Færsluflokkur: Trúmál

Vantrú og stjórnarskráin

74. grein stjórnarskrárinnar tryggir rétt manna til að stofna með sér félög.

Hún segir;

"Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi."

En hvað um félög sem hafa það eitt á stefnuskrá sinni að vinna gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar.  - Hafa slík félög löglegan tilgang?

Í stefnuskrá félagsskaparins Vantrú segir svo;

2.gr. Tilgangur félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.

Fyrir utan að flokka skiplögð trúarbrögð sem "hindurvitni" sem er gróf vannirðing við lífskoðanir mikils meirihluta almennings, er tilgangur félagsins að vinna gegn boðun þeirra. . - Í ljósi umræðu síðustu vikna um að banna trúaráróður í skólum, gætu sumir haldið að þetta markmið Vantrúar ætti sérstaklega við það, en svo er ekki. Það á við alla boðun skipulagðra trúarbragða, hvar og hvenær sem hún fer fram.

Stór hluti starfsemi skipulagðra trúarbragða snýst einmitt um boðun þeirra og rétturinn til að ástunda og tilheyra slíkum trúarbrögðum er verndaður með ákvæði í stjórnarskrá landsins.

63. grein hennar hljóðar svona;

"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."

Ef Vantrú væri félagsskapur fólks sem kemur saman til að iðka vantrú sína, væri ekkert við það að athuga. Þvert á móti hefur Vantrú á stefnuskrá sinni að vinna gegn trúarsannfæringu annarra og þeim félögum sem trúaðir tilheyra. 

Í þriðju grein markmiða félagsskaparins er því lýst hvernig hann hyggist ná markmiðum sínum.

3.gr. Tilganginum hyggst félagið m.a. ná með því að stuðla að gagnrýninni umræðu um trúmál og halda úti vefsíðu sem fjallar um trúmál, trúleysi og efahyggju. Félagið skal einnig vinna að tilgangi sínum með öðrum hætti s.s. útgáfustarfsemi eða fyrirlestrahaldi eða aðild að fyrirlestrum sem varða markmið þess.

Ætla mætti af þessu að megin áherslur félagsins eigi að vera á almenna fræðslu um trúleysisstefnuna. Raunin er allt önnur. Megináhersla þeirra sem skrifa fyrir félagið eru grófar árásir á málflutning og skrif þeirra sem tilheyra skipulögðum trúarbrögðum. Fjallað er um pistla og ræður einstakra manna á þann hátt að það jaðrar við eineltistilburði svo ekki sé meira sagt. - Þess vegna er full ástæða til að spyrja hvort félagið Vantrú hafi löglegan tilgang.


Pólitíkin í Krossinum

Gunnar Þorsteinsson segir að ásakanir á hendur sér um kynferðisbrot séu af "safnaðarpólitískum toga". Mér er spurn, hvers konar pólitík er stunduð í Krossinum?

Krossinn er einn af þessum kristnu sértrúarsöfnuðum þar sem predikaður er sannleikurinn einn ala forstöðumaðurinn. Mállfluttningur hans virkar yfirleitt þannig á fólk eins og hann hafi fundið stóra sannleikann sem aftur gefur gefið honum  umboð til að túlka hann og predika yfir öðrum. Og eftir höfðinu dansa limirnir.

Forstöumaðurinn hefur einnig á sér yfirbragð þess sem stendur á siðferðislegum stalli, skör ofar en sauðirnir í söfnuðinum. -

Þegar þetta tvennt kemur saman, blandsast persónudýrkun sterkt inn í safnaðarstarfið.  Einingin og samheldnin í söfnuðum þar sem persónudýrkun er látin viðgangast er venjulega mjög brothætt. Um leið og óánægja kemur upp, beinist hún að forstöðumanninum.

Í Gunnars tilfelli teygir "safnaðarpólitíkin" sig inn í fjölskyldu hans sem gerir málið enn flóknara.

Óeiningin í Krossinum er greinilega orðin svo mikil að ásakanirnar á hendur forstöðumanninum hafa tekið á sig  mynd mjög alvarlegra ávirðinga. 

Hversu heilsteyptur og gagnlegur er boðskapur safnaðar þar sem svona alvarlegar ásakanir flokkast undir "Safnaðarpólitík"?


mbl.is Forstöðumaður Krossins sakaður um kynferðislega áreitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja fá að vita afstöðu frambjóðenda til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Það mun ekki líða á löngu þar til hin ýmsu hagsmunasamtök á landinu fara á stúfana til að forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til hinna ýmsu mála. Sú vitneskja getur ráðið úrslitum þegar kemur að kosningunum, sérstaklega ef vikomandi samtök ætla að beita sér fyrir vali þeirra sem eru hallir undir málstað þeirra. Formlegur fulltrúi þjóðkirkjunnar, Biskupsstofa,  hefur nú riðið á vaðið og sent beiðni til allra frambjóðendanna og beðið þá um að greina frá afstöðu sinni til aðskilnaðar ríkis og kirkju. -

Enn sem komið er styð ég aðeins einn frambjóðanda til þingsins, en hann heitir Inga Daníelsdóttir og er frá Ísafirði. Inga hefur birt á bloggi sínu svarbréf til biskupsstofu sem ég leyfi mér að endurbirta hér að neðan. Inga hefur nýlega opnað bloggsíði hér á blog.is og er hana að finna hér.

