi papers (útg. 1807), bók eftir bandaríska sagnfræðinginn; Irving Washington.  Washington var vel fróður um sögu Bretlands og kallar  Manhattan oft "hina fornu borg Gotham” eða “hina undur-elskandi borg, Gotham."

En hvað var það sem fékk Washington til að nefna New York þessu nafni. Þrátt fyrir að Gotham á Englandi sé ekki stórt þorp, er það samt þekkt af endemum í sögu landsins. Þorpið er nefnilega sagt heimkynni kjána eða jafnvel brjálæðinga eins og sagðir eru búa í Gotham-borg. 

GaukshreiðriðSögur af íbúunum sem raka mánann, velta ostum á undan sér og fara á sjó í tréskálum, hafa loðað við þorpið frá því snemma á þrettándu öld. Það er haft fyrir satt að Jón konungur af Englandi, sá sami og Hrói nokkur Höttur eldaði grátt silfur við, eigi þátt í  því að íbúar Gotham hafa um aldir verið taldir tunglsjúkir kjánar.

Árið 1540 var gefin út bæklingur sem seldur var af farandsölum vítt og breytt um England og kallaður var á frummálinu 'The Merry Tales of the Mad Men of Gotham'.

Í ritinu var að finna smásögur og skrýtlur af íbúum Gotham sem minna okkur Íslendinga hvað helst á heimskupör Bakkabræðra. 

Í einni þeirra; "Sagan af góða húsbóndanum" segir frá manni sem vildi hlífa hesti sínum við byrðunum með því að sitja sjálfur hestinn og hafa kornsekkinn á eigin herðum.

Önnur segir frá "Gaukshreiðrinu í Gotham". Í henni ákváðu þorpsbúar að byggja vegg utan um tré sem gaukur hafði gert sér hreiður í með það fyrir augum að halda gauknum í þorpinu. Þegar að gaukurinn flaug af hreiðrinu, beint upp í loftið og slapp þar með, skömmuðu þorpsbúar hvern annan fyrir að hafa ekki hlaðið garðinn nægilega háan.

Sagan af "Drekkingu álsins" segir frá því þegar íbúarnir gerðu sitt besta til að drekkja ál í lækjarsprænu, vegna þess að þeir voru sannfærðir um að állinn væri að éta fyrir þeim allan fiskinn.

Til auka á háðið var seinna farið að kalla mannfólkið í Gotham "vitra" fólkið frekar en "galna" fólkið eða eins og segir í vísunni, hér í lauslegri þýðingu;

Þrír vitrir menn frá Gotham,

fóru á sjó í skál,

ef skálin hefði verið sterkari,

væri saga þeirra lengri og merkari.

Jón KonungurFrægasta af öllum sögum um íbúa Gotham er sagan af því hvernig þeir fengu á sig orð fyrir að vera heimskir og komum við þar að hlut Jóns Konungs, hálfbróður Ríkharðs Ljónshjarta. 

Jón reið keikur um héruð með riddurum sínum og fór sínu fram hvar hann vildi. Hver sú leið sem hann valdi varð um leið og hann hafði farið hana alfaraleið og þjóðvegur.

Þegar hann tók stefnuna á Gotham sáu þorpsbúar í hendi sér að þeim yrði gert skylt að halda við slóðanum sem kóngur reið og gera hann að þjóðvegi. Það vildu þeir ekki, enda bæði dýrt og mannfrekt. 

Þeir tóku því til ráðs að þykjast allir tunglsúkir  (geðveikir) og kepptust við að  mála græn epli rauð og ausa vatni í botnlausa tunnu, þegar að framverðir konungs riðu inn í  þorpið.

Á tólftu öld var trú manna að slík sýki væri smitandi og þess vegna ákvað konungur þegar hann heyrði af háttarlagi þorpsbúa að halda í aðra átt og að lokum var þjóðvegurinn lagður í löngum sveig í kringum þorpið.


Kynlíf í kreppu

RómantíkÁ Valentínusardeginum 14. febrúar , þar sem á annað borð er haldið upp á hann, býðst tækifæri til að yfirlýsa í orði og á borði, ást sína og girnd.

Spurningin er hvort eitthvað dragi úr rómantíkinni á krepputímum eins og nú ríkja víðast hvar eða hvort, þvert á móti, kreppan verði til þess að elskendur flýi frekar stressið og áhyggjurnar í faðm hvors annars. 

Prófessor Helen Fisher, frá Rutgers Hásóla, er þeirrar skoðunar að stressið í tengslum við peningaáhyggjur og atvinnuleysi örvi framleiðslu dópamíns í heilanum, en dópamín er einmitt mikilvægt efni þegar kemur að rómantík og ástleitni.

Hún bendir á að í Nóvember síðast liðnum þegar að heimskreppan skall á hafi samkvæmt breskum könnunum, kynlíf verið vinsælasta afþreyingin og stefnumóta vefsíður hafi sýnt allt að 20% aukningu á notkun síðanna.

Þessu mótmælir kynfræðingurinn Denise Knowles, sem fullyrðir að "á efnahagslegum óvissutímum verði fólk mun örvæntingarfyllra - fólk sé á  höttunum eftir nýju starfi eða leggi mun harðar að sér í vinnunni til að koma á móts við atvinnuleysi maka síns. Í lok dags eru bæði líklegri til að huga minna að kynlífi en ella. Aukin kvíði og verri sjálfsmynd eyðileggur ánægjuna af kynlífinu."

Valetínusardagurinn

215px-St_ValentineÍ kaþólskum sið er fjöldi dýrlinga sem nefndir eru Valentínus. Tveggja er minnst þann 14. febrúar.

Annar var biskup frá borginni Terni, og eitt af táknum hans er kráka, sem vísaði fylgjendum hans til þess reits sem hann vildi láta grafa sig í eftir að hann hafði verið afhöfðaður í Róm árið 270.

Hinn var prestur eða læknir sem ákallaður var gegn flogaveiki, vegna þess að hann læknaði ungling sem þjáðist af slíkum köstum, en leið sjálfur píslarvættisdauða árið 269 þá Kládíus keisari var við völd í Róm.

Tákn hans eru sverð vegna þess að hann var deyddur og  sól, vegna þess að sagt er að hann hafi gefið blindri stúlku sýn og sú stúlka hafi verið dóttir fangavarðarins sem gætti hans þá hann beið dauða síns í varðhaldi.

FebruataHvorugur þessara dýrlinga er ábyrgur á neinn hátt fyrir tilhugalífsþönkum og rómantík þeirri sem nú fylgir Valentínusardeginum.

Verið getur að hér sé um að ræða arf frá heiðinni rómanskri vetrar-hátíð sem fram fór um miðjan febrúar og kölluð var Lúberkalía.

Hún var haldin til heiðurs gyðjunni Febrúötu Júnó. Meðan að á henni stóð drógu piltar úr skjóðu nöfn ógiftra stúlkna.

Sagt var einnig að fuglar veldu sér maka á þessum degi. Þá var unglingspiltum seinna gefin miði með nafni stúlkna sem þeim var ætlað að gera hosur sínar grænar fyrir og skildu kallast þeirra Valentínur.

Sankti Francis de Sales reyndi að árangurslaust að bæta þennan sið með því að leggja til að á miðana yrði sett nafn dýrlinga sem drengirnir skildi síðan tigna í stað stúlkna.


"Góð hugmynd að eignast barn" segir 13 ára faðir

13 ára faðirÞegar börn eignast börn, er mál málanna hér í Bretlandi í dag. Alfie Patten er þrettán ára og kærastan hans, Chantelle Steadman er fimmtán ára. Í síðustu viku urðu þau foreldrar. Litla stúlkan þeirra heitir  Maisie Roxanne.

Alfie sem ekki hefur hugmynd um hvað bleyjur kosta en álítur að þær hljóti að vera dýrar, sagði blaðamönnum að honum hefðu fundist það "góð hugmynd að eignast barn."

"Ég var ekkert að pæla í því hvort við hefðum efni á því.

 Ég fæ ekki einu sinni vasapeninga.

Pabbi gefur mér stunum 10 pund. Þegar að mamma frétti af þessu hélt ég að það yrðu vandræði.

Við vildum eiga barnið en höfðum áhyggjur af því hvernig  fólk mundi bregðast við." 

Alfie er ekki hár í loftinu eða 1.25 m. Hann Svaf hjá og barnaði  Chantelle þegar hann var enn aðeins tólf ára.

Kristnir hópar sem leggjast gegn fóstureyðingu hafa borið lof á hugrekki barnanna við að ákveða að eignast barnið.

Mál Alfie og Chantelle hafa enn á aftur vakið athygli á þeirri staðreynd að foreldrar á táningsaldri eru miklu fleiri í Bretalandi heldur en öðrum vestrænum löndum.

 

Fréttin í SUN


Stjáni Blái

MarhnúturAð liggja á maganum á endanum á stóru-bryggju við að húkka smáufsa og beita fyrir kola sem stundum var svo bara marhnútur, var iðja sem mér og félögum mínum leiddist ekki, jafnvel þótt það færi stundum miklu meiri tími í að greiða út girninu og festa við það sökkur og öngla en í veiðiskapinn sjálfan. Helvítis Marhnúturinn var viðsjárverður og erfitt að losa hann af önglinum án þess að stinga sig og ef það gerðist var eina ráðiðað pissa á lúkuna á sér, eftir að maður hafði skyrpt upp í Marhnútinn og hent honum út í aftur.

Sjávarseltan í bland við hráolíu og tjöru, er svo samofin  minningunum um hampkaðla og grænar glernetakúlur, að þegar ég sé slíka hluti á söfnum í dag, finn ég jafnframt lyktina af gömlu Keflavík.   Að alast upp við sjávarsíðuna í  bæ sem hefur sitt viðurværi að mestu af sjónum, var hlutskipti mitt líkt og þúsunda íslenskra drengja og stúlkna á sjöunda áratugnum.  Eins og hafragrauturinn sem ég gleypti í mig á morgnanna rann greitt niðrí magann á mér áður en hlaupið var af stað, runnu sögurnar af sægörpum og fræknum sjómönnum inn í hausinn á mér. Í Keflavík  reis hæst yfir alla þá kappa með ægishjálm, Stjáni Blái og þeir voru ófáir strákarnir sem héldu því ótrauðir fram að þeir væru náskyldir honum. Stjáni Blái hét réttu nafni Kristján Sveinsson og var ættaður úr Keflavík en sótti mest sjóinn frá Vogum á Vatnsleysuströnd og úr Höfnum.

Úr KeflavíkurhöfnÞrátt fyrir að Stjáni Blái væri talin vera fremsta hetja hafsins stóð mér alltaf ógn af honum og kom þar Þrennt til. Það þótti tilhlýðilegt af stæltum sjómönnum sem vildu gantast við börn að gefa þeim selbita. Ég eins og aðrir var oft að hnoðast um borð í bátum öllum þar til óþurftar og fékk því oft að kenna á þessu græskulausa en oft ansi sársaukafulla gríni sjómannanna. Einhvern veginn setti ég  selbitana í samband við Stjána Bláa. Annað var að ef maður reyndi að slást við þessa kalla tóku þeir á manni tak sem kallað er steinbítstak. Þetta tak setti ég einnig í samband við Stjána.  Hið þriðja var að þegar ég heyrði fyrst ljóð Arnars Arnarssonar um Stjána Bláa, þótti mér skelfilegast þegar hann "strengir klóna". Þessi skelfilegi kraftur sem bjó í höndum og fingrum Stjána Bláa, var svo yfirþyrmandi að hann varð að einkennilegri blöndu af hetju og ótukt í huga mínum.  - Þegar svo að einhver skaut því að mér að líklega væri hinn frægi Stapadraugur, sjálfur Stjáni Blái afturgenginn, þótti mér það afar sennilegt. Ekkert gat verið eins hræðilegt og sjórekinn Stjáni Blái í aftursætinu á bílnum þínum í niðamyrkri þar sem hann strekkti klóna og undirbýr að gefa þér snarpann selbita eða taka þig aftanfrá blýföstu steinsbítstaki.

Þegar ég rakst á fyrir skömmu á vef Bókasafns Reykjanesbæjar, frásagnarbút af Stjána Bláa, sem ég hafði ekki lesið áður, sá ég að margt af því sem ég hafði einhvern veginn fengið á tilfinninguna um Stjána Bláa sem drengur, var í raun sannleikanum samkvæmt;

Kæmist Stjáni í krappan dans,
kostir birtust fullhugans,
betri þóttu handtök hans
heldur en nokkurs annars manns.

Mælti Örn Arnarson skáld í kvæði sínu um Stjána bláa.

Hann var frekar hár maður, grannur. Föt hans voru þröng og nærskorin, úr bláu vinnufataefni, en alltaf hrein og vel bætt.

Kirkjuvogskirkja HafnirÞegar maríumessur voru eða stórrumbudagar kom Stjáni oft að Kotvogi. Hann var dulur og fár við fullorðna en með afbrigðum orðheppinn maður. Hann hafði gaman af krökkum og byrjaði venjulega með því að gefa þeim selbita; hann sagðist gera það til þess að vita hvort heilsan væri góð hjá þeim og áður en varði var hann búinn að hleypa galsa í hópinn með sinni rólegu glettni. Ef strákar voru orðnir svo stálpaðir að þeir voru farnir að róa, gekk Stjáni oft að þeim, tók í handlegg þeirra með þumalfingri og vísifingri og kleip þá, svo að hann virtist ætla að læsa hold frá beini og þeir hljóðuðu. Þá mælti Stjáni: "Ég hélt að þú værir svo stæltur af árinni, lagsi, að puttarnir á mér hrykkju af vöðvunum á þér en það er spauglaust með meyjarholdin."


Öðru máli var að gegna, ef Stjáni var með víni. Þá talaði hann lítt við ungu kynslóðina, en sneri þá máli sínu aðallega að þeim karlmönnum sem voru gustmiklir og harðskeyttir og var þá ekki að sökum að spyrja. En þá var líka eins og sjómaðurinn kæmi upp í honum. Tök hans voru bæði frumleg og fantaleg, stundum líkust því sem hann væri að eiga við óþekka fiska við borðstokkinn. Steinbítstak var konunglegt að hans dómi.
Og Stjáni var tvennt í senn, hann var handfljótur, handviss og handsterkur. Var það hvort tveggja í senn grátt gaman og þó hálf broslegt að sjá aðfarir hans.

Dag einn, er frátök voru, kom Stjáni niður að Kotvogi, var það um nónbilið. Þann sama dag hafði einhver raki borizt suður í byggðina frá Keflavík og voru sumir sjómenn hreifir. Stjáni fór upp á baðstofuloft, dvaldi þar stutta stund hjá fólkinu, ósköp rólegur og gekk síðan niður og út. þegar Stjáni kom út á hlað voru þar nokkrir sjómenn fyrir, þar á meðal einn norðan úr Fljótum, stór maður og myndarlegur. Einhver lyfting mun hafa verið komin í hann því að hann fór óðara að særa Stjána og valdi honum ýmsan skáskeyting.


Stjáni sneri sér þá að honum og áður en auga yrði á fest hafði hann rennt vinstra þumalfingri inn um hægra munnvik mannsins, utan við tanngarðinn og gripið á móti með fingrunum aftan við kjálkabarðið, snúið manninn niður og ætlaði nú að ganga svo frá honum að hann yrði rólegur fyrst um sinn. Gengu þá sjómenn á milli og báðu Fljótamanninum griða; var það seinsótt, en tókst þó. Gárungarnir sögðu að sjómaðurinn hefði ekki samkjaftað til hægra munnviksins eftir þetta.

Þetta samspil Stjána og sjómannsins flaug um alla sveitina og því var það síðar á þessari vertíð að eftirfarandi atvik kom fyrir er nokkrum sjómönnum lenti saman á landlegudegi. Einn þeirra var hávaðamaður við vín og órór og vildi nú stæla meistarann og nota sama tak. En nú var það bara ekki höndin á Stjána sem var með í leiknum og því fór sem fór; maðurinn fór með þumalfingurinn inn á milli jaxlanna en mótstöðumaður hans lagði ómjúkt að og sleppti ekki takinu og kvaldi manninn bæði mikið og lengi svo að hann varð strax að fara til læknis eftir viðureignina. En eins og vandfarið var í föt Stjána, hvað allt tusk snerti, eins var það vonlítið að ætla sér að jafnast á við snilld hans og skilning á sjómennsku.

Svo bar til að liðið var það á vertíð að sílfiskur var farinn að ganga og menn byrjaðir með net. Allir formenn áttu þá net sín suður á Kalmanstjarnarvík, en þegar fiskigangan var sem mest og hrotan stóð sem hæst tók frá í tvo daga og allir sem til þekkja vita hve stórfiskur þolir illa að liggja í netjum án þess að skemmast.


ofeigurÁ þriðja degi var áttleysa, sjór nokkuð lagztur en þó rismikill og útsynntur og þannig að á hann mátti engin breyting koma nema til batnaðar. Allir formenn ýttu úr vör um morguninn og vitjuðu um netin. En þegar hallaði að hádegi tók sjór að aukast og hann jós í sig briminu sem kallað er. Allir formenn komu líka von bráðar og tóku sundið meðan það var sæmilegt, nema einn; hann kom ekki að sundinu fyrr en allir aðrir formenn voru lentir og höfðu sett skip sín. Kirkjuvogssund er gott sund og verður ekki hættulegt, fyrr en sjór er orðinn hroðalegur. Þegar þetta síðasta skip kom að sundinu, mátti heita, að komið væri stórveltubrim og sundið ófært, nema ef lög komu.


Formaðurinn, Magnús að nafni var góður stjórnandi, skapmikill og einbeittur. Skip hans var áttæringur, fremur lítið skip, en sjóskip ágætt; skipshöfnin var ellefu eða þrettán menn. Þegar hér var komið sögu, var allt fólkið, bæði ungt og gamalt úr þorpinu, komið niður í naustin. Á tímum neyðarinnar verður fólk í litlu sjávarþorpi að einni fjölskyldu. Allir eru sem ein hönd til hjálpar, allir þrá það sama. Og enginn, sem ekki hefir heyrt það og séð með eigin augum, getur skilið, hvílík angist og hryggð getur gripið heilt byggðarlag, þegar svona stendur á. Eins var það nú í Kirkjuvogsvörinni; grátstafir og þungur ekki heyrðist en karlmenn þeir sem stóðu uppi á Kotbogsbakkanum sáu að skipið hélt sig nokkuð utan við sundið. Var þá sjór orðinn svo mikill að skipið hvarf alveg og að því er manni fannst drukklanga stund í öldudalina, en snilldarlega var það þá varið fyrir kvikum og áföllum.


Sjómenn2Þá sáu menn líka að til formannsins var kominn Stjáni en hann reri hjá honum þessa vertíð. Og menn vissu hvílíkur snillingur hann var og hversu hann gat hafið sig yfir allan fjölda manna á svona augnablikum. Og það skal ekki orðlengt frekara að nokkuð löngu seinna kom lag á sundi sem þeir tóku og heppnaðist vel enda lögðu þarna tveir snillingar saman ráð sín. Stjáni og formaðurinn. En þegar skipið stóð á þurru, þá mælti Magnús formaður og var þá reiður til þess að bæla niðri í sér klökkvann:
"Hana, piltar, þakkið þið nú honum Kristjáni fyrir lífgjöfina í dag."

Magnús vissi hvað hann sagði. Menn sem voru með Stjána þennan dag á sjó sögðust aldrei hafa þekkt hann alúðlegri né skemmtilegri en þennan dag. Það var eins og hann yxi upp úr sjálfum sér, þegar hann horfðist í augu við háskann. Hann hefir verið einn af þeim mörgu, sem ekki lifa í sterku tjóðurbandi við þetta líf, og því ávallt búinn til að fara, en hann þurfti ekki fyrir það að verða sá listamaður, sem hann varð, á mælikvarða sjómennskunnar. Það hefir honum verið meðfætt.


Stjáni Blái eftir Erling JónssonStjáni var eins og hvert annað kuldastrá í landi, en í ríki sjómennskunnar var hann fæddur konungur, í ríkinu sem leggur svo mikið til í kjarnann í þjóðlífi okkar Íslendinga.

Erlingur Jónsson, gamli handavinnukennarinn minn gerði fagurt listaverk til minningar um Stjána Bláa og það stendur nú í Reykjanesbæ og er myndin hér til hliðar af því.

Þá að lokum læt ég hér ljóð Arnars Fylgja.

Stjáni Blái

Stjáni blái bjóst til ferðar.
Bundin skeið í lending flaut.
Sjómenn spáðu öllu illu.
Yzt á Valhúsgrunni braut.
Kólgubólginn klakabakki
kryppu upp við hafsbrún skaut.

Stjáni setti stút að vörum,
stundi létt og grönum brá,
stakk í vasann, strauk úr skeggi,
steig á skip og ýtti frá,
hjaraði stýri, strengdi klóna,
stefndi undir Skagatá.

Æsivindur lotulangur
löðri siglum hærra blés.
Söng í reipum. Sauð á keipum. Alda
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Sáu þeir á Suðurnesjum
segli búinn, lítinn knörr
yfir bratta bylgjuhryggi
bruna hratt, sem flygi ör
– siglt var hratt, og siglt var mikinn –
sögðust kenna Stjána för.

Vindur hækkar. Hrönnin stækkar.
Hrímgrátt særok felur grund.
Brotsjór rís til beggja handa.
Brimi lokast vík og sund.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði beint á drottins fund.

Drottinn sjálfur stóð á ströndu:
Stillist vindur! Lækki sær!
Hátt er siglt og stöðugt stjórnað.
Stýra kannt þú sonur kær.
Hörð er lundin, hraust er mundin,
hjartað gott, sem undir slær.

Heill til stranda, Stjáni blái,
stíg í land og kom til mín.
Hér er nóg að stríða og starfa.
Stundaðu sjó og drekktu vín,
kjós þér leiði, vel þér veiði.
Valin skeiðin bíður þín.

Horfi ég út á himinlána.
Hugur eygir glæsimynd:
Mér er sem ég sjái Stjána
sigla hvassan beitivind
austur af sól og suður af mána,
sýður á keipum himinlind.


(Örn Arnarson)


Af tilraunum til fjallaflutninga og fleira

Ávextir 1Mörg orðatiltæki sem við notum í daglegu tali eiga rætur sínar að rekja til trúarbragðanna. Sum hafa kaupmenn og þjónustufyrirtæki tekið upp á sína arma og gert að slagorðum sínum í auglýsingum. 

Þá eru frægar skírskotanirnar fyirtækja til trúarstefja eins og t.d. naglagerðin sem birti mynd af Kristi á krossinum og undir henni stóð; "Þeir halda naglarnir frá Vírneti." Þeir halda

 "Af ávöxtunum þekkirðu þá" auglýstu nýlenduvöruverslunin Silli og Valdi lengi vel og vitnuðu þar til Biblíuversins úr Mattheusarguðspjalli. (Skemmtilegt og gildishlaðið orð; NÝLENDUVÖURUVERSLUN)

Fyrri hluti tilvitnunarinnar gæti samt vel átt við ákveðna tegund kaupahéðna sem margir hafa kvartað yfir á síðasta misseri.

15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. 16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

FjallafluttningurSendibílastöðin sem auglýsti hér áður fyrr; Trúin flytur fjöl, við flytum allt annað, og vitnaði í annað Mattheusarvers;

14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum 15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."

17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín." 18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.

19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"

20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"

Þessi saga er um margt merkileg og það væri gaman að fara einhvern tímann í góðu tómi yfir allt það sem hún segir frá og gefur til kynna. Mustarðskornið er einkar áhugaverð líking enda notað aftur í afar svipaðu dæmi þegar Kristur segir “Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ‘Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,’ og það mundi hlýða yður." Þetta minnir dálítið á íslensku öfugmælavísurnar en það er víst önnur saga. 

Svo skemmtilega vill að annar Guðsmaður, ákvað tæpum 600 árum seinna að láta reyna á þau orð Krists að trú geti fengi fjöll til að færast úr stað og frá þeirri tilraun er komið annað orðatiltæki sem fólk á Íslandi notar nokkuð mikið í seinni tíð.

Sagan og orðatiltækið sem henni tengist, berst trúlega til Íslands frá Englandi þar sem það kemur fyrst fyrir í ritgerð eftir Francis Bacon; "Of boldness", árið 1625.  Bacon  notar reyndar útgáfu sem alþekkt var um sama leiti sem máltæki á Spáni og hljómar svona; "Ef hæðin vill ekki koma til Múhameðs mun Múhameð fara til hæðarinnar."  Enska orðið "hill"  breyttist einhvern tíman í "mount" og þar með varð hæðin/hóllinn að fjalli.

SofaOrðatiltækið á upphaflega rætur sínar að rekja til íslamískrar arfsagnar þar sem sagt er frá því þegar að Múhameð er beðinn að gera eitthvert kraftaverk sem ótvírætt mundi sanna guðdómleika kenninga hans. Hann bað Guð um að flytja til sín hæð nokkra sem heitir SOFA og rís skammt frá Mekka.

Þegar að hæðin haggaðist ekki sagði Múhameð það ótvírætt bera miskunn Guðs vitni því ef hún hefði tekist á loft og flogið til þeirra, mundu allir hafa grafist undir henni. Múhameð gekk því til hæðarinnar til að flytja þar Guði lofgjörð fyrir náð hans og miskunn.


Framboð og fyrirspurn til þín

Ný andlitÓðum tínist til mannafli í flokksframboðin. Hér gilda allt önnur lögmál en í venjulegum mannlegum samskiptum. Það virðist ekkert samhengi milli framboðs og eftirspurnar.

Það úir og grúir af "nýju" fólki með "nýjar" samviskur (oftast samt með gamalkunn andlit), sem sækist eftir að fá að taka virkan þátt í að byggja upp "nýja" Ísland. Í  baklöndunum góðu er þokunni óðum að létta og allir segjast glaðbeittir hafa kannað þau, hugrakkir og fífldjarfir eins og fyrstu pólfararnir forðum. 

Fólk er óðum að koma sér fyrir í gamalkunnum og vel skipulögðum skotgröfum þar sem því líður vel meðal já-vina sinna í flokknum. Klisjurnar fljúga manna á millum og allt er aftur eins og það var.  Ég dáist að hugrekki þessa  fólks sem þorir raunverulega að mæta sjálfu sér í  speglinum þegar það velur lit á bindi eða blússu sem hæfir dagverkinu, eftir allt sem á hefur gengið. Það þarf alvöru hugrekki til þess.

Nú morar allt í tilkynningum frá þessu fólki í fjölmiðlum og á blogginu. Framboðspistlarnir þar sem allir lofa ábúðarfullir að lofa engu sem þeir ætla ekki að efna og lofa því engu, eru þegar orðnir daglegt brauð, enda ekki ráð nema í tíma sé tekið, flokksþingin öll á næsta leiti og nýta þarf Gróu gömlu frá sama bæ til hins ýtrasta.

PólitíkinBrátt verður bloggið sprengfullt af mosagrænum og digrum en samt fúnum framboðsgreinum, flúruðum pólitísku hjali og skreyttum gljáandi vel lýstum myndum af framboðsfólkinu sem hrópa á þig; "horfðu á varir mínar".

Um leið heyrast einstaka stunur frá gömlum hrelldum sálum sem eru að draga sig í hlé, sármóðgaðar yfir öllum þessum hávaða frá fólki sem leyfir þeim ekki að verða sjálfdauðar í embættisstólunum. En þær vissu jú að póli-tíkin er ekki sú trygglyndasta í hverfinu.

Og fólk er sem sagt farið að kannast við sig í Kjósinni.

En hvað varð um þær fjölmörgu háværu raddir sem hrópuðu hátt og kröfðust þess að flokksræðið yrði lagt af með öllu? Hvar eiga þær heima á þessu "nýja" flotta flokkspólitíska Íslandi sem búsáhaldabyltingin virðist vera smátt og smátt að samþykkja eftir að "réttu" flokkarnir komust að í ríkisstjórn? 

Kannski finna þær heimili sitt á auðu seðlunum sem skilað verður í komandi kosningum. Og kannski finna þær aftur tóninn þegar í ljós kemur að ekkert hefur í rauninni breyst og að flokksræðið blívur...nú sem fyrr.

Ef að kosið verður til stjórnlagaþings á þann hátt sem nú liggur fyrir, hversvegna er ekki hægt að breyta stjórnarskrá svo það verði kosið til alþingis með sama hætti og svo kallaðir meiri og minnihlutar á alþingi verði lagðir niður áamt öllu flokkakerfinu?


Golliwogg og tvískynungur BBC

GollyMyndin er af þeirri tegund brúðu sem kölluð er Golliwogg. (Seinna Golliwog) Brúðan er eftirmynd af sögupersónu í barnabókum eftir Florence Kate Upton sem gefnar voru út seint á 19. öld og nutu þá mikilla vinsælda í Betlandi, Bandríkjunum, Evrópu og Ástralíu.  Sumar heimagerðar Golliwogg dúkkur voru kvenkyns en yfirleitt voru þær alltaf karlkyns eins og upprunalega sögupersónan.

Fljótlega var byrjað að nota orðin Golliwog og "wog" sem uppnefni á þeldökku fólki og sem slíkt breiddist notkun þess orðs víða út.

Fyrir nokkru notaði Carol Thatcher, ein af stjórnendum BBC sjónavarpsþáttarins One show, þetta orð um tennisspilarann Jo Wilfried Tsonga. Carol sem er dóttir fyrrverandi forsætisráðsfrúar Bretlands Margrétar Thatcher, lét orð sín falla  í starfsmanna-aðstöðu sjónvarpsins (Green Room) eftir að útsendingu var lokið. Fyrir þetta hefur henni verið vikið úr starfi. Jo-Wilfried-Tsonga

Mikil umræða hefur spunnist út af uppsögn hennar og m.a. bent á að BBC sé með á sínum snærum hálaunaða starfsmenn sem hafa það fyrir atvinnu að ganga fram af fólki með blótsyrðum og hneykslanlegum uppátækjum.

Eru í því sambandi nefndur sem dæmi Jonathan Ross sem nýlega var settur í tímabundið bann á BBC fyrir að hafa tekið þátt í klúrum hrekk ásamt grínaranum Russel Brand sem sagði upp stöðu sinni hjá fjölmiðlarisanum í kjölfarið.

Þessi tvískynungur BBC er orðin að pólitísku bitbeini því hægri sinnaður stjórnmálamaður eins og borgarstjóri Lundúna Boris Johnson sagði þessar refsiaðgerðir gegn Carol of grófar en Hazel Blears samskiptaráðsstýra í ríkisstjórn Browns hefur svarað með því að lýsa stuðningi við ákvörðun BBC.

Þá er þess skemmst að minnast að bæði Charles tilvonandi konungur Bretlands og sonur hans Andrew, notðu báðir hliðstæð uppnefni, "Sooti" (Sóti) og "Paki" um menn sem þeir umgengust. Engar kröfur hafa heyrst um að þeir eigi að segja af sér sínum störfum.


Ólíkt hafast þjóðirnar að

Ég er eflaust að bera í bakkafullan lækinn með að skrifa eitthvað um veðurfarið hér í Bretlandi um þessar mundir. Sjaldan eða aldrei kemur betur í ljós munurinn á samfélaginu heima og hér en þegar borin eru saman viðbrögð fólks við snjókomu. Mestur snjór á suðvestur og suður Englandi í 12 ár segja fjölmiðlar. (Á íslandi mundi þetta vera kölluð föl.)

Snjór í BathHér í Bath eru tveir þrír sentímetrar af jafnföllnum snjó og þess vegna hefur skólum verið lokað, bílar sitja fastir, fólk kemst ekki til vinnu, og allt mannlíf gengur úr skorðum.

Fjölmiðlar keppast um að segja fólki að halda sig heima við og ef það hugsi sér til hreyfings að láta vita um ferðir sínar, taka með sér skjólfatnað og heita drykki á brúsum. Hitastigið er í kringum tvö stig!

Bæjar og borgaryfirvöld hafa keppst við að bera á götur og vegi salt og sand og nú er svo komið að allar byrgðir af þeirri ágátu blöndu eru uppurnar.

Stjórnmálamenn kvarta yfir að veðrið komi til með að kosta þjóðarbúið miljarði og aðrir benda á að það sé bara gott að bankamennirnir komist ekki til vinnu til að eyða meira af þeim aurum sem stjórnvöld hafa ausið í bankanna upp á síðkastið. Enn aðrir benda á að fólk eigi bara að slappa af og njóta veðursins og hins sjaldséða snjós.


Bretar ætla að bursta Júróvisjon keppnina!

Webber og JadeEins og fram hefur komið í fréttum, stefna Bretar á það að vinna Júróvisjón keppnina í ár og til þess að svo megi verða fengu þeir sitt þekktasta tónskáld til að semja lagið, útsetja það og velja flytjandann. 

Bretar hafa aldrei kostað meiru til en nú og fengu sjálfan Andrew Lloyd Webber til að semja lagið. Hann valdi til að flytja það, eftir hrikalega hallærislega og óspennandi útsláttarkeppni sem tók mörg laugardagskvöld, Jade nokkra Ewen.

Hún mun syngja lag Webbers "It's My Time" sem þið getið heyrt og séð hér. 

Breskir gagnrýnendur segja að lagið sé vel til þess fallið að hefja upp standardinn á Júróvisjón keppninni sem reyndar er ekki sagður hár hér í Bretlandi.

En í mínum eyrum hljómar þessi ballaða eins og enn einn söngleikjasmellurinn sem Webber er svo frægur fyrir að fjöldaframleiða.

Jade hefur ágætis rödd en hún er ekki lagviss eins og heyrðist vel síðasta laugardagskvöld þegar hún var tilkynnt sem sigurvegari og flutti aftur lagið sem hún hafði flutt áður um kvöldið.


Brjóstahaldadeildin

southwesternbellvigÍ september 1950, komu lögreglumenn á  Miami, Florida fyrir tilviljun upp um glæpahring sem stolið hafði þúsundum dollara á mörgum árum frá símaþjónustufyrirtæki þar um slóðir. Þjófarnir voru allir ungar konur úr talningardeild Southern Bell Telephone Company. Þær smygluðu peningunum út úr byggingunni með því að fela smápeningarúllurnar í brjóstahöldum sínum. Þessi blanda af ungum konum, undirfatnaði og peningum var auðvitað ómótstæðileg fyrir pressuna og sagan af "Brjóstahaldadeildinni" komst á forsíður blaðanna.

Hvernig þær gerðu það

Glæpakvensurnar nýttu sér veikleika í þeirri aðferð sem Southern Bell Telephone Company meðhöndlaði smápeninga sem safnað var úr peningasímum þess. Peningarnir voru losaðir í innsiglaða kassa og fluttir í talningadeildina. Þar tæmdu ungar konur kassana og settu þá í sjálfvirka talningarvél. Talan sem vélin sýndi var fyrsta skráða heimildin um tekjurnar.

SmápeningarAð minnsta kosti þrjár af konunum (kannski fleiri) sá að það var auðvelt að fylla pappírsstauka af smáaurum áður en peningarnir fóru í vélarnar og stinga þeim í brjóstahöldin. Vegna þess að peningarnir höfðu aldrei verið taldir, saknaði fyrirtækið þeirra aldrei.

Ein af brotakonunum, Betty Corrigan,sagði lögreglunni í yfirheyrslum að sumar stúlknanna hefðu troðið allt að fimm rúllum af 25 senta peningum ofaní brjóstahöldin í einu. Í hverri rúllu vori 15 dollarar svo sumar stúlknanna voru að smygla út um 150 dollurum á dag.  

Þær tóku samt ekki peningana sjálfar beint út úr byggingunni, heldur fengu leyfi til að fara á salernið þar sem þær afhentu lagskonu sinni þýfið sem síðan smyglaði því út.

Hvernig þær náðust

Ef ekki hefði komið til smá atvik hefði þessi glæpur e.t.v. aldrei komist upp. Dag einn fékk lögreglan upphringingu frá átján ára stúlku,  Ritu Orr sem tilkynnti að  $5000 hefði verið stolið úr kommóðu heima hjá sér. Rita var mágkona Marie Orr, sem vann á talningardeildinni.

corriganLögreglumaður að nafni  I. Ray Mills kom á vettvang til að rannsaka þjófnaðinn og á meðan að hann var á staðnum ók  Betty Corrigan, ein af vinnufélögum Maríu í hlaðið. Þegar að Mills leitaði í bíl Corrigan fann í honum þrjár ferðatöskur. Í tveimur þeirra fann hann $4107 í kvartdollurum. Í þriðju töskunni fann hann nálægt  $1000 í seðlum. Þegar hann spurði konuna um peningana byrjaði öll sagan að skýrast.

Þær viðurkenndu að hafa stolið þúsundum dollara frá símafyrirtækinu og notað peningana til að kaupa nýja bíla, greiða af veðlánum heimila sinna. Í vörslu Corrigan og  Orr fundust áður en yfir lauk  $10,000 í reiðufé. Að auki bentu þær á fjórar aðrar samverkakonur.

Það skýrðist aldrei af hverju Rita Orr hringdi í lögregluna en svo virtist sem hún hefði ekki hugmynd um glæðastarfsemi systur sinnar.  

Fjölmiðlarnir 

Þegar af þessu spurðist varð allt vitlaust hjá fjölmiðlum landsins allt frá austur til vestur strandarinnar. Blaðamenn kepptust um að koma upp með ævintýralegar fyrirsagnir eins og "Mál silfur svikaranna" og " Málið um klingjandi brjóstahöldin" eða " Brjóstahalda bandittarnir" en vinsælasta nafngiftin varð " Brjóstahaldadeildin"

connorsLögreglan áætlaði að ekki færri en 14 manns hefðu verið viðriðnar þjófnaðina , átta konur og sex menn, eiginmen eða unnustar kvennanna.  Tveimur kvennanna sem voru aðal-sakborningarnir; hin 23. ára  Betty Corrigan og  21. Marie Orr, var að staðaldri lýst í blöðum sem "fallegum stúlkum" með "sérlega aðlaðandi símaraddir" og myndir af þeim birtust hvarvetna.

Til að lesendur gerðu sér betur grein fyrir hvernig þjófnaðurinn hafði farið fram, fékk eitt dagblaðana sýningarstúlkuna , Marge Connors, til að sitja fyrir á ljósmynd sem sýndu hvernig brjóstahöld gátu haldið peningarúllum. (Sjá mynd)

Þrátt fyrir að mikið væri um handtöku stúlknanna fjallað í fjölmiðlum, hljóp fljótlega snurða á þráð saksóknara. Lögreglan gerði sér grein fyrir að þrátt fyrir munlega játningu, voru engin sönnunargögn að finna um glæpinn. Símafyrirtækið gat ekki staðfest hversu miklu eða hvenær peningunum hefði verið stolið. 

PeningasímiFrekar máttlaus yfirlýsing frá lögfræðingi símafyrirtækisins hjálpaði ekki. "Stúlkurnar einfaldlega stungu rúllum af eins, tíu og tuttugu og fimm senta peningum í brjóstahöld sín áður en þeir voru taldir. Þess vegna er hvergi neitt að finna um hversu mikið silfur var tekið".

Konurnar gerður sér fljótlega grein fyrir stöðunni og breyttu framburði sínum snarlega. Þær neituðu að skrifa undir skráða játningar og sögðu að peningarnir sem fundust væru þeirra eigin peningar. Lögfræðingur þeirra  hótaði því að höfða mál á hendur lögregluembættinu ef að 10.000 dölunum sem lögreglan hafði fundið, yrði ekki skilað og gegn símafyrirtækinu ef stúlkurnar fengu ekki að hverfa aftur til starfa sinna.

Með semingi, varð lögreglan að sleppa konunum.

Daginn eftir snéru konurnar sex aftur til starfa en var þá tjáð af yfirmanni að þær hefðu verið reknar og hleypti þeim ekki inn í bygginguna.

Sóttar til saka

Um tímaleit út fyrir að konurnar hefur framið hinn fullkomna glæp, en lögreglan var ekki á því að láta þær sleppa svona auðveldlega.

Að lokum var það bókhaldari sem gerði málshöfðun á hendur þeim mögulega. Símafyrirtækið lét rekja öll langsímasamtöl frá  Jacksonville og lét bókarann sinn fínkemba skýrslurnar. Að lokum fékk hann það út að í vissum mánuðum vantaði vissa upphæð. Sem dæmi þá væri öruggt að 23. ágúst 1950 vantaði $464.75 upp á það sem kom frá talningardeild fyrirtækisins.

brassbrigadeÞetta gerði það mögulegt að lögsækja konurnar fyrir meira en $50. stuld sem var forsenda þess að hægt væri að lögsækja konurnar fyrir "stórþjófnað".   Og aftur galaði pressan; "Réttlætið eins teygjanlegt og hluturinn sem þýfið var borið út í, small á meðlimum Miami brjóstahaldadeildarinnar"

Það kom aldrei í ljós nákvæmlega hvað miklu konurnar stálu. Í fyrstu lögregluskýrslunni þar sem konurnar játuðu munlega, er upphæðin sögð nema hundruðum þúsunda dollara. Símafyrirtækið hélt því samt fram, kannski til að bjarga andlitinu, að upphæðin hefði aðeins verið $18,880.

Alls voru ellefu ákærðir í tengslum við þjófnaðinn. Corrigan og  Orr voru ákærðar fyrir stórþjófnað.  Billie Ruth McNabb (sem sögð var tengillinn þeirra á salerninu) var ákærð fyrir að aðstoða við að flytja þýfið. Hinir átta voru fjölskyldumeðlimir og vinir kvennanna sem var gefið að sök að hafa móttekið þýfi.  

Það tók sex manna kviðdóm aðeins 24 mínútur að sakfella konurnar þrjár en jafnframt fór hann fram á að þeim yrði sýnd mildi. Dómarinn dæmdi þær í eins árs fangelsi og gerði þeim að endurgreiða símafyrirtækinu  $24,118.

Í yfirlýsingu frá konunum segir að  " að þær ætli sér að endurgreiða símafyrirtækinu alla þá peninga sem þær tóku frá því". Þær áfrýjuðu dóminum en töpuðu málinu þá líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband