Færsluflokkur: Trúmál

Heppnir menn í Japan

Japanir öðrum þjóðum fremur trúa á heppni. Í menningu þeirra stjórnar hópur sjö Guða sem saman eru nefndir Shichifukujin, hamingju fólks sem mest ræðst af heppni þeirra. Það er því ekki að furða að saga Zahrul Fuadi hafi ratað á síður japönsku blaðanna og þaðan í heimspressuna.

Heppni hans er vissulega mikil og jafnast kannski á við heppni Japanans Tsutomu Yamaguchi sem lifði af tvær kjarnorkusprengingar  í Ágúst árið 1945 þegar Bandaríkjamenn beittu kjarnavopnum gegn japönsku borginni Hiroshima þar sem Tsutomu Yamaguchi var í heimsókn og aftur þremur dögum seinna , heimaborg hans ,Nagasaki.

 


mbl.is Slapp undan tveimur flóðbylgjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áadýrkunin í Kína

Áadýrkun í KínaÁadýrkun hefur verið stunduð með einum eða öðrum hætti meðal flestra þjóða heimsins. Oft er áadýrkun flokkuð með frumstæðum átrúnaði og ranglega tengd við ættbálka sem menningarlega hafa dagað uppi sökum einangrunar.

Hluti áadýrkunar er að efna til viðamikilla útfararathafna, halda til haga nöfnum og afrekum ættfeðra sinna, hirða um og fegra grafir eða garfreiti þeirra, efna til minningarhátíða um þá og heita á þá þegar mikið liggur við.

Allt eru þetta vel kunnir þættir úr íslenskri menningu þótt því sé sjaldan haldið fram að á landinu sé stunduð áadýrkun.

Dæmi eru til um þjóðir sem ótvírætt  teljast miklar menningarþjóðir, þar sem átrúnaður á forfeðurna hefur verið svo ríkjandi að hann hefur mótað menninguna að stórum hluta. Þannig var um Kínaveldi til forna og er enn að miklu leiti.  Shenismi, (Animismi), Taóismi, Búddismi og kenningar Konfúsíusar eru  lífsstefnur sem stundaðar voru í Kína ásamt áadýrkuninni. Þær hörfuðu um tíma fyrir guðleysiskenningum kommúnisma Maós, en samtímis hélt áadýrkunin velli meðal þjóðarinnar, þrátt fyrir að mikið af innihaldi hennar væri í andstöðu við jafnræðis og jafnréttishugsjónir sósíalismans.

Áafórn í KínaÍ Kína var áadýrkun svo ríkur þáttur í samfélaginu að  hún gerði samskipti dauðra og lifandi að eðlilegum hluta daglegs lífs. Hugmyndir fólks um framhaldslíf og tilgang jarðlífsins, bjuggu að baki flestum hversdagslegum hefðum og siðum sem hvergi var kvikað frá allt fram á tuttugustu öldina.

Fólk trúði því almennt að sálir manna lifðu af líkamsdauðann og ef þær áttu að geta dafnað í hinum andlega heimi þurftu þær að nærast, rétt eins og líkamar hinna lifandi þurfa á næringu að halda í lifanda lífi. Næring sálarinnar voru fyrirbænir og virðing lifenda sem tjáð var með daglegum helgisiðum fyrir framan helgiskrín forfeðranna sem tilheyrði hverju heimili.

Dauði markaði þannig miklu frekar upphaf á samskiptum fólks, en enda. Jarðarfarir og aðrar athafnir sem tengdust dauða hvers karlmanns, voru umfangsmiklar og dýrar. Sorgarklæði voru hvít að lit og fór skærleiki klæðanna eftir því hversu náinn skyldleiki var með viðkomandi og hinum látna.

Heimilisaltari á kínversku heimiliÞjóðfélagsmunstur gamla Kína endurspeglaði mjög skoðanir Kínverja á eðli lífsins eftir dauðann. Sú staðreynd að konur voru afar lítils metnar í samfélaginu, stóð í beinu samandi við áadýrkunina.  Karlmaður sem ekki átti sonu, gat ekki búist við að fá nokkurn stuðning í lífinu handan dauðans. Konur voru gefnar körlum og eftir að þær yfirgáfu heimili sín tóku þær upp dýrkun forfeðra eiginmannsins.

Fyrir afkomendur látinna var sorgartímabilið tími mikilla prófrauna. Í 27 mánuði frá dauða föður klæddust börn hans látna afar þungum og afar óþægilegum strigafatnaði. Þau máttu ekki neyta kjöts, brúka leirtau, njóta kynlífs eða skera hár sitt eða skegg. -

Þeir sem fylgja vildu reglum strangtrúaðra út í æsar, byggðu sér lítið sel úr grjóti á gröf hins látna og bjuggu þar í því allt sorgartímabilið. - Lög hvers fylkis í Kína höfðu mismunandi viðurlög við því að fylgja ekki reglum sorgartímans en það heyrði til tíðinda ef dæma þurfti einhvern fyrir brot á þeim, svo grannt og almennt var eftir þeim farið.

Hinna framliðnu ættingja minnstÁ vori og hausti var efnt til svo kallaðra grafreitaþrifa-hátíða. Slíkar hátíðir voru fjölskyldusamkomur, haldnar við grafreiti forfeðranna.   Allir viðstaddir tóku þá allir þátt í að hreinsa grafreitinn og fegra hann. Máltíð var snædd við gröfina og hluta hennar spillt á jörðina fyrir hinn framliðnu.

Ádýrkun fór vel saman með kínverskri alþýðutrú. Flestir komu fyrir líkneskjum af minni guðum við eldstæði,  dyr og í forgarði hvers heimilis. Hlutverk þessara goða var að fylgjast með hegðun heimilisfólksins og gefa hver ármót um hana skýrslu til yfirguðanna. Þess vegna var reynt að blíðka goðin með að gefa þeim kökur um hver áramót.  - Velferð heimilisins valt sem sagt á að vera í fullri sátt við guði, menn og gengna forfeður.


Sjöundi dagur í paradís

784px-Sjoundi_dagur_i_ParadisEins og svo margir aðrir hreifst ég mjög af mynd  Guðmundar Thorsteinssonar, Sjöundi dagur í paradís, í fyrsta sinn sem ég sá hana.

Bíldudalsprinsinn Muggur vann þessa klippimynd úr glitpappír árið 1920 í Danmörku þar sem hann bjó og óhætt er að fullyrða að hún sé ásamt altaristöflunni í Bessastaðakirkju hans þekktasta verk.

Myndefnið er afar sérkennilegt og ekki endilega auðlesið. Heiti myndarinnar bendir okkur strax í rétta átt.

Bæði í Kristni og Íslam er orðið paradís notað yfir aldingarðinn Eden og himnaríki. Orðið er komið úr forn-persnesku og þýðir garður alsnægta. Úr persnesku ratar það inn í bæði grísku (parádeisos) og Hebresku (pardes).

Gudmundur_Thorsteinsson01Myndin sýnir alskeggjaðan karlmann í kjól  eða kirtli  á göngu niður að árbakka eða stöðuvatni. Á eftir honum koma tvær kirtilklæddar og afar fíngerðar en kynlausar verur. Öll þrjú bera geislabauga. 

Í vatninu vappa háfættir vaðfuglar, hugsanlega trönur og handan lagarins sést kengúra með afkvæmi sitt í pokanum. Tré og annar gróður er forsögulegur í útliti.

Mér finnst því langlíklegast að sögusvið mundarinnar sé aldingarðurinn Eden og vatnið sé fljótið sem rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og kvíslaðist þaðan og varð að fjórum stórám, eins og því er lýst í sköpunarsögunni.

Eins og sagan er sögð í fyrstu Mósebók voru Adam og Eva ekki lengi í Paradís. Þau áttuðu sig á að það var mikill munur á réttu og röngu eftir að þau átu af skilningstrénu, og gátu því ekki lengur hagað sér eins og dýr merkurinnar.

Þess vegna urðu þau að yfirgefa Paradís og fara að yrkja jörðina.

Guð kærði sig ekki um að þau eða einhver annar kæmist aftur inn í garðinn og setti því "kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré."

Kerúbar eru einskonar varðenglar og í skýringaritum Gyðinga við Tóruna segir að þessir englar hafi verið tveir og heitið Jophiel og Metatron.

Eftir að Guð hafði skapað alheiminn og rekið Adam og frú úr Paradís, var hann vitaskuld þreyttur og ákvað að hvíla sig. Hann vissi að Pardísargarðurinn var einmitt eini staðurinn sem hann mundi hafa frið. Deginum eftir að hann lauk sköpuninni ákvað hann að eyða í gönguferð um Paradís. Jophiel og Metatron sem gættu líka Guðs þegar hann var í hásætinu og slógust því í för með honum.

Og þetta held ég að hafi verið í huga Muggs þegar hann límdi saman listaverkið Sjöundi dagur í Paradís.


Betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.

Páll postuliHann var fæddur í borginni Tarsus í Tyrklandi einhvern tíman á fyrstu árum hins kristna tímatals og nefndur Sál. Hann var rómverskur þegn af gyðingaættum, talaði hebresku og hlaut gyðinglega menntun og uppeldi. Sem ungur maður hélt hann til Jerúsalem og nam trúarleg fræði hjá hinum fræga fræðimanni og rabbína, Gamalíel. Hugsanlegt er að hann hafi verið í Jerúsalem á sama tíma og Jesús Kristur, en talið er vafasamt að þeir hafi nokkru sinni hist.

Eftir að krossfestingu Jesús, var litið á fylgjendur hans sem trúvillinga og þeir ofsóttir. Sál var einn þeirra sem tók virkan þátt í þeim ofsóknum. Hann hugðist elta uppi það kristna fólk sem flúið hafði til Damasks frá Palestínu. Á leið sinni þangað fékk hann vitrun. Kristur birtist hinum, ræddi við hann og snéri honum til kristni. Eftir það varð hann kunnur undir nafniu  Páll.

Eftir að Sál gerðist kristinn varði hann tíma sínum til að hugsa og skrifa um hinn nýja sið. Hann varð  einnig einn af virkustu og afkastamestu kennurum hinna nýju trúarbragða. Hann ferðaðist víða og boðaði fagnaðarerindið, m.a. til Sýrlands, Grikklands og Palestínu.

Hann er í dag kunnastur fyrir áhrif sín á þróun guðfræði kristindómsins og er tvímælalaust áhrifamesti höfundur allra kristinna rithöfunda fyrr og síðar. Hann er skrifaður fyrir 13 af 27 ritum Nýja Testamentisins en það er einnig talið líklegt að fjögur þeirra eða fleiri séu ekki eftir hann.

Páli gekk illa að kenna Gyðingum kristni en meðal "heiðingjanna" gekk honum frábærlega og er því stundum kallaður postuli heiðingjanna.

Eftir þrár langar kennsluferðir um löndin fyrir botni Miðjarðarhafs, hélt hann til Jerúsalem og var handtekinn þar. Þaðan var hann sendur til Rómar þar sem réttað var yfir hinum. Ekki er vitað hvernig réttarhöldin enduðu eða hvort hann yfirgaf nokkurn tíman Róm. Hann var að lokum tekinn af lífi (líklega árið 64)ekki langt frá Róm.

Páll postuli við ritstörfHin miklu áhrif Páls postula á kristna trú  hvílir á þremur stöplum. 1. Hinu frábæra gengi hans sem kennari trúarinnar. 2. Ritum hans sem eru mikilvægur hluti af Nýja Testamentinu. 3. Þætti hans í þróun kristinnar guðfræði. Meðal guðfræðihugmynda hans eru;

Að Jesús væri ekki aðeins innblásinn spámaður, heldur Guð.

Að Jesús hafi dáið fyrir syndir okkar og að þjáningar hans endurleysi okkur.

Að maður öðlist ekki hjálpræði með því að fara eftir lagasetningum Biblíunnar heldur aðeins með því að viðurkenna Krist. Þar af leiðandi munu syndir mannsins verða fyrirgefnar með því einu að viðurkenna Krist.

Páll lagði líka mikla áherslu á kenningarnar um erfðasyndina (Rómverjabréfið 5:12-19)

Vegna þess að fólk gat ekki öðlast hjálpræði með því að hlíða lögum Biblíunnar, sá Páll engan tilgang fyrir nýja átrúendur að framfylgja þeim sérstaklega. Margir af hinum gömlu leiðtogum kristinna voru honum ekki sammála en leiða má líkur að trúin hefði ekki breiðst eins hratt og hún gerði um rómverska heimsveldið ef skoðannir þeirra hefðu orðið ofan á.

Dauði PálsPáll kvongaðist aldrei og þótt ekki sé nein leið að sanna það, er líklegt að hann hafi aldrei haft samræði við konu. Viðhorf hans til kvenna og kynlífs sem fundu leið inn í "heilaga ritningu" höfðu afar mikil áhrif á kristna menningu fram eftir öldum. Frægustu kennisetningu hans um þessi mál, er að finna í Fyrra Korintubréfinu 7:8-9;

"En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.

8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. 9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd."

Páll hafði einnig sterkar skoðanir á stöðu kvenna. Í fyrra Tímóteusarbréfinu 2:11-15. segir hann;

"11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. 13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. 15 En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti."

Vafalaust er Páll þarna að tjá skoðun sem var ríkjandi á meðal samtímamanna hans. En það er athyglisvert að ekki eru hafðar neitt svipaðar fullyrðingar eftir Kristi sjálfum.

Meira enn nokkur annar maður var Páll ábirgur fyrir að umbreyta kristni úr gyðinglegum sértrúarflokki í heimstrúarbrögð.

Kenningar hans um að Kristur sé Guð og að réttlæting verði aðeins vegna trúar, hafa legið til grundvallar kristni í gegnum aldirnar. Alir kristnir guðfræðingar sem fylgdu í kjölfarið, þ.á.m. Ágústínus, Aquínas, Lúter, og Kalvin voru allir undir miklum áhrifum frá ritum Páls.

Áhrif hans hafa verið svo mikil að sumir fræðimenn haf haldið því fram að hann frekar en Kristur eigi að teljast höfundur kristinnar trúar. Eflaust eru þau viðhorf samt orðum aukin. En víst er að Páll er áhrifamesti kristni einstaklingurinn sem lifað hefur.


Vissulega munu múslímar verða áfram við völd í Egyptalandi

Fréttaflutningur Mbl.is af mótmælunum í Egyptalandi er litaður af miklum fordómum og vanþekkingu. Í þessari frétt er talað um ótta Ísraela við að múslímar komist til valda í Egyptalandi. Fyrir það fyrsta er núverandi forseti Hosini Mubarak og aðrir valdhafar Egyptalands múslímar.

Þeir sem koma til að taka við völdum ef Múbarak fer frá, verða að öllum líkindum múslímar enda þjóðin íslömsk.

Það sem Ísraelsmenn og aðrir óttast er að einhverjir öfgasinnaðir múslímar komist til valda í Egyptalandi. Það er til vansa að engin tilraun er gerð til að greina þarna á milli í þessari frétt, rétt eins og munurinn sé enginn. 

Þá er þráfaldlega talað um Egyptaland sem "Arabaland" og þjóðina sem Arabaþjóð. Hvorugt er rétt. Stærsti hluti þess fólks sem býr í Egyptalandi er ekki arabískur heldur þjóð innfæddra sem kallaðir eru Egyptar.


mbl.is Ísraelar óttast múslímastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Boy from Brazil

The boy from BrazilÞað hljóp óvænt á snærið hjá páfanum þegar að sex ára drenghnokka frá Brasilíu tókst að sleppa inn fyrir raðir lífvarða hans og ná af honum tali.

Siðareglur Vatíkansins banna svona hegðun algerlega en siðameistari páfa var fljótur að sjá þetta sem tækifæri fyrir fulltrúa Guðs á jörðu til að fara eftir orðum Krists; "Leyfið börnunum að koma til mín, bannið þeim það ekki því að slíkra er Guðs ríki."

Úr varð einnig ágætis tækifæri til bættra almenningstengsla því sagan og myndirnar af páfa að blessa barnið flugu um heimsbyggðina á örskammri stundu.

Siðareglur í Vatíkaninu eru nokkuð margar og sumar allfurðulegar. Þær sem mest snerta almenning eru reglurnar um klæðaburð ferðamanna sem heimsækja Vatíkanið. Hvorki karlar né konur mega vera í stuttbuxum, stuttu pilsi eða ermalausri skyrtu og bol, og skiptir þá engu hversu heitt er eða kalt í veðri.

Við formlega atburði gilda strangari reglur. Þá verða konur að klæðast síðum kjólum eða pilsum við ófleginn topp og hafa um höfuð sér svartan langan klút (mantillu), en karlar verða að vera í dökkum jakkafötum með bindi og alles.

 


mbl.is Drengur braut siðareglur í páfagarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygapistillinn sagður sannleikur

Í annað sinn á rúmri viku birtist hér á blog.is og því haldið fram að um sannindi sé að ræða, falsaður pistill sem sagður er ættaður úr munni forsætisráðherra Ástralíu, Júlíu Gillard.

Í þessum lygapistli eru forsætisráðherranum lögð óvarleg orð í munn um múslíma og Íslam. Einhverjir hafa orðið til að trúa þessu þvættingi, tekið undir hann og jafnvel bætt um betur, í athugasemdum við hann, eins og sjá má á þessum tveimur bloggum.

En það sem er öllu verra,  er að þeir sem birt hafa þessa flökkusögu sem sanna, hafa annað hvort ekki haft fyrir því að leiðrétta málið við lesendur sína, eða jafnvel þrætt fyrir að pistillinn sé uppspuni, eins og Verkfræðingurinn Halldór Jónsson gerir á sínu bloggi,en hann var einmitt sá sem fyrri til varð að bera þetta bull á borð fyrir lesendur sína sem sannleika fyrir rúmlega viku síðan, hér á blog.is

Sá seinni,  Jón Valur Jensson, sem þegar þetta er skrifað, er enn  að athuga sannleiksgildi þess að þessi "ræða" sé tilbúningur,  eftir að honum var bent á það í athugasemd snemma í morgun, hefur greinilega ekki lesið blogg Halldórs, né haft fyrir því að kynna sér uppruna spunans áður en hann vakti á honum athygli sem "einhverju kröftugu og hyggindalegu um múslíma í vestrænum samfélögum" eins og hann kemst að orði.

PS. Sé nú á athugasemdum frá Jóni á bloggsíðu hans, að hann álítur pistilinn uppspuna og ætlar að leiðrétta það við lesendur sína. Gott hjá honum. kl:01:43


Jólabloggsíðan

 Merkilegt hve tíminn er fljótur að líða.  Aftur að koma jól og nýbúin... og ég á leiðinni í "jólafrí" til Cornwall þar sem ekkert tækifæri verður til að komast í tölvu, hvað þá að blogga.  

Ég var að renna yfir gömul blogg þar sem ég á einhvern hátt fjalla um jólahátíðina og þennan sérstaka árstíma og ákvað svo að taka þau saman og birta á einni síðu.

Gullið Jólatré 

Smá aðventu-jólablogg

Hvít Jól

Glastonbury þyrnir

Jólasaga fyrir unglinga

Jólahald fátækra

Eins og hræða í melónugarði

Ljósin í bænum

Af kjölturökkum og frönskum flóm

 


Eins og hræða í melónugarði

Jóla-tréhöggÁ flestum íslenskum heimilum sem öðrum meðal kristinna þjóða, þykja engin jól, nema að jólatré standi uppi í stofunni ljósum skreytt og prýtt silfur og gullglysi.  Flestir vita að jólatré tengist ekki beint fæðingarhátíð frelsarans og að siðurinn á rætur sínar að rekja til heiðni. Reyndar tók Marteinn Lúther jólatréð upp á sína arma og sagði það vera táknrænt fyrir lífsins tré í aldingarðinum Eden og vera þannig mótvægi við eftirlíkingu og uppstillingu kaþólskara af fæðingu Krists þar sem hann liggur í jötunni.

Fæstir veita því nokkra eftirtekt eða finnst það skipta nokkru máli, úr því sem komið er, að Biblían sjálf sýnist tala á móti þessum sið og vara við honum.

Gullið JólatréJeramía 10:1-5

"1Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús! 2Svo segir Drottinn:

Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

3Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, 4hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

5Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott. "


Ljósin í bænum

Musteris -MenóraEitt af elstu trúartáknum Gyðingdóms er sjö arma ljósastika. Í annarri Mósebók er sagt frá því hvernig Guð fyrirskipar gerð hennar og lögun. Eftir gerð stikunar var henni komið fyrir í helgidómi þjóðarinnar, fyrst í tjaldbúðinni og síðar musterinu í Jerúsalem.

"31Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 32Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 33Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 34Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 35einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 36Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

37Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 38Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 39Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 40Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."

Á hebresku er stikan kölluð Menóra sem einfaldlega þýðir lampi eða ljósastika. Á hverjum degi voru bikarar stikunnar fylltar af ólívur-olíu og síðdegis kveiktu prestarnir á þeim. Andleg merking stikunnar kemur fram í lokasetningu tilvitnunarinnar. Hún á að minna á opinberun Móses á fjallinu þar sem Drottinn birtist honum sem logandi runni. Stikan er sem sagt listræn eftirlíking af trjárunna.

Fram undir árið 200 F.K. heyrði Júdea undir Egyptaland. Þá réðist Antiochus III  Sýrlandskonungur inn í Egyptaland og yfirtók lendur þess. Um hríð bjuggu Gyðingar við einskonar heimastjórn. Árið 175 F.K. réðist Antiochus IV inn í  Jerúsalem og hertók borgina. Hann spillti helgidómi musterisins og bannaði hinar daglegu fórnir sem þar voru færðar og aðrar helgiathafnir sem fóru fram. Bannið varði í þrjú ár og sex mánuði, eða þar til allsherjar uppreisn var gerð í borginni, leidd af Matthíasi yfirpresti og sonum hans. Einn þeirra Judah, sem varð þekktur undir nafninu  Yehuda HaMakabi, (hamarinn) tók síðar við embætti föður síns.  Árið 165 F.K. tókst gyðingum að reka sýrlendinga af höndum sér og frelsa helgidóm sinn.

Sagan segir að þegar endurhelga átti musterið og kveikja skyldi aftur á hinum helga ljósastjaka, kom í ljós að sýrlendingar höfðu eyðilagt allt ljósmetið fyrir utan litla krukku sem bar innsigli yfirprestsins. Átta daga og nætur tók að útbúa nýja olíu og á meðan loguðu ljósin á stikunni af olíunni úr krukku prestsins sem dugði allan þann tíma.

Menorah 2Til að minnast þessa atburða lét Judah efna til hátíðarhalda, ljósahátíðarinnar Hanukkah sem festi sig í sessi og er haldin hátíðleg hvar sem Gyðingar búa enn í dag. Hún hefst  25. dag Kislev mánaðar hebreska dagatalsins sem fellur á seinni hluta nóvember til seinni hluta desember mánaðar samkvæmt Gregoríska tímatalinu. Hátíðin stendur í átta daga og átta nætur og með með henni varð til níu arma ljósastikan sem gjarnan logar fyrir utan hús Gyðinga yfir hátíðna.

Níu arma ljósastikan er táknræn fyrir dagana og næturnar átta en ljósið í miðjunni er kallað shamash (hjálpari), og er því einu ætlað að lýsa fólki. Hin átta eru tendruð til minningar um kraftaverkið með olíuna og til að lofa Guð.

AðventuljósVíkur þá sögunni til Svíþjóðar. Í kring um jólin 1964, (á þeim tíma sem flest öll hús á Íslandi voru komin með rafmagn), var kaupsýslumaðurinn Gunnar Ásgeirsson á ferð í Stokkhólmi. Gunnar átti mikil skipti við sænsk fyrirtæki og flutti til að mynda bæði inn Volvo og Husquarna. Á þessari ferð rakst hann á einfalda trépíramíta með sjö ljósum og ýmislega í laginu. Hér var um að ræða nýjung í Svíþjóð; lítt þekktir smáframleiðendur voru að reyna að koma föndri sínu á framfæri í jólavertíðinni. Um þetta segir ágætisgrein um uppruna "gyðingaljósanna" á Íslandi á vísindavefnum. 

"Þessi framleiðsla hafði þá ekki slegið í gegn í Svíþjóð og mun ekki hafa gert fyrr en um 1980. Gunnari datt hinsvegar í hug að þetta gæti verið sniðugt að gefa gömlum frænkum sínum, handa hverjum menn eru oft í vandræðum með að finna gjafir. Hann keypti held ég þrjú lítil ljós, og þau gerðu mikla lukku hjá frænkunum og vinkonum þeirra. Gunnar keypti því fleiri ljós næsta ár til gjafa sem hlutu sömu viðtökur. Þá fyrst fór hann að flytja þetta inn sem verslunarvöru, og smám saman þótti það naumast hús með húsi ef ekki er slíkt glingur í gluggum."

Menóra í KirkjuÞessi tegund af ljósum eru stundum kölluð "gyðingaljós" af því þau minna um margt á ljósahátíðar ljósastikur Gyðinga. En myndir af slíku stikum er einnig að finna í sumum kirkjum og er líklegra að sænsku hagleiksmennirnir hafi fengið hugmyndina þaðan, frekar en úr musteri gyðinga til forna.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband