Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
15.5.2010 | 10:35
Heimsmet í svindli
Það er ótrúlegt hversu glúrnir Íslendingar eru í að slá heimsmet af öllu tagi. Sum er að sjálfsögðu komin til vegna smæðar þjóðarinnar og verða til á sama hátt og "Ísland er stærsta land í heimi miðað við höfðatölu". Um tíma átu Íslendingar mestan sykur allra þjóða, karlmenn lifa hvergi lengur, fleiri á landinu eru læsir en nokkru öðru landi, o.s.f.r.
Nú bætist heldur betur við heimsmetaskrautfjaðrir landans ef satt reynist að einhver einn íslendingur hafi svindlað 258 milljón milljónir út úr bönkum landsins.
Fyrra heimsmetið er frá árinu 2008 og það átti Bernard Madoff (50 milljarða dollara) fyrrum Nasdaq hlutabréfastjóri.
Ef satt reynist hefur Jón Ásgeir Jóhannesson slegið það met rækilega og er þannig búinn að tryggja sér sess í mannkynssögunni. - Hvernig sagan mun dæma hann á eftir að koma í ljós. Hrói Höttur var jú ræningi en hann er líka alþýðuhetja. Jón Ásgeir heldur því fram að allt tal um svindl hans og svínarí sé uppspuni og sé skiplögð ófrægingarherferð á hendur sér af pólitískum toga.
Athyglisvert er að bera saman viðbrögð Herra Madoff og Ásgeirs. Þau eru svo til þau sömu. Herra Madoff sagði fréttmönnum á sínum tíma að "sér væri öllum lokið" og að "ekkert væri eftir" og að hann væri bara "hafður að blóraböggli í pólitískum hráskinnaleik sem ætti sér langa forsögu".
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.10.2009 | 02:43
Beðið fyrir Icesave
Boðið er til þver-pólitísks bænafundar við Alþingishúsið næsta sunnudagsmorgunn kl; 06:00 til að biðja fyrir farsælli lausn Icesave málsins. Tekið skal fram að hver og einn getur ákallað þann guð sem honum sýnist, jafnvel Mammon ef einhverjum hugnast það eða þá Helga Hós, fyrir þá sem það vilja.
Einkum eru flokkspólitískir rétttrúnaðarbloggarar, með sitt óþrjótandi þolgæði þrátt fyrir að hafa aldrei rétt fyrir sér, hvattir til að mæta og fara með sínar hefðbundnu bölbænir, ef ekki til annars en að öllum verði ljóst hversu einlægir þeir eru.
Fundurinn er boðaður vegna þess að fullreynt þykir að mannleg máttarvöld fái gengið frá Icesave málunum svo að friður og sátt verði meðal þjóðarinnar um niðurstöðuna.
Í þessu mikla prófmáli þjóðarinnar þar sem fyrst og fremst reyndi á hvort hún væri raunverulega nægilega samhuga til að teljast "ein þjóð" sem hefði nægilega mikla þjóðarvitund til að standa saman þegar sjálfri tilvisst hennar var ógnað, hafa mál öll þróast á þann veg að flokkadrættir á meðal hennar hafa aldrei verið meiri. -
Icesave deilan hefur sýnt þjóðinni með óyggjandi hætti að hún hefur algerlega gleymt þeim gildum sem gerðu hana að þjóð. Gömlu heilræðin eru öll orðin að óþolandi klisjum sem enginn fer lengur eftir.
Dæmi; Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Þetta er nú orðið öfugmæli. Sundrung hefur reyndar verið endurnefnd og kallast núna "aðhald" sem sagt er afar nauðsynlegt fyrir lýðræðið. Æðsta og besta skipulag lýðræðis er að hafa stjórn og stjórnarandstöðu. Eins og "gamla sundrungin", krefst "aðhaldið" þess að stjórnarandstaðan sé ávalt ósammála öllu því sem stjórnin hefur að segja. Þess vegna segja pólitíkusar og flestir trúa því; Sundraðir stöndum vér, sameinaðir föllum vér.
Þá er þjóðin líka svo heilaþveginn að hún kannast varla lengur við orðið samvinna. Það orð er orðið algerlega úrelt. Í staðinn notar hún ætíð orðið samkeppni og hnýtir aftan í það orð til vonar og vara, setningunni; "til að forða fákeppni" . Fákeppni er mesti bölvaldur sem hægt er að ímynda sér, nema þegar hún er sköpuð í krafti samkeppni að sjálfsögðu.
Fundinum verður auðvitað aflýst ef að Icesave málið verður að mestu til lykta leitt með einarðri meirihluta samþykkt Alþingis fyrir Sunnudagsmorgunn og/eða Bretar og Hollendingar fá endanlega nóg af vitleysunni í okkur og samþykkja samninginn með öllum sínum fyrirvörum og bókhaldsrugli.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.10.2009 | 17:00
Tímaspursmál hvenær Jóhanna biðst lausnar
Enn syrtir í álinn fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Steingrímur kemur heim tómhentur frá Tyrklandi því engan bilbug var að finna á þeim sem eru að rukka hann og engin vill lána landinu aur fyrr en við samþykkjum að borga Icesave eins og um var samið. - Það hefur verið ljóst frá upphafi, en hann varð að reyna svo ekki yrði sagt um að hann færi ekki að vilja Alþingis.
Stjórnarandstaðan vill ekki samþykkja neinar breytingar á breytingartillögum sínum á Icesave og þar við stendur.
Málið er komið í sjálfheldu og þess vegna sjálfhætt fyrir ríkisstjórnina sem sagt hefur hvað eftir annað að frágangur á Icesave sé forsenda þess að hún geti haldið áfram af einhverju viti.
Það er sem sagt ekki nóg að þjóðinni hafi verið komið á kaldan klaka af fáeinum spilagosum, heldur er henni nú hjálpað til að frósa í hel af nokkrum pólitíkusum sem ekki gata staðist það að nota málið sér til pólitísks framdráttar. -
En, hey þetta er flokkapólitík, gaman, gaman.
Stefnuræða flutt í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2009 | 17:30
Herra Forseti, Tony Blair
Stjórnarskrá ESB, afturgengin í Lisbon sáttmálanum hefur loks verið samþykkt af Írum og þar með var rutt úr vegi síðustu hindruninni fyrir stofnun embættis Forseta ESB sem margir pólitískir framgosar í Evrópu hafa augastað á. Enginn samt meira en fyrrum forsætisráðherra Breta, ný-kaþólikkinn og stríðsmangarinn Tony Blair.
Það er eftir ýmsu að slægjast fyrir Tony. Embættinu fylgir 250.000 punda árslaun, að mestu skattfrjáls, tuttugu manna skrafslið, örlát risna og fjöldi fríðinda.
En sjálfsagt er Blair samt mest í mun að yfirskyggja í sögulegu tilliti, stríðsmangara-orðstírinn sem hann varð sér út um með að fylgja vini sínum Bush út í ólöglega styrjöld við Írak.
Útnefning hans sem sérstaks erindreka til mið-austurlanda hjálpaði honum lítið í þvi tilliti.
Fái Íslendingar inngöngu í ESB og verði Blair fyrsti forseti sambandsins, verður það virkileg kaldhæðni örlaganna og kannski dálítið vandræðalegt komi Blair í heimsókn til þessa litla hrepps í ríki hans. Því það var vissulega arftaki hans og lærisveinn sem átti stóran þátt í að koma Íslendingum í þá stöðu að þeir áttu þann kost einan að reyna að komast inn í pappírsskjól ESB eða vera að öðrum kosti "sprengdir efnahagslega aftur á 19. öld."
3.10.2009 | 17:25
Undirbúningur fyrir átökin við Ísland hafinn.
"Démarche" er það skjal kallað sem er formleg diplómatísk yfirlýsing á stefnu, skoðunum og óskum einnar ríkisstjórnar til annarrar eða til fjölþjóðlegra samtaka. Skjalið er afhent formlega til viðeigandi fulltrúa þeirrar ríkisstjórnar eða samtaka sem það er stílað á. - Tilgangur þess er að reyna hafa áhrif á stefnu þeirrar ríkisstjórnar eða mótmæla gjörðum eða stefnu hennar.
Íslensku ríkistjórninni hefur nú borist slíkt skjal sem undirritað er af ríkisstjórnum 26 þjóðlanda, flestum evrópskum, í því skyni að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Sjá frétt.
Hvalveiðar eru yfir höfuð, eins og allir vita, afar umdeildar. Fyrir almenningi í flestum löndum Evrópu er málið mettað tilfinningum og oft eru rök og vísindalegar niðurstöður að engu hafðar þegar það ber á góma.
Í ljósi erfiðrar fjárhagslegar stöðu Íslands og Icesave samninganna, sem Gordons Brown vill gera að pólitískri lyftistöng fyrir sig og sinn flokk, þjónar þessi fordæming á hvalveiðum Íslendinga sem liður í að sverta orðstír þeirra og svipta þá samúð almennings. - Næstu vikur og mánuði munu ávirðingarnar eflaust verða fleiri og fjandsamlegri.
Slíkur áróður er nauðsynlegur undanfari harðnandi pólitískra átaka á borð við þau sem framundan eru á milli Gordons og íslensku ríkisstjórnarinnar út af Icesave klúðrinu.
Staða Íslands í samfélagi þjóðanna hefur breyst mikið síðustu ár. Í þorskastríðinu þegar við áttum í deilum við Breta um auðlindir hafsins, var landið mikilvægt NATO og USA frá hernaðarlegu sjónarmiði. Sú staða er nú fyrir bý og ekki lengur hægt að reiða sig á mikilvægi geópólitískrar legu landsins og stuðning USA eða annarra landa við okkur af þeim sökum.
Bæði Bretland og USA eru þekkt fyrri að hunsa alþjóðleg lög í samskiptum sínum við aðrar þjóðir og fara sínu fram eins og þeim sýnist, einkum gegn þjóðum sem lítið mega sín. -
26 þjóðir fordæma hvalveiðar Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.10.2009 | 00:35
Verða átökin um Icesave "Falklandseyjastríðið" hans Gordon Brown.
Allir sem þekkja forsögu málsins vita að Ögmundur Jónasson sagði sannleikann hvað varðaði að Bretar og Hollendingar notuðu öll tiltæk pólitísk vopn til að fá íslenska ríkið til að endurgreiða Icesave innlánin. - En hvað væri betra fyrir Gordon Brown annað en að Íslendingar greiddu möglunarlaust. Er mögulegt að það væri hugsanlega betra fyrir Gordon Brown pólitískt séð, að þeir greiddu ekki.
Þeir sem þekkja til pólitíkurinnar á Bretlandi, vita að Gordon Brown hefur staðið höllum fæti, bæði innan flokks síns og hvað snertir almenningsálitið.
Margir trúa því að hann geti ekki unnið kosningarnar sem framundan eru á vordögum á næsta ári. Það sem Brown heldur á lofti umfram annað, er að engin geti sigrast á kreppunni annar en hann. Við hvert tækifæri sem hann fær slær hann því um sig að hann einn hafi brugðist við, hann einn viti hvað sé í gangi, hann einn viti hvernig á að leiða þjóðina aftur á braut hagvaxtar o.s.f.r. -
Fram að þessu hefur flest það sem hann hefur gert ekki orðið honum að afgerandi vopni. - En á meðan hann getur haldið áfram að þylja þessa frasa sína, eygir hann von. - Það sem Brown sárlega vantar er auðsætt dæmi um að hann sé sannur foringi sem tekur af skarið og sem lætur engan ógna hagsmunum Bretlands.
Í ræðu sinni á nýafstöðnu flokksþingi minntist hann á Icesave og hverning hann hefði bjargað fjölda breskra þegna frá beinu fjárhagslegu tjóni með að greiða innlánurum strax það sem þeir áttu inni hjá sjóðnum.
En það sem Brown vantar umfram allt er afgerandi dæmi, annað Falklandseyjastríð, líkt og bjargaði frú Thatcher fyrir horn á sínum tíma, en að þessu sinni þarf það að vera "efnahagslegt".
Allar yfirlýsingar Íslendinga um að þeir ætli hugsanlega ekki að borga þessa milljarða sem breska ríkið greiddi á sínum tíma til innlánara Icesave og að þeir ætli ekki að standa við gerða samninga, er vatn á millu Gordons Browns.
Líklegt er að deilan muni harðna og þeir fyrirvarar sem íslenska þingið setti á samningana verði áfram hafnað af Bretum. Það hentar Brown ágætlega. Ekki mun hjálpa að skipta um stjórn á Íslandi. Hann mun benda á að ekkert sé að marka íslensku ríkisstjórnina, hvernig sem hún er skipuð. Óeining stjórnmálaaflanna á Íslandi hjálpa til að réttlæta orð hans.
Allir sem komið hafa nálægt þessum samningi hafa lofað að borga en svo gerir það enginn þegar á hólminn er komið. Við hvern á nú að semja?
Og á réttum tíma mun Brown fá það sem hann þarfnast mest, áhættulítið efnahagsstríð við smáþjóð sem hann getur auðveldlega unnið og mun styrkja ímynd hans sem hins sterka leiðtoga. Slík átökmundu sameina þjóðina að baki honum og skjóta flokknum hans aftur upp fyrir Íhaldsflokkinn. Fyrir það mun Ísland blæða því það þýðir hertari efnahagsþvinganir uns þjóðin verður knésett.
Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.9.2009 | 17:23
Refskák Gordons Brown við Íslendinga
Því miður eru Íslendingar ekki klókari í refskákinni sem gjarnan er nefnd pólitík en þetta. Nánast allt sem Íslendingar gerðu og sögðu í tengslum við bankahrunið var og er notað gegn þeim.
Davíð hræddi Darling með ummælum sínum um að Íslendingar ættu ekki að borga. Brown og Darling skelltu landinu umsvifalaust á hryðjuverkalistann og frystu alla fjármuni landsins í Bretlandi. - Brown gat ekki fengið betri afsökun til að snúa málum sér í hag .
Til að tryggja sína pólitísku hagsmuni heima fyrir, borgaði Brown almenningi út það sem þeir höfðu lagt inn í Icesave og rukkaði svo Ísland um aurinn. Þá sögðust Geir og hans stjórn mundu borga.
Brown lýsti því yfir í breska þinginu að Icesave málið væri í höfn og því yrði fylgt eftir af AGS sem Íslendingar mundu verða að fá lán hjá til að eiga möguleika á að rétta úr kútnum. Að koma þessu í kring kostaði eitt símtal frá Darling sem vann lengi hjá sjóðnum.
Ítök Browns og Hollendinga í Evrópu er slík að hann gat sett það sem skilyrði fyrir einhverri fyrirgreiðslu að Ísland borgaði refjalaust samkvæmt þeim samningum sem íslensku samningarmennirnir undirrituðu.
Íslenska þingið reyndi að malda í móinn og tefja tímann. Þingmenn léku sér í flokkspólitíska sandkassanum og settu svo í samningin skilyrði sem þeir vissu að mundu tefja enn fyrir og koma ríkisstjórninni sem var að reyna að slökkva eldana afar illa.
Þau trikk gengu eftir og nú er málið komið í strand. Ísland fær enga fyrirgreiðslu og framtíðin er mjög óviss. Verði niðurstaðan sú að Icesave samningarnir verða ekki samþykktir munu Bretar breyta sér af fullri hörku í málinu. Staða og yfirlýsingar Gordons Brown bjóða ekki upp á annað. - Miðað við það sem þá er framundan er má segja að áhrif kreppunnar á Íslandi hafi verið smá verkur. Framundan er sársauki.
Þakkaði Brown fyrir að bjarga Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.9.2009 | 01:04
Hvað býr raunverulega að baki hjá Davíð
Ég velti tvennu fyrir mér þessa dagana.
Hvað vakir raunverulega fyrir Davíð að setjast í ritstjórastól Moggans....
og hvað býr raunverulega að baki ótta og reiði fólks yfir því að hann skuli hafa verið ráðinn í hann.
Ekki að ég sé haldinn þráhyggju varðandi Davíð. Þeir sem halda slíku fram eru bara þeir sem haldnir eru Davíðs blæti :)
Ég er alla vega kominn að niðurstöðu.
Davíð hefur járnvilja. Án einbeitts vilja hefði hann aldrei getað gert það sem hann gerði. Vilji Davíðs hefur ekkert dofnað. Hann lofaði því opinberlega að ef honum yrði vísað úr starfi seðlabankastjóra og hann mundi nauðugur þurfa að yfirgefa embættið, mundi hann snúa aftur í stjórnmálin.
Það loforð ætlar hann að efna. Að ráða sig sem ritstjóra á víðlesnasta blaði landsins er snilldarbragð og fyrsta stig í þriggja þrepa áætlunar hans um að snúa til baka, því hálfkveðin vísa er honum ekki að skapi.
Úr ritstjórastólnum mun hann geta styrkt þá í trúnni sem áður voru einlægir átrúendur en héldu að goðið væri lagst í kör og þaðan getur hann laðað að sér nýja fylgjendur með beittum og skeleggum málflutningi á síðum Moggans. Að auki getur hann stýrt umræðunni með fréttaflutningi blaðsins þannig að þeir sem kunna að vera á móti honum í flokknum fara að líta illa út og þeir sem ekki tilheyra flokknum enn verr.
Að ári verður Davíð orðinn óumdeildur foringi sjálfstæðismanna á ný og við tækifæri mun hann láta kjósa sig aftur sem formann Sjálfstæðisflokksins. Síðan mun hann freista þess að komast aftur í forsætisráðherrastólinn, þ.e. um leið og hægt verður að knýja fram nýjar kosningar.
Svarið er sem sagt það sama við báðum spurningunum. Einmitt þetta er orsök óttans og reiðinnar sem gripið hefur andstæðinga Davíðs. Þeir eru ekki svo mikið að spá í hvað hann hefur gert þótt þeir beri það fyrir sig. Það sem þeir óttist miklu fremur er hvað hann á eftir að gera.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.9.2009 | 09:37
Bankar halda þjóðinni í gíslingu
Jim Culleton talar um að Íslendingar séu að endurheimta land sitt. Endurheimta það frá hverjum? Hverjir tóku landið í gíslingu? Því er auðsvarað, það gerðu bankarnir, stjórnendur þeirra. En það er fátt sem bendir til að almenningur og stjórn landsins hafi eða sé að losna undan ánauð þeirra.
Skjaldborgin sem lofað var fyrir meimili landsins hefur aldrei risið. Þða eina sem gert hefur verið er að það hefur verið lengt í hengingarólinni. Engar afskriftir fyrir einstaklinga eða heimili, heldur aðeins banka og skúffufyrirtæki þeirra.
Bankarnir eru hinir nýju þrælaherrar. Þorri almennings er hnepptur í skuldaklafa þeirra og á líf sitt og viðurværi undir þeim. Þegar að þeir riðuðu til falls fyrir ári síðan, hrópuðu bankamenn á hjálp. Þeir beittu ríkisstjórn og almenning fjárkúgun og sögðu að ef þeim yrði ekki hjálpað með því að fylla geymslur þeirra aftur af peningunum, mundi allt kerfið hrynja. Og núna þegar þeir eru búnir að fá allt sem til var, beita þeir aftur fjárkúgunum. Þeir hrópa; látið okkur vera, við högum okkur eins og okkur sýnist og ef þið gerið það ekki mun þessi kreppa vara miklu lengur.
Þess vegna hafa engar nýjar reglur verið settar um starfsemi banka. Engin ný stefna um markmið þeirra hefur litið dagsins ljós. Öfgar nýfrjálshyggjunnar sem flestum var ljóst að leiddi til fallsins, ráða enn lögum og lofum innan bankakerfisins og þess vegna munu aðgerðir sem eiga að koma heimilum landsins til hjálpar og stýrt er gegnum bankakerfið, aldrei skila sér. Þeir eru þrælaherrar nútímans sem hefur verið gefinn sá réttur að eiga allt sem þú getur mögulega framleitt og þar með þig.
Íslendingar endurheimta landið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.9.2009 | 18:42
Rétt ákvörðun af röngum ástæðum
Magnús Árni ætlar að segja sig úr Seðlabankaráðinu. Ekki vegna þess að honum hafi orðið á mistök eða eitthvað þess háttar. Nei, hann gerir það vegna þess að Mogginn gerði störf hans tortryggileg, opinberlega! -
Nú þarf bara að finna annan flokks-ling til að taka stöðuna sem losnar. Vandamálið verður enn til staðar því það er fólgið í þessum vinnubrögðum að skipa í þetta starf á pólitískum forsendum.
Fer fram á lausn frá störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |