Færsluflokkur: Vefurinn
21.11.2008 | 22:08
ZANA; frumkvendið ógurlega frá Georgíu
Um miðja nítjándu öld fönguðu veiðimenn í Ochamchir héraði í Georgíu "villta konu". Eftir að hafa gengið kaupum og sölum í nokkurn tíma, endaði hún upp sem eign aðalsmanns sem hét Edgi Genaba en hann bjó í þorpi nokkru sem heitir Tkhina. Þessi villta kona hafði mörg einkenni frummanna.
Hún var afar þrekin yfir herðar, brjóst og lendar og með miklu sverari handleggi og fingur en venjulegir menn. Hörund hennar var dökkt og hún var alþakin dökkrauðu hári. Höfuðhár hennar var þykkur ókembanlegur rauður makki sem náði langt niður á breitt bakið. Andlitið var breiðleitt, ennið lágt og kinnbeinin afar há, nef hennar flatt og nasaholur útvíðar. Hún var stórmynnt og með hvítar stórar tennur. Kjálkarnir voru svo öflugir að hún lék sér að því að brjóta með þeim hörðustu gerð af hnetum.
Konan sem nefnd var Zana af þeim sem fönguðu hana, var svo hættuleg og ofbeldisfull að henni var komið fyrir í búri þar sem hún var látin hafast við í þrjú ár uns hún vandist umgengni við venjulegt fólk. Hún gróf sér holu í búrinu og hafðist við í henni og hagaði sér að öllu leiti til að byrja með eins og villidýr.
Matnum var kastað inn í búrið til hennar en henni þóttu þrúgur afar góðar og svo er að skilja að henni hafi einnig þótt vín gott því hún drakk af því ótæpilega þegar henni var gefið það og lá svo sofandi eftir í marga tíma. Eins og Colin Wilson bendir á í bók sinni The Encyclopedia of Unsolved Mysteries er Þetta er líklega ástæðan fyrir því hversu Zana eignaðist mörg ósamfeðra börn. Zana var að endingu "tamin" og gert að vina einföld störf eins og að mala bygg. Hún lærði aldrei stakt orð af mannamáli en tjáði sig með umli og öskrum þegar eitthvað virtist pirra hana. Hún virtist þola kuldann ótrúlega vel en gat aftur á móti ekki hafst við í upphituðum vistarverum.
Zana lifði meðal þorpsbúa í mörg ár án þess að á henni sæjust nokkur ellimörk. Hún hélt tönnum sínum og hár hennar gránaði ekki. Afl hennar virtist ofurmannlegt. Hún lék sér að því að lyfta með annarri hendi 80 kílóa þungum sekkjum og ganga með þá í sitt hvorri hendi upp allbratta hæð þar sem milla þorpsins stóð. Á hlaupum gat hún haldið í við hvaða hest sem var og hún synti oft í ískaldri ánni.
Á nóttum eigraði hún um nærliggjandi hæðir og bar þá lurk í hendi sem hún notaði til að berja frá sér hunda og önnur dýr sem urðu á vegi hennar. Hún át allt sem að kjafti kom og átti það til að sveigja niður á jörð greinar sem báru ávexti, á meðan hún úðaði þeim í sig. Hún virtist hugfangin af steinum og lék sér stundum að því að berja þeim saman svo þeir sprungu í tvennt. Henni var illa við allan klæðnað og fór yfirleitt um nakin. Flestir voru hræddir við Zönu en húsbónda sínum hlýddi hún ætíð.
Börn Zönu dóu flest þegar hún reyndi að baða þau upp úr helkaldri ánni sem rann fram hjá , þorpinu þar sem hún dvaldist. Eftir að fullreynt þótti að Zana væri óhæf til að ala önn fyrir börnum sínum, hófu þorpsbúar að taka frá henni börnin strax eftir fæðingu og ala þau upp sem sín eigin. Fjögur börn hennar, tveir drengir og tvær stúlkur, þroskuðust eðlilega og gátu ólíkt móður sinni tjáð sig eins vel og hvert annað fólk. Elsti sonur hennar hét Dzhanda og elsta stúlkan Kodzhanar. Yngri drengurinn var nefndur Khwit og yngri stúlkan Gamasa. Öll eiga þau afkomendur sem búa víðsvegar um Abkhazia hérað enn í dag.
Snemma kom upp sá kvittur að eigandi Zönu, óðalsbóndinn Edgi Genaba væri sjálfur faðir Gamasa og Khwit þrátt fyrir að vera gefið eftirnafnið Sabekia í manntölum frá þessum tíma.
Zana lést árið 1890 og var þá grafin í fjölskyldugrafreit bóndans þar sem yngstu börn hennar hvíla líka. Yngsti sonur hennar Khwit, dó ekki fyrr en árið 1954.
Saga Zönu var skrásett af Professor Porchnev sem tók viðtöl við fólk sem enn mundi eftir Zönu en það elsta sagðist vera meira en hundrað ára gamalt. Professor Porchnev tók einnig viðtöl við barnabörn Zönu sem áttu það sameiginlegt að vera öll mjög dökk á húð og hár. Eitt þeirra, karlmaður Shalikula að nafni, hafði svo sterklega kjálka að hann lyft með munninum fullorðnum manni sitjandi á stól.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að finna líkakleyfar Zönu en þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Dmitri Bayanov gerði þrjár tilraunir á árunum 1971-1978 og tókst aðeins að finna höfuðkúpu Khwit, yngsta sonar Zönu. Rannsóknir M.A. Kolodievea við Moscow State University Institute of Anthropology leiddu í ljós að höfuðkúpan er í mörgum atriðum afar frábrugðin öðrum Abkhazis kúpum sem í safninu eru að finna. Í vestur Kákassus fjöllum er talið að lifað hafi ætt frummanna sem nefnd er Abnauayu. Það er álit sumra að Zana hafi verið síðasti eftirlifandi einstaklingur þeirrar mannsættar.
21.11.2008 | 15:57
The man in black með skilaboð til Íslendinga
Það eru margir sem spreyta sig á því að koma orðum að því sem hefur verið og er að gerast í íslensku samfélagi. Ég er löngu hættur að reyna það, enda virðist sem nánast allar upplýsingar sem fram koma vera annað hvort misvísandi eða ófullnægjandi ef ekki beinlínis rangar. Bláa höndin bendir en allar litlu gulu hænurnar segja "ekki ég" og áfram heldur sýningin.
Hér á eftir fara fjögur tólistarmyndbönd sem mér finnast koma mörgu af því til skila sem svo margir reyna að tjá um þessar mundir. Þessi fjögur lög eiga það líka sameiginlegt, að mínum mati, að vera miklu betur flutt hér heldur en frumútgáfur þeirra voru. En það er auðvitað smekkatriði.
Nú er bara að slaka á og hlusta á frábæra listamenn flytja frábærar tónsmíðar við texta sem tala til okkar betur nú en oft áður.
Fyrst kemur "The man in Black" Johnny Cash með lag Trent Reznor HURT. Reznor sagði eftir að hafa heyrt lagið í flutningi Cash; "Þetta er ekki mitt lag lengur".
Næsta kemur lagið REDEMPTION SONG eftir Bob Marley hér í flutningi Joe Strummer.
Allar nafnabreytingarnar á bönkunum og hugmyndirnar um að rétt sé að kalla landið "Nýtt Ísland" leiddi hugann að þessu skemmtilega lagi sem upphaflega var flutt af The Four Lads en er hér sungið af They Might be Giants. Lagið er að sjálfsögðu INSTANBUL (Not Constantinople)
Að lokum sígildur ástaróður eftir Prince og hér í flutningi Sinead O´Connor. "NOTHING COMPARES TO YOU" sem ég held að sé enn og verði ávalt sú tilfinning sem sterkust er gagnvart landinu þegar allt kemur til alls.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2008 | 19:45
Bretinn kemur til að passa okkur.... fyrir okkur sjálfum?
Mikið verður skemmtilegt (eða hitt þó heldur) að fá Bretaherinn aftur til landsins. Í þetta sinn verður það sjálfur Konunglegi Breski Flugherinn sem fær það hlutverk á næstunni að vernda litlu þjóðina í norðri fyrir sjálfri sér.
Ég segi fyrir sjálfri sér vegna þess að eini yfirlýstur óvinur NATO á þessu svæði eru hryðjuverkamenn og þá nafnbót hlutu Íslendingar (Proxy íslenskar peningastofnanir) fyrir skömmu. Það voru reyndar Bretar sjálfir sem veittu nafnbótina og tóku sér þannig rétt til að meðhöndla eignir íslenska ríkisins í Bretlandi eins og þeim þóknast.
Svo er íslenski utanríkis-"ráðherrann" svo kurteis að hún vill ekki styggja þessa öðlinga / Darlinga í Bretlandi meira en nauðsyn krefur og vill endilega borga þeim þessar 25 milljónir sem eftirlitsflugið kostar í stað þess að afþakka það.
Og nú er Bretinn sem sagt á leiðinni þótt ekki sé enn búið að gefa út skipunina eins og kemur fram á vefsíðu konunglega breska flughersins un annexíu verkefni hans á vegum NATO.
Bretar kunna vel til verka þegar kemur að barráttu við hryðjuverkamenn og hafa sýnt það og sannað t.d. í Afganistan þar sem þeir berjast við önnur hryðjuverkasamtök kölluð Alqaida.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.11.2008 | 23:11
A banker’s life is the finest life
Það hlýtur að vera merki þess að málin eru komin á alvarlegt stig þegar að útlendingar setjast niður til að yrkja um ástandið á Íslandi. Ég fann þessar vísur á reki en þær eru eftir Elinóru Arnason sem ég kann ekki frekari skil á, en hún segist m.a. skrifa vísindaskáldsögur. Reyndar bendir eftirnafnið til að hún geti verið af íslenskum ættum en eins og af kveðskapnum má sjá, er vafasamt að hún hafi nokkru sinni komið til landsins.
A bankers life is the finest life
Thats known to man or God.
You sit inside, and you dont get wet
Hauling up haddock and cod.
You stay inside, and you dont get wet,
And you hardly ever drown;
Though you might be seen with brennivin
Wandering through the town.
But Id rather drown in brennivin
Than sink in the salty brine,
And handle lines of credit
Instead of a fishing line.
When I was young I went to sea,
And I thought I was a fool
To spend my day in the icy spray
Instead of in business school.
So I flew away to the USA
And got myself a degree
And settled down at the Landisbank,
And scorned the rolling sea.
Youd never think that a bank could sink
Like a fishing boat in a storm,
And the crew go down to an ugly fate
Under the churning foam.
Nothing is sure, the High One said
A thousand years ago.
Even wearing a business suit,
You can find yourself below
Where the fishes swim in the salty dim,
And the old seafarers sleep;
And so I curse, though it could be worse.
I could be herding sheep.
A bankers life is the finest life
Thats known to man or God.
Im going back to Isafjord
To haul up haddock and cod.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.10.2008 | 19:19
Gremja Íslendinga
Það þarf ekki annað en að líta aðeins yfir skrif bloggara síðustu vikurnar til þess að sjá að þjóðin er að fara á límingunum. Mótmælafundir og fréttir af skoðanakönnunum, sem sýna að íslendingar eru fullir af gremju, staðfesta þetta líka.
Á meðan allar þjóðir heimsins með Bandaríkin og Bretland í fararbroddi reyna hvað þær geta til að lækka vexti með það fyrir augum að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang og til að mæta árhrifum alheimslegrar peningakreppu, hækka Íslendingar sína stýrivexti þannig að þeir eru nú hæstir á Íslandi af öllum löndum heimsins. Íslendingar eru sem sagt þegar byrjaðir að borga það sem útherjar þeirra töpuðu í útlöndum.
Hinum almenna borgara líður eins og manni í umferðarhnút. Hann veit að hann er hluti af vandamálinu en getur ekkert aðhafst til að greiða úr því. Sumir heimta nýja löggu til að stjórna umferðinni, aðrir heimta ný umferðarlög, enn aðrir vilja láta skipa nýjan umferðarstjóra. En allar kröfur um nýja löggu, lög og umferðarstjóra eru virtar að vettugi og það eina sem þjóðin getur er að liggja á flautunni. Stjórnvöld eru vissulega ekki öfundsverð af því að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti en þau virðast neita að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að þeir eru að starfa í umboði þjóðarinnar, ekki bankakerfisins eða verðbréfamarkaðarins.
Það hefur lengi loðað við óhefta auðhyggju að þar dregur hver til sín eins mikið og eins ört og hægt er. Hjá langflestum auðmönnum eru peningarnir ekki aðalmálið, heldur leikurinn. Þeir eiga miklu meiri peninga enn þeir fá nokkru sinni komið í lóg á sinni æfi með persónulegri neyslu. Því nota þeir peninga til að halda skor í keppninni við hvern annan.
Auðhyggjumenn virka eins og blóðtappar í líkama heimsins. Fjármagnið er blóðið sem á að flytja næringu og súrefni til allra hluta líkamans og allir hlutar þessa alheimslega líkama þurfa að vera heilbrygðir og starfandi, annars mun allur líkaminn þola fyrir það fyrr eða síðar.
Lengi vel hafa auðhyggjumenn komist upp með að sanka að sér auði og haft að engu alvarlegar afleiðingar öfga þeirrar auðsöfnunar og öfga fátæktarinnar sem verður til umleið á stórum hluta heimsins. Afríka, Asía og suður Ameríka hafa lengst af verið þau svæði heimsins sem minnst af lífsblóði heimsins hefur flætt um. Íslendingar kærðu sig lengi vel kollótta um afkomu þessara landsvæða, eins og aðrir.
Nú fær Ísland aftur eftir næstum því aldar langt hlé að finna fyrir blóðleysinu. Þeir sem mergsugu landið, en þar er einmitt blóðið framleitt, gera hvað þeir geta til að bjarga eigin rassi, svo þeir geti haldið áfram leiknum, þegar úr rætist.
En áður en gripið er til aðgerða til að þetta komi ekki fyrir aftur þarf að grípa til ákveðinna neyðaraðgerða.
Ef íslendingar ætluðu sér að bregðast við eins og aðrar þjóðir þar sem að kreppir og þær eru fáar þar sem svo er ekki, mundu eftirfarandi aðgerðir vera í fullu samræmi.
Hér koma sex tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum til næstu sex mánaða eru þessar;
1. Lækka stýrivexti strax niður í 4.5% og eftir tvo mánuði niðir í 4.0%
2. Neita að borga Icesave skuldir umfram 16.000 pund eins og tryggingarsjóðurinn gerði ráð fyrir og láta reyna á það fyrir dómsstólum ef Bretar gera kröfur um annað.
3. Ekki þiggja neitt lán sem veitt er með skilyrðum um íhlutun í efnahagsstjórn landsins eða er með hærri vöxtum en 4.5%
4. Hætta að flytja inn allar vörur sem ekki eru nauðsynlegar til afkomu fólksins í landinu.
5. Kaupa aðeins íslenska vöru.
6. Taka upp Evru sem gjaldmiðil eftir sex mánuði.
11.10.2008 | 20:26
Nú er lag fyrir Ísland
Það er farið að hljóðna fjölmiðlaskrumið um Ísland á Bretlandi. Helst er að heyra á þeim sem taka til máls að beðið sé eftir því sem kemur út úr viðræðum sendinefndarinnar og íslensku peningamannanna. Sjónvarpið er hætt að sýna fatlað fólk og krabbameinssjúklinga sem vondu Íslendingarnir svindluðu peninga út úr.
En eitt er nauðsynlegt.
Nú er lag fyrir stjórnvöld á Íslandi að breyta vörn í sókn. Þeir ættu að senda út frá hverja yfirlýsinguna á eftir annarri sem sýna hvernig staða Íslands var gerð mun verri með umsögnum og aðgerðum breskra stjórnvalda. Það hefur myndast tómarúm hjá fréttamiðlum um málið sem við ættum að nýta okkur. Þá ættu íslendingar að nýta sér ummæli Bush um að þjóðir ættu að forðast aðgerðir sem skemma fyrir öðrum þjóðum og vel er hægt að heimfæra upp á aðgerðir Breta gegn íslendingum.
Þessi kreppa snýst hvort eð er að mestu um mat fólks á stöðu mála. Ef mat fólk verður að Ísland hafi ekkert til saka unnið þótt einhverjir bankamenn okkar hafi teflt of djarft, eins og er sannleikanum samkvæmt, erum við á leiðinni upp. Við eigum að hefja þá baráttu strax og hamra járnið á meðan það er heitt. -
Það sjá það allir að 300.000 manns hér á Íslandi geta ekki og eiga ekki að borga fyrir mistök þessara exeldrengja í bönkunum. Komum skilaboðum okkar á framfæri. Það er leiðin út úr þessum Bretahremmingunum og þá mun myndast friður og ráðrúm fyrir okkur að byggja á styrkleikum okkar.
Rússalán og alþjóðabankinn eru slæmir kostir fyrir Ísland. Hvorutveggja mun hafa afar óæskileg áhrif á sjálfstæði þjóðarinnar. Ef við þurfum peninga til að reka landið áfram, eigum við að fá þá lánaða frá Norðmönnum. Þeir eru auðugasta þjóð jarðarinnar, náfrændur okkar og auk þess tilbúnir til þess að hjálpa.
2.10.2008 | 01:21
Uppnefningar
Það hefur alltaf þótt svo lítið svalt á Íslandi að geta svarað fyrir sig með háði og glósum. Málfar okkar og ritmenning er lifandi dæmi um það og ekkert þótti eins snjallt í kveðskap hér áður fyrr eins og vel kveðin níðvísa.
Ég held að íslendingar séu ekki vaxnir upp úr þessum ósóma og að stór þáttur þess sem við köllum "einelti" séu uppnefningar.
Nú hefur talsverðum tíma og fjármunum verið varið í að rannsaka þetta fyrirbæri, þ.e. hvað liggi að baki þörf einstaklinga til að nota uppnefni sem einkennandi samskipta-aðferð og hvernig viðbrögð slíkt vekur hjá þolandanum.
Í fljótu bragði eru þetta niðurstöðurnar;
Uppnefning er bæði rökvilla (logical fallacy) og skilningsvilla (cognitive bias) og er einkum notuð sem áróðurstækni. Sem slík er henni ætlað að vera aðferð til að vekja ótta og fordóma og að sá ótti og fordómar verði til að mynda meðal þeirra sem lesa heyra eða sjá áróðurinn, neikvæða mynd af einstaklingnum, hópnum, trúnni eða hugmyndakerfinu sem áróðurinn beinist að.
Aðferðinni er ætlað að koma fyrir í hugum viðtakenda niðurstöðum um menn og málefni án þess að rannsókn á staðreyndum fari fram. Uppnefningar koma þannig í stað rökréttrar hugsunar sem grundvölluð er á staðreyndum og koma í veg fyrir að hugmyndin eða trúin séu dæmd á eigin verðleikum.
Því er ekki að neita að það hvarfli að mér að uppnefningar hafi fengið endurnýjun lífdaga meðal fullorðins fólks með tilkomu bloggsins. Óvirðingin og munnsöfnuðurinn er slíkur á stundum að maður getur ekki annað en dregið þá ályktun að þarna sé komin bein ástæða fyrir því hvers vegna einelti meðal skólabarna er viðvarandi vandamál. Sé þetta það sem fyrir börnum er haft þarf ekki að spyrja að útkomunni.
PS.
Aftur minni ég á skoðanakönnunina hér til vinstri um jafnréttið.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.9.2008 | 14:12
Blekpennar senda frá sér ruslpóst
Eitthvað er ekki að virka þarna hjá Blekpennum.Com. Nú eru þeir farnir að senda bloggin sín beint til fólks á þær tölvupósta addressur sem þeir hafa komist yfir. Ég hef ekki skráð mig á Blekpennar.com eða óskað eftir svona ruslpósti, en það virðist ekki skipta neinu máli.
Í morgun var ruslpóstur frá Skúla Skúlasyni í tölvu póstinum mínum; enn eitt framlag hans í anda hrydjuverka. Hann er að hallmæla Bandaríkjastjórn fyrir að gera ekkert í málum Saudí Araba, eins og t.d. að hætta að kaupa af þeim olíu, vegna þess að þeir styðja hryðjuverkasamtök. - Hræsni Bandaríkjamanna er löngu kunn hvað þetta varðar, en Skúli var greinilega að fatta þetta fyrst núna.
En aftur að Blekpennum.com þá eru þeir greinilega orðnir úrkula vonar um að nokkur komi til að lesa þá, fyrst þeir verða að grípa til svona "direct marketing" bragða. En slíkt virkar bara einu sinni. Hér eftir getur maður eitt póstinum um leið og ljóst er hvaðan hann er. Meðal bloggara hefur friðhelgi tölvipósta heimilisfanga verið virt og þær aðeins notaðar fyrir persónuleg samskipti og athugasemdakerfin látin duga öðru leiti.
Ég hef líka orðið var við að orðsendingakerfið hér á blog.is er notað í auknum mæli til að vekja athygli á færslum bloggara. Satt að segja finnst mér það líka óviðeigandi. Það er allt í lagi þegar mikið liggur við, en ekki svona almennt finnst mér.
-----------------------------------------------------------------------
Ég vil aftur vekja athygli á skoðunarkönnuninni hér til hliðar þar sem spurt er um hvort jafnrétti ríki á Íslandi.
25.9.2008 | 10:45
Óskar Arnórsson læsir bloggsíðu sinni
Fyrir fáeinum dögum fékk ég sérstök skilaboð frá Óskari Arnórssyni bloggara um að mikilvægar upplýsingar um ástand mála hvað varðaði stöðu Íslam í vestrænum heimi hefðu verið birtar á síðu hans. Greinin gaf það í skin að múslímar væru ógn við þjóðaröryggi okkar. Þótt ég sé ekki hlynntur því að skilaboðakerfið á blog.is sé notað til að auglýsa bloggsíður kíkti ég á þessa "mikilvægu" grein hjá Óskari. Mér satt að segja snar brá því það var ekki annað að sjá en að hryðjuverkasíðan sem á sínum tíma var úthýst hér á blog.is fyrir slælegan áróður, væri upprisin.
Ég átti á síðunni nokkur orðaskipti við aðila sem kallaði sig Kaspar og virtist sá vera hallur undir þær skoðanir sem í grein óskars voru tíundaðar og fólu m.a. í sér að réttast væri að fangelsa eða setja í einhvers konar fangabúðir, alla múslíma á Íslandi. - Langflestir sem settu inn athugasemdir lýstu samt innihald greinarinnar og þeirra athugasemda sem studdu hana, óráð eitt.
Í morgun þegar ég ætlaði að athuga með athugasemdirnar, enda kerfið þannig stillt ð ég gæti það, bregður svo við að Óskar er búinn að læsa síðunni. Hann hefur enn ekki sent út um það neinar tilkynningar hvað þá skýringar á þessu athæfi sínu, sem hefði þó verið upplögð nýting á tilkynningakerfinu. Mér þótti það dálítið skrýtið að Óskar tók ekki þátt í umræðunni á síðu hans, nema rétt í byrjun. Kann einhver skýringar á þessu einkennilega athæfi Óskars?
Vefurinn | Breytt 27.9.2008 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (160)
21.9.2008 | 14:57
Sköpun, þróun eða hvort tveggja?
Fyrir stuttu skrifaði ég greinarstúf um hættuna sem ég tel að stafi af bókstafstrú og öfgafullum birtingarmyndum hennar í samfélaginu. Við greinina voru gerðar vel yfir 300 athugasemdir og tóku þær fljótt á sig svip þess karps sem við þekkjum svo vel af bloggsíðum sem gerðar eru út á það eitt, að því er virðist, að færa sönnur á að sköpunarsaga Biblíunnar standist vísindalega skoðun.
Ég dró mig fljótlega til hlés í þeirri umræðu og svaraði m.a. ekki a.m.k. tveimur fyrirspurnum sem beint var til mín um afstöðu mína til þróunarkenningarinnar út frá persónulegum trúarlegum skoðunum mínum.
Um sama leiti skrifaði ágætur bloggari Kristinn Theódórsson góða gein sem hann nefnir Sköpunarverk Guðs og þar í athugasemd geri ég einmitt grein fyrir því sem um var spurt í umræðunum á minni síðu.
Um leið og ég vil vekja athygli á grein Kristins endurbirti ég hér athugasemd mína við hana sem mér finnst alveg geta staðið sem grein út af fyrir sig. Ég feta þannig í fótspor Arnars Pálssonar sem einnig gerði athugasemd við grein Kristins og birti hana síðan sem sér bloggfærslu sem hann nefnir Dýr skynja dauðan.
Athugasemd mín er svar við spurningu Kristins; "Ertu þú, Svanur, sannfærður um að gögnin bendi til þess að samviskan, kærleikurinn, "sálin" og fleira séu frá einhverju vitrænu afli komin, en geti ekki verið lífræn afleiðing greindar?"
Sem betur fer hefur mannkyninu fleygt áfram í vísindalegi þekkingu og jafnvel þótt erfðafræðin sé enn ung erum við að byrja að fá svör við ýmislegu sem okkur var áður hulin ráðgáta.
Hvaða ályktanir er hægt að draga af þeirri staðreynd að maðurinn hefur eitt síðustu 50.000 árum (og kannski miklu lengur) í að koma sér upp hegðunarmunstri, lagabálkum og öðrum þáttum siðmenningar sem beinast að stórum hluta að því að stjórna og jafnvel bæla niður hvatir sem eru honum erfðafræðilega eiginlegar?
Tökum sem dæmi kynhvöt mannsins. Um daginn kom frétt um það (hún olli talverðu umtali hér á blogginu og var um margt misskilin) að karlmönnum væri eðlilegt samkvæmt erfðafræðinni að breiða gen sín út sem víðast. Þess vegna væri eðlileg svörun við þessu að konur drægjust að þeim karlmönnum (hinum ótryggu) vegna þess að afkomu-gen þeirra væru virkari. Einkvæni stangast sem sagt á við þessar lífrænu hvatir. - Hvaða vitleysis hugmyndir eru þá í gangi um einkvæni og hjónabönd? -
Þróun hugmynda manna um eignarrétt er annað dæmi. Hverskonar lífríki gerir ráð fyrir því að tegundinni sé best borgið með því að 2% af heildinni ráði yfir og eigi 95% af lífsviðurværi hennar? NB að við erum ekki maurar eða býflugur þar sem líffræðilegar forsendur forsjár af þessu tagi eru augljósar. Hvaða óyndisaukalimur þróunarinnar getur orsakað þessa hegðun?
Allt sem ég hef lesið um trúarbrögð og mankynssögu í bland við það litla sem ég þekki til vísinda leggst á eitt með að álykta að maðurinn sé tvíeðla. Hann er dýr og í honum býr dýrseðlið og hann er vitsmunavera sem gerir dýrseðli hans hræðilegt láti hann undan því og hann er vitsmunavera af því hann er meira en afurð lífrænnar þróunar. Þessi sérstaka lífræna þróun hans, þurfti að vera all-sérstæð eins og Óskar kemur inn á, (munurinn á okkur og dýrunum (við erum líka dýr) er þumallinn.. án hans hefðum við enn verið að flýja hýenur í afríku upp í tré ;) til þess að andlegir kraftar hans gætu komið í ljós. Þumallinn hjálpar okkur að ná gripi á áhöldum sem urðu til þess á undarverðum tíma að við sendum apa út í geiminn langt áður en við voguðum okkur sjálfir þangað.
Trú og trúarbrögð eru enn ein erfðafræðilega "mótsögnin". Tilraunir til að skýra fyrirbrigðið með eðlislægri hræðslu við líffræðilegan dauðann eða sem tilraun okkar til að gera áætlanir um framtíðina standast ekki.
Neanderdalsmaðurinn gerði sér altör í hellum sínum og gerði hinum dauðu grafir án þess að hafa ástæðu til að sýna neina fyrirhyggju um framtíð sína frekar en aðrar tegundir mannapa. Hann var veiðimaður og safnari. Samt átti hann greinilega sér átrúnað. Óttinn við dauðann er að mínu mati menningarlegt fyrirbæri. Líffræðilega verður líkaminn með aldrinum stöðugt óhæfari til lífs og erfðafræðilega erum við eins og dýrin hvað það varðar að ef ekki væri fyrir menningarlega þætti, mundum við skríða afsíðis án nokkurrar hræðslu og deyja. Við deyjum meira að segja á hverjum degi án þess að hræðast meðvitundarleysið.
Meðvitundin um sjálf okkur, án tillits til greindar, er annað.
Stundum er sagt að einhver api hafi greind á við sjö ára barn. Samt mundum við aldrei líta svo á að lítil börn hafi ekki sjálfsmeðvitund eða að hún sé í réttu hlutfalli við greind þess. Heili mannsins virðist afar flókið tæki. Við vitum ekki einu sinni til hvers megnið af honum er. Hann getur t.d. skipt um svæði eða tekið í notkun fyrir skemmd svæði önnur heil, fyrir starfsemi sína. Þetta bendir til að hugurinn sé ekki háður heilanum að öllu leiti.
Hugurinn sem reyndar vinnur eftir því sem við best vitum aðeins í gegnum heilann, er svo sterkur að hann fær yfirstigið lögmál líffræðinnar. Með jákvæðu hugarfari styrkist ónæmiskerfið og veikist að sama skapi við depurð og neikvæðni. Það eru sem sagt hugmyndafræðilegar ástæður frekar en líffræðilegar, fyrir ákveðinni hegðun líkamans. Frægt er dæmið um manninn sem lokaðist inn í frystigám í New York á sjöunda áratugnum og fraus í hel. Lík hans sýndi öll einkenni þess að hann hafði króknað úr kulda. Það sem vakti undrun lækna var að frystigámurinn var ekki í gangi og hitastigið inn í honum var um 11 stig.
Persónulega er ég því sannfærður um að maðurinn sé sál (andleg vera og óefnisleg orkueining.Gott dæmi er eins og sólargeisli sem er frá sólinni en ekki hluti af henni lengur) í dýrslegum líkama. Grunnhvatir hennar birtast í manninum í þörfinni til að þekkja og elska. Þessar grunnþarfir kontrasta stöðugt við dýrseðli okkar og er nauðsynlega forsenda fyrir það sem við getum kallað þroska og sá sameiginlegi þroski er það sem við köllum siðmenningu.
Hvort tilvist sálar leiði endilega af sér tilvist Guðdóms er svo annað mál en ég er einnig sannfærður um að svo sé.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (98)