Miðað við nýlegar skoðanakannanir og niðurstöðu þjóðfundar virðist meirihluti almennings vilja rjúfa núverandi tengsl ríkis og þjóðkirkju og eðlilegt er að til þess verði horft við gerð stjórnarskrárinnar. Ástæður þess að fólk vill rjúfa tengslin eru í stórum dráttum af tvennum toga og afar ólíkar.

  • Sumir vilja einfaldlega sem allra minnst trúarleg áhrif í samfélaginu, telja trú og trúarbrögð arf fortíðar sem ekki eigi erindi við upplýsta nútímamenn.  
  • Aðrir tala um að tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið skapi henni svo mikil forréttindi umfram önnur trúfélög að í raun sé fólki mismunað eftir trúfélögum. Það sé því í þágu jafnréttis að rjúfa þessi tengsl.

Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins beita raunar síðari rökunum líka óspart.

Sé litið til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og notar þjónustu hennar á stærstu stundunum á lífsleiðinni, og jafnframt að meðlimir annarra trúfélaga skipta þúsundum, má ætla að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll trúfélaga frekar en að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að það hversu lítið hefur verið gert úr siðferði og gildum á undanförnum árum og áratugum í samanburði við frama og efnishyggju, hafi skaðað samfélagið verulega. Við þurfum að rækta, ekki aðeins siðvit heldur siðræna færni sem undirstöðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Allt sem gert er í lífinu byggist á einhvern hátt á skoðunum og viðhorfum. Trú og lífsviðhorf eru því ekki einkamál eins og margir halda fram.

Þótt líkur bendi til að fallið verði frá þjóðkirkju fyrirkomulaginu við gerð nýrrar stjórnarskrár vona ég að hægt verði að búa svo um hnúta að fótunum verði ekki kippt undan starfsemi kirkjunnar í einni svipan en hún fái aðlögunartíma til að fóta sig við nýjar aðstæður. Aðskilnaðurinn kann líka að vera flóknari en sumir ætla, m.a. vegna eigna sem deila má um hvort séu eign trúfélags eða þjóðareign.

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi.


Skynsöm afstaða til umdeilds máls

Mikið hefur verið rætt og skrifað um tillögur Mannréttindaráðs og menntaráðs Reykjavíkurborgar um bann við trúarstarfi innan grunn- og leikskóla borgarinnar. Hér að neðan er að finna bréf sem mér finnst sýna skynsama afstöðu til þessa umdeilda máls.

ANDLEGT ÞJÓÐARRÁÐ BAHÁ’ÍA Á ÍSLANDI

THE NATIONAL SPIRITUAL ASSEMBLY OF THE BAHÁ’ÍS OF ICELAND

Öldugata 2 – P.O. Box 536 – 121 Reykjavík

Sími/Telephone: + 354 - 567-0344 – Netfang/E-mail: nsa@bahai.is

Mannréttindaráð og Menntaráð

Ráðhús Reykjavíkur

Tjarnargötu 11

101 Reykjavík

Sent í tölvupósti á formenn nefndanna

margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is og

oddny.sturludottir@reykjavik.is

Einnig sent til valinna fjölmiðla

27. október 2010

Efni: Fræðum börnin en tryggjum sjálfstæði skólastarfsins

Nýlegar tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að banna trúarstarf innan grunn- og leikskóla borgarinnar hafa vakið sterk viðbrögð og heitar umræður. Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi vill af því tilefni koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri fyrir hönd íslenska bahá’í samfélagsins:

Sjálfstæði skólastarfs í landinu verður að tryggja með öllum ráðum. Það getur engan veginn talist eðlilegt að aðilar utan skólanna eigi sérstaka kröfu á að starfa innan þeirra.

Á hinn bóginn er mikilvægt að skólar njóti óskoraðs frelsis til að styðja við menntun og upplýsingu nemenda sinna, þar á meðal með almennri fræðslu um helstu trúarbrögð og trúarhugmyndir mannkyns.

Í slíkri fræðslu gæti til dæmis falist að bjóða talsmönnum trúar- og lífsskoðunarhópa að kynna trú sína og skoðanir auk vettvangsferða nemenda til þess að kynnast starfi þeirra. Slík fræðsla víkkar ekki aðeins sjóndeildarhring barnanna heldur getur einnig komið í veg fyrir þá fordóma sem fáfræði um fjölbreytilegan andlegan arf mannkynsins elur af sér.

Mikilvægt er að börnum líði vel í skóla og í ýmsum tilvikum getur það orðið til að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi að nemendurnir fái tækifæri til að kynnast sérstökum aðstæðum einstakra skólafélaga sinna, hvort heldur þær lúta að trú þeirra, þjóðerni eða fötlun, svo dæmi séu tekin. Kynning, heimsóknir eða vettvangsferðir ættu að vera sjálfsagður liður í þeirri viðleitni skólans.

Þekking á trúarbrögðum mannkyns flokkast ótvírætt undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins. Sé vel staðið að kennslu um trúarbrögð, heimspeki og lífsskoðanir almennt ætti hún einnig að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum trúar- og lífsskoðana en skólayfirvöld verða sjálf að setja rammann utan um þá kynningu og eiga frumkvæði að henni.

Með kveðju,

______________________________

Róbert Badí Baldursson

ritari Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi


mbl.is Sjálfstæði skólastarfs verði tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glíma

Glíman er elsta íþróttagreinin mannkynsins. Margt bendir til að fyrstu fangabrögðin hafi verið hluti af trúariðkun og hermigaldri.  

Í fornum helgisögnum mannkynsins, frá öllum álfum,  er að finna frásagnir af glímubrögðum trúarhetja og má yfirleitt lesa frásagnirnar á táknrænan hátt og sem lýsingu á hinni stöðugu baráttu milli góðs og ills sem mannkynið hefur háð bæði ytra sem innra með sér, frá upphafi.

Stundum er glíman háð við einhverjar óvættir, fulltrúa hins dýrslega í manninum og stundum við fulltrúa guðdómsins sjálfs eða tákngerving æðra eðlis mannsins.

Gilgames og EnkiduÞannig háði hinn súmerski Gilagames mikla glímu við villimanninn Enkidu sem hann náði að yfirbuga og gera síðan að miklum vini sínum. Í þeirri sögu nær maðurinn sátt við sitt lægra eðli.

Í hinu forna indverska trúarriti  Mahabharata sem ritað er á sanskrít, koma glímur nokkuð við sögu. Þeirra frægust er glíma tveggja þrautreyndra glímukappa, þeirra Bhima og  Jarasandha Glíman varði í 27 daga og  Bhima vann ekki sigur fyrr en Krishna sjálfur gaf honum til kynna hvernig granda mætti Jarasandha með því að slíta hann í sundur í tvo hluta.  Jarasandha var einmitt upphaflega búinn til úr tveimur líflausum búkshlutum.

Þá kannast flestir Ísendingar við söguna um heimsókn Þórs til Útgarða-Loka sem villir Þór sýn og fær hann til að glíma við Elli kellingu. Elli kom Þór á annað hnéð og var glíman þá úti.

Jakob glímir við GuðKunnastur glímukappa úr Biblíunni er Jakob Ísaks og Rebekkuson sem glímdi næturlangt við sjálft almættið sem tekið hafði á sig mannsmynd. Guð náði ekki að fella Jakob og grípur meira að segja til þess ráðs að beita belli brögðum með því að lemja Jakob á mjöðmina með þeim afleiðingum að lærleggurinn gekk úr liðnum. Sagan skýrir einnig hvaðan nafnið á Ísrael er komið og hvað það þýðir (Sá er glímir við Guð)

Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.

24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig." 27Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob." 28Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."

Í Hadíðunum, arfsögnum múslíma, er að finna frásögn af glímu spámannsins Múhameðs við einn af hinum vantrúuðu. Glíman á að hafa farið fram í Mekka en andstæðingur Múhameðs var Rukaanah Ibn ’Abd-Yazeed al-Qurayshee sem er sagður haf verið af hraustustu ætt Araba. Fyrir glímuna á Rukaanah að hafa lofað því að viðurkenna Múhameð ef honum takist að sigra. Múhameð náði að fella andstæðinginn þrisvar sem þá lýsti því yfir að Múhameð væri galdramaður. Seinna, segir arfsögnin, gekk hann Íslam á hönd. 

Kóresk glímaElstu  (2697 F.K.) heimildirnar um glímu eru kínverskar og segja frá mannati sem kallast  jǐao dǐ. (hornastang)  Í bjǐao dǐ binda keppendur á sig höfuðbúnað búinn hornum og reyna svo að stanga hvern annan.  Þeir líkja þannig eftir hegðun hrúta, nauta og annarra hyrndra dýra. Talið er að allar helstu tegundir austurlenskra fangbragða hafi þróast út frá  bjǐao dǐ og aftur út frá þeim hinar ýmsu tegundir austurlenskra bardagalista.

Sumum austurlenskum fangbrögðum svipar mjög til íslensku glímunnar. Næst henni að formi kemur án efa kóreska glíman hin svo kallaða  Ssireum sem enn er stunduð í Norður Kóreu sem bændaglíma.

Þá eru til mjög gamlar heimildir um glímu meðal Egypta. Þær elstu frá 2300 fk. eru steinristur í grafhýsi heimspekingsins Ptahhotep sem m.a ritaði bók um hvernig ungir menn ættu að hegða sér í lífinu.

Glímumenn í Súdan (Núbíu)Glíma mun hafa verið afar vinsæl íþrótt meðal Egypta og sýna sum veggmálverkin fangbrögð milli Egypta og Núbíu-manna. Ljóst er að egypsku fangbrögðin hafa varðveist meðal Núbíu-manna því enn glíma karlmenn í Súdan á svipaðan hátt. Meðal egypsku fangbragðanna er að finna flest öll tök sem tíðkast í nútíma frjálsri glímu.

Grísk-rómverska glíman sem ásamt frjálsu glímunni er Oliympíu íþrótt, er lýst í forn-grískum heimildum, þar á meðal bæði í Illions og Ódiseifskviðu.

Heimspekingurinn Platon er sagður hafa keppt í glímu á Isthmíu-leikunum.  Meðal Grikkja og seinna Rómverja var mjög vinsælt að skreyta muni, slegna minnt með glímuköppum og gera af þeim höggmyndir.

Solidus-Basil_I_with_Constantine_and_Eudoxia-sb1703Á miðöldum berst glíman norður eftir Evrópu og var hún stunduð af leikmönnum jafnt sem konungum og keisurum. Fræg er sagan af Basil l, armenska bóndasyninum sem varð að keisara yfir Austur-Rómverska keisaraveldinu og Mikael lll keisari gerði að lífverði sínum og skjólstæðing eftir að hann sigraði glímukappa frá Búlgaríu á miklu glímumóti sem haldið var árlega þar um slóðir.

Á heimasíðu Glímusambands Íslands er þennan fróðleik að finna um íslensku glímuna.

 

Íslensk GlímaGlíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Talið er að landnámsmenn hafi flutt með sér hingað hin bragðasnauðu fangbrögð Norðurlanda og einnig bragðafang Bretlandseyja. Hér á Íslandi runnu þessi fangbrögð saman í fjölbreytt fang með tökum í föt og fjölda bragða. Það hlaut nafnið Glíma.

 

Íslendingasögur segja víða frá því að menn reyndu með sér í glímu og lesa má í heimildum að meira reyndi á krafta en tækni á þeim tíma. Á þeim öldum sem liðið hafa hefur glíman þróast frá frumstæðu fangi til íþróttar sem gerir miklar kröfur til iðkenda sinna um tækni og snerpu.

 

Á fyrri öldum þótti enginn maður með mönnum nema hann væri hlutgengur í glímu. Smalamenn tóku eina bröndótta sér til hita og glímt var eftir kirkjuferðir og í landlegum vermanna. Í þjóðsögum grípa afreksmenn oft til glímunnar í viðureign við tröll og útilegumenn og hafa betur með leikni sinni og íþrótt gegn hamremi og ofurafli andstæðinganna. Enn í dag þykir mikið koma til góðra glímumanna og sú stæling og þjálfun sem glímumenn öðlast hefur oft komið sér vel í lífsbaráttunni.

 

Íslensk Glíma 1Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir um víða veröld. Þekktastar þeirra eru hið japanska súmó, sem er þó öllu heldur lífsstíll en íþrótt, svissneska sveiflan, (schwingen) og skoska backhold fangið að ógleymdu gouren í Frakklandi. Á seinni árum hafa glímumenn spreytt sig í þrem þeim síðastnefndu með góðum árangri.

 

Glíman sker sig úr öllum öðrum fangbrögðum á þrennan hátt:

1.Upprétt staða. Í glímunni skulu menn uppréttir standa. Staða margra fangbragða minnir helst á vinkil en í glímu heitir slíkt bol og er bannað.

2. Stígandinn. Í glímunni er stigið sem felst í því að menn stíga fram og aftur líkt og í dansi og berast í hring sólarsinnis. Stígandinn er eitt helsta einkenni glímunnar og er til þess fallinn að skapa færi til sóknar og varnar og að ekki verði kyrrstaða. Glímumenn skulu stöðugt stíga, bregða og verjast.

3. Níð. Í glímu er bannað að fylgja andstæðing eftir í gólfið eða ýta honum niður með afli og þjösnaskap. Slíkt er talið ódrengilegt og í andstöðu við eðli glímunnar sem drengskaparíþróttar. Glímumaður skal leggja andstæðing sinn á glímubragði svo vel útfærðu að dugi til byltu án frekari atbeina. Hugtakið níð er tæpast til í öðrum fangbrögðum.

Ár hvert keppa bestu glímumenn landsins um sigur í Íslandsglímunni. Þar er keppt um Grettisbeltið sem er elsti og veglegasti verðlaunagripur á Íslandi. Íslandsglíman fór fyrst fram á Akureyri árið 1906. Sigurvegari Íslandsglímunnar hlýtur Grettisbeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Íslands.

Síðasta áratuginn hafa konur einnig tekið þátt í glímu með góðum árangri. Stórmót þeirra heitir Freyjuglíman og sigurvegarinn er krýnd glímudrottning.

Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.

Á tímum hnattvæðingar reyna þjóðir mjög að halda fram sínum þjóðlegu

sérkennum. Slíkt er smáþjóð eins og Íslendingum nauðsyn til að undirstrika sérstöðu sína og þar liggur beinast við að efla glímuna, hina fornu, sérstæðu og glæsilegu þjóðaríþrótt okkar.

 

Frægust glíma úr íslendingasögunum er glíma Grettis Ásmundasonar og draugsins Gláms. Henni er lýst svona í Grettissögu;

glamur2Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.

Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri. "En fáum þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú hlytir engi vandræði af mér. En þó að þú komist heill á brott þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjóta sá er kemur."

Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.

Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.

Þá mælti Þórhallur: "Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá."

Grettir mælti: "Þá mun vera annaðhvort, að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer."

[ ... ]

Grettir og Glámur 1Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gnapti innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í setinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr setinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis setin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum.

Grettir og Glámur 3En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið, að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.

Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.

En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: "Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, "að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt, en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af munu falla til þín sektir og vígaferli en flestöll verk þín snúast þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér þá erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga."

Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn.


Er nauðsyn að eitthvað sé til frekar en ekkert?

Lykilspurningin í heimsfræðinni er; "Hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?".

Hafi alheimurinn orðið til eins og við vitum best, þ.e. með "mikla hvelli", gerðist hann ekki á sama hátt og aðrir atburðir gerast í alheiminum. Sá atburður gerðist ekki í tíma eða rúmi því hvoru tveggja varð til með alheiminum. Ekkert sem við þekkjum getur gerst nema það gerist í tíma og rúmi og lúti lögmálum þessa alheims, hvort sem við þekkjum þau eða ekki.  Hvað gerðist fyrir 20,000,000,000 árum, þegar að alheimurinn er aðeins 13,000,000,000 ára er því mótsagnarkennd og merkingarlaus spurning.

En gæti alheimurinn hafa orðið til úr öðrum alheimi? Er mögulegt að til séu óendanlega margir alheimar og að engin þeirra hafi átt sér frumorsök? Óendanleiki er og getur ekki verið ákveðin tala. Það er ekki hægt að draga frá óendanleika eða bæta við hann. 1 plús óendanleiki er sama sem óendanleiki. Hvernig getur þá okkar alheimur verið viðbót við eitthvað sem er óendanlegt?

Ef við blöndum heimspekinni inn í þessar spurningar, kemur eftirfarandi "mótsögn" í ljós.

Ef við segjum að Guð sé óskapaður en sé sjálfur skapari, er hann óumflýjanlega frumorsök alls. En skapari getur ekki verið til án þess að hafa skapað eitthvað sem hefur sjálfstæða tilvist fyrir utan hann. Hafi skaparinn alltaf verið til, erum við um leið að segja að sköpunin hafi alltaf verið til.

Til að hægt sé að tala um "sjálfstæða tilvist" á merkingarfullan hátt þarf að gera ráð fyrir vitsmunum sem eru nægilega miklir til að mynda bæði hlutlæg og óhlutlæg hugtök. Þess vegna gerum við ráð fyrir Guði sem hefur a.m.k. slíka vitsmuni.  Þess vegna getum við einnig gert ráð fyrir að sköpun Guðs hljóti að hafa verið ferli frá hinu óhlutlæga til hins hlutlæga. Hugmynd er fyrra stig sköpunarinnar, hluturinn sjálfur í hlutlægu formi annað stig.

Af þessum sökum er líklegt að sá alheimur sem við þekkjum sé hluti af óendanlegri keðju alheima og hann eins og aðrir alheimar hafi ætíð verið til. 

"Stórihvellur" getur því aðeins markað upphaf alheimsins sem hlutlægs veruleika. Sem hugmynd hlýtur hann alltaf hafa verið til sem og aðrir alheimar Guðs.

En megin spurning  heimsfræðinnar er "hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?" en ekki hvernig varð eitthvað til. Spurningin hvers vegna; gefur til kynna tilgang.

Fram til þessa hafa engar betri tilgátur komið fram til að svara þeirri spurningu en að gera ráð fyrir tilvisst Guðs og að alheiminum, sköpun hans, gefi hugsanlega eitthvað til kynna um hann sjálfan annað en það eitt að hann sé til.

Um það ætla ég að fjalla í næstu færslu; Nauðsyn þess að eitthvað til frekar en ekkert.


Kristið umburðarlyndi?

Séu þær ásakanir sem komið hafa fram sannar, hafa tvær stærstu kirkjudeildir kristinnar trúar á Íslandi, Evangelíska Lúterska Kirkjan (Þjóðkirkjan) og Kaþólska Kirkjan verið samtímis undir stjórn kynferðisafbrotamanna. 

Árið 1989 var Ólafur Skúlason kjörinn biskup Íslands og gegndi hann þeirri þjónustu til ársins 1997. Gijsen,  sá sem fjallað er um í meðfylgjandi frétt, varð biskup kaþólskra hér á landi árið 1996 og gegndi því embætti í nærri 12 ár, eða til 2008.

Kynferðisafbrot kristinna klerka, sem sumir hverjir hafa náð æðstu stöðum, hafa komið fram í flestum löndum heims þar sem kristni hefur á annað borð náð einhverri útbreiðslu. Afbrotamenn virðast leynast ansi víða í skjóli hempna sinna og þöggunar samfélagsins.

Leitin að þeim minnir reyndar um margt á aðferðirnar sem kirkjan sjálf notaði um langt skeið til að koma á eldköstinn fjölda kvenna og karla sem ásökuð voru um galdra eða jafnvel samneyti við kölska sjálfan. Aðeins þurfti að benda fingri til að rannsóknarrétturinn tæki til starfa við að pína játningu út úr farlama konum og sérvitrum körlum.

Þá kemur einnig upp í hugann hin víðtæka og langa leit að stríðsglæpamönnum seinni heimstyrjaldarinnar og viðleitnin til að láta þá svara til saka, jafnvel þótt þeim hafi tekist að fela sig í mörg ár.

Páfinn Benedict XVI segist harma mjög þann sársauka sem hirðarnir hans hafa valdið hjörðinni. Hann harmar eflaust einnig að hafa ekki beitt sér gegn prestinum Stephen Kiesle í Oakland, California sem hann vissi vel að var barnaníðingur. Árið 1981 var Joseph Ratzinger þá kardináli, nú Benedict XVI Páfi, yfirmaður nefndarinnar sem áti að fjalla um kynferðisafbrot kaþólksra presta. Þrátt fyrir að strax væri lagt til að Stepen yrði sviptur hempunni, þráaðist Ratzinger við í sex ár og bar við "the good of the universal church,”.

 Benedict XVI er á leið til Bretlands um þessar mundir.

Þar verður honum eflaust vel fagnað að Richard Nelson Williamson Biskupi sem er vel þekktur helfararafneitari. Richard var bannfærður fyrir bragðið af forvera núverandi páfa árið 1988 en Benedict XVI aflyfti þeirri bannfæringu í Janúar 2009 án þess að biskupinn léti af helfararafneituninni. - Umburðalyndur maður hann Joseph Ratzinger.


mbl.is Fyrrum biskup kaþólskra kærður fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burqa, tákn um kúgun

Hvað eftir annað rekst maður á umfjöllun um Burqa búning múslímakvenna og slæðuna sem oftar en ekki fylgir þessum  búningi. Í hugum margra er spurningunni hvort Burqa sé "fangelsi" eða "vernd" fyrir konuna ósvarað. Skoðum aðeins söguna.

Í Kóraninum er hvergi minnst á Burqa. Múhameð bauð fylgjendum sínum að virða reglurnar um "hijab"sem átti upphaflega við tjaldvegg sem hengdur var umhverfis vinnusvæði og vistarverur kvenna í hálfköruðum búðum Spámannsins í Medína eftir flótta hans frá Mekka. Reglurnar voru einfaldlega þær að karlmennirnir áttu að halda sig utan tjaldveggsins fyrir utan málsverðartíma nema þeir væru sérstaklega boðnir. -

"Ó þið sem trúið. Komið ekki í híbýli spámannsins til að matast fyrir utan viðeigandi tíma, nema að þið hafið fengið til þess leyfi. En ef ykkur hefur verið boðið, komið þá og þegar máltíðinni er lokið, hverfið þá á braut. Staldrið ekki við til samræðna, því það veldur spámanninum ama og að biðja ykkur um að fara er honum feimnismál; en Guð er ekki feiminn við sannleikann. Og þegar að þið biðjið konur spámannsins um eitthvað, gerið það handan tjalds. Þetta er hreinna fyrir ykkar hjörtu og þeirra."

Þessi einföldu tilmæli Múhameðs til fylgjenda sinna áttu eftir að hafa víðtæk áhrif. Um leið og hann dróg eðlileg efnisleg mörk milli fjölskyldu sinnar og átrúendanna lagði hann félagslegan grundvöll að aðgreiningu stétta og aðgreiningu kynjanna. Tjaldið sem að greina átti vistarverur kvenna spámannsins frá almúganum var fljótlega fært að andliti þeirra og blæjan sem var í fyrstu vernd þeirra og skjól, varð að tákni stöðu þeirra í samfélaginu.   Í 33. Versi 35 súru er sú staða skírð. "

 "Karlmenn eru verndarar og forsjáendur kvenna. Vegna þess að Guð hefur gefið öðru þeirra meira en hinu og vegna þess að þeir sjá fyrir fyrir þeim með getu sinni. Þess vegna eru réttsýnar konur innilega undirgefnar og gæta þess í fjarveru þess sem Guð ætlar þeim að gæta."

windowslivewriterphotosthatchangedtheworld-9d70par131896 Á fyrstu öld Íslam gengu kvenmenn hvorki í burqa búningum né báru þær almennt andlitsslæður. Þær klæddust samt oft, eins og kynsystur þeirra af öðrum trúarbrögðum, (kristni og gyðingdómi) höfuðklútum (Khimar) einkum til að skýla sér frá hita. Slíkir klútar þjóna líka til að uppfylla trúarlega skyldu í öllum þremur trúarbrögðunum sem boða að hylja beri höfuðkoll sinn fyrir Guði.

Í Íslam eru múslímar hvattir til að sýna hógværð í klæðnaði, bæði karlmenn og kvenmenn. Kvenmenn eru hvattir til að klæða "fegurð" sína af sér og er þar átt við brjóst, hár, axlir og handleggi.  Smá saman var farið að beita ákvæðum "hijab" til að móta klæðnað kvenna á almannfæri. Tjaldið sem umlukti hýbýli þeirra var fært upp að andliti þeirra og líkamir þeirra umvafðir þeim. Ef þær þurftu að ferðast var þeim gert að hýrast í Hovda (tjaldhýsi á hesti eða úlfalda).

Í gegn um aldirnar hefur andlitsslæðan og burqa búningurinn tekið á sig mismunandi myndir. Konur Mullahnna (prestaanna) og virtra kennimanna Íslam gerðu sér far um að sýna guðrækni sína og bónda síns með því að klæðast eftir ströngustu túlkunum og við það varð klæðnaðurinn að einskonar hefðarkvennabúningi.

Þegar að Íslamska heimsveldinu tók að hnigna, tóku Persar og Arabar upp afar einstrengingslega stefnu í öllum málum hvað varðaði rétt kvenna til menntunar og sjálfræðis. Misrétti varð að almennri reglu frekar en undantekningu. Samtímis varð andlistslæðan og burqa búningurinn að tákni um kúgun þeirra.

Bhutto_Benazir Í löndum Íslam í dag er samt mjög misjafnt hvernig konur og menn þeirra álíta að þessum reglum Kóransins sé fullnægt. Víst er að mestu öfgunum var náð í valdatíð Talibana í Afganistan.

Sumar konur klæðast aðeins Khimar höfuðklútnum, aðrar klæðast niqab sem er bæði höfuð, háls og andlitsslæða. Þá velja sumar að klæðast Chador sem er létt útfærsla á burqa. Í sumum löndum múslíma eins og Pakistan eru engin lög í gildi um klæðnað kvenna.

Sá búningur sem varð seint á síðustu öld einskonar árétting rétttrúnaðar Íslamskra kvenna, ekki hvað síst á Vesturlöndum þar sem þessi klæðaburður var í auknum mæli gagnrýndur, var hannaður í Afganistan.

Holland var fyrsta landið í Evrópu til að banna burqa-búningin á opinberum vettvangi en til þess er hann  einmitt ætlaður. Múslímar klæðast allt örðum klæðnaði heima hjá sér. 

Þessi grein er endurbirt í tilefni þessarar fréttar.


mbl.is Frakkar setja bann við búrkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slangan og Abstrakt hugsun

Abstrakt (óhlutlæg) hugsun er oft sögð andstæða hlutlægrar hugsunar sem er þá takmörkuð við eitthvað sem er áþreifanlegt. Óhlutlæg hugsun gerir fólki kleift að hugsa í huglægum hugtökum og alhæfingum og gera sér grein fyrir að hvert hugtak getur haft margar meiningar. Með slíkri hugsun er hægt að sjá munstur handan hins auðsjáanlega og nota það til að draga ályktanir af fjölda hlutlægra hluta til að mynda flóknar hugmyndir. Til dæmis eru allar stærðfræðiformúlur skammtafræðinnar eru óhlutlægar. Tenging óhlutlægra hugtaka er einnig forsenda hugmynda mannsins um Guð.

Sem dæmi um mismuninn milli óhlutlægrar og hlutlægrar hugsunar er málverk af konu sem heldur á kyndli.(Frelsisstyttunni)  Sá sem hugsar ummyndina hlutlægt sér ekkert annað en konu sem heldur á kyndli en sá sem hugsar óhlutlægt gæti sagt að málarinn hafi ætlað sér að tjá frelsi.

Getan til að hugsa óhlutlægt hefur verið með mannkyninu í meira en 100.000 ár. Elstu Abstrakt steinristurnar sem vitað er um eru um 70.000 ára gamlar.

Elstu mynjar um átrúnað manna af einhverju tagi eru einnig taldar vera 70.000 ára. Um er að ræða höggmynd af slöngu sem fannst í helli á "Fjalli guðanna" í Botsvana.

Átrúnaður tengdur snákum og slöngum er afar útbreiddur um heiminn. Neikvæð ímynd slöngunnar er eingöngu tengd hlutlægri hugsun okkar um dýrið. Með óhlutlægri hugsun verður slangan/snákurinn að tákni fyrir; Vetrarbrautina og alheiminn, eilífðina, visku og þekkingu, hið dulda og endurfæðingu svo eitthvað sé nefnd.

Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er það snákurinn sem fær frummanninn til að skilja og gera sér grein fyrir muninn á góðu og illu. Kristur talar um visku hans; "Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur" Matt.10.16.

Í slöngunni sameinast hið dýrslega og hið guðlega, hið hlutlæga og hið óhlutlæga. Hún er dýrseðlið á einu sviði, hið guðlega á öðru,og hið mannlega sem sameinar hin tvö á hinu þriðja.

Slangan er auk þess augljóst reðurtákn og sem slíkt frjósemistákn. Hún tengist þannig kvenfrjósemistáknum og trú fólks á mátt þeirra.  Eitt þeirra er t.d.  hestaskeifan sem er eftirherma af hinum "guðlegu sköpum" sem fætt gat af sér hinn endurborna og uppljómaða mann.

Margir kannast við söguna Af Niels Bohr þá hann var staddur í húsi vinar síns og sá að hann hafði hengt upp skeifu fyrir ofan dyrnar á skrifstofu sinni. Skeifu sem þannig er komið fyrir á að færa húsráðendum lukku. Bohr spyr vin sinn;  " trúir þú virkilega á þetta?" Vinurinn svaraði; "Ó nei, ég trúi ekki á þetta. En mér er sagt að það virki jafnvel þótt þú trúir ekki á það."

 


Slátrunarsiðir Islam og Íslands

Í fréttinni er minnst á Halal slátrun, en þá er átt við allt það sem rúmast innan og er leyfilegt miðað við lög Íslam.

Þegar kemur að slátrun er notað  lagahugtakið Dhabīḥah sem tilheyrir íslamskri lögfræði.

Þau lög ná yfir það sem múslímar mega ekki leggja sér til munns og hvernig ber að slátra þeim skepnum sem þeir eta.

Dhabīḥah kveður á um að ekki skuli eta; dýrahræ, blóð, svínakjöt og allt það kjöt af skepnum sem slátrað hefur verið án þess að minnast hins eina sanna Guðs, nema kameldýra, engisspretta, fiska og flestra sjávardýra. Þessi lög eru byggð á fyrirmælum Kóransins í súru Al-Maidah 5:3

Dhabīḥah kveður á um að öll dýr (einnig fiskar) skuli stinga á með einni stungu á slagæðina á hálsinum og tæma dýrið á öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á neinn hátt. Aðferð þessi er kölluð Thabiha. Slátrun er álitin trúarleg athöfn og áður en stungið er á slagæðinni er þessi setning höfð yfir: "Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama."

Halal matvæli þurfa að uppfylla lög Múslima og eru Dhabīḥah lög þeirra á margan hátt svipuð lögum Gyðinga að því leyti að aðeins ákveðnar dýrategundir eru leyfðar og að þeim verður að slátra með ákveðnum hætti. Þess vegna eru Kosher matvæli gyðinga Halal (leyfileg).

Landbúnaðarráðuneytið leyfir dhabihah slátrun á Íslandi, svo lengi sem að dýrið sem er verið að slátra hafi verið svipt meðvitund með raflosti svo það finni ekki sársauka. Á Íslandi hefur sauðfé verið slátrað í litlum mæli með þessari aðferð fram að þessu.

Sauðfé er deytt með pinnabyssu eða svipt meðvitund með raflosti áður en það er stungið til að láta því blæða út.

Nautgripir og hross eru deydd með pinnabyssu. Aflífun sláturdýra með kúlubyssum er orðin mjög sjaldgæf vegna þess að sú aðferð er talin hættuleg fyrir starfsfólk og ætti alls ekki að nota hana.


Svín eru almennt deyfð með raflosti hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að aflífunaraðferð hefur áhrif á gæði svínakjöts. Víða erlendis, í stærri sláturhúsum, eru grísir deyfðir með koldíoxíði.

Alifuglar eru deyfðir með raflosti og deyddir með því að láta þeim blæða út eftir hálsskurð.


Hér á landi er ekki heimilt að skera dýr á háls við slátrun nema þau hafi fyrst verið deyfð eða deydd. Samkvæmt trúarsiðum strangtrúaðra múslima (halal slátrun) og gyðinga (kosher slátrun) má ekki aflífa sláturdýr áður en þau eru skorin á háls eða stungin til að láta þeim blæða út. Þegar notuð er haus – haus aðferð við raflostdeyfingu sauðfjár ranka kindurnar við sér aftur, ef þeim er ekki látið blæða út. Þessi aðferð uppfyllir kröfur íslenskra stjórnvalda um að sláturdýr séu meðvitundarlaus og finni ekki sársauka þegar þau eru hálsskorin og kröfur múslíma.


mbl.is Fé slátrað að hætti múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband