Færsluflokkur: Dægurmál
29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.1.2009 | 11:51
Tvífari Obama
Hann heitir Ilham Anas, er 34 ára og er frægur á Jakarta, þar sem Obama forseti Bandaríkjanna eitt sinn bjó. Og nú berst frægð hans víða um heiminn.
Hann hefur komið fram í sjónvarpsþáttum, gert auglýsingar sem Obama og fengið ýmis gylliboð út á útlitið eitt. ´
Sjálfur er Anas fæddur og uppalinn í Bandung á vestur Jövu. Hann segist ánægður með að geta unnið sér inn peninga með þessum hætti en hann geri ekki hvað sem er.
"Ég tek öllum tækifærum sem mér bjóðast svo fremi sem þau stríða ekki gegn samvisku minni og persónulegu siðgæði" er haft eftir honum. Hann segist jafnframt vera frekar feiminn og eiga erfitt með að vera í sviðsljósinu.
Í Indónesíu er mikill áhugi fyrir Obama sem bjó þar í nokkur ár eftir að móðir hans Ann Dunham, gekk að eiga Indónesískan mann Lolo Soetoro eftir að hún hafði skilið við faðir Obama sem var frá Kenýa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.1.2009 | 01:12
Ótrúlega Ísland - The home of the shitballs
Undur Íslands, fólkið og náttúran, eru sannarlega mörg og ég þreytist ekki á því að tíunda það fyrir þeim sem á vilja hlusta. Ég sé það oft á augnagotum fólks sín á milli að það á erfitt með að trúa ýmsu, sem ég hef að segja, en samt er síður enn svo að ég ýki. Þess er hreinlega ekki þörf. Sannleikurinn hreinn og beinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur, eða það finnst þeim.
Það er svo sem ekkert nýtt að útlendingar furði sig á þeim fjölmörgu náttúrundrum sem er að finna á Íslandi. Þegar ég kom inn í hið heimsfræga furðusafn Ripleys (Ripley´s belIeve it or not museum) í Flórída fyri mörgum árum, blasti við mér í anddyrinu risastór teikning af Hérðaskólanum á Laugarvatni.
Í texta undir myndinni var fullyrt að þetta væri fyrsta hús í heimi sem byggt hefði verið og ráð fyrir því gert að hita það upp með jarðvarma einum saman. Ripley sem kom til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og teiknaði húsið, fannst mikið koma til fyrirbæris sem er okkur heimafólki ósköp venjulegt og margir útlendingar vita núorðið um.
Í hinum upplýsta internets-heimi sem við lifum í, þar sem öll þekking er við fingurgómana og googlið er véfréttin mikla, eru samt fáir sem vita af fyrirbærinu sem við köllum hér á Íslandi Kúluskít.
Í stórum hópi kunningja í kvöld minntist ég á þetta náttúruundur sem aðeins finnst í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og japanska vatninu Akan á Hokkao eyju. Allir viðstaddir drógu í efa að þetta væri satt. Kúlulaga skítur sem vex í breiðum???
Kannski var það íslenska nafnið sem gerði þetta svona tortryggilegt, (á ensku ball-shit eða shitball) enda líkt öðru sem þýðir bull (bullshit).
Nú vill svo til að það er til frábær netsíða á íslensku um kúluskít og með að sýna hana náði ég loks að sannfæra liðið. Svo var japanska nafnið auðvitað Googlað. Þeir sem ekki hafa séð kúluskít eða vilja fræðast um fyrirbærið geta nálgast þessa netsíðu hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2009 | 21:04
Íslenski forsætisráðherrann hrakinn frá völdum
Forsætisráðherra Íslands Geir Haarde og ríkisstjórn hans var hrakinn frá völdum í dag. Í kjölfarið á hruni efnahags landsins....... Geir Haarde frosætisráðherra Íslands rífur þing og boðar til kosninga semma í vor....
Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig fyrirsagnir fjölmiðlanna verða á morgunn eða einhvern næstu daga. Ríkisstjórnin er í raun fallin og það er formsatriði hvernig verður gengið frá því.
Yfirvöld hafa spilað út síðasta spilinu, því sem aðeins átti að nota í nauðavörn. Þau hafa gefið fyrirmæli um að tvístra mótmælendum með táragasi.
Fyrsta stig, stöðug og sýnileg viðvera í bland við spjall er löngu liðið. Annað stig; að nota piparúða var gert á Gamlársdag og allar götur síðan. Þriðja stig að nota kylfurnar sömuleiðis degi seinna. Fjórða stig notkun táragass sem núna hefur gerst. Það er ekkert fimmta stig til.
Enginn lögreglumaður á Íslandi mun nokkurn tíman fást til að beina skotvopnum að mótmælendum þannig að úrræði lögreglunnar og ráðherrana sem stjórna henni eru á þrotum. Mótmælendur hafa sigrað.
Eina úrræði ríkistjórnarinnar ef hún vill ekki segja af sér, er að taka upp stjórnarhætti eins og Mugabe viðhefur í Zimbave. En það getur aðeins orðið tímabundið því afleiðingar þess yrðu að Forsetinn mundi þurfa að beita neyðarlöggjöfinni.
Sögulegir tímar hafa runnið upp á Íslandi hvernig sem fer.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.1.2009 | 17:31
Hvað kalla Íslendingar stúlkur sem........
Hvað mundi maður kalla stúlku á Íslandi sem hefði það helst fyrir áhugamál að; drekka sig hauga-fulla af bjór um helgar (eða eins oft og kostur er og helst æla) , öskra, dansa, aka um í hraðskreiðum bílum, segja og hlusta á kjaftasögur, senda skilaboð í síma og láta sér í léttu rúmi liggja hvar hún eyðir nóttunum og í félagsskap við hvern.
Hvað kalla Íslendingar stúlku sem hagar sér, ja, eins og illa upp alinn strákur? Illa upp alda stelpu eða eitthvað annað?
Sín á milli kalla þær hver aðra það sama og strákarnir kalla þær, þ.e. druslur, dræsur, tíkur og tussur. Hér í Bretlandi kallar almenningur þær Ladettes.
Það ber meira á slíkum stúlkum hér enn nokkru sinni fyrr og þær eru að finna í hverju einasta bæjarfélagi. Þær halda ekkert sérstaklega félag við drengina en þær haga sér nákvæmlega eins.
Fjöldi unglinga sem eyðir mestum tíma kvöldsins drekkandi á götum úti hefur aukist svo um munar og mórallinn á meðal þeirra er miklu harðari og metnaðarlausari enn sést hefur. -
Ný yfirriðin kreppa, atvinnuleysi og lánaþurrð, komu eins og staðfestingar fyrir þessa krakka á því að það sem réði framapoti þeirra sem ólust upp á níunda og tíunda áratugnum, sé ekki meira virði en fyllirí og flans.
Strákarnir eru búnir að vera í uppreisn við hugmyndina um "mjúka manninn" all-lengi og stelpurnar nenna ekki lengur að halda einar uppi því sem var eftir af siðmenntaðri hegðun í hópnum.
Strákarnir eru kallaðir Lads (sveina) og stelpurnar Ladettes(sveinkur?) Afar siðmenntuð nöfn yfir frekar lágkúrulega lífsstefnu.
Þeir sem vinna að kynja-jafnréttismálum sjá mikla afturför í hegðun þessara krakka. Dræsutískan er alsráðandi meðal stelpnanna og grín strákanna gengur aðallega út á klúran sexisma. Markmið stelpnanna er ekki miklu hærra en að verða óléttar, komast á bætur og barnabætur og fá bæjaríbúð til umráða, án vinnandi maka til að missa ekki bæturnar.
19.1.2009 | 16:40
Hallelujah
Að leiða hugann að því sem virkilega gleður mann getur verið afar gagnleg sjálfsskoðun. Ég ákvað fyrir skömmu að gera skrá yfir þá hluti sem eru flestum aðgengilegir og hafa glatt mig í gegnum tíðina. Meðal tveggja laga sem ég setti á listann var lagið Halleluhja sem samið var af kanadíska ljóðskáldinu Leonard Cohen og gefið fyrst út á plötu með honum sjálfum árið 1984. Síðan þá hafa meira en 180 listamenn get laginu skil en af þeim sem ég hef heyrt, er ég enn hrifnastur af frumútgáfunni.
Cohen er sagður hafa gert áttatíu útgáfur af ljóðinu áður en hann varð sáttur við það og eitthvað mun hann síðar hafa reynt að krukka í textann því árið 1994 söng hann lagið á plötunni "Cohen live" og þar er textinn mikið breyttur.
Margt hefur verið ritað um merkingu upphaflega ljóðsins en það þykir augljóst að það er í stórum dráttum skírskotunin til ákveðinna texta úr Gamla testamentinu. Með þessum skýrskotunum skýrir ljóðmælandi afstöðu sína til Guðs og hvernig maðurinn, hann sjálfur, nálgast Guðdóminn. Titill lagsins og viðlag er lofgjörð og ákall til Guðs. Ljóðið er bæði heimspekilegt og Guðfræðilegt, en fyrst og fremst talar það til okkar í einfaldri fegurð sem hrífur sálina, hver sem skilningur okkar er.
Fyrsta erindið hljóðar svona;
Now I've heard there was a secret chord
That David played, and it pleased the Lord
But you don't really care for music, do you?
It goes like this
The fourth, the fifth
The minor fall, the major lift
The baffled king composing Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Í fyrri Samúelsbók 16:23 er þessa tilvitnun að finna:
Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.
Í niðurlagi erindisins er hljómagangur lagsins og tónfræði þess rakinn en það er jafnframt árétting stöðu mannsins (minor fall) sem fallinnar veru og guðdómsins (major lift) sem lyftir.
Annað erindið er svona;
Your faith was strong but you needed proof
You saw her bathing on the roof
Her beauty and the moonlight overthrew her
She tied you
To a kitchen chair
She broke your throne, and she cut your hair
And from your lips she drew the Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Það er einnig greinileg skírskotun til Samúelsbókar síðari 11:2, þar sem segir frá því er Sál fellur fyrir Batsebu.
Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur. 3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta." 4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.
Niðurlagið beinir huga okkar að örlögum Samsons sem greinir frá í Dómarabókinni 13-16. Breyskleiki allra, jafnvel þeirra sem eru Guði þóknanlegir er megin þemað í þessu erindi. Og það er breyskleikinn og freystingain (táknmyndir hans eru Batseba og Dalíla) sem draga lofgjörðina fram á varir okkar.
Í þriðja erindinu er fjallað um annað boðorðið
"Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
You say I took the name in vain
I don't even know the name
But if I did, well really, what's it to you?
There's a blaze of light
In every word
It doesn't matter which you heard
The holy or the broken Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Ljóðmælandi, sem mín skoðun er að sé Cohen sjálfur, segir að hann þekki ekki nafn Guðs og spyr hvaða máli það skipti þegar hann sjái hvert orð sem ljósaslóð,hvort sem þau eru tilbeiðsla mannsins sjálfs eða tilbeiðsla (Hallelujah) sem manninum er lögð í munn af Guði.
Fjórða og síðasta erindið hljóðar svona;
I did my best, it wasn't much
I couldn't feel, so I tried to touch
I've told the truth, I didn't come to fool you
And even though
It all went wrong
I'll stand before the Lord of Song
With nothing on my tongue but Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah
Sumir hafa reynt að setja þetta erindi í munn Krists en ég er því ósammála. Þetta er Cohen sjálfur sem talar til síns Guðs og segist koma til dyranna eins og hann er klæddur og þrátt fyrir breyskleika sína hafi hann reynt að gera líf sitt að lofgjörð.
Á myndabandinu hér fyrir neðan flytur Cohen lagið í Þýska sjónvarpinu. Hann er dálítið vandræðalegur með alla þessa "engla" fyrir ofan sig, en styrkur lagsins blívur samt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.1.2009 | 17:00
Kolbítar
Margt hefur verið rætt og ritað um "Inklings" (Bleklingana) lesklúbb þeirra félaga J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis. En löngu áður en þeir mynduðu með sér það laushnýtta samfélag samtímaskálda voru þeir saman í leshring sem þeir kölluðu Kolbíta.
Eða eins og Ármann Jakobsson orðar það á Vísindavefnum;
Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin.
Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.
Áhrif íslenskra bókmennta á vinsælustu lesningu síðustu aldar; Hringadróttinssögu, eru ótvíræð og sögusviðið sjálft "Miðgarður" ættleitt beint úr heimsmynd norrænnar goðafræðar. Kolbíta leshringurinn var starfræktur frá 1926 til 1933 átti stóran þátt í að móta frásagnarstíl og efnistök Tolkiens.
Margir Tolkiens aðdáendur hafa orðið til að velta fyrir sér nafninu "Kolbítar" og um það er að finna ýmislegt almennt á enskri tungu.
Ég var nýlega að leita að góðri lýsingu á hugtakinu til að segja frá því í boði sem haldið var til að minnast Tolkiens á fæðingardegi hans 3. janúar, þegar ég rakst á stórskemmtilega grein sem Már Viðar Másson skrifaði og heitir "Að rísa úr öskustónni" . Þar segir m.a;
Að leggjast í öskustóna var að taka sér hvíld frá amstri dagsins og taka út þroska sinn í friði. Öskustóin var við langeldinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða í eldahúsi. Sá sem lagðist þar fékk að vera í friði. Hann þurfti ekki að vinna hefðbundna vinnu þótt kannski hafi hann aðstoðað eldabuskurnar að einhverju marki, enda eins gott að koma sér vel við þær. Hann þurfti ekki að þrífa sig og mátti klæðast druslum. Vegna öskunnar kallaðist hann kolbítur. Aska er cinder, ella er kona og Öskubuska var kolbítur. A Kolbíturinn gat legið í öskunni mánuðum saman.
Einn góðan veðurdag reis hann upp, baðaði sig, rakaði (ef hann var karl), klippti hárið, klæddist og tók til við dagleg störf á nýjan leik. Hann hafði nú náð sáttum við sjálfan sig og aðra og var því tilbúinn til nýrra átaka. Í sumum tilvikum gekk faðir kolbítsins til hans, kannski á öðru ári, og fékk honum frækilegt verkefni að starfa að. Best var ef faðir gekk til sonar síns, sem þá var kannski sextán ára, og sagði: Þykir mér góð sonareign í þér. Nú skalt þú koma þér í skip með kaupmönnum, sigla með þeim til Noregs, heimsækja frændur þína þar, skila kveðju til konungs og koma aftur að hausti, færandi heimvarning og nokkurn frama. Hafðu þetta forláta sverð með í för og þennan farareyri. Líklega var algengast að menn legðust í öskustóna 12-15 ára gamlir. Ég veit það þó ekki fyrir víst.
Sumir telja að ekki hafi verið ástæða til að sinna þessum sið nema snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum föður og sonar. Var þá stundumsagt að sonurinn hefði óhlýðnast lögmáli föðurins. Ég ætla einmitt að taka dæmi af þannig vandræðaástandi hér. Þegar um stúlku var að ræða hefur líklega verið umerfitt samband að ræða milli hennar og móður, nema móðurina hafi hreinlega vantað. Öskubuska og Mjallhvít eru þekkt dæmi þar um. Oft fylgir sögunni að samband unglingsins við hitt foreldri sitt, það er af hinu kyninu, hafi veri náið, enda hefur kolbíturinn getað skákað í því skjólinu. Öskustóin var líklega tilraun unglingsins til að ná sáttum, til að bíða eftir því að nægilegur þroski yrði, svo hann mætti skilja betur hvert næsta skref hans yrði í lífinu. Sama gilti væntanlega um föðurinn, tíminn nýttist honum einnig til þroska. Efvel tókst til varð af því mikil gæfa. Og taugaveiklun og aðrir sálrænir kvillar voru þar með læknaðir. Kolbítar voru t.d. hinn norski Askaladden, hetjan Starkaður, Grettir, Egill og jafnvel Skalla-Grímur á gamals aldri. Og svo mætti lengi telja.
Oft er frá því sagt að kolbíturinn búi yfir undraverðum eiginleikum; sé óvenju stór og sterkur, búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, sé óvenju vel ættaður, eða sérlega fallegur. Og iðulega er eins og askan nái ekki að skyggja á gullið sem undir skín og bíður þess aðeins að af því sé dustað rykið. Hver man ekki eftir Bláskjá sem var af fínum ættum, en lenti um tíma hjá ribböldum. Í dimmum helli skógarmanna mátti sjá gylla í hárið undir skítnum og blámi augnanna var algerlega ósvikinn. Þegar Blárskjár komst aftur til manna spratt fram fullskapaður hefðarmaður. Dvölin í myrkrinu hafði ekki beygt hann, heldur þvert á móti dregið fram það besta í drengnum. Sama átti við um Oliver Twist.
Már Viðar Másson Að rísa úr öskustónni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2009 | 15:58
Himnafestingin
Í gærkvöldi var stjörnubjart hér um slóðir og ég eyddi dágóðum tíma í að góna upp á himnafestinguna og reyndi að rifja upp og átta mig á hvaða nöfn hafa verið gefin staka ljósdepli í gegnum tíðina.
Vetrarbrautin sem vel var sýnileg eins og slæða eftir há-himninum fékk mig til að hugleiða þetta íslenska nafn stjörnuþokunnar sem sólkerfið okkar tilheyrir; VETRARBRAUT.
Það heiti ku vera komið úr sænsku (Vintergatan) en gæti hæglega hafa verið samnorrænt hér áður fyrr. Skýringin á nafninu er sögð sú að Skandinavíubúar hafi reiknað út komu vetrar frá stöðu stjarnanna sem kann vel að vera satt.
Mér finnst samt líklegra að nafnið komi af því að stjörnuþokan er einfaldlega miklu sýnilegri á vetrarnóttum en um bjartar sumarnætur norðurslóða.
Á ensku heitir stjörnuþokan "The milky Way" (bókstaflega þýtt Mjólkurvegurinn) sem er þýðing á gríska hugtakinu Galaxias eða Galaxy (Mjólkurhringurinn) en það tengist grískri goðsögn. Seifur átti Herakles með Alkmene, mennskri konu. Seifur lætur Herakles sjúga brjóst Heru konu sinnar á nóttum þá hún svaf til að sveininn fengi guðlega eiginleika. Hera vaknar og ýtir Heraklesi af brjóstinu. Við það flæddi brjóstamjólk hennar út í alheiminn og úr varð Mjólkurvegurinn.
Það var rithöfundurinn og fjölfræðingurinn Geoffrey Chaucerninn (1343-1400) sem fyrstur notar enska heitið á prenti.
Það voru reyndar fleiri þjóðir en Grikkir sem settu himnafestinguna í samband við mjólk því Egyptar trúðu því að hún væri mjólkurpollur úr kýrgyðjunni Bat sem seinna rann saman við gyðjuna Hathor sem sögð var dóttir Ra og Nut.
Bat átti hljóðfæri sem nefnt var "sistrum" og þegar að hún rann saman Haf-þóru (Hwt-Hor) fékk Haf-Þóra hlutverk tónlistargyðju einnig. Sistrum (sjá mynd) varð í tímanna rás að hálsmeni og verndargrip sem ég hef oft séð um hálsinn á íslenskum ungmennum heima á Fróni. Líkt og þegar Loki stal Brísingameni Freyju var sistrum rænt af gyðjunni Haf-Þóru sem hún og endurheimti að lokum.
Þá segir í norrænni goðafræði frá kúnni Auðhumlu sem ís og eldar, auðn og gnótt Niflheims og Múspelsheims skópu. Auðhumla var móðir fyrsta guðsins Búra og frá henni runnu 4 mjólkurár. Hún nærði einnig þursinn Ými en úr höfði hans var himnahvelfingin gerð.
Á öllum tungumálum þar sem nafn stjörnuþokunnar er ekki þýtt beint úr latínu (Via Lactea=Mjólkurvegurinn) á heiti hennar rætur sínar að rekja til fornra goðsagna. Sumar þeirra eru afar skemmtilegar og ég læt hér fylgja með nokkur sýnishorn.
Ungverjar kalla himnafestinguna "Veg stríðsmannsins" eða Hadak Útja. Eftir honum átti Ksaba, hinn goðsagnakenndi sonur Atla Húnakonungs að kom ríðandi væri Ungverjum ógnað.
Finnar voru svo glöggir, að löngu áður en vísindamönnum tókst að sanna það, vissu þeir að farfuglar nota himintunglin til að rata milli hvela jarðarinnar. Þeir kalla stjörnuþokuna Linnunrata sem þýðir "Stígur fuglanna".
Cherokee Indíánar í Norður Ameríku kalla Vetrarbrautina Gili Ulisvsdanvyi. Sagan segir að hundur einn hafi stolið maís korni og verið hrakinn með það á braut. Hann hljóp í norður og missti niður allt kornið smá saman á leiðinni. Úr varð hið tilkomumikla nafn fyrir himnafestinguna "Leiðin sem hundurinn hljóp í burtu".
Satt að segja minnir nafngift Cherokee indíánanna á goðsögnina frá Armeníu. Í henni er það guðinn Vahag sem stelur, einn kaldan vetur, stráum frá Barsham konungi Assýríu og flytur það til Armeníu. Hann flýði með stráin um himnaveginn og tapaði nokkru af stráunum á leiðinni. Nafnið á stjörnuþokunni okkar er því "Stráþjófsleiðin".
Dægurmál | Breytt 15.1.2009 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.1.2009 | 19:05
Fædd tveimur dögum eftir dauða móður sinnar
Fyrrum skautastjarna í Bretlandi fæddi barn tveimur dögum eftir að hún hafði verið úrskurðuð látin af völdum heilablóðfalls.
Jayne Soliman var úrskurðuð heiladauð en hjarta hennar var haldið gangandi þar til að hægt var að bjarga dóttur hennar Ayu (þýðir kraftaverk á kórísku) með keisaraskurði.
Jayne sem var 41. árs þegar hún lést, var komin 25 vikur á leið þegar hún fékk heilablóðfall á heimili sínu á Englandi.
Henni var flogið til John Radcliffe sjúkrahússins í Oxford þann 7. janúar. Dóttir hennar kom í heiminn tveimur dögum seinna og vó þá um eitt kíló.
Fyrstu 48 tímana var dælt í lungu hennar miklu magni af sterum til að hjálpa þeim að þroskast.
Faðirinn Mahmoud Soliman, var viðstaddur fæðinguna.
Útför móðurinnar Jayne Soliman fór fram á laugardaginn s.l. að viðstöddu fjölmenni.
Soliman, áður Jayne Campbell, var Bretlandsmeistari í frjálsum skautadansi árið 1989 og var þá talin sú sjöunda besta í heiminum.
Dægurmál | Breytt 14.1.2009 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.1.2009 | 16:33
Ókurteisi prinsinn
FYRSTI APRÍL !
SKÁL Í BOÐINU -
EKKI KOMA UPP UM GABBIÐ Í ATHUGASEMDUM FORSÍÐUNNI SAMT . ATHUGASEMDIR VELKOMNAR HÉR FYRIR NEÐAN.
Dægurmál | Breytt 31.3.2009 kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)